4 minute read

BYD kynnir tvo nýja rafbíla fyrir Evrópu

Innkoma sem eftir er tekið Ekki er langt frá því að kínverski bílaframleiðandinn BYD tók ákvörðun um að fara á Evrópumarkað með rafbílaframleiðslu sína. Fyrir þá sem þekkja ekki til merkisins er um að ræða annan stærsta framleiðanda bílarafhlaða í heiminum og einn þann stærsta í framleiðslu fólksbíla, svo að hér eru engir aukvisar á ferðinni. BYD framleiddi fleiri en 900.000 rafbíla í fyrra en megnið af þeim bílum fór á heimamarkað.

Aukning í sölu rafbíla í Kína er einnig eftirtektarverð því að BYD tvöfaldaði næstum því sölu frá mars 2022 til sama tíma 2023, úr 104.338 í 206.089 bíla og er framleiðandinn langstærstur á þessum stóra markaði. Jepplingurinn BYD Atto3 kom fyrstur á markað í Evrópu 2022 og hefur verið vel tekið, enda um vel búna útgáfu að ræða í réttum stærðarflokki. Einnig eru komir á markað lúxusbíllinn Han og sjö sæta jepplingurinn Tang.

Fyrir skömmu var haldin stór blaðamannakynning í Barcelona þar sem hægt var að prófa nýju tegundirnar BYD Seal og Dolphin og einnig Atto3 fyrir Evrópumarkað. Kynningin hófst á hefðbundinni blaðamannakynningu á hótelinu og reynsluakstri á Atto3 í framhaldinu. Með þeim er BYD komið með fimm bíla í mikilvægustu stærðarflokkunum á markað á einu ári og segir það sitt um hversu mikil alvara er á bak við þessa markaðssókn framleiðandans.

BYD Atto3 er fyrsti bíll BYD á nýjum undirvagni merkisins sem kallast e-Platform 3.0. Sá vagn getur notað, framdrif, afturdrif eða fjórhjóladrif og notast bæði við 400 eða 800 volta rafkerfi. Atto3 fer þó varlega í sakir því að hann kemur með framdrifi og 400 volta rafkerfi. Það þýðir einnig að bíllinn er mjög rúmgóður. Með 60 kWst rafhlöðu er drægið 420 km og varmadælan er staðalbúnaður. Rafmótor, straumbreytir, hleðslubúnaður og stjórnbúnaður er í einni einingu sem fækkar raflögnum í bílnum og eykur afkastagetu hans. Það finnst jafnframt í akstri bílsins sem er mjög hljóðlátur og laus við straumhljóð sem einkenna suma rafbíla meira en aðra. Þótt reynsluakstur bílsins hafi verið stuttur fór vel um þrjá blaðamenn í honum og er hann frískur og léttur í akstri. Stór miðjuskjár er allsráðandi í mælaborðinu og er bæði frískleiki og frumlegheit í farþegarýminu eins og sést til dæmis á hurðarhandföngum sem opnast með nettum snúningi. Búast má við að aðalkeppinautar Atto3 hérlendis séu bílar eins og Kia Niro EV, MG4 og VW ID.3.

BYD Seal var hægt að prófa í sérstakri braut þar sem 3,8 sekúndna upptak bílsins var sannreynt og þrátt fyrir tveggja tonna þyngd er hann léttur í akstri og liggur sérlega vel eins og títt er um bíla með þessu byggingarlagi.

Næstur í röðinni var fólksbíllinn BYD Seal. Ekki þarf annað en að horfa á bílinn til að sjá hver aðalkeppinautur hans er. Hann líkist talsvert Tesla Model 3 en er aðeins lengri, eða 4,8 metrar með 2.920 mm hjólhaf. Hann er því aðeins rúmbetri en Model 3, einnig í farangursrými sem er samtals 455 lítrar. Hægt verður að fá bílinn bæði í 308 hestafla útgáfu með afturdrifi eða í fjórhjóladrifinni útgáfu sem skilar alls 523 hestöflum. Blaðamenn gátu reynsluekið bílnum á sérstakri kappakstursbraut í nágrenni Barcelona.

Á einni brautinni var hægt að prófa upptak bílsins, sem er 3,8 sekúndur í 100 km hraða. Óhætt er að segja að hann stóðst vel uppsettar kröfur þar sem langflestir sem prófuðu hann fóru á þessum tíma um brautina. Einnig var hægt að reyna bílinn á sérstakri svigakstursbraut með bæði kröppum og lengri beygjum. Þar lét hann ljós sitt skína enda bæði léttur og nákvæmur í stýri og liggur einstaklega vel. Enga síðri athygli hversu BYD Seal er vel búinn og að flottur frágangur er á öllu innandyra. Frágangurinn jaðrar við það sem maður sér í góðum lúxusbíl. Fyrir miðju er stór 15,6 tommu snertiskjár sem hægt er að snúa þversum eða langsum með rafstýringu. Flestum aðgerðum, sem sem og miðstöð og öðru svipuðu, er stjórnað af miðjuskjánum.

BYD Atto3 verður eflaust helsti sölubíll framleiðandans hérlendis en hann er boðinn frá 5.980.000 kr.

Hægt var að skoða e-Platform 3.0 undirvagninn á sérstökum bás meðan beðið var eftir kaffinu.

Ef til vill er það best við bílinn að hann notar Blade-rafhlöðuna sem gefur honum drægi upp á 570 km í afturhjóladrifnu útgáfunni. Til að útskýra aðeins þessa rafhlöðu er BYD fyrsti framleiðandinn til að setja sellurnar beint í rafhlöðuna, í stað þess að pakka þeim í einingar fyrst. Það þýðir að meira drægi fæst út úr henni og tekur hún minna pláss svo að munar allt að 50%. Einnig eru rafhlöður BYD lausar við kóbalt, svokallaðar lithíum/járnfosfat (LFP) rafhlöður. Þær eru ódýrari í framleiðslu, endast betur og eru líka öruggari við hleðslu. Blade-rafhlaðan er í öllum bílum BYD óháð undirvagni og einnig fleiri tegundum rafbíla eins og Toyota bZ3.

Síðastur í röðinni var Dolphin-smábíllinn sem er væntanlegur á markað innan skamms. Helmingur kappakstursbrautarinnar var notaður fyrir kynninguna á honum og í enda hennar hafði verið komið fyrir sérstökum hemlunarkafla. Þar áttu blaðamenn að reyna nauðhemlun um leið og sveigt var frá hindrunum til að prófa stöðugleika bílsins. Rýmið vakti þó einkum eftirtekt enda er hjólhaf bílsins eins og í bílum í næsta stærðarflokki fyrir ofan. Farangursrýmið er einnig rúmgott og státar af 345 lítrum að lágmarki. BYD Dolphin mun koma með sömu 60 kWst rafhlöðu og Atto3 á Evrópumarkaði þótt hann noti minni rafhlöðu á heimamarkaði. Sú gerð hans gæti einnig komið á markað í Evrópu á seinni stigum og þá eflaust á góðu verði eins og aðrir BYD bílar. Umboðið á Íslandi er Vatt ehf í Skeifunni.

BYD Dolphin er væntanlegur á Evrópumarkað í þessum mánuði og verður spennandi að sjá hvað hann kemur til með að kosta í samanburði við keppinauta eins og Peugeot e-208.

Með Heimahleðslu ON í áskrift greiðir þú lága upphæð mánaðarlega og hleður rafbílinn þinn áhyggjulaus. Settu Heimahleðslu ON á dagskrá á næsta húsfélagsfundi og leyfðu okkur að leysa úr flækjunni!