1 minute read

til neytenda

Öll íslensku olíufélögin selja frá vormánuðum eingöngu E10 95 oktana bensín í stað E5 95 oktana bensíns sem áður var selt. Enginn aðdragandi var að þessum breytingum á vöruvali og viðskiptavinir olíufélaganna voru ekki upplýstir um að þeir væru að kaupa 95 oktana bensín sem væri blandað allt að 10 prósent með etanóli í stað 95 oktana bensínsins sem blandað var með allt að 5% etanóli. Félögin stóðu öll eins að þessum breytingum og yfirvöld neytendamála á Íslandi voru hvorki upplýst um breytingarnar né hafa þau brugðist við þeim.

Í sumum tilvikum getur notkun á E10 bensíni valdið alvarlegum skemmdum á vélum og tækjum. Notkun á E10 getur haft í för með sér brunahættu ef eldsneytisleiðslur eða -tankar fara að leka vegna tæringar eða annarra skemmda vegna of hás hlutfalls etanóls í bensíni.

FÍB hefur gert alvarlegar athugasemdir við þetta verklag enda er ekki verið að gæta að öryggi og hagsmunum neytenda þegar einhliða breytingar á innihaldi mikilvægrar markaðsvöru eiga sér stað. Því miður hafa lítil eða engin viðbrögð komið frá opinberum aðilum. Olíufélögin eru farin að merkja söludælur með E10 límmiða og mögulega á að fjölga útsölustöðum sem bjóða upp á 98 oktana bensín án auka etanólíblöndunar. Í sumum tilvikum geta neytendur notað 98 oktana bensín á tæki og vélar sem ekki þola E10 bensín. Framboð á 98 oktana bensíni er mjög takmarkað og bundið við höfuðborgarsvæðið og Akureyri.

Etanólblandað bensín hefur minna orkuinnihald. Bandaríska orkustofnunin (EIA) segir að orkuinnihald etanóls sé um 33% minna en orkuinnihald 95 oktana bensíns. Áhrif etanóls á eldsneytissparnað ökutækja er einnig mismunandi eftir magni þeirra náttúruefna sem bætt er við etanólið. EIA segir að almennt geti sparneytni ökutækja minnkað um 3% þegar E10 er notað.

Etanólið í bensíninu ber ekki vörugjöld eða kolefnisgjald. Ríkissjóður verður af tekjum. E10 bensín í Danmörku er ódýrara en E5 bensín út af lægri sköttum. Hér á landi varð engin breyting á verði við upphaf sölu á E10 bensíni.

Rík krafa hvílir á seljendum vöru að veita neytendum allar nauðsynlegar upplýsingar um vöruna áður en viðskipti fara fram. Upplýsingar og fræðsla íslensku olíufélaganna til neytenda um einhliða útskipti á E5 95 oktana bensíni yfir í E10 bensín voru ekki í samræmi við góðar verklagsreglur. FÍB telur einsýnt að ekki hafi verið gætt að lögvörðum réttindum eða öryggi neytenda við umskiptin frá E5 yfir E10.

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB