JólaKraftur 2021

Page 1


Gæðasúkkulaði fyrir þig og þína

Njóttu þess að gefa gómsætt súkkulaði frá Omnom og styrkja Kraft í leiðinni. Tvöföld gjöf – gæðasúkkulaði fyrir þig og þína og gjöf til styrktar okkar góða félagi. Vetrarlína Omnom er hin fullkomna þrenning sem kemur þér í jólaskap: Dark Nibs + Raspberries, Milk + Cookies og Spiced White + Caramel súkkulaðistykki. Umbúðirnar eru sérmerktar Krafti og eru 180 gr. Verð frá 3.590 til 3.990 kr. eftir fjölda askja sem keyptar eru. Þetta er svo sannarlega góðgæti sem að gefur áfram Hægt er að finna allar styrktarvörur okkar í vefverslun Krafts, www.kraftur.org/vefverslun. Félagsmenn Krafts fá 20% afslátt af vetrarlínu Omnom og hátíðarservéttum í vefverslun okkar dagana 1.-10. desember. Til að virkja afsláttinn notar þú afsláttarkóðann – jólin2021.

Jólastund í stofunni með Krafti

Taktu 9. desember frá því þá ætlum við að vera með aðventukvöldið okkar – Jólastund í stofunni með Krafti. Við verðum með streymi beint heim til þín og allskonar skemmtidagskrá verður í boði, bingó með frábærum vinningum og jafnvel verða jólasveinar á kreiki. Nú er um að gera að koma sér vel fyrir, klæða sig í sparifötin og taka fram jólakræsingar til að maula á meðan þú nýtur aðventustundarinnar með okkur. Skráning er nauðsynleg en þú getur skannað QR-kóðann til að fá frekari upplýsingar og skrá þig. Skannaðu QR-kóðann til að skrá þig á jólastundina


Kæri félagi Við sendum þér kærleika og risastórt hjarta inn í hátíðarnar. Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár þrátt fyrir takmarkanir í samfélaginu og við höfum aðlagað starfsemi félagsins að breyttum tímum. Við setjum hjarta og sál í allt okkar starf og hefur það svo sannarlega ekki breyst. Við byrjuðum árið af krafti sem setti tóninn út árið! Við stóðum fyrir vitundarvakningu í byrjun árs sem vakti mikla athygli og í fyrsta sinn í sögu félagsins var haldin söfnun í beinni útsendingu. Eins tók Kraftur þátt í Vetrarhátíð með umhverfislistaverki á Laugavegi sem benti fólki á að staldra við og sjá að lífið er núna. Við héldum líka fullt af viðburðum; göngur, hreyfitengda viðburði, stuðningsfulltrúanámskeið, kraftmikla kvennastund, strákastund og endurhæfingarhelgi, svo fátt eitt sé nefnt. Nýr starfsmaður tók til starfa á 22 ára afmæli Krafts í byrjun október sem mun sinna fræðslu og hagsmunagæslu félagsins. Fjölmargir lögðu félaginu lið með ýmsum hætti á árinu; hár fékk að fjúka eða var aflitað, listaverk seld, fólk hljóp um fjöll og firnindi, haldið var indverskt góðgerðarkvöld, og yfir 100 konur tóku þátt í Lífskraftsgöngu á Hvannadalshnjúk og vöktu athygli á málefninu. Ásamt þessu bárust félaginu fjöldinn allur af styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum sem gerir okkur kleift að halda úti starfsemi félagsins og erum við þeim öllum ævinlega þakklát. Það er ósk okkar að félagsmenn geta alltaf gengið að því vísu að við séum til staðar, hvað sem dynur á þá erum við hér fyrir þig. Njóttu hátíðanna með fjölskyldu og vinum, frá okkar hjörtum til ykkar, stjórn og starfsfólk Krafts


Á döfinni Kraftur ætlar að standa fyrir skemmtilegum viðburðum á næsta ári. Við hvetjum þig til að fylgjast vel með á nýju ári.

Lífið er núna Festival

Við ætlum svo sannarlega að byrja árið 2022 af Krafti og munum halda Lífið er núna Festival á Hótel Hilton 22. janúar nú í annað sinn. Festivalið er einn stærsti og skemmtilegasti viðburður félagsins og eitthvað sem þú ættir ekki að láta framhjá þér fara. Á deginum verða ýmsar vinnustofur, námskeið og fræðsla og endar í snilldarpartýi um kvöldið. Frábær leið til að hitta aðra í svipuðum sporum, ekki klikka á því að skrá þig því takmarkað pláss er í boði. Skráningarpóstur verður sendur út fljótlega.

Perlað af Krafti

Sunnudaginn, 6. febrúar, ætlum við að hvetja alla landsmenn til að mæta í Hörpu og perla með okkur nýtt Lífið er núna armband. Hver veit nema við náum að slá Íslandsmetið frá árinu 2018. Þetta verður hluti af vitundarvakningu okkar fyrir árið 2022 þar sem við munum láta appelsínugula ljós okkar skína og vekja athygli á málefnum ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.




Ný sería af hlaðvarpinu

Þriðja serían af hlaðvarpinu, Fokk ég er með krabbamein, mun líta dagsins ljós á nýju ári þar sem fókusinn verður á reynsluheim félagsmanna og ýmsum málefnum honum tengdum. Fylgdu seríunni á Spotify eða öðrum hlaðvarpsveitum og fáðu tilkynningu þegar nýr þáttur fer í loftið.

Félagskort Krafts

Í lok nóvember litu stafræn félagskort Krafts fyrir síma dagsins ljós. Félagskortin gefa félagsmönnum Krafts tækifæri á að auðkenna sig hjá ýmsum samstarfsaðilum félagsins og fá sérkjör hjá þeim. Með þessari nýjung viljum við geta létt undir með félagsmönnum og á sama tíma hvatt alla til hreyfingar, sjálfsræktar og útivistar sem og að skapa góðar stundir og minningar með ykkar nánustu. Félagskortin virka einnig sem lyfjakort hjá félagsmönnum sem eru með virkan lyfjastyrk hjá Apótekaranum.

Skannaðu QR-kóðann til að fá upplýsingar um félagskort Krafts



Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.