1 minute read

Dæmt í Procar-málinu

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Harald Svein Tryggvason, fyrrverandi framkvæmdastjóra bílaleigunnar Procar, í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi. Ákærði játaði sök og greiddi kaupendum bifreiðanna skaðabætur sem var virt honum til refsimildunar. Refsing ákærða var skilorðsbundin þar sem hann hafði ekki áður verið sakfelldur fyrir refsiverða háttsemi og verulegur dráttur varð á rannsókn málsins án þess að hann ætti þar nokkra sök á.

Mælarnir gáfu þannig ranglega til kynna að bílarnir væru minna eknir og auðveldara væri að selja þá. Fram kom í ákærunni að búið væri að gera upp bætur vegna 116 bíla upp á samtals 13,3 milljónir.

Procar-málið snýst um það að snemma á árinu 2019 viðurkenndu forsvarsmenn bílaleiguunnar Procar að hafa skrúfað kerfisbundið niður kílómetrateljara í bílum sínum þegar þeir voru settir í sölu. Það gerðu þeir í kjölfar útsendingar á fréttaskýringaþættinum Kveik þar sem fjallað var um þetta svikamál sem var mjög umfangsmikið. Þar kom í ljós að mikill fjöldi fólks hafði orðið fyrir barðinu á svikunum og þau staðið yfir árum saman. Embætti héraðssaksóknara fékk málið inn á sín borð í byrjun sumars 2020.

Breytingin sem gerð var á bílunum var allt frá um tvö þúsund kílómetrum upp í 52.130 kílómetra en breyting flestra bílanna var á bilinu 10 til 40 þúsund kílómetrar. Fram kemur í ákærunni að í kjölfar þess að málið kom upp hafi Procar fengið aðstoð lögfræðistofu til að bæta upp tjón vegna háttseminnar og leitað hafi verið til óháðs sérfræðings sem mat verðmætarýrnun bifreiðanna vegna fölsunarinnar.

Haraldur Sveinn var ákærður fyrir að falsa kílómetrastöðu í 134 bílum á árunum 2014 til 2018. Sex fóru fram á bætur í málinu, meðal annars starfandi lögreglumaður á Vestfjörðum. Bæturnar námu 4,1 milljón.

Meðal þeirra sem fengu greiddar bætur var Ergo fjármögnunarþjónusta, Landsbankinn, Sjóvá, Landsbankinn, Bílabúð Benna, nokkrar bílaleigur og fjöldi einstaklinga og önnur fyrirtæki.