28
-
fimmtudagurinn 12. desember 2013 • VÍKURFRÉTTIR
jólaspurningar
-bókakafli
pósturu vf@vf.is
Fyrsti kafli
Björn Ísberg Björnsson:
JÓI KEMUR Í HEIMINN
Er „sökker“ fyrir Love Actually Björn Ísberg Björnsson á það til að borða yfir sig af humri um jólin en hann passar sérstaklega upp á að mamma sín sé ekki að breyta uppskriftinni að humrinum of mikið. Besta jólagjöfin sem Björn hefur fengið er kassagítar sem hann hefur ekki lært á, hann væri því til í gítarfingur í jólagjöf. Fyrstu jólaminningarnar? „Ég beið alltaf spenntur eftir að Skyrgámur kæmi í heimsókn. Hann fékk ekkert skyr samt.“ Jólahefðir hjá þér? „Ætli jólabjórasmökkunin sé ekki eina hefðin hjá mér.“ Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðirnar? „Ég er duglegur að passa upp á að mamma sé ekki að breyta uppskriftinni að humrinum of mikið. Hún á það til að vera stundum of tilraunasöm.“ Jólamyndin? „Ég kemst í jólafíling við að horfa á Lord Of The Rings og Christmas Vacation. Er líka sökker fyrir Love Actually og er þegar búinn að þjófstarta með að horfa á hana.“ Jólatónlistin? „Nei.“ Hvar verslarðu jólagjafirnar? „Það mega allir búast við að fá eitthvað úr versluninni Brim. Á auðvelt með að finna eitthvað flott þar.“ Gefurðu mikið af jólagjöfum? „Ekki nógu mikið. Væri til í að gefa öllum jólagjöf. Það er sælla að gefa en þiggja, en mig vantar bara stærri
buddu.“ Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf? „Við höfum oftast sömu rútínu í fjölskyldunni minni. Við kallarnir spilum.“ Besta jólagjöf sem þú hefur fengið? „Kassagítarinn sem ég hef ekki ennþá lært að spila á. Samt eru nokkrir slitnir strengir.“ Hvað er í matinn á aðfangadag? „Humar í forrétt (ég borða mig yfirleitt saddan af honum), hamborgarhryggur og heimatilbúinn ís í eftirrétt. Svo skemmir ekki að fá kaffi og koníak á meðan pakkarnir eru opnaðir.“ Eftirminnilegustu jólin? „Ég er svo ótrúlega gleyminn að ég man bara síðustu jól. Voru þau ekki í apríl?“ Hvað langar þig í jólagjöf? „Ég væri alveg til í að vakna á jóladagsmorgun með hár á kollinum og gítarfingur, svo ég geti loksins spilað nokkur lög á gítarinn minn. En ég er sáttur að geta heimsótt fjölskyldu mína og vini.“
VIÐ ÓSKUM SAMSTARFSAÐILUM OKKAR Á SUÐURNESJUM OG LANDSMÖNNUM ÖLLUM
GLEÐILEGRA JÓLA OG FARSÆLDAR Á NÝJU ÁRI
Þ
egar Jói kom í heiminn eftir allnokkra bið varð afi Tóti stoltur og dansaði tangó í litlu stofunni sinni inná Hlíf. Honum höfðu borist fréttirnar frá Ingu f r æ n ku í g e g nu m s í m a n n . Mamma og pabbi Jóa voru þó ekki á þeim buxunum að dansa, enda hafði meðgangan staðið yfir í heila öld og fæðingin reynt á þolrifin. En foreldrarnir voru auðsýnilega bæði stolt og hamingjusöm að landa svo fallegum dreng í heiminn. Hann var líka fyrsta barn þeirra hjóna og mikið voru þau Guði þakklát fyrir svo fallegan og heilbrigðan dreng. Galvösk ljósmóðirin á sjúkrahúsinu hóf Jóa á loft og sagði að hann væri einsog snýttur út úr nösinni á pabba sínum. Því samsinnti Þorsteinn yfirlæknir og furðaði sig í leiðinni á því hve stórt barnið væri. „Hann er örugglega fimm kíló,“ sagði hann íhugull á svip. Að svo mæltu gekk yfirlæknirinn út úr stofunni en ljósmóðirin fór fram að segja pabbanum tíðindin. Meðan þessu fór fram sat Inga frænka heima á Suðurgötu 19 og grét af gleði. Hennar hlutverk var að gæta hússins og færa vinum og ættingjum fréttirnar. Jói var baðaður ástríki og aðdáun fyrstu dagana og þótti myndardrengur. Hann var meðhöndlaður einsog brothættur gullmoli, vafinn inní hlýjar ábreiður og reifaður einsog sjálft Jesúbarnið og lagður í jötu. Margir lögðu leið sína á sængurdeildina til að fagna komu hans og líkt og vitringarnir forðum komu þeir færandi hendi. Fyrir vikið hlóðust upp háir staflar af gjöfum hjá nýbakaðri mömmu og barni enda voru þær ófáar kerlingarnar sem leitað höfðu til Önnu Þórðardóttur saumakonu í gegnum tíðina. Pabbi Jóa, sem óvænt hafði fengið vikufrí á sjónum, vissi ekki alveg hvaðan á sig stóð veðrið í öllum þessum ósköpum. Fólk virtist streyma hvaðanæva og engu var líkara en hálfur heimurinn vildi óska honum til hamingju með barnið. Ekki tók betra við þegar hann uppgötvaði sér til mikillar skelfingar að þess var vænst að hann héldi uppi samræðum við allt þetta fólk. Á því augnabliki vildi svo vel til að Gunnari J. Jökulssyni, pabba Jóa, kom til hugar gjöfin sem hann átti eftir að kaupa fyrir ný-
fæddan son sinn og með það sama var hann á brott. Gunnar J. Jökulsson, sem alla jafna var lítt gefinn fyrir búðir, naut sín að þessu sinni í búðarápinu. Hann þræddi bæinn þveran og endilangan og gaf sér góðan tíma á hverjum stað til að skoða vöruúrvalið og gerðist meira að segja svo djarfur að spyrja um verð í nokkrum búðum. Að endingu fann hann tvær ófrýnilegar rykfallnar sjóræningjabrúður í Hafnarbúðinni en sú ágæta búð var reyndar í sjónmáli frá heimili hans, Suðurgötu 19. Í Hafnarbúðinni ægði öllu saman: Hamborgarar, franskar og spælegg voru sérgrein búðarinnar. Kaffi og meðþví fyrir þá sem það vildu. Svo mátti líka finna sitthvað brúklegt: dónablöð, rakspíra, rúðuþurrkur, sjóvinnugalla, svuntur, vinnuvettlinga, ermahlífar, gallabuxur, baujuflögg, netanálar og prjónagarn. Og svo auðvitað dótahornið sem samanstóð af stórum trékassa fullum af allskonar misgagnlegum hlutum. Þar á botninum, innan um bolta, tindáta og flugvélamódel, fann Gunnar J. Jökulsson þessar rykföllnu sjóræningjabrúður. Æ, þær voru etthvað svo einar og á svo kaldri braut að hann stóðst ekki mátið að bjarga þeim. Hann ætlaði þó varla að hafa það af að afgreiðsluborðinu sökum margmennisins í búðinni. „Þú mátt eiga þær,“ tilkynnti afgreiðslustúlkan lafmóð, þegar röðin kom loksins að honum. „Ég hef ekki hugmynd um hvað sjóræningjarnir kosta. Sonur minn segir að þessi með bótina heiti Sigurður fótur. Hinn, þessi þybbni, heitir víst Hafliði tvö nef. Meira veit ég ekki. – Jú, fyrirgefðu,“ bætti hún við áður en Gunnar J. Jökulsson sneri frá afgreiðsluborðinu. „Sjóræningjaskipið þeirra heitir víst Algata …“ Gunnar J. Jökulsson þakkaði ringlaður fyrir sig. Já, annríkið var svo sannarlega mikið fyrir nýbakaðan pabba. Og það var kannski einmitt öllu þessu annríki að þakka að honum tókst að halda sig réttum megin við strikið að þessu sinni en hvernig honum tókst að vera í viku í landi án þess að dett‘íða var fjölskyldunni hulin ráðgáta. Það var kannski vegna afstöðu himintunglanna eða kannski vegna þess hvernig stóð á flóði eða fjöru, allavega var sá gállinn á Gunnari J. Jökulssyni að drekka ekki dropa. Gaf hann aldrei neina yfirlýsingu af eða á. Var bara fyrirmyndarfaðir í hvívetna og gladdi mjög þakklátt hjarta Önnu Þórðardóttur konu sinnar, sem ávallt hafði óbilandi trú á manni sínum þrátt fyrir allt. Jói var fluttur af sjúkrahúsinu í heiðgulu burðarrúmi og hjalaði strákurinn alla leiðina heim. Þau hjónin gengu með hann því stutt var heim frá sjúkrahúsinu. „Strákurinn er að hjala við sjóræn-
ingjana,“ útskýrði pabbinn hróðugur. „Ljóti ófögnuðurinn þessir sprellikarlar,“ andmælti mamma Jóa. „Og alger óþarfi að troða þeim oní burðarrúmið.“ En innst inni var hún stolt af manni sínum fyrir að hafa tekið uppá því að færa syni sínum gjöf, svona uppá eigin spýtur. Já, sól skein í heiði og mávar sungu. Heima beið Inga frænka með nýlagað kaffi og heitar pönnsur. Jói var ekki nema tíu mánaða gamall þegar pabba hans varð það á að setja gallsúra mjólk á pelann hans. Viðbrögð Jóa við framtakinu voru þau að blána í framan, því kekkjótt mjólkin vildi ekki svo glatt niður heldur stóð föst í hálsinum á honum og lokaði öndunarveginum fyrir allri umferð. Snör handtök mömmu hans á ögurstundu björguðu lífi Jóa að þessu sinni. Fyrir tóma tilviljun hafði hún hrokkið upp þegar svefnherbergisglugginn slóst til og var rétt nýbúin að loka honum þegar ambur heyrðist úr vöggunni og þá hafði hún ákveðið að gá. Meðan á þessu öllu stóð sat Gunnar J. Jökulsson að drykkju niðrí kjallara og lét sig dreyma stóra drauma, enda hafði hann staðið við sitt þetta kvöld og meira að segja tekið það að sér – af eintómum elskulegheitum – að sjá um drenginn: „Ég skal svæfa drenginn, Anna mín,“ hafði hann tilkynnt. „Þér veitir ekki af hvíldinni, elskan!“ Þó var það aldrei meiningin hjá honum að svæfa litla kútinn svefninum langa. Þetta taut setti Gunnar J. Jökulsson fram í varnarskyni á meðan Arnbjörn læknir skoðaði Jóa. Mamma Jóa gaf manni sínum illt auga en lét það ógert að segja nokkuð á meðan læknirinn heyrði til. En þegar hann var á brott setti mamma Jóa hnefann í borðið og sagði hátt og skýrt: „Hingað og ekki lengra, Gunnar J. Jökulsson, nú ferð þú að gera eitthvað í þínum málum. Þú verður að láta renna af þér í eitt skipti fyrir öll, annars endar þessi vitleysa hjá þér með ósköpum.“ Gunnar J. Jökulsson hlustaði með athygli á þessi vísdómsorð eiginkonu sinnar en sagði svo sakleysislega: „Hvað er þetta, kona, ég ætlaði ekki að drepa drenginn.“ Já, það var margt sem Gunnar J. Jökulsson ætlaði sér ekki að gera en gerði samt. Á næstu árum rak hvert fylleríið annað og skandalarnir hlóðust upp. Sagan af Jóa © Þröstur Jóhannesson Bókabeitan, Reykjavík 2013 Öll réttindi áskilin.