6 minute read

Bílaleigubíll Íslendings í Danmörku gerður upptækur

Íslendingur á ferðalagi í Danmörku var tekinn fyrir ofsaakstur (vanvidskørsel) eins og það er orðað. Atvikið átti sér stað á Jótlandi skömmu fyrir síðustu jól en Íslendingurinn var þar í þeim erindagjörðum að heimsækja ættingja. Ökumaðurinn var tekinn á yfir 100 km hraða á klukkustund en deilt er um leyfilegan hraða á þeim stað sem hann var tekinn. Hámarkshraði hafði verið 60 km en hafði verið tekinn niður í 50 km að sögn dönsku lögreglunnar. Íslendingurinn var á bílaleigubíl sem lögregla haldlagði á staðnum í því skyni að gera hann upptækan með dómi – sem myndi gera það að verkum að bílaleigan missti bíllinn. Bílaleigan gerir í framhaldinu þær kröfur að íslenski ökumaðurinn eða leigutakinn greiði bílinn sem metinn er á fjórðu milljón íslenskra króna. Þann 31. mars á síðasta ári tók gildi ný löggjöf í Danmörku þar sem lögreglan getur lagt hald á ökutæki ef það er notað til svonefnds ofsaaksturs. Á tæplega hálfu ári eftir að nýja löggjöfin var tekin upp hafði lögreglan lagt hald á 510 ökutæki á landsvísu og lagt fram 623 ákærur. Í 586 tilvikum var um ræða hreinan ofsaakstur.

Ökumaðurinn íslenski snerist til varnar og leitaði réttar síns með aðstoð Gísla Tryggvasonar landsréttarlögmanns sem bjó lengi í Danmörku og las lögfræði að hluta þar og hefur eftir áratuga norrænt samstarf sinnt fjölda mála undanfarin ár með norræna tengingu og m.a. flutt mál fyrir dönskum dómstólum. Gísli hófst strax handa í málinu fyrir síðustu áramót. Málflutningur um haldlagninguna sem slíka fór fram í lok mars um það hvort handlagning lögreglu á umræddum bílaleigubíl stæðist dönsk lög og mannréttindafordæmi. Í þeirri fyrstu orrustu taldi dómari ekki fært að hafna haldlangingu til að byrja með.

„Fyrst úrskurðaði dómstóllinn hvort haldlagningin sem slík stæðist. Síðan mun sakamálið halda áfram því að ökumaðurinn er að mati lögreglu sekur um brot á umferðarlögum, burt sé frá þessari haldlagningu og upptökukröfu sem tekist verður á um í annarri orustu í aðalmeðferð sakamálsins. Málið stendur og fellur með því hvort hann eigi aðeins að borga einhverja smá sekt, jafnvel missa ökuleyfið í Danmörku um einhvern tíma, eða hvort hann þurfi að borga bílaleigufyrirtækinu á fjórðu milljón íslenskra króna sem nemur andvirði bílsins. Þetta væru því há refsiviðurlög fyrir að keyra hratt,“ segir Gísli Tryggvason landsréttarlögmaður í spjalli við FÍB-blaðið um málið. Þriðja orrustan getur svo snúist um hvort endurkrafa bílaleigufyrirtækisins á hendur ökumanni eða leigutaka stenst reglur neytendamarkaðsréttar enda er erfitt fyrir íslenskan neytanda að átta sig á að hann væri skrifa undir svo afdrifaríkar afleiðingar sem ekki þekkjast í mörgum ríkjum.

Gísli Tryggvason landsréttarlögmaður

Gísli segir að löggjöf í þessum málum hafi verið breytt í Danmörku á síðasta ári. Nú eru því komin ákvæði í dönsk umferðarlög um ofsaakstur. Nokkur skilyrði leyfa að bíll sé haldlagður af lögreglu og gerður upptækur með dómi til að sporna við ofsaakstri, jafnvel þó að eigandinn sé annar en ökumaðurinn.

Fjögurra milljón króna refsitengd viðurlög hörð refsing.

„Í þessu tilviki stendur reyndar deilan um hvort ökumaðurinn mátti á þessum stað keyra á 50 eða 60 km hraða. Sé það rétt hjá lögreglu að ökumaðurinn hafi þarna bara mátt keyra á 50 km hraða uppfyllir málið skilyrði um ofsahraða eða 100% meira en mátti. Þá má að mati lögreglu gera bíl upptækan en varnir okkar lúta annars vegar að því að það hafi verið óljósar merkingar og hugsanlega nýbúið að keyra framhjá merkingum. Hins vegar er því haldið fram að þetta séu of harkaleg viðurlög við gáleysisbroti eins og hér um ræðir. Loks er byggt á undantekningarheimild í umferðarlögum um að víkja megi frá upptökukröfu við sérstakar aðstæður. Fjögurra milljón króna refsitengd viðurlög væru hörð refsing við gáleysisbroti á umferðarlögum,“ segir Gísli.

Gísli var inntur eftir því hvort hafi reynt nú þegar á þessi nýju ákvæði í Danmörku og sagði hann svo sannarlega. „Já, heldur betur. Ég held núna að málin skipti hundruðum og búið er gera marga bíla upptæka. Að mínu mati var þessu stefnt gegn alvöru ofsaakstri, jafnvel glæpsamlegum ofsaakstri ef svo má segja. Ég held að ferðamaður sem lendir í þessu við svona sérstakar aðstæður eigi ekki að lenda í þessum hörðu viðurlögum. Við erum með fordæmi frá mannréttindadómstólnum sem við teljum að eigi við,“ segir Gísli.

Þetta atvik er eigi að síður ökumönnum til umhugsunar og víti til varnaðar, ekki satt?

„Jú. Ég held að rétt og í raun mikilvægt sé að segja frá þessu í blaði bíleigenda og koma þessum upplýsingum til fólks sem er að fara að leigja sér bíl í Danmörku. Þessi löggjöf er ný og óvenjuleg á heimsvísu eins og áður hefur komið fram og þá eru útlendingar í landinu betur varaðir við að keyra enn varlegar en áður.

Fyrsti úrskurður í málinu lá fyrir seint í mars um að haldlagning lögreglunnar á sínum tíma stæðist. Síðan heldur sakamálið áfram en ákveðið var að láta reyna sérstaklega á haldlagninguna eins og skjólstæðingur Gísla átti rétt á þannig að hann þyrfti ekki að bíða fram í september eftir lyktum. Að ósk Gísla var aðalmeðferð sakamálsins einnig flýtt og fer fram um það leyti sem blaðið fer í prentun. „Stærsta atriðið í málinu er hvort haldlagning og nú upptaka bílsins stenst eða ekki sem nemur rúmum þremur milljónum króna. Þá er hitt sem eftir stendur eitthvað sem varðar minniháttar sekt eða ökuleyfissviptingu í Danmörku í einhvern tíma,“ segir Gísli.

Danir meðvitaðir um þessi nýju lög

Gísli segir enn fremur að Danir sjálfir séu orðnir vel meðvitaðir um þessi nýju lög út af fjölda mála sem hafa verið í fréttum þar í landi. Íslendingar eru hins vegar almennt ekki meðvitaðir um það sem Danir kalla ofsaakstur og hvað hann getur leitt til í grófustu tilvikum. Þá kostar mikla orku og peninga að verjast.

„Því er brýnt að útlendingar sem ætla að taka sér bílaleigubíl í Danmörku kynni sér eins og kostur er hvaða sérreglur gilda þar í landi og annað eins og reyndar bílaleigufyrirtækið telur sig hafa kynnt fyrir mínum skjólstæðingi,“ segir Gísli en á það getur reynt hér á landi í þriðju orrustu málsins. Reglurnar eru óvenjulegar miðað við Ísland og mörg önnur ríki.

Bjóða lægra verð á ökutækjatryggingum

Verna, nýtt íslenskt fjártæknifélag sem hóf starfsemi sína nú í apríl, segist bjóða allt að 40% lægra verð á ökutækjatryggingum en gengur og gerist á íslenskum tryggingamarkaði. Öll þjónusta Verna fer er fram um app sem einfaldlega er hægt að nálgast með því að fara inn á Apple App Store eða Google Play Store og leita að Verna til að ná í appið og byrja að prófa.

Fram kemur að með appinu stýra viðskiptavinir verðinu. Appið býr til ökuskor sem leiðbeinir viðskiptavinum um hvernig þeir geta bætt aksturinn og þannig lækkað verðið í hverjum mánuði. Bestu ökumennirnir geta lækkað verð sitt um allt að 40% miðað við markaðsverð en að jafnaði geta viðskiptavinir Verna keyrt verðið niður um 20%.

Allir sem eru 18 ára og eldri og eru skráðir eigendur eða meðeigendur bíls geta tryggt bílinn hjá Verna. Afar einfalt er að skipta yfir til Verna. Viðskiptavinir sækja appið, skrá sig í viðskipti og skrifa undir uppsögn á gömlu tryggingunum með rafrænum hætti í Verna-appinu.