
1 minute read
Kokkurinn í Klukkublómi
Þórdís
Dögg Auðunsdóttir opnaði blóma- og gjafavöruverslunina
Klukkublóm á Hellu um verslunarmannahelgina 2021 þegar heimsfaraldurinn sveif enn yfir vötnum. Þórdís sem er kokkur að mennt bjó í Danmörku í 21 ár. Árið 2019 flutti hún heim og fór að starfa í blómaverslun á Selfossi þar sem pabbi hennar heitinn bjó. Á Selfossi kviknaði sú hugmynd að hefja eigin rekstur blóma- og gjafavöruverslunar. Bæjarfélagið Hella varð fyrir valinu, en þar var engin slík verslun og gott húsnæði í boði, en Klukkublóm er staðsett í elsta hluta þorpsins að Þrúðvangi 36.
Sígauni í mér

Þórdís Dögg segir að í gegnum lífsferilinn hafi hún mjög oft flutt búferlum og það sé sígauni í sér. ,,Það er ótrúlega gott að búa á Hellu, fólkið hér er svo elskulegt og hér hefur mér verið mjög vel tekið. Einnig hefur versluninni verið mjög vel tekið, viðskiptavinahópurinn er stöðugt að stækka og ég er alltaf að sjá ný andlit í versluninni.“ „Það var greinilega þörf fyrir blómabúð á þessu svæði, enda ekki neina slíka að finna alla leið frá Selfossi og að Höfn í Hornafirði.“



Líður best innan um blóm
Þórdís Dögg er lærður kokkur og hefur um langt árabil starfað við matreiðslu sem hún segir mjög skemmtilegt. En nú eiga blómin hug hennar allan. Hún segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á blómum og skreytingum og líði mjög vel með blóm í kringum sig. Því hafi verið nærtækt þegar skrefið var stigið út í eigin atvinnurekstur að stofna til reksturs í kringum blóm. Þórdís Dögg tekur að sér að útbúa skreytingar s.s. kistuskreytingar og kransa og skreytingar og blómavendi fyrir hin ýmsu tilefni, hvort sem fólk vill gleðja eða sýna samúð. Eins annast Þórdís Dögg skreytingar fyrir hótel Rangá og fleiri. Í versluninni má auk afskorinna blóma og pottablóma finna ýmsar gjafavörur s.s.reykelsi, sápur, kort og fleira. Þórdís Dögg er enn sem komið er eini starfsmaður verslunarinnar, en þrátt fyrir það er opið hjá henni alla daga vikunnar.
Netfang: klukkublom@simnet.is
Texti: Sigríður
Myndir: