Page 1

2. tbl. 19. árg. 2013 STYRKTARFÉLAG KRABBAMEINSSJÚKRA BARNA

Móðir og dóttir með krabbamein bls. 4 Hálfnuð í 156 vikna vegferð bls. 12


HVÍTA HÚSIÐ / SÍA / ACTAVIS 319003

Því hjálpa má þurri húð

NÝTT decubal.is

Fituríkt. Milt. Mýkjandi. Nýja lípíð kremið frá Decubal er nærandi og rakagefandi krem með 70% fituinnihaldi, sérstaklega þróað fyrir mjög þurra og erfiða húð. Kremið eflir náttúrulegar varnir húðarinnar og eykur teygjanleika hennar. Decubal Lipid Cream er prófað af húðsjúkdómalæknum og inniheldur hvorki parabena né ilm- og litarefni. Kremið hefur fengið vottun norrænna Astma- og ofnæmissamtaka og hentar einnig á viðkvæma húð. Aðeins selt í apótekum.


T

Frá formanni Við Íslendingar höfum um langt árabil getað státað af því að eiga eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi og flestir hafa getað tekið undir það. Hér hefur þjónustan, fagþekkingin, meðferðirnar og umönnunin verið á heimsmælikvarða. En á undanförnum misserum hefur sú ímynd gjörbreyst. Umræðan því miður tekið á sig allt aðra og dekkri mynd. Eftir hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir er kvartað undan skertri þjónustu, sjúklingar og aðstandendur þeirra virðast margir upplifa óöryggi, fréttir berast af biluðum tækjum á sjúkrahúsum landsins og flótta sérfræðinga til starfa erlendis. Barnaspítali Hringsins hefur blessunarlega verið undanskilinn þessari umræðu, að minnsta kosti hvað lækna og hjúkrunarfólk áhrærir. Það hefur verið mat og upplifun þeirra sem málið viðkemur

að þar hafi ekki verið dregið úr þjónustu fagaðila og sérfræðinga í þeim sparnaðaraðgerðum sem grípa hefur þurft til á öðrum sviðum LSH. Þótt vissulega hafi mátt greina aukið álag á það einstaka starfsfólk sem starfar á barnaspítalanum. Fulltrúar Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna hafa ætíð fylgst náið með þróun mála á spítalanum sem annast skjólstæðinga félagsins. Og í gegnum tíðina barist fyrir bættri þjónustu, þar sem það hefur átt við, sbr. aukinni sálgæslu inni á spítalanum og eftirfylgni með börnum sem fengið hafa krabbamein. Það er eitt af hlutverkum félagsins og hefur verið gert, bæði með góðu sambandi við fagfólk sem starfar á barnaspítalanum sem og við foreldrana sjálfa. Í megindráttum

Efnisyfirlit 4 Móðir og dóttir með krabbamein 7 Eftirfylgd út í lífið 8 Andleg líðan foreldra barna með krabbamein 9 Yfir 250 hlupu fyrir SKB 10 Öflugt starf ungliðahópsins 10 Stefna gefur vefsíðu 11 Íslenskur drengur í tilraunameðferð í Bretlandi 15 UKALL 2011 : tilraunameðferð 16 Bylting í hvítblæðismeðferð 17 Sumarhátíð í blíðu 20 Leikum okkur með Lúlla Forsíðumyndina tók Baldur Kristjánsson af Thelmu Dís Friðriksdóttur á Barnaspítala Hringsins haustið 2012. Hún greindist með sarkmein (osteogeneic sarcoma) í fótlegg í apríl á síðasta ári, þá 12 ára, og þurfti að taka fótinn af um miðjan legg. Hún fór í lyfjagjafir og eftirlit á BSH allt fram á þetta ár og var myndin tekin í einni slíkri heimsókn. Thelma gengur nú við gervifót, er nemandi við Grunnskólann í Hveragerði og lætur ekkert stoppa sig.

ÚTGEFANDI: Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Hlíðasmára 14, 201 Kópavogi. Sími 588 7555, netfang: skb@skb.is, heimasíða: www.skb.is, ISSN 1670-245X. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: Gréta Ingþórsdóttir. STJÓRN SKB: Rósa Guðbjartsdóttir, formaður, Benedikt Einar Gunnarsson, Dagný Guðmundsdóttir, Einar Þór Jónsson, Erlendur Kristinsson, Erna Arnardóttir, Gréta Ingþórsdóttir, Hrafnhildur Stefánsdóttir og Skúli Jónsson. Myndir: Jón Svavarsson, félagsmenn og úr myndasafni SKB. FORSÍÐUMYND: Baldur Kristjánsson. UMBROT: A fjórir grafísk miðlun - Hjörtur Guðnason. PRENTUN: Ísafoldarprentsmiðja - Umhverfisvottuð prentsmiðja.

hefur langvarandi traust ríkt milli fagaðila og foreldrar í langflestum tilvikum haft á tilfinningunni og jafnvel vissu fyrir því að börn þeirra hljóti bestu læknismeðferðir sem völ er á, sem og umönnun alla. En eru hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðirnar með einhverju móti að bitna á þjónustu við börnin okkar? Eftir lestur viðtals í þessu blaði, við foreldra barns sem nýverið greindist með krabbamein, er ekki óeðlilegt að áfram sé spurt þessarar spurningar. Þar er skýrt frá beinum dæmum af því hvernig biluð tæki á LSH töfðu ítrekað rannsóknir á barninu og þeim óþægindum lýst sem voru því samhliða. Einnig erfiðleikum við að fá upplýsingar frá fagfólki sem kannski bendir einmitt til aukins álags á starfsfólki. SKB mun hér eftir sem hingað til sinna því mikilvæga hlutverki sínu að „vera á vaktinni“ gagnvart hlutum sem þessum. Það mun enginn láta það líðast að sparnaðaraðgerðir komi niður á börnunum okkar – börnunum sem eiga ekkert annað skilið en að fá þá allra bestu og mögulegu læknismeðferðir sem völ er á. Um þetta er allt samfélagið sammála og um það munum við hjá SKB standa vörð um ókomna tíð. Rósa Guðbjartsdóttir

Börn með krabbamein - 3


Alexandra í fanginu á mömmu sinni, Sigríði Rögnu. Stóra systir, Elísabet Benný, á milli mömmu og pabba, Kristófers. Ljósmynd: Jón Svavarsson

4 - Börn með krabbamein


Móðir og dóttir með krabbamein Sigríður Ragna Árnadóttir og Kristófer Karlsson eru félagsmenn í SKB síðan í september en dóttir þeirra, Alexandra Árný, greindist með krabbamein í ágúst sl., nýorðin eins árs. Þau áttu fyrir Elísabetu Benný, fædda í janúar 2010. Sigga og Krissi eru ungir foreldrar, hún er fædd 1990 og hann 1983, en eru engu að síður orðin allsjóuð í að glíma við erfiðleika þar sem Sigga var sjálf í krabbameinsmeðferð þegar Alexandra greindist. Sumarið 2011 fór Sigga í keiluskurð vegna frumubreytinga, þremur mánuðum áður en hún varð ófrísk að Alexöndru, sem fæddist 3. ágúst 2012. Sigga þurfti að láta fylgjast með sér út af frumubreytingunum árið áður og hafði verið að slá því á frest. Þegar hún fór svo loksins í skoðun í mars á þessu ári kom í ljós æxli á leghálsi. Hún var sett á æxlishemjandi lyf í sex vikur, fékk þá nokkurra vikna hlé, var síðan á lyfjakúr í fjórar vikur og var að lokum skorin 7. ágúst. Daginn eftir var Alexandra lögð inn með æxli í kviðarholi. Alexandra (t.h.) stækkaði mjög hratt og var mjög stór miðað við aldur. Hér er hún 5 mánaða gömul með Írenu, 13 mánaða gamalli frænku sinni.

Hætti 5 mánaða að sofa á daginn Aðdragandinn að því var sá að Alexandra stækkaði mikið, var lystarmikil, svaf lítið og var mun stærri en jafnaldrar hennar. Pabbi hennar hafði verið mjög stórt ungabarn og stórgert fólk í fjölskyldu Siggu en engu að síður fannst þeim þetta fullmikið af því góða. Krissi og Sigga höfðu ítrekað orð á þessu í ungbarnaeftirliti. „Þegar hún var 6 mánaða gömul var athugað hvort hún væri með svokallað tröllagen og hvort skjaldkirtillinn í henni starfaði eðlilega. Út úr því kom ekkert og okkur sagt að hafa ekki áhyggjur, börn væru bara ekki öll eins. Við höfðum samt systur hennar til viðmiðunar og fannst ekki eðlilegt hvað Alexandra var MIKLU stærri, þurfti að borða MIKLU meira og sofa MIKLU minna, hætti t.d. að sofa á daginn þegar hún var 5 mánaða,“ segir Sigga. Til glöggvunar er ekki óalgengt að börn sofi á daginn allt til þriggja ára aldurs. Svo fór að þau báðu um aukaskoðun í ungabarnaeftirliti og fengu í kjölfarið tíma hjá innkirtlasérfræðingi sem ákvað að láta sónarskoða Alexöndru. „Á þessum tíma var hún orðin eins og lítið steratröll, herðabreið, kringluleit, borðaði á við fullorðinn mann og vaknaði allt upp í 15 sinnum á nóttu til að drekka eða borða. Og skapið var erfitt. Ef hún fékk ekki það sem hún vildi - og þá helst mat - öskraði hún og lamdi frá sér þangað til hún fékk að borða.“

Þetta var 8. ágúst, daginn eftir að æxlið á leghálsi Siggu var fjarlægt og hún að byrja lyfjameðferð til að fylgja því eftir. Alexandra var lögð inn og byrjað að taka blóðprufur. Strax var talað um aðgerð en þau fengu litlar upplýsingar. „Við vorum látin bíða og okkur sagt að hún færi í sneiðmyndatöku strax morguninn eftir en það gerðist ekki fyrr en tveimur dögum seinna. Okkur var sagt mjög lítið,“ segir Krissi. Erfitt að bíða eftir niðurstöðu „Í myndatökunni sáust tveir bólgnir og grunsamlegir eitlar en hún leiddi líka sem betur fer í ljós að æxlið var skurðtækt. Aðgerðin var ákveðin 12. ágúst og við fengum að fara heim í leyfi. Við vorum að deyja úr kvíða því við vissum ekki neitt. Við undirbjuggum Alexöndru fyrir aðgerðina með því að láta hana fasta, eins og gert er fyrir svona stóra aðgerð, en það var meira en að segja það með matarlystina eins og hún var í Alexöndru á þessum tíma. Við mættum með hana að kvöldi

Alexandra er kát stelpa. Hérna hefur hún stolist út á sokkunum!

Æxli á stærð við mandarínu Þau komu við í búð á leiðinni heim eftir sónarskoðunina og þar voru þau stödd þegar þau fengu símtal frá lækninum sem sagði þeim að í ljós hefði komið 5 x 6 cm æxli á annarri nýrnahettunni. Það hefði ekki sést nógu vel á sónarmynd og þau ættu að fara beint niður á Barnaspítala þar sem Ragnar Bjarnason læknir biði eftir þeim. Börn með krabbamein - 5


11. ágúst í brjáluðu skapi og hún ætlaði aldrei að sofna. Við héldum að aðgerðin yrði morguninn eftir. Upp úr hádegi er okkur sagt að henni verði frestað um sólarhring vegna þess að gjörgæslan sé full og ekki hægt að taka við barninu þar. Þá var Alexandra búin að vera fastandi frá deginum áður með tilheyrandi harmkvælum. Við förum heim og gefum henni að borða, förum með hana aftur um kvöldið á spítalann og er þá sagt að aðgerðin verði kl. 9 morguninn eftir. Hún var svo skorin upp úr hádegi. Það gekk vel, æxlið var fjarlægt að bólgnu eitlarnir teknir. Okkur var sagt að það yrði að senda sýni úr æxlinu til Svíþjóðar til að greina hvað væri þarna á ferðinni en sennilega væri þetta krabbamein,“ segir Krissi. Hann bætir við að þau hafi síðan frétt að sýnin hafi ekki verið send utan fyrr en tveimur dögum seinna og hafi fyrst farið til Svíþjóðar, svo til Boston og að lokum Seattle en þau hafi samt aldrei fengið staðfest hvar sýnið var greint. Þau voru send heim 17. ágúst eða fjórum dögum eftir aðgerð en biðu svo í þrjár vikur eftir niðurstöðunum. „Við vorum send heim með enga dagsetningu, engar upplýsingar, bara að barnið væri með æxli, sem líklega væri krabbamein af gerðinni adrenocortical carcinoma. Við héldum að við fengjum niðurstöður tveimur vikum eftir skurðaðgerð og þegar sá tími var kominn byrjaði ég að reyna að fá upplýsingar. Ég hringdi fjóra eða fimm daga í röð á spítalann en það hringdi aldrei neinn til baka. Ég skildi eftir skilaboð til allra sem ég hélt að gætu sagt mér eitthvað. Svo missti ég mig alveg og sagði að við YRÐUM að fá að vita eitthvað. Við vorum að deyja úr áhyggjum! Þá hringdi Sólveig læknir til baka og sagði okkur að æxlið hefði verið illkynja en ekkert meira að gera í bili og það verði haft samband. Það gerðist ekki fyrr en mamma hringdi á deildina til að reyna að fá upplýsingar, þá fyrst var talað við okkur,“ segir Sigga. „Okkur finnst við ennþá vera dálítið í lausu lofti. Það hefur verið sagt við okkur oftar en einu sinni að það verði hringt í næstu viku en svo gleymist það.“ Er með lyfin sín á boðgreiðslum Sigga og Krissi hafa fundið fyrir því að það er ekki ókeypis að verða veikur á Íslandi og veikindi hennar hafa tekið í fjárhagslega. Hún er búin að greiða 200 þúsund vegna eigin lyfjameðferðar og er með tæplega 100 þúsund til 6 - Börn með krabbamein

viðbótar á boðgreiðslum. Krissi kláraði mjög fljótt þann rétt sem hann átti vegna veikinda barns en sem betur fer átti hann orlofsdaga sem hann gat nýtt á meðan Alexandra var í spítalainnlögn. Lyfjameðferð Siggu, sem hún lauk í byrjun október, var ekki mjög hörð en hún var engu að síður lasin meðan á henni stóð, missti mikið hár, var flökurt, kastaði upp og var máttfarin. Þau Krissi búa ekki saman, þ.a. hún er ein með stelpurnar á nóttunni. Hún var orðin langþreytt, bæði vegna eigin veikinda og vegna þess hvað Alexandra svaf lítið og var vaknandi allar nætur en Krissi hjálpaði mikið til og gisti oftast. Alexandra er reyndar gjörbreytt eftir að æxlið var tekið en við greiningu kom í ljós að það var af gerðinni adrenocortical carcinoma, stera- og hormónaframleiðandi æxli og var sökudólgurinn að breytingunum, sem urðu á Alexöndru. Æxlið var fjarlægt og engin frekari meðferð áætluð, aðeins reglulegt eftirlit næstu misserin. Af þeim sökum fær Sigga ekki umönnunarbætur með Alexöndru. Fyrsta eftirlitssegulómunin átti að vera 3. október en daginn áður voru þau látin vita að það gengi ekki vegna bilunar í tæki. Þau fengu þá tíma 8. október, mættu, blóðprufur voru teknar, nál sett upp og Alexandra svæfð með stíl. Þegar hún var sofnuð var þeim sagt að ekki væri hægt að segulóma barnið því að bæði tækin væru biluð. Tækið í Fossvogi hafði verið bilað í nokkra daga og nú var

Alexandra á vöknun eftir svæfingu. Sigga Ragna pínu áhyggjufull.

tækið á Hringbrautinni bilað líka. Segulómunin fór svo fram 15. október, niðurstaðan úr henni var góð og næsta ómun er áætluð í janúar. Sigga er ennþá heima með Alexöndru sem átti að byrja hjá dagmömmu en vegna veikinda Siggu þá hefur hún ekki byrjað að vinna aftur eftir fæðingarorlof og hún hefur ekki efni á að senda Alexöndru til dagmömmu á meðan hún er ekki með vinnu. Þau Krissi segjast núna vera að takast á við afleiðingar æxlisins sem var hormóna- og steraframleiðandi, eins og áður sagði. Líkaminn þarf að jafna það út aftur, hann þarf að venjast aðeins einni nýrnahettu og núna fer Alexandra vonandi að stækka eðlilega. Hún léttist mikið strax eftir aðgerðina og hefur mjög litla matarlyst og sefur mikið. „Við erum eiginlega að kynnast henni upp á nýtt. Hún er svo mikið breytt að hún er allt önnur. Núna erum við komin í bataferli með krabbameinið sjálft en þurfum að takast á við afleiðingarnar.“ Eiga vonandi bara eftirlit eftir Þau segjast hafa ákveðið að demba sér ekki á netið til að lesa um sjúkdóminn fyrst en þegar þau fengu engin svör og biðu í lausu lofti þá hafi þau ekki getað haldið aftur af sér og farið að lesa. „Það sem maður finnur á netinu er ekki gott - í heildina litið er 60% dánartíðni fyrstu fimm árin eftir greiningu þessa krabbameins. Læknarnir héldu strax að þetta væri adrenocortical carcinoma og auðvitað flettum við því upp. Ég hélt aftur af mér í svona eina og hálfa viku en þá fór ég að gúgla. Frænka Krissa, sem er barnalæknir, sagði okkur að þetta væri ekki jafn slæmt og við héldum og það var í rauninni hún sem róaði okkur. Benti okkur á að ef börn eru yngri en fjögurra ára þá væru góðar líkur á bata, sérstaklega ef æxlið væri skurðtækt.“ „Nú verðum við bara að aðlaga okkur að þessu „nýja“ barni og fylgja henni eftir. Ef allt fer á besta veg þarf ekki að gera neitt meira en að mynda hana á nokkurra mánaða fresti og sama á við um mig, ég er búin í minni lyfjameðferð og verð undir eftirliti í nokkur ár. Svo tökum við bara Megas á þetta: Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig!“ segir Sigga að lokum.


Nýtt verkefni hjá SKB:

Eftirfylgd út í lífið Árlega greinast 10-12 börn með krabbamein á Íslandi. Flest þeirra lifa af, sem betur fer, en þurfa að gangast undir erfiðar meðferðir: lyfjagjafir, geisla og skurðaðgerðir. Því miður fylgja þessum miklu inngripum stundum síðbúnar afleiðingar. Eitthvað skaddast í líkamanum um leið og unninn er bugur á krabbameininu, félagsleg einangrun tekur sinn toll með sálrænum erfiðleikum og þreytan er algengur fylgifiskur. Ýmislegt sem áður var leikur einn verður meiriháttar hindrun. Það getur verið meira en að segja það að lifa af krabbameinsmeðferð. SKB fylgir börnum eftir út í skólana Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur átt gott samstarf við krabbameinsteymi Barnaspítala

Spjaldtölvugjöf Epli.is færði SKB tvær ipad-spjald­ tölvur að gjöf í sumarlok í tengslum við Facebook-leik fyrirtækisins. Fyrirtækið hafði sett sér það markmið að ná í þrjátíu þúsund „læk“ á Facebooksíðu sína og þegar leikurinn fór af stað vantaði ekki mikið upp á. Það er frábært að geta boðið börnum sem greinast með krabbamein að stytta sér stundir og stunda nám sitt með ipad við hönd á meðan á löngum og ströngum meðferðum stendur. SKB þakkar epli.is kærlega fyrir stuðninginn.

Hringsins um að búa til ferla fyrir eftirmeðferð á spítalanum og sér nú fyrir endann á því verkefni. Þá fær hvert barn nokkurs konar „vegabréf“ með öllum upplýsingum um meðferðina og lyfin sem það hefur fengið og þar er einnig haldið utan um viðtöl, skoðanir og rannsóknir sem barnið þarf að mæta í eftir að meðferð lýkur. Nú þegar þetta verkefni er svo gott sem í höfn hefur félagið hug á að fylgja skjólstæðingum sínum eftir á öðrum vettvangi, þ.e. í skólunum. Markmið að koma til móts við þarfir hvers barns Félagið hefur þegar gert ýmislegt í því að upplýsa kennara og aðra starfsmenn skóla um hvaða þarfir krabbameinsveik börn hafa meðan á meðferð stendur og eftir að henni lýkur og gefið út ágæt rit í þeim tilgangi. Enn er þó hægt að gera betur og felst verkefnið Eftirfylgd út í lífið í því að iðjuþjálfi taki út aðstæður skjólstæðinga félagsins í skólunum, bæði sem snúa að samskiptum annars vegar og aðstæðum og aðbúnaði hins vegar, og gera þær aðlaganir og breytingar sem hægt er til að nemandanum líði sem best. Þetta getur kallað á auknar upplýsingar til skólastarfsfólks og/eða breytingar á vinnu- og hvíldaraðstöðu. Markmiðið

er að fylgja hverju barni náið eftir og koma til móts við þarfir þess á hverjum stað og hverjum tíma. Iðjuþjálfi metur stöðu barnsins Starf iðjuþjálfa byggist á mati á þátttöku og færni nemenda sem glíma við skólafærnivanda, auk mats á skynúrvinnslu og eflingar félagsfærni barnanna. Þá sinnir iðjuþjálfi athugunum á vinnuaðstöðu barna, aðlögun á hjálpartækjum, metur þörf á hjálpartækjum tekur eftir þörfum þátt í teymum vegna barna. Eftirfylgd, fræðsla og ráðgjöf er stór hluti af starfi iðjuþjálfa og mjög mikilvægur þáttur. Ekki bundið við höfuðborgarsvæðið SKB hefur gert samkomulag við Kristjönu Ólafsdóttur iðjuþjálfa um að taka þetta verkefni að sér og hefur fengið styrk frá Auði Capital til að hefja það. Auglýst hefur verið eftir umsóknum frá félagsmönnum í SKB sem vilja nýta sér þjónustu hennar með það að markmiði að bæta aðstæður og líðan. Verkefnið er farið af stað og eru foreldrar í félaginu hvattir til að íhuga hvort þessi þjónusta geti nýst þeirra börnum. Hægt er að sækja um á heimasíðu SKB, www.skb.is athygli foreldra á landsbyggðinni er vakin á því að verkefnið er ekki bundið við höfuðborgarsvæðið.

Börn með krabbamein - 7


Andleg líðan foreldra barna með krabbamein

Meiri sjúkdómstengd streita í íslenskum foreldrum en sænskum Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur hefur undanfarin ár unnið að rannsókn á líðan foreldra barna með krabbamein og borið saman aðstæður og líðan íslenskra og sænskra foreldra sem lenda í þeirri stöðu að barn þeirra greinist með krabbamein. Karolinska Institutet í Stokkhólmi og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hafa stutt rannsóknina fjárhagslega. Nú sér fyrir endann á henni og í eftirfarandi grein fer Eygló yfir helstu niðurstöður. Rannsóknin er lokahluti doktorsverkefnis Eyglóar. Margir óvissuþættir valda streitu Markmið samstarfsrannsóknar Karolinska Institutet og Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna á foreldrum krabbameinssjúkra barna, sem hefur verið í gangi síðan 2007, er að rannsaka ítarlega líðan foreldra barna með krabbamein, áhættuþætti og viðnámsþrótt, langtímastreitu og viðbrögð við henni. Með samanburði á foreldrum krabbameinssjúkra barna í tveimur löndum er betur hægt að spá fyrir um hvaða þættir hafa áhrif á sálfélagslega líðan foreldra og þannig frekar fyrirbyggja vanlíðan foreldra og/ eða grípa til viðeigandi íhlutunar. Sálfræðilegar rannsóknir hafa stuðlað að skilningi á nauðsyn þess að hlúa að sálfélagslegum þörfum þegar barn greinist með krabbamein, ekki einungis hjá hinu veika barni, heldur fjölskyldunni í heild sinni. Óvissa um árangur krabbameinsmeðferðar, það að horfa upp á barnið sitt þjást, áhyggjur og óöryggi um framtíðina og langtímaáhrif meðferðar á líkamlega og andlega heilsu barnsins, eru allt þættir sem hafa mikil áhrif á líðan foreldra krabbameinssjúkra barna. Niðurstöður fyrri rannsókna þar sem líðan foreldra krabbameinssjúkra barna og foreldra frískra barna er borin saman, benda til þess að strax eftir greiningu verði mun frekar vart mismunandi einkenna álagsstreitu og annarra sálfræðilegra einkenna hjá foreldrum barna með krabbamein en hjá foreldrum frískra barna. Þessi upplifun um aukið álag og aukin sálfræðileg einkenni foreldra krabbameinssjúkra barna strax við greiningu svo og um lengri tíma getur valdið samfelldri og uppsafnaðri streitu. Með öðrum orðum: Það að barn greinist með krabbamein skapar óhefðbundnar, framandi og margbreytilegar streituaðstæður hjá foreldrum þess. Vanlíðan getur varað í áratugi Viðbrögð foreldra eftir krabbamein barns hafa verið rannsökuð útfrá margskonar þáttum, sem mögulega geta haft áhrif á streituviðbrögð, t.d. kvíða og þunglyndi, almennri geðheilsu, sálvefrænum einkennum, hjónabandserfiðleikum

8 - Börn með krabbamein

og lífsgæðum. Fyrri áföll geta líka haft áhrif á viðbrögð við streitu. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að fjöldi foreldra upplifir aukna vanlíðan og mikil streitueinkenni, bæði meðan á meðferð stendur og síðar, jafnvel áratugum eftir að krabbameinsmeðferð er lokið. Niðurstöður rannsókna sýna því að greining barns með krabbamein hefur augljóslega áhrif á líðan foreldra. Þrátt fyrir þessar niðurstöður hefur ósamræmi milli rannsókna verið mikið og mikilvægum spurningum er enn ósvarað. Rannsóknir skortir á því hvort og hvernig foreldrar bregðast við samfelldum og langvarandi álagsaðstæðum með einkennum „krónískrar“ (stöðugrar) streitu þar sem birtingarmyndin er „huglægt andlegt niðurlot“ (e. Subjective Mental Fatigue), sem einkennist af minnkuðum þrótti og aukinni þreytu sem yfirleitt kemur í kjölfar langvarandi andlegs og líkamlegs álags. Getur mismunur í meðferð og umönnun haft áhrif? Markmið þessarar rannsóknar er að skoða langtímaáhrif þess að vera foreldri barns sem greinst hefur með krabbamein. Í forgrunni er rannsóknarspurningin: „Geta þættir sem tengjast mismun í uppbyggingu umönnunar og meðferðar milli landa haft áhrif á langtíma sálfræðilegar afleiðingar foreldra, svo sem huglægt andlegt niðurlot, í kjölfar krabbameinsgreiningar barns?“ Þátttakendur í rannsókninni voru 334 foreldrar 219 krabbameinssjúkra barna sem meðhöndluð voru á Astrid Lindgrens Barnsjukhus í Stokkhólmi eða á Barnaspítala Hringsins í Reykjavík. Börnin fengu greiningu á árunum 1986-2007 og voru ýmist í meðferð eða höfðu lokið meðferð þegar spurningalistar rannsóknar voru lagðir fyrir. Til mælingar á einkennum huglægs andlegs niðurlots var notast við spurningalistann Maastricht Questionnaire (MQ) sem þýddur hafði verið og staðfærður fyrir íslenska og sænska foreldra. MQ samanstendur af 21 atriði sem nær m.a. yfir huglæga upplifun á ofþreytu, tap á krafti og auknar skapsveiflur. Spurningar voru t.d.: • Ert þú oft þreytt/ur? • Finnst þér þú almennt vera veikburða? • Hefur þú upplifað vonleysistilfinningu? • Verður þú auðveldar pirruð/pirraður yfir smámunum en áður? • Líður þér eins og líkami þinn sé eins og tómt batterí? • Finnst þér sem þú ráðir ekki við lífskröfurnar undanfarið? • Finnst þér þú vera útkeyrð/ur og slitin/n þegar þú vaknar?


Samanburður á 125 íslenskum og 209 sænskum foreldrum leiddi í ljós svipaða upplifun á huglægu andlegu niðurloti í báðum foreldrahópum. Hins vegar gáfu niðurstöður skýrt til kynna að marktækur munur var á upplifun foreldra krabbameinssjúkra barna annars vegar og foreldra frískra/ heilbrigðra barna hinsvegar. Gildi huglægs andlegs niðurlots voru langtum hærri hjá foreldrum barna með krabbamein en hinna frísku, sem ekki getur talist óvænt, þar sem fyrri rannsóknir hafa margsinnis sýnt fram á marktækan mun álags- og streitueinkenna milli þessara hópa. Íslenskir foreldrar með meiri sjúkdómstengda streitu Greining á einstökum atriðum huglægs andlegs niðurlots sýndi að íslenskir foreldrar skoruðu marktækt hærra á 4 af 21 atriði MQ sem tengdust svefntruflunum, máttleysi og vonleysi. Samanburðarhæfni íslenskra og sænskra foreldra var staðfest þegar í ljós kom að niðurstöður á marktækum mun einstakra atriða huglægs andlegs niðurlots héldu sér og bendir það til þess að hann skýrist ekki af mun á rannsóknarhópunum. Með tilliti til niðurstaðna fyrri rannsókna á álags- og streitueinkennum sama þýðis, sem sýna að íslenskir foreldrar eru mun verr á sig komnir þegar kemur að sjúkdómstengdri streitu, gefa niðurstöður um huglægt andlegt niðurlot vísbendingar um að munurinn á einstökum atriðum hjá íslenskum og sænskum foreldrum geti verið vegna áhrifa meðferðarstaðar og mismunar á skipulagi umönnunar og meðferðar. Á Astrid Lindgrens Barnsjukhus er sérdeild sem sinnir einungis börnum með krabbamein en á Barnaspítala Hringsins fer meðferð krabbameinsveikra barna fram á almennri barnadeild þar sem börn með margskonar sjúkdóma eru meðhöndluð. Annar munur var sá að þegar rannsóknin var lögð fyrir var sérstakt sálfélagslegt teymi ekki hluti af umönnun á Barnaspítala Hringsins þegar barn greindist með krabbamein. Á Astrid Lindgrens Barnsjukhus var hinsvegar sérstakt sálfélagslegt teymi sem

hafði samband við foreldra allra barna sem greindust með krabbamein og tók teymið þátt í umönnun þeirra. Aukin þekking eykur möguleika á bættri meðferð Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa vísbendingar um að munur á skipulagi umönnunar geti haft áhrif á líðan foreldra krabbameinssjúkra barna. Hún leiðir einnig í ljós mun á íslenskum og sænskum foreldrum en líklegt er að skýringin á honum liggi fremur í stærð og sérhæfingu deildanna þar sem börnin fengu meðferð en upprunalandi foreldra. Til að geta fullyrt um það þarf þó að skoða fleiri deildir þar sem áhersla er fremur lögð á stærð og sérhæfingu einingar og gera samanburð á mögulegum mismun umönnunar útfrá þeim þáttum. Með aukinni þekkingu á mögulegum áhrifaþáttum er betur hægt að skima eftir sálfræðilegum einkennum, sem iðulega fylgja í kjölfar krabbameinsgreiningar barns, og eiga þá meiri möguleika á að veita viðeigandi íhlutun. Endanlegt markmið er næg þekking til að þróa skipulagt umönnunarúrræði sem stutt getur við fjölskyldur barna með krabbamein, fylgt þeim eftir og mögulega minnkað áhættuna á langtímaáhrifum streitu í birtingarmyndinni huglægu andlegu niðurloti. Eygló Guðmundsdóttir er sálfræðingur, Ph.Lic., doktorsnemi við Barncancerforskningsenheten á Karolinska Institutet í Stokkhólmi og félagsmaður í SKB. Hún er móðir Benjamíns Nökkva, sem greindist 9 vikna gamall með ungbarnahvítblæði árið 2003. Eftir beinmergsskipti, endurgreiningu krabbameins og önnur beinmergsskipti kviknaði áhugi á rannsóknum um líðan foreldra krabbameinssjúkra barna og hefur Eygló verið í doktorsnámi frá 2007. Eygló hefur setið í vinnuhópi SKB um síðbúnar afleiðingar, haldið fyrirlestra í tengslum við rannsóknir sínar, bæði hérlendis og á alþjóðlegum ráðstefnum tengdum krabbameini í börnum.

Yfir 250 manns hlupu fyrir SKB - TAKK! SKB fann fyrir frábærum stuðningi í Reykjavíkurmaraþoni, sem haldið var laugardaginn 24. ágúst. Þrjú boðhlaupslið og 254 hlauparar báðu um að áheit á þá rynnu til SKB skv. áheitasíðunni hlaupastyrkur.is - þar af voru yfir 120 manns í hlaupahópi sem varð til í kringum foreldra Ágústu Stefánsdóttur, „Ágústu Vá-Gústu ofurhetju prinsessu“. Ágústa er 6 ára félagsmaður sem greindist með heilaæxli í febrúar sl. Hlaupahópurinn safnaði um 2,5 milljónum króna en alls námu áheit til SKB um 4,5 milljónum króna og má nærri geta að það munar verulega um slíka fjárhæð í starfsemi félagsins. Mestu safnaði móðir Ágústu, Sigríður Þorsteinsdóttir, eða tæplega 700 þúsund krónum en á eftir henni

kom Sveinn Andri Sveinsson með rúmlega hálfa milljón króna. Hann hljóp heilt maraþon í fyrsta sinn á ævinni í tilefni fimmtugsafmælis síns. SKB kynnti starfsemi sína í Laugardalshöll á skráningarhátíðinni daginn fyrir hlaup en félagið hefur ekki áður nýtt sér aðstöðuna þar. Þá var hópur félagsmanna og aðstandenda hlaupara við hlaupaleiðina að hvetja hlauparana og þakka þeim fyrir. Það verður örugglega endurtekið á næsta ári og þá reynt að virkja fleira fólk, enda segja hlauparar að það sé gríðarlega hvetjandi að fá kveðjur og góða strauma af hliðarlínunni. SKB þakkar hlaupurum og þeim sem á þá hétu kærlega fyrir stuðninginn.

Sirrý og Stefán með Ágústu á milli sín eftir hlaupið. Börn með krabbamein - 9


Öflugt starf ungliða Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Kraftur og Ljósið hafa frá árinu 2009 staðið fyrir samveru ungra krabbameinsgreindra, þ.e. fólks á aldrinum 18-29 ára. SKB-félagar í hópnum eru þeir sem vaxa upp úr starfsemi USKB, unglingahóps félagsins, og vilja halda áfram að hitta fólk sem á svipaða reynslu og þeir sjálfir. Hópurinn hefur aðgang að félagsaðstöðu allra félaganna en fer líka stundum út í bæ eða út fyrir bæinn til að gera eitthvað skemmtilegt. Hópurinn hittist alla jafna annan hvorn fimmtudag. Umsjónarmaður Ungliðahópsins er Kristján Th. Friðriksson. Hann lauk BS-gráðu í íþróttafræðum frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2008 og síðan viðbótardiplóma í

lýðheilsuvísindum frá University of Minnesota vorið 2011. Hann starfar sem íþróttafræðingur við gönguog hlaupa­ g reiningar hjá Flexor í Orkuhúsinu. Hann er giftur Arndísi Sveinbjörnsdóttur, lögfræðingi og eiga þau tvo stráka, 1 og 4 ára. Kristján hefur haft umsjón með starfi Ungliðahópsinsverið frá árinu 2012 og hefur markmiðið verið að bjóða uppá metnaðarfulla dagskrá fyrir þennan aldurshóp.

Facebooksíða hópsins er Ungliðahópurinn veturinn 2013-2014.

Stefna færir SKB vefsíðu Veffyrirtækið Stefna á Akureyri hefur gefið Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna nýja vefsíðu í vefumsjónarkerfinu Moya. Nýr vefur er hugsaður til miðlunar á upplýsingum um samtökin, félagsmenn geta lagt inn umsóknir um stuðning í gegnum vefinn og hann mun nýtast til fjáröflunar í gegnum vefverslun. Heildarverðmæti gjafarinnar er metið á rúmlega 1 milljón króna en það felur í sér hönnun, uppsetningu, aðstoð og hýsingu í tvö ár. Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB, opnaði nýju vefsíðuna formlega 24. september og þakkaði Stefnu kærlega fyrir myndarlegan stuðning við félagið. „Heimasíðan er mikilvæg til að koma á framfæri upplýsingum um félagið og eiga samskipti við félagsmenn, auk þess að vera gátt fyrir umsóknir um styrki og stuðning. Þá geymir heimasíðan sögu félagsins að einhverju leyti og birtir mynd af starfsemi þess á hverjum tíma. Metnaðarfull og falleg heimasíða er vitnisburður um starfsemina og á að endurspegla hana með sambærilegum hætti,“ segir Gréta. Börn með krabbamein - 10 10 - Börn með krabbamein

Gréta Ingþórsdóttir og Kristján Ævarsson, hjá útibúi Stefnu í Kópavogi, takast í hendur þegar nýi vefurinn fór í loftið í lok september. Myndina tók Gísli Steinar Jóhannesson, þjónustufulltrúi hjá Stefnu.

Tímamótum fagnað með stuðningi við SKB „Það er okkur sönn ánægja að styðja við samtökin og leggja okkar að mörkum þeim til stuðnings,“ segir Matthías Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Stefnu. „Stefna fagnar 10 ára afmæli sínu um þessar mundir og okkur langaði að fagna tímamótunum með því að leggja góðu

málefni lið. Niðurstaðan varð að styrkja Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna um nýjan vef. Þar er unnið frábært starf og félagið vel að styrknum komið. Það er von okkar að vefurinn eigi eftir að nýtast samtökunum vel.“ Stefna hefur á undanförnum 10 árum sett meira en 1.000 vefi í loftið og eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins í viðskiptum við Stefnu.


Hálfnuð í 156 vikna vegferð Þuríður Guðmunda Ágústsdóttir er 36 ára félagsmaður í SKB. Hún er gift Jussi Heinonen, 36 ára Finna, og búa þau í Cambridge á Englandi ásamt börnum sínum þremur, Markúsi, 9 ára, Jakobi, 4 ára, og Elísu á fyrsta ári. Hér á eftir fer frásögn Þuríðar af greiningu og meðferð Jakobs en hann greindist með hvítblæði á síðasta ári og fær meðhöndlun eftir UKALL2011tilraunameðferðaráætlun. Áætluninni er lýst í stuttu máli á öðrum stað í blaðinu.

Jakob fæddist, stór og sterkur, á sólríkum degi í Cambridge, Englandi, 29. maí 2009. Hann var vært og gott ungabarn en um leið og hann fór af stað var ljóst að hér var á ferðinni einstaklega orkumikill og glaðlyndur drengur. Þegar hann veiktist í byrjun júlí 2012 höfðum við Jussi ekki af því miklar áhyggjur. Hann var með hita en annars einkennalaus. Við Jakob fórum með eldri bróður hans, Markús, í skólann og áttum síðan náðugar stundir fyrir framan sjónvarpið. Eftir tæpa viku fannst mér þó nóg komið

og fór með hann til heimilislæknis. Læknirinn gat ekki séð neitt athugavert við drenginn, staðfesti hitann og stakk upp á að það yrði gerð þvagprufa. Niðurstöður voru fínar, engin sýking. Áfram leið tíminn og okkar maður hélt áfram að vera með um 40 stiga hita sem haldið var niðri með stílum. Hann hékk á sófanum og góndi á sjónvarp, eitthvað sem var og er mjög ólíkt honum. Eftir tíu daga ákvað ég að hafa aftur samband við heimilislækninn, það var gerð önnur þvagprufa en ekkert virtist útskýra hitann. Jakob greyið varð


bara slappari og slappari með hverjum deginum. 13 dagar af hita og sleni Nú vorum við farin að hafa af þessu verulegar áhyggjur. Við vorum boðin í lítið brúðkaup í Durham, sem er í rúmlega 250 km fjarlægð, og veltum mikið fyrir okkur hvort það væri eitthvert vit í að fara þangað með barn sem búið var að vera veikt svona lengi. Ég fór því enn á ný með Jakob til heimilislæknis eftir 13 daga af háum hita og almennu sleni. Við hittum þá annan lækni sem gaf sér góðan tíma til að tala við okkur og skoða drenginn. Þegar hér var komið sögu var ég búin að hafa samband við leikskólann sem staðfesti að ekkert væri að ganga hjá börnunum þar, enda hásumar og lítið um pestir. Jakob var kominn með agnarsmáan fjólubláan blett undir hökuna sem minnti mig á myndir sem ég hafði séð af heilahimnuútbrotum. Læknirinn gerði próf sem útilokuðu heilahimnubólgu og útskýrði að slík veikindi kæmu yfirleitt skyndilega og væru ekki svona lengi að malla eins og það sem var að valda hitanum hjá Jakobi. Læknirinn gat ekki greint veikindin en tók þessu mjög alvarlega og vildi hafa samband við barnalækni. Fyrsti bletturinn Eftir samtal við barnalækninn var ákveðið að setja Jakob á sterkan sýklalyfjakúr og ef undirliggjandi sýking væri orsök þessara óútskýrðu veikinda þá ættu sýklalyfin að ráða niðurlögum þeirra. Ef blettunum fjölgaði ættum við að fara beint á bráðavakt. Á föstudeginum vaknar Jakob hitalaus í fyrsta sinn eftir tvær heilar vikur af hita og við, í einhverri einfeldni og þeirri staðföstu trú að alvarlegir sjúkdómar hendi ekki okkar börn, ákváðum við að sýklalyfin hefðu virkað og fórum norður eftir í brúðkaupið. Þar sem leiðin var löng var ákveðið að leggja af stað að kvöldi, gefa strákunum að borða og vonast til að þeir sofnuðu á leiðinni. Markús, þá tæplega 8 ára gamall, datt út eins og ljós skömmu eftir matarstopp en Jakob, glaður að hafa leikjatölvuna í friði, vakti eins og viti, orkuboltinn sem hann er. Það var eftir nokkra stund að ég tók eftir því í baksýnisspeglinum að hann var sífellt að þurrka sér um munninn og var allur útataður í framan. Ég sakaði pabbann um að hafa ekki þurrkað tómatsósuna nógu vel framan úr honum en pabbinn stóð fast á því að hendur og andlit hefðu verið vel 12 - Börn með krabbamein

þvegin á karlaklósettinu áður en við héldum áfram. Þegar við loksins komum á hótelið þar sem við áttum næturstað fyrir brúðkaupið var augljóst að tómatsósan, sem mamman þóttist sjá í baksýnisspeglinum, var blóð. Það blæddi úr gómunum á Jakobi. Alveg góðan slatta. Jakob vildi hins vegar ekkert leyfa okkur að skoða þetta nánar, enda klukkan að nálgast miðnætti og hann orðinn þreyttur. Hann var kominn með bullandi hita aftur og ég vakti yfir honum, mjög áhyggjufull. Um morguninn töluðum við hjónin saman. Hvað áttum við að gera? Barnið var greinilega veikt en við vorum í 45 mínútna fjarlægð frá brúðkaupinu og 3,5 tíma frá heimilinu í Cambridge. Eftir miklar vangaveltur ákváðum við að fara í brúðkaupið og vera viðstödd athöfnina og kampavínsmóttökuna en fara síðan beina leið heim. „Hann er ansi fölur“ Morguninn eftir vakna strákarnir hressir og kátir að vanda. Jakob var ekki með hita en þegar drengirnir voru að fara í veislufötin tók ég eftir nokkrum litlum fjólubláum blettum á fótleggjunum á honum. Það fór um mig og ég minntist orða læknisins en einhverra hluta vegna, kannski af því hann var svo hress og hlaupandi um allt, hélt ég að þetta plan okkar um að stoppa stutt við í brúðkaupinu og halda síðan heim væri bara fínt. Við myndum fara í brúðkaup kl. 11, værum komin heim til Cambridge um kl. 17 og færum þá á læknavaktina. Við vorum viðstödd yndislega

athöfn góðra vina og drengirnir skemmtu sér vel í veislunni, sem haldin var í lystigarðinum í Durham, ásamt fleiri börnum sem þar voru. Síðan heilsuðum við upp á foreldra brúðarinnar. Það vill svo til að þau eru bæði læknar og höfðu fylgst með veikindum Jakobs og spurðu þess vegna hvernig hann hefði það. Við sögðum eins og var og faðirinn benti á Jakob og spurði: „Er þetta hann?“ „Já,“ svöruðum við. Þá sagði hann mjög rólega: „Hann er ansi fölur. Ég ráðlegg ykkur að koma við á Durhambráðamóttökunni áður en þið keyrið heim.“ Við eigum góða vini sem eru læknar og hjúkrunarfræðingar og vitum að ekkert þeirra myndi segja svona lagað nema mikið lægi við. „Það er eitthvað alvarlegt“ Durham-spítalinn er við hliðina á lystigarðinum þar sem veislan var haldin, þannig að það var ekki langt að fara. Við Jakob fengum strax afgreiðslu og á meðan dunduðu Jussi og Markús sér úti. Fyrsti læknirinn heyrði af öllu sem áður hafði gengið á og kallaði á annan. Sá spurði útí blettina sem voru farnir að breiðast út. Ég sagðist hafa tekið eftir nokkrum í viðbót við þann sem var undir hökunni þegar ég hefði klætt hann í sparifötin um morguninn. Læknirinn bað mig um að draga upp skálmarnar og sýna sér. Þegar ég gerði það þá hryllti mig við því sem við blasti, fótleggirnir voru alsettir smáum fjólubláum blettum. Læknirinn leit þungbúinn á mig og spurði: „Veist þú hvað er að barninu þínu?“ og ég svaraði: „Nei, en ég geri mér grein fyrir því að það er eitthvað alvarlegt!“ Læknirinn játti því og sagðist þurfa að hringja á krabbameinssérfræðing og bóka blóðprufu. Jakob barðist um á hæl og hnakka í blóðprufunni. Það þurfti að kalla inn alla hjúkrunarfræðingana sem voru á ganginum. Það þurfti að halda fótum, höndum, búk og höfði og þá fyrst var hægt að taka prufuna. Innan skamms kom niðurstaða. Ekki góð. Við máttum alls ekki keyra niður til Cambridge en gátum heldur ekki verið á Durham-spítalanum. Við þurftum að fara akút í sjúkrabíl og leggjast inn á krabbameinsdeildina á The Great North Children’s Hospital, barnaspítalann í Newcastle. Og þar byrjaði heljarreiðin. Jakob átti að fara í lungnamyndatöku. Hann átti einnig að fara í akút blóðgjöf og blóðflögugjöf en það gekk ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, blessað barnið var


brjálað og streittist við svo að það var ákveðið að drífa hann í svæfingu og gera þetta allt saman ásamt því að taka blóðmergssýni. Allt betra en krabbamein, er það ekki? Læknirinn okkar, Prof. Simon Bailey, færði okkur síðan erfiðar fréttir. Blóðmergurinn hans Jakobs var tómur, engar blóðfrumur, engar blóðflögur, ekkert. Hann þyrfti mikla blóð- og blóðflögugjöf og allt benti til þess að hann væri með aplastic anaemia (vanmyndunarblóðleysi). Við foreldrarnir önduðum léttar. Allt er betra en krabbamein, er það ekki? Við tóku ruglingslegir dagar í ókunnu umhverfi á krabbameinsdeild fyrir börn í Norðaustur-Englandi. Hvernig gat þetta verið að gerast? Eftir frekari

rannsóknir áttum við aftur fund með Prof. Simon og hans teymi og hann útskýrði fyrir okkur glaður í bragði að Jakob væri ekki með aplastic anaemia heldur hvítblæði (Pre-B Acute Lymphoblastic Leukaemia). Við upplifðum enn eitt áfallið – þetta var þá krabbamein eftir allt saman! Dr. Simon útskýrði að þetta væri betri niðurstaða þar sem batalíkurnar fyrir hvítblæði barna væru afar góðar, ólíkt aplastic anaemia sem er venjulega ólæknanlegur sjúkdómur. Eina sem við heyrðum var að barnið okkar var með krabbamein. Seinna meir skildi ég að læknirinn hafði haft rétt fyrir sér. Þrjár fjölskyldur saman á stofu Eftir nokkurra daga innlögn í Newcastle fórum við Jakob með sjúkrabíl heim til Cambridge. Það vill svo til að

Addenbrookes-spítalinn, sem er í um 10 mínútna fjarlægð frá heimili okkar, er miðstöð krabbameinslækninga barna í öllu Austur-Englandi. Lán í óláni. Þann 17. júlí byrjaði Jakob krabbameinsmeðferð, sem er hluti af UKALL2011-tilraunameðferðaráætlun undir handleiðslu Dr. Michaels Gattens. Við deildum herbergi með fjölskyldum tveggja annarra barna, sem voru líka að greinast með hvítblæði. Það var ansi erfitt, enda voru allar fjölskyldurnar að fá slæmar fréttir og sinna litlum hræddum börnum sem skildu ekkert í því sem var að gerast. Jakob hélt áfram að berjast gegn öllu sem þurfti að gera. Hann spýtti út úr sér lyfjunum, reif leggi úr æðum, öskraði og grét. Hjúkrunarfólkið sagðist ekki skilja hvaðan hann fengi orkuna í að vera með svona læti! Þessi bardagavilji vakti hjá mér blendnar tilfinningar. Ég óskaði þess að hann væri „stilltur og góður“ við hjúkkurnar og læknana því að þá myndi allt ganga aðeins betur en innst inni var ég líka stolt af þessum litla víkingi okkar sem ætlaði að berjast og láta sko ekki bjóða sér hvað sem var. Jakob fékk Hickman-línu (ákveðin tegund af lyfjabrunni) í æð sem auðveldar allar lyfja- og blóðgjafir og -tökur. Hann reyndi bara einu sinni að rífa hana úr sér. Það var greinilega of sárt fyrir þennan litla harðjaxl. Skyldfólkið á Íslandi og í Finnlandi Þessi tími rennur eiginlega allur saman. Lyfjameðferðin var stíf og hörð og erfitt að horfa upp á barnið sitt verða veikara og veikara með hverjum lyfjaskammtinum og þurfa síendurtekið að halda á því á meðan það var svæft fyrir litlar aðgerðir og lyfjagjafir hér og þar. Dagurinn fór allur í að stytta barninu stundir og andvaka næturnar margar í að lesa sér til og kynna sér þennan áður ókunna heim krabbameinsins. Eftir rúman mánuð fengum við að fara heim en meðferðin hélt áfram á dagdeildinni. Fjölskylda og vinir voru allt of langt í burtu, ég verandi frá Íslandi og Jussi frá Finnlandi. Í upphafi meðferðarinnar fór Markús litli einn í flug til Íslands og gat verið í örygginu og hlýjunni hjá ömmu og afa á meðan þessar erfiðu vikur gengu yfir. Það vantaði sko ekki, allir reyndu eftir fremsta megni að vera okkur innan handar og kortunum rigndi yfir okkur en við vorum eiginlega ekki í stakk búin að meta hvaða hjálp eða stuðningur nýttist okkur best. Það Börn með krabbamein - 13


var því ómetanlegt þegar fólk hafði beint samband við okkur og sagði beinlínis hvernig það vildi hjálpa. Nágrannar buðust til að fara með Markús í skólann á morgnana, aðrir buðu honum að koma heim eftir skóla og hjálpuðu með heimavinnuna, sumir komu með tilbúinn mat og svo mætti áfram telja. Bergljót Steinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og æskuvinkona mín, sem einhverjir lesendur kannast kannski við frá Barnaspítala Hringsins, var fljót að hafa samband og sagði mér frá SKB og þeim stuðningi sem ég gæti sótt þangað. Það þótti mér ótrúlega gott, enda heimþráin eftir Íslandi í hámarki og öllu því góða sem þar var. Begga gat líka útskýrt fyrir mér hina ýmsu þætti veikindanna og meðferðarinnar, sem ég hafði ekki haft tíma til að skilja eða spyrja úti þegar mér voru veittar upplýsingar. Það var algerlega ómetanlegt að eiga aðgengi að þeim viskubrunni og gæðablóði, sem hún Begga mín er. Svæfing kl. 8, leikskóli kl. 13! Hér í Englandi er mælst til þess að börn sem eru í krabbameinsmeðferð taki sem mestan þátt í því sem getur talist eðlilegt líf jafnaldra þeirra. Jakob átti að fá pláss á leikskóla í september og að höfðu samráði við lækna og leikskólann byrjaði hann þar eins og áætlað var. Hann fór sína 15 tíma á viku og var yfir sig ánægður að geta leikið sér við önnur börn og hamast úti í garði eins og honum er svo innilega eðlilegt. Leikskólinn var líka einstaklega góður í samstarfi við okkur, sendi út bréf í upphafi skólaárs þar sem útskýrt var að Jakob væri veikur og allir þyrftu að vera snöggir að tilkynna ef hlaupabóla eða mislingar stingju sér niður hjá þeim, þar sem Jakob þyrfti þá sérstök meðöl. Þetta gekk vonum framar. Jakob var auðvitað í gífurlega strembinni meðferð á þessum tíma, fór upp á dagdeild nokkrum sinnum í viku í ýmsar lyfjagjafir og á tímabili fór hann vikulega í svæfingu fyrir lyfjagjöfina í mænuvökva en hann elskaði samt alltaf að fara í skólann. Ég fór stundum með hann í svæfingu og lyfjagjöf kl. 8 að morgni og síðan í skólann kl.13. Frekar galið þegar ég hugsa til baka! Auðvitað veiktist Jakob oft og stundum þurfti hann að leggjast inn á deild en í heildina litið gekk þetta ótrúlega vel. Spítalainnlagnirnar voru okkur erfiðastar því þær settu allt sem heitið gat heimilishald á hliðina. Jussi vinnur í London og það tekur hann þrjá tíma á dag að komast í og úr 14 - Börn með krabbamein

vinnu. En þá kom vinanetið í kringum okkur sterkt inn og hjálpin og hlýjan var umvefjandi. Við fundum alltaf fyrir gífurlega miklum stuðningi fólksins í kringum okkur nær og fjær og það var alveg ómetanlegt. Við settum upp Facebook-síðu fyrir þá sem vildu fylgjast með okkur og hvatningarorðin þaðan héldu manni stundum gangandi erfiðustu dagana. Jólunum slegið á frest Þegar líða fór að jólum hófst síðasti og harðasti lyfjakúrinn hjá Jakobi en þá áttum við líka von á að litla systir kæmi í heiminn. Elísa fæddist aðfaranótt 19. desember 2012, heilbrigð og fullkomin í alla staði. Jakob fór í lyfjameðferð daginn eftir, veiktist og þurfti að leggjast inn á deild. Í stuttu máli sagt settum við jólin bara á „hold“. Sem betur fer var amma frá Íslandi hérna, okkur til halds og trausts. Jakob var mjög veikur þessa síðustu mánuði ársins en einhvern veginn rúllaði allt áfram og allt í einu tók nýtt ár á móti okkur. Jakob hóf viðhaldsmeðferð í lok janúar 2013 og þurfti einungis að mæta einu sinni í mánuði í reglubundið eftirlit á dagdeild og fékk hjúkku vikulega heim til að taka blóðprufur og hreinsa Hickmanlínuna og þess háttar. Hann hélt áfram í leikskólanum, við bættum meira að segja við tímum því honum leið svo vel í því umhverfi. Vorið fór að sýna sig, lífið var farið að róast aðeins hjá okkur en heimþráin til Íslands var mikil. Hér við Addenbrookes-spítalann leggja læknarnir blátt bann við því að börn í meðferð ferðist utan Bretlandseyja en með eftirgangsmunum fékk ég sérstakt leyfi fyrir því að Jakob færi með okkur í sumarfrí til Íslands í ágúst. Frábært viðmót á BSH Viðmótið á Barnaspítala Hringsins var frábært. Þegar ég hafði samband í upphafi var strax sagt að ekkert væri því til fyrirstöðu að taka á móti okkur. Það hjálpaði gífurlega til þegar það þurfti að sannfæra læknana hér um að dæmið gengi upp. Ólafur Gísli Jónsson læknir og Sigrún Þóroddsdóttir hjúkrunarfræðingur tóku síðan einstaklega vel á móti okkur og við fundum að við vorum í öruggum höndum. Því miður leið ekki langur tími þar til Jakob fékk hita og var lagður inn á Barnaspítalann. Þar tók Begga, hjúkrunarfræðingur og vinkona með meiru, á móti okkur. Okkur þótti allt til fyrirmyndar á Barnaspítalanum, starfsfólkið svo alúðlegt, Gróa á

leikstofunni auðvitað frábær og svo voru allir á einkastofum með sturtu og salerni. Það þótti okkur þvílíkur lúxus! Jakob var fljótur að jafna sig af þessu hitasleni en skömmu eftir endurnærandi dvöl í Hetjulundi SKB nældi hann sér í hlaupabólu! Enn og aftur sýndi hann hversu mikill víkingur hann er, tók sín lyf og varð lítið veikur. Svo lítið veikur að hann tók ekki annað í mál en að fara í Latabæjarhlaupið eins og áætlað hafði verið. Þar hittum við einmitt barnalækninn og barnahjúkkuna sem greindu hlaupabóluna og þau gátu nú ekki annað en hlegið þegar þau sáu krabbameinsveika barnið með hlaupabóluna, sitja alsælt með medalíuna sína eftir að hafa hlaupið sitt hlaup. Þakklát fyrir margt Nú er Jakob byrjaður í grunnskóla. Hjúkkan hans heimsækir hann þangað á miðvikudögum og hann fer í blóðprufuna sína alveg sjálfur! Það er af sem áður var þegar hann var með endalausan mótþróa. Nú þarf enga mömmu til að hjálpa til og þegar við förum á dagdeildina vill Jakob yfirleitt ekki fara þaðan. Ég hefði aldrei trúað því í byrjun að lyfjagjafir, blóðgjafir, læknatímar og svæfingar gætu orðið eðlilegur hluti af lífi okkar. En það er nú þannig samt og ef einhver er að byrja þessa vegferð núna þá lofa ég að þetta verður auðveldara! Ég viðurkenni að miðvikudagar eru stressdagarnir mínir. Ég finn hnútinn í maganum herpast saman alveg þangað til að ég fæ niðurstöðurnar úr blóðprufunni og þá losnar um hann - allavega í viku! Meðferðin fyrir drengi í UKALL tekur í allt 3 ár og 2 mánuði eða 156 vikur. Við erum í viku 69 eða næstum því hálfnuð. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Jakob greindist og mikið hefur verið á fjölskylduna alla lagt. Ég myndi ekki óska mínum alversta óvini að lenda í þessu. Börn eiga auðvitað ekkert að fá krabbamein. En á hverjum degi er ég þakklát. Þakklát fyrir hvað Jakob svarar meðferðinni vel. Þakklát fyrir að gott fólk velji sér að hjúkra og lækna. Og þakklát fyrir fjölskylduna og alla vinina sem hjálpa okkur og hvetja þegar róðurinn er hvað harðastur. Við ætlum að yfirbuga krabbameinið og standa eftir 87 vikur öll uppi sem sigurvegarar.


Tilraunameðferðin UKALL 2011 Núorðið læknast um 90% þeirra barna sem greinast með bráðahvítblæði, ALL. Þessi árangur er ekki síst að þakka þeirri þekkingu sem læknavísindin hafa öðlast í tilraunameðferðum. Tilraunameðferð er samanburður tveggja eða fleiri meðferðarvalkosta til að meta hver þeirra gefi besta raun. Mjög hátt hlutfall barna sem greinast með krabbamein í Bretlandi undirgengst tilraunameðferð. Sé barn af einhverjum ástæðu m ekki útilokað frá þátttöku í tilraunameðferð (s.s. vegna ungs aldurs, hafi greinst með ákveðna undirtýpu af ALL eða hafi áður greinst með ALL) er foreldrum þess gefinn kostur á að kynna sér tilraunameðferðirnar og ákveða hvort þeir vilji að barnið taki þátt í þeim. Á meðferðartímanum er samanburður gerður tvisvar við önnur meðferðarform. Öll börn fá virka meðferð, hvort sem þau eru þátttakendur í tilraunameðferð eða ekki. Því miður er nauðsynlegt að hefja meðferð strax eftir greiningu, þ.a. foreldrar fá ekki langan tíma til að hugsa sig um. Markmiðið með UKALL 2011 er að reyna að draga úr aukaverkunum vegna meðferðar og líkum á endurgreiningu. UKALL 2011 er svokölluð slembitilraunameðferð. Það þýðir að þeir sem samþykkja að taka þátt vita ekki hvaða afbrigði meðferðar barn þeirra fær. Það er ákveðið af handahófi, vanalega í tölvu. Hvorki barnið, foreldrar þess né læknir geta haft áhrif á það hvaða afbrigði meðferðar verður beitt. Jafnmörg börn fá hvert meðferðarafbrigði og á engin skekkja að vera í hópunum og þeir því fyllilega samanburðarhæfir. Í fyrsta fasa er valið af handahófi í tvo hópa. Annar fær hefðbundna sterameðferð en hinn fær stærri steraskammta í skemmri tíma, tvær vikur í stað fjögurra. Sterameðferð er mjög árangursrík og mikilvæg í hvítblæðismeðferð en hefur óskemmtilegar aukaverkanir. Markmiðið með þessum fasa er að athuga hvort hægt er að draga úr þessum aukaverkunum og þeim tíma sem þær vara.

Áður en annar fasi hefst eru foreldrar aftur spurðir hvort þeir vilji halda áfram í tilraunameðferð og hún útskýrð rækilega. Í öðrum fasa er eitt af fjórum meðferðarafbrigðum valið af handahófi. 1. Hefðbundin meðferð og viðhaldsmeðferð í áföngum (púls) 2. Hefðbundin meðferð og samfelld viðhaldsmeðferð 3. Háskammta methotrexate-meðferð og viðhaldsmeðferð í áföngum (púls) 4. Háskammta methotrexate-meðferð og samfelld viðhaldsmeðferð Samanburður á þessum hópum er notaður til að meta hvort háskammta methotrexate-meðferð geti dregið úr líkum á að sjúkdómurinn komi aftur fram í heilavökva. Slembivali er ekki beitt í fjórða fasa. Í viðhalds (fimmta) fasa eru á hverju 12 vikna tímabili gefin tvö inntökulyf (methotrexate og mercaptopurine) og methatrexate að auki gefið í mænu. Ef barn hefur fengið háskammta methotrexate í 3. fasa, fær það vanalega ekki methotrexate í mænuvökva í viðhaldsfasa. Það þýðir að ekki þarf að mænustinga barnið í þessum fasa. Í hefðbundinni viðhaldsmeðferð eru sterar gefnir í inntöku og vincristine í æð einu sinni í mánuði (mánaðarlegur púls). Þessir púlsar geta aukið skapsveiflur vegna áhrifa á bein og taugar. Samanburðinum í þessari rannsókn er ætlað að leiða í ljós hvort óhætt sé að sleppa þessum púlsum og hvort við það muni draga úr aukaverkunum. Eins og þessum meðferðarafbrigðum er stillt upp þá þýðir það að eitt af hverjum fjórum börnum fær hvorki þessa púlsa né háskammta methotrexate. Þar með er verulega búið að draga úr heildarlyfjagjöf, samanborið við hefðbundna breska og evrópska meðferð. Miðað við niðurstöður úr rannsóknum annars staðar er ekki búist við fleiri endurgreiningum þrátt fyrir þessa minnkuðu lyfjagjöf. Frekari upplýsingar um tilraunameðferðina UKALL 2011 eru hér: leukaemialymphomaresearch.org.uk

Jakob er 16. sjúklingurinn til að taka þátt í UKALL 2011. Hann fékk tveggja vikna háskammtastera í fyrsta fasa en lenti síðan í slembiúrtaki 2, þ.e. hefðbundinni meðferð og samfelldri viðhaldsmeðferð án púlsa. Hann fékk sem sagt hvorki háskammta methatrexate né þarf hann mánaðarlegt vincristine og stera í viðhaldsmeðferðinni. Læknarnir fylgjast spenntir með honum, enda vonast þeir til að niðurstaða rannsóknarinnar leiði í ljós að árangurinn sé sá sami, ef ekki betri, svona. Spurningar hafa vaknað um hvort ekki sé hægt að fjarlægja Hickman-línuna þar sem hann þarf ekki vincristine en Jakob er frekar ósveigjanlegur og þolir illa breytingar svo að Þuríður hefur mælst til þess að það verði ekki gert vegna vikulegu blóðprufanna sem þarf að fara í út meðferðina. Læknarnir hlusta vel á foreldrana svo að sú hugmynd hefur verið lögð til hliðar. Á myndinni eru bræðurnir Markús og Jakob að loknu Latabæjarhlaupi í ágúst. Börn með krabbamein - 15


Bylting í hvítblæðismeðferð Dr. Chris Halsey, sérfræðingur í krabbameinslækningum barna við Institute of Infection, Immunity and Inflammation í Glasgow og meðlimur í CCLG (Children’s Cancer and Leukaemia Group) skrifar hér um framfarir í hvítblæðismeðferð á síðustu áratugum, sem leitt hafa til þess að nú eru um 90% líkur á lækningu. Greinin birtist í hausthefti Contact (60. tbl.), tímariti CCLG.

Byltingarkenndar framfarir hafa orðið í meðferð bráðaeitilfrumuhvítblæðis í börnum (acute lymphoblastic leukaemia (ALL)). Allt þar til á 6. áratug 20. aldar voru lífslíkur þeirra sem greindust með bráðahvítblæði nánast engar, hvar sem var í heiminum en núna eru um 90% líkur á að barn sem greinist með ALL læknist. Í þessari grein er gefið yfirlit um það hversu miklar framfarir hafa orðið — ekki síst vegna þess hve sjúklingar og fjölskyldur þeirra hafa verið hugrökk og reiðubúin að taka þátt í tilraunameðferðum í gegnum tíðina. Fyrstu tímamótin Árið 1948 var fyrst greint frá hvítblæðismeðferð sem skilaði árangri, þótt hann væri tímabundinn. Þá var gefið lyf, skylt methotrexate. Næsti stóri áfangi náðist um 10 árum síðar þegar læknar áttuðu sig á því að til að ná langtímaárangri var nauðsynlegt að gefa nokkur lyf saman í langan tíma, jafnvel nokkur ár. Geislum var einnig beitt til að koma í veg fyrir að hvítblæði tæki sig upp í miðtaugakerfi . Þessar aðferðir skiluðu bata í um 40% tilvika. Bætt meðferð í tímans rás Stöðug þróun varð í meðferð hvítblæðis næstu 25-30 árin. Hún varð þó ekki vegna nýrra „töfra“lyfja — lyfin sem við notum í dag eru mjög áþekk þeim sem notuð voru á áttunda áratugnum. Framþróunin varð vegna bættra (og yfirleitt sterkari) samsetninga lyfja. Þetta var mögulegt með betri „stuðningsmeðferð“, þ.e. nýjum sýklalyfjum til að vinna á sýkingum, meira öryggi í gjöf blóðs og blóðhluta, og bættri gjörgæslumeðferð barna. Á þessu tímabili var hefðbundin meðferð borin saman við mögulega betri (og oft eitraðri) meðferð. Athygli vekur að þátttaka í slíkum rannsóknarmeðferðum, þar sem bornir voru saman tveir eða fleiri meðferðarmöguleikar, jók líkur á lækningu, burtséð frá því hvaða meðferð var beitt. 16 - Börn með krabbamein

21. öldin — minna er meira Um aldamótin urðu vatnaskil í hvítblæðismeðferð. Fram að því hafði verið reynt var að lækna alla með stöðugt harðari meðferð en í raun hefði a.m.k. helmingur barnanna læknast með mun vægari meðferð eins og þeirri sem beitt var 20 árum fyrr. Nú þurfti að finna aðferð til að spá fyrir um hversu mikla lyfjagjöf hvert barn þyrfti — beita svokallaðri einstaklingsmiðaðri meðferð. Mestu skipti þegar tókst að telja nákvæmlega fjölda hvítblæðisfrumna enn til staðar eftir fjögurra vikna meðferð. Framfarir í greiningartækni gerðu þetta mögulegt en greina þarf frumurnar með aðferðum sem eru mun fullkomnari en venjuleg smásjárskoðun. Mæling á þessum frumueftistöðvum (MRD: minimal residual disease) er undirstaða nútíma hvítblæðismeðferðar. Nýlegar tilraunameðferðir í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa sýnt að með notkun MRD er hægt að beita mun vægari meðferðum hjá börnum sem metin eru í lágri áhættu. Þær tilraunameðferðir sem nú er verið að vinna með hafa aðallega að markmiði að minnka aukaverkanir hjá öllum börnum, betrumbæta lyfjagjöf sem hefur áhrif á heilann og gera hana nákvæmari og fínstilla hvernig hinum alræmdu sterum er beitt — en allir foreldrar hvítblæðisbarna geta staðfest hversu óskemmtilegir þeir eru! MRD-rannsókn er hluti af ALLmeðferð barna á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum og er með

þessum rannsóknum stefnt að því að börn fái næga lyfjameðferð til að læknast en ekki of mikla með óþarfa aukaverkunum. Ný lyf Jafnvel þótt þessar framfarir gefi allar tilefni til að gleðjast ákaft þá er enn að greinast ólæknandi hvítblæði í börnum. En þar hafa líka, sem betur fer, mikilvæg skref verið stigin. Búið er að þróa ný lyf til að hemja genastökkbreytingar sem valda ágengum undirtegundum hvítblæðis. Þekktasta lyfið er Imatinib sem hefur bætt horfur fyrir börn með sjaldgæfa undirtegund ALL (fíladelfíujákvætt-ALL (philadelphia positive ALL)). Miklar rannsóknir eru líka gerðar með það fyrir augum að virkja og nýta ónæmiskerfi líkamans sjálfs til að einangra og uppræta hvítblæðisfrumur — tækni sem kölluð er ónæmismeðferð og hafa fyrstu tilraunameðferðir gefið afar góð fyrirheit. Lokaorð Í okkar heimshluta búa flestir við gott heilbrigðiskerfi. Því miður er það þó svo að víða jafngildir greining hvítblæðis enn dauðadómi. Samtökin World Child Cancer (www. worldchildcancer.org) hafa beitt sér fyrir samstarfi við sjúkrahús á stöðum þar sem þróunin er komin skemur á veg til að gefa börnum sem víðast von um lækningu. Það eru líka framfarir sem skipta máli!


Sumarhátíð í blíðu Sumarhátíð SKB var haldin í Smáratúni í Fljótshlíð síðustu helgina í júlí í blíðskaparveðri. Veðurspáin lofaði ekki góðu en svo rættist úr og félagsmenn nutu lífsins í dásamlegu veðri allan tímann. Dagskráin var hefðbundin; hamborgarar, pylsur og meðlæti frá Matborðinu, útsýnisflug frá flugvellinum í Múlakoti yfir Fljótshlíðina í boði Félags íslenskra einkaflugmanna, harðfiskur frá Bangsa á Hvammstanga, matur frá Grillvagninum, Regína Ósk kom og söng, varðeldur, kleinur frá Brauð- og kökugerðinni á Hvammstanga, góður félagsskapur og almenn gleði. Meðfylgjandi myndir tala sínu máli.

Börn með krabbamein - 17


SKB hefur hafið sölu á 20 fallegum tækifæriskortum í nokkrum stærðum og útfærslum og með mörgum mismunandi myndum sem henta við öll tilefni - í gleði og sorg - fyrir unga sem aldna. Kortin eru í stærðunum A5, A6 og A7, bæði einföld spjöld og brotin saman. A5-kortin eru öll brotin saman, þ.e. fjórar síður, A7-kortin eru öll einföld spjöld og A6-kortin eru í báðum útfærslum. Öllum kortum fylgir umslag, þau eru bæði seld stök og í pökkum og eru að sjálfsögðu á mjög góðu verði, frá 100 til 400 króna, stök kort. Þau prýða ljósmyndir af íslenskri náttúru og umhverfi auk skreytimynda og eru öll merkt SKB og með texta um félagið. Félagsmenn og aðrir eru hvattir til að nálgast kortin á skrifstofu félagsins í Hlíðasmára eða á heimasíðunni www.skb.is.

Falleg tækifæriskort

18 - Börn með krabbamein


Jólastundin 20. des Árleg jólastund SKB verður 20. desember í Lionssalnum Lundi í Auðbrekku í Kópavogi í boði Lionsklúbbsins Ýrar eins og tvö undanfarin ár. 20. desember er fæðingardagur Sigurbjargar Sighvatsdóttur sem ánafnaði félaginu allar eigur sínar.

Dagskrá jólastundarinnar verður hefðbundin, veitingar, skemmtun, tónlist og dansað í kringum jólatréð. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna og tilkynna þátttöku í síma 5887555 eða á netfangið skb@ skb.is

Jólakort SKB Að þessu sinni býður félagið tvö ný jólakort, annars vegar fallega ljósmynd af hrímuðum rauðum berjum, sem Helgi Kristinn Halldórsson gaf félaginu, og hins vegarTeikning: jólamynd, teiknuð var af Ágústa Stefánsdóttir, sem 6 ára félagsmaður í SKB. Hún greindist með heilaæxli, medulla blastoma, í febrúar 2013. Ágústu Stefánsdóttur, ára félagsmanni Allur ágóði af sölu þessa jólakorts6 rennur til barna með krabbamein. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna þakkar stuðninginn. The Icelandic Childhood Cancer Parent Organization. í SKB. Ágústa greindist með heilaæxli (medulla blastoma) í febrúar og hefur verið í meðferð síðan.

Prentun: Ísafoldarprentsmiðja

Jólin nálgast og því þarf að undirbúa sendingu jólakorta til ættingja, vina og viðskiptavina heima og erlendis. Með því að kaupa jólakort SKB stuðlar þú að bættum hag barna með krabbamein og fjölskyldna þeirra hér á landi.

Jólakortin eru tvöföld og fylgir hvítt umslag hverju korti. Hæð: 115 mm Breidd: 165 mm Á bakhlið er merki SKB prentað ásamt þökkum til þeirra sem styðja starfsemi félagsins með kaupum á jólakortunum. Hægt er að panta jólakortin á heimasíðu SKB. Kortin verða afgreidd í stykkjatali og Allur ágóði af sölu þessa jólakorts rennur til barna með krabbamein. krabbameinssjúkra barna þakkar stuðninginn. kostar hvertStyrktarfélag kort 120 kr. The Icelandic Childhood Cancer Parent Organization.

Ljósmynd: Helgi Kristinn Halldórsson - Prentun: Ísafoldarprentsmiðja

Að auki verða kort af ýmsum gerðum frá fyrri árum seld á meðan birgðir endast. Sjá meðfylgjandi.

Börn með krabbamein - 19


Hvað

margir hlutir? Það má segja að þessi mynd lýsi dálítið ástandinu í herberginu hans Lúlla stundum. Hann er ekki alveg nógu duglegur að taka til :) En hvað eru margir hlutir á myndinni? Það er gott að skrifa hlutina niður á blað og þá er auðveldara að koma tölu á hlutina.

Hvað var Lúlli að búa til? Lúlli fór út að leika sér og bjó til dálítið sem er bara hægt að gera þegar snjór er úti. Dragði línu frá 1 - 37 og þá sérðu hvað Lúlli var að búa til. Svo er tilvalið að lita myndina þegar þú ert búin að strika. 20 - Börn með krabbamein


Leikum okkur með Lúlla Hverju er búið að breyta? Þessar myndir virðast vera alveg eins ef betur er gáð vantar 5 hluti á neðri myndina. Hjálpaðu Lúlla að finna þessa 5 hluti. Af hverju skilaði Hafnfirðingurinn bindinu aftur í búðina? Það var of þröngt um hálsinn. ----Mamma: Af hverju setur þú bangsann þinn inn í frysti? Halli: Af því mig langar í ísbjörn ----Hvernig brenndi drekinn sig á hendinni? Hann hélt fyrir munninn þegar hann geispaði. ----Kennarinn: Hvað er manneskja gömul sem er fædd árið 1947? Jói: Er þetta karl eða kona? ----Ég hef borðað nautakjöt alla mína ævi og er þess vegna sterkur eins og naut. Skrítið ég hef alltaf borðað fisk og kann ekki enn að synda. ----(vigfusina.is) Börn með krabbamein - 21


Við þökkum stuðninginn Reykjavík 12 tónar ehf, Skólavörðustíg 15 12tonar.is AB varahlutir ehf., Funahöfða 9 Aðalblikk, Bíldshöfða 18 Aðalvík ehf., Ármúla 15 Afltækni ehf, Barónsstíg 5 Alhliðamálun málningaþjónusta ehf., Mosarima 23 Almenna bílaverkstæðið ehf., Skeifunni 5 Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1 Apparat, Ármúla 24 ARGOS Arkitektastofa Grétars og Stefáns, Eyjarslóð 9 Arkitektastofan OG ehf, Þórunnartúni 2 Arkís arkitektar ehf., Höfðatúni 2 ARKO sf., Langholtsvegi 109 Asía ehf.,veitingahús, Laugavegi 10 Athygli ehf., Suðurlandsbraut 30 Augasteinn sf., Súðavogi 7 Árbæjarapótek ehf., Hraunbæ 115 Ásbjörn Ólafsson ehf., Köllunarklettsv. 6 B.B.bílaréttingar ehf., Viðarhöfða 6 Bakverk-heildsala ehf., Tunguhálsi 10 Bandalag íslenskra farfugla, Borgartúni 6 Bandalag starfsm. ríkis og bæja, Grettisgötu 89 Bendir ehf., Jöklafold 12 Berserkir ehf., Heiðargerði 16 Betra líf - Borgarhóll ehf., Kringlunni 8-12 Betri bílar ehf., Skeifan 5c Bifreiðaverkstæði Grafarvogs ehf., Gylfaflöt 24-30 Bílasmiðurinn hf., Bíldshöfða 16 Bílaumboðið Askja ehf., Krókhálsi 11 Blaðamannafélag Íslands, Síðumúla 23, 3. hæð Blikksmiðurinn hf., Malarhöfða 8 Boreal ehf., Austurbergi 20 Borgarbílastöðin ehf., Skúlatúni 2 Bókaútgáfan Hólar ehf., Hagaseli 14 Bókhaldsstofa Haraldar slf., Síðumúla 29 Bókhaldsþjónusta Arnar Ing ehf., Nethyl 2A Bólsturverk sf., Kleppsmýrarvegi 8 Brúskur Hárstofa, Höfðabakka 9 Brynjólfur Eyvindsson, Kringlunni 7 BS ehf., Mörkinni 1 Búmannsklukkan ehf., Amtmannsstíg 1 Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf., Borgartúni 31 Corax ehf., Eirhöfða 11 Danica sjávarafurðir ehf., Suðurgötu 10 Delí ehf., Bankastræti 14 Drafnarfell ehf., Stórhöfða 35 Efling stéttarfélag, Sætúni 1 Efnamóttakan hf., Gufunesi Eignamiðlunin ehf., Síðumúla 21 Einar Jónsson skipaþjón., Laufásvegi 2A Einar Stefánsson ehf., Fjarðarási 13 Eldfjallahúsið ehf., Tryggvagötu 11 Elísa Guðrún ehf., Klapparstíg 25-27 Ennemm ehf., Brautarholti 10 Esja Kjötvinnsla ehf., Bitruhálsi 2 Evrópulög ehf., Garðastræti 37 Exton ehf., Fiskislóð 10 22 - Börn með krabbamein

Fasteignasalan Fasteign.is ehf., Suðurlandsbraut 18 Fasteignasalan Garður ehf., Skipholti 5 Faxaflóahafnir sf., Tryggvagötu 17 Félag atvinnurekenda, Kringlunni 7 Fiskafurðir-umboðssala ehf., Fiskislóð 5-9 Fiskbúð Hólmgeirs ehf., Þönglabakka 6 Fiskbúðin, Efstasundi 60 Fiskmarkaðurinn ehf., Aðalstræti 12 Fjárhald ehf. Fjármálaeftirlitið, Höfðatúni 2 Flutningaþjónusta Arnars ehf., Þingási 46 Formprent ehf., Hverfisgötu 78 Forum lögmenn ehf., Aðalstræti 6 Fótatak, fótaaðgerðastofa ehf., Laugavegi 163 Fraktflutningar ehf., Hlyngerði 2 Frjó Quatro ehf., Bæjarflöt 4 Fröken Júlía ehf., Álfabakka 14a Fuglar ehf., Borgartúni 25 Fulltingi ehf., Suðurlandsbraut 18 G Á húsgögn ehf., Ármúla 19 G.Á. verktakar sf., Austurfold 7 Garðs Apótek ehf., Sogavegi 108 GB Tjónaviðgerðir ehf., Draghálsi 6-8 Gísli Hjartarson, Neshömrum 7 Gjörvi ehf., Grandagarði 18 Glóey ehf., Ármúla 19 Glófaxi ehf., Ármúli 42 Gnýr sf., Stallaseli 3 Guðmundur Arason ehf. Smíðajárn, Skútuvogi 4 Guðmundur Jónasson ehf., Borgartúni 34 Gull- og silfursmiðjan ehf., Álfabakka 14b Gullsmíðaverslun Hjálmars Torfasonar, Laugavegi 71 Gunnar & Trausti-Merkismenn ehf., Ármúla 36 Göngugreining.is, Engjavegi 6 gongugreining.is Hagi ehf., Stórhöfða 37 Hamborgarabúlla Tómasar, Geirsg ehf., Geirsgötu 1 Handprjónasamband Íslands svf., Skólavörðustíg 19 Harðkornadekk ehf., Eyktarási 21 hardkornadekk.is Hár og hamar ehf., Hrísateigi 47 Hársnyrtistofan Höfuðlausnir sf., Hverafold 1-3 Háskóli Íslands, Aðalbygging v/ Suðurgötu Heildverslunin Glit ehf., Krókhálsi 5 Heilsukokkur ehf., Laugavegi 141 Heilsusport ehf., Álfheimum 74 Herrafataverslun Birgis ehf., Fákafeni 11 Heyrnar- og talmeinastöð, Háaleitisbraut 1 - hti.is Hollt og gott ehf., Fosshálsi 1 Hótel Klettur ehf., Borgartúni 32 Hótel Óðinsvé hf., Þórsgötu 1 Hreinsitækni ehf., Stórhöfða 37 Hreysti ehf., Skeifunni 19 Hringás ehf. Hringrás ehf., Klettagörðum 9

HS pípulagnir ehf., Hraunbæ 78 Hús verslunarinnar sf., Kringlunni 7 Húsalagnir ehf., Gylfaflöt 20 Hyrningur ehf., Þrastarhólum 10 Höfðakaffi ehf., Vagnhöfða 11 hofdakaffi.is Iceland Excursion Allrahanda ehf., Klettagörðum 4 Iceland Seafood ehf., Köllunarklettsvegi 2 IceMed á Íslandi ehf., Ægisíðu 80 Innrammarinn ehf., Rauðarárstíg 33 InnX innréttingar ehf., Fosshálsi 1 Intellecta ehf., Síðumúla 5 Íslandsbanki hf - útbú 0528, Stórhöfða 17 - islandsbanki.is Íslensk endurskoðun ehf., Bogahlíð 4 Íslensk erfðagreining, Sturlugötu 8 decode.is Ísmar ehf., Síðumúla 28 Ísold ehf., Nethyl 3-3a J.E. Skjanni, byggingaverktakar ehf., Stórhöfða 25 Jóhann Hauksson,trésmíði ehf., Logafold 150 Jón Ásbjörnsson hf., Fiskislóð 34 Jónar Transport hf., Kjalarvogi 7 JP lögmenn ehf.,Höfðatorgi, Katrínartúni 2 K.H.G. þjónustan ehf., Eirhöfða 14 Kj Kjartansson ehf., Skipholti 35 Kjaran ehf., Síðumúla 12-14 Kjöthöllin ehf., Skipholti 70 Knattspyrnufélagið Fram, Safamýri 26 Kopar & Zink ehf., Eldshöfða 18 kogz.is Kristján F Oddsson ehf., Skeifunni 17 Kristján G. Gíslason ehf. Kurt og Pí ehf., Skólavörðustíg 2 Kynning og markaður - KOM ehf., Höfðatorgi, Katrínartúni 2 Landakotsskóli ses., Túngötu Landssamband ísl. útvegsmanna, Borgartúni 35 Landssamband lögreglumanna, Grettisgötu 89 Leðurverkstæðið Víðimel 35 sf., Víðimel 35 Leikskólinn Vinaminni ehf., Asparfelli 10 Listasafnið Hótel Holt ehf., Bergstaðastræti 37 Litla bílasalan ehf., Eirhöfða 11 Loftmyndir ehf., Laugavegi 13 Loftstokkahreinsun ehf., Garðhúsum 6 LOG lögmannsstofa sf., Kringlunni 7 Lúmex ehf., Skipholti 37 Lyfjaver ehf., Suðurlandsbraut 22 Lýsing hf., Ármúla 3 - lysing.is Löndun ehf. M.G.-félag Íslands. Leiðhömrum 23 Magnús og Steingrímur ehf., Bíldshöfða 12 Marella ehf., Þingholtsstræti 1 Margt smátt ehf., Guðríðarstíg 6-8 Matborðið ehf., Bíldshöfða 18 matbordid.is


Melshorn ehf., Suðurlandsbraut 50 husid.is Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Sölvhólsgötu 4 Merlo seafood ehf., Krókhálsi 4 merlo.is Mosaik ehf.,Hamarshöfða 4 MS Armann skipamiðlun ehf., Tryggvagötu 17 Nautica ehf., Laugarásvegi 14 Nostra ræstingar ehf., Sundaborg 7-9 Nói-Síríus hf., Hesthálsi 2-4 Nýi tónlistarskólinn, Grensásvegi 3, 3. hæð Nýi ökuskólinn ehf., Klettagörðum 11 Opin kerfi ehf., Höfðabakka 9 - ok.is Orka ehf., Stórhöfða 37 Orkuvirki ehf., Tunguhálsi 3 Ólafur Þorsteinsson ehf., Vatnagörðum 4 Ósal ehf., Tangarhöfða 4 Passamyndir ehf., Sundaborg 7 Pixel ehf., Brautarholti 10-14 PK-Arkitektar ehf., Höfðatúni 12 Poulsen ehf., Skeifunni 2 Prentlausnir ehf., Ármúla 15 Prima Donna ehf., Grensásvegi 50 Puti ehf., Álfheimum 74 Rafco ehf., Skeifunni 3 Rafeindastofan ehf., Faxafeni 12 Rafha ehf., Suðurlandsbraut 16 Rafiðnaðarskólinn ehf., Stórhöfða 27 Rafsól ehf., Síðumúla 34 Rafsvið sf., Þorláksgeisla 100 Raftíðni ehf., Grandagarði 16 Rafver ehf. - rafver.is Ragnar V. Sigurðsson ehf., Reynimel 65 Rangá sf., Skipasundi 56 Rannsóknarþjónustan Sýni ehf., Lynghálsi 3 Rarik ohf., Bíldshöfða 9 Rauðhetta og úlfurinn ehf., Skólavörðustíg 8 Reiknistofa bankanna hf., Katrínartúni 2 Reki ehf., Fiskislóð 57-59 Renniverkstæði Jóns Þorgr ehf., Súðarvogi 18 Réttingaverkst Bjarna og Gunnars ehf., Bíldshöfða 14 Rikki Chan ehf., Kringlunni 4-12 RJ Verkfræðingar ehf., Stangarhyl 1a S.K. bólstrun ehf., Langholtsvegi 82 Samleið ehf. Samsýn ehf., Háaleitisbraut 58-60 Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, SSF, Nethyl 2e Segna ehf., Vættaborgum 63 Sena ehf., Skeifunni 17 Senia ehf., heildverslun, Skútuvogi 1e SHV pípulagningaþjónusta ehf., Funafold 54 Sigurjónsson & Thor ehf., Lágmúla 7, 3. hæð - sigthor.com SÍBS, Síðumúla 6 Sínus ehf., Grandagarði 1a Sjúkraþjálfun Héðins ehf., Hnjúkaseli 6 Skilvís ehf., Stórhöfða 25, 3. hæð Skipulag og stjórnun ehf., Deildarási 21 Skorri ehf., Bíldshöfða 12 Skógarbær, hjúkrunarheimili, Árskógum Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Skógarhlíð 14

Smur og viðgerðarþjónustan ehf., Hyrjarhöfða 8 Snæland Grímsson ehf., Langholtsvegi 115, 2 hæð SP tannréttingar ehf., Álfabakka 14b Spjátrungur ehf., Laugavegi 59 Sportbarinn, Álfheimum 74 Sportís ehf., Mörkinni 6 Sprettur - þróun og stjórnun ehf., Laugavegi 26, 3. hæð Stansverk ehf., Hamarshöfða 7 Stálbyggingar ehf., Hvammsgerði 5 Stiki ehf., Laugavegi 178 Stjörnuegg hf., Vallá Stólpi ehf., Klettagörðum 5 Suðu-verk Axels ehf., Látraseli 7 Suzuki-bílar hf., Skeifunni 17 Svanur Ingimundarson málarameistari, Fiskakvísl 13 Sveinsbakarí, Arnarbakka 4-6 Tandur hf., Hesthálsi 12 Tannálfur sf., Þingholtsstræti 11 Tannbogi ehf., Klapparstígur 16 Tanngo ehf., Vegmúla 2 Tannlæknastofa Björns Þorvaldssonar, Síðumúla 25 Tannlæknastofa Friðgerðar Samúelsd. ehf., Laugavegi 163 Tannlæknastofa Ólafs Páls Jónssonar, Faxafeni 5 Tannlækningar ehf., Skipholti 33 Tannréttingar sf., Snorrabraut 29 Tannsmiðafélag Íslands., Borgartúni 35 Tannþing ehf., Þingholtsstræti 11 Teiknistofan Arkitektar ehf., Brautarholti 6 Teiknistofan Storð ehf., Laugavegi 168 Teiknistofan Tröð ehf., Laugavegi 26 THG arkitektar ehf., Faxafeni 9 Timberland, Kringlunni 4-12 timberland.is Topplagnir ehf., Gvendargeisla 68 Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar, Engjateigi 1 Tónsport ehf., Skútuvogi 13a Trésmiðja Magnúsar F. Jónssonar, Súðarvogi 54 Twill ehf., Viðjugerði Tækniskólinn ehf., Skólavörðuholti Tæknivélar ehf., Tunguhálsi 5 Tölvar ehf., Síðumúli 1 Útgerðarfélagið Völundur slf., Laugarnesvegi 49 Úti og inni sf., Þingholtsstræti 27 Útkall ehf., Sundaborg 9 Veiðivon, Mörkinni 6 Veiðiþjónustan Strengir, Smárarima 30 Veislubrauð ehf., Lóuhólum 2-6 Verðbréfaskráning Íslands hf., Laugavegi 182 Verslunartækni ehf., Reykjavík, Draghálsi 4 Verslunin Brynja ehf., Laugavegi 29 Vélaverkstæðið Kistufell ehf., Tangarhöfða 13 Vélaviðgerðir ehf., Fiskislóð 81 Vélsmiðjan Harka hf., Hamarshöfða 7 Vilhjálmsson sf, Sundaborg 1 Víkin - Sjóminjasafnið, Grandagarði 8 sjominjasafn.is Víkurós ehf., Bæjarflöt 6 Víkurvagnar ehf., Kletthálsi 1a

Wilson’s ehf., Eddufelli 6 Yndisauki ehf., Vatnagörðum 6 Yrki arkitektar ehf., Hverfisgötu 76 yrki.is Þaktak ehf., Tranavogi 5 ÞÓB vélaleiga ehf., Logafold 147 Þýðingaþjónusta Boga Arnars, Engjasel 43 Örninn Hjól ehf., Faxafeni 8 Seltjarnarnes Seltjarnarneskirkja, Kirkjubraut 2 Vökvatæki ehf., Bygggörðum 5 Vogar Hársnyrtistofa Hrannar, Vogagerði 14 Kópavogur Allianz Ísland hf., Digranesvegi 1 AP varahlutir ehf., Smiðjuvegi 4 Arkus ehf., Núpalind 1 Á. Guðmundsson ehf., Bæjarlind 8-10 Á.K. sjúkraþjálfun ehf., Skjólsölum 3 Áliðjan ehf., Bakkaraut 16 Bakkabros ehf., Hamraborg 5 Bergnes ehf., Smiðjuvegi 4 Betra bros ehf., Hlíðasmára 14 Bifreiðaverkstæði Jónasar ehf., Skemmuvegi 46 Bifreiðaverkstæði Kópavogs ehf., Smiðjuvegi 2 Bílaklæðningar hf., Kársnesbraut 100 Bílamálunin Varmi ehf., Auðbrekku 14 Bílavarahlutir ehf., Skemmuvegur 34 a Blátt ehf., Bergsmára 3 Bliki bílamálun/réttingar ehf., Smiðjuvegi 38e Bókun sf., Hamraborg 1 Brynjar Bjarnason ehf., Þinghólsbraut 56 Dúan 6868 ehf., Tunguheiði 12 Dýrabær ehf., Miðsölum 2 Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands, Hlíðasmára 8 Einar Ágústsson & Co ehf., Dalvegi 16d Einkabílar ehf., Smiðjuvegi 46e Fagtækni ehf, Akralind 6, 1. hæð Farice ehf., Smáratorgi 3 Hagblikk ehf., Smiðjuvegi 4c Hagbær ehf., Akurhvarfi 14 Heilsa og fegurð ehf., Smáratorg 3 Hellur og garðar ehf., Kjarrhólma 34 Hópvinnukerfi ehf., Hlíðasmára 14 Iðnaðarlausnir ehf., Skemmuvegur 6 Íslandsspil sf., Smiðjuvegi 11a JSÓ ehf., Smiðjuvegi 4b K.S. málun ehf., Fellahvarfi 5 Kjötpól ehf., Kársnesbraut 112 Klippistofa Jörgens ehf., Bæjarlind 1 Klukkan, verslun, Hamraborg 10 Knattspyrnudeild Breiðabliks, Dalsmára 5 Kraftvélar ehf., Dalvegi 6-8 Lakkskemman ehf., Skemmuvegi 30 Landvélar hf., Smiðjuvegur 66 , rauð Léttfeti ehf., Engihjalla 1 Loft og raftæki ehf., Hjallabrekku 1 Löggiltir endurskoðendur ehf., Hlíðasmára 6 Lögmannsstofa SS ehf., Hamraborg 10 MAXIMA ehf., Hjallabrekku 1 MHG verslun ehf., Akralind 4 Nobex ehf., Hlíðasmára 6 Nýþrif ehf., Laufbrekku 24 Börn með krabbamein - 23


Oxus ehf., Akralind 6 Óskar og Einar ehf., Fjallalind 70 Pólar ehf., Fjallakór 4 Rafbreidd ehf., Akralind 6 Rafís ehf., Vesturvör 7 Rafmiðlun hf., Ögurhvarfi 8 Rafport ehf., Nýbýlavegi 14 Rafsetning ehf., Björtusölum 13 Réttingaþjónustan ehf., Smiðjuvegi 40, gul gata S.Þ. verktakar ehf., Álmakór 10 Sérverk ehf., Askalind 5 Skilaborg ehf., Hlíðasmára 19 Smárinn, bókhald og ráðgjöf ehf., Grófarsmára 15 Smiðjustál ehf., Reykjavík, Vesturvör 11b Stífluþjónustan ehf., Kársnesbraut 57 Strókur ehf., Dimmuhvarfi 27 Suðurverk hf., Hlíðasmára 11 Svansprent ehf., Auðbrekku 12 Söluturninn Smári, Dalsvegi 16c Tannbjörg ehf., Hlíðasmára 14 Tröllalagnir ehf., Auðnukór 3 Tvö líf ehf., Holtasmára 1 Vatn ehf., Skólagerði 40 Vaxa ehf., Askalind 2 Veitingaþjónusta Lárus Lofts, Nýbýlavegi 32 Verkfræðistofa Erlends Birgissonar ehf., Dalvegi 18 Verkstjórasamband Íslands, Hlíðasmára 8 Viðskiptaþjónusta ÁGG ehf., Dalvegi 16d Vídd ehf., Bæjarlind 4 VSI öryggishönnun og ráðgjöf ehf., Hamraborg 11 Þokki ehf., Forsölum 1 Öreind sf., Auðbrekku 3 Garðabær Apótek Garðabæjar ehf., Litlatúni 3 Drífa ehf., Suðurhrauni 12c Garðabær, Garðatorgi 7 - gardabaer.is Geislatækni ehf., Laser-þjónustan, Suðurhrauni 12c Hitakerfi ehf., Eskiholti 21 Hjallastefnan ehf., Vífilsstaðavegi 123 Ísafoldarprentsmiðja ehf., Suðurhrauni 1 Metatron ehf., Stekkjarflöt 23 Samhentir - kassagerð ehf., Suðurhrauni 4 Vistor/Astra Zeneca, Hörgstúni 2 Öryggisgirðingar ehf., Suðurhrauni 2 Hafnarfjörður Aðalpartasalan ehf., Drangahrauni 10 Amani ehf., Heiðvangi 14 Batteríið arkitektar ehf., Trönuhrauni 1 Bergþór Ingibergsson, Breiðvangi 4 BF-útgáfa ehf., Kirkjuvegi 7 Bílaverkstæði Birgis ehf., Eyrartröð 8 Bjargir leikskólar ehf., Fífuvöllum 17 Bjössi ehf., Trönuhrauni 5 hellulagnir.is Brettasmiðjan ehf., Óseyrarbraut 1 Bæjarbakarí ehf., Bæjarhrauni 2 Dalakofinn sf., Fjarðargötu 13-15 Dalshraun 12 ehf., Hraunbrún 13 Einar í Bjarnabæ ehf., Spóaási 6 Eiríkur og Einar Valur hf., Norðurbakka 17b 24 - Börn með krabbamein

Endurskoðun Ómars Kristjáns slf., Bæjarhrauni 8 Essei ehf., Hólshrauni 5 Fiskvinnslan Útvík ehf., Eyrartröð 7-9 Fínpússning ehf., Rauðhellu 13 Fjarðarmót ehf., Bæjarhraun 8 Fjöl-Smíð ehf., Stapahrauni 5 Gullsmiðir Bjarni & Þórarinn ehf., Strandgötu 37 Hafnarfjarðarbær, Strandgötu 6 Hafnarfjarðarhöfn, Óseyrarbraut 4 Hagtak hf., Fjarðargötu 13-15 H-Berg ehf., Suðurtröð 3 Héðinn Schindler lyftur hf., Gjótuhrauni 4 Hlaðbær-Colas hf., Gullhellu 1 Hnýtingar ehf., Kirkjuvegi 5 Húsheild ehf., Smyrlahrauni 47 Hyggir ehf., Reykjavíkurvegi 66 Höfn,öldrunarmiðstöð, Sólvangsvegi 1 Icetransport ehf., Selhellu 9 Ingvar og Kristján ehf., Trönuhrauni 7c Kjötkompaní ehf., Dalshrauni 13 Kristjánssynir-byggingafél. ehf., Erluási 74 Krossborg ehf., Stekkjarhvammi 12 Kvikmyndahúsið ehf., Trönuhrauni 1 Lögmannsstofa Loga Egilssonar ehf., Reykjavíkurvegi 60 Markus Lifenet ehf., Breiðvangi 30 Myndform ehf., Trönuhrauni 1 Nes hf., skipafélag, Fjarðargötu 13-15 Pappír hf, Kaplahrauni 13 Rafgeymasalan ehf., Dalshrauni 17 Rafhitun ehf., Kaplahrauni 7a Raf-X ehf., Melabraut 27 SE ehf., Fjóluhvammi 6 Síld og fiskur ehf., Dalshrauni 9b Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, Norðurbakka 15 Sóley Organics ehf., Bæjarhrauni 10 Sónar ehf., Hvaleyrarbraut 2 Spennubreytar, Trönuhrauni 5 Tæknistál ehf., Breiðvangi 7 Umbúðamiðlun ehf., Fornubúðir 3, efri hæð Verkalýðsfélagið Hlíf, Reykjavíkurvegi 64 Verkvík - Sandtak ehf., Rauðhellu 3 verkvik.is Verkþing pípulagnir ehf., Kaplahrauni 22 Vélsmiðja Konráðs Jónssonar sf., Helluhrauni 20 Viking Life-Saving á Íslandi ehf., Íshellu 7 Þór, félag stjórnenda, Pósthólf 290 Þvottahúsið Faghreinsun/Kolbakur ehf., Reykjavíkurvegi 68 Álftanes Eldvarnarþjónustan ehf., Sjávargötu 13 Garðaþjónusta Íslands ehf., Asparholti 2 - gardathjonustaislands.is Reykjanesbær Art-húsið ehf., Hafnargötu 45 B & B Guesthouse, Hringbraut 92 Bílar og hjól ehf., Njarðarbraut 11a Eignarhaldsfélagið Áfangar ehf., Hafnargötu 90 Fagtré ehf.,verktaki, Suðurgarði 5 Farmflutningar, Bragavöllum 2 Fasteignasalan Ásberg ehf., Hafnargötu 27

Humarsalan ehf., Heiðarbrún 17 IGS ehf., Fálkavöllum 13 Ísfoss ehf., Hafnargötu 60 Íslenska félagið ehf - Ice Group, Iðavöllum 7a Ísver ehf., Bolafæti 15 Kaffitár ehf., Stapabraut 7 Lögfræðistofa Suðurnesja, Hafnargötu 51-55 Málverk slf., Skólavegi 36 Nesraf ehf., Grófinni 18 a Reiknistofa fiskmarkaða hf., Iðavöllum 7 - rsf.is Reykjanesbær, Tjarnargötu 12 Reykjaneshöfn, Víkurbraut 11 Skipting ehf., Grófinni 19 Skólar ehf., Klettatröð 2314 Snyrtistofan Dana ehf., Hafnargötu 41 Stuðlastál ehf., Tjarnarbakka 4 Suðurflug ehf., Bygging 787, Keflavíkurflugvelli TÍ slf., Tjarnargötu 2 Tjarnartorg ehf., Norðurvöllum 32 TSA ehf., Brekkustíg 38 Verkfræðistofa Suðurnesja hf., Víkurbraut 13 Verslunarmannafélag Suðurnesja, Vatnsnesvegi 14 Víkurfréttir ehf., Krossmóa 4 Æco bílar ehf., Njarðarbraut 19 Grindavík Cactus veitingar ehf., Suðurvör 8 Einhamar Seafood ehf., Verbraut 3a Farsæll ehf., Verbraut 3a Fjórhjólaævintýri ehf., Fornuvör 9 Gunnar Eyjólfs Vilbergsson, Víkurbraut 46 H.H. smíði ehf., Bakkalág 20 Margeir Jónsson ehf., Glæsivöllum 3 Northern Light Hold Ísl ehf., Bláalónsvegi 1 TG raf ehf., Staðarsund 7 Víkurbraut 62, Laut 41 Vísir hf., Hafnargötu 16 Grindverk ehf., Baðsvöllum 13 Sandgerði Fiskmarkaður Suðurnesja hf., Hafnargötu 8 Gróðrarstöðin Glitbrá ehf., Norðurtún 5 Skinnfiskur ehf., Hafnargötu 4a Þensla ehf., Strandgata 26 Garður Sunnugarður ehf., Sunnubraut 3 Mosfellsbær Ari Oddsson ehf., Háholti 14 Álafoss ehf., Álafossvegi 23 - alafoss.is Dalsbú ehf., Helgadal Eignarhaldsfélagið Bakki ehf., Þverholti 2 Fagverk verktakar sf., Spóahöfða 18 Garðagróður ehf., Suðurreykjum 2 Guðmundur S. Borgarsson ehf., Reykjahvoli 16 Ísfugl ehf., Reykjavegi 36 Mosraf ehf., Reykjalundi Múr og meira ehf., Brekkutanga 38 Nonni litli ehf., Þverholt 8 Reykjabúið hf., Suðurreykjum 1


Reykjalundur Sæbúð ehf., Furubyggð 21 Akranes Bifreiðastöð Þórðar Þ.Þórðarson, Dalbraut 6 Bílasala Akraness ehf., Smiðjuvöllum 17 Bílaverkstæði Hjalta ehf., Ægisbraut 28 Bjarmar ehf., Hólmaflöt 2 Eyrarbyggð ehf., Eyri Glit málun ehf., Einigrund 21 JG tannlæknastofa sf., Kirkjubraut 28 Model ehf., Þjóðbraut 1 PRACTICA bókhaldsþjónusta ehf., Kirkjubraut 28 Runólfur Hallfreðsson ehf., Álmskógum 1 Smurstöð Akraness sf., Smiðjuvöllum 2 Straumnes ehf., Krókatúni 22-24 Veiðifélag Laxár í Leirársveit, Kambshól Verslunin Bjarg ehf., Stillholti 14 Vélaleiga Halldórs Sigurðssonar ehf., Smiðjuvöllum 10 Vignir G. Jónsson hf., Smiðjuvöllum 4 Borgarnes Bókhalds- og tölvuþjónustan sf., Böðvarsgötu 11 J.K. lagnir ehf., Brákarsund 7 Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Bjarnarbraut 8 Tannlæknastofa Hilmis ehf., Berugötu 12 Vélaverkstæði Kristjáns ehf., Brákarbraut 20 Búvangur ehf., Brúarland PJ byggingar ehf., Hvanneyrargötu 3 Ragnheiður Jóhannesdóttir, Litlu Brekku   Stykkishólmur Tindur ehf., Hjallatanga 10  Grundarfjörður Almenna umhverfisþjónustan ehf., Fellasneið 10 KB bílaverkstæði ehf., Sólvöllum 5  Ólafsvík Fiskmarkaður Íslands hf., Norðurtanga Jón og Trausti sf., Hjarðartúni 10 Kvenfélag Ólafsvíkur, Sandholti 20 Steinunn hf., Bankastræti 3 Tannlæknastofa A.B. slf., Heilsugæslust. Engihlíð 28 TS vélaleiga ehf., Stekkjarholti 11  Snæfellsbær Bárður SH 81 ehf., Staðarbakka  Hellissandur Hópferðabílar Svans Kristóferssonar ehf., Hellu Hraðfrystihús Hellissands hf., Hafnarbakka 1 KG Fiskverkun ehf., Melnesi 1 Kristinn J Friðþjófsson ehf., Háarifi 5 Rifi Vélsmiðja Árna Jóns ehf., Smiðjugötu 6

H.V.-umboðsverslun ehf., Suðurgötu 9 Hamraborg ehf., Hafnarstræti 7 Sjúkraþjálfun Vestfjarða ehf., Eyrargötu 2 Tréver sf., Hafraholti 34 Hnífsdalur Verkstjórafélag Vestfjarða, Heiðarbraut 7 Bolungarvík Endurskoðun Vestfjarða ehf., Aðalstræti 19 Jakob Valgeir ehf., Grundarstíg 5 Magnús Már ehf., Bakkastíg 6b S.Z.Ól. trésmíði ehf., Hjallastræti 26 Sigurgeir G. Jóhannsson ehf., Hafnargötu 17 Verslunar-Geiri ehf., Þuríðarbraut 13 Vélvirkinn sf., Hafnargötu 8 Flateyri Sytra ehf., Ólafstúni 5 Suðureyri Klofningur ehf., Aðalgötu 59 Patreksfjörður Árni Magnússon, Túngötu 18 Hafbáran ehf., Hjöllum 13 Skógræktarfélag Patreksfjarðar, Sigtúni 7 Tannlæknastofa Jakobs Jónssonar Heilbrigðisstofnun, Stekkum 1 Ingvi Bjarnason, Arnórsstöðum neðri Tálknafjörður Allt í járnum ehf., Móatúni 6 Gistiheimilið Bjarmalandi ehf., Bugatúni 8 TV - verk ehf., Strandgötu 37 Villimey slf., Strandgötu 44 Þórsberg ehf., Strandgötu 25 Þingeyri Bibbi Jóns ehf., Brekkugötu 31 Skjólskógar á Vestfjörðum, Fjarðargötu 2 Tengill, rafverktaki, Sjávargötu 14 Hólmavík Bjartur ehf., Vitabraut 17 Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Höfðatúni 4 Potemkin ehf., Laugarhóli Thorp ehf., Borgarbraut 27 Norðurfjörður Árneshreppur, Norðurfirði Hótel Djúpavík ehf., Djúpuvík Hvammstangi Bílagerði ehf., Ásbraut 6 Brauð- og kökugerðin ehf., Hvammstangabraut 13a Húnaþing vestra., Hvammstangabraut 5 Kvenfélagið Freyja, Melavegi 4 Villi Valli ehf., Bakkatúni 2 

Búðardalur Rafsel Búðardal ehf., Vesturbraut 20c

Blönduós Léttitækni ehf., Efstubraut 2 Stéttarfélagið Samstaða, Þverbraut 1 Húnavatnshreppur, Húnavöllum

Ísafjörður AV pípulagnir ehf., Seljalandsvegi 10 Bílaverið ehf., Sindragötu 14

Skagaströnd Kvenfélagið Hekla / Dagný Úlfarsd, YtraHóli

Marska ehf., Höfða Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf., Einbúastíg 2 Vélaverkstæði Skagastrandar, Strandgötu 30 Sauðárkrókur Bókhaldsþjónusta KOM ehf., Víðihlíð 10 Fisk - Seafood hf., Háeyri 1 Friðrik Jónsson ehf., Borgarröst 8 Hólalax hf., Hólum 1 Kaupfélag Skagfirðinga, Ártorgi 1 K-Tak ehf., Borgartúni 1 Ó.K. gámaþjónusta-sorphirða ehf., Borgarflöt 15 Sauðárkrókskirkja Steinull hf, Skarðseyri 5 Tannlækningast Páls Ragnars ehf., Sæmundargötu 3a Tengill ehf., Hesteyri 2 Útgerðarfélagið Sæfari ehf., Hrauni Varmahlíð Ferðaþjónustan Steinsstöðum ehf., Lambeyri Skógræktarfélag Skagfirðinga, Marbæli Hofsós Vesturfarasetrið, Suðurbraut 8 Fljót Kvenfélagið Framtíðin, Fljótum, Þrasatöðum Sigrún Svansdóttir, Skeiðsfossvirkjun Siglufjörður Bás ehf., Ránargötu 14 Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð, Hvanneyrarbraut 37 Páley ehf., Norðurtúni 11 Siggi Odds ehf., Hólavegi 36  Akureyri Amber hárstofa ehf., Hafnarstræti 92 Ásbyrgi - Flóra ehf., Frostagöötu 2a Átak Heilsurækt ehf., Strandgötu 14 Baugsbót ehf., Frostagötu 1b Berg, félag stjórnenda, Hafnarstræti 82 Bifreiðaverkstæði Bjarnhéðins ehf., Fjölnisgötu 2a Blikkrás ehf., Óseyri 16 Byggingarfélagið Hyrna ehf., Sjafnargata 3 Eining-Iðja, Skipagötu 14 - ein.is Félagsbúið Hallgilsstöðum, Hallgilsstöðum Garðverk ehf, Pósthólf 110 Gróðrarstöðin Réttarhóll, Smáratúni 16b Gula villan ehf., Pílutúni 2 Hafnasamlag Norðurlands, Fiskitanga Hlíðarskóli, Skjaldarvík Hnjúkar ehf., Kaupvangur Mýrarvegi Hnýfill ehf., Brekkugötu 36, íbúð 501 Höfði ehf., Hafnarstræti 34 Höldur ehf., Tryggvabraut 12 Index tannsmíðaverkstæði ehf., Kaupangi v/Mýrarveg Ísgát ehf., Laufásgötu 9 Hótel KEA, Hafnarstræti 87-89 Kjarnafæði hf., Fjölnisgata 1b Ljósco ehf., Ásabyggð 7 Börn með krabbamein - 25


Menntaskólinn á Akureyri, Eyrarlandsvegi 28 Miðstöð ehf., Draupnisgötu 3g Pípulagningaþjónusta Bjarna Fannberg Jónassonar ehf., Melateigi 31 Sjómannafélag Eyjafjarðar, Skipagötu 14 Sjúkrahúsið á Akureyri, Eyrarlandsvegi Skartgripir ehf., Brekkugötu 5 Slippurinn Akureyri ehf., Naustatanga 2 Stefán Þórðarson ehf., Teigi Straumrás ehf., Furuvöllum 3 Tannlæknastofa Árna Páls Halldórssonar við Mýrarveg Trétak ehf., Klettaborg 13 Tölvís sf., Ljómatúni 12 Viðskiptahúsið ehf. Ösp sf., trésmiðja,Furulundi 15f Grenivík Grýtubakkahreppur, Gamla skólahúsinu Jónsabúð ehf., Túngötu 1-3 Grímsey Sigurbjörn ehf., Öldutúni 4 Dalvík Tréverk ehf., Grundargötu 8-10 Vélvirki ehf., Hafnarbraut 7 BHS ehf., Fossbrún 2 Níels Jónsson ehf., Hauganesi Húsavík Bílaþjónustan ehf., Garðarsbraut 52 Bókaverslun Þórarins Stefáns sf., Garðarsbraut 9 Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Auðbrekku 4 - heilthing.is Hóll ehf., Höfða 11 Knarrareyri ehf.,Túngötu 6 Kristján M. Önundarson, Uppsalavegi 17 Skóbúð Húsavíkur ehf., Garðarsbraut 13 Val ehf., Höfða 5c Vermir sf., Stórhóli 9 Víkurraf ehf., Garðarsbraut 18 Víkursmíði ehf., Laugarholti 7d Laugar Kvenfélag Reykdæla, Lautavegi 11 Norðurpóll ehf., Laugabrekku Mývatn Jarðböðin við Mývatn, Jarðbaðshólum - jardbodin.is Kvenfélag Mývatnssveitar, Skútuhrauni 7 Kópasker Fjallalamb hf., Röndinni Vökvaþjónusta Eyþórs ehf., Bakkagötu 6   Raufarhöfn Önundur ehf., Aðalbraut 41a Þórshöfn Langanesbyggð, Fjarðarvegi 3 Bakkafjörður Hraungerði ehf., Hraunstíg 1 Vopnafjörður Vopnafjarðarhreppur, Hamrahlíð 15 

26 - Börn með krabbamein

Egilsstaðir Austfjarðaflutningar ehf., Kelduskógum 19 Bílamálun Egilsstöðum ehf. , Fagradalsbraut 21-23 Bókráð, bókhald og ráðgjöf ehf., Miðvangi 2-4 Egilsstaðahúsið ehf., Egilsstöðum 2 Fljótsdalshérað, Lyngási 12 Glerharður ehf., Miðgarði 13 Héraðsprent ehf., Miðvangi 1 Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf., Einhleypingi 1 Miðás hf., Miðási 9 Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf., Fagradalsbraut 11 Seyðisfjörður Gullberg ehf., Langatanga 5 Seyðisfjarðarkaupstaður, Hafnargötu 44 Þvottabjörn ehf., Búðareyri 25 Eskifjörður Egersund Ísland ehf.,Hafnargötu 2 Fjarðaþrif ehf., Strandgötu 46 R.H. gröfur ehf., Helgafelli 9 Skógræktarfélag Eskifjarðar, Lambeyrarbraut 6 Slökkvitækjaþjón Austurlands ehf., Strandgötu 13a  Neskaupstaður Rafgeisli Tómas R. Zoëga ehf., Hafnarbraut 10 Síldarvinnslan hf., Hafnarbraut 6  Fáskrúðsfjörður Litli Tindur ehf., Skólavegi 105 Skrúðsverk ehf., Túngötu 1  Breiðdalsvík Bifreiðaverkstæði Sigursteins ehf., Selnesi 28-30  Höfn í Hornafirði Atlas kírópraktík ehf., Hlíðartúni 41 Erpur ehf., Norðurbraut 9 Grábrók ehf., Kirkjubraut 53 Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, Víkurbraut 31 Jökulsárlón ehf., Reynivöllum 3 Sigurður Ólafsson ehf., Hlíðartúni 21 Sveitarfélagið Hornafjörður, Hafnarbraut 27 Þrastarhóll ehf., Kirkjubraut 10 Funi ehf., Ártúni  Öræfi Ræktunarsamband Hofshrepps, Hofi Selfoss Bakkaverk ehf., Dverghólum 20 Bifreiðaverkstæðið Klettur ehf., Hrísmýri 3 Bisk-verk ehf., Bjarkarbraut 3 Búnaðarfélag Bláskógabyggðar, Dalbraut 1 Búnaðarfélag Villingaholtshrepps, Syðri Gróf Byggingafélagið Laski ehf., Gagnheiði 9

Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi, Austurvegi 38 Flóahreppur, Þingborg Fosstún ehf., Selfossi 3 Fossvélar ehf., Hellismýri 7 Grundir ehf., Hrísmýri 3 GTI Gateway to Iceland ehf., Lágengi 26 Guðmundur Tyrfingsson ehf., Fossnesi C Hitaveitufélag Gnúpverja ehf., Hæli 1 Hurðalausnir ehf., Lyngheiði 14 I.G. þrif ehf., Dverghólum 11 JÁ pípulagnir ehf., Suðurgötu 2 Jeppasmiðjan ehf., Ljónsstöðum K.Þ. verktakar ehf., Hraunbraut 27 Kvenfélag Gnúpverja, Heiðarbrún Kvenfélag Hraungerðishrepps, Langstöðum, Flóahreppi Pylsuvagninn Selfossi, Berghólum 15 Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Gagnheiði 35 Sjúkraþjálfun Selfoss ehf., Austurvegi 9 Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Árnesi Stokkar og steinar sf., Árbæ 1, Ölfusi Strá ehf., Sandlækjarkoti Súperbygg ehf., Eyrarvegi 31 Torfutækni ehf., Hörðuvöllum 4 Veitingastaðurinn Fljótið ehf., Eyrarvegi 8 X5 ehf., Birkigrund 15 Hveragerði Bílaverkstæði Jóhanns ehf., Austurmörk 13 Hverablóm ehf., Sunnumörk 2 Eldhestar ehf., Völlum Garðyrkjustöð Ingibjargar, Heiðmörk 38 Hveragerðiskirkja Þorlákshöfn Fagus ehf., Unubakka 20 Fiskmark ehf., Hafnarskeiði 21 Frostfiskur ehf., Hafnarskeiði 6 Járnkarlinn ehf., Unubakka 25 Þorlákskirkja, Básahrauni 4 Eyrarbakki Allt byggingar ehf., Þykkvaflöt 1 Laugarvatn Menntaskólinn að Laugarvatni Flúðir Flúðasveppir, Garðastíg 8 Fögrusteinar ehf., Birtingaholti 4 Hrunamannahreppur, Akurgerði 6 Hrunaprestakall, Hruna Kvenfélag Hrunamannahrepps, Smiðjustíg 13, Trésmiðja Ingólfs ehf., Freyvangi 16 Kjartan Magnússon, Hjallanesi 2 Hvolsvöllur Héraðsbókasafn Rangæinga, Vallarbraut 16 Krappi ehf., Ormsvöllum 5 Árni Valdimarsson, Akri Eyrarbúið ehf., Þorvaldseyri Jón Guðmundsson, Berjanesi V-Landeyjum 


Vík B.V.T. ehf., Ránarbraut 1 Hrafnatindur ehf., Smiðjuvegi 13 Kirkjubæjarklaustur Búval ehf., Iðjuvöllum 3 Ferðaþjónustan Efri-Vík ehf., Efri-Vík  Vestmannaeyjar Alþrif ehf., Strembugötu 12 Áhaldaleigan ehf., Faxastíg 5 Bergur ehf., Hrauntúni 46

Bessi ehf., Box 7 Frár ehf., Hásteinsvegi 49 Hárhúsið ex ehf., Strandvegi 47a Hótel Vestmannaeyjar ehf., Vestmannabraut 28 Íbenholt ehf., Búhamri 32 Ísfélag Vestmannaeyja hf., Strandvegi 28 J.R. verktakar ehf., Skildingavegi 8b Karl Kristmanns umboðs- og heildverslun ehf., Ofanleitisvegi 15 Köfun og öryggi ehf., Flötum 22 Langa ehf., Eiðisvegi 5

Miðstöðin Vestmannaeyjum, Strandvegi 30 Net ehf., Friðarhöfn Ós ehf., Illugagötu 44 Siglingatæki ehf., Illugagötu 52b Sjómannafélagið Jötunn, Skólavegi 21b Skipalyftan ehf., Eiðinu Skýlið ehf., Friðarhöfn Vélaverkstæðið Þór ehf., Norðursundi 9 - velathor.is Vinnslustöðin hf., Hafnargötu 2

NÁNAR Á SUMARFERDIR.IS

VETUR 2014

NÝR VETRARÁFANGASTAÐUR

Lanzarote - Tryggðu þér ódýrustu gistinguna í tíma!

Börn með krabbamein - 27


GrĂŚnna land ehf


RIN FINGRAFÖ U R OKKAR E AR! A L L S S TA Ð

PANTONE 200 CP

PANTONE Cool Gray 10C

Merki Landsbréfa

Positif

Negatif


Black

RG lagnir ehf Furubyggð 6 270 Mosfellsbær Sími : 899 9772

Black

C=0 / M=70 / Y=89 /K= 0

Pantone 165 C

C=0 / M=62 / Y=88 /K= 77

Pantone 161 C


Pepperoni dugga

Skinka - Ostur - Pepperoni - Salsa sósa Hvítlaukssósa - Kál

Salsaborgan!ri - smakkaðu þenna

Beikon dugga

Skinka - Ostur - Beikon - Sinnepssósa Gular baunir - Laukur - Grænmeti

Rækju dugga

Skinka - Ostur - Rækjur - Hvítlaukssósa Grænmeti

Pizza dugga

Ostur - Pepperoni - Pizzasósa Sveppir - Kál

Tvistloka

Skinka - Ostur - Sinnepssósa - Grænmeti

Hakkloka

Ostastangir

Ostur - Hvítlaukssósa - Hakkblanda (hakk, laukur, paprika & sveppir)

Frönskuloka

m/salsa- eða hvítlaukssósu

Skinka - Ostur - BBQ-sósa - Beikon Franskar

Barloka

Skinka - Ostur - BBQ-sósa - Beikon Kjúklingur

Faxastíg 36 · Sími 481 3141

einn með öllu


13-1762 H V Í TA H Ú S I Ð / S Í A

ÞESSI TÍMI ER EINSTAKUR

ARION BANKI LÆKKAR GREIÐSLUBYRÐI

ÍBÚÐALÁNA HJÁ FORELDRUM Í FÆÐINGARORLOFI Arion banki býður foreldrum í fæðingarorlofi að lækka greiðslubyrði íbúðalána um allt að helming. Hjá mörgum verða breytingar á ráðstöfunartekjum við töku fæðingarorlofs. Því viljum við koma til móts við foreldra og gefa þeim kost á að fresta hluta af greiðslum íbúðalána sinna. Með þessu viljum við auðvelda viðskiptavinum okkar að taka fullt fæðingarorlof og njóta þess til fullnustu. Hafðu samband við þjónusturáðgjafa okkar í næsta útibúi Arion banka eða í síma 444 7000 og kynntu þér möguleika þína.

Börn með krabbamein  

2. tbl. 2013

Read more
Read more
Similar to
Popular now
Just for you