3 minute read

Hinar fimm fræknu

Viðtal við Guðnýju Nönnu Þórsdóttur

Eining á Skagaströnd er eitt af minnstu kvenfélögum landsins en félagskonur þar eru eingöngu fimm talsins.

Kvenfélagið

Félagið á sér þó langa sögu en það var stofnað 27. febrúar árið 1927 af 20 konum.

Þrátt fyrir að félagskonur séu ekki margar er starfsemin engu að síður afar öflug og fjölbreytt og tekið er eftir því á landsvísu hve mikill kraftur er í félagsstarfinu hjá þessum mögnuðu konum.

Guðný Nanna Þórsdóttir hefur verið formaður Kvenfélagsins Einingar frá árinu 2018. Í samtali við þessa kraftmiklu konu kemur vel fram að í mörg horn er að líta. Kvenfélagið er mikill máttarstólpi í samfélaginu á Skagaströnd og kemur víða við sögu í samfélaginu.

Samhugur og hjálpsemi

Guðný Nanna eða Nanna, eins og hún er oftast kölluð, er alin upp í Árbænum og flutti til Skagastrandar fyrir átta árum.

Hún á fimm börn þau Ditto, Bjarna Þór, Steinar Frey, Sonju Sif og Jóhönnu Guðleifu en þrír elstu drengirnir voru farnir að heiman þegar fjölskyldan ákvað að láta slag standa og flytja norður. Eldri dóttir hennar, sem þá var 14 ára, var ekki á góðum stað félagslega og því var sú ákvörðun tekin að kippa henni út úr þeim aðstæðum sem hún var í og breyta til. Nanna þekkti vel til á Skagaströnd þar sem faðir hennar, Þór Gunnlaugsson, var þar lögreglumaður um 30 ára skeið og Nanna var mjög oft þar hjá honum í fríum. Þegar litið er til baka reyndist ákvörðunin um að flytja norður mjög góð og Nanna segist hvergi annars staðar vilja vera. Skagastönd er gott samfélag sem heldur vel utan um fjölskyldur og þar ríkir samhugur og hjálpsemi.

Gott að geta rétt öðrum hjálparhönd

Þremur árum eftir að Nanna flutti norður gekk hún í Kvenfélagið Einingu á Skagaströnd og árið 2018 var hún orðin formaður þess. Spurð út í ástæður þess að ganga í kvenfélag sagði hún að það væri hreinlega í genunum, hún hefði verið alin upp í kvenfélagi. Móðir hennar Jóhanna Guðrún Gunnarsdóttir var formaður kvenfélagsins Fjallkonurnar.

Að sögn Nönnu kom móðir hennar m.a. að stofnun Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna en tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Nanna segir það mjög gott að geta rétt öðrum hjálparhönd og stutt við góð málefni líkt og kvenfélagskonur eru að gera. Hún sér fram á fjölgun í kvenfélaginu og líklegast er einn karlmaður að ganga í félagið á næstunni. Sá segist liðtækur í bakstrinum og vonast hann til að fá fleiri karlmenn með sér.

Alltaf uppselt á þorrablótin Árleg þorrablót eru stærstu viðburðirnir sem kvenfélagið stendur fyrir. þorrablótin eru það vinsæl að færri komast að en vilja og takmarka þarf miðakaup við 10 aðgangsmiða per einstakling. þorrablótin eru haldin í Félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd og eru að jafnaði um 250 manns á þorrablótunum. Kvenfélagskonur annast sjálfar stóran hluta af matseldinni s.s. að sjóða svið og hangikjöt, steikja soðbrauð o.fl. Þær skreyta einnig og leggja á borð, prenta miða og söngbækur. Að sögn Nönnu fer janúarmánuður að stórum hluta í undirbúningsvinnu fyrir þorrablótið hjá kvenfélagskonunum.

Fjölbreytt fjáröflun

Auk þorrablótanna eru þær Einingarkonur með afar fjölbreytta fjáröflun. Þær standa reglulega fyrir félagsvist, sem í gegnum tíðina hefur verið vel sótt. Árlega halda þær páskabingó og á covid tímabilinu dóu þær ekki ráðalausar heldur héldu rafrænt páskabingó, sem sló alveg í gegn. Kvenfélagið tekur einnig að sér að annast erfidrykkjur og útbúa leiðisskreytingar ásamt því að selja greni og friðarkerti. Fyrir jólin útbúa þær jólagjafir handa öllum íbúum Skagastrandar sem eru 65 ára og eldri og ganga sjálfar í hús og afhenda gjafirnar með jólasveinahúfur á höfði. Guðný Nanna segist finna fyrir sönnum jólaanda þegar þessi afhending á pökkum fer fram og eldri borgararnir sem taka við gjöfunum kunna svo sannarlega að meta þetta framlag. Í fyrra innihéldu pakkarnir t.d. fallegt flísteppi þar sem kvenfélagskonur höfðu sjálfar saumað nafn hvers og eins í teppið. Eins hafa kvenfélagskonurnar haldið utan um sölu á minningarkortum og heillaskeytum.

Stuðningurinn skilar sér til samfélagsins

Í gegnum fjáraflanir kvenfélagsins

Einingar hafa safnast háar upphæðir sem hafa gert félaginu kleift að styðja myndarlega við margvísleg málefni. Þær hafa stutt við fjölskyldur sem hafa átt við tímabundna erfiðleika að etja sökum veikinda og/eða dauðsfalla. Reglulegur stuðningur hefur skilað sér til kirkjunnar auk þess sem sos börn eru styrkt. Einnig hefur ,,Róluvinafélagið“ fengið myndarlegan stuðning frá kvenfélaginu, en Róluvinafélagið var stofnað af áhugasömum foreldrum með það að markmiði að endurbæta og byggja upp þá þrjá leikvelli sem eru á Skagaströnd. Að sögn Nönnu er frábært að sjá hve vel hefur tekist til með þá uppbyggingu og t.d. státi nú leikvöllurinn við tjaldstæðið af einni flottustu aparólu landsins. Einnig hefur kvenfélagið Eining styrkt Leikskólann á Skagastönd, slysavarnarfélagið, dvalarheimilið, ungmennafélagið, Rauða krossinn o.fl.

Forréttindi að búa úti á landi Nanna horfir björtum augum til framtíðarinnar á Skagaströnd. Hún segir það hreinlega forréttindi að búa úti á landi. ,,Hér er gott að ala upp börn og hér er auðvelt að koma hlutum í verk. Hér er lífið svo miklu einfaldara og afslappaðra og lífsgæðin meiri. Ég verð bara stressuð um leið og ég kem til höfuðborgarinnar og vil helst bara drífa mig heim sem fyrst“. Hún sér fram á ærin verkefni framundan hjá Kvenfélaginu Einingu og hlakkar til að takast á við þau í góðri samvinnu kvenfélagskvenna og e.t.v. karla.

This article is from: