Á eigin skinni

Page 1

Á eigin

SKINNI BETRI HEILSA OG INNIHALDSRÍKARA LÍF

Sölvi Tryggvason



Þessi bók er tileinkuð minningu Högna Erps bróður míns. Minningin um hann veitir mér alltaf styrk og minnir mig á hvað raunverulega skiptir máli í lífinu.



KAFLI 1

ÞEGAR HEILSAN HRUNDI Þolinmæði er listin að fela óþolið Guy Kawasaki

Frá því að ég var lítill strákur hef ég verið ör í hugsun. Kátur, ákafur, orkumikill, uppátækjasamur, fljótur að læra, með sterkt ímyndunarafl og átt auðvelt með að beina athyglinni að því sem er mest spennandi hverju sinni. Á hinn bóginn nenni ég illa því sem mér leiðist og verð fljótt eirðarlaus. Jákvæðu hliðarnar við að vera svona af guði gerður eru þær að maður getur verið eldskarpur í hugsun og „dýnamískur“ í alla staði. Hin hliðin er að það er stutt í að manni leiðist, maður getur auðveldlega keyrt sig út ef eitthvað er nógu spennandi, það er auðvelt að verða kvíðinn yfir einhverju sem aldrei mun eiga sér stað og einbeitingin flögrar mjög auðveldlega í allar áttir ef ekki er haldið í gott skipulag.

Athyglisbrestur, ofvirkni og kvíði Þegar ég horfi til baka hef ég sennilega alltaf haft undirliggjandi tilhneigingu til kvíða. Ef ég væri barn í dag hefði ég án nokkurs vafa verið greindur snemma með athyglisbrest, ofvirkni og kvíða. Þar sem líf mitt var í frekar góðu jafnvægi og föstum skorðum langt fram eftir aldri náðu þessir undirliggjandi þættir í persónuleikanum aldrei að verða að neinu vandamáli fyrr en komið var fram á fullorðinsár. Ég sé þó núna í baksýnisspeglinum að ég átti óstjórnlega erfitt með að eiga við það sem mér þótti leiðinlegt en kunni mér illa hóf þegar mér fannst eitthvað spennandi. Að sama skapi sé ég líka að ég átti 5


mjög erfitt með að setja mér markmið og skipuleggja eitthvað sem náði lengra fram í tímann en bara nokkra klukkutíma, sem er mjög hefðbundið einkenni á miklum athyglisbresti. Það sem hélt mér á floti í skóla var að ég átti auðvelt með að læra en mér var fyrirmunað að leggja mig fram í fögum sem mér þóttu leiðinleg, gerði það að minnsta kosti ekki. Hins vegar tætti ég í mig stærðfræðibækur og upplýsingar úr landafræði þar sem ég hafði gaman af tölum. Kennarar í þeim fögum þurftu ítrekað að halda aftur af mér þar sem ég kláraði bækur sem átti að vinna í allt misserið á einni til tveimur vikum og endurtók leikinn þegar ég fékk næsta skammt. Átta ára mundi ég utan að hæð allra jökla og helstu fossa á Íslandi og gat talið upp höfuðborgir hér um bil allra landa heims. Þessi eiginleiki, að ná einhvers konar ofurathygli þegar áhuginn var fyrir hendi, reyndist mér mikill styrkur þegar ég byrjaði að starfa við fjölmiðla. Spennan þar og skemmtunin var líka nægilega mikil til þess að mig langaði helst til þess að taka allar aukavaktir og það brást ekki að vinnan var í huga mér þegar ég kom heim. Þetta virkaði stórvel til að byrja með en ég sá ekki þá að það vantaði innilega mótvægi við spennuna. Þegar ég horfi til baka er í raun stórundarlegt að ég skuli hafa endað í fjölmiðlum. Ég var í raun mjög hefðbundinn unglingsstrákur sem hafði gaman af boltaíþróttum, nennti ekki að fullorðnast og spáði því ekki mikið í framtíðina. Eftir að ég fór að stýra því sjálfur hvað ég borðaði og dró úr því að stunda íþróttir af kappi fór ég að bæta á mig. Það ásamt öðru ýtti undir óöryggi og átti sinn þátt í því að ég byrjaði að þróa með mér talsverða feimni þegar ég komst á unglingsárin og ótta við álit annarra. Ég var vægast sagt smeykur við að fara eigin leiðir og passaði mig að falla sem allra mest í hópinn. Öll unglingsárin átti ég náinn og góðan vinahóp þar sem ég gat algjörlega verið ég sjálfur en inn á milli hafði ég samt mikla tilhneig6


ingu til að draga mig algjörlega í hlé og vera einn. Á aldrinum þrettán til fimmtán ára fór sú tilhneiging að aukast og fylgdi mér svo áfram. Í fyrra fór ég í Menntaskólann við Sund til að halda þar fyrirlestur og þá rifjaðist upp fyrir mér hve feiminn og óöruggur ég var þegar ég sat þar í námi á aftasta bekk. Ef kennararnir mínir og bekkjarfélagar á þessum tíma hefðu verið spurðir hverjar líkurnar væru á að ég myndi enda á að starfa í sjónvarpi hefði svarið án nokkurs vafa verið einhvers staðar vel innan við eitt prósent.

Spennufíkill í sjónvarpi Eftir að ég kláraði menntaskóla hafði ég ekki hugmynd um hvað mig langaði að gera. Ég man að ég fór í Háskóla Íslands á síðasta degi til að sækja um og ákvað á staðnum að velja sálfræði. Það var svo í raun algjör tilviljun að ég endaði á að starfa í sjónvarpi. Ég hafði klárað þriggja ára háskólanámið og ætlaði að fara til útlanda í framhaldsnám. En kærastan mín á þessum tíma átti ár eftir af sínu námi og ég ákvað að bíða eftir henni. Ég sótti um nokkur sumarstörf og var ráðinn á Stöð 2 í fréttamennsku og fann undir eins að það átti vel við mig. Ári síðar var ég kominn svo langt inn í starfið að ég gat ekki hugsað mér að fara aftur í nám. Það átti vel við mig að vinna í umhverfi þar sem spennan var mikil og enginn tími fyrir hangs. Eins var frábært að sjá afraksturinn af vinnunni alltaf jafnharðan. Fyrir einstakling með mína heilastarfsemi virkar vel að stutt sé á milli orsakar og afleiðingar svo að ég nenni yfir höfuð að gera hlutina. Að sjá afrakstur dagsins í sjónvarpinu strax sama kvöld var góð jafna fyrir minn hraða haus. Það skemmdi heldur ekki fyrir að fá mikil viðbrögð við því sem ég gerði. Ég varð án nokkurs vafa háður því og eftir á að hyggja hefur það eflaust átt mikinn þátt í að móta sjálfsmynd mína á þessum tíma og talsvert lengi þar á eftir. Fyrstu árin á Stöð 2 voru góð ár í mínu lífi. Ég átti traustan vinahóp úr menntaskóla, var í ástarsambandi sem gekk vel og í vinnunni gekk mér framar vonum. En spennan var meiri en góðu hófi gegnir, 7


þó að ég hafi kannski ekki séð það þá. Samhliða mikilli keyrslu í vinnu spændi ég í mig kaffi og sykur í tíma og ótíma til að halda heilanum gangandi og utan vinnu fór ég smám saman að sækja í að viðhalda spennu. Í stað þess að sækja í áhugamál sem róuðu hugann gekk ég lengra og lengra í því að halda áfram í vinnunni utan vinnutíma. Hreyfingin sem ég stundaði snerist líka um sem allra mestan djöfulgang og keyrslu og flestallt sem ekki innihélt spennu varð leiðinlegra og leiðinlegra. Í stóru myndinni má segja að ég hafi smátt og smátt aukið hraðann á öllum vígstöðvum án þess að taka mikið eftir því. Ég var í raun orðinn spennufíkill og „venjulegir“ og hversdagslegir hlutir máttu helst alveg missa sín. Til lengdar getur það ekki endað vel að vera með „sympatíska“ taugakerfið í gangi nánast allan sólarhringinn. Fyrir þá sem ekki þekkja er það hluti ósjálfráða taugakerfisins og nokkurs konar neyðarkerfi en starfsemi þess eykst við álag og ógn með því að auka hjartslátt, hækka blóðþrýsting, losa svita og víkka sjáöldrin. Að lokum hlaut eitthvað að láta undan.

Skuldadagar Haustið 2007 kom svo að skuldadögum. Þá hrundi heilsan. Hraður lífsstíll árum saman sem einkenndist af streitu, álagi og stanslausri spennu sagði loks til sín fyrir alvöru. Fyrsta viðvörunarmerkið var, eins og þegar hefur komið fram, þegar ég sá viðmælendur í beinni útsendingu tvöfalt og endaði á bráðamóttöku nokkrum dögum síðar. Ég fór heim með tvö lyf sem áttu að redda málunum en annað þeirra reyndist öllu sterkara en mig hafði grunað og alls ekki sú töfralausn sem ég vonaðist eftir. Daginn eftir að hafa tekið það fyrst vaknaði ég eins og ég hefði orðið fyrir strætisvagni. Það var ekki fyrr en eftir þrjá sterka kaffibolla að mér leið eins og heilinn væri að verða starfhæfur á ný. Eftir nokkra morgna í þessum dúr; rotaður fram að hádegi þrátt fyrir kaldar sturtur, göngutúra og ómælt magn af kaffi, sannfærðist ég um að þetta lyf væri ekki fyrir mig. Hitt lyfið fór heldur ekki vel í mig og ég hætti líka að taka það skömmu síðar.


Án þess að vilja gagnrýna velviljaða lækninn sem tók á móti mér á bráðamóttökunni of mikið var þetta greinilega ekki rétta meðferðin. Ég komst að því eftir að hafa lesið mér betur til að lyfin tvö voru ætluð fólki með alvarlegt þunglyndi, sem var alls ekki það sem hrjáði mig. Það útskýrði kannski líka hve sterk og slæm áhrif þessi lyf höfðu á líkama minn og að þegar ég hætti að taka þau voru fráhvarfseinkennin ömurleg; einhvers konar sambland af stanslausum hrolli og rafstuðseinkennum í höfðinu í marga daga. En þó að ég væri laus við þessi lyf rúmum mánuði eftir að ég byrjaði að taka þau ágerðist heilsubresturinn. Tilraunir með alls konar lyf voru því rétt að byrja. Aukaverkanir af lyfjum ofan í einkennin sem þau áttu að laga sköpuðu vítahring þar sem ég var algjörlega búinn að týna sjálfum mér og vissi ekkert hvað var hvað. Einn daginn var óreglulegur hjartsláttur það sem amaði að, þann næsta sjóntruflanir og svimi og enn aðra daga magakrampar og yfirliðstilfinning. Ég var orðinn algjör taugahrúga og á næstu átta mánuðum reyndu alls kyns sérfræðilæknar að finna út úr því hvað amaði að mér. Meltingarsérfræðingar, hjartalæknir, geðlæknir, sálfræðingur, sérfræðingur í innkirtlasjúkdómum, sérfræðingur í taugalækningum, ofnæmislæknir, efnaskiptalæknir og sérfræðingur í mígreni og svima (sem greindi mig með afar sjaldgæfan kvilla sem lýsir sér í stöðugum svimaköstum) rannsökuðu mig hátt og lágt án þess að komast að mjög sértækum niðurstöðum. Þá eru ótaldar heimsóknir til sjúkranuddara, hnykkjara, nálastungusérfræðings, hómópata og ayurveda-læknis. Hjartalínurit, heilaskanni og mörg ómsegultæki gerðu leitina að því hvað amaði að mér ekkert auðveldari. Allt þetta fólk og rannsóknir gáfu mér tímabundna trú á að ég fengi einhverja lausn minna mála en allt kom fyrir ekki. Minn frábæri heimilislæknir á þessum tíma sagði við mig snemma árs 2008: „Þú ert að verða mest rannsakaði maður á Íslandi en flestallar athuganirnar benda til þess að þú sért við hestaheilsu.“

9


Á EIGIN SKINNI

BETRI HEILSA OG INNIHALDSRÍKARA LÍF Fyrir áratug hrundi heilsa sjónvarpsmannsins Sölva Tryggvasonar – bæði líkamlega og andlega. Eftir þrautagöngu milli lækna og annarra sérfræðinga, endalausar rannsóknir og lyfjameðferðir án þess að hann fengi bót meina sinna ákvað hann að taka málin í eigin hendur. Síðan hefur Sölvi fetað allar mögulegar slóðir í leit að betri heilsu og auknum lífsgæðum. Á þeirri vegferð hefur hann gert nær endalausar tilraunir á sjálfum sér viðvíkjandi mataræði og hreyfingu, föstur, bætiefni, kuldaböð, hugleiðslu, öndunaræfingar, tengingu við náttúru og ótalmargt annað sem snýr að heilsu. Bókin fjallar um leið Sölva til heilsu á ný, þær fjölbreytilegu tilraunir sem hann gerði á eigin skinni og niðurstöðurnar sem hann komst að. Þetta er persónuleg frásögn þar sem Sölvi leggur sjálfan sig á borðið og fjallar af fullkominni hreinskilni um líf sitt og leiðina til heilbrigðis. Um leið er bókin stútfull af praktískum upplýsingum og ráðum. Lesendur geta speglað sig í því sem Sölvi hefur reynt og aflað sér þekkingar á, mátað sig við það og fundið svo sína eigin leið í átt að betra og heilbrigðara lífi. Þessi yfirgripsmikla bók á erindi við alla, jafnt þá sem glíma við einkenni lífsstílssjúkdóma og vilja snúa við blaðinu og hina sem ástunda heilbrigt líferni.

ISBN 978-9935-498-16-8

9 978-9935-498-16-8 789935 498168


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.