8 minute read

Af hverju er svona mikilvægt að tryggja sig?

Þegar maður er ungur er fjarstæðukennt að greinast með lífsógnandi sjúkdóm. Því leiðir fólk oft ekki hugann að líf- og sjúkdómatryggingum fyrr en það er um seinan. Það er erfitt að tryggja sig eftir á en það getur skipt miklu máli fjárhagslega ef fólk er líf- og sjúkdómatryggt þegar veikindi koma upp. Félagsmenn okkar hafa mismunandi sögu að segja af líf-og sjúkdómatryggingum, sumir hafa góða reynslu meðan aðrir geta ekki tryggt sig eftir á.

Að jafnaði er aðeins greitt einu sinni vegna sjúkdóms í hverjum flokki þrátt fyrir að sá sem tryggður er kynni að greinast með tvo sjúkdóma í sama flokki. Allir sem greinast með sjúkdóm og fá tryggingafé greitt úr sjúkdómatryggingu sem er með endurvakningarákvæði geta óskað eftir því að endurvekja trygginguna innan þriggja mánaða frá greiðslu, þá með þeim skilyrðum að sá tryggingarflokkur sem bætur voru greiddar út úr sé undanskilinn.

Advertisement

Líf- og sjúkdómatryggingar

Líftrygging er mikilvæg til að tryggja hag þeirra sem treysta á þig. Aðstandendur fá greiddar bætur ef þú fellur frá á tryggingartímanum. Engu máli skiptir hvort orsökin er slys eða sjúkdómur. Líftryggingabætur eru skattfrjálsar og verðtryggðar og eru greiddar út í einu lagi. Allir á aldrinum 18-69 ára geta sótt um líftryggingu og gildir hún til 70 ára aldurs. Börn frá fæðingu til 18 ára aldurs eru sjálfkrafa líftryggð með tryggingu foreldris.

Sjúkdómatrygging tryggir þér bætur ef þú greinist með einhvern þeirra sjúkdóma sem tryggingin nær til. Tryggingartaki ákveður tryggingafjárhæðina og komi til veikinda er hún greidd út í einu lagi. Bætur sjúkdómatrygginga eru skattfrjálsar og verðtryggðar. Að jafnaði geta allir á aldrinum 18- 59 ára sótt um sjúkdómatryggingu og gildir hún til 70 ára aldurs. Sum tryggingafélög skipta sjúkdómum og slysum upp í fjóra flokka eftir eðli þeirra og tegund.

Flokkur 1: Krabbamein

Flokkur 2: Hjarta- og æðasjúkdómar

Flokkur 3: Tauga- og hrörnunarsjúkdómar

Flokkur 4: Aðrir alvarlegir sjúkdómar og slys

Börn á aldrinum 3ja mánaða til 18 ára eru sjálfkrafa tryggð með tryggingu foreldris. Bótafjárhæð vegna hvers barns er 50% af tryggingarfjárhæð foreldris. Þó er hámarksfjárhæð á bótum fyrir hvert barn.

Athugið að það er mjög mismunandi eftir tryggingafélögum hvernig þessu er háttað og hér að ofan er t.d. bara verið að vísa í hvernig málunum er háttað hjá einu tryggingafélagi.

Möguleiki einstaklinga að fá líf- og sjúkdómatryggingu eftir að hafa greinst með krabbamein

Allir geta sótt um líf- og sjúkdómatryggingu þó svo að þeir hafi fengið krabbamein.* Í slíkum tilfellum er miðað við að a.m.k. fimm ár séu liðin frá lokum krabbameinsmeðferðar. Hver og ein umsókn er þá metin sérstaklega en það sem er skoðað er m.a. tegund krabbameins, hver meðferð var og bati. Ef umsókn er samþykkt þá er það oftast með þeim fyrirvara að krabbamein sé undanskilið í sjúkdómatryggingunni en í líftryggingum getur iðgjald tryggingarinnar hækkað.

* Þetta á við um íslensk tryggingafélög en öllum Íslendingum stendur líka til boða að tryggja sig hjá evrópskum tryggingafélögum í gegnum tryggingarmiðlanir eins og Tryggja o.fl.

Félagsmenn Kraftsdeila sinni reynslu

Fannar Örn Ómarsson giftur, fjögurra barna faðir

Fannar Örn Ómarsson giftur, fjögurra barna faðir

Fannar Örn Ómarsson giftur, fjögurra barna faðir

Ég greindist fyrir fjórum árum þá 30 ára með krabbamein í eista sem var búið að dreifa sér víða eins og í eitla, lungu og kviðarhol. En það algjörlega bjargaði mér að tala við annan sem ég þekkti um krabbameinið og að vera með líf- og sjúkdómatryggingu frá VÍS. Þá gat ég einbeitt mér að batanum og þurfti ekki að hafa áhyggjur af fjármálunum líka. Það gekk vel að fá út úr sjúkdómatryggingunni og ég vissi að ég væri svo ekki lengur tryggður fyrir krabbameini eftir að ég nýtti hana. En hins vegar fékk ég svo að vita að ég var alveg tekinn út úr sjúkdómatryggingunni þar sem þau breyttu einhverju hjá sér án þess að láta mig vita.* Ég er náttúrulega mjög fúll yfir því og mun ábyggilega skoða að færa mig en ég þarf að vera búinn að vera fimm ár krabbameinslaus til að geta tryggt mig annars staðar. Ég hefði aldrei viljað ganga í gegnum þetta án trygginga. Það hefði ekki verið á það bætandi að vera með áhyggjur af fjármálum og enda t.d. húsnæðislaus. Það er bláköld staðreynd að það er drulludýrt að vera veikur. Það kostar alltaf smá að tryggja sig. En þetta er peningur sem virkilega skiptir máli að fá til baka úr tryggingunum ef þú veikist og breytir hreinlega öllu fyrir þig. Þú getur einbeitt þér að sjálfum þér og þarft ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru – bara að koma þér í gegnum þetta.

* Samkvæmt nýjum upplýsingum hjá VÍS er búið að breyta þessu fyrirkomulagi. Sjúkdómatryggingar sem voru gefnar út fyrir 2015 voru öðruvísi og voru þá sjúkdómum ekki skipt í flokka eins og nú og þar með féll tryggingin niður eftir að VÍS greiddi út bætur.

Hjördís Þráinsdóttir 39 ára, gift með þrjá stráka

Hjördís Þráinsdóttir 39 ára, gift með þrjá stráka

Hjördís Þráinsdóttir 39 ára, gift með þrjá stráka

Það er sterk fjölskyldusaga hjá mér um brjóstakrabbamein og ég hafði verið tryggð hjá Sunlife tryggingafélaginu frá 18 ára aldri en þar var brjóstakrabbamein undanskilið. Við færðum okkur svo yfir í TM en þar er brjóstakrabbamein líka undanskilið vegna fjölskyldusögunnar. Í nóvember 2018 hringdi svo tryggingaráðgjafi frá Novis í okkur en það er slóvenskt tryggingafélag með útibú hér á landi og við fluttum trygginguna þangað. Ég greindist svo í janúar 2020 og fékk allt út úr tryggingunni því ég greinist fyrir 65 ára aldur. Ég verð áfram tryggð hjá þeim fyrir öllu nema brjóstakrabbameini því ég er búin að taka þá tryggingu út. Það gekk hratt og örugglega að fá út úr tryggingunum. Nú á ég eftir að fara í fyrirbyggjandi aðgerð en ég ætla að láta taka eggjastokka og eggjaleiðara og mun vera tryggð fyrir því líka. Þegar ég ræddi tryggingar síðar við krabbameinslækninn minn sagði hann að t.d. í Þýskalandi væri bannað að mismuna fólki í tryggingum vegna fjölskyldusögu. „Það skiptir öllu máli að vera tryggður. Þú veist aldrei hvað getur komið upp á, slys jafnt sem veikindi. Það eru alls ekki allir sem eru með fjárhagslega sterkt bakland. Við erum t.d. að fara ganga frá tryggingunum fyrir 19 ára gamla strákinn okkar því nú fellur hann ekki lengur undir fjölskyldutrygginguna og við viljum að hann sé tryggður.

Hrefna Eyþórsdóttir 36 ára, gift tveggja barna móðir

Hrefna Eyþórsdóttir 36 ára, gift tveggja barna móðir

Hrefna Eyþórsdóttir 36 ára, gift tveggja barna móðir

Ég er með BRCA-genið og greindist 2017 þá 33 ára með brjóstakrabbamein sem var komið út í eitla. Ég var með líf- og sjúkdómatryggingu í gegnum Swiss life sem Landsbankinn var með. Þegar ég var tvítug flutti ég til Reykjavíkur og keypti íbúð. Okkur var ráðlagt af bankanum að kaupa líka líf- og sjúkdómatryggingu hjá þeim sem við gerðum. Ég var svo ung að ég var ekki einu sinni að skoða hvað væri á bak við trygginguna. Þegar ég veikist svo og fór að sækja um trygginguna þá fékk ég skilmálana senda sem ég var náttúrulega löngu búin að týna. Þá kemur í ljós að ef krabbameinið hefði ekki verið búið að dreifa sér þá hefði ég ekki fengið sjúkdómatrygginguna greidda. Þar sem allt fór vel hjá mér þá er ég því í raun heppin eftir á að krabbameinið var búið að dreifa sér því annars hefði ég ekki fengið neitt út úr sjúkdómatryggingunni. Nú er ég hins vegar ekki lengur tryggð fyrir neinum sjúkdómum eftir að hafa leyst hana út þegar ég fékk krabbameinið.“ „Það er alveg gríðarlega mikilvægt að tryggja sig því þótt þú veikist þá fara lán og aðrir reikningar ekkert í biðstöðu. Ég var t.d. nýbyrjuð að vinna eftir fæðingarorlof og var sjálfstætt starfandi og launþegi í lítilli starfsprósentu á móti með lítinn veikindarétt. Ég veit ekki hvernig þetta hefði endað fjárhagslega ef ég hefði ekki verið með sjúkdómatryggingu.

Guðrún Tinna Ingibergsdóttir 37 ára, einstæð með 18 ára son

Guðrún Tinna Ingibergsdóttir 37 ára, einstæð með 18 ára son

Guðrún Tinna Ingibergsdóttir 37 ára, einstæð með 18 ára son

Ég greindist með hvítblæði fyrir tveimur árum og var ekki tryggð. Málið er að ég fæddist með sjaldgæfan sjúkdóm, sem gerir það að verkum að hvítu blóðkornin mín eru gölluð og því hef ég aldrei getað líf- eða sjúkdómatryggt mig. Út af þessum sjúkdómi er ég öryrki en hef þó getað klárað háskólanám og unnið hlutastarf. Þegar ég greindist með hvítblæði var ég nýlega hætt að vinna vegna veikinda. Nokkrum mánuðum eftir greininguna lendi ég á spítala og þurfti að fara í margar stórar aðgerðir sem ég er enn að jafna mig á. Í dag er ég á örorkubótum og fjárhagslega staða mín er ekki góð. Nú er strákurinn minn orðinn 18 ára og því fæ ég ekki lengur barnabætur þó hann búi hjá mér. Ég bý í félagslegu húsnæði og á ekki bíl. Meginpartur af örorkubótunum fer í leiguna og mat fyrir okkur en ég veit ekki hvernig ég færi að ef ég fengi ekki stuðning frá foreldrum mínum. Það er náttúrlega ömurlegt að þrátt fyrir að maður sé kominn á þennan aldur að maður geti ekki verið sjálfstæður fjárhagslega og það gerir ekki mikið fyrir sjálfstraustið. Ég sé ekki fyrir endann á þessu hjá mér. Ég myndi tvímælalaust líf- og sjúkdómatryggja mig ef ég gæti það.

Súsanna Sif Svavarsdóttir 29 ára, í sambúð

Súsanna Sif Svavarsdóttir 29 ára, í sambúð

Súsanna Sif Svavarsdóttir 29 ára, í sambúð

Ég greindist árið 2017, þá 25 ára með lymphoma krabbamein (eitilfrumuæxli). Ég var því miður ekki tryggð því ég er óvirkur fíkill og alkóhólistar fá ekki líf- og sjúkdómatryggingu fyrr en þeir hafa verið edrú í fimm ár. Ég var búin að vera edrú í 5 ár og 6 vikur þegar ég greindist með krabbamein. Ég var búin að skrifa það í dagbókina að hafa samband við tryggingafélög en ég var því miður of sein. Ef ég hefði sótt strax um þá hefði fjárhagsstaðan mín orðið allt önnur og sömuleiðis andleg heilsa. Ég hefði nefnilega nýtt peninginn mikið í sálfræðimeðferð. Ég lifði í raun á loftinu fyrsta árið þar sem ég þurfti að bíða svo lengi eftir að fá örorkutryggingu. Ég var nýkomin á vinnumarkaðinn og hafði engin réttindi en gat ekki unnið því ég var svo veik. Maður má líka bara nýta 36 mánuði í endurhæfingu á lífsleiðinni og ég hafði þegar nýtt mér það svo þetta var allt í klúðri. Um leið og sambýlismaður minn flutti inn þá tryggðum við hann því við myndum aldrei þola fleiri svona bakslög. Ég er með risastóran tryggingarpakka hjá VÍS en svo líka með viðbótartryggingu hjá banka/tryggingarfyrirtækinu NOVIS sem er eins og söfnunarreikningur sem hjálpar mér ef ég lendi t.d. í slysi og við stefnum á að hækka þá tryggingu.