
4 minute read
Konur í orkumálum
Hildur Harðardóttir, formaður stjórnar Kvenna í orkumálum
Orku-og veitustarfsemi er ein af undirstöðum samfélagsins. Orkuog veitufyrirtæki hafa það hlutverk að sjá íbúum og fyrirtækjum í landinu fyrir rafmagni, heitu og köldu vatni og sjá um að koma ofanvatni og skólpi í réttan farveg. Fyrirtækjunum er treyst fyrir mikilvægum auðlindum landsins og að þær séu nýttar á sjálfbæran og skynsamlegan hátt í þágu samfélagsins og loftslagsmarkmiða. Orku- og veitustarfsemi er hátæknigeiri með nýsköpun og tækniþróun að leiðarljósi sem kallar á vel menntað starfsfólk með góða sérþekkingu og í þessu ljósi eru laun há samanborið við aðrar atvinnugreinar.
Í sögulegu samhengi hefur orku- og veitustarfsemi þótt karllægur geiri og konur lítið sýnilegar. Stofnun félagsins Konur í orkumálum, KÍO, var á sínum tíma ætlað að breyta því. Hildur Harðardóttir er formaður stjórnar félags kvenna í orkumálum.
Aukinn sýnileiki kvenna
„Sagan af því hvernig KÍO varð til er nokkuð skondin, þegar horft er í baksýnisspegilinn“, segir Hildur Harðardóttir, formaður stjórnar félagsins og brosir. „Stofnandi og fyrsti stjórnarformaður KÍO, Harpa Pétursdóttir, var þá að koma af stórri innlendri ráðstefnu í geiranum og furðaði sig á því hversu fáar konur voru sýnilegar, hvort sem litið var til gesta eða fyrirlesara. Hún ákvað því að taka málin í sínar hendur og stofna þetta félag í ársbyrjun 2016 í samstarfi Viðtal: Sigríður IngvarsdóttirMyndir: Úr einkasafni við nokkrar öflugar konur í orku- og veitufyrirtækjum landsins“, segir Hildur. „Í ljós kom að áhuginn fyrir félagi sem hefði þann tilgang að efla þátttöku kvenna í geiranum voru miklu fleiri en stofnendur áttu von á því flytja þurfti stofnfund félagsins í stærra húsnæði þegar það fyrra sprengdi fundinn utan af sér!“
Hlutverk KÍO er að stuðla að jafnrétti í orkumálum, efla þátt kvenna og styrkja tengsl þeirra og áhrif innan orku- og veitugeirans. Félagið vill einnig stuðla að menntun og fræðslu kvenna er varðar orkumál. „Við vinnum að þessum markmiðum með því að halda fundi, samkomur og viðburði, í hvers kyns formi, og svo stöndum við fyrir könnunum og greiningum ýmis konar til að taka púlsinn á jafnréttismálunum innan fyrirtækjanna á Íslandi og geta hvatt til jákvæðra breytinga„, segir Hildur. Félagið er opið öllum þeim sem áhuga hafa á orku- og veitumálum og auknu jafnrétti í samfélaginu, öllum kynjum til hagsbóta.
Félagar KÍO eru um 470 talsins í dag og koma úr margvíslegum fyrirtækjum og opinberum stofnunum sem tengjast orku- og veitustarfsemi á einhvern hátt. Að mati Hildar hefur félaginu frá upphafi verið ákaflega vel tekið og stuðningur við hlutverk KÍO mikill. Fyrirtækin vinna markvisst að jafnréttismálum innan sinna raða og aukinn sýnileiki kvenna og öflugar fyrirmyndir hjálpar til við að fá fleiri konur til starfa.
Eins og staðan er í dag eru konur tæp 30% starfsfólks í orku- og veitugeiranum. Gengið hefur vel að jafna kynjahlutföll í stjórnum, stjórnendastöðum og almennum stöðugildum innan fyrirtækjanna en stór hluti starfsfólks er iðn- og tæknimenntað sem starfar úti á mörkinni við oft erfiðar aðstæður og óblíða náttúru. Þar eru karlmenn enn í miklum meirihluta.
„Við viljum auðvitað jafna þessi hlutföll eins og mögulegt er. Jafnrétti og fjölbreytileiki á vinnustað ætti að vera kappsmál allra stjórnenda, því við vitum að það skilar sér í betri rekstri og betri ákvarðanatöku þegar ólíkir einstaklingar koma með ólík sjónarmið að borðinu“, segir Hildur. KÍO hefur ýmislegt til málanna að leggja að mati Hildar, bæði innan fyrirtækjanna sjálfra og inn í almenna samfélagsumræðu.

Jákvæð þróun
„Félagið hefur unnið þrjár greiningar á stöðu kvenna í orkumálum á Íslandi ásamt Ernst & Young og vinnur nú að undirbúningi á fjórðu skýrslunni. Gögnin byggja á upplýsingum um kynjaskiptingu í helstu áhrifastöðum innan 12 stærstu orku- og veitufyrirtækja landsins. Þá höfum við þrisvar staðið fyrir könnun um líðan starfsfólks í geiranum; í fyrstu tvö skiptin meðal félagskvenna KÍO en í það þriðja meðal alls starfsfólks í 13 stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins. Þá höfum við einnig látið greina kynjahlutfall viðmælenda í fréttum um orku- og veitumál“ segir Hildur. Reglubundnar greiningar af þessu tagi bjóða upp á samtal innan geirans um hvað má betur fara og við í stjórn félagsins viljum leggja enn ríkari áherslu á að eiga það samráð við stjórnendur og fylgja því eftir að verkefnin okkar nýtist til þess að bæta jafnréttismenningu innan geirans.
Niðurstöður greininganna sýna að mörgu leyti jákvæða þróun hvað varðar stöðu kvenna og líðan þeirra á vinnustaðnum.
„Hlutfall kvenkyns stjórnarformanna hefur farið úr 25% í 58% á aðeins fjórum árum í orkugeiranum á Íslandi. Þá hefur hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra hækkað um 10% á tveimur árum og er nú 46%“, segir Hildur. Ákvörðunarvald liggur hjá konum í 36% tilfella, en þetta hlutfall mældist 30% fyrsta árið sem skýrslan var gerð. Það er þó enn mikið verk að vinna, en ákaflega fáar konur eru forstjórar í orku- eða veitufyrirtæki á Íslandi af þeim 12 sem lágu til grundvallar skýrslunni og þróunin hefur staðið í stað frá fyrstu skýrslu sem framkvæmd var árið 2017. Þegar þetta er skrifað eru þær aðeins tvær og önnur þeirra lætur af störfum nú í upphafi árs.
Hár starfsaldur og mikil starfsánægja
Hildur segir að hafa verði í huga að starfsaldur í orku- og veitugeiranum er hár, 40% starfsfólks hefur unnið í 40 ár eða lengur, og vonandi verði náttúruleg þróun í átt að betra kynjahlutfalli samhliða almennri endurnýjun starfsfólks.

„Það breytir því þó ekki að við verðum að vera meðvituð um stöðuna og vera tilbúin að gefa öflugum konum tækifæri í æðstu stjórnendastöður þegar það býðst.“
Niðurstöður um líðan starfsfólks í orku- og veitugeiranum sýna að starfsánægja er hærri en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, en 90% segjast ánægð með starfið sitt. Þá er menntunarstig hátt og þekking mikil. Niðurstöðurnar sýna einnig að hlúa má betur að ákveðnum hópum og málum, sem dæmi upplifa konur eldri en 55 ára sem sinna skrifstofustörfum minni starfsánægju og minni hvatningu í starfi en karlar og konur sem sinna öðrum störfum innan fyrirtækjanna í úrtakinu. Einnig sjáum við skýr tækifæri til þess að setja upp hvata til að jafna fæðingarorlofstöku milli kynja, en konur taka 10 mánuði að meðaltali á meðan að karlar taka um þrjá mánuði.
„Niðurstöðurnar sýna að orku- og veitugeirinn ætti að vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir fólk. Það eru einnig mjög spennandi og krefjandi verkefni framundan við orkuskipti og önnur samfélagslega mikilvæg mál og við þurfum fjölbreytt fólk með fjölbreyttan bakgrunn til liðs við okkur til að leysa þau“ segir Hildur.


Fjölbreytt dagskrá
KÍO stendur reglulega fyrir viðburðum þar sem tækifæri gefst fyrir félagsfólk til að hittast og ræða málin. „Félagið stendur fyrir opnum fundum um orkumál, árlega er farið í göngu úti í nátt- úrunni og gjarnan um svæði þar sem eru orku- eða veitumannvirki, og svo er stórskemmtileg árshátíð haldin á ári hverju, til að nefna einhver dæmi“, segir Hildur.
Fyrir nánari upplýsingar um KÍO bendum við á heimasíðu félagsins, www. kio.is, þar sem einnig er hægt að skrá sig í félagið. KÍO er opið öllum þeim sem vilja stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika í orkumálum á Íslandi.