
5 minute read
Fer ótroðnar slóðir í prjónahönnun
Viðtal við Auði Björt Skúladóttur
Þráttfyrir ungan aldur þá hefur
Auður Björt Skúladóttir vakið mikla athygli í prjónaheiminum á Íslandi og víðar undanfarin ár. Hún fer ótroðnar slóðir í sinni prjónahönnun. Auður Björt er mörgum lesendum Húsfreyjunnar kunn, en hún sá um tíma um Hannyrðahorn Húsfreyjunnar og kom þar fram með fjölbreyttar prjónauppskriftir. Margt hefur gerst í prjónahönnun hjá henni síðan þá.
Síðastliðið sumar lauk Auður Björt námi frá Háskóla Íslands og er orðin löggiltur textílkennari. En hún hefur verið að vinna sem textílkennari síðastliðin þrjú ár. Auður Björt segir að textílnámið hafi verið mjög spennandi og á sama tíma krefjandi. ,,Covid hafði mikil áhrif á það og setti mark sitt á námsumhverfið þar sem ég var meira og minna í fjarnámi vegna þess. En það hjálpaði líka, það gerði það að verkum að ég náði að stunda fullt nám og fulla vinnu yfir eins árs námstímabil.
Golfið heillar
Auður Björt býr í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum Ingvari og börnum þeirra, þeim Ingvari 6 ára og Katrínu Emilíu 9 ára. Að sögn Auðar þá hefur hún búið allt sitt líf í Hafnarfirði. ,,Við erum miklir Hafnfirðingar enda býr öll okkar nánasta fjölskylda í Hafnarfirði . Maðurinn minn er kokkur og vinnur í mötuneyti og þegar hann er heima sér hann alfarið um matinn á heimilinu, ég er nefnilega alveg heft í eldhúsinu og vil frekar vera að prjóna og hanna heldur en að elda matinn. Við ferðumst mikið sem fjölskylda. Á veturna förum við á skíði og á sumrin erum við í útilegum og í golfi. Ég æfði golf sem unglingur en setti það til hliðar þegar ég gekk með okkar fyrsta barn. Ég tók svo aftur upp kylfurnar í sumar og hef engu gleymt. Ekki skemmir að maðurinn minn hefur einnig áhuga og svo erum við líka að draga börnin í þetta. Þannig að golfið er orðið fjölskyldusport. Í sumar vaknaði upp áhugi á að læra golfið. Þar sem ég var nú að klára eitt nám, var um að gera að finna nýtt nám. Ég hóf sem sagt nám í Golfkennaraskólanum PGA núna í haust. Námið tekur þrjú ár og er kennt jafnt um veturinn en samtals 8 helgar á ári. Ég er hálfnuð með fyrsta árið, en námið er mjög skemmtilegt og fróðlegt. Ég er farin að hlakka mikið til næsta sumars, að geta farið að kenna golfið líka.
Laumuprjónari til að byrja með
Auður Björt er með langa reynslu af prjónaskap. Aðspurð hvernig áhuginn á prjónaskapnum kviknaði, segist hún einfaldlega hafa prjónað frá því að hún man eftir sér. ,,Ég man vel eftir mér sitjandi með mömmu í sófanum að prjóna og gera aðra handavinnu. Þegar ég var strand hjálpaði mamma mér og ég hélt svo áfram. Ég var samt svona laumu- prjónari fyrst. Það var ekki mikið um að ungir krakkar væru að prjóna. Allavega var ég lítið að flagga því að ég prjónaði. Það var ekki fyrr en í menntaskóla að ég hitti aðra sem prjónuðu og þá var ég ekki lengur feimin við þetta. Þegar ég lít til baka þá held ég að ég hafi verið að prjóna meira og minna síðustu 20 árin.“
,,Eftir menntaskóla fór áhuginn á prjónatækni og prjónahönnun að kvikna. Ég var þá búin að fá prjónasett frá manninum mínum að gjöf. Ég vann í Fjarðarkaup og þar var nýbúið að opna stórt og fínt prjónahorn. Þar fékk ég vinnu seinnipartinn við að ráðleggja konum varðandi garn og fylgihluti. Þar þurfti ég að sanna mig fyrir viðskiptavinunum. Ég var oft var spurð hvort það væri ekki einhver önnur að vinna, og eiginlega gert ráð fyrir að ég vissi ekki neitt. Ég náði þó fljótt að sanna mig. Ég fór að leita mér meiri þekkingar og prufa mig áfram. Það var þá sem ég áttaði mig á að ég gæti unnið við að kenna handavinnu.
Tók U-beygju í lífinu
,,Eftir að hafa tekið eins árs frí eftir menntaskóla, unnið og safnað mér pening til að geta keypt mér íbúð, þá tók ég góða U beygju i lífinu. Ég hafði
Texti: Sigríður
Myndir: stefnt á að fara í verkfræðinám en endaði í textílkennaranámi. Það var þá sem ég hannaði mína fyrstu flík. Það var barnalopapeysa með hettu. Með náminu eignaðist ég fyrra barnið mitt. Síðasta árið í náminu tók ég að mér handavinnuþáttinn í Húsfreyjunni. Ég leit á það sem einskonar stökkpall að prufa mig áfram, að hanna mínar eigin uppskriftir og gefa þær út. Það heppnaðist vel og birti ég þrjá handavinnuþætti í Húsfreyjunni. Eftir að hafa lokið við B.ed. gráðuna í náminu ákvað ég að taka mér pásu. Ég var ekki viss um að ég vildi fara að vinna við kennslu. Einnig var námið búið að vera mjög óútreiknanlegt og enn í hálfgerðri mótun. Ég fór að vinna í í garnversluninni Handprjón. Þar jókst þekking mín á garni og mismunandi prjónaaðferðum enn meir og hélt áfram að dýpka og þróast. Það var þarna sem hönnunin á bókinni hófst.

Ég fór að vinna með kaðla, eins báðum megin, bæði í teppum og sjölum. Ég fór að gefa út uppskriftir og vöktu þær mikla athygli og urðu vinsælar.“ Eftir þetta segist Auður Björt hafa verið óstöðvandi í að hanna prjónles eins báðum megin.
Elskar að kenna handavinnu
,Árið 2019 komu þrjár konur á námskeið hjá Auði Björt og ræddu við hana um að textílkennarinn á þeirra vinnustað væri að hætta störfum. Á þessum tíma var dóttir hennar að hefja sína skólagöngu og Auður Björt orðin þreytt á mjög löngum vinnudögum sem lauk oft ekki fyrr en kl. 18.
,,Ég greip tækifærið og kennsluáhuginn var mættur til mín. Ég sótti um og fékk starfið. Þarna ákvað ég einnig að fara aftur í nám og klára textílkennararéttindin. Ég útskrifaðist svo vorið 2022. Ég elska að kenna ungum börnum handavinnu. Ég fann það mjög sterkt á Covid tímabilinu, þegar ég fékk ekki að kenna handavinnu, hvað mér þótti handavinnukennslan skemmtileg. Handavinnukennslan er mér svo eðlislæg, áreynslulaus og gefandi út af mínum góða grunni.
Sjöl og teppi – eins báðum megin Prjónabókin ,,Sjöl og teppi - eins báðum megin“, eftir Auði kom út í ágúst 2022. Þar er að finna á þriðja tug prjónauppskrifta af sjölum og barnateppum. Þetta er önnur bókin sem hún gefur út. Auður hefur áður sent frá sér bókina ,,Lopapeysuprjón – fyrir byrjendur og lengra komna“.
Eins og nafn bókarinnar bendir til þá er hönnun Auðar einstök fyrir það að verkin eru EINS báðum megin. Það er sem sagt ENGIN ranga - heldur má segja að það séu tvær réttur eða verkið jafn fagurt báðum megin. Þetta gerir það að verkum að stykkin verða mun notadrýgri og fallegri.
Auður leitar víða fanga við hönnun sína. Meðal annars í gamalt íslenskt handverk og til Hjaltlandseyja.
Í bókinni eru uppskriftir við allra hæfi, frá einföldum uppskriftum fyrir byrjendur upp í flóknari uppskriftir fyrir vana og reynslumeiri prjónara.
Samhliða útgáfu bókarinnar opnaði Auður vefsíðuna audurbjort.is þar sem hún birtir meðal annars myndir og skýringar-/kennslumyndbönd er varða innihald bókarinnar.
Uppskrift
Vetraboði er ein af fjögurra „boða“ uppskriftum í bókinni. Boðauppskriftirnar eru allar fullkomnar sem fyrsta verkefni. Vetraboði er samspil garðaprjóns og gataprjóns. Verkið hefst á miklu garðaprjóni og er síðan brotið upp með gataprjóni sem eykst þegar komið er lengra inn í sjalið og á sama tíma minnkar garðaprjónið. Í Vetraboðann þarf einungis tvær 100gr hespur af garni sem eru 400m hvor. Vetrarboðinn er einnig fullkominn sem afgangasjal. Athugið að það verður að skipta um lit í gataprjóns-umferð. Vetraboðinn er hálfmáni þannig að vænghafið er langt og miðjan stutt. Hann er því fullkominn innan undir úlpuna á köldum vetrardögum, sem hálsklútur eða yfir axlirnar.