Frumsýnt 29. september 2012
Formannspistill Sköllótta söngkonan eftir Eugéne Ionesco er verk sem á sèr nokkuð merkilega sögu. Það var fyrst frumsýnt árið 1950 í Théâtre des Noctambules leikhúsinu í París og hefur síðan 1957 verið sýnt sleitulaust í Théâtre des Noctambules í sömu borg. Þrátt fyrir að þar séu einungis 85 sæti hafa yfir ein og hálf milljón áhorfenda séð þetta verk og hefur það fengið sannkallaðan „cult“ stimpil meðal leikhús aðdáenda um heim allan. Verkið skrifaði Ionesco eftir að hafa verið í enskutímum og fékk þá hugmynd að nota þau orð sem hann lærði hverju sinni til að raða saman setningum og sjá hvað hann fengi út úr þeim. Það má því með sanni segja að hugmynd að góðu verki þurfi ekki að vera flókin til að geta komið skemmtilega út og verið öllum til ánægju. Ég vona svo sannarlega að þú kæri leikhúsgestur eigir eftir að hafa gaman að þessari sýningu og gangir brosandi út úr leikhúsinu okkar. Með kveðju Styrmir B. Kristjánsson Formaður leikfélags Hafnarfjarðar
Ávarp leikstjóra Það var á vormánuðum sem okkur datt í hug að tími væri kominn til að innanfélagsmenn færu að leikstýra hjá félaginu aftur. Þar sem við höfðum báðir verið að læra leikstjórn í leiklistarskóla Bandalags Íslenskra Leikfélaga seinustu þrjú ár, þótti okkur tilvalið að bjóðast til að leikstýra verki á haustmánuðum. Upphaflega ætluðum við að hafa tvískipt verk, þar sem hvor okkar myndi leikstýra hvorum hlutanum um sig, en fljótlega duttum við niður á verk sem okkur leist báðum mjög vel á. Þetta verk var Sköllótta söngkonan, og var ákveðið að við myndum leikstýra því báðir. Eftir áheyrnarprufur var valið í hlutverk og byrjað af fullum krafti. Samstarfið hefur gengið vonum framar og vonum við að þið, áhorfendur góðir, njótið afrakstursins. Góða skemmtun. Gísli Björn Heimisson og Halldór Magnússon
Persónur og leikendur
Ársæll Hjálmarsson Herra Smith
Gunnhildur Magnúsdóttir Frú Smith
Stefán H. Jóhannesson Herra Martin
Elín Björg Þráinsdóttir Frú Martin
Leikmynd og búningar: Leikhópurinn Tæknivinnsla: Sindri Þór Hannesson
Halldór Gunnar Eyþórsson Slökkviliðsvarðstjórinn
Arndís Jóna Vigfúsdóttir Mary Vinnukona
Framkvæmdastjóri sýningar: Lárus Vilhjálmsson Hönnun leikskrár: Styrmir B. Kristjánsson
Eugène Ionesco
26. Nóvember 1909 – 28. Mars 1994 Ionesco var fæddur í borginni Slatina í Rúmeníu. Hann eyddi meirihlutanum af æsku sinni í Frakklandi og þar varð hann fyrir lífsreynslu sem hann sagði að hefði haft hvað mestu áhrif á heimssýn sína. Þar sem hann gekk í hægðum sínum um borgina fannst honum skyndilega sem ljós færi í gegnum hann og lifti honum frá jörðinni og yfirþyrmandi vellíðan fór um hann allan. Þegar hann sveif svo aftur niður til jarðar og ljósið hvarf frá honum varð honum ljóst hvað heimurinn var í raun myrkur staður, fullur hrörnunar, spillingar og tilgangslausum endurtekningum. Þetta endurspeglaðist í mörgum verka hans td. City of lights, Exit the King og A Stroll In The Air. Ionesco sneri aftur til Rúmeníu árið 1925 eftir að foreldrar hans skildu. Þar stundaði hann nám við Saint Sava National College og einnig Franskar bókmenntir við University of Bucharest frá 1928 til 1933 og útskrifaðist með kennsluréttindi í Frönsku. Árið 1936 kvæntist hann Rodica Burileanu og eignuðust þau eina dóttur og skrifaði hann fjölmargar óhefðbundnar barnasögur handa henni. Fjölskyldan sneri aftur til Frakklands árið 1938 til að hann gæti lokið dortosnámi sínu. Vegna heimsstyrjaldarinnar síðari flúðu þau til Rúmeníu árið 1939 en snerist hugur og með hjálp vina sinna varð hann sér út um ferðapappíra sem gerðu honum kleift að snúa aftur til Frakklands árið 1942. Þar bjó hann í Marseille og fór svo til Parísar með fjölskyldu sína eftir að stríðinu lauk. Ionesco hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín áður en hann lést 84 ára að aldri.