5 minute read

Þeir tóku úr mér mergsýni án þess að deyfa mig

Achraf Hasser frá Marokkó lofar íslenska heilbrigðiskerfið í samanburði við heimaland hans Marokkó

Íslenska heilbrigðiskerfið er ekki fullkomið og margt sem þar má bæta. Við eigum það þó til að gleyma því í stóra samhenginu hversu gott við höfum það og hvað við erum heppin. Hvað það eru mikil forréttindi að fæðast á Íslandi. Achraf Hassar, 27 ára karlmaður frá Marokkó, minnir okkur á það í þessu viðtali.

Advertisement

Achraf kom til Íslands í apríl 2015 til að læra landafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur verið veikur allt sitt líf en áður en hann kom til Íslands hafði hann aldrei fyrr fengið greiningu á sínum veikindum. Achraf er með myelodysplastic syndrom (MDS) eða mergmisþroskun á íslensku. Achraf segir að læknirinn hans hafi sagt honum að eftir 2-3 ár gæti þessi mergmisþroskun þróast út í krabbamein. Læknirinn vill meina að Achraf hafi fæðst með þennan sjúkdóm. Honum var sagt að hann hafi mjög líklega fengið þetta frá foreldrum sínum en hvorugt þeirra hefur þó verið veikt né heldur systkini hans. Einkennin lýsa sér þannig að hann er alltaf lasinn, þreyttur og dapur.

„Árið 2016 var ég í dái í tvær vikur. Það var þá sem þeir komust að því hvað væri að hrjá mig. Ég fékk hita, um 42 gráður, og sýkingu í lungu. Ég var mjög þreyttur og veikur og eftir það man ég ekki neitt. Þegar ég vaknaði aftur sögðu vinir mínir mér að ég hefði verið í dái í tvær vikur. Eftir það var ég í mánuð á spítala.“

Þegar Achraf er spurður út í heilbrigðiskerfið í Marokkó segir hann það mjög slæmt. „Til dæmis voru það læknar hér á Íslandi sem fundu út hvað væri að mér. En í Marokkó eyddi móðir mín helling af peningum, ég veit ekki hversu

mikið en læknarnir þar þóttust ekkert finna að mér og lugu hvað eftir annað. Þeir sögðu móður minni að gefa mér bara að borða og þá yrði ég góður. Að kannski væri þetta eitthvað vandamál með magann í mér. Enginn sagði sannleikann. Móðir mín var alltaf að fara með mig á spítala, alveg á annað hundrað skipti.“ Hann rifjar upp með hryllingi atvik sem situr ennþá mjög sterkt í honum. „Þeir tóku eitt sinn mergsýni úr mér án þess að gefa mér deyfingu. Ég var átta ára og mun aldrei gleyma þessu. Sársaukinn var óbærilegur. Ég finn ennþá sársaukann bara við það eitt að hugsa um þetta. Þau voru sex sem héldu mér niðri á meðan aðgerðin fór fram. Eftir á hringdu þau í móður mína og sögðu að þau þyrftu að gera þetta aftur því þau hefðu aðeins náð blóði en engum merg. Ég sagði móður minni að ég vildi heldur deyja en að fara aftur í þessa aðgerð.“

Achraf er mun ánægðari með heilbrigðisþjónustuna hér á Íslandi. „Hér hugsa þau vel um mig. Hér fer ég reglulega í læknisskoðun og þau nota deyfingu í aðgerðum. Í Marokkó gat maður þurft að bíða meira en sex mánuði og allt upp í ár, bara til þess eins að fá að hitta lækni. Hér hef ég ekki lent í neinum samskiptaörðugleikum, ég fæ alltaf túlk fyrir aðgerðir og það er gengið úr skugga um að ég skilji alveg hvað er í gangi.“

Dreymir um að búa úti á landi

Achraf hætti í skólanum þegar hann veiktist og hefur ekki getað sótt skóla síðan. Hann er mjög einmana þar sem hann getur ekki umgengist mikið af fólki vegna þess að hann er með bælt ónæmiskerfi. Hann bíður eftir því að klára meðferð svo hann geti farið aftur að vinna og jafnvel klárað námið þegar hann er tilbúinn. Hann vill alls ekki flytja aftur heim til Marokkó því hann hræðist þá tilhugsun að veikjast aftur og þurfa að leita sér lækninga því hann veit að þar vinnur heilbrigðisstarfsfólk ekki vinnuna sína almennilega. „Ef þú veikist í Marokkó, þá deyrðu,“ segir hann alvarlegur í bragði.

Jafnframt segir hann að hann vilji ólmur læra íslensku og var byrjaður að stunda íslenskunám í Tækniskólanum áður en hann veiktist. Hann dreymir um að breyta um umhverfi og flytja út á land. Einhvers staðar nálægt náttúrunni, þar sem lífið er rólegt. En eins og staðan er núna þarf hann að vera í Reykjavík þar sem hann þarf að vera nálægt spítala.

Achraf saknar þó fjölskyldu sinnar mikið enda hefur hann ekki séð flest þeirra síðan hann kom til Íslands og langar hann mikið að fara heim til Marokkó að hitta hana. Systir hans kom þó í heimsókn til hans í Svíþjóð þegar hann fór í beinmergsskipti. „Það er búið að vera mjög erfitt fyrir mig að ganga í gegnum þessi veikindi, einn og án fjölskyldu minnar. Eins og t.d. þegar ég var í dái hér á Íslandi þá vissi fjölskylda mín ekki neitt. Vinur minn sendi systur minni skilaboð og sagði henni frá því. Ég hafði áður verið sendur í rannsóknir til Frakklands árið 2013 og spurði vinur minn hana út í það. Systir mín hringdi í sjúkrahúsið í Frakklandi og bað þau um að senda henni þessar upplýsingar, sem og þau gerðu. Hún þýddi þær svo yfir á ensku og áframsendi þær svo til Íslands. Svo að þau hefðu sjúkrasöguna mína.“

Sjúkrahúsið í Marokkó sendi hann á spítala í Frakklandi á sínum tíma þar sem faðir hans var að vinna fyrir marokkóska herinn. Fjölskyldur hermanna fá sérstaka meðferð og eru sendar á spítala í Frakklandi, ef þess gerist þörf. En ekkert kom út úr því, því læknarnir í Frakklandi vissu heldur ekki hvað var að honum. Héldu menn að það væri eitthvað vandamál með blóð hans eða maga.

Hann kann vel að meta félagsskapinn og stuðninginn sem hann fær frá Krafti. „Kraftur hefur reynst mér vel. Þar hitti ég fólk í svipaðri stöðu og með svipaða reynslu. Ég vildi óska þess að slík samtök væru til í Marokkó.“

Við skulum láta sögu Achraf minna okkur á að vera þakklát fyrir þau forréttindi sem við njótum hér á Íslandi, á sama tíma og við bætum það sem betur má fara.

Hægt er að lesa greinina hans Achraf á ensku hér: https://kraftur.org/took-away-myopathy-without-numbing/

You can read the article about Achraf Hasser here: https://kraftur.org/took-away-myopathy-without-numbing/