
3 minute read
DÓTTIR

Leið mín til tveggja heimsmeistaratitla í CrossFit
Varp H Fundar
Eftirnöfn á Íslandi þykja mörgum athyglisverð því þau fylgja hefð frá dögum forfeðra okkar. Við erum öll synir eða dætur föður okkar eða móður. Pabbi minn heitir Davíð, þannig að ég er Davíðsdóttir og bróðir minn er Davíðsson.
Árið 2009 var CrossFit enn lítt þekkt meðal fólks utan raða þeirra sem stunduðu íþróttina. Þegar Annie Þórisdóttir skaust skyndilega inn á sviðið á öðrum heimsleikanna í CrossFit vakti það talsverða athygli á landi og þjóð. Tveimur árum síðar hlaut hún titilinn „Hraustasta kona heims“.
Á næsta áratug efldist ráðandi staða íslenskra kvenna samhliða íþróttinni, Annie, Sara Sigmundsdóttir og ég börðumst um fyrsta sætið á leikunum. Þórisdóttir, Sigmundsdóttir og Davíðsdóttir. Eitt land. Þrjú hundruð og þrjátíu þúsund íbúar. Tíu sinnum á verðlaunapalli. Fjórir heimsmeistaratitlar. Tvenn silfurverðlaun. Fjögur brons. Allt dætur.
Dætur eru ekki lengur undrunarefni á CrossFit-leikunum, við erum afl sem tekið er tillit til. Orðið dóttir hefur ummyndast í táknmynd krafts, styrkleika og atgervis. Gildi Crossfit-samfélagsins fellur að öllu leyti að menningu okkar.
Við metum hæfileika umfram útlit. Við metum og virðum erfiða vinnu. Tilfinning fyrir samheldni hópsins sem og samfélagsins treystir einingu okkar.
Ísland býr að auki að einhverju mesta kynjajafnrétti í heiminum, þannig að mér er afar mikilvægt að menn og konur keppi í sömu greinum og fái sömu verðlaunaupphæð og sjónvarpstíma.
Ég er svo stolt af að taka þátt í þessari íþrótt, og ekki síður stolt af því að vera dóttir og fannst viðeigandi að bókin mín héti DÓTTIR.
Ég vona að lestur þinn um vegferð mína auki þér sjálfstraust um hæfileika þína. Ég vona að þú trúir að með sleitulausri vinnu og seiglu getir þú líka gert hvaðeina sem þig dreymir um. Ég vona að þú finnir sama innri styrk og kraft og „dóttir“ gefur mér.
Ég samgleðst þér að vera besta útgáfan af sjálfri þér!
Úr kaflanum:
ÞÚ VINNUR EÐA ÞÚ LÆRIR, 6. ágúst 2017 (Lokadagur heimsmeistarakeppni
Reebok Crossfit-leikanna í Madison í Wisconsin)
Þegar ég horfi á sjálfa mig í speglinum reyni ég að hugsa um eitthvað annað en það sem blasir við mér. Kannski verða hendur mínar ekki þaktar siggi, kannski verð ég verkfræðingur eins og ég ætlaði mér. Eða lögfræðingur eins og afi minn. Kannski eignast ég hund eða kærasta. Sársaukinn í upphandleggsvöðvunum minnir mig á að þetta kaus ég. Ég er atvinnukona. Ég hef kosið að lifa eftir reglum sem leyfa aðeins smávægileg frávik hvað varðar lífsstíl; mataræði, hvíld og æfingar.
Úr kaflanum: ÍSLAND „Ef hægt er að bjarga heiminum munu konur gera það“ – VIGDÍS FINNBOGADÓTTIR, FYRRVERANDI FORSETI ÍSLANDS.
Á Íslandi hafa konur með árunum orðið enn atkvæðameiri. Þegar ég ólst upp var mér aldrei sagt að ég gæti ekki gert eitthvað vegna þess að ég væri stúlka eða gæti ekki orðið jafn sterk og strákur. Ég vissi að ég gæti gert það sama og aðrir. Það þýddi ekki að það væri auðvelt, en að það væri hægt. Ég var alin upp við þessi viðhorf og hefði talið þau sjálfsögð og eðlileg – ef ég hefði ekki ferðast um heiminn.
Úr kaflanum:
HJARTSLÁTTUR – „Það verð sem við greiðum fyrir ástina er sorgin“
- ELÍSABET II BRETADROTTNING. Eftir að ljóst varð að ég myndi yfirgefa Ísland urðu samræður okkar ömmu angurværari. Amma gerði sitt besta til að setja hlutina í samhengi. „Katrín, við ætlum að gera þetta núna.“ Hún talaði alltaf eins og við tvær værum ein og sama manneskjan. „Við munum sakna hvor annarrar en við viljum verða bestar í heiminum og þá verðum við að gera þetta.“
Amma hafði óþrjótandi ímyndunarafl og mikla sköpunargáfu. Hún hafði svo gaman af að segja mér álfasögur. Hún átti safn af múmínbollum með myndum af litlum sætum múmínálfum og öðrum verum við leik og störf. Þessar litríku myndir endurspegluðu persónuleika ömmu, hún var svo ung í anda. Hún átti 10 eða 15 bolla sem hún notaði til skiptis í morgunkaffinu. Daginn sem ég flutti til Boston laumaði hún einum í töskuna mína á leiðinni út á flugvöll. Í bollanum var handskrifaður miði:
Til þín elsku Katrín, Horfðu...
...til baka á það sem þú hefur nú þegar komið til leiðar, ...upp og trúðu þvi að himinninn verði heiður, ...niður til að vera viss um að þú farir réttu leiðina, ...fram á við og til sigurs á sérhverri hindrun.
Heilræði frá ömmu
Næst nafni sínu hafði hún teiknað fallegt brosandi andlit. Þessi miði varð mér dýrmætur. Hann fylgir mér og ég les hann oft, stundum upphátt. Ég lifi samkvæmt þessum fjórum grunnreglum. Þetta er meira en minnismiði til mín, þetta eru stefnumið mín.
Texti: Sigríður IngvarsdóttirMyndir: Silla Páls