2 minute read

Endurminning úr barnæsku

Höfundursmásögunnar að þessu sinni er Eygló Ida Gunnarsdóttir. Hún er fædd í Kaupmannahöfn árið 1980 en ólst upp á Kirkjubæjarklaustri ásamt systur sinni, Guðbjörgu Lísu og foreldrum þeirra, Gunnari Þ. Þorkelssyni dýralækni og Jónu S. Sigurbjartsdóttur hársnyrti.

Í dag býr Eygló Ida í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum.

Að sögn Eyglóar Idu hefur í mörg ár blundað í henni einhver ritlistarbaktería; ,,þó ég hafi meira verið að yrkja ljóð heldur en skrifa smásögur. Stuttir prósar,

Sunnudagur

Það hefur snjóað í alla nótt. Stórar snjóflyksur svífa enn löturhægt og hljóðlaust til jarðar. Fönnin liggur jafnt yfir jörðina, svo ósnert og hrein. Kyrrðin er nánast áþreifanleg.

Lágvært ískur rýfur kyrrðina um stund. Dyr á gömlu bárujárnshúsi opnast til hálfs og lítið stelpuskott rekur út freknótt nefið. Hárið stendur í einni flókabendu undan þvældri ullarhúfu sem systkini hennar notuðu líka á sama aldri og kuldagallinn er orðinn helst til stuttur. Loftið ilmar af köldum ferskleika og hún dregur djúpt andann.

Stúlkan fer sér að engu óðslega, laumar sér út um dyragættina og stígur varlega í ósnortinn snjóinn. Fyrst eitt skref. Svo tvö. Svo treður hún út stóran hring í nýju kuldaskónum. Hún finnur skafl og byrjar að moka op fyrir lítið snjóhús. Snjóhúsið verður að leynigöngum. Þar finna ræningjarnir hana aldrei og svo kemur löggan og handtekur bófana og allt verður gott.

Hún býr til snjókarl með stóran maga og langa handleggi. Raunar bara einn handlegg því hún finnur bara eina grein og það er erfitt að brjóta hana í tvennt. Snjóstrumpar, það þurfa líka að vera snjóstrumpar. Svo hún gerir strumpa úr snjó sem eru fullkomnir í hennar augum.

ljóðbrot og hljómfagrar setningar flögra um í heilanum á mér á hverjum degi eins og eyðimerkurrunnar en það er allur gangur á því hvort ég næ að grípa andartakið og festa það á blað“.

Sagan Sunnudagur er endurminning úr barnæsku. Eygló Ida dvaldi löngum stundum í garðinum heima hjá sér, byggjandi strumpa og aðrar fígúrur úr snjónum, niðursokkin í ímyndaðan draumaheim. ,,Þessar stundir eru enn ljóslifandi í minningunni og kominn tími til að festa andartakið á blað; gera tilraun til að teikna tilfinninguna með orðum.“

Svo gerir hún snjókerlingu með stóran barm og flissar með sjálfri sér. Vettlingarnir eru orðnir blautir og hárlokkarnir sem stóðu undan húfunni límast við gagnaugað. Hún leggur vettlingana í snjóskafl og setur kaldar hendurnar í vasann til að hlýja sér svolítið. Á rauðu nefinu er lítill sultardropi. Hún leggst kylliflöt í snjóinn og gerir myndarlegan snjóengil og liggur hreyfingarlaus í sömu stellingu stundarkorn. Yfir henni svífa tístandi smáfuglar í tugatali. Bærinn virðist vera að vakna úr dvala.

Himinninn er litföróttur í ýmsum appelsínugulum blæbrigðum og það er hætt að snjóa. Morgunskíman varpar daufri birtu yfir störf stúlkunnar í garðinum og við blasa ævintýri morgunsins. Snjókarlahjónin – sá einhenti og sú brjóstgóða- standa reisuleg í horni garðsins og við hlið þeirra þrír snjóstrumpar sem fyrir öðrum líta ef til vill út eins og litlar steinvörður á fjalli. Opið inn í leynigöngin er hreint ekki svo leynilegt lengur og myndarlegur snjóengillinn liggur enn á miðri flötinni. Það er mál að fara inn, kuldaboli nístir inn að beini í gegnum blautan kuldagallann.

Smám saman færist líf yfir bæinn. Bæjarbúar vakna einn af öðrum og líta út um gluggann. Þeir hrista höfuðið og bölva snjó og ófærð. Bölva því að helgin sé enn eina ferðina að líða undir lok. Láta sig dreyma um sólarlandaferðir og eyðieyjur og örlitla hvíld frá bláköldum hversdagsleikanum.

Lyktina af nýlöguðu kaffi leggur frá húsunum í bænum og í fjarska heyrist í bíl sem hrekkur ekki í gang.

Gulir vettlingar frjósa í útspörkuðum skafli.

Það er kominn sunnudagur.

Höfundur Eygló Ida Gunnarsdóttir

This article is from: