3 minute read

Atvinnulífið afhendir ráðherra 332 tillögur

Ellefu atvinnugreinar hafa nú afhent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins. Vísarnir eru samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

„Til að metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist þurfa allir að leggjast á eitt –stjórnvöld, atvinnulíf, sveitarfélög og almenningur í landinu. Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulífið hefur stigið þetta skref til þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og upplifa þann metnað og áhuga sem þessar 11 atvinnugreinar sýna með vegvísum sínum. Vegvísarnir verða innlegg í uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem stjórnvöld ætla að kynna fyrir lok árs og hlakka ég til að halda verkefninu áfram,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Aðkoma íslensks atvinnulífs skiptir sköpum í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að sett markmið náist. Enn fremur er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg á þessari vegferð hvað varðar regluverk, innviði, hvata til grænna fjárfestinga og stuðning við nýsköpun, tækniþróun og orkuskipti.

Í því skyni var ákveðið að koma Loftslagsvegvísum atvinnulífsins á laggir en markmið verkefnisins er að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ein af grunnforsendum skilvirkrar vinnu við loftslagsmarkmiðin er að orkuspá og opinber gögn endurspegli þá áskorun sem staðið er frammi fyrir.

Á Grænþingi í Hörpu kynntu fulltrúar atvinnugreinanna vegvísa sína, þar sem rauði þráðurinn var:

• Uppbygging orkuinnviða og aðgangur að hreinni orku.

• Skilvirkt regluverk og skýr markmið stjórnvalda.

• Fjárfesting í nýjum búnaði og tækni.

• Hvatar vegna loftslagstengdra fjárfestinga og framleiðslu.

• Nýsköpun og rannsóknir.

• Bætt hringrás.

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa sem hafa margir hverjir mælanleg markmið. Þeir geyma einnig sértækar aðgerðir og úrbótatillögur sem snúa bæði að atvinnulífinu og stjórnvöldum um umbætur í loftslagsmálum. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega og mun þeim fjölga með uppfærslu aðgerða og fjölgun atvinnugreina.

Eins og staðan er í dag nam heildarlosun gróðurhúsalofttegunda 2021 frá vegasamgöngum 860 þúsund tonnum CO2-íg. Losun jókst um 8,8% árið 2022 og nam 936 þúsund tonnum, sem er 20,8% aukning frá árinu 2005. Rafknúin ökutæki voru 6,5% af heildarfjölda ökutækja í lok síðasta árs sem dugði ekki til að vega upp á móti öðrum ökutækjum í flotanum og auknum akstri samhliða vaxandi efnahagsumsvifum. Nýskráningar rafknúinna ökutækja voru 34,6% af heildarfjölda nýskráninga fyrstu fimm mánuði ársins 2023.

Erfið staða skapar mikil tækifæri því að hreinorkuökutæki eru nú til í meira úrvali sem hentar þörfum sífellt fleiri samhliða hraðri þróun í öllum ökutækjaflokkum. Margvísleg tækifæri eru til staðar við að draga úr losun frá vegasamgöngum og má flokka áskoranir og aðgerðir í fjögur viðfangsefni:

1. Skipulag á orkuskiptum.

2. Orkuöflun, flutningur og dreifing.

3. Orkuáfyllingarinnviðir fyrir hrein orkutæki.

4. Notkun ökutækja.

Áskoranir

Það stefnir í metlosun árið 2023 og er því mikið verk fyrir höndum svo að ná megi markmiðum stjórnvalda fyrir árið 2030. Því þurfa þau að taka stöðuna alvarlega og taka á verkefninu og áskorunum sem því fylgja á djarfan, afgerandi og skipulegan hátt.

Árangur í orkuskiptum í vegasamgöngum veltur á bættu skipulagi orkuskiptanna með fyrirsjáanlegum, hagkvæmum, samvirkum og mælanlegum aðgerðum, betri og aðgengilegri gögnum, menntun og stuðningi við fjárfestingar. Samgöngustefnan þarf að taka tillit til orkuskipta og hindranir í formi laga og reglna þurfa skjóta úrlausn auk þess að stjórnvöld sýni gott fordæmi og skapi fyrirsjáanleika.

Efla þarf almenningssamgöngur sem sannarlega uppfylla þarfir notenda og um leið auka umtalsvert hlut hreinorkuökutækja í árlegum nýskráningum. Tryggja þarf næga raforku af endurnýjanlegum uppruna með lágu heildarkolefnisspori á samkeppnishæfu verði, sterka flutnings- og dreifingarinnviði orku og þétt net öflugra orkuáfyllingarinnviða við stofnvegi, í þéttbýliskjörnum og við vinsæla áfangastaði um allt land sem þjóna þörfum íbúa, fyrirtækja og ferðamanna.

Um samstarfið

Leiðtogar vegasamgangna eru Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, Jón Gestur Ólafsson, gæða- og umhverfisstjóri Hölds og Magnús Svavarsson, eigandi Vörumiðlunar.

Hagaðilar

Þátttakendur í vinnustofum voru Arctic Adventures, Avis/Alp, Bílaumboðið Askja, BL, Brimborg, GoCampers, Höldur, Reykjavik Excursion, Samskip, Snæland Grímsson, Teitur Jónasson og Vörumiðlun.

Listi yfir úrbætur á næstu síðu ->