1 minute read

leiðarinn

Miklar væntingar eru til uppbyggingar í miðbænum og því er sorglegt að sjá hvað hægt hefur gengið að marka skýra framtíðarsýn fyrir miðbæinn. 22ja ára gamalt deiliskipulag er í gildi fyrir miðbæinn en síðan þá hefur 24 sinnum verið gerðar breytingar á því, og í raun í hvert sinn sem eitthvað hefur verið byggt. Það hlýtur að segja að deiliskipulagið, leikreglurnar séu löngu úreltar enda undarlegar leikreglur ef breyta á reglunum í hverjum leik. Því miður varð ekki úr heildarendurskoðun miðbæjarskipulagsins, metnaðarfullu starfi til að marka framtíðarsýn sem bæjarbúar gætu verið stoltir af. Þess í stað var einn hluti tekinn í einu og greinilega ætlunin að skipuleggja miðbæinn í bútum hversu gæfulegt sem það kann að vera. Í raun er ekki búið að taka ákvörðun um það hvort byggja eigi nýtt ráðhús eða stækka út í húsnæði Íslandsbanka sem hefur verið að minnka starfsemi sína verulega í Hafnarfirði. Auðvitað ættu þar að koma verslanir á jarðhæð eða önnur lifandi þjónusta við gesti miðbæjarins. Ráðhúsið mætti byggja framan við Fjörð sem kennileiti fyrir bæinn og láta Strandstíginn fara í gegnum húsið. Bílastæðamálin hafa líka verið lengi í skoðun og nú hefur enn einn starfshópurinn verið skipaður. Engin stjórn er á því hvernig fólk leggur, ekkert eftirlit og fólk gerir það sem því sýnist og er lagning bíla á gangstétt fyrir framan skrifstofu bæjarstjóra í gegnum síðustu áratugi gott dæmi um það. Það er til lítils að stofna Bílastæðasjóð ef allt fé sem innheimt er af húsbyggjendum sem ekki útbúa nægilega mörg bílastæði, fer beint í almennan rekstur. Það er ekki hægt að taka endalaust svæði undir bílastæði og því löngu ljóst að leysa þarf bílastæðamál með bílakjöllurum og jafnvel bílastæðahúsi.

Það er vonandi að eitthvað fari að gerast og að skipulagsyfirvöld fari að átta sig á því að það færist ekki mikið líf í miðbæinn með því að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir. Það hefur löngu sannað sig að fólk sem starfar í miðbænum notar þjónustu þar og er mun sýnilegra en íbúarnir sem setjast upp í sína bíla og hverfa á braut, ekki síst þar sem bílakjallarar eru. Hótel, verslanir, veitingahús, þjónustuaðilar og menningarstarfsemi er það sem fólk vill sjá og upplifa í miðbænum. Gleðilega páska.

Advertisement

Guðni Gíslason ritstjóri.

Auglýsingar sími 896 4613 gudni@fjardarfrettir.is

Blaðaauglýsingar Vefauglýsingar

This article is from: