
1 minute read
Rafbílar til Noregs
Rafbílar frá Kína hefja innreið sína til Noregs
Fyrsta sendingin af kínverska rafbílnum Xpeng G3 til Noregs fór nýlega í skip í Kína. Um tímamót var að ræða en Noregur er fyrsti markaður bílsins utan Kína. Að sögn Espen Strømme, framkvæmdastjóra norska innflutningsfyrirtækisins Zero Emission Mobility, er mikill áhugi á bílnum í Noregi. Kínverski framleiðandinn er mjög bjartsýnn á sölu bílsins í Noregi en fjöldaframleiðsla á bílnum hófst 2018. Bíllinn hefur reynst mjög vel til þessa og fengið mjög góða dóma en drægni hans er yfir 500 km. Fyrstu norsku kaupendurnir fá bíla sína afhenta í nóvember. Eingöngu verður hægt að kaupa bílinn á Netinu. Tvær gerðir eru af bílnum og er verðið frá fimm milljónum íslenskra króna. Þess má geta að kínverski bílaframleiðandinn tilkynnti í upphafi þessa árs um nýjan rafsportbíl sem gengur undir nafninu P7. Sérfræðingar fullyrða að hann eigi eftir í framtíðinni að veita Tesla Model 3 harða samkeppni. P7 hefur yfir að ráða mikilli drægni og með 80,9 kWh rafhlöðu. Bíllinn fer úr kyrrstöðu upp í 100km/klst. á 4,3 sekúndum. Bíllinn hefur eingöngu fram þessu verið til sölu í Kína. Gríðarleg þróun er almennt í framleiðslu rafbíla í Kína um þessar mundir og horfa framleiðendurnir hýru auga til Evrópu. Kínverjar hafa undirbúið sig lengi og munu koma af krafti inn á evrópskan markað á næstu árum. Kínverski rafbílaframleiðandinn BYD stefnir að því að fara inn á norskan markað í æ meira mæli en hann hefur gert fram þessu. Borgaryfirvöld í Osló hafa nú þegar góða reynslu af viðskiptum við þennan kínverska framleiðanda. Frá árinu 2018 hafa verið keyptir keyptir 45 strætisvagnar knúnir rafmagni og reynslan af þeim afar góð. Kínverjarnir hafa nu þegar mikið úrval af bílum í flestum stærðarflokkum og þar fer fremstur í flokki BYDTang EV600. Bíllinn var í fyrstu hybrid en nú fæst hann sem hreinn rafbíll og ætla Kínverjarnir að koma með bílinn af þunga inn á norskan markað. BYD-Tang EV600 er ágætri tækni búinn, fjólhjóladrifinn og gefinn upp fyrir 530 km drægni.