
8 minute read
Heimsmeistari og kvenfélagskona
Viðtal við Katrínu Tönju Davíðsdóttur
afrekskonu í CrossFit
Katrín Tanja Davíðsdóttir er sannarlega góð fyrirmynd þegar kemur að hreysti og heilbrigði, metnaði og dugnaði. Hún er óhrædd við að elta draumana og leggur mikið á sig til að ná árangri, enda hefur hún náð árangri á heimsmælikvarða. Þessi glæsilega unga kona er fædd í London 10. maí 1993 en er alin upp á Íslandi. Hún hefur tvisvar orðið heimsmeistari í CrossFit en það var árin 2015 og 2016. Hún er önnur íslenska konan sem nær að verja heimsmeistaratitilinn í greininni en áður hafði Annie Mist Þórisdóttir náð þessum árangri er hún varð heimsmeistari árin 2011 og 2012.
Katrín Tanja lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og hefur stundað nám í lögfræði og verkfræði. Hún æfði fimleika í tíu ár, en 18 ára gömul hóf hún að æfa crossfit og náði strax mjög góðum árangri í greininni. Um þessar mundir býr hún í Idaho í Bandaríkjunum með sambýlismanni sínum, Brooks Laich, sem er fyrrverandi íshokkíleikmaður. Þessi lífsglaða, jákvæða kona tók því vel að koma í viðtal hjá tímaritinu Húsfreyjunni og gefa lesendum innsýn í líf sitt og svara hinum ýmsu spurningum.
Lífið í dag og daglega rútína
Ég bý í æðislegum bæ sem heitir Coeur
D´Alene og er efst í Idaho í Bandaríkjunum. Þetta er alveg ótrúlega lítill bær en algjör paradís! Við búum þar saman ég og kærastinn minn, Brooks Laich, með voffalingana okkar tvo, Koda og Theo. Það er svo fyndið að á Íslandi hef ég alltaf verið algjör miðbæjardama og vil helst bara vera í 101 - en núna er ég að upplifa að búa meira afsíðis og umlukin alveg ótrúlega mikilli náttúru og ég nýt þess svo miklu meira en ég hefði nokkurn tímann búist við!
Við Brooks erum bæði mjög mikið rútínufólk og ég held það komi frá íþróttunum. Hann var atvinnumaður í íshokkí í rúm 15 ár. Við reynum helst að vakna aldrei við vekjaraklukkku og leyfa líkamanum að fá alltaf þann svefn sem hann þarf - vöknum samt yfirleitt á milli 6:30 og 7:30 á morgnana. Þá hleypum við hundunum út á meðan við búum til morgunmat og fáum okkur kaffibolla. Við elskum rólega morgna. Yfirleitt sitjum við aðeins eftir morgunmatinn og svörum tölvupóstum eða tökum símafundi. Klukkan 9 erum við svo mætt á æfingu. Við erum með frábæra heimaaðstöðu, sem eru algjör forréttindi. Það tekur okkur um það bil 10 sekúndur að labba í gymmið! Brooks kemur alltaf með mér á fyrri æfingu dagsins og ég æfi yfirleitt til kl 13 en hann fer svo að vinna eftir hádegi. Ég fer yfirleitt upp í hús og útbý hádegismat fyrir okkur. Eftir það fer ég alltaf í góðan göngutúr með hundana. Þeir eeeeeeelska göngutúrinn sinn og ég elska þennan gæðatíma með þeim!! Klukkan 15 fer ég svo yfirleitt á seinni æfingu dagsins. Ég klára daginn minn yfirleitt alltaf á milli klukkan 1718. Brooks er algjör herramaður og er yfirleitt búinn að kveikja eld fyrir mig þegar ég kem aftur upp í húsið, sem er ótrúlega kósý. Þá eldum við kvöldmat og svo slökum við bara á, yfir góðum þætti eða spjöllum í sófanum. Við erum svo alltaf komin upp í rúm bara um 21:30.
Hollt, gott og hreint mataræði Mataræðið skiptir ótrúlega miklu máli fyrir íþróttafólk. Ég krefst rosalega mikils af líkamanum mínum og þarf að gefa honum góða orku í staðinn! Ég reyni samt bara aðallega að borða hollan og góðan og hreinan mat. Ég borða mjög mikið af grænmeti, ávöxtum, eggjum, allskonar kjöti og fiski síðan borða ég líka alltaf beyglu með morgunmatum, hafra með hádegismatnum og hrísgrjón, pasta eða kartöflur með kvöldmatnum, til að passa upp á að ég sé líka að fá inn nóg af kolvetnum. Ég hef gengið í gegnum allskonar bylgjur með mataræðið en það sem ég hef fundið að virkar best fyrir mig er að borða HOLLT og að borða nóg. Auðvitað leyfi ég mér einstaka sinnum smá súkkulaði í desert það er bara svo gott fyrir sálina.
Hef aftur fundið eldmóðinn Ég er nýlega búin að skipta um þjálfara og er nú undir handleiðslu Mat Fraser. Hann er fimmfaldur heimsmeistari karla og við vorum æfingafélagar í mörg ár. Það er búið að vera ótrúlega gaman að vinna með honum, þetta er mjög erfitt og miklar æfingar, en ég treysti honum mjög vel og treysti því að ég sé að gera rétta hluti. Þá þarf ég bara að leggja inn vinnuna.
Framundan er mót hjá okkur Annie Mist í Miami en við ætlum að keppa saman í liði með Mal O´Brien en hún er einungis 19 ára gömul og er ein efnilegasta CrossFit konan í dag. Eftir það mót taka aftur við rútína og æfingar. Síðan fer keppnistímabilið að byrja. Ég hef alls ekki átt nógu góð síðastliðin ár en mér finnst ég hafa fundið eldmóðinn aftur inni í mér. Ég hef æft meira og betur en ég hef gert í langan tíma. Ég þarf aftur að læra að treysta á sjálfa mig. Mig langar svo til að sjá hvað ég get gert, ég finn að ég get enn orðið svo mikið betri. Mig langar að ná aftur á pall á Heimsleikunum! Hvort sem það gerist aftur eða ekki þá vil ég gefa allt sem ég á í það og að minnsta kosti vita að ég gaf sjálfri mér séns. Það er þvílíkt ævintýri að fá að elta það að verða best í heimi í einhverju!
Elska áskoranir
Það að vera atvinnumanneskja í CrossFit er það skemmtilegasta sem ég geri, það erfiðasta sem ég geri, mest krefjandi og mest áskorun, mest gefandi. Ég hef ALLTAF elskað áskoranir og alltaf elskað það að reyna að verða best í einhverju. Í rauninni er þetta fullkomin íþrótt fyrir mig. Ég er alveg ótrúlega heppin að vera í þeirri aðstöðu að fá að gera þetta að minni atvinnu. Ég elska að vakna spennt yfir því sem ég er að fara gera þann daginn og ef það er eitt sem ég gæti innstillt í ALLA, þá væri það að allir væru með eitthvað sem þau myndu brenna fyrir! En þetta er auðvitað ekki áreynslulaust. Það er margt sem ég hef oft þurft að fórna og það er í rauninni aldrei “off” takki á því að vera atvinnumaður í íþrótt .... en þetta er líka VAL og ég hef alltaf reynt að horfa á þetta þannig. Íþróttaferillinn er ekki endalaus. Ég vil fá sem mest út úr ferlinum mínum á meðan ég hef tækifæri til. Ég er líka svo ótrúlega heppin að fá að gera þetta með bestu vinkonu minni, Annie Mist. Einnig er Brooks, kærastinn minn, mesti stuðningur sem ég nokkurn tímann gæti hugsað mér. Síðan er fjölskyldan mín mestu og bestu klappstýrur sem hægt er að hugsa sér. Á erfiðum dögum koma markmiðin mín og fólkið mitt, mér í gegnum erfiðleikana.
Ég get fundið jákvæða reynslu og lærdóm sem silfurþráð í nánast hvaða aðstæðum sem er.
Ég hef alveg óbilandi trú á að ég geti hvað það sem ég ætla mér og drifkraft til þess að vinna fyrir því.

Ég get tekið uppbyggjandi gagnrýni og í rauninni sækist mjög eftir henni.
Það er alltaf stutt í hláturinn hjá mér sem gerir lífið svo miklu auðveldara og margfalt skemmtilegra.
Kvenfélagskona eins og amma og mamma
Amma mín, Hervör Jónasdóttir, hafði verið kvenfélagskona og í stjórn Hvítabandsins frá því að ég man eftir mér. Ég man svo oft eftir því að hafa verið hjá ömmu og afa á meðan það voru stjórnarfundir í stofunni hjá þeim. Þar á undan var það mamma hans afa sem var í stjórn Hvítabandsins, svo það er löng hefð fyrir því í minni fjölskyldu að konur séu í kvenfélagi og taki virkan þátt í starfi þeirra. Ég hef alla tíð litið svo ótrúlega upp til ömmu og viljað feta í hennar fótspor svo kannski var það alltaf bara tímaspurssmál þar til ég gekk sjálf í félagið, en við mamma, Oddfríður Helgadóttir, gerðum það saman fyrir nokkrum árum, sem mér þykir svo ótrúlega vænt um. Hún hefur verið mun virkari í félagsstörfunum heldur en ég, en ég hef reynt að mæta alltaf með henni þegar ég hef verið á landinu. Það mun koma tími þar sem ég get verið meiri hluti af því sem Hvítabandið er að gera, en þangað til finnst mér ótrúlega gaman að mæta og byrja að minnsta kosti að kynnast hinum félagskonunum. Þetta er alveg ótrúlegt tengslanet þvílíkt flottra kvenna. Fyrir mér er það líka ótrúlega mikill heiður og einskonar fjölskyldustolt að fá að vera hluti af þessu kvenfélagi.
Bókin DÓTTIR
Katrín hefur skrifað bók, sem ber heitið ,,Dóttir - Leið mín til tveggja heimsmeistaratitla í CrossFit“. Bókina skrifaði hún á ensku í samvinnu við Rory McKerman og fjallar bókin um líf hennar og íþróttaferil. Afi Katrínar, Helgi Ágústsson fv. sendiherra þýddi bókina yfir á íslensku. En hvernig kom það til að þú skrifaðir þessa bók?

Ég elska reynslusögur og ég hef alltaf getað fundið svo mikinn innblástur eða lærdóm frá annarra manna ferlum, hvort sem það er í íþróttum, viðskiptalífinu eða skemmtanageiranum. Mér finnst það bæði bara virkilega áhugavert að fá að heyra sögur annarra og svo finnst mér einhvern veginn að ef ein mann- eskja gat eitthvað, þá hlýt ég að geta gert það líka. Það er ALLSKONAR sem fólk hefur yfirstigið og komist í gegnum rosalega mótvinda sem ég hef oft getað nýtt mér í mínum erfiðleikum. Ætli það hafi ekki verið það sem að fékk mig til að vilja skrifa bók. Bara að fá að deila minni sögu. Kannski er einhver kafli í bókinni sem veitir einni stelpu innblástur eða hjálpar annarri að halda í þrautseigju í gegnum erfitt tímabil. Það hafa allir sína sögu og þegar maður stoppar til þess að hlusta þá er hver einasta manneskja alveg virkilega áhugasöm . Maður heldur svo oft að maður viti allt og þekki alla, en svo verður maður yfirleitt mjög skemmtilega ,,surprised“ ef maður bara stoppar og spyr.
Horft til framtíðar
Mig langar til þess að keppa í nokkur ár til viðbótar - en svo er ég alveg ótrúlega spennt að fá að ferðast meira og upplifa heiminn með Brooks. Hann er algjör ævintýrakarl og ég hlakka svo til þess að hafa meiri tíma og tækifæri til þess að ferðast þegar íþróttirnar ráða ekki alveg öllu. Fá að smakka allskonar mat og upplifa mismunandi menningarheima. En svo allra mest þá vonast ég til að við eignumst fjölskyldu saman. Mér finnst líklegt að við munum búa úti í
Það þarf virkilega mikinn kjark og þor til að þora að elta draumana sína með öllu því sem maður hefur. Við eigum það öll skilið að gefa okkur sjálfum alvöru séns!
Idaho, en ég mun alltaf vilja eiga heimili okkar hér á Íslandi líka. Ég er algjör fjölskyldukerling og fjölskyldan mín er með ,,family dinner“ einu sinni í viku sem er ein skemmtilegasta og besta hefð sem ég þekki. Bestu vinkonur mínar eru líka á Íslandi og svo er bara eitthvað við það að vera heima, svo mikið ,,comfort“ í því að þekkja allt og alla. Heimurinn er líka alveg ótrúlega lítill ef maður lætur hann vera það. Það er hægt að hoppa upp í flugvél og vera komin heim eftir nokkra klukkutíma þegar maður vill.
Við Annie Mist erum líka búnar að vera í nokkur ár að vinna að ,,DOTTIR“ og það er annað sem ég hlakka svo ótrúlega til að geta dembt mér í meira þegar við erum báðar hættar að keppa. Það er svo margt sem að okkur langar að gera og byggja upp. Við höfum nú þegar gefið út heyrnartól, en okkur vantaði sjálfar heyrnartól sem myndu þola svitann og dyttu ekki úr við hamaganginn í t.d. ,,burpees“. Við gáfum út barnabók í fyrra sem var tvímælalaust skemmtilegasta ferli sem við báðar höfum verið partur af. Bókin heitir “What is the way?” og við erum að vinna í íslenskri þýðingu á henni. Nýjasta verkefnið okkar var að byrja með ,,podcast“ þætti og svo erum við að stefna að nýju spennandi verkefni i haust sem ég er svo spennt að geta deilt með öllum síðar.

Góð ráð til ungra stúlkna með stóra drauma
Að ÞORA að elta draumana sína. Það getur oft verið mjög ,,scary“ að segja hlutina upphátt ef maður skyldi ekki ná þeim eða að virkilega gefa 100% í það sem mann langar til, því hvað ef maður er ekki með plan B, ef það mistekst. Það þarf virkilega mikinn kjark og þor til að elta draumana sína með öllu því sem maður hefur en það er VIRKILEGA
SKEMMTILEGT og sama hvað: við eigum það öll skilið að gefa okkur sjálfum alvöru séns!