1 minute read

Formannaráðsfundur KÍ

Formannaráðsfundur

Kvenfélagasambandsins var haldinn laugardaginn 19. nóvember sl. í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum. Fulltrúar frá 14 af 17 héraðssamböndum innan KÍ voru mættar á fundinn sem Eva Björk Harðardóttir varaforseti stjórnaði.

Laufey Guðmundsdóttir sem situr í stjórn Almannaheilla fyrir hönd KÍ kynnti hvað felst í því að vera Almannaheillafélag og að vera á Almannaheillaskrá, en það opnar meðal annars fyrir að gjafir einstaklinga og fyrirtækja til samtaka fylgi afsláttur eða lækkun skatta. Félögum er bent á heimasíðu Almannaheilla www.almannaheill.is til að kynna sér málið nánar

Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun: 66. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn á Hallveigarstöðum 19. nóvember 2022 hvetur fjölskyldur til þess að gefa sér tíma, ræða saman og eiga gæðastundir án truflana frá netmiðlum. Í umhverfi okkar er gríðarlegt áreiti af samfélagsmiðlum sem sofa aldrei og gefa aldrei grið. Stafrænt ofbeldi, áreitni, notkun samfélagsmiðla, fíkn og kvíði hefur farið stigvaxandi ár frá ári sem hefur ófyrirséðar afleiðingar fyrir líðan og heilsu barna og fullorðinna. Aldrei hefur verið jafn mikil þörf og í dag, að gefa sér tíma til þess að njóta samverustunda með þeim sem okkur þykir vænt um, borða saman í rólegheitum og eiga gott samtal.

Stjórn KÍ þakkar öllum þeim sem mættu á fundinn kærlega fyrir góðan dag á Hallveigarstöðum. Næsti formannaráðsfundur sem er líka aðalfundur formannaráðs verður haldinn 10.-11. mars nk. á Hótel Laka Kirkjubæjarklaustri.

This article is from: