1 minute read

Raf- og tengiltvinnbílum fjölgaði um fimm þúsund á einu ári

Rafbílavæðing landsmanna hefur tekið kipp á síðustu árum samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands en fjöldi rafbíla og tengiltvinnbíla hér á landi fór úr tæpum 12 þúsundum árið 2020 í 17 þúsund ári seinna. Það er til marks um breytinguna að einungis fimm rafbílar voru hér á landi fyrir rúmum áratug. Í ágúst 2021 voru nær 80 prósent þessara bifreiða í eigu heimila.

„Ástæðurnar fyrir þessum vinsældum rafbíla eru margþættar,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, og nefnir þar fyrst til sögunnar hertar reglur Evrópusambandsins um útblástursmagn bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti en þær hafi ýtt mjög við bílaframleiðendum. Þetta kemur fram í viðtali við Runólf í nýlegu viðtali í Fréttablaðinu.

„Framboð á rafbílum jókst margfalt af þeim sökum,“ segir hann. Með snaraukinni framleiðslu hafi verð á rafbílum líka lækkað.

„Loks má nefna að víða, svo sem hér á landi, hafa stjórnvöld boðið kaupendum rafbíla skattaafslætti og þeir hafa virkað mjög hvetjandi,“ segir Runólfur.

Hann býst við mikilli fjölgun rafbíla á næstu árum. „Bílaleigur eru byrjaðar að bjóða upp á rafbíla og slíkt er sterk vísbending um það sem koma skal. Og svo er hitt að stórir bílaframleiðendur á borð við Volvo ætla að hætta að framleiða bíla sem nota jarðefnaeldsneyti eftir 2030.“

This article is from: