Börn með krabbamein - 2. tbl. 2015

Page 12

Nafn: Matthías Orri Ísaksson Aldur: 23 ára Aldur við greiningu: Ég var á sextánda ári Tegund krabbameins: Beinkrabbamein í hné

Hvernig var meðferðin? Ég byrjaði á að fara í lyfjameðferð með það fyrir augum að reyna að minnka æxlið. Ég var í þrjá mánuði í stífri lyfjagjöf með tilheyrandi hárlosi, ógleði og vanlíðan. Í október fór ég til Lundar í Svíþjóð þar sem ég átti að fara í aðgerð, annað hvort átti að setja gervilið eða taka fótinn fyrir neðan hné. Aðgerðin gekk vel og ég hélt fætinum. Teknir voru 17 sentimetrar af lærlegg og ofan af sköflungi og settur gervihnjáliður í staðinn. Ég var útskrifaður 6 dögum eftir aðgerðina og fór beint út á flugvöll og heim. Þar tók við sjúkraþjálfun og eftirmeðferð. Í ljós kom að ekki hafði tekist að minnka æxlið nægilega mikið og því varð ég að fara í ennþá lengri lyfjameðferð eða 9 mánuði til viðbótar. Eftir fimm mánuði fékk ég alvarlega sýkingu í fótinn eftir eina lyfjagjöfina. Ég var strax lagður inn og við skoðun á hjarta kom í ljós að það lyfjagjöfin hafði gert það að verkum að það hafði stækkað og lyfjagjöfinni var samstundis hætt. Ég fékk miklar kvalir í fótinn og var gefið pensillín í æð ásamt verkjastillandi. Þannig var ég í næstum 3 mánuði á spítala. Að lokum náðu læknarnir tökum á sýkingunni og ég var útskrifaður. Við tók bataferli, síðan eru liðin 8 ár og ég telst læknaður. 12 - Börn með krabbamein

Eitthvað eftirminnilegt úr meðferðinni? Ég og fjölskylda mín tókumst á við lyfjameðferðina og litum á þetta sem verkefni sem þyrfti að klára og ná heilsu á ný. Ég naut góðs af frábærum hjúkrunarfræðingum og læknum á Barnaspítala Hringsins sem veittu mér alla þá aðstoð sem ég þurfti á að halda. Mér fannst erfitt að geta ekki sótt skólann með félögum mínum en ég hefði átt að byrja í Menntaskólanum við Sund haustið 2007. Ég reyndi eins og ég gat að stunda skólann en það reyndist mér ómögulegt. Það var skrítið að vera kippt svona út úr lífinu og verða sjúklingur. En ég er heppinn að eiga góða vini sem studdu við bakið á mér og heimsóttu mig næstum því daglega á spítalann, það er ómetanlegt. Fjölskyldan fagnaði hverjum áfanga í lyfjagjöfinni, við fórum í sumarbústað, elduðum mat sem ég gat hugsað mér að borða, fórum í bíó eða bara spiluðum saman. Við reyndum að gleyma krabbameininu og lifa eins eðlilegu lífi og hægt var.   Hvaða áhrif hefur það haft að hafa verið með krabbamein? Í upphafi var ég ringlaður en ég man hvað ég var hræddur þegar læknirinn sagði mér og foreldrum mínum að ég væri með krabbamein. Foreldrar mínir stóðu þétt við bakið á mér og sögðu að við myndum takast

saman á við þetta verkefni og læknarnir yrðu með okkur í liði. Þau tóku frá mér hræðsluna og mér fannst ég alveg geta tekist á við sjúkdóminn og sigrast á honum. Að sjálfsögðu komu erfiðir tímar, því er ekki að neita. Ég var mikill fótboltastrákur og varð að hætta því en ég reyni að gera allt sem mig langar til í dag.   Hvað ertu að gera núna og hvert stefnirðu? Í dag er ég orðinn pabbi, á litla stelpu, Ronju Sif, sem er að verða tveggja ára, með kærustunni minni Rut Ingvarsdóttur. Fjölskyldan er mitt mikilvægasta verkefni í dag. Ég vinn á frístundaheimili sem er mjög skemmtilegt en ég stefni ég á að klára menntaskóla og fara í háskólanám.   Einhver góð ráð til þeirra sem glíma við krabbamein í dag? Það er erfitt að gefa góð ráð þegar svona sjúkdómur er annars vegar en ég held að maður verði að líta á vegferðina sem verkefni. Fagna góðum fréttum og hverjum áfanga með því að gera eitthvað skemmtilegt og reyna að gleyma krabbameininu. Vera jákvæður.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.