1 minute read

Sterk staða kvenfélaga

Dagmar Elín Sigurðardóttir, forseti Kvenfélagasambands Íslands

Íupphafi hvers árs er staldrað við og rifjað upp liðið ár, hvað hefur áorkast og hvað má gera betur og síðast en ekki síst að rifja upp allt það merka starf sem unnið hefur verið í kvenfélögum um land allt.

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) er með aðsetur í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Reykjavík, húsinu sem konur reistu af miklum myndarbrag. Innan vébanda KÍ eru kvenfélög sem starfa hvert á sínu sambandssvæði.

Á liðnu ári gafst að nýju tækifæri til margvíslegra fundarhalda og samfagnaðar. Félög gátu haldið sína aðalfundi, bæði félög og sambönd. Á þeim umbreytingatíma þegar fólk mátti ekki koma saman kviknuðu líka hugmyndir að tækifærum til að eiga saman kvöldstund og nýta sér tæknina. Þannig var Zoom kaffihúsakvöldinu, netfundi, hrundið af stað og svo mikil ánægja var með þessi kvöld að stjórn KÍ og formannaráð hafa ákveðið að halda áfram með þau og eru þau fyrirhuguð á sama tíma að hausti milli Landsþinga. Með þessum hætti getum við átt notalega stund allar saman þótt við séum á ólíkum stöðum á landinu. Eina sem þarf er að vera kvenfélagskona í einu af aðildarfélagi KÍ og vera með búnað sem býður upp á þann möguleika að taka þátt. Eitt af ánægjulegri verkefnum stjórnar og forseta KÍ er að fá tækifæri til að heimsækja samböndin og hitta félagskonur. Á öllum þeim stöðum sem heimsóttir voru á liðnu ári var það sammerkt, sterk staða kvenfélaga í sinni heimabyggð og góð ímynd. Kvenfélagskonur í kvenfélögum landsins hafa alla tíð frá stofnun félaganna verið ötular að vinna óeigingjörn störf til að afla fjármuna í hin margvíslegu verkefni tengd sinni heimabyggð og hafa margir notið góðs af því starfi. Öll eiga kvenfélög það sammerkt að aðstoða allt og alla í sínu nærumhverfi og taka þátt í starfi með öðrum kvenfélögum í landinu.

Febrúarblað Húsfreyjunnar er ár hvert helgað kvenfélögunum og er það vel að leggja áherslu á það öfluga starf sem unnið er. Þannig hafa kvenfélögin sterka stöðu hvert um sig í sínu nærumhverfi vegna starfa sinna við að liðsinna meðborgurum og þeim sem þurfa sérstaka aðstoð og fjármagn.

Kvenfélagastarfið er nú á tímum ennþá í fullu gildi.

This article is from: