11 minute read

Snjódrífurnar þveruðu Vatnajökul

Snjódrífurnar er hópur kvenna sem allar tengjast Sirrý Ágústsdóttur félagskonu í Krafti en hún greindist með leghálskrabbamein árið 2010 og aftur 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabbameinið væri krónískt og töldu læknar að hún ætti þá eitt til þrjú ár eftir ólifað. Nú eru fimm ár síðan og Sirrý fékk vinkonurnar í Snjódrífunum til að fagna lífi nu með sér og þessum tímamótum með því að ganga þvert yfir Vatnajökul á gönguskíðum. Í leiðinni söfnuðu þær áheitum undir nafninu Lífskraftur fyrir Kraft og Líf. Útivistarkonan og fatahönnuðurinn Aðalheiður Birgisdóttir er ein af Snjódrífunum sem þveruðu Vatnajökul núna í júní. Heiða, eins og hún er alltaf kölluð, segir okkur frá sinni upplifun.

„Þegar Vilborg Arna Gissurardóttir spurði hvort ég vildi koma með í þessa ferð sló ég bara til. Ég er svolítið hvatvís og sagði bara já án þess að ég hafði hugmynd um hvað ég væri að fara út í og svo þegar þetta fór að verða raunverulegra þurfti ég að spyrja hvað ég væri í raun að fara út í,“ segir Heiða og hlær. Heiða hafði næstum enga reynslu af gönguskíðum. Hún fékk gönguskíði til að æfa sig en segir sjálf að hún hafi ekkert verið allt of dugleg að æfa sig fyrir ferðina en reynslan af svokölluðu splittbretti hafi komið að góðum notum. „Ég hef verið meira í „action sport“ heiminum og hef ekki verið svona mikið í fjallamennsku eða jöklaferðum. Ég hafði alveg farið upp á jökla og rennt mér á splittbretti sem er svona eins og fjallaskíði snjóbrettafólks. En að fara í svona leiðangur dragandi allan búnað og vistir á eftir mér á púlku og vera í tjaldi upp á jökli í svona langan tíma var algjörlega nýtt fyrir mér,“ segir Heiða. Heiða er mikil útivistarkona og er búin að vera á skíðum frá því hún var krakki og fór svo yfir á snjóbretti. Hún hafði farið á námskeið í Tindfjöllum í tengslum við splittbrettið og varðandi það að vera í tjaldi að vetri til og lærði þar að búa til tjaldbúðir í brekku svo hún var ekki alveg blaut á bak við eyrun þegar hún mætti til leiks með Snjódrífunum upp á jökul. Þær höfðu líka farið í tvær æfingarferðir um veturinn til að undirbúa sig sem kom svo sannarlega að góðum notum uppi á Vatnajökli.

Advertisement
Snjódrífurnar í Hrauneyjum áður en lagt var í hann upp á jökulinn

Snjódrífurnar í Hrauneyjum áður en lagt var í hann upp á jökulinn

Snjódrífurnar í Hrauneyjum áður en lagt var í hann upp á jökulinn

Snjódrífurnar í Hrauneyjum áður en lagt var í hann upp á jökulinn

Töfðust strax á öðrum degi

Snjódrífurnar lögðu af stað upp á jökulinn 8. júní og hófst ferðin nokkuð vel hjá þeim. En strax á öðrum degi lentu þær í mikilli rigningu og urðu að bíða af sér veðrið uppi á jöklinum. „Planið okkar fór aðeins í rugl þarna þar sem við lentum í rigningu og roki og allt dótið okkar varð rennandi blautt. Þetta var pínu erfitt þar sem við vorum nýlagðar af stað og við vissum ekkert hvenær við gætum haldið áfram, hvort það væri eftir tvo tíma eða eftir sólarhring. En við Anna Sigga, tjaldfélagi minn, nýttum daginn vel, gerðum jóga og svo heimsóttum við annað tjald þar sem Anna Sigga leiddi okkur í gegnum fótajóga. Anna Sigga átti afmæli þennan dag og við héldum upp á það með því að fá okkur Stroh í kaffið okkar,“ segir Heiða hlæjandi. Veðrinu slotaði svo og Snjódrífurnar héldu aftur af stað klukkan 21 um kvöldið og gengu til þrjú um nóttina. En þá tjölduðu þær aftur til að ná hvíld en allt dótið þeirra var rennblautt eftir rigninguna. „Morguninn eftir þetta vöknuðum við í glampandi sól og það var alveg dásamlegt því þá gátum við þurrkað langmest af dótinu okkar. Við vissum að næstu nótt myndum við að öllum líkindum gista í skála sem var æðisleg tilhugsun og gaf okkur kraft.“

Enginn dagur eins en mikil rútína

Að sögn Heiðu leiddist Snjódrífunum aldrei þó þær þyrftu að húka í tjöldunum og bíða af sér veður og þá oftast bara tvær og tvær saman. Þær voru meira að segja með spil með sér en drógu þau aldrei upp þar sem það var alltaf nóg að gera og þurfti að hafa ýmislegt fyrir stafni. „Dagarnir á jöklinum voru mjög misjafnir. Stundum þurftum við að vakna um klukkan fimm og leggja af stað um átta en það var alltaf ákveðin rútína sem maður þurfti að fara í gegnum. Svona ferð með ellefu konum þarf að vera rosalega skipulögð og ef einhver ein er ekki með hlutina á hreinu þá getur það skemmt fyrir öllum. Maður var alltaf eitthvað að brasa, sækja og bræða snjó, skipuleggja nestið og morgunmatinn, þurrka föt, skipuleggja hvað maður ætlaði að hafa efst á púlkunni þennan daginn o.s.frv. Það þýðir ekkert að stoppa á miðjum jökli og fara að rífa allt af púlkunni til að leita að einhverjum fötum sem maður þarf á að halda. Þetta þarf allt að vera skipulagt fyrirfram svo að leiðangurinn gangi smurt fyrir sig,“ segir Heiða. Snjódrífurnar þurftu því að vera mjög skipulagðar allan tímann. Það voru regluleg stopp yfir daginn en það þýddi ekkert að stoppa í hvert skipti sem einhver þurfti að klæða sig betur, eða sækja sér vatn eða eitthvað slíkt. „Týpísk rútína var að maður vaknaði, fór á klósettið með skóflu, opnaði pokann með snjónum sem maður hafði útbúið kvöldið áður. Bræddi snjóinn fyrir vatn fyrir daginn og fyrir morgunmatinn, sem var hafragrautsmix. Svo nýtti maður tímann á meðan snjórinn var að bráðna til að gera nestið sitt klárt. Hugaði að fótum og hælsærum. Skipti um umbúðir á fótunum og fór svo að setja allt dótið á púlkuna, taka niður tjöldin og ganga frá tjaldbúðunum og halda svo af stað. Þetta gat tekið 2-3 tíma á hverjum morgni,“ segir Heiða enn fremur.

Heiða upp á jökli

Heiða upp á jökli

Ekki síður andlega erfitt

Heiða segir ferðina hafa verið líkamlega erfiða oft á tíðum en ekki síður andlega. Þrátt fyrir að margar hafi verið komnar með hælsæri og hnémeiðsli þá var engin í hópnum að kvarta heldur var jákvæðnin í hópnum alveg einstök. „Soffía lenti t.d. í svakalegu hælsæri og var komin með sýkingu sem hún þurfti að takast á við stóran hluta ferðarinnar. Læknarnir sem hún hitti eftir að við komum til byggða skyldu ekkert í því hvernig hún komst yfir jökulinn svona en hún var með slitin krossbönd að auki. Ég fékk mikil hælsæri en Brynhildur kenndi mér að búta niður frauðplastdýnu og setja bútinn á milli sokka og skós svo að skinnið myndi ekki nuddast svona mikið. Það hjálpaði gríðarlega mikið. Maður var náttúrulega alltaf í blautum skóm og það hjálpaði ekki til.“

Þrátt fyrir að Snjódrífurnar hafi verið ellefu saman í ferðinni þá var mikill tími sem þær eyddu í einrúmi þar sem þær þurftu að labba í einfaldri röð með smá bil á milli sín fyrir púlkuna. „Stundum löbbuðum við tvær og tvær saman hlið við hlið en langoftast var maður einn. Það er svolítið spés að þarna voru ellefu konur saman en langoftast bara tvær saman eins og í tjaldbúðunum því það er ekki mikill tími til að tjilla saman úti. Maður var mikið einn með sjálfum sér og hlustaði ég á tónlist á göngunni meðan aðrar hlustuðu t.d. á hlaðvörp. Þetta er ábyggilega besta núvitundaræfing sem maður getur farið í gegnum. Þetta er í raun frekar einhæft. Þú ert bara að labba og það er alls konar veður. Þá er einmitt mjög gott að brjóta upp daginn með tónlist og syngja jafnvel hástöfum með eins og ég gerði en það heyrði jafnvel enginn í mér þar sem það voru alveg þrír metrar stundum á milli okkar,“ segir Heiða skellihlæjandi. Heiða og Anna Sigga voru stundum líka með tónlist í tjaldinu sínu en Anna Sigga er mikill partýpinni og stundum vöktu þær stelpurnar á morgnana með því að hækka í botn og taka dansspor í kringum tjaldbúðirnar til að vekja allar.

Brot úr dagbók Heiðu

Brot úr dagbók Heiðu

Brot úr dagbók Heiðu

Brot úr dagbók Heiðu

Kynntust í kringum krabbameinsmeðferð

Tjaldfélagarnir Anna Sigga og Heiða kynntumst eftir að þær greindust með brjóstakrabbamein en það var í kringum árið 2013. Þegar Heiða var fertug hafði hún farið í brjóstamyndatöku og þá fundust kalkmyndanir í brjóstinu á henni og var hún undir eftirliti í þrjú ár eftir það. „Bara nokkrum mánuðum eftir að ég var hætt í eftirlitinu þá fann ég að það var eitthvað skrýtið í brjóstinu. Fyrst hélt ég að þetta væri ímyndun en ég var alveg friðlaus og ákvað að biðja um tékk aftur. Þá komu í ljós frumubreytingar í brjóstinu og það var sett í mínar hendur hvað ég vildi gera þ.e. hvort ég vildi bíða og sjá hvort þetta myndi breytast meira eða fara í brjóstnám. Ég ákvað að fara í brjóstnám í lok ársins. Ég þurfti ekki að fara í lyfjameðferð eða geisla en var í fimm ár í fyrirbyggjandi lyfjameðferð.

Ég fór í uppbyggingu í sömu aðgerð en þetta var mjög stór aðgerð því það var tekinn vöðvi úr bakinu á mér og það er heilmikið inngrip í líkamann. En ég kaus það frekar en að fá púða í ljósi alls sportsins sem ég stunda. Ég þorði ekki að taka áhættuna með púða þar sem maður dettur t.d. oft á snjóbretti og þá fannst mér óþægileg tilhugsun að vera með aðskotahlut inn í mér,“ segir Heiða. Anna Sigga greinist á svipuðum tíma með brjóstakrabbamein og hafði Heiða séð hana á spítalanum og fannst hún vera algjör töfffari. Þær rákust þá stundum á hvor aðra og voru saman í „Kastað til baka“ hópi sem er stangveiðihópur á vegum Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Þær komust að því að þær áttu margt sameiginlegt og fóru að takast á við ýmis ævintýri saman eins og að þvera Vatnajökul í krafti kvenna. „Við vorum alveg frábærir tjaldfélagar, unnum mjög vel saman og vorum alveg á sömu línu en það átti reyndar líka við um allan hópinn, eins ólíkar og við erum allar.“

Anna Sigga tjaldfélagi Heiðu

Anna Sigga tjaldfélagi Heiðu

Lemstraðar og lystarlausar

Í svona leiðangri skiptir mjög miklu máli að hugsa vel um sjálfan sig. „Maður þurfti að passa rosalega vel upp á sig og hugsa um líkamann, húðina, fæturna, næringuna o.s.frv. Sumar lentu í að brenna á vörunum eða vera með vökvaskort og þá þrútnar maður allur og það er sko ekkert djók að lenda í því. Ég var með aðeins bólgna neðri vör en þegar ég skoða myndir núna frá leiðangrinum þá sé ég hvað við vorum allar orðnar afmyndaðar af sólbruna. Við vorum ekki einu sinni að fatta það almennilega á þeim tíma,“ segir Heiða skellihlæjandi. Hún segist líka hafa misst alveg matarlistina á tímabili og hún og Anna Sigga þurftu að hvetja hverja aðra til að borða meira. „Ég var komin með algjört ógeð af þurrmatnum þó hann sé ekkert svo slæmur. Mig langaði helst bara í eitthvað nammi síðustu dagana. Ég var alveg með hnetumix og Snickers en hefði viljað vera með meira djúsí nammi með mér. Ég tók t.d. bara einn hlauppoka með mér en næst ef ég fer í svona tek ég klárlega með mér a.m.k. tvo poka af hlaupi.“ Snjódrífurnar voru svo heppnar að síðasta kvöldið sem þær gistu upp á jöklinum þ.e. í Grímsvötnum þá var Sirrý, svo úrræðagóð að hún lét allar Snjódrífurnar setja á borðið síðustu ostana, kjötbitana og lúxusveigarnar sem þær áttu og bjó til dýrindis hlaðborð fyrir þær. „Sirrý henti fram þvílíkum platta með alls konar ljúffengum veigum. Þetta var algjör snilld því engan langaði lengur í þurrmatinn. Við hittum líka gönguhóp þegar við vorum að koma niður af jöklinum og þau gáfu okkur epli sem við

deildum á milli okkar. Ég var farin að dreyma um ferska ávexti, bláber og fleira en aðeins líka farin að dreyma um bjór og kók sem ég drekk eiginlega aldrei og enginn úr þessum hópi,“ bætir Heiða við. Þegar niður af jöklinum kom beið Snjódrífanna tveir jeppar til að sækja þær og í þeim var einmitt kók, bláber og Nóa konfekt sem þær hámuðu í sig á leiðinni til Egilsstaða.

Varla komin niður á jörðina

Þegar Snjódrífurnar komu til byggða gistu þær á hóteli á Egilsstöðum og segir Heiða alla þar hafa verið yndislega. Þeim var boðið í mat og flestar fengu sér ljúffenga hreindýraborgara og austfirskan bjór. „Daginn sem við komum til Reykjavíkur var svo haldið partý fyrir okkur sem var langt frameftir nóttu. Ég vaknaði svo næsta dag og ætlaði bara að hjóla frá Kópavogi út á Seltjarnarnes til að ná í bílinn minn. En guði sé lof þá var eitthvað að gírunum á hjólinu svo ég hætti við. Ég var ekki að fatta hversu líkamlega og andlega þreytt ég var en það helltist svo yfir mig. Ég var alveg búin á því og orkulítil í alveg nokkra daga eftir á.“ Heiða segir að hún hafi hreinlega verið svo hátt uppi eftir ferðina að hún hafi þarna varla verið komin niður á jörðina. En hún sé einstaklega ánægð hversu mikið hún kom sjálfri sér skemmtilega á óvart í þessum langa og stranga leiðangri. Leiðangurinn kenndi henni hvað það skiptir miklu máli að vera með hausinn skrúfaðan rétt á. Hún segist vera alveg til í að gera svona aftur og hefði í raun verið tilbúin að gera það strax samdægurs. „Ég var eiginlega bara til í að snúa við strax eftir jökulinn og fara aftur til baka en ég var kannski í svolítið mikilli sigurvímu þá. Ég er líka svo ánægð að við náðum að safna um sex milljónum fyrir Kraft og Líf á sama tíma og við fögnuðum lífinu með Sirrý. Þessi ferð kenndi mér virkilega að lífið er núna og maður á að njóta þess að vera til og taka þeim áskorunum sem lífið býður upp á,“ segir Heiða að lokum.

Auk Heiðu voru í leiðangrinum, Sirrý Ágústdóttir, Vilborg Arna Gissurardóttir, Brynhildur Ólafsdóttir, Anna Sigríður Arnardóttir, Birna Bragadóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Soffía S. Sigurgeirsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir.