
3 minute read
H ÚSFREYJUNNAR Kvenfélagskonan
Kvenfélagasamband
Íslands var stofnað 1. febrúar árið 1930, til að kvenfélög landsins ættu sér ákveðinn samstarfsvettvang. Árið 2010 var stofndagurinn 1. febrúar formlega nefndur ,,Dagur kvenfélagskonunnar“ til að vekja athygli á því mikla og óeigingjarna starfi sem kvenfélagskonur um allt land hafa sinnt í gegnum árin. Dagurinn hefur fest sig í sessi á undanförnum árum og er það vel.
Í gegnum árin hafa kvenfélagskonur lagt á sig ómetanleg störf til að bæta samfélagið okkar. Þær hafa sinnt fórnfúsu starfi til að koma góðum málum til leiðar. Með elju, útsjónarsemi, áhuga og eftirfylgni hafa kvenfélög landsins komið að ótal söfnunum fyrir tækjum, búnaði og fjármagni til að styðja við hin ýmsu góðgerðarsamtök, stofnanir og einstaklinga ásamt því að leggja hönd á plóg varðandi fjölmörg samfélagsverkefni.
Febrúarblað Húsfreyjunnar hefur gjarnan verið tileinkað kvenfélagskonum og er hér engin breyting á, enda tímaritið blað Kvenfélagasambands Íslands. Markmið Kvenfélagasambandsins er m.a. að hvetja konur til áhrifa í þjóðfélaginu, vinna að jafnréttismálum, stuðla að hag heimilanna og styðja við mál sem efla vináttu og frið. Þessi markmið eiga svo sannarlega enn sitt erindi við okkur í dag, ekki síður en þegar Kvenfélagasambandið var stofnað fyrir 93 árum.
Markmiðin mikilvæg
Við þurfum enn á því að halda að hvetja konur til áhrifa í þjóðfélaginu þegar hallar t.d. enn mikið á hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja, en einugnis 30-35% stjórnarmanna í stórum fyrirtækjum eru konur, þrátt fyrir að það liggi fyrir að þau fyrirtæki sem hafa konur í stjórn skili betri árangri. Á meðan ástandið í nágrannalöndum okkar hvað þessi mál varðar er að þróast í rétta átt, þá virðist því miður sem Ísland standi í stað.
Enn þarf að vinna að jafnréttismálum þar sem víða hallar verulega á konur. Oft er talað um að þriðja vaktin falli mun þyngra á konur en karla. Þegar rætt er um þriðju vaktina þá er samhengið þar að fyrsta vaktin sé launað starf, sem unnið er utan heimilis. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er með því hæsta sem gerist í heiminum eða yfir 80%. Önnur vaktin er síðan fólgin í því sem þarf að sinna á heimilinu þ.e. hefðbundin heimilisstörf og umönnun barna o.fl. Þriðja vaktin er hins vegar allt þetta auka skipulag, skutl og stúss sem þarf að sinna bæði utan og innan heimilisins. Rannsóknir hafa sýnt að þar bera konur miklu meiri ábyrgð. Þriðja vaktin er jafnvel talin vera hamlandi fyrir konur á vinnumarkaði þegar kemur að aukinni ábyrgð og stöðuhækkunum, auk þess sem hún getur haft áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði, réttindi í lífeyrissjóðum og jafnvel verið hluti af óútskýrðum launamun kynjanna.
Heimilin eru oft á tíðum kjölfestan í lífi okkar. Þar er okkar skjól og samvera og þar fer fjölskyldulífið að stórum hluta fram. Að stuðla að hag heimilanna er afar metnaðarfullt og yfirgripsmikið markmið sem kemur öllum til góða. Hagur heimilanna er okkar hagur og er samofinn öllu okkar lífi. Hagur heimilanna kemur inn á fjármál og lífskjör þjóðarinnar. Að efla vináttu og frið er markmið sem á alltaf að vera í hávegum haft. Undanfarið höfum við því miður upplifað stríð í Evrópu og séð afleiðingar þess í ömurlegum birtingarmyndum og enn sér ekki fyrir endann á þeim átökum sem nú eiga sér stað. Við þurfum ætíð að viðhafa friðarboðskap og efla vináttu hvar sem því verður við komið. Vinátta er ómetanleg og veitir gleði og styrk.
Í gegnum starf kvenfélaga í áranna rás hafa orðið til sterk vináttubönd. Vinátta sprettur af væntumþykju, góðvild og kærleiksböndum. Okkur þykir ánægjulegt að eyða tíma saman og takast á við sameiginlegt verkefni með vinum okkar og ég fullyrði að góð vinátta svífi jafnan yfir vötnum í starfsemi allra kvenfélaga á Íslandi.
Þó samfélagið hafi tekið miklum breytingum frá því að Kvenfélagasambandið var stofnað er hlutverk kvenfélaganna enn afar mikilvægt. Í huga mínum er aðdáun og þakklæti fyrir allt það fórnfúsa starf sem kvenfélagskonur um allt land hafa unnið í gegnum tíðina.
Sigríður Ingvarsdóttir
Útgefandi: Kvenfélagasamband Íslands. 1. tölublað, 74. árgangur, febrúar 2023 Tímaritið Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári: Í febrúar, maí, september og nóvember. Húsfreyjan er gefin út bæði á pappír og rafrænt. Árgangurinn kostar kr. 5.900 í áskrift, m. vsk. Hvert blað kostar í lausasölu kr. 1.990. Útgáfustjórn: Björg Baldursdóttir formaður, Garðabæ, Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri, Rangárþingi eystra, Eva Hilmarsdóttir, Eyjafirði, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Selfossi og Þóra Sverrisdóttir, A-Húnavatnssýslu.
Til vara: Guðný Valberg, Rangárþingi og Linda B. Sverrisdóttir, Borganesi. Ritstjóri: Sigríður Ingvarsdóttir, singvarsd@gmail.com.

Viltu gerast áskrifandi?
Prófarkalesari: Björg Baldursdóttir. Ábyrgð: Kvenfélagasamband Íslands.
Auglýsingar: Kvenfélagasamband Íslands, husfreyjan@kvenfelag.is, sími 552 7430, husfreyjanauglysingar@gmail.com.
Kvenfélagasamband Íslands: Hallveigarstaðir Túngötu 14, 101 Reykjavík.
Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is. Heimasíða: www.kvenfelag.is. Sími 552 7430.
Ljósmyndari Húsfreyjunnar: Silla Páls - www.mirrorrose.com
Umbrot og prentun: Prentmet Oddi á Selfossi - Umhverfisvottuð prentsmiðja. Húsfreyjan er prentuð á umhverfisvænan pappír.
Þú getur skráð þig í áskrift inni á husfreyjan.is eða hringt í síma 552 7430.