9 minute read

Skýrsla stjórnar

Next Article
Vallarnefnd

Vallarnefnd

Stjórnarstörf

Eftir síðasta aðalfund, sem haldinn var 28. nóvember 2019, var stjórn GKG svona skipuð: Guðmundur Oddsson, formaður Ásta Kristín Valgarðsdóttir, varaformaður Ragnheiður Stephensen, ritari Sigurður Kristinn Egilsson, gjaldkeri Björn Steinar Stefánsson, meðstjórnandi Einar Gunnar Guðmundsson, meðstjórnandi Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir, meðstjórnandi Sigmundur Einar Másson, meðstjórnandi Tómas Sigurðsson, meðstjórnandi

Advertisement

Stjórnin hélt 8 bókaða fundi á starfsárinu og skipaði hún formann, gjaldkera og framkvæmdastjóra í samninganefnd við Garðabæ vegna breytinga sem verið er að gera á athafnasvæði GKG. Nefndin hefur haldið nokkra fundi og má segja að málin þokist áfram í góðum anda. Stjórnarmenn gegna formennsku í hinum ýmsu nefndum á vegum klúbbsins og þannig fylgjast þeir náið með allri starfsemi hans.

Starfsfólk

Það er gæfa okkar að hafa samhenta og trausta lykilstarfsmenn, sem hafa verið kjölfestan í rekstri klúbbsins undanfarin ár: Agnar Már Jónsson framkvæmdastjóri frá 2012 Guðmundur Árni Gunnarsson vallarstjóri frá 2001 Úlfar Jónsson íþróttastjóri frá 2004 Guðrún Helgadóttir skrifstofustjóri frá 2010 Guðni Þorsteinn Guðjónsson aðstoðarvallarstjóri frá 2018 Hafsteinn Eyvindsson vélamaður frá 2010 Fannar Aron Hafsteinsson verslunarstjóri frá 2019 Andrés Guðmundsson þúsund þjalasmiður frá 2016 Arnar Már Ólafsson afreksþjálfari frá 2019 Ástrós Arnarsdóttir þjálfari og skrifstofumaður frá 1. nóv 2019 Andrés Jón Davíðsson þjálfari frá 1. jan 2020 Birgir Leifur Hafþórsson viðburðar- og markaðsstjóri frá 15. ágúst 2020

Vignir Hlöðversson hefur séð um veitingarekstur frá því síðla árs 2016 og verður vonandi áfram svo lengi sem hann hefur nennu til. Á sumrin bætist verulega í starfsmannahópinn hjá okkur og lætur nærri að starfsmenn séu á mill 50 og 60 þegar best lætur.

Félagar í GKG

Árið 2020 eru 1989 skráðir í GKG, sem er fjölgun um 174 frá síðasta ári. Auk þess eru 480 börn, sem voru á golfleikjanámskeiðum, og er það fjölgun um 242 frá fyrra ári. Í ár eru 1285 fullborgandi félagar og að auki 114 á aldrinum 19 – 25 ára, sem borga nokkru lægra árgjald. Ellismellir eru nú 248 en voru 244 í fyrra, en nokkur fjölgun hefur orðið í aldurshópnum 11 – 18 ára frá fyrra ári, en þar eru nú 342 en voru 241. Karlar eru 67, 2%, en konur eru 32, 8%. Það er markmið okkar að jafna kynjamun í klúbbnum á tímum jafnréttis með því að laða fleiri konur í klúbbinn. Við höfum oft talað um það að æskilegt sé að fullborgandi félagar séu um 1300 og nú höfum

við náð þeirri tölu. Því má segja að klúbburinn sé fullur. Á hverju ári verða nokkrar breytingar á félagaskránni og nú í nokkur ár hafa um 15% félaga hætt á hverju ári, en sem betur fer hefur nánast sami fjöldi komið í staðinn. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist á næsta ári.

Félagsstarfið

Með tilkomu nýju íþróttamiðstöðvarinnar hafa opnast ýmsir möguleikar fyrir félagsmenn til að efla félagsstarfið. Kvennanefndin hefur starfað af miklum dugnaði undir stjórn Ástu Kristínar Valgarðsdóttur. Konurnar hafa verið með ýmis mót og aðrar uppákomur, sem er mjög til fyrirmyndar og hefur dugnaður þeirra vakið athygli hjá öðrum klúbbum. Eins hefur starf eldri kylfinga verið mjög kröftugt undir stjórn Hrefnu Sigurðardóttur. Þá er komin nokkur festa í skipulagðar golfferðir á vegum GKG, en reynt er að fara tvær ferðir á ári, bæði vor og haust. Covid19 hefur valdið því að ekkert varð úr ferðum í ár, en við gerum okkur vonir um að næsta ár verði betra og við getum aftur farið saman í golfferðir. Við höfum farið til Búlgaríu, Póllands, Portúgals og Spánar og hafa um 40 – 60 manns verið í hverri ferð. Mikil gleði og ánægja hefur verið með þessar ferðir og því er bara að fylgjast vel með hvenær næst verður farið, því fyrstir koma, fyrstir fá.

Vellir GKG

Vellirnir okkar, Mýrin og Leirdalurinn, eru jú það sem allt snýst um og því er það grundvallaratriði að þeir séu ávallt í sem bestu ástandi en vitaskuld ræður tíðarfarið miklu um ástand þeirra. Þeir komu vel undan vetri að sögn vallarstjóra og voru þeir opnaðir 12 maí og var þeim endanlega lokað 31. okt. Þetta Covid19 – sumar kallaði á ýmsar breyttar umgengisvenjur á völlunum, sem félagsmenn tóku með miklu jafnaðargeði. Í skýrslu vallarstjóra kemur fram að miklar framkvæmdir voru á völlunum í sumar, eins og félagsmenn hafa væntanlega orðið varir við. Starfsmenn vallanna eiga sannarlega hrós skilið fyrir góða vinnu, sem miðar alltaf að hinu sama, þ.e. að gera vellina betri og betri. Ég vona að ég tali fyrir hönd allra félagsmanna í GKG þegar ég segi, að nú erum við komin með glæsilega golfvelli, sem við getum verið stolt af. Í framhaldi af stækkun íþróttamiðstöðvarinnar var farið í að gera nýja 2000 ferm. púttflöt sunnan við húsið. Vegna tafa hjá verktakanum um tvo mánuði gátu starfsmenn okkar ekki byrjað á sinni mótunarvinnu fyrr en um miðjan ágúst. Þessi töf olli því að ekki var hægt að sá í flötina nú í haust, sem aftur mun seinka því að hún verði tekin í notkun. Við verðum alltaf að vera vakandi fyrir því að vélakosturinn okkar sé endurnýjaður reglulega. Við höfum reynt að sjá til þess að vélarnar verði ekki of gamlar, en samt erum við með tæki sem eru frá árinu 1995 og eru því búin að skila sínu. Töframanninum Hafsteini Eyvindssyni vélamanni hefur tekist að halda þessum tækjum gangandi öll þessi ár. Vel gert Hafsteinn! Alls voru spilaðir 79.138 hringir á völlunum í sumar, en voru 66.042 árið 2019. Spiluðum hringjum fjölgaði því um 20% milli ára. Á Mýrinni voru leiknir 40.128 hringir, en 39.010 á Leirdalnum.

Vinavellir

Á þessu starfsári hafa félagar getað farið á 15 vinavelli. Vellirnir eru á Hellu, Álftanesi, Akranesi, Keflavík, Grindavík, Borgarnesi, Selfossi, Sandgerði, Glanna, Brautarholti, Dalvík, Akureyri, Geysi, Hveragerði og á Ólafsfirði. Afsláttarkjör félagsmanna GKG eru nokkuð mismunandi eftir völlum, en nánari upplýsingar um þau eru á heimasíðu GKG. Á þessu ári greiddi GKG 2,9 milljónir króna vegna þessa, en greiddi 1,7 milljón á síðasta ári. Þarna kemur Covid 19 sterkt inn, með áróðurinn um að ferðast innanlands. Engin ákvörðun hefur verið tekin varðandi næsta ár, en gera má ráð fyrir áframhaldi á þessu samstarfi.

Byggingaframkvæmdir við Golfskálann

Samningur um hina nýju byggingu milli GKG og Garðabæjar var undirritaður 26. september 2019. Helgi Már Halldórsson arkitekt teiknaði húsið, en eins og flestir vita þá teiknaði hann golfaskálann okkar og því eðlilegast að hann kláraði líka stækkunina. Við lögðum mikla áherslu á að fá GG verk til að vinna verkið, en þeir byggðu skálann okkar og höfðum við mjög góða reynslu af þeirra vinnubrögðum. Heildarstærð viðbyggingarinnar er um 825 ferm. á einni hæð. Í húsinu verða 16 golfhermar, púttsvæði, þjónustu-og veitingasvæði. Heildarkostnaður við húsið er 375 milljónir króna miðað við verðlag í apríl 2019. Bygginganefnd

KRAFTUR TRAUST ÁRANGUR

Hringdu núna 520 9595

var skipuð 7. febrúar 2019 og í henni voru: Guðmundur Oddsson, Guðmundur Árni Gunnarsson, Agnar Már Jónsson, Helgi Már Halldórsson og Sigurfinnur Sigurjónsson, sem ráðinn var byggingastjóri og eftirlitsmaður með byggingunni. Botnplata var steypt 5. febrúar 2020 og samkvæmt áætlun sem gerð var snemma í byggingaferlinu var gert ráð fyrir að húsið yrði fullfrágengið að utan 15. maí og verklok yrðu 1. september 2020. Það varð snemma ljóst að allar tímaáætlanir varðandi bygginguna stæðust ekki og er þar fyrst og fremst um að kenna vanefndum af hálfu GG verks og þeirra undirverktaka. Við ákváðum snemma í ferlinu að taka sjálfir að okkur vissa verkþætti, sem voru inni í tilboðsverki GG verks, en samtals er áætlað að kostnaður við þá sé um 100 milljónir króna. Þrátt fyrir allt og allt, þá hefur byggingastjórinn Sigurfinnur Sigurjónsson, staðið sig frábærlega í öllum samskiptum við verktaka og hef ég oft dáðst af hörku hans í þeim samskiptum. Vel gert Finnur! Þá hefur Agnar Már framkvæmdastjóri haldið vel utan um fjármálin og er kostnaður við húsið á pari við samninginn sem gerður var við Garðabæ. Þrátt fyrir ýmsan pirring á meðan á byggingunni stóð, getum við verið mjög ánægð með útkomuna. Við erum að fá glæsilegustu inniæfingaaðstöðu í heimi auk þess sem þarna verður glæsileg veitingaaðstaða og einskonar útibú frá versluninni uppi. Til hamingju allir félagar í GKG.

Golfsumarið 2020

Meistaramót GKG var haldið í 27. sinn í sumar og urðu þau Hulda Clara Gestsdóttir og Hlynur Bergsson klúbbmeistarar. Árangur GKG í landsmótum var glæsilegur og náðust 8 Íslandsmeistaratitlar, sem er með því besta í sögu klúbbsins. Hápunktur sumarsins var sigur karlaliðs GKG á Íslandsmóti golfklúbba. Þetta var í sjöunda sinn sem GKG sigrar í karlaflokki, annað árið í röð og í þriðja sinn á síðustu fjórum árum. Þannig tryggði sveitin sér þátttökurétt á Evrópumót klúbbliða, sem fór þó ekki fram vegna Covid-19. Nýtt met var sett hvað varðar fjölda barna og unglinga sem stunda golf hjá GKG, en yfir 800 voru skráð á æfingar og námskeið. Þetta hefur í för með sér miklar áskoranir hvað gæði varðar, að geta sinnt þessum ungu kylfingum, bæði varðandi æfingaaðstöðu á sumrin og starfsumhverfi þjálfara og leiðbeinanda. Framtíðaráform gera ráð fyrir framúrskarandi utanhúss aðstöðu fyrir öll högg innan við 100 metra, en þangað til þarf að ramma inn og skipuleggja betur þau grassvæði.

Fjármálin

Heildarrekstrartekjur á starfsárinu 2020 námu 322 m.kr., þar af voru félagsgjöld 54%. Heildarrekstrarútgjöld námu 279 m.kr. og því var EBITDA hagnaður klúbbsins 43 m.kr. Afskriftir voru rúmar 17 m.kr. og fjármagnsliðir voru tæpar 14 m.kr. og því er rekstrarhagnaður klúbbsins rúmar 11 m.kr. Félagsgjöldin eru mikilvægasti tekjuliðurinn eða 54% af rekstrartekjunum. Gott sumar leiddi af sér að töluverð aukning varð á öðrum tekjum eins og vallargjöldum, leigu golfbíla o.fl. Jafnframt eru aðrar tekjur farnar að styrkja rekstur klúbbsins og vegur þar þyngst útleiga á golfhermunum. Vellirnir okkar voru frábærir í sumar og hafa fengið gott umtal meðal þeirra gesta sem heimsóttu okkur. Það er síðan farið að skila okkur fleiri umsóknum í klúbbinn og förum við því bjartsýn inn í nýtt rekstrarár.

Lokaorð

Það er ljóst við lestur þessa ársrits að starfsemi GKG er orðin býsna umfangsmikil. Við erum með marga starfsmenn sem allir stefna að sama marki, þ.e. að efla og bæta klúbbinn okkar. Öllu þessu fólki vil ég fyrir hönd stjórnar GKG þakka fyrir samstarfið. Þó við séum ánægð með starfið á þessu starfsári megum við í engu slaka á næstu árin. Tvö stór verk bíða okkar handan við hornið, en það eru bygging á nýju áhaldahúsi og nýr 9 holu golfvöllur. Helgi Már Halldórsson arkitekt er að teikna áhaldahúsið og þar hefur farið fram þarfagreining og miklar vangaveltur. Vonandi náum við að hefja framkvæmdir á næsta ári. Þá hefur Snorri Vilhjálmsson unnið að hönnun á nýja vellinum og eru línur þar óðum að skýrast. Fyrst verður að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir svæðið, en það er nú í vinnslu. Í lokin skulum við gleðjast yfir fullt af góðum hlutum sem hafa gerst hjá okkur á þessu starfári, þó þessi veiruskratti hafi gert allt sem hún gat til að spilla gleðinni. Framtíðin er björt hjá GKG.

Guðmundur Oddsson, formaður

This article is from: