5 minute read

Raðfrumkvöðull, ævintýramanneskja, bókhaldsnörd og kvenfélagskona

Viðtal við Evu Michelsen

„að láta verkin tala“ á sannarlega vel við Evu Michelsen, sem hefur í gegnum tíðina verið óhrædd við að stíga út fyrir þægindarammann og koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

Orðatiltækið

Sjálf á hún og rekur nokkur fyrirtæki ásamt því að kenna á námskeiðum, veita ráðgjöf, sinna ýmsum frumkvöðlastörfum, sinna félagsstörfum og síðast en ekki síst láta drauma sína verða að veruleika.

Eva Michelsen hefur lengi haft einlægan áhuga og ástríðu fyrir frumkvöðlastarfi. Hún kom að stofnun og rekstri Húss sjávarklasans að Grandagarði, þar sem frumkvöðlar og fyrirtæki tengd sjávarútvegi og haftengdri starfsemi hafa aðstöðu og geta notið leiðsagnar. Einnig kom Eva að því að opna Lífsgæðasetur

St. Jó, þ.e. á gamla St. Jósepsspítala í Hafnarfirði, en þar eiga allir rekstraraðilar það sameiginlegt að auka lífsgæði fólks með einum eða öðrum hætti. Í september árið 2020 opnaði Eva svo formlega Eldstæðið, atvinnueldhús fyrir matarfrumkvöðla og smáframleiðendur, sem staðsett er að Nýbýlavegi 8 í Kópavogi þ.e. gamla Toyota húsinu.

6 mánaða heimsreisa

Eftir 5 ára starf í Sjávarklasanum fór

Eva í 6 mánaða heimsreisu með systur sinni Láru Dawn. Í heilt ár skipulögðu þær systur ferðina. Þær létu eftir sér að prufa allt sem þær höfðu látið sig dreyma um og rúmlega það s.s. að kafa með skjaldbökum, synda með hákörlum, skella sér í fallhlífarstökk, fljúga í hurðalausri þyrlu og margt fleira. Að sögn Evu upplifðu þær systur ótal ævintýri og dásamlega náttúru. ,,Þegar litið er til baka er erfitt að benda á hápunkta ferðalagsins þar sem þetta var allt svo geggjað, en ætli Inkaslóðirnar í Perú og Galapagos eyjarnar séu ekki þau svæði sem standa upp úr“.

Þegar Eva var í heimsreisunni fékk hún að vita að hún hefði fengið inngöngu í bandarískt prógram YTILI, sem ætlað var ungum frumkvöðlum sem vildu kynnast bandaríska stuðningsumhverfinu. Þátttakendum sem fengu inngöngu var boðið til Bandaríkjanna í tvær vikur og þar fengu þeir að kynnast þeirri fjölbreyttu flóru af ýmiskonar stuðningi sem frumkvöðlum og fyrirtækjum stóð til boða í Bandaríkjunum. ,,Þar kynntist ég þessari deili-eldhúsa hugmyndafræði fyrst og féll algjörlega fyrir henni. Því þetta var akkúrat sú aðstaða sem ég hefði viljað hafa aðgang að varðandi ýmsar af mínum hugmyndum. Því má segja að hugmyndin komi til vegna minna eigin þarfa.“ að sögn Evu.

Eldstæðið

Eldstæðið er deili-eldhús fyrir matarfrumkvöðla og smáframleiðendur. Um er að ræða 315 fm húsnæði með full vottuðu eldhúsi, sem búið er öllum helstu tækjum og tólum til matvælaframleiðslu, kæli- og þurrlager ásamt skrifstofu og fundaraðstöðu. Nafnið Eldstæðið vísar til gömlu eldstæðanna, sem voru til staðar í torfbæjum á árum áður og er logo fyrirtækisins í anda þess.

Það er oft á tíðum mikil áskorun fyrir frumkvöðla í matvælaframleiðslu að hefja rekstur hér á landi þar sem strangar kröfur eru gerðar til matvælaframleiðslu og aðgengi að viðurkenndri aðstöðu sem hlotið hefur samþykki heilbrigðisyfirvalda hefur verið af skornum skammti.

Að sögn Evu eru nú um 40 framleiðendur starfandi í Eldstæðinu. ,,Fólk kemur og fer. Nokkur fyrirtæki eru útskrifuð, komin út í rekstur og búin að byggja upp sína eigin aðstöðu annars staðar og það er bara frábært að sjá hugmyndir raungerast með þeim hætti“.

Eva segir að hún hefði aldrei getað gert ein, allt sem gera þurfti til að þessi draumur um Eldstæðið yrði að veruleika. ,,Frábæra tengslanetið mitt gerði algjört kraftaverk varðandi aðstöðuna. Maðurinn minn Gunnar Kristinn Vilbergsson, pabbi, tengdamamma, fjölskylda og vinir lögðust á eitt við að mála, rífa niður, byggja upp, gera og græja“. Hún segist vera á hárréttum stað í lífinu nú, með þetta flotta deili-eldhús og alla matarfrumkvöðlana sína í virkri starfsemi. En auk þess er Eva með nokkur fyrirtæki til viðbótar.

Furðulegur áhugi á bókhaldi

Rassvasi ehf (www.rassvasi.is) er fyrirtæki sem býður upp á almenna bókhaldsþjónustu og fjármálaráðgjöf. Auk þess annast fyrirtækið námskeið og fræðslu um bókhald fyrir einstaklinga, einyrkja og fyrirtæki. Nafn fyrirtækisins vísar til rassvasabókhalds og þess að hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum að komast á réttan stað með bókhaldið, þ.e.a.s. upp úr rassvasanum í gott form. Eva er með mastersgráðu í stjórnun og stefnumótun ásamt því að vera viðskiptafræðingur og viðurkenndur bókari. Hún segist alltaf hafa haft furðulegan áhuga á bókhaldi og því hefur hún mjög gaman af því að sinna bókhaldi bæði fyrir sín eigin fyrirtæki og aðra.

Víravirki.is

Annað fyrirtæki sem Eva á og rekur heitir Víravirki eða viravirki.is Um er að ræða vefsíðu sem er ætlað að vekja áhuga og umtal um íslenskt handverk tengt íslenska þjóðbúningnum, ásamt því að miðla fróðleik og koma þjóðbúningum og þjóðbúningaskarti í notkun.

Forsaga síðunnar er sú, að í ársbyrjun 2018 fékk Eva að gjöf námskeið í þjóðbúningasaumi. Hún valdi sér 20. aldar upphlut með tilheyrandi þjóðbúningasilfri. Eva sagðist ekki hafa verið tilbúin að leggja út fyrir nýju silfri heldur vildi frekar nálgast gamalt silfur og gefa því nýtt líf.

,,Það var lítið að finna á leitarvélum og þurfti ég að leita til ýmissa fróðra aðila til að fá upplýsingar um hverjir það eru sem bjóða þjóðbúningasilfur, hvort sem það er nýtt eða gamalt og í umboðssölu. Eftir því sem ég kláraði búninginn og hef komist meira inn í þjóðbúningasamfélagið uppgötvaði ég að það þarf meira umtal um menningararfinn, verðmæti þjóðbúninga og skartið sem þeim tilheyrir. Það liggur alltof mikið af gömlum þjóðbúningum, auka- hlutum og þjóðbúningasilfri í skúffum og skúmaskotum sem gerir engum gagn.“

Því er vefsíðan unnin af hreinum áhuga Evu á þjóðbúningasilfri og þjóðbúningum.

Michelsen konfekt og

ERM

Enn eitt fyrirtækið sem Eva á og rekur heitir Michelsen konfekt ehf. www.michelsenkonfekt.is Þar framleiðir Eva sitt eigið konfekt, sörur, kökur og alls kyns kræsingar. Eva notar að sjálfögðu aðstöðuna í Eldstæðinu við framleiðsluna. Eva segir að ef það er nógu mikið af smjöri, eggjum og rjóma í uppskriftum sé hún örugglega að prófa sig áfram með þær.

Að sögn Evu þá tekur hún einnig að sér ýmiss konar verkefnastjórnun, ráðgjöf og kennslu. Í vetur var hún t.d. að kenna hjá Háskólanum í Reykjavík áfangann ,,Nýsköpun og stofnun fyrirtækja“ .

Uppfærð ímynd kvenfélagskonunnar

Eva hefur verið í Félagi kvenna í Kópavogi allt frá stofnun þess þ.e. frá því 1. febrúar árið 2019. Hún segist ekki hafa haft neina reynslu af því að vera í kven- félagi fyrr en hún var dregin inn í þetta starf af vinkonu sinni Bryndísi Steinu Friðgeirsdóttur, fyrsta og núverandi formanni FKK. Eva segir að félagsskapurinn sé frábær, þarna hittist konur, fræðist, hafi gaman og gefi af sér til samfélagsins. Í Félagi kvenna í Kópavogi eru milli 50 og 60 konur.

Eva segist hafa viljað uppfæra ímynd kvenfélagskonunnar í takt við breytta tíma. ,,Það er alls ekki svo að kvenfélagskonan sé eldri kona sem er bara í því að baka, föndra og prjóna heima, heldur er þetta alveg frábært starf sem verið er að vinna og það er verið að leggja svo ótrúlega mikið af mörkum til samfélagsins í formi sjálfboðavinnu á ótal sviðum. Þetta er hreinlega geggjað starf sem verið er að vinna af kvenfélögum landsins“

Stuttu eftir að félagið var stofnað skall heimsfaraldurinn á með öllum þeim afleiðingum sem við þekkjum og það hafði auðvitað áhrif á starfsemi félagsins að sögn Evu. Félagið hefur undanfarið verið að efla tengslanetið milli kvenfélaga og landshluta með heimsóknum og hafa þær heimsóknir verið afar ánægjulegar og vel tekið á móti félagskonum.

Eva segir að kvenfélögin tvö í Kópavogi þ.e. Félag kvenna í Kópavogi og

Kvenfélagið Freyja sinni ákaflega mikilvægu starfi í bæjarfélaginu. Þau reka t.d. í sjálfboðaliðastarfi Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Orlofsnefnd Kópavogs.

This article is from: