Ofur-Kalli og tuskudýraþjófurinn

Page 1

O F UR Kalli

oogg

rinnnn ófuuri ttuusskkuuddýýrraaþþjjóf



Í ósköp venjulegum bæ, í ósköp venjulegu húsi, svaf fremur óvenjuleg fjölskylda. Allt var með friði og spekt nema hvað skuggi leið um inni í svefnherbergi stóru systur. Hann læddist og laumaðist þar um stundarkorn. Svo hvarf hann. Rétt eins og hann hefði aldrei verið þar.


Ofur-Kalli vaknaði við hræðilegt óhljóð. Það var svo hátt að hann sveif upp úr rúminu af skelfingu og datt í gólfið. Hann leit snöggt í kringum sig til að fullvissa sig um að enginn hefði séð þessa litlu flugferð hans. Kalli leit kannski út líkt og venjulegt barn, en það var hann alls ekki. Hann bjó yfir ofurkröftum, en amma var sú eina sem vissi það. Svo hann hafði ekki um neitt annað að velja en að skríða fram á gang, þótt það tæki óratíma að komast þannig áfram.


Öll fjölskyldan var á leiðinni inn í herbergi stóru systur. Kalli skreið eins hratt og hann gat. Hann verkjaði í hnén og tautaði eitthvað við sjálfan sig yfir því. Þegar hann kom inn í herbergið stóðu allir kringum rúm stóru systur, sem grét og barmaði sér. „Glanni er horfinn! Einhver hefur stolið tuskudýrinu mínu!“ orgaði hún með ekkasogum og táraflóði. Kalla rak í rogastans. Þjófur hérna í húsinu! Án þess að hann hefði tekið eftir neinu? Hvernig gat það verið?



Allir hjálpuðust að við að leita. Þau sneru sérhverju leikfangi við, leituðu í og undir rúminu og bak við gardínurnar. Pabbinn klifraði meira að segja upp á stól og kíkti ofan á ljósakrónuna. En Glanna var hvergi að sjá. Amma hristi höfuðið. „Það er óskiljanlegt hvernig tuskudýrið getur bara horfið sisvona.“ „Ég var að segja ykkur að það var þjófur hérna!“ snökti stóra systir.


„Ég er búinn að aðgæta allar dyr og glugga. Kjallaradyrnar voru ólæstar, svo þjófurinn hefur örugglega farið þar inn,“ sagði pabbinn áhyggjufullur á svip. Mamman leit undrandi á hann. „Tæpast hefði þjófur látið sér nægja að stela bara einu tuskudýri?“ „Það er ekki annað að sjá,“ sagði pabbinn og hristi höfuðið. „Ég sé svona leiðindamál á hverjum degi í vinnunni. Bara um daginn gripum við tuskudýraþjóf glóðvolgan. Hann var með fjórtán tuskudýr sem hann hafði stolið í stóra pokanum sínum.“ Pabbinn klappaði stóru systur hughreystandi á bakið. Kalli trúði ekki eigin eyrum. Hugsa sér að það var til fólk sem stal tuskudýrum frá litlum börnum!


„Þetta verður allt í lagi. Pabbi er lögga og hann finnur þjófinn ábyggilega,“ sagði stóri bróðir og lagði handlegginn utan um systur sína. „Vertu viss.“


„Við verðum að finna þennan þjóf,“ sagði Kalli og flögraði um eins og bálreið býfluga. „Og hvernig ætlarðu að fara að því, heldurðu?“ sagði amma. „Við verðum að gerast leynilöðreglumenn,“ svaraði Kalli. „Það heita lögreglumenn,“ leiðrétti amma og hélt áfram: „En við höfum engar vísbendingar …“ Kalli andvarpaði. „Maður verður að leita að þeim þegar maður er leynilöglegra … lögrugla … lörlegra. Iss, það hlýtur að vera hægt að finna einhverjar vísbendingar, við verðum bara að leita!“ „Jájá, leita þú bara,“ sagði amma. „Hefurðu einhverja hugmynd um hvar þú átt að byrja?“


„Sástu virkilega ekkert?“ nauðaði Kalli. „Þú sem býrð hérna beint fyrir ofan gluggann hjá stóru systur. Hvernig má það vera að þú hafir EKKI séð neitt?“ „Ég sef á næturnar,“ hvæsti íkorninn. „En ofurhetjur eru auðvitað vakandi allan sólarhringinn. Hvernig er annars með ofurheyrnina?“ Kalli þagnaði. Hann hafði vikum saman reynt að átta sig á því hvernig ofurheyrnin virkaði en það var sama hvernig hann reyndi, hann náði bara alls kyns útvarpsstöðvum. „Takk fyrir ekki neitt,“ sagði Kalli snúðugt og sveif niður að húsinu í glæsilegum sveig.


„Það hlýtur að vera hægt að finna eitthvað hérna. Eitthvað sem okkur hefur yfirsést,“ sagði Kalli og skreið undir rúmið hjá stóru systur. Amma andvarpaði og lagðist á fjóra fætur. „Æ, hvernig á ég svo að geta staðið upp aftur, eins slæm og ég er í bakinu.“ Skyndilega stirðnaði hún upp. „Sjáðu! Hvað er þetta?“ Amma tók lítinn gylltan hlut upp af gólfinu. „Hnappur! Þetta hlýtur að vera af þjófnum,“ sagði Kalli æstur. „Og sjáðu þetta!“ Hann sýndi henni hvað hann hafði fundið: rauðan plastbút og kökumylsnu. „Ertu viss um að þjófurinn hafi skilið þetta eftir?“ sagði amma. „Auðvitað hefur hann það!“ hrópaði Kalli himinlifandi.


Gullhnappur, rauður plastbútur og kökumylsna. Kalli braut heilann svo ákaft að það brakaði næstum í honum. Hvernig tengdist þetta allt saman? Hann hafði reyndar mestan áhuga á hnappnum. Hver gæti hjálpað honum að fræðast meira um hann?



Þau fundu afa á Kaffihúsi Gunnars. Þar sat hann alla daga og vann – sem fólst í að drekka kaffi, borða snúða og kjafta við aðra kalla. „Ég tók með mér bókina sem þú spurðir um,“ sagði hann við ömmu. „En hvers vegna vilt þú lesa þér til um gamla hnappa?“ Amma leit á Kalla sem hafði verið komið fyrir í barnastól með stóra tertusneið fyrir framan sig. Það var alltaf boðið upp á einhver sætindi þegar þau heilsuðu upp á afa á kaffihúsinu. „Ég fann gamlan hnapp sem mig langaði bara að vita meira um,“ sagði amma og stakk bókinni niður í töskuna sína. „Jubb, jubb, jubb,“ sagði Kalli með munninn fullan af rjóma og vonaðist til að það þýddi „þetta er rosalega góð prinsessuterta“ á barnamáli. Og það virtist virka, að minnsta kosti var afi glaður að sjá.


Amma bjó til brauðsneið með pylsu alveg eins og hún vissi að Kalli vildi hafa hana, meðan hann skoðaði stóru bókina. „Ég finn engan hnapp sem lítur eins út og þessi sem við fundum,“ sagði hann mæðulega. „Þetta eru bara myndir af alls kyns hnöppum af herbúningum.“ Amma hallaði sér fram og renndi augunum yfir opnuna sem var opin.


„Það stendur herbúningar þarna. Kannt þú að lesa?“ „Auðvitað kann ég það. Ég kann allt,“ sagði Kalli snúðugt. „Nema að þú ert ekki með ofurheyrn, eða hvað?“ sagði amma og deplaði til hans auga. Kalli fussaði. Hann ansaði ekki svona ómerkilegum aðfinnslum. „Sjáum til,“ sagði amma og setti tvær brauðsneiðar fyrir framan Kalla. „Við skulum skoða þetta saman.“


Tveimur tímum síðar kom mamman heim úr vinnunni og rétt á eftir komu systkinin heim úr skólanum. Stóra systir var enn leið. „Amma og Kalli eru kannski búin að finna Glanna,“ sagði stóri bróðir hughreystandi. En þau hristu bara höfuðið. Kalli skreið til stóru systur og faðmaði fætur hennar. Í húsinu ríkti grafarþögn.


Þá kom pabbinn blaðskellandi heim og kallaði glaðbeittur: „Sjáið hvað ég er með!“ um leið og hann lyfti handleggnum upp. Kalli gægðist forvitinn á svip fram undan fótleggjum stóru systur. Þetta var tuskudýr. Nýtt tuskudýr. „Nú þarftu ekki lengur að vera leið. Ég er búinn að kaupa stórt og fallegt tuskudýr handa þér,“ sagði pabbinn og rétti stóru systur dýrið. En hún fór bara að hágráta. „Þetta … er … ekki … sama … dýr!“ snökti hún og þaut upp stigann.


Amma hafði sett Kalla í rimlarúmið svo hann gæti hvílt sig aðeins. Kalla var yfirleitt meinilla við að vera þar, en lét það gott heita í dag því þannig gat hann fengið frið til að velta hlutunum fyrir sér í ró og næði. Og samtímis gat hann notað tímann til að æfa ofurheyrnina. Það var meira hvað það var erfitt! Hann einbeitti sér og allt í einu heyrði hann brak og bresti. „Umferðin í dag verður …“ Kalli hristi höfuðið gremjulega. Enn ein útvarpsstöðin! Hann klemmdi augun aftur eins fast og hann gat og spennti alla vöðva líkamans. En mest af öllu sperrti hann eyrun. Svo dró hann andann djúpt. Eitthvað heyrðist! Það var eins og hljóðið kæmi gegnum gólfið. Hann heyrði mömmuna og pabbann tala saman þarna niðri! Eftir að hafa hlustað stundarkorn settist hann upp í rúminu. Nú skildi hann hvernig í öllu lá.


„Amma! Komdu!“ Kalli reyndi að kalla og hvísla samtímis, sem var alls ekki auðvelt. Amma hafði fengið sér hænublund í næsta herbergi og hann vildi vekja hana án þess að allir aðrir í fjölskyldunni tækju eftir því. „Amma!“ kallhvíslaði hann aftur og brátt birtist svefndrukkinn grár kollur í dyragættinni. Kalli útskýrði í fljótheitum hvað hann hafði heyrt og sagði ömmu hvað þau yrðu að gera. Hann flaug upp úr rúminu og var á leiðinni fram á ganginn þegar amma stoppaði hann með því að sýna honum svolítið sem hún hélt á. Bleyja. Kalli ranghvolfdi augunum. Voru engin takmörk á þessari niðurlægingu?



Þau söfnuðu fjölskyldunni saman í stofunni. Amma ræskti sig til að ná athygli allra. Hún gaut augunum til Kalla sem kinkaði kolli. „Við fundum kökumylsnu á gólfinu inni í herbergi hjá stóru systur.“ Pabbinn, sem smjattaði á stórum kleinuhring, hætti að tyggja í miðjum klíðum. „Og líka gullhnapp,“ hélt amma áfram. Mamman sneri sér að pabbanum. „Þú spurðir mig að því rétt áðan frammi í eldhúsi hvort ég hefði rekist á hnapp sem hefði dottið af búningnum þínum …“ Þau störðu öll á einkennisbúning pabbans. Þar vantaði einn hnapp. Amma sýndi þeim gyllta hlutinn sem þau höfðu fundið. „Þjófurinn skildi þetta eftir sig. Og líka lítinn rauðan plastbút. Eins og plastið sem ruslapokarnir okkar eru gerðir úr.“ Pabbinn missti kleinuhringinn á gólfið.


„Hvernig gastu bara hent tuskudýrinu mínu?“ orgaði stóra systir. „En það var orðið gamalt og ógeðslegt,“ reyndi pabbinn að malda í móinn. „Það ert þú sem ert gamall og ógeðslegur,“ urraði stóri bróðir.


„Ég skil ekki hvað þú varst að hugsa!“ hvæsti mamman.

„Ég hef aldrei heyrt aðra eins vitleysu, að henda tuskudýri barnsins!“ sagði amma. „Go-go ga-ga … Bu-huuu!“ slefaði Kalli.


„Oj,“ sagði stóri bróðir og horfði á sorphauginn. „Oj,“ sagði amma og studdi sig við bílinn. „Ojojoj,“ sagði pabbinn.




„Þetta mun aldrei ganga,“ kallaði pabbinn ofan af sorphaugnum. „Leitaðu!“ kölluðu öll hin í kór. Og pabbinn leitaði og leitaði … Eftir þrjá klukkutíma heyrðist gleðióp uppi á haugnum. Pabbinn veifaði rauðum plastpoka himinlifandi í annarri hendinni og í hinni hélt hann á gömlu, ógeðslegu, elskuðu tuskudýri.


Um kvöldið sofnaði stóra systir sæl og glöð með Glanna í fanginu. Allt var með friði og spekt í húsinu og allir sváfu vært í rúmunum sínum. Nema auðvitað pabbinn sem varð að sofa í sófanum þessa nóttina.


En ánægðastur af öllum var Kalli. Ráðgátan um dularfulla tuskudýrshvarfið var leyst og hann hafði samtímis lært að nota ofurheyrnina. Og auk þess fengið að vera leynilögrugla … leynilöðregla … Leynilögregla!

Vantar þig aðstoð með eitthvað frá Ofur-Kalla?


Þetta er mál fyrir Ofur-Kalla, sterkasta smábarn í heimi! Um miðja nótt vaknar Kalli við skerandi óp. Stóra systir hágrætur því einhver hefur stolið uppáhalds­tusku­dýrinu hennar. Kalli litli bróðir ákveður að finna þjófinn til að gleðja systur sína. En leyndardómurinn reynist dularfyllri en Kalli átti von á. Eins gott að hann er ekkert venjulegt smábarn! Ofur-Kalli og tuskudýraþjófurinn er önnur bókin eftir metsöluhöfundinn Camillu Läckberg um smábarnið með ofurkraftana! Frábærlega fyndin og spennandi saga um óvenjulega hetju. Sigurður Þór Salvarsson íslenskaði.

ISBN 978-9935-479-70-9

9 789935 479709


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.