
3 minute read
90 ára afmæli fagnað
Hrönn Arnheiður Björnsdóttir
Þann11. desember 1932 var Kvenfélagið Iðunn stofnað í þáverandi Hrafnagilshreppi og átti því 90 ára afmæli á síðasta ári. Af því tilefni var hinum tveimur kvenfélögunum í Eyjafjarðarsveit, Öldunni og Hjálpinni, boðið á jólafund Iðunnar í Laugarborg í Hrafnagilshverfi þann 11.12.2022, kl. 11.12, til gamans.
Reynir Schiöth sá um ljúft undirspil á píanó en hann er einmitt svo vel giftur, henni Þuríði Jónu Schiöth, sem starfað hefur í félaginu í áratugi og tekið virkan þátt síðan um 1970. Þuríður stiklaði á stóru, fyrir gesti jólafundarins, um starfið og viðveru sína í félaginu og sannarlega hefur margt verið brasað á þessum árum sem væri tilefni í annan pistil.
Aðalrétturinn var Ris a la mande, með karamellu- og kirsuberjasósu og auðvitað ein mandla vel falin í einni skálinni. Gaman er hvað margt hagleiksfólk er í Eyjafjarðarsveit og núna var skemmtileg gjöf í möndluverðlaun frá Kolbrúnu Ingólfsdóttur, glerlistakonu, sem er með vinnustofuna K.Ing Gler, í Hólshúsum.
Hefð er fyrir jólasögu eða frásögn og las Hrönn, ritari Iðunnar, grein úr 4. tbl. 34. árg. 1983, Húsfreyjunnar: Jól á Hveravöllum 1971, eftir Hildi Torfadóttur.
Kvenfélagið Hjálpin kom færandi hendi með púrtvín og var skálað fyrir Iðunni í tilefni dagsins. Bögglaskiptin voru síðan næst á dagskrá og eru alltaf skemmtileg eins og þeirra er von og vísa. Boðið var svo upp á sérrý og meira púrtvín, kaffi og konfekt og að lokum var heiðursfélögum Iðunnar færðar Hyasintuskreytingar sem skreyttu m.a. háborðið á viðburðinum. Þetta var yndislegur hápunktur eftir stórt ár hjá Iðunni.
Kvenfélagsstarfið hjá Iðunni árið 2022 í stórum dráttum
Fjórir stórir fundir eru haldnir ár hvert þ.e. aðalfundur í febrúar, vorfundur í maí, haustfundur í október og síðan endum við árið á jólafundi í desember. Iðunnarkvöld eru frá september og fram í apríl, þá komum við saman í fundarherbergi Laugarborgar og skiptumst á að hafa umsjón með þeim. Það hafa komið góðir gestir til að fræða félagskonur, verið handavinnukvöld, bókakynningar þar sem félagskonur segja frá þeim bókum sem þær hafa verið að lesa, námskeið sem félagskonum langar að fá til sín og svona mætti lengi telja. Í júní var flatbrauðsbakstur og fjáröflunarnefnd gerði rabarbarachili-kryddsultu.
Menningarnefnd stóð fyrir frábærum göngutúr seint í júní um gamla bæinn á Akureyri undir leiðsögn Margrétar Guðmundsdóttur, sagnfræðings, og sagði hún okkur frá húsum, sögu þeirra og fyrrum íbúum sumra húsanna. Mjög ánægjuleg ganga og samverustund þrátt fyrir napurt veður. Á næsta ári verður það ferðanefnd sem mun sjá um dagsferð félagsins.
Það kom í ljós með vorinu að engin Handverkshátíð yrði í ágúst þannig að stjórn ákvað að flauta til Hrafnagilshátíðar 16.-17. júlí. Það var gert með þátttöku íbúa Hrafnagilshverfis (og nokkrum áhugasömum sveitungum sem komu í hverfið) og stóðu nokkrir íbúar fyrir loppumörkuðum heima hjá sér um allt hverfið á laugardeginum, í alveg frábæru veðri, markaður var í Laugarborg báða dagana en veðrið var síðan frekar slæmt á sunnudeginum. Kvenfélagið Iðunn var með vöfflukaffi í Laugarborg þessa daga og bauð upp á nýjung á sunnudeginum: Vöfflupúff, sem er vaffla með súkkulaðiáleggi og sykurpúðum og stóð fólki til boða að fara upp í Aldísarlund sem er um 100 metrum ofan við Laugarborg í skógi og grilla þar sykurpúðana, ein Iðunnarkona var búin að kveikja upp í grillinu og át sitt vöfflupúff með góðri lyst. Þessi viðburður tókst bara ljómandi vel og var skemmtileg nýjung að fá fólk til að koma, leggja bílum sínum og fá sér göngutúr um hverfið, enda iðaði hverfið af lífi þennan laugardag.
Í september fóru 5 félagskonur og 4 makar til Skotlands og voru fyrst í Helensburgh í skoðunarferðum en fóru síðan til Glasgow á ACWW þingið sem áður hefur verið skrifað um í Húsfreyjunni. Þessi ferð tókst afskaplega vel og vonandi verður önnur ferð farin innan skamms.



Í nóvember tóku Iðunnarkonur sig til og voru með á kökubasar sem haldinn var í Hlíðarbæ. Það var mikið lagt á sig til að hafa nógu margar sortir og nógu mikið af þeim á þessum basar, enda höfðu félagskonur ekki tekið þátt í basar í áraraðir. Þetta gekk vonum framar og væri gaman að hafa kökubasar heima í héraði seint á árinu 2023.
Í byrjun desember var síðan viðburður í sveitinni á vegum Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar sem kallast: Opnar dyr Var ákveðið með skömmum fyrirvara að skella sér með og opna dyrnar á Laugarborg með kaffihúsastemningu, vöfflusölu, söluborði og kynningu á félaginu, fyrir þær konur sem vildu fá slíka. Ein ný kona gekk í félagið og þá var markmiðinu náð.
Árið 2023 verður án efa gott ár og fullt af skemmtilegum verkefnum, fundum og hittingum. Gleðilegt nýtt ár og velkomin í heimsókn til Kvenfélagsins Iðunnar í Eyjafjarðarsveit. Nýjar konur eru auðvitað sérstaklega velkomnar.