Nærri farin niður úti við 7 bauju

Page 1

Nærri farin niður úti við 7-bauju Það var ljómalogn, fagur sumardagur. Frans Arason fékk pabba minn oft með sér á skak. Fransa þótti gott að hafa pabba minn með, því pabbi var svo lunkinn við vélar og báta. Fransa bátur var stærri en pabba bátur. En opinn bátur þó. Ég var auðvitað alltaf með. Ég gekk undir nafninu Þuríður formaður við höfnina vegna tilþrifa minna við stýrið, lunkin við að leggja að og landa, og vegna þess hversu fiskin ég var. Körlunum þótti gaman að sjá stelpu vasast í fiskeríi. En í þessari ferð vorum við aðeins þrjú, Frans, pabbi og ég. Það var góð veiði, svona algleymisveður, í hverju maður gleymir stað og stundu í sumarnáttleysi norðursins. Þegar halda átti loks til hafnar, með drekkhlaðinn bát, kviknaði allt í einu í vélinni. Eldstungur léku um allt stýrishúsið. Greinilega olíueldur. Engin neyðartæki voru í bátnum. Ekki björgunarvesti, ekki bjarghringur, ekki neyðarsendir, ekki slökkvitæki, ekki talstöð. Ekkert. Svona var þetta nú bara þegar ég var lítil. Hið eina tiltækt var austurstrog, svo pabbi reyndi að skvetta sjó á eldinn. En við vissum öll að þetta var örþrifaráð. Eldurinn náði sé alltaf upp aftur. Eldstungur léku um alla vélina og stýrishúsið. Pabbi losaði árar og plitti, og til stóð að binda mig við hvaðeina sem flotið gat. Ég vissi að það yrði aðeins til þess að líkið fyndist. Það yrði þó eina huggunin fyrir mömmu. Okkar yrði ekki saknað í þessu blíðskapar sumarveðri fyrr en á morgun. Ég var ekki hrædd. Vissi bara að við vorum að fara niður. Aðeins örlög mín að sökkva í ískaldan mar. Ég vissi að ég var ekki ein um þau örlög. Allt í einu slokknaði eldurinn. Allt var svart og sótugt, og mikill sjór kominn inn. Pabbi tók til við að ausa. Það var auðvitað engin lensidæla -- frekar en annað. Ég man að ég bara stóð og starði og gerði ekkert gagn. Pabbi var mikið þrekmenni. Þegar pabbi reyndi loks að ræsa vélina, fór hún auðvitað ekki í gang. Það er drjúglangt að róa þessum stóra báti inn til hafnar. Bátinn, vélvana, rak greinilega með straumum. Ég sá það á miðum sem ég kunni. Sennilega var hann rétt að ganga í liggjandann. Ekki var mikil drift, aðeins smá kul.. Pabbi -- auðvitað verkfæralaus -- tók til við að pilla vélina í sundur og þurrka vatn og olíu. Hann var vanur að gera við gömlu bílana sína. Honum tókst, eftir langan langan tíma, að koma henni í gang. Og við kjöktum til hafnar í miðnætursól. Sluppum með skrekkinn.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.