Börn með krabbamein - 1. tbl. 2016

Page 1

1. tbl. 23. árg. 2016 STYRKTARFÉLAG KRABBAMEINSSJÚKRA BARNA

Hundrað og ein nótt á spítala

Bls. 4 - 9

Foreldrar Ágústu segja frá aðdraganda greiningar og rekja meðferðarsöguna þar sem skipst hafa á skin og skúrir


Lausnin er Advania advania.is Guðrúnartún 10 | 105 Reykjavík | Sími 440 9000

VONar hálsmen og armbönd

Armband: stálhringur með leðuról 3.500 kr.

Hálsmen: silfurhringur í silfurkeðju 4.500 kr.

Hálsmen: stálhringur í stálkeðju 4.000 kr.

www.skb.is

Hálsmen: stálhringur í leðuról 4.000 kr.


Miðstöð/göngudeild um síðbúnar afleiðingar krabbameina hjá börnum og unglingum hefur tekið til starfa á Barnaspítala Hringsins. Starfsemi slíkrar miðstöðvar hefur verið baráttumál Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna til margra ára og fagnar félagið opnun hennar mjög. Samkvæmt samningi milli SKB og BH mun félagið leggja miðstöðinni til fjármagn í þrjú ár til að standa straum af kostnaði við stöðu hjúkrunarfræðings, 30% stöðu sérfræðings við miðstöðina og endurmenntun. Öllum boðið eftirlit Flestir sem greinast með krabbamein á barnsaldri og undirgangast lyfja- og/ eða geislameðferðir glíma við einhverjar síðbúnar afleiðingar meðferðarinnar. Þær geta verið af ýmsum toga, líkamlegar, sálrænar og sálfélagslegar. Einbeitingarskortur, ófrjósemi og heyrnarskerðing eru þrjú dæmi af fjölmörgum birtingarmyndum síðbúinna afleiðinga. Á miðstöðinni verður öllum

sem greinst hafa með krabbamein frá árinu 1981 og voru á aldrinum 0-18 ára við greiningu boðið eftirlit vegna hugsanlegra síðbúinna afleiðinga skv. alþjóðlega viðurkenndum leiðbeiningum. Þá er farið yfir sjúkrasögu og þeim afhent skírteini með upplýsingum um meðferð, t.a.m. lyfjagjafir og geislameðferðir. Þær upplýsingar geta skipt máli löngu eftir að meðferð lýkur. Samhliða þessu verður öllum börnum og unglingum sem nýlega hafa greinst og greinast í framtíðinni boðið upp á viðeigandi eftirlit við göngudeildina upp að 35 ára aldri hjá þeim sem það á við. 10-12 börn á ári Árlega greinast 10-12 börn með krabbamein á Íslandi. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna býður fjölskyldum þessara barna að ganga í félagið og styrkir þær til að jafna sig á því áfalli sem þær verða fyrir þegar barn í fjölskyldunni greinist með krabbamein, til að mæta erfiðleikunum og byggja sig upp andlega og líkamlega.

Mikill velvilji víða

miðstöð síðbúinna afleiðinga krabbameina í börnum

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna nýtur engra beinna opinberra styrkja en mikils velvilja fjölmargra einstaklinga og forsvarsmanna fyrirtækja sem aldrei er nógsamlega þakkað.Vegna þessa velvilja getur félagið komið að stofnun og rekstri göngudeildar um síðbúnar afleiðingar í samstarfi við Barnaspítala Hringsins. Þannig nýtast sjóðir félagsins skjólstæðingum þess með beinum hætti og í samræmi við tilgang þeirra sem fjármunina gáfu.

og unglingum

Baráttumál í höfn

4 Hundrað og ein nótt á spítala 10 Team Rynkeby Ísland hjólar til Parísar 12 Ný 14 Takk 16 Sumarhátíð á Selfossi 17 Reykjavíkurmaraþon 18 Fróðleg ráðstefna ungra 19 Um SKB 21 Leikum okkur með Lúlla ÚTGEFANDI: Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Hlíðasmára 14, 201 Kópavogi, sími: 588 7555, netfang: skb@skb.is, heimasíða: www.skb.is, ISSN 1670-245X. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: Gréta Ingþórsdóttir. STJÓRN SKB: Rósa Guðbjartsdóttir, formaður, Árni Þór Jóhannesson, Benedikt Einar Gunnarsson, Dagný Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Stefánsdóttir, Haukur Hrafnsson, Kristjana Erlen Jóhannsdóttir, Signý Gunnarsdóttir og Særós Tómasdóttir. MYNDIR: Hannes Þorsteinsson, Eydís ljósmyndun og úr safni SKB. FORSÍÐUMYND: Hannes Þorsteinsson UMBROT: Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. PRENTUN: PRENTMET – umhverfisvottuð prentsmiðja.

Stjórn, starfsmenn og félagsmenn í Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna vænta mikils af starfsemi göngudeildar um síðbúnar afleiðingar krabbameina á Barnaspítala Hringsins og telja að með henni sé eitt mikilvægasta baráttumál félagsins um það bil í höfn. Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB.

Börn með krabbamein - 3


Ljósmynd: Hannes Þorsteinsson

Viðtal: Gréta Ingþórsdóttir Myndir: Hannes Þorsteinsson, Eydís ljósmyndun og úr einkasafni

Meðal félagsmanna í Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna og víðar er hún þekkt sem Ágústa Vá-Gústa ofurhetju prinsessa og hún er svo sannarlega hetja eins og öll börn sem ganga í gegnum krabbameinsmeðferð með tilheyrandi álagi. En byrjum á byrjuninni og fáum skýringu á Vá-Gústu ofurhetju prinsessunni síðar. Foreldrar Ágústu eru Sigríður Þorsteinsdóttir, Sirrý, og Stefán Gunnlaugsson. Auk Ágústu, sem núna er 9 ára, eiga þau Valborgu Maríu, 11 ára, og Friðrik, 6 ára. Héldu að hún væri löt Þau rifja upp aðdragandann að greiningu Ágústu í janúar 2013. „Ágústa þoldi illa hávaða og læti, var oft kvartandi undan höfuðverk, var að koma upp í til okkar á næturnar og eftir á að hyggja voru ýmsar vísbendingar um að ekki væri allt með felldu,“ segir Stefán.   „Svo er það einn morguninn, 4. eða 5. janúar, að hún vaknar hágrátandi og sér allt 4 - Börn með krabbamein

tvöfalt. Hún nuddaði augun og leið mjög illa. Við reyndum að róa hana og hugga og hún fór í leikskólann.“ Sirrý heldur áfram: „Ég fór á fund í vinnunni og þurfti að taka hljóðið af símanum. Svo sé ég að ég hef misst af nokkrum símtölum frá leikskólanum og hringi þangað. Mér er sagt að Ágústa sé slöpp, hún hafi kastað upp og kvarti undan höfuðverk.   „Við fórum með hana beint á barnalæknavaktina í Domus Medica þar sem hún var skoðuð en ekkert athugavert sást. Læknirinn sagðist samt ætla að tala við sérfræðing og að því loknu var ákveðið að senda hana í sneiðmyndatöku. Hún fer í hana klukkutíma seinna á næstu hæð og út úr henni kom ekki neitt.“   „Það líður vika og hún slappast enn, var þung á morgnana og gat varla lyft höfði frá kodda. Við þurftum að bera hana úr rúminu og niður í sófa þar sem hún tók sér góðan tíma áður en hún gat staðið upp. Svo hresstist hún alltaf þegar leið á daginn. Við héld-um bara að hún væri eitthvað löt,“ segir Stefán.

Blóðrannsókn, sneiðmynd og augnskoðun leiddu ekkert í ljós Um miðjan janúar fara þau með Ágústu á læknavaktina um helgi. Hún var búin að vera stöðugt þyngri á morgnana, var með í maganum og alltaf með höfuðverk, þ.a. þau voru farin að halda að hún væri með mígreni. Þau láta vita að hún sé búin að fara í sneiðmyndatöku og þá vill læknirinn að hún fari í blóðrannsókn, mælir með því að þau tali við taugalækni út af mögulegu mígreni og fari að punkta hjá sér hvernig henni líði, hvað hún borði, hvenær henni sé illt og svo framvegis.   Daginn eftir fer hún í blóðrannsókn hjá heimilislækninum sem skoðar hana og næsta dag, eftir að hafa séð niðurstöður úr blóðrannsókninni, segir hann að Ágústa sé bara rosaflott stelpa, blóðið sé fínt og ekkert að henni. Þau eiga tíma hjá taugalækninum tveimur dögum seinna, á fimmtudegi, og vildu ekki sleppa honum því þeim fannst heimilislæknirinn ekki hafa hlustað nógu vel á sig. Taugalæknirinn sagðist ekkert sjá


að henni en miðað við frásögnina og lýsingarnar bæri honum að skoða hana betur. „Við höldum að hann hafi þá strax grunað eitthvað meira,“ segja Sirrý og Stefán. Læknirinn pantaði tíma í segulómun viku síðar og sagðist vilja að hún færi í skoðun hjá augnlækni. Þau fengu þann tíma strax daginn eftir hjá Elínborgu Guðmundsdóttur og þá leið Ágústu svo illa að þau þurftu að halda á henni grátandi til hennar. Elínborg greindi fjarsýni en sá ekki taugaendana nógu vel, fann enga skýringu á höfuðverkjunum og hvatti þau til að leita betur. Stefán grunaði hvað væri í gangi „Stebbi fór að googla einkennin og varð mjög órólegur því hann grunaði hvað væri að,“ segir Sirrý. „Hann hringdi í taugalækninn á föstudagskvöldi sem reyndi að róa hann, enda áttum við tíma í segulómun nokkrum dögum seinna og þá myndi meira koma í ljós. Þetta var Eurovision-helgi og Ágústa var í geðveiku stuði. Við fórum út að borða og hún var mjög kát þegar við fórum en hún var svo sem alltaf hressari seinni partinn og þetta var laugardagur og hún búin að taka því rólega allan daginn.   Þegar við komum heim heyrðum við stunur inni herbergi og hún var greinilega mjög slöpp. Stebbi lagðist upp í hjá henni og var þar alla nóttina. Hún kastaði upp og var hálf rænulaus og um morguninn náðum við engu sambandi við hana. Við héldum að við mættum ekki fara niður á Barnaspítala, þ.a. við hringdum á Læknavaktina en var sagt að drífa okkur á spítalann þar sem við vorum tekin beint inn. Hún var mæld og skoðuð, fékk stíl til að athuga hvort hann

virkaði eitthvað á verkina en svo var heilt teymi ræst út, svæfingalæknir og fleiri. Við vorum látin bíða og okkur sagt að þetta tæki svona 45 mínútur. Svo liðu 50 mínútur og 90 mínútur og okkur grunaði að það hefði fundist eitthvað. Þá var verið að segulóma hana og það sást strax hvað var á ferðinni, þ.a. hún var mynduð extra vel. Að þessu loknu hittum við læknateymið og okkur var sagt að hún væri með æxli í höfði og það væri dreift upp á heilahimnu og niður eftir mænu. Búið væri að senda myndirnar til heilaskurðlækna til að skoða þær betur. Hún var lögð inn og við vorum á spítalanum í hundrað daga.“ Fékk hnapp til að fá næringu í maga Stefán segir að þeim hafi strax verið sagt að þetta væri illkynja og hvað læknana grunaði að þarna væri á ferðinni þó að staðfestingin hafi ekki verið komin. Fyrst átti að skera til að taka sýni en vegna þess að æxlið stöðvaði flæði í höfðinu var ákveðið að skera strax og reyna að fjarlægja það.   „Ágústa varð 6 ára 6. febrúar, hún var lögð inn 3. febrúar, fékk að sofa heima daginn fyrir afmælið sitt og fór svo í uppskurð sem gekk mjög vel. Hún var á gjörgæslu í Fossvogi í 4 eða 5 daga og svo vorum við flutt yfir á Hringbraut. Það gekk illa að setja í hana nálar og því var ákveðið að nota svæfinguna í aðgerðinni til að setja í hana holæðarlegg. Hún hreyfði ekki höfuðið í tvær vikur en allt var gert til að láta hana jafna sig á eins stuttum tíma og hægt var til að geta hafið lyfjameðferð. Það var líka ákveðið að setja í hana hnapp til að geta gefið næringu beint í maga. Það var góð ákvörðun og auðveldaði okkur lífið þegar

við vorum sjálf að gefa henni lyf,“ segir Stefán. 11. febrúar er þeim sagt að staðfesting sé komin á greiningu. Um sé að ræða medulloblastoma, mjög skæðan sjúkdóm, venjulega tegund en vegna dreifingar sé áhættan mikil og beita þurfi hámarks lyfjagjöf og hámarks geislameðferð, 31 skipti með 31 svæfingu. Erfiðasta nóttin „Þetta var skrítinn tími, allt gerðist svo hratt, strax er byrjað að meðhöndla eins og um medulloblastoma væri að ræða þó að það væri ekki staðfest, grunurinn um það var svo sterkur. Hún þurfti að bíða aðeins eftir uppskurðinn en svo byrjaði meðferðin. Hún fékk lyf 1-4 klukkustundum fyrir geislana og eftir tvö skipti, 1. mars, virtist allt vera að ganga vel, hún búin að fá krabbameinslyf tvisvar og fara tvisvar í geisla,“ segir Sirrý.   3. mars var hún hins vegar flutt á gjörgæslu eftir að hafa verið með lífsmörkin út og suður alla nóttina og mjög óstöðug. Nóttin leið og það er ekki fyrr en um morguninn þegar svæfingalæknir, taugalæknir og krabbameinslæknir eru komnir á staðinn að það er hlaupið með hana yfir á gjörgæslu og ákveðið að setja hana í öndunarvél vegna álags og þrýstings í höfðinu. Og væntanlega var þá gott að búið var að taka æxlið því að þá var smá rými til að taka við bólgunum.   Þessa nótt varð Ágústa fyrir blóðþurrð sem olli sjónsviðsskerðingu sem hefur ekki enn gengið til baka, rúmum þremur árum síðar. Hún var 10 daga á gjörgæslu, fékk tveggja daga frí frá meðferð en svo var haldið áfram með planið og hún sett í geisla

Sirrý segist hafa kviðið því að Ágústa myndi missa fallega rauða hárið sitt en Ágústa sjálf hefur aldrei kvartað þó að það sé enn ekki komið aftur.

Börn með krabbamein - 5


Það var ekki hægt að taka utan um hana út af slöngunum og tækjunum sem hún var tengd við og hún vildi það heldur ekki.

þó að hún væri í öndunarvél. Þessi nótt, þegar Ágústa var flutt á gjörgæslu, situr í foreldrum hennar og Sirrý talar um verstu nótt lífs síns. Leið illa allan tímann í geislunum „Okkur var sagt að hún yrði lengi að jafna sig, hún hefði orðið svona veik út af frumuniðurbroti. Dauðu frumurnar hefðu valdið þessum mikla usla. 13. mars fer hún í segulómun og í ljós kemur að sjúkdómurinn er að láta undan. Eftir 10 daga á gjörgæslu fer hún loksins aftur inn á deild en er mjög slöpp og leið mjög illa allan tímann á meðan hún var í geislunum, sem tóku 7 vikur.   Hún var mjög verkjuð, þurfti mikið af lyfjum og var tengd í slöngur og tæki sem píptu endalaust. Það var ekki hægt að taka utan um hana út af slöngunum og tækjunum sem hún var tengd við og hún vildi það heldur ekki. Það var ekki fyrr en 15. mars að hún gat loksins sýnt að henni liði aðeins betur með ástarjátningu til mömmu sinnar. Þetta var erfiður tími, ég svaf ekkert nema með aðstoð svefnlyfja út af stununum í henni og hljóðunum í tækjunum og fannst ég heldur aldrei mega sofna alveg til að geta brugðist við ef hún þyrfti á mér að halda,“ segir Sirrý. Þau segja þetta hafa verið langan og erfiðan tíma. Þau skiptust á að gista á spítalanum, tvær nætur í senn. „Ég man hvað það var ógeðslega erfitt að fara frá henni,“ segir Sirrý. „En ég man líka eftir að hafa setið úti í bíl þegar ég kom 6 - Börn með krabbamein

aftur og geta varla farið inn. Hún var stynjandi af verkjum þrátt fyrir að vera mikið lyfjuð. Ég vildi ekki fara frá henni en þegar ég fór og fékk aðeins að anda þá var erfitt að fara inn aftur. Það er hrikalegt að hlusta á barnið sitt stynja í vanlíðan og geta ekkert gert fyrir það.“ Sápa sem þvær í burtu áhyggjur Ágústa fór aftur í svæfingu og segulómun 22. mars og þá voru ekki nein sýnileg mein við hrygg og æxlið í höfðinu að ganga til baka. Þau hittu skurðlækninn um þetta leyti og hann sagði þeim að þegar hann skar hana hefði hann haft áhyggjur af því að hún kæmist ekki í meðferð en úr því að þarna væri komið væri hún væntanlega komin yfir erfiðasta hjallann. 17. apríl lauk geislameðferðinni og þá var stórum áfanga náð.   Sirrý og Stefán hafa orð á því hvað starfsfólk spítalans sé frábært og krabbameinsteymið allt framúrskarandi og segjast oft hafa orðið vitni að því að þetta fólk gerði meira en því bar. Þau nefna sem dæmi að ísbjörninn Hringur, sem heimsækir leikstofu Barnaspítalans reglulega, hafi lagt á sig að mæta fyrr á meðan Ágústa var í geislameðferðinni til að fylgja henni þangað. Hann hafi þá verið með sprell og grín á leiðinni og létt andrúmsloftið með nærveru sinni. Svo þegar geislameðferðinni lauk hafi Ágústa fengið viðurkenningu frá geisladeildinni og þau foreldrarnir hafi fengið sérstaka töfrasápu frá Hring sem þvoði í burtu áhyggjur. Þau eru þakklát fyrir allt sem fyrir þau var gert á Barnaspítalanum

og þykir sérlega vænt um þessi aukaviðvik sem starfsfólkið gerir af einskærum metnaði og umhyggju fyrir börnunum og ástríðu fyrir starfinu. Fékk mánaðarpásu frá meðferð Örfáum dögum síðar kom mikið bakslag, maginn á Ágústu þrútnaði upp og læknarnir óttuðust að hún gæti mögulega verið með gat á ristli. Í ljós kom sýking af völdum loftmyndandi bakteríu, sem olli því að kviðurinn blés út. Hún fékk sýklalyf en var komin með ýmsar aðrar aukaverkanir og orðin máttfarin, var til dæmis alveg hætt að ganga og þurfti að vera í hjólastól.   Ákveðið var að gefa henni mánaðarpásu frá meðferð og hún fékk að fara heim um miðjan maí eftir 101 dag á spítala. 6 mánaða meðferðarplan hófst svo 10. júní. Stefán lýsir lyfjameðferðinni þannig að hver hringur tók 28 daga sem byrjaði með lyfjagjöf inni á spítala þar sem Ágústa var í 2-3 daga. Þá fóru þau heim og fengu heimahjúkrun. Sigrún [Þóroddsdóttir, hjúkrunarfræðingur] kom og tók blóðprufur en yfirleitt fór það svo að Ágústa slappaðist, fékk hita, þurfti að leggjast inn aftur og vera í einangrun í nokkra daga. Það kom upp vandamál með magahnappinn, hún fékk sýkingu út frá honum yfir allan kviðinn sem olli miklum erfiðleikum. Hún hélt engu niðri en þurfti auðvitað bæði að nærast og fá lyf. Hún fékk stera í miklu magni og þau segja að um tíma hafi hún fengið morfín eins og 70 kg maður. Þrátt fyrir að þetta væri mjög erfitt þá fannst þeim þetta


minniháttar verkefni miðað við það sem á undan var gengið. Meðferðarplanið gekk af þessum sökum aðeins úr skorðum og hún var ekki tilbúin í seinni lyfjahringina þrjá því hún var ekki búin að jafna sig eftir hringinn á undan. Þessi tími tók mikið á og vegna vandkvæða teygðist úr lyfjameðferðinni sem lauk ekki fyrr en rétt fyrir jól. Þau voru búin að skreyta sjúkrastofuna sína með jólaljósum áður en þau fengu að fara heim, 7. desember 2013.

Starfsfólkinu var svo annt um að okkur liði bærilega miðað við aðstæður.

„Má bjóða ykkur eplasafa?“ „Við vorum alveg heilluð af því hvað er unnið flott starf á spítalanum. Stefán tók strax þá ákvörðun að þiggja alla hjálp sem bauðst og við gerðum það. Ég held að það hafi verið ein af réttu ákvörðunum okkar,“ segir Sirrý. „Við spurðum mjög mikið og fengum alltaf svör. Ef við vorum ekki sátt þá spurðum við aftur. Fólk á að vera kurteist og koma vel fram. Við urðum vitni að því að það skiptir máli hvernig maður kemur fram.   Okkur fannst krabbameinsteymið æðislegt og allir læknarnir frábærir en það verður að segjast að við höfum sérstakt dálæti á Halldóru. Sigrún er yndisleg og

passar vel upp á fólk. Við vitum alveg að stundum hnippti hún í Vigfús [Bjarna Albertsson sjúkrahúsprest] og bað hann að tala við okkur og það gerði okkur alltaf gott – hann bjargaði geðheilsu okkar. Það var magnað hvernig hann lét okkur lýsa því hvernig hitt væri að standa sig. Það var hollt fyrir mig að heyra hvernig Stefáni fannst ég vera að höndla aðstæðurnar og öfugt. Við fórum ekki oft að tala við sálfræðing en þegar við gerðum þá þá græddum við alltaf á því. Starfsfólkinu var svo annt um að okkur liði bærilega miðað við aðstæður. Meira að segja sjúkraþjálfarinn, sem var að reyna að þjálfa Ágústu, var að

koma með bakstra fyrir okkur til að láta okkur líða betur. Svo má auðvitað hlæja að sumu eftir á. Það var alltaf verið að bjóða okkur eplasafa. Hvað er það? „Ágústa er með hræðilega alvarlegan sjúkdóm, má ekki bjóða ykkur eplasafa?“ Kannski setja þau eitthvað út í safann!“   Ágústa kláraði meðferðina rétt fyrir jól. Henni leið ágætlega en líkaminn var dauðþreyttur. Hún var grindhoruð og gat ekki labbað sjálf nema nokkur skref í einu. Hún fékk næringu um magahnappinn vel fram yfir áramót og Sirrý og Stefán gáfu henni lyf allt upp í 14 sinnum á sólarhring. Árið 2013 gátu þau lítið unnið, Sirrý ekki neitt en Stefán byrjaði í hlutastarfi síðla árs og Ágústa fór ekkert í skólann fyrsta árið. Eftir áramótin fékk hún að fara í heimsókn í bekkinn sinn til að kynnast krökkunum aðeins og Sigrún fór og talaði við þau. Ágústa sýndi þeim slöngurnar sínar og örin og krökkunum fannst það rosalegt. Ágústa fór að fara í sjúkraþjálfun og var á hálfum snúningi fyrri hluta árs 2014. Sirrý fór aðeins að vinna, fyrst 50% og svo 70% og segist heppin að hafa fengið að byrja rólega. Hún var komin í fulla vinnu aftur í janúar 2015, tæpum tveimur árum eftir greiningu.

Ísbjörninn Hringur og Ágústa með verðlaunapeninginn sinn. Börn með krabbamein - 7


„Við gerum okkar vel grein fyrir því að líf Ágústu hékk á bláþræði um tíma og það er kraftaverk hvað hún er flott í dag.“

„Við gerum okkar vel grein fyrir því að líf Ágústu hékk á bláþræði um tíma og það er kraftaverk hvað hún er flott í dag. Hún mun bera merki meðferðarinnar allt sitt líf og þurfa að taka eitthvað af lyfjum en það er ekki neitt miðað við það sem við höfum orðið vitni að á Barnaspítala Hringsins,“ segir Sirrý. Skert vinnsluminni, sjón og heyrn

MEÐFERÐIN 2013 • Yfir 30 svæfingar

• Krabbameinslyf

• 3 aðgerðir

- 30 skammtar af Carpoplatín - 6-7 skammtar af Vincristín

- Heilaskurðaðgerð - Aðgerð til að koma holæðaleggi - Aðgerð til að koma hnapp á maga

• Dvöl á gjörgæslu - 4 sólarhringar í Fossvogi - 10 sólarhringar á Hringbraut - 5 dagar í öndunarvél

• Geislar 31 skipti - 20 á allt miðtaugakerfið - 6 á skurðsvæðið og eftir hluta mænu - 5 á skurðsvæðið (ákv. punkta)

8 - Börn með krabbamein

• Myndatökur - 8 segulómanir - 5 sneiðmyndir af miðtaugakerfi - 4-5 röntgenmyndir af kvið

Þau segja að Ágústa sé rosa flott í dag. Hún var í ballett áður en hún veiktist og fékk frábærar móttökur þar þegar hún kom aftur og tók fljótlega þátt í sýningu. „Núna kemur ballettinn í staðinn fyrir sjúkraþjálfun,“ segir Sirrý.   „Þegar hún byrjaði að ganga var hún ekki með neitt jafnvægi og alla vorönnina 2014 keyrði Stefán hana í skólann í hjólastólnum. Það er fyrst núna eftir áramót 2016 sem hún gengur sjálf í skólann. Hún er komin með mikla orku þó að hún sé ekki jafn orkumikil og önnur börn. Hún sest niður þegar hún getur ekki meir og hvílir sig.   Hún er með eðlilega greind en hægara vinnsluminni, sem er fylgifiskur geislameðferðarinnar. Við vonum að það lagist með tímanum. Hún er með skerta heyrn og með heyrnartæki og þarf að taka lyf daglega vegna vanvirks skjaldkirtils. Svo reikna læknar með að hún þurfi hormónameðferð í sambandi við vöxt og kynþroska en það er komin mikil brenglun á alla hormónastarfsemi. Hún gæti tekið kynþroskann út alltof snemma eða alltof seint. Við erum því komin í hendurnar á innkirtlaækni sem fylgist vel með henni. Hún fer í segulómun á þriggja mánaða fresti og það hefur verið ró yfir svæðinu hingað til.   Hún er sami sterki karakterinn og hún var þó að hún sé ekki jafn kröftug líkamlega. Hún er langt á eftir í námi, enda hefur hún ekki getað unnið upp það sem hún missti úr. Okkur finnast það ekki eðlilegar kröfur að barn sem er að byrja í skóla eftir erfið veikindi eigi að vinna helmingi lengur en aðrir með þrek langt undir meðallagi.


Fréttir og dagbók á Facebook Stefán og Sirrý ákváðu strax að setja upp lokaða Facebook-síðu þar sem þau settu inn upplýsingar um veikindin og meðferðina. Í upphafi fór mikill tími í samtöl við vini og vandamenn á sama tíma og þau voru

þreytt og stressuð og þá fannst þeim gott að nota Facebook til færa fólki fréttir og halda um leið dagbók um ferlið. Þau telja þetta hafa verið góða ákvörðun og síðan hafi þjónað þeim tilgangi sem þau stefndu að, auk þess sem þeim fannst ljúft að fá góðar kveðjur.   Þau segjast strax hafa fengið mikinn stuðning frá fjölda manns. Þau vinna bæði á stórum vinnustöðum, Stefán hjá Sjóvá og Sirrý hjá Íslandsbanka. Í Íslandsbanka er mikil hlaupamenning og þau ákváðu að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni 2013 í nafni Ágústu. Og þá varð til nafnið Ágústa Vá-Gústa ofurhetju prinsessa. „Frænka mín bjó til bók handa henni sem hét Ágústa Vá-Gústa. Hún bætti svo sjálf prinsessutitlinum við. Allir lögðu hönd á plóg, vinkona mín bjó til logo, við fengum styrktaraðila til að gera flotta boli og það var gaman að hafa um eitthvað að hugsa annað en veikindin á þessum erfiða tíma. Við fundum mikinn samhug frá bankanum og starfsmönnum. Það var fullt af fólki sem hafði aldrei hlaupið og sagðist aldrei hefðu gert það nema fyrir Ágústu. Þetta var vel heppnað og skemmtilegt og bætti heilsuna þar að auki. Við hlupum fyrir Gunnar Stein heitinn í fyrra og okkur fannst það líka lyfta honum upp,“ segir Sirrý. Gunnar Steinn Guðlaugsson lést af sínu meini 26. apríl sl.   Eftir andlát Gunnars Steins fór mikið í gang í kollinum á Ágústu og hún vildi vita hvers vegna hann hefði dáið. Sirrý segist hafa sagt henni að því miður hafi meðferðin ekki náð að sigra krabbameinið hans. Þá hafi Ágústa orðið hugsi og spurt hvort

hún gæti fengið krabbamein aftur. „Ég varð að svara því játandi. Það væri mögulegt en myndi vonandi ekki gerast, það væri fylgst vel með henni og hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Litla kerlingin sagði þá: „Mamma, ef ég fengi eina ósk, þá væri hún sú að ég fengi aldrei krabbamein aftur.“ Það er nokkuð ljóst að við foreldrarnir deilum þeirri ósk með henni,“ segir Sirrý. Ráðleggingar til nýgreindra Stefán og Sirrý segjast eiga mörg ráð handa fólki sem lendir í sömu stöðu og þau. Þau ráðleggja fólki að spyrja og spyrja, nota Facebook til að leyfa öðrum að fylgjast með og þiggja þá aðstoð sem er í boði. Baklandið skiptir mjög miklu máli og að virkja tengslanetið.   „Við vorum svo lánsöm að eiga gott bakland og marga sem voru tilbúnir að aðstoða. Foreldrar okkar beggja hjálpuðu okkur mjög mikið ásamt systkinum og vinum og vinnuveitendur okkar komu vel til móts við okkur. Án þessarar hjálpar hefði þetta orðið ennþá erfiðara. Það skiptir miklu máli í svona aðstæðum að deila verkefnum til þeirra sem vilja hjálpa og reyna á sama tíma að fækka verkefnunum sem við sjálf þurfum að sinna. Allt þetta skiptir gífurlega miklu máli og við erum afar þakklát fyrir allan þann stuðning sem við höfum fengið. Æðruleysi og að láta hverjum degi nægja sína þjáningu er gott veganesti í ferðalagi sem þessu,“ segja þau Sirrý og Stefán að lokum.

Systurnar Ágústa og Valborg María á góðri stundu.

Ljósmynd: Eydís ljósmyndun

Við erum samt í góðu samstarfi við Seljaskóla og með aðstoð Kristjönu [Ólafsdóttur] iðjuþjálfa ákveðum við hvað hún gerir á hverri önn. Við erum rosalega ánægð með hennar aðkomu og þökkum SKB fyrir þann bandamann sem við eigum í henni. Það er gott að hafa einhvern sem styrkir mann og veit eftir hverju maður getur óskað. Við vorum að fá aðgang að hljóðbókasafni og ætlum að sjá hverju það skilar.   Ágústa er líka rosalega ánægð með listmeðferðina [hjá Hörpu Halldórsdóttur í SKB] og Valborg María líka. Ágústa spyr á sunnudögum hvenær hún fái að fara til Hörpu en tíminn hennar er á fimmtudögum. Valborg er tveimur árum eldri en Ágústa og var orðin kvíðin. Við töldum að það gæti tengst veikindum Ágústu og ákváðum að þiggja listmeðferð fyrir hana líka. Hún er rosalega ánægð og finnst frábært að vera á listnámskeiði. Þær verða mjög skúffaðar ef þær missa úr tíma. Og þó að það sé oft mikið vesen fyrir okkur að koma þeim í Hlíðasmárann þá leggjum við það á okkur því þær eru svo ánægðar og okkur finnst þetta hafa hjálpað þeim. Harpa er búin að ná miklum árangri með þær systur svo ólíkar sem þær eru,“ segir Sirrý.

Börn með krabbamein - 9


til Parísar er það sem allir þátttakendur í Team Rynkeby hafa unnið að í heilt ár, bæði með þjálfun og söfnun til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Þar fá þátttakendurnir loks að finna fyrir því með skýrum hætti að þeir eru hluti af mun stærra verkefni.

Stefnt að þátttöku 35 Íslendinga

Lárus Frans Guðmundsson, Guðbjörg Þórðardóttir og Viðar Einarsson Í sumar hefst á Íslandi nýtt verkefni sem á eftir að koma sér vel fyrir SKB á komandi árum, þegar fjórir Íslendingar ætla að hjóla til Parísar í einu þekktasta heilsu- og góðgerðarverkefni Norðurlanda. Allt er þetta hluti af samnorrænu góðgerðarstarfi Team Rynkeby fonden, sem hefur frá árinu 2002 staðið fyrir hjólreiðaferðum til Parísar til styrktar krabbameinssjúkum börnum. 1.600 hjólreiðamenn og 400 aðstoðarmenn í 38 liðum frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Færeyjum ætla að hjóla til Parísar í sumar til að safna áheitum fyrir krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra, hver í sínu landi. Fjórmenningarnir íslensku hafa fengið það hlutverk að kynna sér verkefnið í sumar og að því loknu fær Ísland sitt eigið Team Rynkeby-lið sem hjólar til styrktar SKB sumarið 2017.

Margþættur ávinningur Tvenn vinahjón, þau Viðar Einarsson, Guðbjörg Þórðardóttir, Lárus Frans Guðmundsson og Ásta Birna Ragnarsdóttir, hafa fengið pláss hjá liði Team Rynkeby í Danmörku til að kynna sér starfið í vetur og undirbúninginn fyrir ferðina í sumar, því það er að mörgu að huga fyrir svona stórt verkefni. Lárus og Ásta búa í Danmörku og fengu áhuga á málinu þegar þau sáu eitt 10 - Börn með krabbamein

af liðunum fara af stað sumarið 2014 og fannst að þetta væri eitthvað sem Ísland yrði að taka þátt í. Lárus setti sig í samband við stjórn Team Rynkeby fonden og úr varð að hefja undirbúning að stofnun fyrsta íslenska liðsins. Verkefnið sameinar á hverju ári þúsundir manna í kringum þá grundvallarhugmynd að þátttakendurnir geri eitthvað gott fyrir sig sjálfa og láti um leið gott af sér leiða fyrir aðra.   Ein af stærstu áskorunum liðsins er að safna áheitum fyrir styrktarfélög krabbameinssjúkra barna, m.a. í formi auglýsinga á búninga liðanna.

Í fyrra sóttu meira en 3.000 manns um að komast í lið í Team Rynkeby á Norðurlöndunum en aðeins var pláss fyrir helming þeirra. Stefnt er að því að í nýja íslenska liðinu sem fer sumarið 2017 verði 25-30 hjólreiðamenn og 5 aðstoðarmenn. Liðinu er ætlað að endurspegla íslenskt samfélag með hæfilegu hlutfalli karla og kvenna, yngri og eldri með mismunandi menntun og reynslu og þátttakendur þurfa ekkert endilega að vera miklir hjólagarpar til að geta verið með.   Þátttakendur í Team Rynkeby greiða fyrir þátttöku sína sjálfir en danski safaframleiðandinn Rynkeby Foods greiðir allan almennan kostnað við verkefnið. Þannig rennur allt fé sem þátttakendur safna yfir árið óskert til baráttunnar við krabbamein í börnum. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins þar sem einnig er hægt að sækja um pláss til 18. ágúst í nýja Team Rynkeby liðinu á Íslandi: http://www. team-rynkeby.is og fylgjast með okkur á Facebook: https://www.facebook.com/ TeamRynkebyIsland/

1.300 km á sjö til átta dögum Þátttakan í Team Rynkeby nær yfir eitt ár þar sem þátttakendur æfa sig og taka þátt í söfnun fyrir krabbameinssjúk börn. Vinnunni lýkur með 1.300 km langri hjólaferð til Parísar, sem tekur um sjö til átta daga fyrir flest liðin. Íslenska liðið flýgur til Kaupmannahafnar til að hefja ferðina þar. Hjólað er á hæfilegum hraða allan daginn, um 150-200 kílómetra á dag og gist er á hótelum á leiðinni. Bílar fylgja liðinu með farangur og vistir fyrir daginn. Liðin 38 fara mismunandi leiðir í gegnum Evrópu en safnast saman í París til að hjóla síðustu kílómetrana í gegnum borgina og endar ferðin við Eiffel-turninn. Ferðin

Allt fé sem þátttakendur safna rennur óskert til baráttunnar við krabbamein í börnum.


Bรถrn meรฐ krabbamein - 11


Vinna við undirbúning að opnun á miðstöð síðbúinna afleiðinga eftir krabbamein barna og unglinga hófst í janúar á þessu ári á Barnaspítala Hringsins. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna styrkir verkefnið og mun miðstöðin verða opnuð í haust.   Miðstöð síðbúinna afleiðinga er fyrir einstaklinga sem fengu krabbamein sem börn eða unglingar og eru lausir við sjúkdóminn. Almennt verður boðið upp á reglubundna eftirfylgd upp að 25 ára aldri, hversu oft fer eftir eðli sjúkdóms. Einstaklingum eldri en 25 ára sem fengu meðferð 1981 eða síðar verður boðið að koma í a.m.k. eitt viðtal.   Miðstöðin verður hluti af krabbameinsteymi Barnaspítalans og var Vigdís Hrönn Viggósdóttir hjúkrunarfræðingur ráðin verkefnastjóri yfir þróun miðstöðvarinnar. Trausti Óskarsson barnalæknir í sérnámi í krabbameinslækningum barna á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi hefur einnig verið í hlutastarfi við undirbúninginn.

SÍÐBÚNAR AFLEIÐINGAR   Með bættri meðferð við krabbameinum barna og unglinga hafa lífslíkur batnað verulega á síðastliðnum 30 árum. Meðferðinni fylgir hins vegar hætta á síðbúnum afleiðingum, þ.e. heilsufarsvandamálum sem geta komið fram síðar og náð til sálfélagslegra þátta, haft áhrif á vöxt og þroska, líffærastarfsemi, frjósemi og æxlun og síðari krabbamein. Yfirleitt eru það meðferðartengdir þættir sem ákvarða áhættuna á síðbúnum afleiðingum en aðrir þættir eins og t.d. heilsufarsástand fyrir veikindin, undirliggjandi genaþættir og heilsutengd hegðun geta haft áhrif.   Með meiri vitneskju um hverjar þessar afleiðingar eru og hvaða meðferðir auka líkur á síðbúnum afleiðingum í kjölfar krabbameinsmeðferðar hefur orðið ljóst að langtíma eftirfylgd út lífið er mörgum nauðsynleg.

ÁHERSLA LÖGÐ Á HEILDRÆNT EFTIRLIT   Eftirfylgdin er heildræn og hefur þann tilgang að efla heilsu og lífsgæði einstaklinga eftir krabbamein með áhættumiðuðu heilsufarsmati, stuðningi og fræðslu. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og getur falið í sér, auk komu til hjúkrunarfræðings, viðtal við krabbameinsbarnalækni, innkirtlasérfræðing, hjartalækni o.fl., auk þess sem skjólstæðingum er leiðbeint með að 12 - Börn með krabbamein

Ljósmynd: Þorkell Þorkelsson

Ný miðstöð síðbúinna afleiðinga kra

Skrifað var undir samning um stofnun og rekstur göngudeildarinnar á leikstofu Barnaspítalans 26. apríl sl. Myndin var tekin af því tilefni. Frá vinstri. Vigdís Viggósdóttir verkefnastjóri, Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítala, Rósa Guðbjartsdóttir, formaður SKB, Ólafur Gísli Jónsson læknir, Sólveig Hafsteinsdóttir læknir, Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB, Harpa Halldórsdóttir, starfsmaður SKB, Hrafnhildur Stefánsdóttir, í stjórn SKB. finna viðeigandi farveg í fullorðinsmiðaðri þjónustu, innan og utan spítalans.

UNDIRBÚNINGUR OG ÞRÓUN   Klínískar leiðbeiningar og rannsóknir um síðbúnar afleiðingar gefa mikilvægan grunn fyrir þróun nýrrar miðstöðvar, gott tengslanet við fagaðila sem búa að reynslu bæði innanlands og erlendis er þó ekki síður mikilvægt.   Í febrúar fór undirrituð í vettvangsferð á móttöku í Gautaborg sem opnuð var 2012 og fylgdist með viðtölum, auk þess sem tilgangurinn var að læra að gera samantekt um krabbameinsmeðferðir og síðbúnar afleiðingar samkvæmt sænskum leiðbeiningum, svokallað „vegabréf eftir krabbameinsmeðferð“. Í apríl voru tveir spítalar í London heimsóttir þar sem tækifæri gafst til að skoða móttökur fyrir börn og ungmenni. Fyrsta daginn var fylgst með á þverfaglegri móttöku á Háskólasjúkrahúsinu (UCLH) fyrir fólk eftir beinmergsskipti þar sem margir fagaðilar koma að þjónustunni, s.s. innkirtlasérfræðingar, barnakrabbameinslæknar og frjósemisráðgjafi.   Seinni tvo dagana var fylgst með á hjúkrunarstýrðum móttökum, annars vegar á Barnaspítalanum við Great Ormond Street (GOSH) þar sem börnum er fylgt eftir 5 árum frá meðferðarlokum til 18 ára aldurs, og hins vegar á UCLH að fylgjast með eftirfylgd 18-25 ára fólks. Að auki gafst tækifæri til að

sitja teymisfund þar sem fagfólk frá barnaog fullorðinsþjónustunni kom saman og undirbjó tilfærslu skjólstæðinga frá GOSH yfir til UCLH. Fyrir þá teymisfundi var búið að útbúa meðferðarsamantekt líkt og gert er í Svíþjóð.   Í vor verður norræn ráðstefna NOPHO og NOBOS um krabbamein barna haldin hér í Reykjavík og verður eitt meginþemað á ráðstefnunni síðbúnar afleiðingar. Innan samstarfsins er í gangi vinnuhópur sem fæst við síðbúnar afleiðingar og á krabbameinsteymið fulltrúa þar. Innan slíks vinnuhóps gefst tækifæri til að deila þekkingu og reynslu auk þess sem hópurinn vinnur að þróun gæðaverkefna.

VEGABRÉF EFTIR KRABBAMEINSMEÐFERÐ   Eitt af forgangsatriðunum við undirbúning eftirfylgdar er að skilgreina þá sem eru í mestri áhættu til að geta náð til þeirra með viðeigandi inngripum og þannig fyrirbyggt eða brugðist við síðbúnum afleiðingum. Gera þarf vegabréf fyrir hvern og einn sem inniheldur samantekt þar sem krabbameinsgreiningin, heildar krabbameinslyfjaog geislaskammtar, staðsetning geisla og skurðaðgerðir í tengslum við krabbameinið er tilgreint. Mikilvægt er að taka saman heildarskammta krabbameinslyfja og geisla því þeir gefa vísbendingar um hversu mikil og hvers konar hætta er á síðbúnum afleiðingum og hverju þarf að fylgjast með.


rabbameina í börnum og unglingum   Í vegabréfinu er einnig farið yfir viðeigandi síðbúnar afleiðingar út frá líffærakerfum og gerð grein fyrir bæði því sem vitað er að sé til staðar og því sem vitað er að getur komið fram síðar á ævinni og þarf að fylgjast vel með. Þegar skjólstæðingar koma í eftirfylgd verður farið yfir öll þessi atriði með þeim og eftir heimsóknina verður vegabréfið aðgengilegt í sjúkraskrá, auk þess sem skjólstæðingar fá sent afrit í Veru heilsuskrá (heilsuvera.is).   Vegabréfinu er ætlað að styrkja fólk í að vera eigin málsvari að meðferð lokinni með því að vera upplýst um hvaða einkennum þarf að vera vakandi fyrir og að það viti hvaða heilbrigðisþjónusta er viðeigandi og hvert á að leita ef meiri stuðnings er þörf.   Barnaspítalinn þakkar SKB fyrir þann stuðning sem félagið leggur í verkefnið. Við væntum þess að ný miðstöð síðbúinna afleiðinga komi ekki einungis til móts við heilsutengdar þarfir fólks eftir krabbameinsmeðferð í æsku með beinum stuðningi til þeirra, heldur einnig með auknum stuðningi til heilbrigðisfagfólks sem þjónar þeim utan spítalans. Fyrir hönd krabbameinsteymis Barnaspítala Hringsins, Vigdís Hrönn Viggósdóttir.

Eitt af forgangsatriðunum við undirbúning eftirfylgdar er að skilgreina þá sem eru í mestri áhættu til að geta náð til þeirra með viðeigandi inngripum og þannig fyrirbyggt eða brugðist við síðbúnum afleiðingum.

Vigdís Hrönn Viggósdóttir

Trausti Óskarsson

Vigdís Hrönn Viggósdóttir lauk BS-gráðu í hjúkrunarfræði frá HÍ vorið 1999 og MS-gráðu í barnahjúkrun frá HÍ vorið 2011. Hún hefur frá lokum hjúkrunarnáms að mestu unnið við barnahjúkrun, utan eitt ár á handlækningadeild fullorðinna og tvö ár hjá Eirbergi Stórhöfða.Vigdís hefur einnig komið að kennslu í barnahjúkrun við hjúkrunarfræðideild HÍ, bæði í tengslum við starfsnám og fyrirlestur um krabbameinshjúkrun barna. Í meistaranáminu lagði Vigdís áherslu á hjúkrun krabbameinssjúkra barna og vann fjölbreytt verkefni því tengt. Hún hefur einnig tekið þátt í ýmsum félagsstörfum innan hjúkrunar, var t.a.m. í stjórn NOBOS, norrænu félagi krabbameinsbarnahjúkrunarfræðinga, árin 2006 til 2013. Að meistaranámi loknu tók hún við stöðu verkefnastjóra á barnadeildinni og átti þá m.a. þátt í því að yfirfara bæði krabbameinshjúkrun og sýkingavarnir á deildinni. Sú vinna skilaði sér m.a. í handbók fyrir hjúkrunarfræðinga um hjúkrun krabbameinssjúkra barna, unninni í samvinnu við Bergljótu Steinsdóttur og Oddnýju Kristinsdóttur barnahjúkrunarfræðinga. Vigdís tók einnig þátt í undirbúningi við að fá til Íslands sérhæft námskeið frá Bandaríkjunum um hjúkrun barna í krabbameinsmeðferð. Alls luku 26 hjúkrunarfræðingar barnadeildar og dagdeildar námskeiðinu sem haldið var árið 2012. Það verkefni var styrkt af SKB og Friðrikssjóði. Vigdís er fædd 1973. Hún er gift Smára Brynjarssyni og þau eiga þrjú börn.

Trausti Óskarsson útskrifaðist frá Læknadeild Háskóla Íslands 2005 og starfaði meðal annars á Barnaspítala Hringsins áður en hann hóf sérnám í barnalækningum við Astrid Lindgren barnaspítalann í Stokkhólmi árið 2009. Á meðan Trausti vann á Barnaspítala Hringsins lagði hann grunninn að rafrænu sjúkraskrárkerfi fyrir krabbameinssjúk börn á Barnaspítala Hringsins auk þess sem hann vann að rannsóknum á íslenskum börnum með krabbamein. Hann lauk sérhæfingu í barnalækningum árið 2014 og starfar nú á krabbameinsdeild Astrid Lindgren barnapítalans í Solna, Stokkhólmi. Samhliða klínskri vinnu stundar Trausti doktorsnám við Karolinska Institutet þar sem hann rannsakar annars vegar börn sem fengið hafa hvítblæði og hins vegar langtímaáhrif krabbameinsmeðferðar á stoðkerfi einstaklinga sem greindust með krabbamein á barnsaldri. Hann hefur setið í stjórn Norrænna samtaka unglækna á sviði krabbameinslækninga (Young NOPHO) og er virkur í vinnuhópum NOPHO um skráningu hvítblæðis (ALL registry), endurkomu hvítblæðis (ALL relapse) og stoðkerfisvandamál (skeletal complications). Trausti hefur fengið styrki frá Kristínarsjóði og sænska Barncancerfonden til rannsókna. Á síðastliðnu ári hlaut hann stóran rannsóknarstyrk frá Barncancerfonden sem gerir honum kleift að stunda rannsóknir samhliða klínískri vinnu næstu fjögur árin.

Hvernig eftirfylgdinni er háttað tekur m.a. mið af klínískum leiðbeiningum sem er ætlað að:

• Gefa upplýsingar um algengar síðbúnar afleiðingar eftir ákveðnar meðferðir • Efla heilbrigða lífshætti • Veita viðvarandi eftirlit með heilbrigðisástandi • Auka líkur á að uppgötva síðbúnar afleiðingar snemma • Ráðleggja tímabær inngrip við síðbúnum afleiðingum til að viðhalda heilsu

Börn með krabbamein - 13


TA K K ! Kjarnafæði styrkti SKB um rúmlega 1,5 milljónir Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna var afhentur styrkur að fjárhæð 1.542.150 krónur, sem var afrakstur þáttarins Geðveik jól sem sýndur var á RÚV fyrir jólin 2015. Kjarnafæði valdi að styrkja SKB og náði þeim frábæra árangri að geta afhent hæstu upphæð sem safnast hefur í sögu þáttanna. Myndin var tekin þegar Andrés Vilhjálmsson frá Kjarnafæði afhenti Grétu Ingþórsdóttur, framkvæmdastjóra SKB, söfnunarféð.

SKB þakkar Kjarnafæði kærlega fyrir góðan stuðning.

2,3 milljóna styrkur frá Arionbanka   Styrktarfélag krabba-

meinssjúkra barna fékk afhentan styrk frá Arionbanka og starfsmönnum hans. Í tilefni af 80 ára afmæli Skjaldar, starfsmannafélags bankans, bauðst öllum starfsmönnum að ráðstafa 25 þús. krónum til góðgerðarfélags sem vinnur í þágu barna og ungmenna.   Tæplega 100 starfsmenn völdu að láta styrkinn renna til SKB og þannig komu um 2,3 mkr. í hlut félagsins.

Við þökkum kærlega fyrir góðan hug og myndarlegan stuðning.

14 - Börn með krabbamein


TA K K ! Nýir eigendur Jólatrjáasölunnar Landakoti Anna Guðný Guðmundsdóttir og Jón Gauti Jónsson hafa tekið við Jólatrjáasölunni Landakoti af Baldri Frey Gústafssyni sem hefur rekið hana til fjölda ára. Þau Anna Guðný og Jón Gauti ákváðu að halda áfram að láta hluta ágóðans af sölunni renna til SKB eins og Baldur Freyr gerði og færðu félaginu myndarlega fjárhæð snemma árs. Styrktarfélagið reynir á hverju ári að vekja athygli á Jólatrjáasölunni og hvetur félagsmenn til að beina viðskiptum sínum þangað en Jólatrjáasalan hefur ávallt verið með glæsilegustu trén í bænum. SKB þakkar þeim Önnu Guðnýju og Jóni Gauta kærlega fyrir stuðninginn.

Tónleikar til styrktar Guðmundi Atla og SKB Í byrjun árs voru haldnir tónleikar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ til styrktar SKB og Guðmundi Atla, 7 ára strák sem greindist með bráðahvítblæði seint á síðasta ári. Margir voru reiðubúnir að leggja söfnuninni lið og gefa vinnu sína. Á tónleikunum komu fram Páll Óskar Hjálmtýsson,Valdimar Guðmundsson, Blaz Roca, Herra hnetusmjör, María Ólafs, Shades of Reykjavík og Sígull. Einnig komu bekkjarsystkini Guðmundar úr Myllubakkaskóla fram og Sesselja Ósk jólastjarna. Styrktaraðilar voru Kaffitár, Ölgerðin og Vífilfell. Selt var inn á tónleikana og auk þess tekið á móti frjálsum framlögum og runnu vel yfir 100 þúsund krónur til SKB. Félagið þakkar kærlega fyrir ómetanlegan stuðning og óskar Guðmundi Atla og fjölskyldu hans velfarnaðar.

Styrkur í minningu Gunnars Steins Arsenalklúbburinn á Íslandi afhenti SKB 200 þúsund króna styrk á dögunum í minningu Gunnars Steins Guðlaugssonar, félagsmanns í SKB, sem lést í apríl sl. Gunnar Steinn var mikill Arsenal-maður og fór á leik með liðinu í boði klúbbsins og fleiri í byrjun árs. Helming styrksins skal varið í verkefni í minningu Gunnars Steins. SKB þakkar Arsenalklúbbnum kærlega fyrir góðan stuðning við félagið. Kjartan Friðrik Adolfsson, gjaldkeri Arsenal-klúbbsins, afhendir Grétu Ingþórsdóttur, framkvæmdastjóra SKB, styrkinn á aðalfundi klúbbsins. Börn með krabbamein - 15


SUMARHÁTÍÐ Á SELFOSSI Sumarhátíð Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna verður haldin á Selfossi í tengslum við fjölskyldu- og BBQ-hátíðina Kótelettuna í sumar.   SKB bauðst á síðasta ári að vera með sölubás þar sem félagar úr golfklúbbnum Tudda gáfu vinnu sína við grillin. Þar voru seldar kótelettur fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna að andvirði hálfrar milljónar króna í góðri stemmningu og góðu veðri.   Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að færa sumarhátíðina úr Fljótshlíðinni þar sem hún hefur verið undanfarin ár og halda hana á Selfossi 10.-12. júní.   Nánari dagskrá verður send félagsmönnum þegar nær dregur.

Bubbluboltarnir vinsælu verða á sumarhátíðinni.

Félagsmenn bíða spenntir eftir nammiregninu í Múlakoti. 16 - Börn með krabbamein


Hlaupa- og áheitahátíðin mikla  Reykjavíkurmaraþon verður hlaupið 20. ágúst nk. í 33. sinn. Hlaupið hefur á síðustu árum orðið einn mikilvægasti fjáröflunarviðburður Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna í gegnum áheitasöfnun á söfnunarsíðunni hlaupastyrkur.is.   Þegar hlauparar hafa skráð sig í hlaupið á vefsíðunni marathon.is þá geta þeir skráð sig á hlaupastyrk.is, valið góðgerðarfélag til að styrkja, sett inn ýmsar upplýsingar um sig og tengingu við málefnið og byrjað að safna.   Oft myndast skemmtileg stemmning í kringum hlauparana í tengslum við áheitasöfnunina og á hlaupadaginn sjálfan hefur félagið verið með hvatningarhóp við hlaupaleiðina í Ánanaustum sem hefur hvatt hlauparana með hrópum og köllum. Félagið verður í sumar með bás á skráningarhátíð hlaupsins sem verður að þessu sinni með breyttu sniði en í tengslum við skráninguna verður haldin sýningin Fit & Run Expo og verður bás SKB inni á henni.

Síðustu ár hafa vel á annað hundrað hlauparar á hverju ári valið að láta áheit á sig renna til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og hafa áheitin skipt verulegu máli fyrir starfsemi félagsins.

FÉLAGSMENN OG AÐRIR VELUNNARAR ERU HVATTIR TIL AÐ HLAUPA, HEITA Á HLAUPARA, BERA ÚT BOÐSKAPINN EÐA LEGGJA VERKEFNINU LIÐ Á ANNAN HÁTT.

Reykjavíkurmaraþon er svo sannarlega jákvæður viðburður þar sem fjölmargir fá tækifæri til að láta gott af sér leiða og rækta heilsuna í leiðinni.

Börn með krabbamein - 17


Félög ungs fólks með krabbamein og styrktarfélög krabbameinssjúkra barna á Norðurlöndunum hafa undanfarin ár haldið ráðstefnu á hverju ári fyrir unga krabbabugara, Nordic Cancer Survivors, þar sem fulltrúar frá félögunum bera saman bækur sínar og fræðast um eitt og annað sem tengist því að lifa með afleiðingum krabbameina.   Ráðstefnan var að þessu sinni haldin í Malmö í Svíþjóð í byrjun maí af UngCancer í Svíþjóð. Fulltrúar SKB í ár voru Samson Jóhannsson og Steinar Jónsson, núverandi og fyrrverandi þátttakandi í unglingastarfi félagsins, USKB. Kraftur sendi þrjá fulltrúa úr stjórn félagsins, Huldu Hjálmarsdóttur, sem einnig er annar tveggja umsjónarmanna USKB, Ástrósu Rut Sigurðardóttur og Þóri Ármann Valdimarsson.

Félag fyrir krabbavini

Meðal fyrirlestra á ráðstefnunni var kynning sálfræðings og hjúkrunarfræðings á rannsókn um ungt fólk með krabbamein, kynlíf og frjósemi, sem er að fara af stað. Þá var kynning á félaginu Cancerkompisar, sem mætti þýða sem krabbavini, en það er félag fyrir aðstandendur þeirra sem greinast með krabbamein. Félagið heldur úti vefsíðu þar sem fólk getur skráð sig inn og spjalla um reynslu sína og fengið stuðning – cancerkompisar.se   Þátttakendum var boðið að taka þátt í UngCancer festival sem haldið var á sama stað í kjölfar ráðstefnunnar. Sú hátíð er haldin fyrir fólk á aldrinum 16 til 30 ára, bæði þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur. 400 þátttakendur voru skráðir og var boðið upp á námskeið, fræðslu og ýmsar skemmtilegar vinnustofur.  Í boði var fræðsla um hollt mataræði, vinnustofa um eflingu sköpunarkrafts,

18 - Börn með krabbamein

stöðvajálfun, bootcamp, afródans, jóga, námskeið í ávaxtaútskurði og fræðsla um réttindi ungs fólks með krabbamein. UngCancer var einnig með kynningu á þjónustu sinni. Til viðbótar við fræðslu og vinnustofur var skemmtileg kvölddagskrá með tónlist, skemmtiatriðum, söng og dansi.

Hægt að efla starfið á ýmsan hátt

Að sögn Huldu Hjálmarsdóttur var skipulag og framkvæmd dagskrárinnar til fyrirmyndar og það hafi t.d. verið mjög hvetjandi að sjá hvernig UngCancer starfar í Svíþjóð og hvernig hægt væri að efla starfið fyrir unglinga og ungt fólk með krabbamein hér heima.   „UngCancer var stofnað 2010, er með höfuðstöðvar í Gautaborg en hópa starfandi um alla Svíþjóð og 14 launaða starfsmenn. Félagið hefur tekjur af ýmsum vörum sem seldar eru í netverslun, t.d. FUCK CANCER-armböndunum. Þau eru perluð af sjálfboðaliðum og hafa slegið í gegn í Svíþjóð. Þar eru allir með þau, óháð

stétt og stöðu í samfélaginu. Í vefversluninni eru einnig seldar peysur, iphone-hulstur, bolir og húfur.“   Hulda segir einnig athyglisvert hve margir fylgi UngCancer á samfélagsmiðum og þeir séu notaðir markvisst til að ná til almennings og félagsmanna. Af því sé margt hægt að læra.   „Í heildina litið var ráðstefnan fræðandi og skemmtileg. Félögin náðu að deila hvert með öðru hvað þau hafa verið að gera síðan í fyrra. Nokkur félögin áttu sameiginlegt þetta árið að mikil vitundarvakning hefur orðið um ungt fólk með krabbamein í kjölfarið af átökum í Danmörku #delditar og #shareyourscar á Íslandi og í Noregi. Nú síðast hélt Finnland átak undir nafninu Fuck Cancer Suomi.     Við viljum þakka fyrir þann heiður að fara sem fulltrúar okkar félaga þetta árið. Við komum heim reynslunni ríkari og munum gera okkar besta til að halda áfram að endurbæta þann stuðning og þjónustu sem við erum að veita unglingum og ungu fólki með krabbamein og aðstandendum þeirra,“ segir Hulda að lokum.


Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna var stofnað 1991 til að styðja við bakið á krabbameinsveikum börnum og fjölskyldum þeirra, bæði fjárhagslega og félagslega, og til að berjast fyrir réttindum þeirra gagnvart hinu opinbera. Á þeim vettvangi hefur náðst mikill árangur en enn er mikil þörf fyrir ýmiss konar

10-12 greiningar á ári

Árlega greinast 10-12 börn á Íslandi á aldrinum 0-18 ára með krabbamein. Hvítblæði og heilaæxli eru algengust. Meðferð við krabbameinum í börnum er yfirleitt mjög hörð en þau eru meðhöndluð með skurðaðgerðum, lyfjameðferðum og geislum. Börnin verða veik og máttfarin meðan á meðferð stendur og eru oft lengi að ná upp fyrri styrk. Þau eru gjarnan algjörlega ónæmisbæld þegar þau eru í meðferðarlotum og geta umgangspestir, sem eru flestu fólki meinlausar, reynst stórhættulegar. Þá er gott að eiga athvarf utan skarkalans en SKB á og rekur tvö hvíldarheimili á Suðurlandi þar sem fjölskyldur barna í meðferð geta komist í skjól þegar á þarf að halda. Húsin eru leigð félagsmönnum þegar fjölskyldur barna í meðferð dvelja ekki í þeim.

stuðning. Það er áfall fyrir alla fjölskylduna þegar einn greinist með krabbamein og hún er allt í einu komin í stöðu sem enginn vill nokkurn tíma þurfa að vera í. Yfirleitt hættir a.m.k. annað foreldrið að vinna um tíma til að sinna veika barninu og verður fjárhagslegt áfall því í flestum tilvikum tilfinnanlegt.

Mömmuhópur, unglingahópur og Angi

SKB stendur fyrir ýmsu félagsstarfi fyrir félagsmenn sína. Krabbameinsveiku börnin á aldrinum 13-18 ára hittast reglulega í félagsaðstöðu SKB eða utan hennar, hafa stuðning hvert af öðru og gera eitthvað skemmtilegt saman. Mæður krabbameinsveiku barnanna hittast mánaðarlega og spjalla. Þó að börnin séu ekki öll með sömu mein þá finnst þeim gott að hittast og bera saman bækur sínar. Foreldrar barnanna sem tapa baráttunni fyrir krabbameini hittast óreglulega og spjalla. Það er sár reynsla sem enginn skilur nema sá sem hefur reynt. Sá hópur hittist alltaf í byrjun aðventu og útbýr skreytingar á leiði barna sinna.

Þjónusta og fasteignir

SKB á tvær íbúðir í Reykjavík fyrir fjölskyldur barna af landsbyggðinni sem þurfa að dvelja í Reykjavík vegna læknismeðferðar barna sinna. Landspítalinn sér um rekstur um úthlutun þeirra íbúða. Ef fjölskyldur krabbameinsveikra barna þurfa ekki á þeim að halda er þeim ráðstafað til annarra landsbyggðarfjölskyldna sem eiga börn á Barnaspítalanum.   SKB greiðir ýmsa þjónustu fyrir skjólstæðinga sína, einkum sálfræðiþjónustu en einnig líkamsrækt og sjúkraþjálfun.   Sem betur fer lifa alltaf fleiri og fleiri það af að greinast með krabbamein og er svo komið að hlutföllin eru um það bil 80% sem lifa og 20% sem deyja.   Fyrir um aldarfjórðungi voru þessi hlutföll akkúrat öfug. En meðferð við krabbameini getur haft ýmsar aukaverkanir og síðbúnar afleiðingar í för með sér, líkamlegar, andlegar og félagslegar og börnin sem læknast geta þurft ýmsa aðstoð í mörg ár eftir að meðferð lýkur.

Félagsstarf, skrifstofa fjáröflun

Félagið stendur fyrir sumarhátíð síðustu helgina í júlí ár hvert. Hún hefur verið haldin í Smáratúni í Fljótshlíð nokkur síðustu ár. Áhugaflugmenn hafa boðið félagsmönnum útsýnisflug yfir Fljótshlíðina við frábærar viðtökur á hverju ári. Árshátíð er haldin einu sinni á ári og 20. desember ár hvert er haldin jólastund og þar minnast félagsmenn Sigurbjargar Sighvatsdóttur en hún gaf félaginu allar eigur sínar árið 1994. Sú gjöf lagði góðan grunn að starfi félagsins og möguleikum þess til að standa vel við bakið á félagsmönnum sínum. Stjórn SKB kemur saman einu sinni í mánuði og tekur þær ákvarðanir sem þarf að taka. Þess á milli er stjórn félagsins í höndum framkvæmdastjóra og þriggja manna framkvæmdastjórnar, sem í sitja formaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri félagsins. Skrifstofa félagsins er í Hlíðasmára 14. Hún er opin alla daga kl. 9-16. Starfsmenn eru tveir. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna nýtur mikils velvilja og málstaðurinn mikils stuðnings víða í samfélaginu og sem betur fer eru margir sem vilja rétta því hjálparhönd. Þörfin er þó afar brýn og alltaf meiri en félagið myndi vilja geta sinnt. Helstu leiðir félagsins til fjáröflunar hafa verið útgáfa félagsblaðs tvisvar á ári og sala styrktarlína í þau, sala minningarkorta og tækifæriskorta og ýmissa söluvara.

Listmeðferð

Sú nýbreytni hefur verið tekin upp hjá SKB að bjóða börnum í félaginu einkatíma í listmeðferð á skrifstofu félagsins. Nánari upplýsingar gefur Harpa Halldórsdóttir listmeðferðarfræðingur í síma 588 7555 eða harpa@skb.is.

Samstarf

SKB er eitt aðildarfélaga Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum, og á aðild að Almannaheillum, samtökum þriðja geirans. Auk þess er SKB aðili að alþjóðlegum samtökum félaga foreldra barna með krabbamein, CCI (Childhood Cancer International).

Börn með krabbamein - 19


VÖLUNDARHÚS Hjálpaðu Kidda kanínu að koma bláa egginu í körfuna með hinum máluðu eggjunum.


Hverju er búið að breyta? Þessar myndir virðast vera alveg eins en ef betur er að gáð er búið að breyta 5 hlutum. Hjálpaðu Lúlla að leysa þrautina.

Spaghettípylsur

namm namm

Takið spaghettí og stingið í pylsurnar eins og sést á myndinni. Hitið vatn að suðu og sjóðið í eins langan tíma og stendur á spaghettípakkningunni. Mjög gott með tómatsósu!

Börn með krabbamein - 21


Við þökkum stuðninginn Reykjavík

12 tónar ehf., Skólavörðustíg 15 Aðalvík ehf., Ármúla 15 Almenna bílaverkstæðið ehf., Skeifunni 5 Annata ehf., Mörkinni 4 Apparat ehf., Pósthólf 8127 Arkís arkitektar ehf., Kleppsvegi 152 Athygli ehf., Suðurlandsbraut 30 Atlantik ehf., Suðurlandsbraut 4A Augland ehf., Laugavegi 118 Áfengis-/tóbaksverslun ríkisins, Stuðlahálsi 2 Álafoss ehf., Bakkastöðum 15 Árbæjarapótek ehf., Hraunbær 115 B.B. bílaréttingar ehf.,Viðarhöfða 6 Barnaverndarstofa, Borgartúni 21 Básfell ehf., Jakaseli 23 BBA Legal ehf., Katrínartúni 2 Betra líf - Borgarhóll ehf., Kringlunni 8-12 Bifreiðaverkstæði Grafarvogs ehf., Gylfaflöt 24-30 Bifreiðaverkstæði Svans ehf., Eirhöfða 11 BílaGlerið ehf., Bíldshöfða 16 Bílamálun Halldórs Þ Nikuláss sf., Funahöfða 3 Bílasmiðurinn hf. Bíldshöfða 16 Bílastjarnan ehf., Bæjarflöt 10 Bílavarahlutir ehf.,Viðarási 25 Bílhagi, Eirhöfða 11 Bjargarverk ehf., Álfabakka 12 BK ehf., Grensásvegi 5 Borgarbílastöðin ehf., Skúlatúni 2 Bókhaldsstofa Haraldar slf., Síðumúla 29 Bólsturverk sf., Kleppsmýrarvegi 8 Búseti húsnæðissamvinnufélag, Síðumúla 10 Danfoss hf. Skútuvogi 6 Danica sjávarafurðir ehf. (Danica Seafood Ltd.), Suðurgötu 10 DGJ málningarþjónusta ehf., Krummahólum 2 Discover ehf., Suðurlandsbraut 16 Dómkirkjan, Pósthólf 01345 Effect ehf., Bergstaðastræti 10a Efling stéttarfélag, Sætúni 1 Eignamiðlunin ehf., Pósthólf 8935 Eignaumsjón hf., Suðurlandsbraut 30 Eir ehf., Bíldshöfða 16 Ennemm ehf., Grensásvegi 11 Evrópulög ehf., Laugavegi 77, 4. hæð Farfuglar ses., Borgartúni 6 Fasteignasalan Garður ehf., Skipholti 5 Fastus ehf., Síðumúla 16 Faxaflóahafnir sf.,Tryggvagötu 17 Félag skipstjórnmanna, Grensársvegi 13 Fiskbúð Hólmgeirs ehf., Þönglabakka 6 Fjárhald ehf., Pósthólf 32 Fjármálaeftirlitið, Katrínartúni 2 Flugfreyjufélag Íslands, Borgartúni 22 Flutningaþjónusta Arnars ehf., Þingási 46 Forum lögmenn ehf., Aðalstræti 6, 5. hæð Framtak-Blossi ehf., Dvergshöfða 27 Fuglar ehf., Katrínartúni 2 G.Á. verktakar sf., Austurfold 7 Gallerí Restaurant, Bergstaðastræti 37 Garðs Apótek ehf., Sogavegi 108 Gísli Hjartarson, Neshömrum 7 Gjögur hf., Kringlunni 7 Glóey ehf., Ármúla 19 Glófaxi ehf., Ármúli 42 Gnýr sf., Stallaseli 3 Grensáskirkja, Háaleitisbraut 66 Grill 111 ehf., Réttarholtsvegi 1 Guðmundur Arason ehf., Skútuvogi 4 Guðmundur Jónasson ehf., Borgartúni 34 Gullsmiðurinn í Mjódd, Álfabakka 14b Gullsmíðaverslun Hjálmars Torfa ehf., Laugavegi 71 Gúmmísteypa Þ. Lárusson ehf., Gylfaflöt 3 Hagall - Árni Reynisson ehf., Skipholti 50d Hagi ehf., Stórhöfða 37 Hamborgarabúlla Tómasar (HBTG) ehf,. Geirsgötu 1 Hálsafell ehf., Skeifan 19 22 - Börn með krabbamein

Hársnyrtistofan Höfuðlausnir sf., Hverafold 1-3 HBTB ehf., Bíldshöfða 18 Heildverslunin Glit ehf., Krókhálsi 5 Helgi Björnsson, Blönduhlíð 2 Herrafataverslun Birgis ehf., Fákafeni 11 Hollt og gott ehf., Fosshálsi 1 Hókus Pókus ehf., Laugavegi 69 Hótel Frón ehf., Laugavegi 22a Hótelkeðjan ehf., Austurstræti 6 Hreinsitækni ehf., Stórhöfða 37 Hringás ehf., Pósthólf 4044 Húsalagnir ehf., Gylfaflöt 20 Icelandic Group hf., Borgartúni 27 IceMed á Íslandi ehf., Ægisíðu 80 Innrammarinn ehf., Rauðarárstíg 33 Intellecta ehf., Síðumúla 5 Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli Íslensk endurskoðun ehf., Bogahlíð 4 Ísmar ehf., Síðumúla 28 Ísold ehf., Nethyl 3-3a Jón Pétursson ehf., Bjarkargötu 4 K. Pétursson ehf., Kristnibraut 29 K.F.O. ehf., Sundagörðum 2 K.H.G. þjónustan ehf., Eirhöfða 14 Kirkjugarðar Reykjavíkur, Suðurhlíð Kjöthöllin ehf., Skipholti 70 Kjötsmiðjan ehf., Fosshálsi 27-29, www.kjotsmidjan.is Klettaskóli, Suðurhlíð 9 Klif ehf. heildverslun, Grandagarði 13 Klipphúsið ehf., Bíldshöfða 18 Knattborðsstofan Klöpp ehf., Faxafeni 12 Knattspyrnufélagið Fram, Safamýri 26 Kom ehf., kynning og markaður, Höfðatorgi, Katrínartúni 2 KONE ehf., Lynghálsi 5 Kraftur hf.,Vagnhöfða 1 Krumma ehf., Gylfaflöt 7 Kurt og Pí ehf., Skólavörðustíg 2 Kvika ehf., Bjargarstíg 15 Lagnalagerinn ehf., Fosshálsi 27 Landsbréf hf., Borgartúni 33 Landsnet hf., Gylfaflöt 9 Landssamband lögreglumanna, Grettisgötu 89 Leðurverkstæðið Reykjavík, Síðumúla 33 Leikskólinn Vinaminni ehf., Asparfelli 10 Lifandi vísindi., Klapparstíg 25-27 Ljósmyndavörur ehf., Skipholti 31 Loftstokkahreinsun.is, Garðhúsum 6 LOG lögmannsstofa sf., Kringlunni 7 Lyfjaver ehf., Suðurlandsbraut 22 Læknasetrið ehf., Þönglabakka 6 Lögmannafélag Íslands, Álftamýri 9 Lögmenn Höfðabakka ehf., Höfðabakka 9 Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 115 Löndun ehf., Kjalarvogi 21 Matborðið ehf., Bíldshöfða 18, www.matbordid.is M.G.-félag Íslands, Leiðhömrum 23 Magnús og Steingrímur ehf., Bíldshöfða 14 Marport ehf., Fossaleyni 16 Martec ehf., Blönduhlíð 2 Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Sölvhólsgötu 4 Merking ehf.,Viðarhöfða 4 Merlo ehf., Krókhálsi 4 Navi ehf., Grensásvegi 44 Northwear ehf., Sundaborg 7-9 Nýi ökuskólinn ehf., Klettagörðum 11 Opin kerfi hf., Höfðabakka 9 Optic Reykjavík ehf., Hamrahlíð 17 Orka ehf., Stórhöfða 37 Orkuvirki ehf.,Tunguhálsi 3 Ottó B. Arnar ehf., Skipholti 17 Ósal ehf.,Tangarhöfða 4 Ósk Þórðardóttir tannlæknir, Borgartúni 29 P&S Vatnsvirkjar ehf., Álfheimum 50 Pasta ehf., Súðarvogi 6, www.pasta.is

Pixel ehf., Ármúla 1 Prentlausnir ehf., Ármúla 15 Proteus ehf., Ármúla 24, 3. hæð Rafiðnaðarskólinn ehf., Stórhöfða 27 Rafmagn ehf., Síðumúla 33 Rafsvið sf.,Viðarhöfða 6 Raftíðni ehf., Grandagarði 16 Rafver ehf., Pósthólf 8433 Ragnar V. Sigurðsson ehf., Reynimel 65 Rangá sf., Skipasundi 56 Reiknistofa bankanna hf., Katrínartúni 2 Renniverkstæði Jóns Þorgr. ehf., Súðarvogi 18 Reykjavíkur Apótek ehf., Seljavegi 2 Reykjavíkurborg, Borgartúni 12 -14 Rima apótek ehf., Langarima 21-23 RJ verkfræðingar ehf., Stangarhyl 1a Rosso ehf., Laugavegi 40A Rými - Ofnasmiðjan ehf., Brautarholti 26 S.B.S. innréttingar, trésmiðja, Hyrjarhöfða 3 Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, SSF, Nethyl 2 e Saumsprettan ehf., Katrínartún 2 SFR Stéttarfélag í almannaþjónustu, Grettisgötu 89 Sigurjón Arnlaugsson ehf., Skólavörðustíg 14 Sigurjónsson & Thor ehf., Lágmúla 7 SÍBS, Síðumúla 6 Sínus ehf., Grandagarði 1a Sjómannaheimilið Örkin, Brautarholti 29 Sjúkraþjálfun Styrkur ehf., Höfðabakka 9 Skilvís ehf., Stórhöfða 25, 3. hæð Skipulag og stjórnun ehf., Deildarási 21 Skolphreinsun Ásgeirs sf., Unufelli 13 Skorri ehf., Bíldshöfða 12 Skógarbær, hjúkrunarheimili, Árskógum 2 Skýrslur og skil, Lágmúla 5 Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Skógarhlíð 14 Smith & Norland hf., Nóatúni 4 Smur- og viðgerðarþjónustan ehf., Hyrjarhöfða 8 Sólarfilma ehf.,Tunguháls 8 Stál og stansar ehf.,Vagnhöfða 7 Stálbyggingar ehf., Hvammsgerði 5 Stjörnuegg hf.,Vallá Stoð pallaleiga ehf.,Tunguhálsi 17 Stólpi-gámar ehf., Klettagörðum 5 Straumhvarf hf.,Vatnagörðum 8 Suzuki-bílar hf., Skeifunni 17 Sveinsbakarí, Arnarbakka 4-6 Sæblik ehf., Hraunbergi 4 T.ark Arkitektar ehf., Brautarholti 6 Tannlæknar Mjódd ehf., Þönglabakka 1 Tannlæknast. Sigurðar Rósarssonar, Síðumúla 15 Tannlæknastofa Friðgerðar Samúelsd. ehf., Laugavegi 163 Tannlækningar ehf., Skipholti 33 Tannréttingar sf., Snorrabraut 29 Tannsmiðafélag Íslands, Borgartúni 35 Tannþing ehf., Þingholtsstræti 11 THG arkitektar ehf., Faxafeni 9 Tilraunastöð HÍ í meinafræði, Keldum, Vesturlandsvegi Topplagnir ehf., Gvendargeisla 68 Tónmenntaskóli Reykjavíkur, Pósthólf 5171 Trésmiðja Magnúsar F. Jónssonar, Súðarvogi 54 Túnþökuþjónustan ehf., Lindarvaði 2 Tækniskólinn, Skólavörðuholti Tæknivélar ehf.,Tunguhálsi 5 Tölvar ehf., Síðumúla 1 Upptekið ehf.,Víðihlíð 6 Úti og inni sf., Þingholtsstræti 27 VA arkitektar ehf., Borgartúni 6 Vagnar og þjónusta ehf.,Tunguhálsi 10 Valhöll fasteignasala ehf., Síðumúla 27 Varahlutaverslunin Kistufell ehf., Brautarholti 16 Vefnaðarvöruverslunin Virka ehf., Veiðivon, Mörkinni 6 Veiðiþjónustan Strengir, Smárarima 30 Verkfræðistofan Skipatækni ehf., Lágmúla 5


Verslunin Brynja ehf., Laugavegi 29 Verzlunarskóli Íslands ses., Ofanleiti 1 Vélsmiðjan Harka hf., Hamarshöfði 7 Vinnumálastofnun, Kringlunni 1 Víkurós ehf., Bæjarflöt 6 VSÓ ráðgjöf ehf., Borgartúni 20 Vörubíla-/vinnuvélaverkstæðið ehf.,Tranavogi 3 Yrki arkitektar ehf., Hverfisgötu 76 Zymetech ehf., Fiskislóð 39, www.zymetech.com Þorsteinn Bergmann ehf., Skólavörðustíg 36 Þór hf., Krókhálsi 16 Þýðingaþjónusta Boga Arnars, Engjasel 43 Örninn hjól ehf., Faxafeni 8 Össur Iceland ehf., Grjóthálsi 5

Seltjarnarnes

Nesskip hf., Austurströnd 1 Seltjarnarneskaupstaður, Austurströnd 2 Vekurð ehf., Hofgörðum 11 Vökvatæki ehf., Pósthólf 200

Vogar

Hársnyrtistofa Hrannar,Vogagerði 14

Kópavogur

ALARK arkitektar ehf., Dalvegi 18 Allianz Ísland hf., söluumboð, Digranesvegi 1 AMG aukaraf ehf., Dalbrekku 16 AP varahlutir ehf., Smiðjuvegi 4 Arkus ehf., Núpalind 1 Á.K. sjúkraþjálfun ehf., Skjólsölum 3 ÁF-hús ehf., Bæjarlind 4 Áliðjan ehf., Bakkabraut 16 Bakkabros ehf., Hamraborg 5 Bendir ehf., Hlíðasmára 13 Betra bros ehf., Hlíðasmára 14 Bifreiðaverkstæði Jónasar ehf., Skemmuvegi 46 Bifreiðaverkstæðið Toppur ehf., Skemmuvegi 34 Bílaklæðningar hf., Kársnesbraut 100 Bílamálunin Varmi ehf., Auðbrekku 14 Bílasprautun og réttingar Trausta, Smiðjuvegi 18 Bliki bílamálun/-réttingar ehf., Smiðjuvegi 38e Borgargarðar ehf.,Vesturvör 24 Bókun sf., Hamraborg 1 Conís ehf., Hlíðarsmára 11 Dýrabær ehf., Miðsölum 2 Eignarhaldsfél Brunabótafél Ísl., Hlíðasmára 8 Fagtækni ehf., Akralind 6, 1. hæð Feris ehf., Dalvegi 16b GTI Gateway to Iceland ehf., Akralind 8 Hagblikk ehf., Smiðjuvegi 4c Hagbær ehf, Þorrasölum 13 Hellur og garðar ehf., Kjarrhólma 34 Hilmar Bjarnason ehf., rafverktaki, Smiðjuvegi 11 Húseik ehf., Bröttutungu 4 Hvergiland ehf., Hjallabrekku 1 Iðnaðarlausnir ehf., Skemmuvegi 6 Inmarsat Solutions ehf., Hlíðasmára 10 Innlifun ehf., Brekkusmára 2 JSÓ ehf., Smiðjuvegi 4b K.S. málun ehf., Fellahvarfi 5 Kjöthúsið ehf., Smiðjuvegi 24d Klukkan, Hamraborg 10 Knattspyrnudeild Breiðabliks, Dalsmára 5 Kvenfélag Kópavogs Hamraborg 10 Lakkskemman ehf., Skemmuvegi 30 Libra ehf., Bæjarlind 2 Litlaprent ehf., Skemmuvegi 4 Loft og raftæki ehf., Hjallabrekku 1 Löggiltir endurskoðendur ehf., Hlíðaasmára 4 Lögmannsstofa SS ehf., Hamraborg 10 Oddur Pétursson ehf., Dalvegi 16d, www.bodyshop.is Oxus ehf., Akralind 6 Óskar og Einar ehf., Fjallalind 70 Pólar ehf., Fjallakór 4 Rafbraut ehf., Dalvegi 16b Rafmiðlun hf., Ögurhvarfi 8 Rafport ehf., Nýbýlavegi 14 RP Media ehf., Auðbrekku 34 Sérmerkt ehf., Smiðjuvegi 11, gul gata Sérverk ehf., Askalind 5 Stífluþjónustan ehf., Nýbílavegi 54 Studiobraud.is, Hjallabrekku 2

Tengi ehf., Smiðjuvegi 76 Tónlistarskóli Kópavogs, Hamraborg 6 Trip Creator Iceland ehf., Hlíðasmára 3 Vatnsvirkinn ehf., Smiðjuvegi 11 Vaxa ehf., Askalind 2 VEB verkfræðistofa ehf., Hlíðasmára 17 Veitingaþjónusta Lárus Lofts sf., Nýbýlavegi 32 Verifone á Íslandi ehf., Hlíðasmára 12 Vetrarsól ehf., Askalind 4 Vídd ehf., Bæjarlind 4 Öreind sf., Auðbrekku 3

Garðabær

A.H. pípulagnir ehf., Suðurhrauni 12c Apótek Garðabæjar ehf., Litlatúni 3 Drífa ehf., Miðhrauni 4 Garðabær, Garðatorgi 7 Garðaflug ehf., Holtsbúð 43 Garðaþjónusta Íslands ehf., Norðurtúni 7 Geislatækni ehf., laser-þjónustan, Suðurhrauni 12c Gæludýrabúðin Fisko ehf., Kauptúni 3 Hjallastefnan ehf, Lyngási 11, www.hjalli.is Loftorka Reykjavík ehf., Miðhrauni 10 Metatron ehf., Stekkjarflöt 23 Optima KAPP ehf., Miðhrauni 2 Prentmiðlun ehf., Hólmatúni 55 Samhentir kassagerð hf., Suðurhrauni 4 Sámur sápugerð ehf., Lyngási 11 Smárinn, bókhald og ráðgjöf ehf., Skeiðakri 8 Tannlæknastofa Úlfhildar Leifsdóttur, Garðatorgi 7 VAL-ÁS ehf., Suðurhrauni 2b Versus, bílaréttingar og sprautun ehf., Suðurhrauni 2 Würth á Íslandi ehf.,Vesturhrauni 5

Hafnarfjörður

Alexander Ólafsson ehf., Álfhellu 1 Ás fasteignasala ehf., Fjarðargötu 17 Bergþór Ingibergsson, Breiðvangi 4 Bílamálun Alberts ehf., Stapahrauni 1 Bílaverkstæði Birgis ehf., Eyrartröð 8 Byggingafélagið Sakki ehf., Hlíðarási 11 Bæjarbakarí ehf., Bæjarhrauni 2 Dalakofinn sf., Fjarðargötu 13-15 Dalshraun 12 ehf., Hraunbrún 13 Dekkjasalan ehf., Dalshrauni 16 Efnamóttakan hf., Berghellu 1 Einar í Bjarnabæ ehf., Spóaási 6 Eiríkur og Einar Valur ehf., Norðurbakka 17 Ferskfiskur ehf., Bæjarhrauni 8 Fínpússning ehf., Rauðhellu 13 Fjörukráin ehf.,Víkingastræti 1 H. Jacobsen ehf., Reykjavíkurvegi 66 Hafnarfjarðarhöfn, Óseyrarbraut 4 H-Berg ehf., Grandatröð 12 Hópbílar hf., Melabraut 18 Hraunhamar ehf., Bæjarhrauni 10 Icetransport ehf., Selhellu 9 Indverskur ehf., Lónsbraut 6 Ingvar og Kristján ehf., Trönuhrauni 7c Kjötkompaní ehf., Dalshrauni 13 Lögmannsstofa Loga Egilssonar ehf., Reykjavíkurvegi 60 Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf., Gullhellu 1 PON-Pétur O Nikulásson ehf., Melabraut 21 Raf-X ehf., Melabraut 23-25 SE ehf., Fjóluhvammi 6 Sóley Organics ehf., Bæjarhrauni 10 Spírall prentþjónusta ehf., Stakkahrauni 1 Suðulist Ýlir ehf., Lónsbraut 2 Verkvík - Sandtak ehf., Rauðhellu 3 Verkþing pípulagnir ehf., Kaplahrauni 22 Vélsmiðja Konráðs Jónssonar sf., Helluhrauni 20 Viking Life-Saving Equipment á Íslandi ehf., Íshellu 7 Vogabær ehf., Eyrartröð 2a Þór, félag stjórnenda, Pósthólf 290

Reykjanesbær

Bílrúðuþjónustan ehf., Grófinni 15c Blikksmiðja Ágústar Guðjónss ehf.,

Vesturbraut 14 BLUE Car Rental ehf., Blikavöllum 3 DMM lausnir ehf., Hafnargötu 91 Dæluhúðun ehf., Austurbraut 4 Fagtré ehf., verktaki, Suðurgarði 5 Fasteignasalan Ásberg ehf., Hafnargötu 27 Happy Campers ehf., Stapabraut 21 Málverk slf., Skólavegi 36 Nesraf ehf., Grófinni 18a Skipting ehf., Grófinni 19 Sportvellir ehf., Flugvallarbraut 701 SS hlutir ehf., Brekkustíg 39 Stuðlastál ehf., Gróinni 10 Suðurflug ehf., Bygging 787, Keflavíkurflugv. Traðhús ehf., Kirkjuvogi 11 Verslunarmannafélag Suðurnesja,Vatnsnesvegi 14 Vísir, félag skipstjórnarmanna á Suðurnesjum, Hafnargötu 90 Þórðarfell ehf, Tjarnabraut 24 Æco bílar ehf., Njarðarbraut 19

Grindavík

BESA ehf., Baðsvöllum 7 Björgunarsveitin Þorbjörn, Seljabót 10 Cactus veitingar ehf., Suðurvör 8 E.P. verk ehf., Efstahrauni 27 Einhamar Seafood ehf.,Verbraut 3a Fjórhjólaævintýri ehf., Fornuvör 9 Grindverk ehf., Baðsvöllum 13 Margeir Jónsson ehf., Glæsivöllum 3 NORTHERN LIGHT INN, Norðurljósavegi 1 Vísir hf., Hafnargötu 16

Sandgerði

Fiskmarkaður Suðurnesja hf., Hafnargötu 8 Grunnskólinn í Sandgerði, Skólastræti Vélsmiðja Sandgerðis ehf.,Vitatorgi 5

Garður

Gröfuþjónusta Tryggva Einar ehf., Lyngbraut 7 Sveitarfélagið Garður, Sunnubraut 4 Sunnugarður ehf., Sunnubraut 3

Mosfellsbær

Fótbolti ehf., Stórakrika 2a Glertækni ehf.,Völuteigi 21, www.glertaekni.is Guðmundur S Borgarsson ehf,. Reykjahvoli 33 Höfðakaffi ehf., Stórakrika 10 Kvenfélag Kjósarhrepps, Meðalfelli Múr og meira ehf., Brekkutanga 38 Nonni litli ehf,. Þverholt 8 Reykjabúið ehf., Suðurreykjum 1 Reykjalundur, Reykjalundi Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, Hlégarði Vélsmiðjan Sveinn ehf., Flugumýri 6 ÞÓB vélaleiga ehf., Uglugötu 33

Akranes

Bílasala Akraness ehf., Smiðjuvöllum 17 Bílver ehf., Innnesvegi 1 Eyrarbyggð ehf., Eyri Hafsteinn Daníelsson ehf., Geldingaá JG tannlæknastofa sf., Kirkjubraut 28 Model ehf., Þjóðbraut 1 Sjúkraþjálfun Georgs, Kirkjubraut 28 Skaginn hf., Bakkatúni 26 Smurstöð Akraness sf., Smiðjuvöllum 2 Spölur ehf., Kirkjubraut 28 Veiðifélag Laxár í Leirársveit, Kambshól

Borgarnes

Landnámssetur Íslands, Brákarbraut 13-15 PJ byggingar ehf., Ásvegi 2 Samtök sveitarfélaga Vesturlands, Bjarnarbraut 8 Tannlæknastofa Hilmis ehf., Berugötu 12 Útfararþjónusta Borgarfjarðar, Borgarbraut 4

Stykkishólmur

Höfðagata 1 ehf., Höfðagötu 1 Vélaverkstæðið Hillari ehf., Nesvegi 9

Ólafsvík

Fiskmarkaður Íslands hf., Norðurtanga Börn með krabbamein - 23


Kvenfélag Ólafsvíkur, Sandholti 20 Tannlæknastofa A.B. slf., Heilsugæslust. Engihlíð 28

Ó.K. gámaþjónusta-sorphirða ehf., Borgarflöt 15 Vinnuvélar Guðmundar/Skúla sf., Borgarröst 4

Snæfellsbær

Álftagerðisbræður ehf., Álftagerði Réttarholtsbúið ehf., Réttarholti Skógræktarfélag Skagfirðinga, Marbæli

Bárður SH 81 ehf., Staðarbakka

Hellissandur

Varmahlíð

Breiðavík ehf., Háarifi 53, Rifi Esjar ehf., Hraunási 13 Hjallasandur ehf., Dyngjubúð 4 Hópferðabílar Svans Kristóferssonar ehf., Hellu KG Fiskverkun ehf., Melnesi 1 Kristinn J Friðþjófsson ehf., Háarifi, 5 Rifi

Hofsós

Búðardalur

Siglufjörður

Rafsel Búðardal ehf.,Vesturbraut 20c

Ísafjörður

Dýralæknaþjónusta SISVET ehf., Hlíðarvegi 8 GG málningarþjónusta ehf., Aðalstræti 26 H.V.-umboðsverslun ehf., Suðurgötu 9 Ráðhús ehf., Engjavegi 29 Sjúkraþálfun Vestfjarða ehf., Eyrargötu 2 Tannsar á Torfnesi sf., Torfnesi Ævintýradalurinn ehf., Heydal

Vesturfarasetrið, Suðurbraut 8

Fljót

Kvenfélagið Framtíðin, Fljótum, Sigrún Svansdóttir, Skeiðsfossvirkjun

Laugar

Akureyri

Fjalladýrð ehf., Möðrudal Jarðböðin ehf., Jarðbaðshólum Skútustaðahreppur, Hlíðavegi 6 Vogar, ferðaþjónusta ehf.,Vogum

Brauð- og kökugerðin ehf., Hvammstangabraut 13a Kaupfélag Vestur-Húnvetninga (svf.), Strandgötu 1 Kvenfélagið Freyja, Melavegi 4 Steypustöðin Hvammstanga ehf., Melavegi 2 Tveir smiðir ehf., Hafnarbraut 7

Blönduós

Grenivík

Skagaströnd

Grímsey

Endurskoðun Vestfjarða ehf., Aðalstræti 19 Klúka ehf., Holtabrún 6 Sigurgeir G. Jóhannsson ehf., Hafnargötu 17 Vélsmiðjan og Mjölnir, skipa- og vélaþjónusta ehf.., Mávakambi 2 Vélvirkinn sf., Hafnargötu 8

Patreksfjörður

Árni Magnússon, Túngötu 18 Ingvi Bjarnason, Arnórsstöðum neðri

Tálknafjörður

ESG-veitingar ehf., Móatúni 14 TV-verk ehf., Strandgötu 37

Þingeyri

Brautin sf.,Vallargötu 8 F&S Hópferðabílar ehf.,Vallargötu 15 Skjólskógar á Vestfjörðum, Fjarðargötu 1

Staður

Skólabúðirnar í Reykjaskóla, Reykjaskóla

Hólmavík

Kaupfélag Steingrímsfjarðar (svf.), Höfðatúni 4 Potemkin ehf., Laugarhóli Thorp ehf., Borgabraut 27

Hvammstangi

Kvenfélag Svínavatnshrepps, Auðkúlu 2 Léttitækni ehf., Efstubraut 2 Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf., Einbúastíg 2 Vélaverstæði Skagastrandar ehf., Strandgötu 30

Sauðárkrókur

Bifreiðaverkstæðið Sleitustöðum Bókhaldsþjónusta KOM ehf.,Víðihlíð 10 Friðrik Jónsson ehf., Borgarröst 8 Hólalax hf., Hólum 1 Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal Iðnsveinafélag Skagafjarðar, pósthólf 21 Kaupfélag Skagfirðinga (svf.), Ártorgi 1 K-Tak ehf., Borgartúni 1

24 - Börn með krabbamein

Bílaleiga Húsavíkur ehf., Garðarsbraut 66. Bílaleiga Húsavíkur ehf., Garðarsbraut 66 Fatahreinsun Húsavíkur sf., Túngötu 1 Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf., Hrísateigi 5 Gistiheimilið Sigtún ehf., Túngötu 13 GPG Seafood ehf., Suðurgarði Heiðarbær, veitingar sf., Skógum 2 Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Auðbrekku 4 Höfðavélar ehf., Höfða 1a Norðursigling hf., Hafnarstétt 9 Skóbúð Húsavíkur ehf., Garðarsbraut 13 Steinsteypir ehf., Stórhóli 71 Val ehf., Höfða 5c Víkurraf ehf., Garðarsbraut 18a

Genís hf., Pósthólf 57 Málaraverkstæðið ehf., Hverfisgötu 25 Siglfirðingur hf., Gránugötu 5 SR-Vélaverkstæði hf.,Vetrarbraut 14 Akureyrarapótek ehf., Kaupangi Mýrarvegi Amber hárstofa ehf., Hafnarstræti 92 Auris medica ehf., Austurberg ÁK smíði ehf., Njarðarnesi 4 B. Hreiðarsson ehf., Þrastalundi Baugsbót ehf., Frostagötu 1b Bessi Skírnisson ehf., Kaupangi Mýrarvegi Bifreiðaverkstæði Bjarnhéðins ehf., Fjölnisgötu 2a Blikkrás ehf., Óseyri 16 Byggingarfélagið Hyrna ehf., Sjafnargötu 3 Dýralæknaþjónusta Eyjafj ehf., Perlugötu 11 Eining-Iðja, Skipagötu 14 Garðverk ehf., Pósthólf 110 Grand ehf., Jörvabyggð 10 Gróðrarstöðin Réttarhóll, Smáratúni 16, Svalbarðseyri Hafnasamlag Norðurlands, Fiskitanga Hlíðarskóli, Skjaldavík Húsprýði sf., Múlasíðu 48 Höldur ehf., Pósthólf 10 Index tannsmíðaverkstæði ehf., Kaupangur v/Mýrarveg Ísabella ehf., Hafnarstræti 97 Keahótel ehf., Pósthólf 140 Ljósco ehf., Ásabyggð 7 Lostæti-Akureyri ehf., Óseyri 3 Lotta ehf., Strandgötu 13 Malbikun K-M ehf., Óseyri 8 Menntaskólinn á Akureyri, Eyrarlandsvegi 28 Miðstöð ehf., Draupnisgötu 3g Pípulagnaþj. Bjarna Fannberg Jónasson ehf., Melateigi 31 Rafeyri ehf., Norðurtanga 5 Raftákn ehf., Glerárgötu 34 Sjúkrahúsið á Akureyri, Eyrarlandsvegi Steypustöð Akureyrar ehf., Sjafnarnesi 2 Tannlæknastofa Árna Páls Halldórssonar v/Mýrarveg Tónsport ehf., Strandgötu 3 Túnþökusala Kristins ehf., Fjölnisgötu 6i Vélaleiga Halldórs G Bald ehf., Freyjunesi 6 Vélsmiðjan Ásverk ehf., Grímseyjargötu 3

Bolungarvík

Húsavík

Darri ehf., Hafnargötu 1 Jónsabúð ehf., Túngötu 1-3 Sigurbjörn ehf., Öldutúni 4

Dalvík

BHS ehf., Fossbrún 2 Tréverk ehf., Grundargötu 8-10 Vélvirki ehf., Hafnarbraut 7

Ólafsfjörður

Brimnes hótel og bústaðir, Bylgjubyggð 2

Hrísey

Eyfar ehf., Norðurvegi 35

Framhaldsskólinn á Laugum, Reykjadal Norðurpóll ehf., Laugabrekku

Mývatn

Kópasker

Vökvaþjónusta Eyþórs ehf., Bakkagötu 6

Raufarhöfn

Önundur ehf., Aðalbraut 41 a

Vopnafjörður

Sundleið ehf., Steinholti 10 Öryggismiðstöð Austurlands ehf., Hafnarbyggð 1

Egilsstaðir

Austfjarðaflutningar ehf., Kelduskógum 19 Bílamálun Egilsstöðum ehf., Fagradalsbraut 21-23 Bókráð, bókhald og ráðgjöf ehf., Miðvangi 2-4 Fellabakstur ehf., Lagarfelli 4 Gistihúsið ehf - Lakehotel Egilsstaðir, Egilsstöðum 2 Gunnarsstofnun, Skriðuklaustri Héraðsprent ehf., Miðvangi 1 Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf., Einhleypingi 1 Skógrækt ríkisins, Miðvangi 2 Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf., Fagradalsbraut 11 Þ.S. verktakar ehf., Miðási 8-10 Ökuskóli Austurlands sf., Lagarfelli 11

Seyðisfjörður

Gullberg ehf., Hafnargötu 47

Eskifjörður

Fjarðarþrif ehf., Strandgötu 46 R.H. gröfur ehf., Helgafelli 9 Slökkvitækjaþjón Austurlands ehf., Strandgötu 13a

Neskaupstaður

Síldarvinnslan hf., Hafnarbraut 6 Sparisjóður Austurlands, Egilsbraut 25 Verkmenntaskóli Austurlands, Mýrargötu 10

Fáskrúðsfjörður

Loðnuvinnslan hf., Fáskrúðsfirði, Skólavegi 59

Stöðvarfjörður

Ástrós ehf., Bakkagerði 1.

Breiðdalsvík

Bifreiðaverkstæði Sigursteins ehf., Selnesi 28-30 Dýralæknirinn á Breiðdalsvík, Ásvegi 31 Grábrók ehf., Sólheimum 8

Höfn í Hornafirði

Atlas kírópraktík ehf., Hlíðartúni 41 Erpur ehf., Norðurbraut 9 Hótel Smyrlabjörg ehf., Smyrlabjörgum 1 Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf., Reynivöllum 3 Sigurður Ólafsson ehf., Hlíðartúni 21


Sveitarfélagið Hornafjörður, Hafnarbraut 27 Uggi SF - 47 ehf., Fiskhóli 9, efri hæð

Laugarvatn

Öræfi

Flúðir

Ræktunarsamband Hofshrepps, Hofi

Selfoss

Árvirkinn ehf., Eyrarvegi 32 Bifreiðaverkstæðið Klettur ehf., Hrísmýri 3 Bisk-verk ehf., Bjarkarbraut 3 Rh Bílasala Suðurlands ehf., Fossnesi 14 Búnaðarfélag Bláskógabyggðar, Dalbraut 1 Rh Byggingafélagið Laski ehf., Gagnheiði 9 Espiflöt ehf., Sólbraut 3 Ferðaþjónustan Úthlíð ehf., Úthlíð 2 Flóahreppur, Þingborg Gesthús Selfossi ehf., Engjavegi 56 Guðmundur Tyrfingsson ehf., Fossnesi C Gufuhlíð ehf., Gufuhlíð Hitaveitufélag Gnúpverja ehf., Heiðarbrún JÁVERK ehf., Gagnheiði 28 Kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps, Hólshúsum Kvenfélag Gnúpverja, Hamragerði 2 Kvenfélag Hraungerðishrepps, Langstöðum, Flóahreppi Léttur ehf., Hrísmýri 6 Máttur sjúkraþjálfun ehf., Gagnheiði 65 Pro-Ark ehf., Eyrarvegi 31 Sjúkraþjálfun Selfoss ehf., Austurvegi 9 Stokkar og steinar sf., Árbæ 1, Ölfusi Súperbygg ehf., Eyrarvegi 31 Tæki og tól ehf., Borgarbraut 1c Veiðisport ehf., Miðengi 7 Verslunin Árborg ehf., Árbæ X5 ehf., Birkigrund 15

Hveragerði

Bílaverkstæði Jóhanns ehf., Austurmörk 13 Eldhestar ehf.,Völlum Ficus ehf., Bröttuhlíð 2 Frostfiskur ehf., Hafnarskeiði 6 Garðyrkjustöð Ingibjargar ehf., Heiðmörk 31 Hafið bláa ehf., Hrauni 2 Járnkarlinn ehf., Unubakka 25 Raftaug ehf., Borgarheiði 11h Sveitarfélagið Ölfus, Hafnarbergi 1 Örkin veitingar ehf., Breiðumörk 1c

Menntaskólinn að Laugarvatni Flúðasveppir, Garðastíg 8 Fögrusteinar ehf., Birtingaholti 4 Hrunamannahreppur, Akurgerði 6

Hella

Strókur ehf., Grásteini Ásahreppur, Laugalandi

Hvolsvöllur

Árni Valdimarsson, Akri Bu.is ehf., Stórólfsvelli Byggðasafnið í Skógum, Skógum Héraðsbókasafn Rangæinga,Vallarbraut 16 Jón Guðmundsson ehf., Drangshlíð 1 Krappi ehf., Ormsvöllum 5 Nínukot ehf., Stóragerði 8

Vík

Ásrún Helga Guðmundsdóttir, Steig Hrafnatindur ehf., Smiðjuvegi 13 Mýrdælingur ehf., Suðurvíkurvegi 5 RafSuð ehf., Suðurvíkurvegi 6 Æsa Gísladóttir, Suðurvíkurvegi 5

Kirkjubæjarklaustur Bær hf., Klausturvegi 6

Vestmannaeyjar

Áhaldaleigan ehf., Faxastíg 5 Bergur ehf, Friðarhöfn Eyjablikk ehf., Flötum 27 Frár ehf., Hásteinsvegi 49 Hótel Vestmannaeyjar ehf.,Vestmannabraut 28 Karl Kristmanns umboðs- og heildv. ehf., Ofanleitisvegi 15 Langa ehf., Eiðisvegi 5-9 Miðstöðin Vestmannaeyjum ehf., Strandvegi 30 Ós ehf., Illugagötu 44 Skipalyftan ehf., Pósthólf 140 Skýlið ehf., Áshamri 41 Vestmannaeyjabær, Ráðhúsinu Vinnslustöðin hf., Hafnargötu 2 Vöruval ehf.,Vesturvegi 18

Endalaust

ENDALAUST NET 1.000 KR.* ÓTAKMARKAÐ GAGNAMAGN

1817

365.is

GSM 2.990 KR.** ÓTAKMARKAÐ TAL, SMS OG ÓTAKMARKAÐ GAGNAMAGN

* Fylgir með völdum tilboðspökkum. Undanskilið er aðgangsgjald og leiga á beini. **Greitt er aukalega fyrir farsímanotkun erlendis, til útlanda og í upplýsinganúmer. Nánari upplýsingar á 365.is

Börn með krabbamein - 25


Prentgripur

M VIÐ ELSKU ! Ð I F R UMHVE

Prentgripur

Prentgripur

Prentgripur

Prentsmiðja

Prentsmiðja


Okkar bakarí logo form PANTONE 560C PANTONE 130C

C=0 / M=70 / Y=89 /K= 0

Pantone 165 C

C80 M0 Y63 K75 C0 M30 Y100 K0

R34 G70 B53 R234 G185 B12

#224635 #eab90c


Hægt er að meðhöndla þurra húð

Fituinnihald

47%

Decubal original clinic cream Klassískt krem fyrir daglega umönnun þurrar og viðkvæmrar húðar. Má nota daglega til að fyrirbyggja þurra húð. Inniheldur dimethicone, sem mýkir og skilur eftir verndandi lag sem hjálpar til við að viðhalda rakanum í húðinni. Má nota frá toppi til táar, bæði fyrir börn og fullorðna.

Decubal shower & bath oil Ef daglega sturtan veldur þurri og ertandi húð þá mælum við með að skipta út hefðbundinni sápu fyrir shower & bath oil til daglegra nota. Hún gefur húðinni raka á meðan þú baðar þig. Decubal shower & bath oil inniheldur rakagefandi og mýkjandi efni eins og kamillu, E-vítamín og náttúrulegar olíur.

Fituinnihald

38%

Allar Decubal vörur eru öruggar, mildar og rakagefandi ásamt því að vinna gegn þurri húð. Decubal er alhliða húðvörulína og hentar öllum í fjölskyldunni. Decubal er algjörlega laust við ilmefni, litarefni og parabena og er eingöngu selt í apótekum. Án parabena, ilm- og litarefna. Í okkar kalda, norræna loftslagi er þurr húð algengt vandamál – bæði hjá börnum og fullorðnum.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.