
1 minute read
Um 7 hektara sinubruni á Óttarsstöðum

Slökkviliði tókst að forða að hús brynnu - Hrörlegt fjárhús varð þó eldi að bráð
Advertisement
Alls brann sina á um 7 ha svæði (70 þúsund fermetrar) í landi Óttarsstaða sl. föstudag.
Slökkvilið var kallað út upp úr hádegi en þá hafði eldur kviknað skammt frá bílastæðum austan við Óttarsstaði. Þar hafði skólahópur Menntaskólanum í Kópavogi verið á ferð með kennara til að sækja hráefni til matargerðar. Einhverjir nemendanna voru með eldfæri sem þeir fóru óvarlega með. Gaus upp eldur sem nemendurnir náðu ekki að hemja og átti hann eftir að loga í nær sólarhring enda var vindur nokkur.
Slökkvilið með aðstoð björgunarsveita og fl. voru fram á nótt að slökkva í sinubrunanum sem hafði breiðst nokkuð hratt út.
Hafði tekist að forða öllum byggingum frá bruna og þá helst Óttarsstöðum eystri og vestari og Eyðikoti sem í dag er íbúðarhús. Eitt fjárhús sem var orðið mjög lúið varð þó eldinum að bráð.
Morguninn eftir var ennþá smá eldur vestast á svæðinu í gjótum og stekk við Hádegishól auk þess sem reyk lagði frá svæðinu um 260 m SV frá stekknum. Virtist eldurinn vera staðbundinn enda næstum logn á svæðinu. Stekkurinn þar sem mesti reykurinn sást er um 1.300 metrum frá vegarslóðanum að Lónakoti og voru litlar líkur á að eldurinn næði þangað þó það hafi verið nefnt af viðbragðsaðilum.
Um kl. 11 morguninn eftir kom slökkvibíll og bílar með dælur á svæðið og ætlunin var að freista þess til að slökkva í síðustu glæðum.
Mikil sina er á svæðinu enda gömul heimatún en engin beit hefur verið þar í langan tíma. Það virtist bjarga húsum að vel var slegið í kringum þau auk þess sem hraunkantar hindruðu eitthvað útbreiðslu eldsins. Fór eldurinn þó t.d. mjög nálægt sumarhúsinu að Eyðikoti og mátti litlu muna að eldurinn læstist í sjálft húsið.

Eldurinn hefur farið mjög nálægt Eyðikoti en þar sem grasið var þjappað eftir göngu fólks fór eldurinn ekki.