Vikurfrettir 46 / 2017

Page 21

MANNLÍF Á SUÐURNESJUM

fimmtudagur 23. nóvember 2017 // 46. tbl. // 38. árg.

Drifkrafturinn þeirra byggðist á því að sanna sig. Þær spiluðu óheflaða tónlist og ætluðu ekki að láta neitt stoppa sig. Fjórar 16 ára stelpur frá Keflavík stofnuðu hljómsveitina Kolrassa Krókríðandi sem varð þjóðþekkt á einni nóttu þegar þær unnu Músíktilraunir árið 1992. Nú 25 árum síðar endurútgefa þær fyrstu plötuna sína „Drápu“ og halda útgáfutónleika næstkomandi laugardag á Húrra í höfuðborginni. „Við stóðum saman og vorum ónæmar fyrir gagnrýninni. Við létum bara vaða, stanslaust.“ Birgitta Vilbergsdóttir, Elísa Newman Geirsdóttir, Ester Bíbí Ásgeirsdóttir og Sigrún Eiríksdóttir tóku á móti Víkurfréttum í Höfnum og rifjuðu upp gamla og góða tíma.

21

HORFÐU Á VIÐTALIÐ Í SJÓNVARPI VÍKUR­FRÉTTA

ÞETTA VAR ÁSTÆÐA TIL AÐ VERA MEÐ LÆTI Kolrassa Krókríðandi endurútgefur fyrstu plötuna sína „Drápu“

VIÐTAL

Sólborg Guðbrandsdóttir solborg@vf.is

Af hverju ákváðuð þið að endurútgefa fyrstu plötuna ykkar? Birgitta: 25 ára afmæli plötunnar. Hún kom bara út á geisladisk og okkur langaði líka að gefa hana út á vínyl. Elíza: Þetta er 25 ára afmælið okkar sem hljómsveit líka. Þessi plata er búin að vera ófáanleg í tuttugu og eitthvað ár. Þannig við hugsuðum að það væri gaman að endurútgefa hana og skoða hana upp á nýtt, sjá hvort það sé eitthvað varið í þetta. Hvernig hefur verið að rifja upp tónlistina aftur 25 árum síðar? Hafið þið ekkert spilað hana öll þessi ár? Elíza: Hljómsveitin í rauninni lagðist í dvala 2001 eftir mjög gott „rönn“ og svo ákváðum við að koma aftur saman núna, upprunalega bandið, og fengum þessa frábæru hugmynd að spila alla plötuna og gefa hana alla út aftur. Sigrún: Við spiluðum á 60 ára afmæli Myllubakkaskóla með öllum hinum keflvísku risaeðlunum. En svo erum við búnar að spila tvisvar á Eistnaflugi, á 100 ára kosningaafmæli kvenna og fleira. Hvernig hefur það gengið að rifja upp tónlistina? Bíbí: Þetta hefur gengið mjög vel. Þetta er æðisleg plata og að rifja hana upp bara mjög gaman. Það er mikil frumorka á henni. Það hefur verið skemmtilegt finna hvað hún er kraftmikil og frumleg. Ég er rosalega ánægð með þessa plötu. Elíza: Þetta er svolítið eins og að fara inn í dagbók unglings. Við semjum þetta þegar við erum fjórtán, fimmtán ára. Sextán ára gamlar tökum við hana upp og þetta er eins og að kafa aftur inn í þennan heim. Það er mjög gaman. Hvernig varð hljómsveitin til á sínum tíma? Sigrún: Við þekktum stráka sem voru í hljómsveit og við vorum búnar að vera að daðra við þessa hugmynd rosalega lengi. Elíza: Við vorum ekki að daðra við þá sko. Sigrún: Þarna var þetta hljómsveit í næsta húsi við Birgittu. Það gaf okkur þá hugmynd að við gætum gert þetta og við fórum bara í þetta. Birgitta: Við fengum einmitt að taka fyrstu æfinguna okkar í æfingahúsnæðinu sem var beint á móti mömmu og pabba. Við vissum það ekki þá, en okkur var sagt eftir á, að strákarnir voru allir inni í húsnæðinu að fela sig og hlustuðu á okkur taka fyrstu æfinguna okkar. Þeir voru alveg í hláturskasti allan tímann. Elíza: Við vorum kannski ekkert þessir

týpísku unglingar í Keflavík. Við vorum ekki í íþróttum og vorum svolítið út á skjön. Þetta hentaði mjög vel, við vorum mjög athyglissjúkar líka. Við vorum í leikfélaginu, söngvakeppnunum og alltaf með atriði á árshátíðunum. Við stofnuðum hljómsveit og fengum þá að vera með svolítil læti. Birgitta: Þetta var útrás, eitthvað til að beina þessari orku. Bíbí: Þetta var ástæða til að vera með læti. Elíza: Þarna gátu allir hneykslast á okkur, við gátum samið lög um það sem við vildum segja og þetta var ótrúleg orka sem við fundum fyrir þarna. Þannig þið voruð allar vinkonur áður en þið ákváðuð að stofna hljómsveit? Elíza: Já, við vorum vinkonur í Holtaskóla. Við kynntumst allar á unglingsárunum þar. Svo ákváðuð þið að taka þátt í Músíktilraunum. Elíza: Það var 1992. Þá vorum við búnar að vera í hljómsveitinni „Menn“ þegar við vorum í Holtaskóla, svo breyttist það í Kolrössu. Við ákváðum að taka þátt, en það var meira svona í gríni held ég. Birgitta: Okkur langaði rosalega að fá mynd af okkur í Morgunblaðið. Fenguð þið mynd af ykkur í Morgunblaðið? Birgitta: Já og svo unnum við óvænt. Elíza: Þetta gekk allt eins og í sögu hjá okkur. Hvernig varð þetta svo hjá hljómsveitinni í kjölfarið af því að vinna Músíktilraunir? Elíza: Það fór bara allt á fullt í rauninni. Við vorum nýbyrjaðar í FS. Birgitta: Við fengum tíma í Stúdíó Sýrland í verðlaun og við þurftum að nýta okkur það á einhverjum tíma. Það var ekki mikill skilningur í skólanum fyrir því þannig við tókum upp á nóttinni. Elíza: Við fórum líka bara að spila rosalega mikið. Við fórum úr því að vera svona bílskúrsband í að spila mörgum sinnum í viku og verða þarna þjóðþekktar á einni nóttu. Birgitta: Sem betur fer var Elíza komin með bílpróf því annars hefðum við þurft að húkka okkur far á öll giggin. Elíza: Pabbi gaf mér forljótan Skoda. Við keyrðum um á Skodanum mínum, Angantý, 1978 módel. Bíbí: Reyndar var einn frægur Keflvíkingur, sem tók mig upp í þegar ég var að húkka mér far, af því hann var alltaf búinn að spila á svipuðum tíma. Það var Rúni Júll. Þá var hann að spila með GCD. Ég var alltaf að húkka mér far og hann stoppaði alltaf og tók mig upp í og keyrði mig heim. Elíza: Hann var legend. Hvernig var það fyrir fjórar ungar

stelpur að slá í gegn á svona stuttum tíma á Íslandi? Sigrún: Við vorum náttúrulega kvennaband, það þótti rosalega merkilegt. Við vorum mjög þekktar en við spiluðum svolítið krefjandi tónlist, þannig við urðum aldrei neitt vinsælar. Birgitta: Við urðum ekkert „Bylgjuvænar“. Sigrún: Þegar við fórum í viðtal á Bylgjunni þá var það þannig að það var tekið viðtal við okkur rosalega fljótt og svo var svona mínúta af laginu spiluð. Við vorum eiginlega ekki í boði þar til dæmis. Elíza: Plöturnar okkar voru nú brenndar einhvers staðar, var það ekki? Bíbí: Jú, í Vestmannaeyjum, við getum nú verið stoltar af því. Elíza: Það var mjög gaman. Sigrún: „Betel-brennan“ svokallaða. Elíza: Þá var Kolrassa-platan brennd. Platan heitir Drápa og þar er svolítið verið að fara í gömlu þjóðsögurnar. Sigrún: Það var maður, sem var með einhvern söfnuð í Vestmannaeyjum, sem kallaði okkur nornir. Elíza: Við vorum mjög stoltar af því. Birgitta: Okkur fannst það æði. Bíbí: Þetta var eitt mesta afrek við við unnum á öllum ferlinum, að fá að lenda á báli í Vestmannaeyjum. Sigrún: En maður fann ekkert mikið fyrir þessu til að byrja með, að maður væri eitthvað þekktur, en þegar það fór að líða á fóru krakkarnir í bænum og í Reykjavík að þekkja okkur. Þá fann maður hvað þetta var skrýtið. Álagið var svolítið mikið eins og þegar við vorum að fara að gera fyrsta samninginn. Elíza: Við höfðum samt góðan stuðning. Mömmur okkar voru umboðsmenn fyrir okkur og pössuðu að við værum ekki að skrifa undir hvað sem er. Birgitta: Þær héldu okkur svolítið á jörðinni. Elíza: Við þurftum að gera samning í skólanum um að við mættum mæta of seint, værum að spila um kvöldið og þyrftum að fá að taka prófið seinna og svoleiðis. Þetta var mikið pússl fyrir svona unga krakka. Við vorum kannski að fara að spila á einhverjum böllum úti á landi með hljómsveitum og komum heim klukkan fimm á nóttunni. Þetta var rosalegt ævintýri fyrir okkur. Hversu langt var þetta tímabil? Elíza: Hljómsveitin var í tíu ár og hætti 2001. Við gáfum út fimm plötur, þrjár sem Kolrassa og tvær sem Bellatrix. Við enduðum úti í heimi að spila og gera alls konar. Þetta var mjög skemmtilegt ævintýri, frá bílskúr í Keflavík yfir í eitthvað heims ævintýri, sem okkur hafði aldrei dreymt um sko. Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni hjá Kolrassa? Birgitta: Sumir vilja skírskota þetta í einhverja þjóðlagatónlist.

Sigrún: Þjóðlaga-sinfoníu-rokk. Bíbí: Þjóðlaga-indie, að reyna að vera rokk. Birgitta: Við ætluðum að vera rosalega mikið indie. En við vorum bara of reiðar eða eitthvað. Bíbí: Við fengum líka alveg áhrif úr dauðarokkinu því allir sem við þekktum sem voru í tónlist voru í dauðarokkinu. Elíza: Þetta var í rauninni bara svolítið óheflað. Þetta var áður en við lærum formið að búa til lag eða hvaða reglur gilda. Við bara gerðum það sem okkur datt í hug og þess vegna er platan svona spes. Við gætum aldrei samið þessi lög núna. Þetta er smá þungt en mjög melódískt og einhver frumkraftur sem kemur þarna. Bíbí: Eitt sem ég hélt ég myndi aldrei segja, en það er svona „stelpu-bragð“ af henni og það er æðislegt. Elíza: Þetta er innsýn inn í okkar hugarheim. Það eru oft strákar sem varpa til baka og þetta er alveg svona algjör stelpuheimur. Eins og þið segið, stelpur fengu kannski ekkert mörg tækifæri og voru ekki mjög áberandi í tónlist á þessum tíma, finnst ykkur það hafa breyst í dag? Birgitta: Ekki nógu mikið. Elíza: Þetta er að breytast, en hægt. En það eru hlutir að gerast eins og Kíton, sem eru „Konur í Tónlist“, og „Stelpur rokka“. Birgitta: Þetta er eins og jökull sem skríður hægt fram. Bíbí: En næstu kynslóðir búa ekki við sömu hömlur og við ólumst upp við. Það er heilmikill munur. Sigrún: Ég hef oft spáð í þessu. Fyrirmyndirnar voru Dúkkulísurnar, Grýlurnar, en þær voru svo langt í burtu frá okkur. Það voru helst konurnar í Risaeðlunni. Það var pínu vandamál að Elíza hafi farið að spila á fiðlu, því hún var ljóshærð að spila á fiðlu og það var önnur kona sem gerði það. Það var ekki pláss. Bíbí: Það voru til dæmis fullt af strákum með sítt hár að spila á gítar, það var enginn að segja að þeir væru allir eins, þó þeir væru það. Það sagði þeim enginn að hætta að spila á gítar því það væri einhver alveg eins. Elíza: Það er ennþá ekki alveg jafn mikið pláss fyrir stelpur og stráka. En þetta er að breytast og vonandi höfum við haft einhver pínkulítil áhrif einhvers staðar. Þannig þið upplifðuð einhverja fordóma fyrir það að vera stelpur í tónlist? Bíbí: Pottþétt. Birgitta: Gagnrýnin var líka mjög oft óverðskulduð. Elíza: Mikið af okkar drifkrafti byggðist á því að sanna okkur. Það er kannski þess vegna sem við náðum svona langt. Við ætluðum ekki að láta stoppa okkur, sama hvað. Birgitta: Það var bara eins og olía á eld

ef einhver sagði við okkur að við gætum þetta ekki. Elíza: Þá var líka gott að vera saman í hljómsveit, þá stóðum við saman. Það er miklu auðveldara heldur en að vera einn einhvers staðar. Við vorum svolítið ónæmar fyrir gagnrýninni. Við létum bara vaða, stanslaust. Bíbí: En þess má geta að annað tónlistarfólk gagnrýndi okkur yfirleitt bara á mjög jákvæðan hátt og studdi okkur mikið. Strákar í tónlist og vinir okkar voru ómetanleg stoð og stytta og gáfu okkur heilmikinn kraft þegar við kynntumst loksins þeim öllum. Gagnrýnin var kannski mest frá almenningi sem vildi ekki heyra í okkur á Bylgjunni. Hvað mynduð þið segja við þær stelpur sem langar að stofna hljómsveit eins og Kolrassa, en þora ekki út í þennan karllæga heim? Birgitta: Bara að láta vaða. Elíza: Ég er stelpa sem spilaði á fiðlu og teiknaði myndir, talaði aldrei við neinn og var ógeðslega feimin. En ég fann þarna einhverja aðra leið út úr mér. Það er nýr, ótrúlega mikill kraftur sem þú getur fundið í tónlist. Ég hvet allar stelpur til að kýla á það. Sigrún: Ég faldi mig á bakvið magnarana, oft. En svo bara kom þetta. Þetta er bara geðveikur kraftur. Unglingar eiga að stíga út fyrir þægindarammann, sama hvað það er. Birgitta: Það skiptir mestu máli að finna fólkið sitt. Bíbí: En þú finnur þetta fólk ekkert inni í stofu heima hjá þér. Þú þarft að bera þig svolítið eftir því og þar er hugrekkið. Getið þið sagt aðeins frá þessum útgáfutónleikum hjá ykkur? Elíza: Þetta eru svona endurútgáfu-afmælis-gleði-partý-tónleikar á Húrra næsta laugardag, 25. nóvember. Það kostar 1992 krónur inn. Við ætlum að flytja „Drápu“ í heild sinni og nokkur vel valin lög frá tímabilinu. Við erum búnar að æfa okkur rosa mikið og erum alveg rosa spenntar. Birgitta: Ég er komin með sinaskeiðabólgu… Elíza: Þetta verður geðveikt. Sigrún: Við ætlum að reyna að mynda svona stemningu, sem var þetta sumar sem 1992. Elíza: Við hvetjum alla til að koma, þetta verður ógeðslega gaman. Bíbí: Við bjóðum Keflvíkinga sérstaklega velkomna. Birgitta: Alla Keflvíkinga og fólk á Bylgjunni. Bíbí: Og Vestmannaeyingar sérstaklega velkomnir. En eftir útgáfutónleikana, ætlið þið að halda áfram eftir þá? Elíza: Við erum bara ekki komnar svo langt. Ef við gerum eitthvað meira, þá gerum við kannski eitthvað nýtt.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.