1 minute read

Umferðaröryggi ofar öllu og

Allra Hagur

Mikil vinna hefur verið lögð í að efla umferðaröryggi hér á landi á síðustu árum og bera tölur glöggt vitni um að Ísland hefur bætt stöðu sína verulega í þeim efnum. Þegar fjöldi látinna í umferðinni er skoðaður samkvæmt bráðabirgðatölum Evrópusambandsins er Ísland í þriðja sæti á eftir Norðmönnum og Svíum með fæst banaslys árið 2022 miðað við höfðatölu. Fram kemur að margir þættir stuðla að þessari jákvæðu þróun. Ökutæki eru orðin öruggari, vegir betri og ökumenn eru að standa sig betur í umferðinni en áður. Enn fremur hafa fræðsla og forvarnir eflst til muna, ekki síst til erlendra ökumanna, og skilað sér vel og sömuleiðis hvatning um að við bætum hegðun okkar í umferðinni.

Eins og kemur fram í viðtali í blaðinu við Helga Þorkel Kristjánsson, rannsóknarstjóra á umferðarsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa, má margt bæta þótt ýmislegt horfi til betri vegar. Eitt að því er að umferðin mun aukast á næstu árum. Þjóðin er að stækka og við fáum sífellt fleiri ferðamenn til landsins. Einnig er fyrir séð að bílum muni fjölga. Það eru áskoranir fram undan hjá okkur. Þróunin er samt í rétta átt, það sýna tölurnar með fækkun banaslysa. Síðan koma alltaf upp nýjar áskoranir þegar nýir umferðamátar koma inn.

Smáfarartækjum ýmiss konar, á borð við rafhlaupahjól, hefur fjölgað mikið. Innviðaráðherra mælti á Alþingi fyrir því í vetur sem leið fyrir frumvarpi til breytinga á umferðarlögum frá 2019 (nr. 77/2019). Í frumvarpinu eru m.a. tillögur um smáfarartæki og öryggi þeirra, virðisaukaívilnun vegna reiðhjóla, heimild ríkisaðila til að setja reglur um notkun og gjaldtöku á stöðureitum í sinni eigu og loks innleiðingu á Evrópureglum.

Vinsældir rafhlaupahjóla hafa verið miklar og notkun þeirra margfaldast á undanförnum árum. Þeim vinsældum hafa þó fylgt áskoranir og meðal þess sem greinir í niðurstöðum starfshópsins er að slys eru hlutfallslega tíð miðað við umferð. Fram kom í gögnum starfshópsins að mörg börn slasist á rafhlaupahjólum en þau voru 45% þeirra sem leituðu á bráðamóttöku vegna slíkra slysa. Við verðum alltaf að halda vöku okkar í öryggismálum – aldrei má sofna á verðinum.

Jón Kristján Sigurðsson ritstjóri