4 minute read

Krabbamein og kórónaveiran

Á miðnætti 15. mars 2020 stóð öll þjóðin frammi fyrir því að lífið myndi breytast.

Vinnustöðum var lokað, fólk átti að hitta fáa og halda tveggja metra fjarlægð á milli sín, fjölmargir fóru að vinna heima, aðrir misstu vinnuna, sumir lentu í einangrun, útlandaferðir voru slegnar af, fjarnám hófst í skólum, fólk gat ekki farið í ræktina, búðir, í bíó o.s.frv. Fólk var í óvissu um hvernig hlutirnir yrðu en vissu það að þetta væri þó sett á bara næstu fjórar vikurnar til að byrja með. Þetta eru vissulega sögulegir og fordæmalausir tímar en í raun er þetta mjög svipað og hjá fólki sem greinist með krabbamein.

Advertisement

Mörgum þykir ef til vill undarlegt að bera saman það að greinast með krabbamein við kórónaveiruna og covid-faraldurinn en tilgangurinn með þessari grein er einungis að sýna fram á þann blákalda raunveruleika sem fólk sem greinist með krabbamein stendur frammi fyrir. Í þokkabót þá eru þau sem eru í krabbameinsmeðferð eða hafa verið einnig oft með bælt ónæmiskerfi og þurfa því enn frekar að vara sig á tímum sem þessum.

Hér eru nokkur dæmi:

Einangrun

Meðan fólk er í krabbameinsmeðferð þarf það oft á tíðum að vera í einangrun þar sem ónæmiskerfið þeirra er bælt. Einangrunin getur varað í lengri eða skemmri tíma en einangrun vegna Covid-19 má aflétta ef að 14 dagar eru liðnir frá greiningu og einstaklingur hefur verið einkennalaus í a.m.k. sjö daga.

Fjárhagslegt óöryggi

Það að greinast með krabbamein hefur mikil áhrif á daglegt líf og þurfa fjölmargir að fara í veikindafrí og jafnvel hætta að vinna. Þessu fylgir mikið fjárhagslegt óöryggi og jafnvel langvarandi fjárhagsleg skerðing. Eftir 15. mars hafa fjölmargir misst vinnuna vegna Covid-19 og standa því frammi fyrir fjárhagslegu óöryggi þar sem tekjuskerðing verður hjá fólki við að fara á atvinnuleysisbætur. Fólk getur þó litið björtum augum til framtíðarinnar og beðið þess tækifæris að komast aftur á vinnumarkaðinn. Sumir þeirra einstaklinga sem ganga í gegnum erfiðar krabbameinsmeðferðir, gætu hinsvegar þurft að horfast í augu við það að þeir muni aldrei geta snúið aftur á vinnumarkað á sama hátt og áður. Þeir gætu þurft að minnka við sig starfshlutfall eða jafnvel finna annan starfsvettvang sem hentar betur þeirri starfsgetu sem einstaklingurinn býr við núna.

Kvíði og hræðsla

Krabbameinsmeðferð fylgir oft á tíðum kvíði. Fólk er hrætt um líf sitt, veit ekki hvernig framtíðin verður og er oft mjög óöruggt. Það veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og á erfitt með að stjórna óvissutilfinningunni. Það sama á við um marga í þjóðfélaginu núna. Fólk er hrætt og veit ekki hvað tekur við, eða hversu lengi þetta óvissuástand mun standa yfir. Margir krabbameinsgreindir búa við þessa óvissu mjög lengi. Jafnvel eftir að þeir eru tæknilega séð lausir við krabbameinið halda þeir áfram að óttast að krabbameinið geri vart við sig aftur og fá kvíða yfir öllum einkennum sem þeir óttast að séu óeðlileg.

Félagsleg einangrun

Margir sem greinast með krabbamein verða félagslega einangraðir, ekki bara vegna þess að þeir geta ekki hitt fólk vegna einangrunar vegna krabbameinsmeðferðar heldur minnkar oft félagsnet fólks eftir krabbameinsgreiningu. Margir ungir krabbameinsgreindir finna t.d. ekki lengur samleið með jafnöldrum sínum því þeir eru að gera aðra hluti og ná ekki að tengjast þeim lengur á sama máta. Það sama á við um fólk sem er t.d. í áhættuhópi vegna kórónaveirunnar. Það lokar sig meira af, hittir fáa og getur orðið félagslega einangrað.

Breytt framtíðarplön

Þegar fólk greinist með krabbamein þá breytast framtíðarplön oft á tíðum. Fólk stendur frammi fyrir alls konar óvissu um hvort það geti hreinlega planað það að fara til útlanda, og má oft á tíðum ekki ferðast vegna meðferðar. Ungt fólk horfir jafnvel fram á það að geta ekki eignast börn vegna ófrjósemi af völdum krabbameinsmeðferða eða eiga erfitt með að fjármagna húsnæðiskaup vegna örorku. Allt er sett í bið en fjölmargir hafa einmitt staðið frammi fyrir þessu núna þar sem plön um utanlandsferðir fuku út um gluggann.

Lífið er núna

Í dag er það svo að krabbamein er ekki dauðadómur, langflestir sem greinast með krabbamein læknast af því þó að lífsgæði þeirra geti vissulega minnkað. En nær allir sem greinast með krabbamein segja það hafa vissulega kennt þeim ýmislegt. Fólk lærir að meta allt aðra hluti en það gerði. Veraldlegir hlutir eins og að eiga flottasta húsið og bílinn skipta engu máli heldur er það samveran og návistin með fólki sem það elskar, fjölskyldu og vinum. Í samkomubanninu mátti svo sannarlega sjá að svo var líka með þjóðarsálina. Fólk fór saman út að labba í stað þess að vera eitt að lyfta með heyrnartól í líkamsræktarsal. Fjölskyldan varði meiri tíma saman, lærði saman, bakaði, prjónaði og stússaðist á heimilum sínum. Oft heyrist það að þrátt fyrir að þetta væru erfiðir tímar þá væri nú gott að það væri rólegra yfirbragð og fólk náði frekar að vera í núinu og njóta líðandi stundar.

Þetta er einmitt það sem einkennisorð Krafts, Lífið er núna, endurspegla en þau minna okkur á að gleðjast yfir því að fá að lifa í andartakinu „núna“. Staldra við og njóta þess að vera með þeim sem okkur þykir vænt um og muna að hlúa að sjálfum okkur og öðrum sem okkur þykir vænt um. Ef það er eitthvað sem krabbameinsgreining eða kóróna-veiran hefur kennt okkur þá er það einmitt þetta. Svo hvernig sem hlutir þróast þá skulum við öll huga að þessum orðum og njóta þess að lífið er núna.