
4 minute read
Drífandi daladísir
Lilja Sverrisdóttir
BókinDrífandi daladísir er saga kvenna sem í byrjun 20. aldar stofnuðu hjúkrunarfélagið Hjálpina í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði, sem síðar varð kvenfélagið Hjálpin. Þær Lilja Sverrisdóttir, Ingibjörg Bjarnadóttir og Sigríður Bjarnadóttir eru höfundar bókarinnar sem byggð er að miklu leyti á fundargerðabókum. Með þessari bókaútgáfu er verið að heiðra þessar konur fyrir þeirra óeigingjarna starf og halda minningu þeirra lifandi um ókomna tíð. En dugnaður og ósérhlífni einkenndi starf þessara kvenna og alltaf voru nýjar félagskonur tilbúnar að taka við keflinu með velferð náungans að leiðarljósi. Meðfylgjandi er umfjöllun Lilju Sverrisdóttur.
Í september síðastliðnum kom bókin okkar Drífandi daladísir út. Í fyrstu var stefnt að því að bókin kæmi út á 100 ára afmælinu en margt reyndist tímafrekara en gert var ráð fyrir, svo sem leit að myndum og samantekt upplýsinga um félagskonur. Allar fundargerðabækur félagsins eru varðveittar sem og ýmis önnur gögn. Þær eru helstu heimildir að sögunni auk minninga félagskvenna. Einnig er margt að finna á netinu (úr blöðum og tímaritum).
Meginefni bókarinnar er saga félagsins ásamt mynd og stuttum texta um hverja félagskonu. Höfundar eru fé- lagskonurnar Ingibjörg Bjarnadóttir, Gnúpufelli, Lilja Sverrisdóttir, Gullbrekku og Sigríður Bjarnadóttir, Hólsgerði. Einnig fengum við til liðs við okkur Gunnar Jónsson frá Villingadal en hans helsta verkefni var söfnun mynda af konum sem voru í félaginu fyrstu áratugina og vinna æviágripa. Þá ritaði hann formálann og kom að prófarkalestri. Lilja var ritstjóri og skipulagði vinnuna við útgáfuna.
100 ára saga
Í bókinni er tekin saman í stórum dráttum hundrað ára saga Hjálparinnar en hún var stofnuð 25. október 1914, sem hjúkrunarfélag í Saurbæjarhreppi sem var fremsti / innsti hreppurinn í Eyjafirði og er nú hluti Eyjafjarðarsveitar. Miklar breytingar hafa orðið á þessum 100 árum eins og í samgöngum en þá ferðuðust konur fótgangandi eða á hestum. Boð voru látin ganga í opnu bréfi með ákveðnu skipulagi á milli bæja og voru kirkjuferðir jafnan notaðar til að koma boðum áleiðis og ræða tiltekin mál. Nú til dags heyrir til undantekninga að gengið sé á milli staða og farsímarnir flytja nú boðin sem áður ýttu undir kirkjusókn.

Margar konur hafa unnið mikið og gott starf í þágu félagsins bæði fyrr og síðar. Eflaust hefur brautryðjendastarfið verið lang erfiðast, en það voru dug- miklar og áhugasamar konur sem stóðu að stofnun félagsins og skipulögðu starf þess. Takmark félagsins var að annast sjúklinga á félagssvæðinu og sjá til þess að þeir fengju nauðsynlega hjúkrun og aðhlynningu lærðrar hjúkrunarkonu vegna berklafaraldurs og fleiri sjúkdóma sem geisuðu á Íslandi á þeim tíma. Þær hrintu af stað hugmyndinni að stofnun heilsuhælisins fyrir berklaveika í Kristnesi og geislastofu á Akureyri. Hugmyndin fékk strax geysilegan stuðning og dreif að gjafir og framlög úr öllum áttum.

Fá ráð dugðu þar til lyf unnu á berklunum og bólusetning hófst gegn barnaveikinni. Hin skæða farsótt „Spænska veikin“ barst sem betur fer ekki norður í land. Framan af var aðstoð við sjúka og fátæka því meginviðfangsefni félagsins. Þegar þörfin fyrir hjúkrun minnkaði í samfélaginu var hætt að kalla félagið hjúkrunarfélag en í staðinn varð það kvenfélagið Hjálpin.
Hj Lpin
Meðfylgjandi ljóð, sem ber heitið Hjálpin er eftir Kristínu Sigfúsdóttur, en ljóðið gaf hún kvenfélaginu á fimm ára afmæli þess og lýsir það vel starfinu á þeim tíma:
Hér er starf frá hreyfing þeirri runnið
„Hjálpin“ líkn, er sjúkum veitir þrótt, kvennastarf af kærleikstoga spunnið keppi ungt að setja merkið hátt.
Sýnið framtíð konur að þið kunnið kærleikans að geyma undramátt, höndum tengdum hugsjón göfgri unnið hikið ei, þótt stundum vinnist smátt.
Blessist Hjálpin, blessist líknargróði býli hverju í okkar fögru sveit, félagskonur þiggið þökk í hljóði þeirri er ykkar mannást vermdi heit.
Það er gull sem geymist vel í sjóði og gildi fær í himnaríkis leit.
Kærleiksandinn lifi í starfi og ljóði landsins kæra yfir hverjum reit.
Kristín Sigfúsdóttir (1876-1953)
Með bættum efnahag hreppsbúa og öflugra heilbrigðiskerfi urðu viðfangsefnin fjölbreyttari og konur gáfu sér tíma til að lyfta sér upp og ferðast.
Fjáröflun og góð skemmtun
Aðalverkefni félagsins áður fyrr var að hlúa að nærumhverfinu með fjáröflun sem fólst í að vera með tombólu, baka og halda basar, sjá um erfidrykkjur o.s.frv. Handverkshátíðin skipaði stóran sess í tekjuöflun félagsins lengi vel en núna erum við aðallega með kaffihlaðborð og veitingar.
Svona félagsskapur er ekki bara „eitthvað svona konufélag.” Lífæð hverrar byggðar er m.a. kvenfélag sem tekur að sér ýmis þurfandi verkefni í samfélaginu. Þá er félagið góður grunnur fyrir konur sem búa í nánd hver við aðra til að hittast og kynnast. Auðvitað hittumst við til baksturs og eldamennsku ef svo ber undir en líka til að gera eitthvað fyrir okkur sjálfar eins og fræðslufundir, matarkvöld, göngur, kynningar, föndur og sitthvað fleira.
Að vera í kvenfélagi er góð skemmtun. Þar skapast tækifæri til að gera góðverk, bæta það sem betur má fara í nærumhverfinu, taka þátt í skemmtilegum verkefnum og síðast en ekki síst að hlúa að okkur sjálfum og skemmta okkur og öðrum.
Skemmtilegar staðreyndir
Einnig má nefna nokkrar skemmtilegar staðreyndir.
Til að mynda var ungfrú Regína Þorsteinsdóttir frá Jökli einungis sjö ára þegar hún gekk í félagið árið 1914 og því yngsta félagskonan fyrr og síðar.
Rósfríður Sigtryggsdóttir frá Samkomugerði, var 16 ára þegar hún gekk í kvenfélagið árið 1919. Hún var gerð að heiðursfélaga árið 1973 og þegar hún lést árið 1990 hafði hún verið félagskona í 71 ár eða lengst allra kvenna í félaginu.
Aldursforseti félagsins á afmælisárinu er Kristbjörg Magnúsdóttir frá Miklagarði, 92 ára og á að baki 70 ára setu í félaginu.
Árið 1919 gerðust hjónin Þorsteinn Breim og Valgerður Lárusdóttir ævifélagar. Þorsteinn var fyrsti og eini karlmaðurinn sem hefur verið í félaginu en árið 2007 var lögum þess breytt þannig að allir, bæði karlar og konur, gætu gerst félagar.
Tækifærisvísur
Meðfylgjandi vísur er urðu til í skemmtiferð kvenfélagsins Hjálparinnar 2. september 1978
Bílstjórinn Eggert Jónsson kvað.
Á ferð með fjölda kvenna á fund við álfa og tröllin. Ljúfan læt ég renna léttan bíl á fjöllin.
Ingibjörg Bjarnadóttir sendi Eggert þessa vísu:
Ferðast um með lífsglatt lið. Lokkaprúða bænda svanna Eggert knúsar kvenfólkið Í krókabeygjum öræfanna.
Eggert svaraði:
Öræfin mitt örvar blóð Í æðum fossar þjóta. Lokkaprúða fagra fljóð Fæ ég þín að njóta?
Það er mikill áfangi að verða 100 ára og þegar farið var að glugga í fundargerðabækur kom ýmislegt skemmtilegt í ljós. Byrjað var á að fara í gegnum allar fundagerðir til að finna heildartölu félagskvenna og á endanum töldust um 231 kona hafa verið starfandi í kvenfélaginu á þessum 100 árum. Alls voru konur 85 talsins þegar flest var í félaginu en árið 2014 voru þær 41 og fimm af þeim voru heiðursfélagar en það verða konur sjálfkrafa þegar þær verða sjötugar.