Bók um bý

Page 1


Fyrir Mariu, Marisyu og Janek


Tex ti

Wojciech Grajkowski Íslensk þýðing

Sigurður Þór Salvarsson og Tóma s Hermannsson

S ögur útgáfa Reykjaví k, 2 019


Mynd I

BÝFLUGUR OG RISAEÐLUR

B

ýflugur hafa verið til í hundrað milljón ár! Það þýðir að þær voru til á meðan risaeðlurnar réðu ríkjum á jörðinni. Og hvernig vitum við þetta? Það er vegna þess að vísindamenn fundu nokkur steingerð skordýr sem höfðu varðveist í trjákvoðu allan þennan tíma. Sumir vísindamenn halda því fram að býflugur hafi verið til mun fyrr, jafnvel fyrir hundrað og tuttugu milljónum ára. Þá voru plönturnar rétt að byrja að þróa sína stærstu uppfinningu: blómið. Sætur

4

blómsafinn og bragðgóð frjókornin inni í blóminu freistuðu hungraðra skordýra og þar sem þau flugu um loftið og gæddu sér á blómunum gátu þau frjóvgað plönturnar. Þetta fyrirkomulag kom sér vel fyrir bæði skordýrin og blómin (sjá mynd VIII). Forfeður býflugnanna sem við þekkjum í dag voru þó ekki spenntir fyrir blómsafanum. Þeir voru rándýr sem minntu meira á geitungana í dag. Þeir fóru á milli blóma og leituðu sér að skordýrabráð sem væri svo upptekin við að


næra sig að hún næði ekki að flýja. Einn daginn hugsaði einn af þessum forfeðrum (skordýrum) sem þá voru rándýr: „Fyrst ég er hérna á annað borð gæti ég nú alveg prófað að éta eitthvað af þessum gómsætu frjókornum.“ Þetta var fyrsta skrefið fyrir litla rándýrið að breytast í býflugu eins og við þekkjum þær í dag. Annað mikilvægt skref var þegar litla skordýrið byrjaði að safna þykkum litlum hárum á líkamann. Þetta breytti ekki bara útliti dýrsins, heldur varð það betur í

stakk búið til að dreifa frjókornum blómanna. Býflugan varð smám saman mjög fær í að frjóvga margs konar plöntur (sjá bls. 18). Plönturnar fóru brátt að þróast þannig að þær urðu meira aðlaðandi fyrir býflugur; blóm þeirra urðu fallegri og ilmuðu betur með ljúffengum blómsafa og frjókornum. Býflugurnar voru svo ánægðar með þetta aukna úrval í blómahafinu að þær urðu grænmetisætur fyrir fullt og allt og hið nána samband plantna og býflugna hefur haldist til þessa dags. 5


Mynd II

LÍFFÆRAFRÆÐI BÝFLUGUNNAR

höfuð

samsett auga höfuð

miðbolur

afturbolur

Þ

rjár tegundir býflugna er að finna í býflugnabúum. Þernur (kvk) eru 1,25 cm langar og vega tíunda hluta úr grammi. Druntar (kk) eru aðeins lengri og meira en tvisvar sinnum þyngri. En drottningin, sem er þriðja tegundin, er stærsta og þyngsta flugan af þeim öllum, hún getur orðið 2,5 cm löng. Fálmarana efst á höfðinu nota býflugurnar til að snerta og lykta. Augun stóru, sem eru hvort á sinni hlið höfuðs flugunnar, eru búin til úr þúsundum lítilla linsa

6

þannig að augun eru samsett. Á milli þeirra eru einnig þrjú einfaldari augu. Býflugur sjá mismunandi liti eins og mannfólkið en þær nota aðra tækni en við til að greina á milli þeirra. Þær geta ekki greint rauðan lit eins og við en í staðinn greinum við ekki últrafjólubláa litinn sem býflugurnar nema með sinni háþróuðu sjóntækni. Hin þunna langa tunga býflugunnar hjálpar henni að sjúga safann úr blómunum. Fálmarana á höfðinu notar hún til að byggja


12–15 mm

15–20 mm

20–25 mm

þerna

druntur

drottning neðanverður afturbolur framvængur

afturvængur

broddur magi býflugu

upp vaxkökuna í búinu. Býflugur eru með sex fætur eins og önnur skordýr. Þær nota fæturna til að ferðast um og gera húsverkin í býflugnabúinu. Býflugurnar eru með bursta á löppunum sem þær nota til þess að sópa frjókornum sem hafa fest við hárin á líkama þeirra. Þessi frjókorn enda svo í sérstakri frjókörfu á afturlöppunum og þannig geta býflugurnar auðveldlega borið þau heim í bú. Þó flugurnar líti út fyrir að vera með eitt sett af vængjum þá eru þau

í raun tvö. Þegar býfluga flýgur á milli blóma getur hún blakað vængjunum tvö hundruð og þrjátíu sinnum á sekúndu og flogið á þrjátíu og tveggja kílómetra hraða á klukkustund. Í afturbol dýrsins er poki sem geymir býflugnaeitrið og svo broddinn sjálfan. Gulu og svörtu rendurnar á býflugunni eru til þess gerðar að vara önnur dýr við því að koma nálægt henni. Þar gæti eins staðið: Varúð – ég sting! 7


Mynd III

VINNUSAMAR BÝFLUGUR

Drottningin verpir eggjum sínum í sérstök hólf í býflugnabúinu sem kallast klakhólf.

Býflugur búa til köku úr vaxi.

B

ýflugnafjölskyldur búa saman í búum þar sem tugir þúsunda fjölskyldu­ meðlima koma saman. Allir gegna þeir sérstökum hlutverkum. Líf býflugu hefst þegar móðirin, drottningin, verpir eggjum í sérstök hólf í vaxkökunni (sjá bls. 10). Lirfa klekst út úr egginu og verður að býflugu. Þernur gefa lirfunum frjókorn og hunang í hólfin og innsigla þau svo með vaxi þannig að lirfan geti þroskast óáreitt og náð fullum býflugnaþroska. Þegar hún hefur

8

náð fullum þroska rýfur hún innsiglið á hólfinu og verður annaðhvort þerna eða drunti; karl- eða kvenfluga, tilbúin að þjóna drottningu sinni. Fyrsta hlutverk þernanna er að hreinsa gamla hólfið þar sem flugan breyttist úr lirfu í flugu. Síðan vinna þær sig til metorða og fara að þjóna nýju lirfunum. Síðar öðlast þær svo meiri sérhæfingu innan veggja heimilisins og byrja t.d. að taka á móti blómsafa og frjókornum frá öðrum býflugum. Aðrar eru


Þernur og druntar gefa lirfunum fæði.

Býflugur búa til hunang. ráðnar í viðhaldsdeildina; þar þarf bæði að stækka búið og gera við skemmdir. Enn aðrar verða dyraverðir og gæta þess að óboðnir gestir komist ekki inn í búið. Síðasta hlutverkið sem flugurnar fá er að flakka á milli blóma og sækja blómsafa, frjókorn og vatn. Þær eru í þessu sóknarhlutverki alveg þar til þær drepast; venjulega um fimm vikum eftir að þær náðu fullum þroska. Druntarnir, karlkyns flugurnar, eiga mun auðveldara líf en þernurnar. Þeir

Ungar býflugur éta sig í gegnum hólfin þar sem þær nærðust.

Býflugur fylla frjókornum á hólfin. safna ekki fæði fyrir aðra heldur fá þeir mat frá öðrum flugum. Í rauninni er eina hlutverk þeirra að frjóvga egg drottningarinnar og verða þannig feður heillar kynslóðar býflugna. Þeir druntar sem tekst þetta mikilvæga verk drepast samstundis, aðrir lifa örlítið lengur, en á haustin er öllum druntunum ýtt út úr búinu þegar fæðan fer að verða af skornum skammti. Þar drepast þeir úr hungri. 9


Mynd IV

DROTTNING BÝFLUGNABÚSINS

Hólf með lirfum sýnd frá hlið. Drottningin er umkringd þernum í búinu.

Aðeins örfáum druntum tekst að frjóvga drottninguna á mökunarflugi.

D

rottningin þarf, eins og hinar kvenkyns flugurnar, að vera sívinnandi (sjá mynd VIII). Hlutverk hennar er að búa til fleiri býflugur. Þernurnar sjá um alla aðra vinnu í búinu: Þær gefa drottningunni fæði, þrífa hana og sjá um að ferómón hennar (lyktarhormón) séu dreifð um allt búið. Lyktin kemur í veg fyrir að þernurnar verpi. Þetta er ástæða þess að það er aðeins ein móðir í búinu þó þar séu þúsundir annarra kvenkyns flugna. Verðandi feður eru fjölmargir í búinu. Þegar ung drottning hefur náð kynþroska flýgur

10

hún úr búinu og hefst þá hennar fyrsta mökunarflug. Druntarnir bruna á eftir henni og keppist hver við að vera sá sem frjóvgar hana. Hún tælir þá á eftir sér með lyktarhormóninu. Aðeins þeim druntum sem fljótastir eru og sterkastir tekst ætlunarverk sitt á fluginu. Drottningin endurtekur leikinn með fjölda drunta. Venjulega drepast þeir er ætlunarverkinu er náð. Þegar þessu er lokið heldur drottningin aftur til bús síns og eyðir ævinni í að verpa eggjum. Hún framleiðir gríðarlegt magn eggja; allt að tvö þúsund á dag.


Drottningin verpir eggjunum í hólfin í búinu. Þernur fæða lirfurnar.

Þernurnar innsigla hólfin að ofan.

Lirfurnar breytast í flugur.

Þernur fæða verðandi drottningu í sérstökum drottningarhólfum í búinu.

Drottningin verpir ekki á haustin og veturna, samt tekst henni að framleiða fleiri en fimmhundruð þúsund egg á ævi sinni. Flest þessara eggja frjóvgast með sæðinu sem hún safnar í mökunarfluginu. Eggin klekjast út og til verða þernur, og í einstaka tilfelli; ný drottning. Þau egg sem ekki frjóvgast breytast í drunta. Algengast er að drottningin verði tveggja til fjögurra ára gömul en hún getur orðið allt að sjö ára. Þegar hún hættir loks störfum í búinu, yfirgefur hún það með býflugnasveimi sínum (sjá mynd VI). Stundum er hún einfaldlega

Nýjar flugur éta sig í gegnum hólfin.

Ný drottning yfirgefur drottningarhólfið.

orðin of gömul til að geta sinnt hlutverki sínu. Þá verður býflugnaþyrpingin að ala upp nýja drottningu. Nokkrar vel valdar lirfur sem myndu annars klekjast út og verða þernur fá í rauninni tækifæri lífsins. Þær fá sérstaka fæðu; drottningarhunang, sem hjálpar þeim að þroskast sem mögulega verðandi drottningar. Fyrsta flugan sem tekst að éta sig í gegnum hólfið sitt verður ný drottning. Stuttu síðar fer hún í mökunarflug sitt og byrjar síðan að verpa eggjum í búinu. 11


Mynd V

BÝFLUGNADANSINN

Býflugnadansinn gefur flugunum til kynna að blóm er í nágrenninu.

Því lengra sem er frá búinu til blómsins því meira dilla býflugurnar sér í dansinum, sem myndar töluna átta.

Býflugnadansinn vísar sóknarflugunum hversu langt þær þurfa að fljúga og í hvaða átt.

S

væðið í kringum búið er vaktað alla daga af könnunarbýflugum. Þegar þær finna sérlega sætan blómsafa eða aðlaðandi frjókorn láta þær sóknarbýflugur vita með sérstökum sérstökum dansi í búinu. Ef blómið er nálægt búinu dansa þær í hring. Ef það er lengra í burtu þurfa þær að láta vita hversu langt og í hvaða átt sóknarbýflugurnar eiga að fljúga. Þá dansa þær býflugnadansinn og mynda töluna átta. Í miðjum tölustafnum byrja bý-

12

flugurnar að dilla sér. Ef þær fljúga upp þýðir það að flugurnar eigi að fljúga í átt til sólar til að komast til blómanna. Ef þær demba sér niður, þá á að fljúga í öfuga átt. Ef dansinn berst til hægri, merkir það að blómin eru hægra megin við sólina og ef hann berst til vinstri eru þau vinstra megin. Því lengur sem býflugurnar dilla sér þeim mun lengra þurfa sóknarflugurnar að fljúga. Ein sekúnda af býflugnadilli þýðir að flugan þarf að fljúga allt að einn km


Mynd VI

BÝFLUGNASVEIMUR

í burtu. Flugurnar í býflugnabúinu geta ekki séð dansinn sökum myrkurs í búinu, en þær skynja hreyfingarnar og hlusta á suðið. Það nægir þeim til að geta metið hvert þær eiga að fljúga. Stundum fá sóknarflugurnar ennþá erfiðara verkefni; að finna rétta staðinn fyrir nýtt bú. Það gera þær í sveimi þegar býflugnabyggðin í búinu er orðin of stór og finna þarf nýtt heimili fyrir hluta hópsins. Drottningin fer þá úr búinu og finnur sér trjágrein til að

lenda á. Hluti þernu- og drónahópsins umlykja hana í sveimi. Þegar sóknarfluga gefur síðan merki um að búið sé að finna góðan stað fyrir nýtt bú flýgur býflugnasveimurinn þangað og hefst handa við að koma nýja heimilinu upp. Í gamla búinu keppa nýjar drottningar um það hver þeirra verði fyrst til að komast upp úr hólfinu sínu. Sú sem gerir það drepur yfirleitt keppinautana og verður þá ný drottning gamla búsins. 13


Mynd VII

NÁTTÚRUHERMUN Vaxkaka

Uppbygging vaxköku.

Myndavélarlinsulok hermir eftir augasteini mannsaugans.

Herklæði búin til úr litlum járnplötum sem eru eins uppbyggðar og húð skriðdýra.

Farartæki sem hreyfist eins og kónguló. Brimbretti sem er byggt upp á sama máta og býflugnabú.

Þ

ernur byggja vaxkökuna. Hún er gerð úr þúsundum lítilla hólfa sem hýsa hunang, frjókorn og lirfur. Veggirnir í hólfunum eru gerðir úr vaxi sem krefst mikillar fyrirhafnar að búa til. Þess vegna þurfa býflugurnar að byggja hagnýtar og endingargóðar vaxkökur og nota til þess eins lítið vax og þær komast af með. Sexhyrnd hólf eru upplögð form í þetta. Þegar þeim er raðað saman hlið við hlið verða hólfin traust og sterk þótt veggirnir séu

14

næfurþunnir. Hólfin falla þétt saman og ekkert pláss fer forgörðum. Maðurinn hefur lengi haft gagn af þessari byggingatækni býfluga og nýtir hana í miklum mæli í samfélaginu. Vaxköku-formgerðir er að finna víða þar sem þörf er fyrir létta og trausta hönnun, til dæmis í flugvélum, þyrlum, bílum og bátum. Einnig í gerð bygginga, hillna, hurða, húsgagna, brimbretta og ýmissa annarra smíða. Vaxkökur eru svo sannarlega ekki eini innblásturinn


Þegar ólympíuleikvangurinn í Peking í Kína var hannaður var fuglshreiður fyrirmyndin.

Möskvalögun Gherkinbyggingarinnar í London er sótt til beinagrindar sjávarsvamps. Marina-byggingin í Chicago á sér fyrirmynd í maískólfi.

Eiffelturninn í París er hannaður að fyrirmynd lærleggs úr mannslíkama.

Skeljalagaður stigi. sem mannskepnan hefur sótt sér úr náttúrunni í gegnum aldirnar. Fyrstu hnífarnir sem voru hannaðir líktu til að mynda eftir tönnum úr villidýrum. Körfur voru búnar til að fyrirmynd fuglshreiðra. Og þegar Gústav Eiffel hannaði hinn heimsfræga Eiffelturn var fyrirmyndin lærleggur úr mannslíkama. Aðrir arkitektar hafa notað beinagrindur úr sjávardýrum eða jafnvel lögun trjáa. Fyrirmyndir að lögun flugvéla og kafbáta eru fuglar og fiskar.

Einnig hefur náttúran hjálpað okkur að fá hugmyndir að nýjum efnum eins og málningu sem hermir eftir yfirborði lótusblóms og límbandi sem festist við hvaða yfirborð sem er líkt og fætur gekkóeðlu. Náttúrueftirlíkingar sem þessar eru kallaðar „náttúruhermun“.

15


Mynd VIII

FRJÓVGUN

P

löntur hafa þau megin hlutverk að vaxa og mynda fræ sem munu búa til nýjar plöntur. Flestar plöntur framleiða fræ í ávöxtum sínum, en ávextirnir eru gerðir úr blómum sem hafa verið frjóvguð. Frævun á sér stað þegar frjókorn flyst frá frævli blóms til frænis þess. Þegar frævun hefur átt sér stað getur frjóvgun orðið. Plöntur hafa mismunandi leiðir til frjóvgunar. Sjálfsfrjóvgun er fábrotnasta leiðin. Hún á sér stað þegar fræni og frævill sömu plöntu komast í snertingu og fræ verður til við það. Bestu fræin verða hins vegar til þegar frjó-

16

kornið berst frá annarri plöntu sömu tegundar. Gott dæmi um þetta er eplatré, það getur aðeins frjóvgast með því að fá frjókorn úr öðru eplatré. Og þá er það stóra spurningin: Hvernig færist þá frjókorn frá einni plöntu til annarrar? Plöntur gera þetta með tvennum hætti. Annars vegar nota þær vindinn. Ef planta framleiðir mikinn fjölda frjókorna eru góðar líkur á að einhver þeirra muni komist á réttu blómin. Þetta er aðferð sem ýmsar grastegundur og sumar trjátegundir notast við. Hin leiðin við að færa frjókorn á milli plantna er með


Fræni

Frævill

Blómsykur

dýrum, sérstaklega skordýrum. Og þar eru býflugur fremstar meðal jafningja. Plöntur leggja sig fram um að laða til sín eins mörg skordýr og þau geta og bjóða upp á gómsætan blómsykur í staðinn. Frjókornin sjálf eru svo einnig góður fæðukostur fyrir margar tegundir skordýra. Fjölbreyttar litasamsetningar blómanna og sterk lyktin kveikja áhuga býflugnanna sem vita þá að gómsæta fæðu er þar að finna. Til að ná í blómsykurinn þarf býflugan að mjaka sér inn í blómið. Við það nuddast fræni og frævlar við líkama flugunnar og hún verð-

ur alsett frjókornum. Síðan ferðast flugan á milli blóma og þannig færir hún frjókornin á milli þeirra. Býflugan nær sér í öll þau frjókorn og blómasafa sem hana lystir og blómið fær frjóvgunina. Þetta er svo sannarlega iðja sem bæði blómið og flugan vænkast af.

17


Mynd IX

ÁVEXTIR OG GRÆNMETI SEM ÞURFA Á BÝFLUGUM AÐ HALDA

B

ýflugur búa ekki bara til hunang fyrir okkur, þær hjálpa okkur einnig að rækta fjölmargar aðrar fæðutegundir. Án hjálpar býflugna gætu margar plöntur ekki framleitt ávexti sína og fræ (sjá mynd VIII). Epli, perur, plómur, kirsuber og vatnsmelónur þurfa á býflugum að halda til að vaxa. Agúrkur og paprikur þurfa líka frjóvgun, því þrátt fyrir það sem margir halda eru þær ekki grænmeti heldur ávextir fullir af fræjum sem nota má til að gróðursetja nýjar plöntur. Einnig má nefna gómsæt fræ graskera, sólblóma og sesam.

18

Og kaffið sem fullorðna fólkið kemst varla fram úr á morgnana án þess að drekka ... það er býflugunum að þakka að kaffiþyrstir fá skammtinn sinn á hverjum degi. Frjóvgun er líka mikilvæg fyrir ýmsar plöntur þó við borðum ekki ávexti þeirra eða fræ, heldur aðra hluta þeirra. Rófur, gulrætur, laukar, hvítkál, blómkál og spergikál eru allt dæmi um þetta. Bændur þurfa fræ til að sá í akra sína sem síðan munu blómstra. Og þá getur frjóvgunin átt sér stað, bændurnir fá svo fræ fyrir næstu sáningu og þannig koll af kolli. Sumar


plöntur geta frjóvgað sig sjálfar en frjóvgun sem býflugurnar framkalla er áhrifameiri en sjálfsfrjóvgun. Þegar sólblóm og kaffi frjóvga sig sjálf koma færri fræ en þegar býflugurnar eru að verki. Og þegar jarðarber, granatepli og paprikur eru sjálfsfrjóvguð verða þau ekki eins bústin. Býflugur eru ekki einu skordýrin sem frjóvga nytjaplöntur en þær eru tvímælalaust með mestu hæfileikana. Það er ekki hægt að ofmeta mikilvægt hlutverk þeirra í landbúnaði. Þær hjálpa meira að segja til við framleiðslu á mjólk og kjöti með frjóvgun

á alfalfa og smára sem síðan fjölga sér í haganum þar sem skepnurnar eru á beit. Og til að toppa hlutverk býflugnanna þá eru þær lykilaðilar við frjóvgun bómullarplöntunnar. Þegar blóm hennar eru síðan orðin fullþroska og dúnmúk er þeim breytt í bómull sem við búum okkur svo föt úr.

19


Mynd X

FRJÓVGUNARFÉLAGAR

5

4 1

2

3

9

14

15

16

18

F

19

20

jölmargar dýrategundir koma við sögu við frjóvgun plantna (sjá mynd X). Bjöllur (1-5, 7, 14, 20) heimsækja blómin mikið því þær nærast á blómsafanum. Sum skordýr nota langan rana til að drekka safann djúpt innan úr blóminu. Þeirra á meðal eru fiðrildi (6, 8, 18, 21) og mölflugur (10, 12, 18). Minnsti fugl í heimi, hunangsbríi (13), nærist á svipaðan hátt. Hann blakar vængjunum allt að

20

17

21

áttatíu sinnum á sekúndu á meðan hann sveimar yfir blóminu og notar langan gogginn og enn lengri tunguna til að gæða sér á blómsafanum. Sumar leðurblökutegundir (9) taka líka þátt í frjóvgun. Þær eru með svo langa tungu að hún er jafnvel lengri en allur líkami þeirra! Stærsta blóm í heimi, rafflesía (23), getur orðið allt að metri að þvermáli, en hún er ekki blómategund sem þú myndir setja í vasa.


7 6

8

11

10

12

22

13

23

Þetta blóm lítur út og lyktar eins og úldið kjöt og dregur þannig að sér aragrúa flugna (22) sem hjálpa til við að frjóvga það. Meðal mikilvægustu frjóberanna eru hunangsflugur (17) og aðrar tegundir býflugna (11, 15, 16, 19, 24). Tegundin sem ræktuð er á Íslandi kallast hunangsbýflugur. Hinar villtu hunangsflugur eru líklega afkastamestar, þökk sé frábærri samvinnu þeirra. Ef t.d. fjöldi límónutrjáa

24

blómstrar nærri búi þeirra, þá taka allar flugurnar sem hafa sóknarhlutverk sig saman um að fljúga aðeins á þessi tré og flytja sig ekki yfir á aðrar plöntutegundir fyrr en síðar. Þessi aðferð er kölluð „blóma-festa“ og þekkist hún einungis meðal býflugna. Blóma-festan leiðir til þess að frjókornið endar þar sem það á heima – á öðru límónublómi, en ekki annarri plöntutegund.

21


Mynd XI

BÝFLUGUR OG FRUMMENN

E

lstu sannindamerki sem til eru í heiminum af samskiptum frummanna og býflugna eru varðveitt á hellaveggjum í Afríku, Asíu, Evrópu og Ástralíu. Eina frægustu hellamyndina er að finna á Suður-Spáni og er hún talin vera átta þúsund ára gömul. Hún sýnir manneskju, umkringda býflugum, sem er að ná

22

sér í hunang úr býflugnabúi. Frummaðurinn hafði ekki þá þekkingu sem býflugnabændur nútímans búa yfir og því tók hann hunang úr villtum býflugnabúum. Til eru myndir af fólki sem stendur í stigum að sækja sér hunang og nota eld og reyk til þess að svæla býflugurnar út úr búunum. ­Býflugurnar hafa


ekki verið ánægðar með þá aðferð. Þessir frummenn stálu ekki hunangi vegna græðgi heldur til að lifa af. Hunang er nefnilega 75% sykur og var á þessum tíma mikilvægur orkugjafi sem viðbót við einfalt fæði á borð við kjöt og grænmeti. Forfeður okkar tíndu meira að segja fitu- og prótínríku býflugnalirfurnar úr

vaxkökunni og átu þær. Enn þann dag í dag er sumt fólk í Afríku háð hunangi og lirfum á ákveðnum árstímum. Í tvo mánuði á ári koma til dæmis þrír fjórðu hlutar af daglegri fæðu Efe-þjóðflokksins í Mið-Afríku úr býflugnabúum.

23


Mynd XII

EGYPTALAND TIL FORNA

G

ömlu Egyptarnir voru fyrirtaks býflugnaræktendur. Myndir sem hafa fundist í grafhýsum sýna að fólk var farið að búa til býflugnabú þegar fyrir fjögur þúsund árum. Búin litu yfirleitt út eins og aflangar leirkrúsir. Þau voru ekki ýkja stór, en ef þeim var raðað hverju ofan á annað mynduðu þau suðandi turn sem var fullur af hunangi. Egyptarnir mátu býflugurnar mikils vegna þess að þeir trúðu því að þær hefðu orðið til úr tárum sólguðsins Ra sem

24

féllu til jarðar í eyðimörkinni. Leiðtogi Egyptanna, faraóinn, bar nafnið „konungur býflugnanna“. Býflugan var sömuleiðis táknmynd Neðra-Egyptalands, en það var gróðursælt og blómríkt landsvæði kjörið til hunangssöfnunar. Samt sem áður var sjaldan hunang á borðum hins venjulega Egypta. Hunangið var svo dýrt að það var munaðarvara sem hinir ríku höfðu einir efni á eða það var notað sem fórnargjöf til guða og heilagra dýra. Gríski landkönnuðurinn og


landfræðingurinn Strabon, sem var uppi um líkt leyti og Kristur fæddist, varð vitni að því meðan hann dvaldi í Egyptalandi hvernig heilagur krókódíll var mataður á hunangi. Samkvæmt lýsingum hans urðu tveir prestar að spenna upp gin krókódílsins samtímis því sem sá þriðji tróð heilli hunangsvaxköku upp í hann. Auk þess að pína krókódíla með hunangi var það einnig notað í andlitsfarða og sagt að það hefði átt sinn þátt í því að gera þekktar fegurðardísir

á borð við Nefertiti, eiginkonu eins faraóanna, og Kleópötru drottningu enn fegurri. Hunangið var líka notað í lækningaskyni, sérstaklega til að búa um sár. Bývax var þá notað til dæmis við smurningu á líkum framliðinna leiðtoga, til að þétta keröld og til að framleiða lím. Vaxstyttur léku einnig mikilvægt hlutverk í margvíslegum helgiathöfnum. Merkilegt nokk voru vaxkerti ekki notuð í Egypta­landi heldur notuðu þeir olíulampa í staðinn. 25


Mynd XIII

GRÍSKU GUÐIRNIR

Hera – kona Seifs

Póseidon – guð hafsins

Aþena – viskugyðjan

Apóllón – guð fegurðar og lista

F

orn-Grikkir litu á hunang sem guðlega fæðu. Þeir trúðu því að guðirnir byggju í Ólympusfjalli, þar sem þeir drykkju guðaveigar og snæddu ávaxtasalat, mat sem gerði guðina ódauðlega. Því miður eru engar uppskriftir til að þessu hnossgæti, en það eru miklar líkur á að það hafi innihaldið hunang. Æðsti guðinn, Seifur, var nefnilega alinn upp á hunangi. Þegar hann

26

fæddist vildi faðir hans, guðinn Krónos, éta hann. Sem betur fer náði mamma hans, Rhea, að fela hann í helli þar sem hann naut umhyggju heldur óvanalegra fósturforeldra; geitarinnar Amaltheu og dísarinnar Melissu. Drengurinn drakk mjólk úr Amaltheu og Melissa gaf honum hunang. Sumir álíta að Melissa hafi í raun og veru verið býfluga, nafn hennar þýðir nefnilega bý-


Seifur – æðsti guðinn

Hefaistos – eldguðinn

Hermes – boðberi guðanna

Artemis – veiðigyðjan

fluga á grísku. Héðan kemur sömuleiðis nafnið sítrónumelissa, en það er safaríkt blóm sem lokkar gjarnan til sín býflugur. Það var síðan syni Appóllóns, Aristaios, að þakka að venjulegir dauðlegir menn komust í kynni við hunangið. Hann var alinn upp af dísum sem kenndu honum allt sem þær kunnu um býflugnarækt, ostagerð og ræktun ólífutrjáa. Aristaios færði mannfólkinu

síðan þessa þekkingu. Það er honum að þakka að Grikkir fengu sem sagt ekki bara hunang heldur líka ólífur og fetaost, nokkuð sem Grikkland er þekkt fyrir enn þann dag í dag.

27


Mynd XIV

ALEXANDER MIKLI

F

yrir tilstilli hunangsins gat fólk til forna litið vel út – burtséð frá því hvort það var lífs eða liðið. Alexander mikli, hinn þekkti leiðtogi Grikkja frá því um 300 fyrir Krist, varð einungis þrjátíu og tveggja ára. Samt tókst honum á sinni stuttu ævi að leggja undir sig hálfan þann heim sem gömlu Grikkirnir þekktu og skapaði þannig eitt stærsta heimsveldi sögunnar. Því miður end-

28

aði hann ævina í einni af herferðum sínum til Babýlon, meira en tvö þúsund kílómetra frá heimalandinu sem sagt. Til að verja líkið gegn rotnun á langri heimleiðinni var því sökkt í hunang. Á fyrstu öld eftir Krist var Poppaea, kona rómverska keisarans Nerós, vön að baða sig í ösnumjólk og smyrja húðina með hunangi til að verjast hrukkum og gera húðina mjúka og hvíta. Að


Mynd XV

POPPAEA

sögn ­Pliniusar eldri, rómversks sagnfræðings frá þessum tíma, fékkst mjólkin úr fimm hundruð asnamerum sem fylgdu Poppaeu á öllum ferðum hennar. Hversu áhrifaríkar þessar fegurðarmeðferðir hennar hafa verið vitum við ekki, en rómverskir sagnaritarar voru á einu máli um að keisaraynjan hefði verið óvenju falleg. Þá ber að líta til þess að enginn hefði þorað að segja neitt annað

um eiginkonu miskunnarlauss keisara á borð við Neró. Aukinheldur dó Poppaea aðeins þrjátíu og fimm ára að aldri, löngu áður en einhverjar hrukkur fóru að plaga hana.

29


Mynd XVI

SLAVARNIR

M

eðal Slava (forfeðra meðal annars Pólverja og Rússa) skipaði hunang mikilvægan sess í trú og siðareglum fólks. Úr því brugguðu menn mjöð, áfengan drykk sem drukkinn var við öll hátíðleg tækifæri, enda var Pereplut, guð vatnsins, dansins, mjaðarins og ölsins, verndari stórra hátíða. Um Jónsmess­ una helltu menn miði bæði á eldinn og ofan í sig. Í slavneska bænum Arkona á

30

eyjunni Rügen hellti presturinn árlega miði í drykkjarhorn sem risastór stytta af guðinum Svetovid hélt á. Ef hornið hélst fullt allt árið þýddi það að von var á góðri uppskeru næsta ár. Við hátíðahöld hinna dauðu skenktu menn þeim framliðnu líka mjöð svo þeir handan grafar gætu líka notið þess að smakka. Þegar kristni ruddi sér til rúms sem trúarbrögð fengu býflugnaræktendur nýjan


Mynd XVII

HINN HEILAGI AMBRÓSÍUS

verndara: heilagan Ambrósíus, Rómverja sem var uppi á fjórðu öld. Eftir því sem sagan segir öðlaðist hann ást býflugna þegar á unga aldri. Eitt sinn þegar hann lá og svaf komu þær fljúgandi og settust á munn hans. Þær stungu hann ekki heldur sátu bara þarna og skildu eftir eilítið hunang handa honum þegar þær fóru. Það töldu menn til marks um að Ambrósíus yrði mikill mælskumaður

seinna meir og á fullorðinsárum varð hann einmitt þekktur fyrir predikanir sínar og ræður. Hann varð erkibiskup yfir Mílanó þrjátíu og fjögurra ára gamall og einn af æðstu mönnum kirkjunnar. Var hann tekinn í dýrlingatölu eftir dauða sinn. Það heyrði hins vegar ekki til tíðinda í fjölskyldu hans, því systkini hans, þau Marselína og Satýrus, urðu líka dýrlingar. 31


Mynd XVIII

NAPÓLEON OG JÓSEFÍNA

Þ

rátt fyrir að býflugur hafi almennt verið í miklum metum hjá fólki koma þær sjaldan fyrir á innsiglum og í skjaldarmerkjum. Þar sjást frekar ernir, ljón og birnir – það er að segja hættuleg dýr sem ekki eru eins iðin og bý­ flugurnar. Napóleon Frakkakeisari, sem var uppi kringum aldamótin 1800, var

32

þó einn þeirra sem kunnu að meta býflugurnar. Hann gerði þær meira að segja að táknmynd Frakklands. Hugmyndina fékk hann frá konunginum Childerik I, sem hafði ríkt yfir ríki Franka (fyrirrennara Frakklands) þrettán hundruð árum áður. Í gröf hans höfðu menn fundið um það bil þrjú hundruð glæsilega útskorn-


ar býflugur úr gulli. Við krýningu sína í Notre-Dame-dómkirkjunni í París vildi Napóleon undirstrika með skýrum hætti tengsl sín við þennan forna konung og þess vegna báru bæði hann og keisaraynjan Jósefína stórkostlega möttla með gullbróderuðum býflugum á. Þessar litlu gullbýflugur hentuðu líka fullkomlega

til að leysa af hólmi litlu gullliljurnar sem áður höfðu prýtt ríkisvopn Frakka. Liljurnar voru nefnilega tákn Búrbónanna sem ríkt höfðu á undan Napóleon og hann vildi ekki láta bendla sig við. Liljur Búrbónanna hurfu því af öllum opinberum innsiglum og byggingum og býflugur Napóleons komu í þeirra stað. 33


FRÓÐLEIKSMOLAR UM BÝFLUGUR DDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDD

Meistarar frjóberanna

Vængir sem fiðlustrengir

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hefur tekið saman lista yfir hundrað ræktaðar plöntur sem í sameiningu standa undir níutíu prósentum af öllum matvælum heimsins. Býflugur, aðallega villtar tegundir, sjá um að frjóvga rúmlega sjötíu þessara plantna.

Þegar býfluga blakar vængjum sínum á flugi fer loftið í kringum hana að titra og til verður suðið sem við heyrum. Því hraðar sem þær blaka vængjunum þeim mun hærra hljóð heyrist. Sá

Dagsverk býflugunnar

sem er með fullkomna tónheyrn getur metið út frá hljóðinu hversu hratt flug-

Á einum degi fara sóknarflugurnar meira en hundrað og fimmtíu þúsund ferðir til að leita að blómsafa og frjókornum.

an blakar vængjunum. Þetta sama gildir um strengjahljóðfæri; því hraðar sem strengirnir titra þeim mun hærra verður hljóðið.

Eitt kíló af hunangi Frá blómi til blóms Þegar býfluga fer hratt yfir nær hún að heimsækja fimmtán til tuttugu blóm á innan við mínútu. Það er meðal annars þess vegna sem býflugurnar eru jafnötulir frjóberar og raun ber vitni.

Til að framleiða eitt kíló af hunangi verða býflugurnar að heimsækja margar milljónir blóma og fljúga samtals um hundrað og fimmtíu þúsund kílómetra. Það er um það bil ein hringferð um jörðina. DDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDD

Hversu mikið getur ein býfluga borið? Ein býfluga getur borið blómsafa allt að hálfri eigin líkamsþyngd. En hversu hart verður býflugan þá að leggja að sér til að safna þessu magni af safa? Það fer eftir ýmsu. Ef býflugan kemur að blómi með óvenjumiklum safa getur hún „fyllt á tankinn“ í einni ferð. Ef hún hefur bara um smáblóm að velja, sem innihalda lítinn safa hvert, verður býflugan að vera lengur að. Bandarískur vísindamaður ákvað að fylgjast með býflugu að störfum úti á akrinum. Í ljós kom að þegar býflugan sneri aftur heim í búið hafði hún heimsótt fjórtán hundruð fjörutíu og sex blóm á minna en hundrað og sex mínútum. Magn safans í safahólfi býflugunnar var líka ótrúlega mikið – það samsvaraði frá tíunda hluta upp í þriðjung af þyngd býflugunnar. 34

Hvaðan koma býflugurnar? Áður en mennirnir uppgötvuðu hvernig býflugur fjölguðu sér voru alls kyns kenningar á kreiki um það hvaðan þær kæmu. Í fræðibók frá þrettándu öld, Li livres dou tresor eftir Brunetto Latini, er því haldið fram að býflugur verði til í rotnandi holdi nautgripa. Höfundurinn bætir því við að geitungar verði á sama hátt til í holdi dauðra hesta og stórar humlur í holdi dauðra múldýra. Latini taldi að vegna þessa væru býflugurnar alltaf „hreinar og flekklausar“ enda færar um að fjölga sér án kynmaka.

Engiferkaka með hunangi Innihald 280 g hveiti 200 g smjör 120 g flórsykur örlítið salt 100 g sultað engifer 1 msk þurrkað engifer 1-2 cm rifið engifer (valfrjálst) u.þ.b. 5 msk hunang Aðferð D Blandaðu öllu saman nema hunanginu og hnoðaðu í deig. D Mótaðu deigið í rúllu sem er um það bil sex sentimetrar í ummál, vefðu hana inn í matarfilmu og settu hana í ísskáp í nokkra klukkutíma (helst yfir nótt). D Skerðu kalt deigið í um það bil fimm millimetra sneiðar og leggðu þær á bökunarpappír á ofnplötu. D Bakaðu kökurnar í um það bil korter við hundrað og áttatíu gráða hita. D Láttu þær kólna, smyrðu síðan hunangi á þær og settu tvær og tvær saman. (Uppskriftin er úr bókinni Alfabet ciast eftir Zofiu Różycka.)


Teskeið af hunangi Til að framleiða eina teskeið af hunangi verða fjórar til sjö býflugur að vinna þindarlaust við safasöfnun eitt æviskeið. (Sjá mynd III).

Býflugur hinum megin á hnettinum Í Ástralíu og Norður-Ameríku var upprunalega engar hunangsbýflugur að finna, það voru hvítu landnemarnir frá Evrópu sem komu með þær með sér. Hins vegar höfðu ýmsar tegundir annars konar býflugna fundist þar frá örófi alda. Maya-indíánarnir í Suður-Ameríku höfðu fengist við býflugnarækt löngu áður en Evrópumenn komu þangað. Þeim hafði tekist að halda litlar býflugur af tegundinni Melipona í eins konar býflugnabúum. Auk þess að gefa af sér hunang höfðu þessar flugur þann kost að hafa engan brodd.

Dansandi býflugur

DDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDD

Veður fyrir hunangsdögg Það veltur á veðri hvort hunangsdögg er að finna á barrtrjám (sjá mynd XXX) og oftast er hana einungis að finna í stuttan tíma, en það þarf ekki nema nokkra góða veðurdaga til að eitt býflugnasamfélag nái að safna tíu til fimmtán kílóum af hunangsdögg.

Á mynd V geturðu lesið um hvernig könnunarflugurnar segja frá blómunum sem þær hafa fundið með því að dansa, en býflugurnar nota líka dansinn í öðrum samskiptum. Ef eitthvað eitrað berst inn í búið gera býflugurnar vart við það með varúðardansi. Þá ganga þær sikksakk eða í spíral og hreyfa afturbolinn út

Þar sem mjólk og hunang drýpur af hverju strái

á hlið. Það kemur líka fyrir að þerna verður útötuð í einhverju og þarf aðstoð við að þrífa sig. Þá tvístígur hún, hreyfir afturbolinn út á hlið og lætur líkamann síga og rísa til skiptis í sérstökum þvottadansi. Sú býfluga sem næst er dansaranum kemur þá til aðstoðar. Þá hættir dansarinn dansinum og fellir vængina að líkamanum svo hin flugan geti hafist handa

við þrifin. Sveifludansinn, líka kallaður gleðidansinn, er stiginn með því að hreyfa afturbolinn snöggt upp og niður. Oft heldur dansarinn annarri býflugu milli framfótanna. Sveifludansinn segir hinum býflugunum hvenær best sé að safna fæðu. Með aðstoð þessa dans geta býflugurnar stundum haft áhrif á hegðun drottningarinnar, þær geta til dæmis fengið hana til að hætta við að drepa ungdrottningar eða fengið hana til að fara í makaleit.

Að stinga fjandmanninn

Á miðöldum voru býflugur stundum notaðar í stríði. Þegar setið var um bæ eða borg gat það gerst að heimamenn köstuðu býflugnabúum niður á umsátursmenn. Reiðar býflugur voru mjög áhrifarík vopn gegn óvinveittu riddaraliði, því þegar hestarnir urðu fyrir stungum býflugnanna hættu þeir að hlýða þeim sem á baki sat.

Í Biblíunni er hunang talið meðal merkustu fæðutegunda. Landinu sem Guð hafði lofað Ísraelum er margsinnis lýst sem landi „þar sem mjólk og hunang drýpur af hverju strái“, sem sagt land þar sem gnótt er af mat. Í Gamla testamentinu er hunang nefnt, ásamt með mjólk, matarolíu og klæðnaði, sem einn þeirra hluta sem „eru mikilvægustu nauðsynjar sérhvers manns“. Í Biblíunni má líka lesa um ævintýri hins sterka Samsonar með býflugunum. Dag nokkurn rakst hann á ljón, en veslings dýrið hafði ekki hugmynd um hvern það átti í höggi við og réðst til atlögu. Samson reif ljónið í tætlur með berum höndum og skildi hræið eftir við veginn. Þegar hann kom aftur þangað skömmu síðar tók hann eftir því að býflugur höfðu byggt sér bú í ljónshræinu. Þá tók hann svolítið hunang með sér heim til foreldra sinna.

DDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDD

Karlkyns eða kvenkyns? Hér áður fyrr áttu vísindamenn í miklum erfiðleikum með að ákvarða kyn býflugna. Gríski heimspekingurinn Aristóteles, sem var uppi á fjórðu öld fyrir Krist, áttaði sig á að drottningin væri mikilvægasti einstaklingurinn í búinu en vissi ekki að hún verpti eggjunum. Þess vegna hélt hann að drottningin væri karldýr og kallaði hana konungsfluguna. Hann var þó í vandræðum með vinnuflugurnar; annars vegar sáu þær um heimilið og börnin og virtust því vera kvenkyns en á hinn bóginn voru þær líka vopnaðar (með brodd), sem heimspekingurinn taldi einkennandi fyrir karlkyn. Kínverskir fræðimenn féllu líka í þessa gildru. Þeir álitu drottninguna sömuleiðis vera „konung“ og drónana kvenflugur þar sem þeir sjá ekki um að fara út að safna blómsafa heldur sjá um heimilið, sem fræðimennirnir voru sannfærðir um að væri hlutverk kvenflugnanna.

Að hlýða kalli náttúrunnar Um leið og fer að hlýna á vorin fara býflugurnar út í fyrstu flugferð ársins. Ferðin tekur um hálftíma og meginmarkmið hennar er að kúka á flugi! Býflugurnar gera þarfir sínar nefnilega ekki inni í búinu þannig að þær verða að halda í sér allan veturinn. 35


Mynd XIX

BÝFLUGNARÆKT Í TRJÁM

F

yrir mörg þúsund árum, þegar næstum öll Evrópa var skógi þakin, safnaði fólk hunangi á sama hátt og birnir. Það fann sér tré holt að innan þar sem villibýflugur höfðu byggt sér bú, klifraði upp í það og hirti vaxkökurnar. Samtímis eyðilagði það búið. Birnirnir hafa haldið sig við þessa aðferð, en fyrir kannski tvö þúsund árum áttuðu mennirnir sig á því að betra væri að taka upp samvinnu við býflugurnar til að afla sér hunangs. Menn töldu eftir sem áður að skógurinn væri besti staðurinn fyrir býflugurnar þannig að þeir komu ekki upp neinum búum í nágrenni heimila sinna heldur hjuggu stórar holur í trén og

36

lokkuðu býflugurnar til að setjast þar að. Þetta var kallað býflugnarækt í trjám og var algengt meðal annars í Þýskalandi, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum. Til að enginn stæli hunanginu eða truflaði býflugurnar hjuggu menn holurnar hátt uppi í trjánum, í milli fimm og fimmtán metra hæð. Opið var bara tíu sentimetra breitt og þrjátíu og fimm sentimetra djúpt. Fyrir þetta þurfti tréð að vera gamalt og bolurinn grófur, þannig að oftast notuðu menn furutré eða eikartré. Svo var holan hulin að mestu með spýtu þannig að einungis var örlítið gat fyrir býflugurnar. Við hlið holunnar skar býflugnaræktandinn fangamark sitt


svo ekki færi á milli mála hver ætti þessar flugur. Til að auðvelda sér vinnuna í þetta mikilli hæð bundu menn reipi utan um trjástofninn. Í þau festu þeir svo fjalir til að sitja á og gerðu lykkjur til að stíga í og auðvelda sér klifrið. Býflugnaræktandinn tók ekki allt hunangið frá býflugunum og eyðilagði ekki búið, svo býflugnasamfélagið gat þrifist áfram og komið fólkinu að gagni árum saman. Býflugnaræktandinn hreinsaði líka til í búinu og verndaði það fyrir kulda og gráðugum rándýrum. Björninn var vitanlega þekktasti hunangsþjófur skógarins en menn leystu það í snatri: Þegar birninum tókst loks að komast upp í tréð

hékk iðulega trédrumbur í bandi fyrir innganginum að búinu. Til að komast að búinu varð björninn að banda drumbinum frá en hann sveiflaðist bara til og kom aftur á fullri ferð og lenti á óboðna gestinum. Og fyrr eða síðar varð þetta til þess að björninn féll niður.

37


Mynd XX

LÖGMÁL SKÓGARINS

B

ýflugnarækt var fólki afar mikilvæg öldum saman og þar af leiddi að býflugnaræktendur voru í hávegum hafðir. Sömuleiðis var talið áríðandi að þeir væru heiðarlegt og gott fólk – að öðrum kosti færi ræktunin forgörðum. Þess vegna voru býflugnaræktendur álitnir sérstaklega heiðvirðir menn. Engu að síður kom upp ágreiningur af og til og hann varð að leysa fyrir sérstökum

38

býflugnadómstóli. Í Póllandi voru þannig fyrr á öldum til sérstök lög um býflugnarækt sem komu til kasta dómstólsins. Þetta voru ströng lög sem meira að segja kváðu á um dauðadóm fyrir að stela býflugum úr búi annars manns. Sá sem framdi slíkt afbrot var dæmdur til hengingar. Ef brotamaðurinn hafði framið marga glæpi var refsingin enn grimmilegri. En það voru ekki bara menn


sem fengu að gjalda það dýru verði að stela hunangi. Birnir sem duttu niður úr trjám í tilraun til að ræna hunangi voru ekki alltaf svo heppnir að lenda í mjúkum mosa; oft lentu þeir á hvössum trjágreinum eða tálguðum pinnum sem komið hafði verið fyrir kringum tréð. Þannig gat býflugnaræktandinn auk hunangsins komið með bjarnarfeld, bjarnarkjöt og bjarnarfitu með sér heim úr

skóginum. Með árunum ruddu menn æ stærri skógarsvæði til akurræktunar. Samtímis varð sífellt vinsælla að rækta býflugur í sérstökum býflugnabúum. Um aldamótin 1900 var býflugnarækt í trjám að mestu úr sögunni.

39


Mynd XXI

BÝFLUGNABÚIÐ 7

3

4 9

N

ú á tímum lítur manngert býflugnabú oftast út eins og lítið hús. Á því er þak (1) og það hefur veggi (2), því rétt eins og mannfólkinu er býflugum illa við kulda og vætu. Húsið er síðan einangrað með hálmi (3), steinull eða einangrunarplasti. Inni í miðju vel einangruðu býflugnabúi getur verið allt að þrjátíu og fjögurra gráða hiti, jafnvel að vetrarlagi. Þessi hönnun verndar býflugnasamfélagið sömuleiðis fyrir sumarhitum. Býflugurnar fljúga út og inn úr 40

búinu gegnum þar til gerð op (4). Opin sjá líka til þess að halda loftinu inni í búinu á hreyfingu. Auk þess halda býflugurnar sig gjarnan nærri opunum og blaka vængjunum til að bæta loftræstinguna enn frekar. Inni í búunum mynda býflugurnar vaxkökurnar í sérstökum römmum (5). Þá er settur sérstakur milliveggur inn í rammann (6). Þetta eru flatar vaxplötur sem sexhyrnt mynstur hefur verið mótað í. Vinnubýflugurnar byggja síðan veggi búsins ofan á þessar


8

5 6

1

2

plötur, á sama hátt og menn byggja hús sín á þar til gerðum grunni. Fyrir vikið er auðvelt fyrir býflugnaræktandann að draga rammann út (7) og slengja hunangið úr honum. Ræktandinn rannsakar reglulega þá ramma sem innihalda egg, lirfur og hunang til að fylgjast með ástandi búsins. Oftast eru rammarnir aðskildir með sérstökum listum (8) úr viði eða málmi, ellegar með sérstökum nöglum. Þannig myndast holrými sem gerir býflugunum kleift að hreyfa sig frjálst á milli

rammanna (9). Sumum hlutum búsins þarf að breyta eftir árstíðum. Á vorin og sumrin þegar sóknarbýflugurnar eru sem flestar stækka menn inngangsopin til að koma í veg fyrir öngþveiti utandyra. Þá bæta menn líka við römmum undir þaki búsins til að býflugurnar geti safnað meira hunangi. Á veturna er svo hægt að minnka inngangsopin til að koma í veg fyrir að kalt loft berist inn og til að hindra mýs eða aðra óboðna gesti í að komast inn í búið. 41


Mynd XXII

KLÆÐNAÐUR OG VERKFÆRI BÝFLUGNARÆKTENDA

2

4

3

6 5

1

16

8

15

Á

ður en farið er að fást við býflugur verður maður að klæðast fötum sem þola stungur. Best er að klæðast samfestingi (1) úr léttu náttúruefni í ljósum lit. Stöðu­ rafmagn myndast iðulega í fötum úr gerviefnum en það getur espað býflugurnar upp. Þeim líkar sömuleiðis illa við loðinn fatnað – kannski tengja þær hann við bjarnarfeld eða önnur óæskileg dýr! Fötin verða að vera þröng um úlnliði og ökkla eða þá að sokkar eða hanskar eru hafðir utan yfir. Sá sem hefur einu sinni fengið býflugu inn

42

á sig veit hvers vegna. Hattur með neti (2) verndar höfuð og háls og þykkir hanskar (3) verja hendurnar. Líkt og í mörgum starfsgreinum notar býflugnaræktandinn mörg sérhæfð verkfæri við vinnu sína. Ósarinn (4) er notaður til að blása reyk inn í býflugnabúið. Maður setur til dæmis þurran viðarspæni eða sag í ósarann og kveikir í. Reykurinn gerir það að verkum að býflugurnar missa lyktarskynið um stundarsakir. Þá skynja þær ekki viðvörunaranganina sem varðbýflugurnar senda frá sér og ráðast


14

9

10

13 12

18

17

7

11

ekki til atlögu við býflugnaræktandann sem opnar búið. Sérstakur hnífur (5) er notaður til að skilja rammana (6) frá rammalistunum (7), sem eru fastir saman með vaxi. Svo strýkur maður býflugurnar varlega af rammanum með mjúkum bursta (8). Maður notar skrælgaffalinn (9) og vaxhnífana (10, 11) til að losa lokið af vaxkökunni til að komast að hunanginu. Römmunum er síðan komið fyrir í skilvindu (12), þar sem þeir snúast í hringi eins og í hringekju. Þá rennur hunangið úr vaxkökunni, á svipaðan hátt

og vatn pressast úr fötum í þeytivindu. Hunangið er svo sigtað gegnum hunangssigti (13, 14) þar sem það sem eftir er af vaxkökunni situr eftir og er síðan hellt í brúsa (15, 16). Síðan má koma tómu vaxkökunum aftur fyrir í búinu eða þá bræða þær niður í sérstöku bræðslutæki (17). Þar eru þær hitaðar upp þangað til vaxið bráðnar. Svo er nýjum milliveggjum komið fyrir í tómu römmunum. Til að þeir sitji vel fastir eru þeir stundum festir á litla króka innan á rammanum með sérstöku upphituðu hjóli (18).

43


Mynd XXIII

BÝFLUGNARÆKTENDUR AÐ STÖRFUM

V

issulega tekur býflugnaræktandinn hunangið frá býflugunum en hann hugsar líka vel um flugurnar sínar. Nákvæmlega eins og húsvörður sér býflugnaræktandinn til þess að búið sé í góðu standi þannig að alltaf sé þurrt og hlýtt hjá íbúunum, góð loftræsting og hreint. Hann fylgist með líðan býflugnanna og bætir við römmum sem þær geta notað til að safna í meira hunangi eða til að ala upp ungviði. Það er afar mikilvægt að fylgjast grannt með býflugunum 44

og vera á varðbergi gegn sjúkdómum. Á vorin hlustar býflugnaræktandinn búið á sama hátt og læknir rannsakar sjúkling. Hægt er að hlusta gegnum lítið rör eða bara leggja eyrað þétt að búinu. Rólegt og reglubundið suð þýðir að býflugunum líður vel. Hávært suð getur verið merki um fæðuskort og grafarþögn gefur til kynna að flugurnar hafi ekki lifað veturinn af. Í lok sumars breytist býflugnaræktandinn oft í kokk sem matar litlu býflugurnar sínar með sykur-


upplausn til að fylla á hunangsbirgðirnar. Annars er hætta á að matur flugnanna dugi ekki allan veturinn. Þegar þörf er á getur býflugnaræktandinn líka útbúið mauk úr hunangi, sykri og frjókornum. Þar fyrir utan er ræktandinn varðmaður býflugnanna, framkvæmdastjóri og stundum bílstjóri (sjá mynd XXX). Þessu má líkja við hvernig bóndi hirðir kýr sínar eða grísi. Þó er stór munur á: Býflugnaræktandinn heldur dýrunum sínum ekki föngnum. Það er

ekki hægt að loka býflugur inni eða tjóðra þær. Þrátt fyrir að þær hafi umgengist menn í þúsundir ára eru þær enn hálfvilltar og fljúga þangað sem þeim sýnist. Mennirnir verða sem sagt að sjá til þess að býflugurnar, og sérstaklega drottningarnar, séu ánægðar. Ef sú er ekki raunin geta þær hvenær sem er farið að leita sér að hentugri bústað (sjá mynd VI).

45


Mynd XXIV

MISMUNANDI BÝFLUGNABÚ 1

2

3

10

8

7

9

11

15

G

egnum tíðina hafa menn byggt mismunandi býflugnabú á mismunandi stöðum um heiminn. Einfaldasta útgáfan var að höggva hluta af trjábol þar sem býflugnasamfélag hafði tekið sér bólfestu (sjá bls. 36). Það var kallað býflugnabolur. Honum var síðan komið fyrir skammt frá heimilinu þannig að ekki var lengur þörf á að fara út í skóg eða klifra upp í tré til að ná í hunang. Það eina sem þurfti var að setja þak úr tré eða hálmi á bolinn. Þessir

46

16

17

býflugnabolir gátu hvort heldur sem var verið uppréttir (15, 17) eða liggjandi (8). Á svæðum þar sem lítið var um tré notuðu menn frekar leirkrukkur sem býflugnabú (2, 3, 7, 10, 16). Annars staðar fléttuðu menn bú úr hálmi, trjákvistum eða tágum pálmablaða. Í Evrópu voru hálmbú algeng, svokölluð kransbú (5, 18, 20). Menn gerðu lítil göt fyrir flugurnar á hliðunum og býflugnaræktandinn varð að lyfta öllu búinu upp til að komast að vaxkökunum. Í Baska-


4

5

6

12 14

13

18 landi byggðu menn býflugnabú með því að flétta saman greinar sem voru síðan þéttar með kúamykju. Þegar hún þornaði voru veggir búsins þéttir og fínir. Í sumum hlutum Afríku notast menn enn þann dag í dag við aflöng rörlaga býflugnabú. Samkvæmt gamalli hefð eru þau fléttuð saman úr tágum pálmablaða ellegar maður klæðir holan trjábol að innan með hálmi og hengir hann hátt upp í tré svo villibýflugur geti flutt inn. Það var ekki fyrr en á síðustu öld sem menn

19

20

fóru að byggja tunnulaga býflugnabú (12) eða kassalaga (4, 6, 14, 19). Í dag er viður enn algengasta byggingarefni býflugnabúa þótt bú úr plasti og málmi (13) verði æ algengari.

47


Mynd XXV

ÓVENJULEG BÝFLUGNABÚ 1

2

3

7

9

8

F

ólk sem byggir býflugnabú hefur oft reynt að búa til eitthvað sem er bæði fallegt og hefur notagildi. Það skipti býflugurnar minna máli hvort þær byggju í einföldu timburhúsi eða í alvörulistaverki en fólkinu fannst prýði að fallega hönnuðum býflugnabúum og sumir töldu slíkt lánsmerki fyrir býflugnabúgarðinn.

48

Fyrr á árum í Póllandi voru styttur iðulega reistar sem býflugnabú. Í sjálfu sér má kalla þetta tréskúlptúra með rými fyrir býflugur innan í. Sumar af þessum styttum voru af trúarlegum toga og voru álitnar vernda búgarðinn gegn óhöppum. Þetta gátu verið býflugnabú sem táknuðu mismunandi dýrlinga; heilagan Ambrósíus,


5

4

6 12

11

10

verndardýrling býflugnaræktenda (3), og heilagan Fransiskus, verndara dýra (9), en jafnvel Jesú (1) eða engla (7). Sömuleiðis Adams og Evu (8). Djöflar komu líka við sögu (12), einsetumenn (5), hermenn (10), skógarverðir (4), fjárhirðar (11) og dvergar (2). Í sumum tilvikum gat býflugnabúið hreinlega litið út eins og

hættulegur björn (6). Kannski héldu menn að hann myndi fæla alvörubirni á brott! Hvað sem öðru líður höfðu býflugurnar sem flugu inn og út um maga bjarnarins mikil áhrif á þá sem sáu styttuna. Á safni í pólska bænum Kluczbork er að finna stórkostlegt samsafn af býflugnabúum í styttuformi. 49


Mynd XXVI

BÝFLUGNARÆKT Í EÞÍÓPÍU

S

umar þjóðir Afríku safna enn hunangi á sama hátt og forfeður þeirra gerðu: Í Eþíópíu koma menn tómum býflugnabúum fyrir hátt uppi í tré til að villibýflugur geti flutt inn og yfirleitt þarf ekki að bíða lengi því býflugurnar á þessum slóðum yfirgefa oft bú sín til að leita að betri samastað. Vandi steðjar fyrst að þegar kemur að því að ná í hunangið. Afrískar býflugur eru oft tals-

50

vert árásargjarnar og verja bú sín af mikilli einurð. Þessu veldur eflaust slæm reynsla þeirra af mannfólki. Í Afríku hafa menn rænt og eyðilagt býflugnabú í þúsundir ára og þess vegna hafa kannski bara árásargjörnustu flugurnar lifað af. Í Eþíópíu koma menn býflugunum að óvörum á næturnar, þegar þær sjá ekki sérlega vel. Það eina sem lýsir í myrkrinu er tunglið og blysin sem fólk-


Mynd XXVII

BÝFLUGNARÆKT Í KAMERÚN

ið notar til að svæla út íbúa búsins. Í Kamerún nota menn aðra aðferð; þar klæðast þeir sem safna hunanginu undarlegum fatnaði gerðum úr viðartágum vegna þess að trjákvoðan kvað fæla býflugurnar frá. Það er nefnilega algengt að fólk ræni býflugnabú hátt uppi í holum trjástofnum. Til að komast upp í tíu til tuttugu metra hæð byggja menn vinnupalla úr afhöggnum trjágreinum sem

bundnar eru saman með tágum úr pálmaviði. Síðan stækka menn opið með öxi þannig að auðveldara sé að draga vaxkökurnar út í heilu lagi. Í Kamerún og Eþíópíu borða menn hunangið og næringarríkar býlirfurnar sömuleiðis.

51


Mynd XXVIII

BÝFLUGNARÆKT Í ASÍU

Í

suðurhluta Asíu er til býflugnategund sem kölluð er risabýfluga. Það er kannski fullmikið í lagt að kalla þessar flugur því nafni því þær eru ekki lengri en tveir sentimetrar en vissulega eru þær mun stærri en evrópsku býflugurnar. Hér eru bú tegundarinnar mjög stór og samanstanda af einni risastórri vaxköku. Hún getur verið allt að metri á lengd og innihaldið tugi kílóa af hunangi. Risabýflugurnar búa ekki í holum trjám eða býflugnabúum held-

52

ur byggja þær vaxkökurnar sínar utanhúss og festa þær við trjágreinar eða í klettaskorum. Vinnuflugurnar verja búið gegn kulda og hunangsþjófum með eigin líkömum. Vaxkakan er stöðugt þakin þykku lagi af fullorðnum býflugum sem eru sífellt til í slaginn. Risabýflugurnar fela sig sem sagt ekki inni í búum heldur sjá sjálfar um að fela þau. Engu að síður verða þau oft mannfólki að bráð. Hunangsveiðimenn hafa í hundruð ára, oft með lífið að veði, klifrað upp


í há tré og upp klettaveggi, ellegar þeir hafa hangið í línum eða kaðalstigum yfir hyldýpinu. Þeir stökkva svo býflugunum á flótta með reyk áður en þeir skera vaxkökuna lausa í heilu lagi og hafa hana á brott með sér. Þetta er eina leiðin til að krækja sér í hunang frá risabýflugunum vegna þess að það hefur aldrei tekist að temja þær. Þær neita ekki bara að búa í býflugnabúum heldur flytja þær búferlum eftir árstíðum eins og farfuglar. Áður en regntíminn hefst yfirgefa

þær gömlu búin sín og fljúga til svæða þar sem fleiri blóm er að hafa. Stundum geta þær flogið allt að tvö hundruð kílómetra með örstuttum stoppum til að safna fæðu. Þegar þær koma á leiðarenda byggja þær sér ný bú áður en þær snúa aftur á gamla staðinn þegar regntíminn er á enda.

53


Mynd XXIX

BESTU VINIR BÝFLUGNANNA Greni Appelsína

Ylliberjablóm

Smári Fuglatré

Reyniviður

Mustarður Majoram

Beitilyng

J

Garða­ kornblóm

Broddkúmen Laukur

urtir sem framleiða mikinn blómsafa eða frjókorn draga býflugurnar að sér. Þetta geta verið tré á borð við ylliberjarunna og fuglatré eða ræktaðar jurtir á borð við repju og bókhveiti. Sumar jurtir sem menn rækta ekki gjarnan eru býflugunum líka mikilvægar. Þær eru til dæmis ákaflega sólgnar í gullgras, sem vex á óræktuðu landi og telst illgresi. Steinsmári og majoram framleiða sérlega mikinn blómsafa. Af einum hektara af ræktuðu majorami má fá yfir fimm

54

Selja

hundruð kíló af hunangi. Ef maður sáði steinsmára á venjulegan fótboltavöll myndi hver leikmaður hvors liðs fá tíu stórar hunangskrukkur í lok leiktíðar – og þá væri samt enn afgangur fyrir dómarana og varamennina. Annars sækja býflugur í alls kyns jurtategundir. Á Nýja-Sjálandi má fá hunang af blómum manukarunnans og í Bandaríkjunum af tré sem kallast túlípanatré. Í Ástralíu er tröllatrjáahunang algengt og appelsínuhunang má finna í mörgum heitum


Kastaníutré

Hunangsjurt

Gullgras

Blóðberg

Túlípanatré

Eldaldin

Anís

Túlípanatré

Mustarður

Lofnarblóm

löndum. Blómsafi sumra jurta getur verið eitraður fólki, til dæmis safi sumra tegunda lyngrósa og ljósalyngs. Býflugurnar eru ónæmar fyrir eitrinu svo þær framleiða hunang úr safanum án þess að hafa áhyggjur af því en hunangið fer illa í fólk. Það má líka framleiða hunang úr hunangsdögg, sem er safi sem til dæmis blaðlýs skilja eftir sig. Lýsnar sjúga í sig blómsafa, sem inniheldur aðallega vatn og sykur en sömuleiðis örlítið prótín. Lýsnar sækjast fyrst og fremst

Tröllatré

Manuka

Rósmarín

eftir prótíninu þannig að þegar þær hafa drukkið safann skilja þær eftir sykurríka dropa á blöðum trésins og greinum. Á grenitrjám má finna sérstaklega mikið af hunangsdögg. Það hunang sem framleitt er úr þessu kallast blaðhunang – enn eitt dæmi um að ekkert fer til spillis í náttúrunni.

55


Mynd XXX

BÝFLUGUR Á FERÐ OG FLUGI

B

ýflugur nenna sjaldnast að safna blómsafa og frjókornum úr blómum sem eru í meira en tveggja til þriggja kílómetra fjarlægð frá búinu, annars fer of mikil orka í flugferðina. Fyrir tilstilli mannsins geta sum samfélög býflugna ferðast þúsundir kílómetra á ári. Færanlegir býflugnabúgarðar voru reyndar algengir þegar á tímum Forn-Egypta (sjá mynd XII), en þá fluttu menn býflugnabúin í bátum eftir Níl. Egyptarnir höfðu þennan háttinn á vegna þess að

56

jurtirnar í syðri hluta landsins blómstruðu fyrr en í þeim nyrðri. Siglandi býflugurnar fylgdu einfaldlega blómsturtíma jurtanna. Í dag hefur bátunum verið skipt út fyrir flutningabíla. Í Bandaríkjunum bruna býflugnabúin fram og aftur um hraðbrautirnar í stærðarinnar flutningabílum. Rétt eins og í Egyptalandi hefst ferðalagið snemma vors í suðri, hjá blómstrandi appelsínutrjánum í Flórída eða blómstrandi möndlutrjánum í Kaliforníu. Svo aka býflugnaræktendurnir


norður á bóginn með skjólstæðinga sína. Í nokkra mánuði ferðast býflugurnar um milli ræktunarsvæða þar sem finna má epli, melónur, grasker, ber og smára. Ágóðinn af sölu hunangsins er bara lítill hluti hagnaðarins; stærstur hluti teknanna er greiðslur frá blómaræktendum fyrir frjóvgun blómanna. Þegar möndlutrén blómstra getur býflugnaræktandinn tekið meira en fimmtán þúsund krónur í leigu fyrir eitt býflugnabú. Þess vegna koma þúsundir býflugnabúa hvaðanæva

úr Bandaríkjunum til Kaliforníu í febrúar þrátt fyrir að möndluhunang sé beiskt á bragðið og erfitt í sölu. Færanleg býflugnabú er líka að finna í Evrópu en þau fara ekki jafnlangar vegalengdir og vestanhafs. Til dæmis eru býflugnabú flutt frá repjusvæðum sem blómstrar í maí til svæða þar sem fuglatré blómstra og þaðan til blómstrandi ylliberjarunna eða á akra með bókhveiti, áður en býflugnabúunum er loksins komið fyrir uppi á blómstrandi lyngheiðum í ágúst.

57


Mynd XXXI

FRAMLEIÐSLA HUNANGS OG ANNARRA BÝFLUGNAAFURÐA

Þernur hanga í þaki Þá hækkar líkamshitinn og vax

Þernurnar safna klístraða efninu frá blómknúppum til að framleiða troðkítti.

Inni í búinu skilar sóknarbýflugan safanum til þernu.

Þernurnar koma hunanginu fyrir í hólfum vaxkökunnar.

B

Sóknarbýflugan safnar blómasafa í hunangssarp sinn.

angsímon heldur að býflugurnar búi til hunang bara svo hann geti étið það en í sjálfu sér er hunangið ætlað sem forði fyrir býflugurnar og ungviði þeirra. Hunang er nefnilega afar mikilvæg uppspretta næringar vegna þess að það helst ferskt um langan tíma. Sóknarbýflugurnar flytja blómsafa og hunangsdögg til búsins í líffæri sem kallast hunangssarpur. Þessir sætu dropar eru svo afhentir þernum sem blanda munnvatni sínu saman við þá og geyma í hunangssarpi sínum um skeið þangað til þær skila öllu af sér í hólf vaxkökunnar. Við mannfólkið borðum sem sagt það sem býflugurnar hafa hrækt út

58

úr sér. Í hólfunum gufar vatn upp af óþroskuðu hunanginu. Þernurnar flýta fyrir ferlinu með því að blaka vængjum sínum og koma þannig heitu loftinu á hreyfingu. Þroskað hunang skemmist ekki vegna þess að það inniheldur meiri sykur en vatn og auk þess inniheldur það efni sem vinna gegn bakteríum og sveppagróðri. Sótthreinsandi eiginleikar hunangs hafa verið notaðir í lækningaskyni í þúsundir ára. Gott er að bera hunang á sár því þau gróa fyrr og hætta á sýkingum minnkar. Troðkítti hefur sömuleiðis sótthreinsandi áhrif. Býflugurnar nota troðkíttið til að þétta búið og laga göt sem hafa myndast. Kíttið


búsins og halda fast hver í aðra. fer að drjúpa af afturhluta þeirra.

Þerna matar verðandi drottningu með blómsafa.

Sóknarbýflugurnar snúa aftur til búsins með fullar frjókörfur á fótunum.

Sóknarbýfluga safnar frjókornum frá blómi.

er gert úr mismunandi kvoðu og öðrum klístruðum efnum sem þernurnar hafa safnað frá blómknúppum og græðlingum. Bývaxið, sem myndast í vaxkirtlunum í afturhluta líkama yngri þernanna, er mikilvægasta byggingarefni býflugnanna. Áður fyrr var vaxið líka mikilvægt okkur mannfólkinu. Við framleiddum kerti úr því, notuðum það sem þéttiefni og bárum á hluti til að verja þá gegn raka. Í dag höfum við aðgang að ódýrari gerviefnum í allt þess háttar en bývax er þó enn notað af og til, til dæmis í ýmsar tegundir andlitsfarða. Hunang er ekki eina fæða býflugnanna. Vinnubýflugurnar bera próteinrík frjókorn heim

Þernurnar koma frjókornum fyrir í hólfum vaxkökunnar. til búsins. Þernurnar blanda munnvatni og hunangi saman við það og koma síðan maukinu fyrir í hólfum vaxkökunnar, þar sem frjókornin súrna. Endanleg útgáfa kallast býbrauð og er notuð til að fæða ungviðið, ungar vinnuflugur og drottninguna. Mikilvægasta fæðan er þó fóðursafinn, sem myndast í fóðursafakirtlum þernanna. Hann verður nefnilega fæða nýju lirfanna. Mest fær verðandi drottningin, hún syndir reyndar um í safanum. Stundum nýta menn þennan safa og nota í andlitsfarða eða þá í „töfralyf “. Fram til þessa hefur þó ekki tekist að sýna fram á lækningaeiginleika safans. 59


Mynd XXXII

MISMUNANDI TEGUNDIR HUNANGS OG LOSTÆTI ÚR HUNANGI

Ú

tlit, áferð, bragð og lykt af hunangi er mismunandi eftir því frá hvaða blómum blómsafinn kemur. Bókhveitihunang er til dæmis dökkbrúnt á lit og bragðið snarpt og eilítið brennt. Akasíuhunang er ljósgult eða rjómalitt og milt á bragðið. Af lofnarblóma- og lynghunangi má finna ilm blómanna sem það kemur frá. Þegar laukhunang þroskast hverfur sem betur fer skörp lauklyktin. Það er jafnvel hægt að drekka hunang, en það er bara fyrir þá sem

60

náð hafa tuttugu ára aldri! Mjöður er nefnilega afar gamall áfengur drykkur gerður úr hunangi. Hunangið er þá blandað með vatni og geymt í nokkra mánuði upp í mörg ár. Það gerjast á meðan, þroskast og öðlast sitt sérstaka bragð. Ein dýrasta hunangstegund heims er úr blómum manukarunnans sem vex á Nýja-Sjálandi. Hálfs kílós krukka getur kostað sex þúsund krónur eða meira. Hunang hefur reyndar alltaf verið dýr vara, allt að því munaðarvara.


Þess vegna hefur það víða aðallega verið notað í mat sem snæddur er við hátíðleg tækifæri. Til að mynda var hunang sums staðar notað í piparkökudeig fyrir jólin. Á Möltu borðar fólk um jólin hunangskökur sem mótaðar eru eins og stórar kringlur. Á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum er hunangsskinka hefðbundinn réttur á jólaborðinu. Gyðingar baka sérstaklega mjúka köku fyrir Rosh Hashana, sem er nýárshátíð þeirra. Egyptar borða kökur fylltar með

hunangi, smjöri, sesamfræjum og hnetum við öll hátíðleg tækifæri og talið er að þessa hefð megi rekja aftur til fornaldar.

61


Mynd XXXIII

HUNANGSSÆLKERAR OG AÐRIR ÓVINIR BÝFLUGNANNA 2

3

1

6

10

11

M

enn eru ekki þeir einu sem finnst hunang gott. Mörg dýr kunna líka vel að meta sætt bragðið og ræna iðulega bú býflugnanna. Þetta á til dæmis við um björninn (7), hunangsgreifingjann (9) (sem lifir í Afríku og Suður-­ Asíu) og hauskúpufiðrildið (4). Það flýgur inn í býflugnabúið að næturlagi og stingur gat á lok vaxkökunnar með hvössum broddi sínum og sýgur hunangið í sig. Fleiri fiðrildi (6) éta bývax. Kvendýrið verpir nokkur hundruð eggjum á vaxkökuna. Þegar lirfurnar klekjast út éta þær vaxið, vaxkakan eyðileggst og

62

12

7

ungviði býflugnanna drepst. Afríski hunangsfuglinn (2) lifir á bývaxi en einnig á lirfum og eggjum sem hann finnur í vaxkökunni. Hann á oft í samstarfi við fólk til að finna sér fæðu. Þá vekur hann athygli fólks á sér með fögrum söng og vísar því svo veginn að búi villibýflugna. Fólkið svælir flugurnar út með reyk, opnar búið, tekur hunangið og hunangsfuglinn hirðir afganginn. Þessi samvinna hefur eflaust átt sér stað í þúsundir ára. Það eru líka til dýr sem leggja sér fullorðnar býflugur til munns. Litríkur evrópskur fugl sem kallast býæta getur


4

5

8

9

14

13

hesthúsað um það bil tvö hundruð og fimmtíu býflugur á dag. Grænspætan (5) lítur stundum á býflugnabúið sem vetrarforðabúrið sitt. Hún á auðvelt með að höggva göt á veggi þess með öflugum goggnum. Mörg dýr hafa lært að liggja í leyni við inngang býflugnabúsins; þannig er hægt að næla sér í eina og eina flugu án þess að eiga á hættu að fá allan skarann yfir sig. Þvottabirnir (13) nota til dæmis þessa aðferð, pungrottur (1), skunkar (11), pöddur (8) og flotmeisa (12). Krabbakóngulóin (10) læðist að býflugunum þegar þær heimsækja blóm-

in. Jafnvel geitungurinn (3) étur býflugur. Sum dýr sækja hins vegar inn í býflugnabú til að leita skjóls. Það gerist að maurar flytji inn og mýs (14) gera það stundum á veturna. Óboðnir gestir af þessu tagi valda býflugunum áhyggjum, auk þess sem þeir óhreinka og eyðileggja búið.

63


Mynd XXXIV

BÝFLUGNASTUNGUR

Þ

að eru bara kvendýrin sem hafa brodd, sem sé þernurnar og drottningin (sjá mynd II). Drottningin notar gaddinn sinn einungis til að drepa aðrar drottningar í valdabaráttu innan búsins (sjá mynd VI). Þernurnar nota broddinn til að verja sig – en það er ekki beinlínis hægt að kalla þetta sjálfsvörn því þegar býflugan stingur broddinum í mannshúð eða í önnur dýr með mjúka húð getur flugan ekki dregið broddinn til baka. Broddurinn og hluti af vefjunum kringum rót hans slitna af og býflugan drepst innan tíðar. Hún fórnar með öðrum orðum

64

lífi sínu fyrir býflugnabúið. Býflugustunga er yfirleitt ekki hættuleg mönnum svo framarlega sem fólk er ekki með ofnæmi fyrir býflugnaeitri eða þá að býflugan stingur það í hálsinn eða tunguna og bólgan hindrar öndun. Almennt er svona stunga ekki verri en svo að mann svíður aðeins og getur klæjað. Það eru til margs konar húsráð til að lina sársaukann. Sumir leggja lauksneið, hvítlauk, nípu eða papaja á húðina (eftir að hafa fjarlægt gaddinn). Aðrir bera hunang á auma svæðið eða tannkrem, ellegar blöndu af ediki, matarsóda og salti. Enn


aðrir nota ísmola, græðisúru, aloe vera eða bara tóbak. Ekki er vitað með vissu hvort nokkuð af þessu virkar. Bandaríski blaðamaðurinn Chip Brantley hefur reynt mörg þessara ráða á sjálfum sér. Hann heilsaði upp á kunningja sinn sem er býflugnaræktandi og lét stinga sig í tilraunaskyni. Honum fannst ís og tannkrem virka best á stunguna. Samkvæmt heimsmetabók Guinness er Johannes Relleke frá Simbabve sá einstaklingur sem lifað hefur af flestar býflugnastungur. Eftir að hann varð fyrir árás villtra býflugna árið 1962 voru tvö þúsund fjögur

hundruð fjörutíu og þrír gaddar dregnir úr líkama hans. Það var hins vegar sársaukalaust að slá annað met. Árið 2012 kom Kínverjinn Ruan Liangming nokkrum krukkum með býflugnadrottningum fyrir á líkama sínum og samstundis dreif að býflugur í þúsundavís sem settust á hann. Metið sem hann setti snýr annars vegar að samanlagðri þyngd býflugnanna (sextíu og tvö kíló) og hins vegar hversu langan tíma hann þoldi við í miðju býflugnagerinu (fimmtíu og tvær mínútur og tuttugu og fjórar sekúndur). 65


Mynd XXXV

BÝFLUGUR Í HÆTTU OG HANDFRJÓVGUN

N

útímalandbúnaður er ekki hliðhollur býflugunum vegna þess að samfélag býflugna þarf að geta safnað blómsafa og frjókornum víða og frá mismunandi jurtum. Ef einungis ein gróðurtegund er ræktuð á risastórum ökrum fá bý­ flugurnar einfaldlega ekki næga fæðu. Jafnvel þótt jurtin framleiði blómsafa geta bý­flugurnar bara sogið hann þegar jurtin blómstrar, sem eru bara nokkrar vikur á ári í besta falli. Mikil notkun skordýraeiturs í landbúnaði er annað vandamál. 66

Eitrinu er sprautað yfir akrana til að drepa skaðleg skordýr – en býflugurnar eru líka skordýr og drepast því líka! Á síðari árum hafa býflugnaræktendur varað við því hvað eftir annað að ef fram heldur sem horfir blasi býflugnadauði við eða það sem kallað er CCD. Það er sérstakt vandamál sem felur í sér að stærstur hluti fullorðinna býflugna yfirgefur búið skyndilega. Eftir í vaxkökunum er þá bara ungviði, matarbirgðir og drottningin með hirðfólk sitt og vinnuflugur. Svo virðist sem bý-


flugurnar sem safna blómsafanum og frjókornunum rati ekki lengur heim og fram til þessa hefur enginn áttað sig á hvers vegna þetta gerist. Vísindamenn grunar að ástæðuna megi rekja til sumra nýrra tegunda skordýraeiturs, ákveðinna sjúkdóma eða sníkjudýra á býflugunum. Þessi ógn sem steðjar að býflugunum boðar mikinn vanda fyrir okkur mannfólkið. Án skordýra sem sjá um að frjóvga plöntur er gríðarlegt tjón fyrirsjáanlegt. Bara í Bandaríkjunum er talið að meta megi vinnu

býflugnanna á meira en fimmtán milljarða dala á ári og í Evrópu gæti þetta numið sextán milljörðum evra. Hvernig líf án býflugna er mátti fyrir nokkrum árum sjá í héraðinu Sichuan í Kína. Margra ára notkun skordýraeiturs og eyðilegging náttúrunnar útrýmdi næstum því öllum skordýrum í héraðinu. Þegar eplatrén blómstruðu varð fólkið því að taka að sér verk býflugnanna. Það varð einfaldlega að klifra upp í trén og handfrjóvga sérhvert blóm með litlum pensli. 67


Mynd XXXVI

BÝFLUGUR Í BORGINNI OG FRJÓVGUNARHÓTEL

Þ

að hefur sýnt sig að borgir eru fyrirtaksstaðir fyrir býflugur og önnur skordýr sem sjá um frjóvgun blóma og jurta. Í almenningsgörðum og húsgörðum vaxa margs konar jurtir og einhverjar þeirra blómstra alltaf á tímabilinu frá vori fram á haust. Auk þess er mun minna um skordýraeitur inni

68

í borgunum en úti á ökrunum. Eini vandinn getur verið að finna býflugnabúinu stað. Jafnvel þótt ekki sé hentugur garður í nágrenninu er hægt að koma búinu fyrir uppi á húsþökum. Þannig eru býflugnabú til dæmis uppi á þaki óperuhússins í París og sömuleiðis á þaki Menningarhússins í Stokkhólmi.


Auk þess er til nokkuð sem kallast býflugnahótel. Það eru staðir fyrir villtar býflugur, þar sem þær geta haft vetursetu eða byggt sér bú. Það er ekki erfitt að byggja býflugnahótel upp á eigin spýtur bókstaflega talað. Býflugur geta reyndar tekið sér bólfestu í hverju sem er – bambusrörum, trjábolum eða

jafnvel hleðslusteinum holum að innan. Maríuhænur, blómaflugur og aðrar æðavængjur leita skjóls í furukönglum eða í afskornum stilkum. Drekaflugur búa í þurrum hálmi. Þessir litlu hótelgestir greiða vinnulega ekki fyrir beinann með hunangi, en þeir frjóvga jurtirnar í garðinum okkar.

69


FRÓÐLEIKSMOLAR UM BÝFLUGUR DDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDD

Býflugnasprautur

Drottningaskipti

Býflugnaeitur var notað til lækninga þegar á tímum Forn-Egypta, Grikkja og Kínverja. Meðferðin gekk út á að láta bý­flugur stinga sjúklingana, en þetta átti fyrst og fremst að lina liðverki. Enn þann dag í dag nota sumir læknar býflugnaeitur í lyf við liðverkjum og fullyrða að það gagnist

hluta sjúklinga. Aðrir sérfræðingar halda því hins vegar fram að býflugnaeitur valdi sársauka og staðbundnum bólgum, auk þess sem hætta sé á ofnæmisviðbrögðum, sem geti verið lífshættuleg. Því ber að fara að öllu með gát í meðferð býflugnaeiturs – alveg eins og í umgengni við sjálfar býflugurnar.

Býflugurnar eru sælkerar Megnið af hunangi býflugnanna berst aldrei í hendur býflugnaræktandans heldur éta býflugurnar það sjálfar. Meðal­býflugnabú þarf að éta sjötíu til hundrað og tíu kíló af hunangi á hverju ári og sautján til þrjátíu og fimm kíló af frjókornum (sjá mynd XXXI).

Býflugnaróbótar Vísindamenn um allan heim vinna að því að búa til gervibýflugur, sem sagt fljúgandi róbóta á stærð við skordýr. Lengst á þessari braut eru vísindamenn við Harvard-háskóla komnir. Robo-býflugan þeirra getur flogið með því að blaka litlum vængjum sínum hundrað og tuttugu sinnum á sekúndu. Aðrir vísindamenn hafa gert álíka tilraunir. Býflugnaróbótar framtíðarinnar verða svipaðir að stærð og þær býflugur sem nú lifa. Auk vængja munu þeir hafa rafrænan heila, gerviaugu og ganga fyrir litlum rafhlöðum. Vísindamennirnir vilja sömuleiðis að mismunandi býflugnaróbótar geti unnið saman, líkt og gerist í venjulegu býflugnasamfélagi. En hvaða gagn getum við haft af þessum róbótum? Jú, þeir munu vissulega ekki geta framleitt hunang en menn vonast til að þeir geti hjálpað til við að frjóvga blóm og jurtir. Og þeir munu örugglega koma að góðum notum við að safna nákvæmum upplýsingum frá ákveðnum svæðum, til dæmis um umhverfisspjöll eða veðurfar. Aukinheldur gætu þeir nýst hermálayfirvöldum sem njósnarar. DDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDD

Hunangskaka Blómsafi sem kaffi Sumu fólki finnst erfitt að komast gegnum daginn án þess að drekka nokkra kaffibolla. Staðreyndin er að býflugur kunna sömuleiðis að meta gott orkuskot! Koffín, örvandi efnið í kaffinu, er nefnilega líka að finna í blómsafa ákveðinna jurta, til dæmis í kaffiplöntum og sítrustrjám. Rannsóknir hafa leitt í ljós að ef maður gefur býflugum sykurvatn með örlitlu koffíni leggja þær það vatn frekar á minnið. Úti í náttúrunni getur þetta þýtt að býflugur sæki frekar í blóm með koffíni í blómsafanum, sem eykur möguleika þeirra blóma á að frjóvgast. 70

Innihald 5 stór egg 1½ dl púðursykur ½ dl hunang 1 dl heilhveiti möndluspænir karamelliseraður sykur eða karamelliseruð niðursoðin mjólk

Aðferð Egg, sykur og hunang þeytt saman. Bætið mjöli og möndluspæni út í smátt og smátt, hellið svo deiginu á ofnplötu og bakið í hundrað og áttatíu gráða heitum ofni í fjörutíu mínútur. Látið kökuna kólna á plötunni, hellið karamelliseruðum sykri eða karamelliseraðri niðursoðinni mjólk yfir og stráið möndluspæni yfir í lokin. (Uppskriftin er frá Agötu Królak.)

Býflugnaræktandinn Sherlock Holmes Öll höfum við heyrt Sherlock Holmes nefndan, eða hvað? Þessi frægi leynilögreglumaður gat vandræðalaust leyst flóknustu glæpamál en hvað gerði hann þegar hann settist í helgan stein? Það eru ekki margir sem vita að þá sneri hann sér að – býflugnarækt. Hann skrifaði meira að segja kennslubók um efnið.

Stundum þarf býflugnasamfélagið á nýrri drottningu að halda. Annaðhvort skipar samfélagið nýja drottningu eða býflugnaræktandinn ræktar nýja eða kaupir af öðrum ræktanda. Þetta er kallað drottningaskipti. Áður en að þessu kemur verður að ganga úr skugga um að ekki sé gömul drottning í búinu því þá öðlast sú nýja aldrei viðurkenningu íbúanna. Best er líka að flytja rammana með ungviðinu (sjá mynd III) í annað bú, svo býflugurnar rækti ekki aðra drottningu úr sínum röðum. Stundum er nýja drottningin sett í lítið búr sem komið er fyrir inni í búinu. Opi búrsins er lokað með sykurmassa. Býflugurnar éta sykurinn og frelsa þannig drottninguna. Þetta tekur nokkra daga og meðan á þessu stendur nær nýja drottningin að öðlast viðurkenningu allra íbúa búsins..

Hunang sem meðal Frá örófi alda hafa menn notað hunang sem meðal. Sum heilsubætandi áhrif þess eru löngu sönnuð en önnur eru óljós loforð skottulækna og svikahrappa, bæði í dag og áður fyrr. Þekktasta dæmið um góð áhrif hunangs eru græðandi eiginleikar þess fyrir sár. Þar er fyrst og fremst að þakka sótthreinsandi efnum sem er að finna í hunanginu. Meðmæli með því að bera hunang á sár er til dæmis að finna í fjögur þúsund ára súmerskum handritum (Súmerar bjuggu í Mesópótamíu eða á því svæði þar sem Írak er í dag). Sama aðferð var notuð í Egyptalandi til forna, í Grikklandi og á Indlandi. Enn þann dag í dag eru til sjúkrahús sem notast við sérstaklega hreinsað „lækningahunang“.


Kunna býflugur að telja?

Ástarfundur með blómi Blómin sem þekkt eru sem bý-orkí­ deur bera sig sniðuglega að við að lokka til sín býflugur til frjóvgunar. Í stað þess að lofa skordýrunum mat gefa þau undir fótinn með ástarfund. Blóm jurtarinnar líkjast nefnilega kvenflugum ákveðinna tegunda af býflugum, bæði í útliti og ilmi. Karlflugurnar koma fljúgandi til að stofna til náinna kynna við þessar ókunnu lokkandi býstelpur og frjóvga blómið óvart í leiðinni.

Þýskir og ástralskir vísindamenn undir leiðsögn Hans Gross við háskólann í Würzburg hafa sýnt fram á að býflugur geta greint mun á myndum með tveimur hlutum á og myndum með þremur hlutum á. Ekki nóg með það heldur geta flugurnar líka hagnýtt sér þessa nýju þekkingu til að greina milli mynda með þremur og fjórum hlutum.

Tölum um tilfinningar Breski vísindamaðurinn Melissa Bateson við háskólann í Newcastle hefur sýnt fram á að býflugur hafa tilfinningar sem líkjast mannlegum tilfinningum og geta orðið svartsýnar. Rannsóknarhópur hennar gerði tilraun þar sem býflugurnar lærðu að tengja ákveðna lykt við sætt bragð og aðra lykt sem tengdist beisku bragði. Þegar þær fundu fyrri lyktina ráku þær tunguna út úr sér af áfergju en þegar þær fundu hina kipptu þær tungunni inn og hrylltu sig. Svo skutu vísindamennirnir helmingi býflugnanna ærlega skelk í bringu til að framkalla álíka streitu og þær upplifa við árás rándýrs. Hinn helmingurinn var látinn afskiptalaus. Því næst fengu allar býflugurnar að finna þrjár nýjar tegundir af lykt sem þær höfðu ekki fundið áður. Stressuðu flugurnar ráku tunguna ekki eins oft út úr sér. Þetta jafnast á við fólk sem verður tortryggið eftir slæma reynslu og fyllist svartsýni.

Býflugur sigra fíla Í Afríku verja litlu býflugurnar akrana fyrir risastórum fílum. Þessi annars skemmtilegu dýr koma nefnilega iðulega og eyðileggja akra bændanna. Fólk reynir vitanlega að hindra þá í þessu en það er ekki auðvelt að halda svona stórum skepnum frá með einfaldri girðingu. Þess vegna hafa menn fundið upp nýtt ráð til að verja akrana en það felst í því að hengja býflugnabú á staura sem reknir eru ofan í jörðina og eru bönd bundin á milli þeirra. Þegar fílarnir koma askvaðandi flækjast þeir í böndunum svo býflugnabúin leika á reiðiskjálfi. Við þetta fýkur hressilega í flugurnar sem æða út og ráðast til atlögu við sökudólgana. Fílarnir finna í sjálfu sér ekki mikið fyrir stungunum en þetta nægir oftast til að pirra þá þannig að þeir hunskast á brott og leita sér fæðu einhvers staðar annars staðar. Sniðugt, ekki satt? Auk þess fá bændurnir hunang og frjóvgun í ofanálag. DDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDDD

Björn þýðir hunangsæta Orðið yfir björn á ýmsum slavneskum tungumálum – á rússnesku „medved“, á pólsku „niedźwiedź“ – þýðir í raun hunangsæta. Það er myndað úr fornslavnesku orðunum mjed (hunang) og jed (éta). Þetta frekar notalega nafn var trúlega notað í staðinn fyrir eitthvert annað eldra nafn sem fólk veigraði sér við að nota vegna þess að það trúði því að þá kæmi þetta óargadýr æðandi út úr skóginum. Orðið mjed hljómar reyndar alveg eins og mjöður, ekki satt, sem sýnir skyldleika tungumálanna langt aftur í tímann.

Býflugur sem kýklópar Virgill, rómverskt skáld sem uppi var skömmu fyrir Krists burð, tileinkaði býflugum hluta af ljóði sínu um landbúnað, Georgici. Hann bar býflugurnar saman við kýklópana (goðsagnarisa) sem smíðuðu eldingar. Þannig sýndi hann þá miklu virðingu sem hann bar fyrir þessum litlu skordýrum.

Vopn gegn geitungum Erkifjandi býflugnanna er asíski geitungurinn sem er fimm sinnum stærri en þær. Þessi ránskordýr senda fyrst njósnara á vettvang til að leita að býflugnabúi. Síðan ræðst heill her morðóðra geitunga til atlögu og þar sem stungur býflugnanna bíta ekkert á þá geta þeir drepið allar þernur búsins á einungis nokkrum klukkutímum. Síðan ráðast þeir á hunangsbirgðirnar og lirfurnar og nýta sem fæðu fyrir eigið ungviði. Evrópskar býflugur sem hafa verið fluttar inn til Japans eru bjargarlausar en japanskar býflugur hafa fundið leið til að verjast: Þegar njósnageitungur birtist nærri búi þeirra umkringja þær hann og mynda einn allsherjar suðandi hnött utan um hann. Inni í honum getur hitastigið orðið allt að fjörutíu og sjö gráður. Það nægir til að grilla geitunginn lifandi og honum gefst þannig aldrei tækifæri til að segja hinum geitungunum frá því hvar býflugnabúið er.

Býflugur Barberinifjölskyldunnar Barberini var ítölsk aðalsætt sem var mjög valdamikil á sautjándu öld. Á skjaldarmerki hennar var mynd af þremur býflugum. Þekktasti einstaklingur ættarinnar var Urban VIII páfi. Hann bað hinn þekkta arkitekt Giovanni Lorenzo Bernini að hanna tvo gosbrunna í Róm. Annar þeirra heitir Fontana delle api (Býflugnagosbrunnurinn) og er í laginu eins og opin skel ofan í lítilli tjörn. Uppi á skelinni sitja þrjár býflugur. Á hinum gosbrunninum er merkið með býflugunum þremur staðsett nærri jörðu. Skammt frá er líka höll sem Bernini teiknaði, þar sem býflugnamerki hans skreytir fegursta danssalinn. 71


Sögur útgáfa, 2019 Bók um bý Myndir © Piotr Socha, 2015 Texti © Wydawnictwo Dwie Siostry, 2015 Frumútgáfa © 2015 Wydawnictwo Dwie Siostry, Varsjá Þessi útgáfa © 2019 Sögur útgáfa Þýðing: Sigurður Þór Salvarsson og Tómas Hermannsson Sérstakar þakkir fyrir veitta aðstoð fær Egill Rafn Sigurgeirsson, formaður Bý www.byflugur.is

Útgáfa bókarinnar er styrkt af pólska þýðingarsjóðnum Bókin heitir á frummálinu Pszczoly Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. Isbn 978-9935-498-24-3 Prentað í Póllandi www.sogurutgafa.is

Þessi fallega bók um býflugur er margverðlaunuð út um allan heim. Hunangið drýpur af síðum bókarinnar. Höfundurinn, Piotr Socha, er einhver fremsti myndskreytir Evrópu nú um stundir. Hann ólst upp í pólskri sveit þar sem faðir hans var býflugnabóndi. Bókin minnir okkur á hversu mikilvægu hlutverki þessir litlu vinir okkar, sem lifðu í sátt og samlyndi við risaeðlur fyrir hundrað milljón árum, gegna í náttúrunni á okkar tímum. Bók um bý er full af skemmtilegheitum í bland við safaríkan fróðleik um lífríkið, blómin, grænmeti, ávexti, Grikki, Egypta, biblíuna, hönnun og ýmislegt fleira.

Bók um tré

eftir sama höfund „Maður fyllist lotningu við að lesa þessa bók.“ Sunna Dís Másdóttir, gagnrýnandi Kiljunnar

„Stórglæsileg bók fyrir alla aldurshópa með hreint dásamlegum myndum.“ Kolbrún Bergþórsdóttir, Fréttablaðinu

978-9935-498-24-3

9 789935 498243

www.sogurutgafa.is