6 minute read

Þetta er bara lífsins leikur og ég þarf að vinna hann

Kári Kristján Kristjánsson er sannkallaður Eyjapeyi, landsliðsmaður í handbolta, og tröll af manni enda kallar hann sjálfan sig lukkutröllið. Hann er giftur, tveggja barna faðir. Þegar hann var 28 ára greindist hann með góðkynja æxli í bakinu þegar konan hans var alveg við það að eiga þeirra annað barn. Þá var hann búsettur í Þýskalandi og var að spila með Wetzlar. Nokkrum árum síðar greindist hann aftur en þá var hann genginn til liðs við danska liðið Bjerringbro-Silkborg.

Við fengum að skyggnast aðeins inn í líf Kára Kristjáns, heyra um hans reynslu, áhrif veikindanna á líf hans og hvernig hann hefur tekist á við þau.

Advertisement

Kári Kristján er borinn og barnfæddur Eyjamaður og er yngstur fimm systkina. Hann er fluttur aftur heim til Vestmannaeyja eftir að hafa spilað handbolta í Sviss, Þýskalandi og Danmörku. „Ég er bara algjör peyi. Ég var alltaf með sigg á höndunum, úti að spranga og það var alltaf fjör. Ég byrjaði 11 eða 12 ára í handboltanum, hef alltaf verið íþróttasjúkur og fann mig í handboltanum. Ég byrjaði 14 ára að vinna í saltfiski, prófaði að fara á sjó sumarið eftir að ég kláraði 10. bekk og árið eftir það, vann í sundlauginni og tjargadi líka Stafkirkjuna hérna í Eyjum. Þessar hendur hafa sko unnið,“ segir Kári Kristján og lítur stoltur í lófana sína. Þegar Kári Kristján var 19 ára flutti hann upp á land og fór að spila með Haukum og hélt svo af landi brott. Það var svo þegar hann var að spila í Þýskalandi að hann byrjaði að finna fyrir einhverju einkennilegu í bakinu á sér.

Konan á leið í keisara og ég í aðgerð út af æxli

„Ég byrjaði að finna fyrir einhverjum nabba sem var eins og lítil glerkúla í bakinu. Ég var í sjúkraþjálfun og það var vont þegar verið var að ýta á þetta en liðslæknirinn í Þýskalandi á þessum tíma var bara slakur og sagði að þetta væri ekki neitt. Hann var ekki beint að ýta á mig að láta tékka á þessu því þá hefði ég kannski verið frá í mánuð eða eitthvað álíka en þá hefði þetta væntanlega verið búið. Svo endaði þetta bara á einhvern fáránlegan hátt að þetta var orðið á stærð við appelsínu inn í bakinu á mér svo að ég var sendur á virt sjúkrahús í Þýskalandi í öðru bæjarfélagi. Þegar ég kem inn og læt athuga þetta sem er á mánudegi þá sagði læknirinn bara að það yrði sett eitthvað neyðarferli í gang og bara einn, tveir og þrír aðgerð á föstudaginn. Og konan bara komin á steypinn, við áttum að fara í keisara stuttu síðar og þetta var allt í bara svona hundakúk,“ segir Kári Kristján. Í aðgerðinni voru bútar af rifbeininu teknir og hluti af bakvöðvunum. Kára Kristjáni var sagt að það væri búið að fjarlægja æxlið og við tók ákveðið bataferli. Hann hætti samt ekki að spila handbolta heldur flutti til Danmerkur þar sem hann svo greinist aftur.

Maður var náttúrulega bara skíthræddur - ég var viss um að ég myndi deyja

„Það var skelfilegt að frétta að þetta væri komið aftur. Frábært eða þannig. Ég var búinn að fara í einhverja 8-10 tíma aðgerð þar sem voru teknir bútar úr manni og var það ekki nóg? Fyrir utan tilfinningarússíbanann sem maður var í á þessum tíma. Ég hélt bara að ég væri að deyja - alltaf. Ég hélt í alvöru að ég væri að deyja í svona fimm ár. Maður er alltaf að hugsa um hvað getur gerst og hugsar stöðugt hvort þetta verði alltaf svona. Svo fékk ég oft þungan hjartslátt og var bara viss um að nú væri dagurinn kominn, nú væri þetta búið, nú væri dánardagurinn runninn upp.“ Þegar Kári Kristján greindist í annað sinn flutti hann heim til Ísland og komst að því að æxlið hefði sennilega aldrei átt að vera meðhöndlað með aðgerð og að það hefði sennilega ekki náðst allt og því væri það komið aftur. Æxlið hjá Kára Kristjáni er á milli rifbeinanna og er eins og tímaglas á milli þeirra svo að það er beggja megin vöðva og rifbeina. Jafnstórt báðum megin.

Handboltinn er mín meðferð, ef ég hefði hann ekki væri ég löngu farinn

Við tók 30 skipta geislameðferð árið 2016. Það hefur tekist að minnka æxlið en það er þó enn til staðar og verður enn um sinn. „Mér líður örlítið betur eftir geislameðferðina en aðgerðina en nú er framhaldið bara keyrt á verkjalyfjum og svefnlyfjum. Ég er náttúrulega enn að spila handbolta og gerði það á meðan ég var í geislameðferðinni. Það verður mögulega tekin síðar ákvörðun um að fara á líftæknilyf en það verður eftir að ég hætti að spila því ég held það sé enginn að fara standa það af sér að vera í lyfjameðferð og vera keppa í íþróttum á sama tíma. Ég spilaði allan tímann sem ég var í geislameðferðinni. Ég held bara ef ég væri ekki með þennan handbolta þá væri ég bara löngu farinn – löngu orðinn geðveikur á þessu. Það losar um stressið í hausnum að fara á æfingu og þurfa þá ekkert að vera tala um þetta eða pæla í þessu á meðan,“ segir Kári Kristján. Hann léttist hins vegar mjög á meðan hann var í geislameðferð og fann einna helst fyrir því þegar hann var að keppa því hann var vanur að vera þungur línumaður en léttist um meira en 20 kíló sem hafði töluvert að segja.

Maður má ekki missa baráttuandann

Kári Kristján segir afar misjafnt hvernig fólk tekur á því að greinast með krabbamein og honum finnst ekkert eitt rétt í þeim málum. Hann sé talsmaður þess að ræða hlutina en hann vilji gera það á sínum eigin forsendum. Hann finnur stöðugt fyrir æxlinu en reynir að láta það ekki hafa of mikil áhrif á sig. „Þetta er náttúrulega bara óþægilegt að díla við en ef þú ert með svona þá geturðu huggað þig við það að þú ert sennilega ekki að fara deyja þó þetta sé hundleiðinlegt. Þetta er eins og að vera með stöðugt hælsæri og þú getur ekki sett plástur á það og þú finnur stöðugt fyrir því, þetta er vissulega hörku skerðing á lífsgæðum en maður má ekki bara hætta og missa baráttuandann. Hugarfarið skiptir svo miklu máli. En ég hef litið á þetta sem lífsins leik sem ég ætla að vinna.“

Kári Kristján á stundum erfitt með að liggja, sitja og hvað þá ferðast því hann finnur fyrir hnúðnum í bakinu þegar hann kemur í snertingu við annan flöt eins og stólbak eða rúm.

Enginn rauður þráður hvernig maður dílar við þetta

Kári Kristján segir reynsluna vissulega hafa markað sig, bæði líkamlega og andlega. „Ég hef farið þetta svolítið á hnefanum en þannig er ég bara gerður. Ég hef fengið mikinn stuðning hjá fjölskyldunni en þetta er ekki síður erfitt fyrir þau. Ég missti mág minn úr krabbameini einungis ári áður en ég greinist og þegar ég svo greinist, ekki bara eitt skipti heldur tvö skipti, þá setur það náttúrulega fjölskylduna smá á hliðina. En að greinast í annað sinn var meira sjokk bæði fyrir mig og fjölskylduna mína. Ég var bara common – gemm mér séns – hættu þessu. En baklandið og fjölskyldan hjálpaði mér vissulega í gegnum þetta.

Við strákarnir verðum líka að viðurkenna að við séum hræddir þó við nennum kannski ekki að tala um þetta stöðugt. Konan mín hefur vissulega þurft að þola alls konar geðsveiflur í mér á þessum tíma þar sem ég hef jafnvel komið fram eins og einhver drullusokkur bara af því ég hef verið skíthræddur. Við karlmenn erum oft lokaðir heima hjá okkur og opnum okkur kannski annars staðar en ég held að við þurfum allir að æfa okkur í að vera betri heima fyrir og ræða vandamálin þar og klára hlutina,“ segir Kári Kristján en hann verður einmitt á karlakvöldi Krafts sem til stendur að halda nú í vetur um leið og aðstæður leyfa.

Æxlið sem Kári Kristján er með er góðkynja æxli eða Aggressive desmoid fibromatosis. Nokkrum vikum eftir viðtalið kom bakslag hjá Kára Kristjáni og er hann að fara í myndatökur í október og verður framhaldið skoðað út frá því.

Örið eftir aðgerðina en æxlið er enn til staðar

Örið eftir aðgerðina en æxlið er enn til staðar