Ofur-Kalli

Page 1



Í ósköp venjulegum bæ, á ósköp venjulegum spítala, fæddist ósköp venjulegt barn. Mamma hans og pabbi höfðu ákveðið að hann ætti að heita Kalli. Og þannig varð það. Fyrir utan gluggann var niðamyrkur nema hvað stjörnurnar lýstu. En skyndilega gerðist svolítið óvenjulegt úti í geimnum. Tvær stjörnur álpuðust út af réttri braut og rákust saman. Þetta var svo langt í burtu frá jörðinni að ekkert heyrðist þangað. Sá sem var vakandi og leit upp í himininn þegar þetta gerðist gat þó séð hvernig stjörnurnar sprungu og urðu að fíngerðu stjörnuryki. Megnið af rykinu dreifðist út í geiminn en svolítið varð eftir sem barst smám saman til jarðarinnar og inn um gluggann á sjúkrahúsinu. Þar lenti það á sofandi barninu sem hafði ekki hugmynd um að frá og með þeirri stundu yrði það alls ekkert venjulegt barn.


Heima biðu tvær mannverur óþreyjufullar eftir að hitta Kalla. Þetta voru stóri bróðir og stóra systir sem höfðu velt því fyrir sér í níu mánuði hvernig litli bróðir yrði. Afi og amma voru þar líka til að heilsa upp á nýfædda barnið. „En hvað hann er hrukkóttur!“ sagði stóri bróðir undrandi. „Og svo er vond lykt af honum!“ sagði stóra systir og hélt fyrir nefið. Kalli leit forvitinn á þau. Hann kunni þegar orðið vel við mömmuna og pabbann og þessar nýju verur virtust líka vera skemmtilegar. Honum myndi örugglega líða vel hérna hjá þeim. Ef þau gætu bara skipt um bleyju á honum þá væri tilveran dásamleg.

Heima er best


En þeir mánuðir sem fóru í hönd voru ekki að öllu leyti auðveldir fyrir Kalla. Af því að hann var svo lítill þá skildi hann ekki hver munurinn var á venjulegu og óvenjulegu barni. Ekki gat hann vitað hvernig ætlast var til að hann hegðaði sér. Og þegar hann sveif aðeins yfir skiptiborðinu þá renndi hann ekki í grun að það myndi skjóta pabbanum þvílíkan skelk í bringu að það liði yfir hann. Kalli vildi bara auðvelda pabbanum að hreinsa kúkinn. En smátt og smátt áttaði Kalli sig á því að hann gat gert hluti sem önnur börn gátu ekki. Og skást væri líklega að þykjast bara. Mamman og pabbinn voru sæt og góð, en þau virtust vera svolítið tilfinningasöm. Og ekkert sérlega klár. Að minnsta kosti ekki eins klár og Kalli.


Það var auðvelt fyrir Kalla að þykjast vera venjulegt barn. Honum fannst það meira að segja svolítið gaman. Ef ekki hefði verið þetta ógeðslega uppátæki að kúka í bleyju. Kalla fannst það viðbjóðslegt, allt að því villimannslegt, að þurfa að ganga um með illa lyktandi og kámuga bleyju. Svo hann læddist eins oft og hann þorði inn á baðherbergið og fór á klósettið í staðinn. Mömmunni og pabbanum fannst svolítið undarlegt hvað litli strákurinn þeirra notaði fáar bleyjur á viku. Venjuleg börn gerðu í bleyjuna mörgum sinnum á dag. En þau kvörtuðu ekki. Hver vill skipta um fleiri kúkableyjur en hann nauðsynlega þarf?



Kalli var heldur ekki sérlega hrifinn af því að skríða. Það tók allt of langan tíma og svo varð honum bara illt í hnjánum eftir smástund. Hann lét sig því iðulega svífa um þegar enginn sá til. Einu sinni munaði engu að stóri bróðir kæmi upp um hann. „Pabbi, pabbi, sástu þetta?“ sagði stóri bróðir og benti æstur. En þá var Kalli kominn á fjóra fætur aftur. Og til öryggis hjalaði hann einhverja barnalega vitleysu og slefaði aðeins. „Hvað þá?“ spurði pabbinn og leit upp úr blaðinu sínu. Stóri bróðir varð óöruggur.


„Æ, það var ekkert,“ sagði hann en hélt áfram að stara grunsemdaraugum á litla bróður. Kalli slefaði aðeins meira svo það myndaðist pollur á gólfinu fyrir framan hann. „Go go ga ga,“ sagði hann og vonaði að þetta hljómaði eins og lítil börn létu. Það var svo auðvelt að plata þetta stóra fólk.

„Hvað má bjóða litla ömmuskráknum að bodda í dag?“ bullaði amma með nefið ofan í Kalla. Hann dæsti innra með sér. Af hverju þurfti þetta fullorðna fólk að tala svona? Það var varla hægt að skilja hvað það sagði. „Amma skerði smá epli fyrir litla skrákinn,“ hélt amma áfram. Kalli varð að bíta sig í tunguna svo hann missti ekki eitthvað út úr sér. Það átti auðvitað að segja „skar“ en ekki „skerði“. Var of erfitt fyrir ömmu að læra það?


Kvöldmaturinn var uppáhaldstími dagsins hjá Kalla en þá safnaðist öll fjölskyldan saman við matarborðið. Þá var nú heldur betur handagangur í öskjunni. Og stóri bróðir lét manna verst. En ekki lengur. Hann potaði bara í matinn og hengdi haus. Svona var þetta búið að vera dálítinn tíma og Kalli hafði áhyggjur af þessu. Loks tók mamman eftir því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. „Hvað er þetta eiginlega með þig?“ sagði hún og faðmaði stóra bróður að sér. „Æ, það er ekkert,“ svaraði hann og hristi höfuðið. „Víst,“ sagði stóra systir. „Það er stór, leiðinlegur strákur í skólanum sem er alltaf að stríða litlu strákunum. Hann heitir Linus og á heima í stóra húsinu hérna rétt hjá. Hann segir að það sé prumpufýla af stóra bróður og vinum hans. Og svo kastar hann húfunum þeirra upp á þakið og segist ætla að lemja þá og ...“ „Þegiðu! Maður á ekki að klaga!“ hvæsti stóri bróðir og gaf stóru systur illt auga.


Kalli hnyklaði brýnnar þar sem hann sat í háa barnastólnum sínum. „Þetta leysist örugglega,“ sagði pabbinn og fékk sér bita. „Krakkar lenda oft í smáútistöðum.“ „Já, sannaðu til að þetta verður allt í fína lagi,“ sagði mamman og klappaði stóra bróður á kollinn. En stóri bróðir virtist ekki trúa orði af því sem þau sögðu. Kalli varð bálreiður. Það vogaði sér enginn að taka húfuna af stóra bróður eða að segja að það væri prumpulykt af honum og vinum hans. Kalli varð að gera eitthvað í þessu!


Vandinn var hins vegar sá að Kalli komst ekkert úr stað. Það var ekkert mál að svífa, það var léttur leikur. En um leið og hann reyndi að hreyfa sig í loftinu missti hann jafnvægið og hrapaði niður. Aftur og aftur. Hann var orðinn dálítið þreyttur á þessu. En það sem stóra systir hafði sagt við kvöldmatarborðið gerði Kalla svo reiðan að hann varð einfaldlega að ná tökum á þessu. Hann opnaði gluggann um miðja nóttina og miðaði á grenitréð fyrir utan. Svo setti hann sig í stellingar á gluggakistunni, spyrnti með fótunum og svish, hann sveif út um gluggann! Kalli sveif ofar og ofar, nálgaðist óðfluga toppinn á trénu og hann fékk hiksta af hræðslu rétt áður en hann lenti á efstu greininni. Þetta var harkaleg lending og tréð svignaði til og frá.


„Hvað gengur eiginlega á fyrir þér?!“ Lítill íkorni leit gremjulega á hann um leið og hann reyndi að grípa grenikönglana sem duttu úr trénu. „Ég er að æfa mig að fljúga,“ sagði Kalli andstuttur og ríghélt sér í greinina. „Kallarðu þetta að fljúga?“ Íkorninn var svo reiður að veiðihárin á honum titruðu. „Það er þér að kenna að næstum allir könglarnir sem ég var búinn að safna mér, eru komnir út um allt!“ hélt hann áfram. „Og þú gerðir ekkert boð á undan þér heldur. Ég er frá fínni fjölskyldu, og þar kemur maður ekki í heimsókn til einhvers nema láta vita fyrirfram.“ „Fyrirgefðu,“ sagði Kalli. „Ég ...“ Lengra komst hann ekki því grenitréð var farið að svigna ískyggilega mikið. Það hallaðist upp að húsinu vegna þyngdar hans og nú rigndi könglunum næstum niður. Kalli kom auga á gluggann sinn og sleppti taki á greininni á hárréttu augnabliki. Hann lenti á svefnherbergisgólfinu með braki og brestum svo leikföng og bækur hrundu úr hillunum. Það var mesta furða að enginn vaknaði. Kalli skreið skömmustulegur upp í rúmið sitt aftur og dró sængina yfir höfuðið. Það leit ekki út fyrir að hann myndi nokkru sinni læra að fljúga. Og þá gat hann ekki heldur hjálpað stóra bróður.



„Hvað í ósköpunum hefur gengið hér á?!“ Mamman leit í kringum sig í herberginu hans Kalla. Á gólfinu var allt á rúi og stúi og glugginn var opinn. Og þegar hún kíkti ofan í rimlarúmið sá hún litla barnið sitt sofa vært með grenibarr allt í kringum sig og greniköngul á koddanum. „Hvað í ...?“ Pabbinn hafði heyrt undrunarhróp mömmunnar og stóð nú í dyrunum og klóraði sér í höfðinu. „Hefur einhver verið hérna inni?“ sagði mamman áhyggjufull. „Það get ég ekki ímyndað mér,“ sagði pabbinn. „Glugginn hlýtur að hafa fokið upp og vindurinn séð um afganginn.“ „Og feykt þessum hérna alla leið niður í rúmið hans Kalla?“ sagði mamman og hélt á könglinum. „Ertu með einhverja betri skýringu?“ „Nei,“ sagði mamman. „Ætli það nokkuð.“ „Kalli hefur tæpast verið á flugi þarna úti í nótt,“ sagði pabbinn glettnislega og lokaði glugganum. „Ætli þú hafir ekki rétt fyrir þér,“ sagði mamman hlæjandi og kyssti pabbann. „Þetta hlýtur að hafa verið vindurinn.“


„Ég VIL ekki fara í skólann!“ æpti stóri bróðir og settist á mottuna frammi í forstofunni. Stóra systir var komin í útifötin, en þrátt fyrir að amma hefði reynt hvað hún gat var stóri bróðir ekki einu sinni kominn í jakkann. „Það er út af þessu hrekkjusvíni þarna,“ sagði stóra systir alvarleg á svip. „Þegiðu, sagði ég!“ æpti stóri bróðir og sparkaði öðrum skónum sínum af sér svo hann hentist í vegginn. „Heyrðu mig, svona gerir maður ekki!“ sagði amma reiðilega. „Nú verður þú að róa þig niður.“ Amma snerist á hæli og strunsaði burt. Stóri bróðir sparkaði hinum skónum líka af sér og hann flaug eitthvert út í loftið.


POLIS

„Buuuu!“ Stóri bróðir fór að hágráta. „Ekki vera leiður,“ sagði stóra systir og tók utan um hann. „Ég ... vil ekki ... fara í ... skólann ...,“ snökti stóri bróðir. „En maður verður að gera það,“ sagði stóra systir. „Annars kemur löggan bara og sækir mann.“ „Nehei, hún gerir það ekkert!“ „Víst gerir hún það. Hún Ebba vinkona mín segir það.“ „Ég skal sko spyrja pabba um það í kvöld,“ sagði stóri bróðir og var hættur að gráta. „Komdu, drífum okkur í skólann. Og láttu eins og þessi asni, hann Linus, sé ekki til!“ „Það er auðvelt fyrir þig að segja það,“ muldraði stóri bróðir og klæddi sig í afundinn á svip. Kalli var svo reiður að hann hélt að hann myndi springa. Þessi Linus fengi sannarlega að finna fyrir því! Og Kalli vissi nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera. Það eina sem hann þurfti var að ná tökum á þessu bannsetta flugi.


„En lilli skrákurinn, vill hann ekki einu sinni eplamúsina hennar ömmu sinnar?“ sagði amma um leið og hún reyndi í tíunda sinn að stinga skeið upp í harðlokaðan munninn á Kalla. Hann hristi höfuðið ákaft. Það síðasta sem hann langaði í núna var ógeðslegur barnamatur. Amma setti ekki einu sinni sykur út í músina. Hann lét sig stundum hafa þetta, bara til að gleðja ömmu, en ekki í dag. Hann vildi fá að vera í fýlu í friði, friði fyrir eplamús og asnalegum grettum. – Jæja þá, það þýðir víst ekki neitt,“ sagði amma áhyggjufull á svipinn og lagði skeiðina frá sér. Kalli krosslagði handleggina á brjóstinu. Fyrst hann gat ekki flogið ætlaði hann ekki að borða eplamús án sykurs. Það kom ekki til greina.

Eplamauk


Nokkrum klukkutímum síðar gauluðu í honum garnirnar. Mamman og pabbinn voru í vinnunni, og stóri bróðir og stóra systir voru loksins farin í skólann. Amma sat í sófanum í stofunni og dottaði með opinn munninn. Af og til hraut hún svo hátt að það yfirgnæfði næstum því garnagaulið í maganum á Kalla. En bara næstum því. Hann varð að fá eitthvað að borða. Kalli leit snöggt á ömmu og tók ákvörðun. Dagurinn hafði verið hundleiðinlegur og það eina sem gæti glatt hann núna var brauð með spægipylsu. Hann reisti sig upp eins hljóðlega og hann gat og læddist fram í eldhús, opnaði ísskápinn og sveif svo upp að hillunni þar sem smjörið og pylsan voru. Brauðið var enn á eldhúsborðinu frá því þau borðuðu morgunmat svo það var auðvelt að ná í það. Kalli hélt á spægipylsunni í hendinni þegar hann áttaði sig á því að það var grunsamlega hljótt inni í stofu.


„Ég vissi það! Það var eitthvað dularfullt við þetta!“ Kalli leit í áttina að dyrunum. Þar stóð amma. En það leið ekkert yfir hana né virtist hún sérlega hissa. „Ég myndi nú ekki kalla þetta dularfullt,“ sagði Kalli rólega og lét sig síga niður á gólfið. „Svo þú getur líka talað?“ sagði amma gáttuð. Kalli velti því fyrir sér hvort hún væri meira undrandi yfir því að hann gæti talað en að hann gæti svifið. Það var svo sannarlega ekki auðvelt að átta sig á þessu fullorðna fólki. „Auðvitað kann ég það!“ sagði hann. „Og fyrst við erum að tala um að tala þá langar mig að biðja þig að hætta að bulla svona við mig.“ Það varð augnabliks þögn. „Sjálfsagt,“ sagði amma og dró andann djúpt. „En hvernig ...?“ „Ég veit það ekki,“ sagði Kalli og yppti öxlum. „Svona er þetta bara. Ég kann fullt af hlutum. Eiginlega allt, næstum því. Nema að fljúga.“


Innkaup

mjólk jógúrt safi brauð


„Og hvert er vandamálið?“ sagði amma hugsi og settist aftur í sófann. Kalli sveif fyrir framan hana með krosslagða handleggi. „Það er eitthvað með jafnvægið. Sjáðu!“ Hann reyndi að hreyfa sig áfram í loftinu en það kom svo mikill slinkur á hann að minnstu munaði að hann þeyttist beint inn í opinn arininn. „Passaðu þig!“ sagði amma. Hún virtist hafa jafnað sig ótrúlega fljótt eftir að hafa staðið frammi fyrir svífandi barni í fyrsta sinn. „Kannski verður þú bara að æfa þig?“ „Æfa mig?“ sagði Kalli gremjulega. „Ég hef ekki gert neitt annað!“ Amma andvarpaði og leit í kringum sig. Augu hennar staðnæmdust við eitt af teiknimyndablöðunum hans stóra bróður sem lágu í sófanum. „Heyrðu mig,“ sagði hún og tók blaðið upp. „Ég held að ég hafi lausnina!“ „Hvað þá, hvað þá?“ Kalli varð svo æstur að við lá að hann dytti fram fyrir sig í loftinu. Hann sparkaði með fótunum til að ná jafnvægi á ný en datt á rassinn á gólfið. „Sjáðu! Þetta getur ekki gengið svona, það er engin reisn yfir þessu,“ sagði hann með grátstafinn í kverkunum. „Vertu rólegur, ljúfur.“ Amma gat ekki varist hlátri. „Ég held að ég hafi áttað mig á því hvað þig vantar.“ Hún stóð upp og sótti rauða teppið hans Kalla sem lá í einum hægindastólnum. Síðan batt hún einfaldlega teppið utan um hálsinn á honum eins og skikkju. Kalli leit á Súpermann-blaðið hans stóra bróður og lagaði skikkjuna aðeins til. „Amma“, sagði hann himinlifandi. „Þú ert snillingur!“


Kalli æfði sig allan daginn. Hann flaug fram og aftur og skríkti af hlátri. Flugið hjá honum var dálítið skrykkjótt til að byrja með, áður en hann náði tökum á tækninni. En skikkjan auðveldaði honum að halda jafnvægi og þetta gekk betur og betur eftir því sem hann æfði sig meira. Að honum hefði ekki dottið þetta í hug sjálfum! Vitaskuld varð maður að hafa skikkju til að geta flogið, hvers vegna var Súpermann í skikkju ef það var ekki einmitt málið? „Slakaðu nú aðeins á, mig fer að svima,“ sagði amma og hló með sjálfri sér. En Kalli hélt bara áfram að þjóta um, hann réði sér varla af kæti yfir að hafa náð að leysa fyrsta vandann í verkefninu sem snerist um að hjálpa stóra bróður. „Amma, ég flýg!“ skríkti hann. „Já, þú gerir það svo sannarlega,“ sagði amma ánægð. Ef barnabörnin voru glöð, þá var hún glöð. Og þá skipti engu máli þótt þau væru svolítið öðruvísi.


Goðafræði

Íslandssaga

Stálmaðurinn - Maður eða mýta

Handrit aldrei tilbúið

Einföld skammtafræði

ur

ess

ns Pri

ögur

nus Spen

Risaeðlur

Riddarar

Rómarveldi

„Í dag eru það bara ég og þú, litli kall.“ Afi virtist stoltur. Þetta var í fyrsta sinn sem hann fékk að passa Kalla. „Ég get sagt þér frá ýmsu, skilurðu.“ Hann setti Kalla á hné sér og byrjaði að segja honum sögur af kóngum, riddurum og prinsessum og fleiru sem Kalla fannst ægilega spennandi. Hann sat lengi og hlustaði stóreygur meðan afi malaði og sýndi honum myndir í stórum, rykföllnum bókum. Kalli gat alveg hugsað sér að koma hingað oftar. Afi virtist geta flest allt, en Kalla fannst hann líka svolítið utan við sig. En kannski varð maður svoleiðis af því að vera prófessor, alltaf með höfuðið fullt af hugsunum.


Egilssaga

Víkingar

Steingervingar Hýróglífur

„Látum okkur sjá,“ sagði afi og leitaði í bókahillunum sínum. Það var nú aldeilis heppilegt að Kalli hafði lært að fljúga því það var ekki auðvelt að fylgja afa eftir. Kaffibollinn valt um koll og blöð þeyttust um allt. Ef afi dró eina bók úr hillunni hrundu margar aðrar bækur niður um leið. Kalli flaug um eins og þeytispjald um leið og hann sneri baki í hann. Það mátti ekki líta út eins og afi réði ekki við verkefnið þegar mamman og pabbinn kæmu að sækja Kalla. Það var sannarlega erfiðisvinna að vera í pössun hjá afa. Auk þess varð Kalli að skipta um bleyju á sjálfum sér og skjótast síðan eitt augnablik svo lítið bar á fram í eldhús að finna sér eitthvað í svanginn. En það var bara fínt að fá góða æfingu í að fljúga. Það myndi bráðum koma sér vel, hugsaði Kalli með sér.


„Þetta hefur gengið glimrandi vel,“ sagði afi ljómandi í framan þegar mamman og pabbinn komu til að sækja litla strákinn sinn. „Hann lítur út fyrir að vera svolítið þreyttur?“ sagði mamman. Þreyttur var ekki rétta lýsingarorðið. Kalli var dauðuppgefinn. „Já, hér hefur allt heldur betur verið á fullu, maður minn!“ sagði afi og rétti pabbanum Kalla. „Hann lítur að minnsta kosti út fyrir að vera saddur og það hefur verið skipt á honum,“ sagði pabbinn eftir að hafa skoðað í bleyjuna og þurrkað Kalla um munninn. Afi hnyklaði brýnnar hugsi. Hann mundi í sannleika sagt ekki eftir því að hafa skipt á Kalla né gefið honum að borða. En hann hlaut samt að hafa gert það. „Þetta er auðvitað ekkert mál,“ sagði hann rogginn. „Enda er þetta nú ekki í fyrsta sinn sem ég sé um svona krakkaskinn! Þú og systir þín voruð jú einu sinni lítil, ekki satt?“ „Jú, fyrir einum fjörutíu árum,“ muldraði pabbinn og drap tittlinga framan í afa. Kalli heyrði hins vegar ekki þetta síðasta. Hann var þegar sofnaður á öxlinni á pabbanum.


Kalli var svo örmagna að hann mundi ekkert eftir ferðinni heim, ekki eftir að hafa setið í bílnum og ekki að mamman og pabbinn lögðu hann í rimlarúmið þegar þau komu heim. Og hann vaknaði ekki fyrr en tunglið skein beint framan í hann. Úti var niðamyrkur. Allir voru sofandi og dauðaþögn í húsinu. Hann hristi sængina af sér, batt teppið um hálsinn og sveif upp af dýnunni. Dyrnar inn í herbergi stóra bróður voru í hálfa gátt, og Kalli flaug hljóðlaust inn til hans. Stóri bróðir steinsvaf með öll tuskudýrin sín í kringum sig. Ef Kalli hafði efast eitt augnablik þegar hann vaknaði, þá tók þetta af öll tvímæli. Það fengi enginn að vera vondur við stóra bróður hans. Kalli flaug jafn hljóðlaust út úr herbergi stóra bróður og hann hafði flogið inn og sveif síðan inn á baðherbergið. Þar var hið mikilvæga ofurvopn sem hann þurfti á að halda til að koma áætlun sinni í verk. Og hún var einföld en ofursnjöll.

skírtein

i

UR BEST

Forsetinn


Kalli hélt fyrir nefið með annarri hendinni meðan hann veiddi kúka­ bleyju upp úr ruslafötunni með hinni. Oj, hvað þetta var ógeðslegt. Bley­jur voru sannarlega viðbjóðslegar, en hann hafði pínt sig til að fela eina þarna morguninn áður. Hún var mikilvægur þáttur í áætluninni. Kalli fann hvernig hann fékk í magann. Fnykurinn af bleyjunni var allt að því óbærilegur eftir að hún hafði legið ofan í lokaðri fötunni allan daginn. En hún var fullkomin fyrir það sem hann ætlaði sér að gera. Því meiri fýla, þeim mun betra. Hann stakk henni varlega ofan í poka, flaug svo inn í herbergið sitt og út um opinn gluggann. Þegar hann sveif framhjá grenitrénu veifaði hann íkornanum, sem veifaði forviða til baka. En Kalli hafði ekki tíma til að stoppa. Hann hafði verk að vinna. Mikilvægt verk.


Stóra systir hafði sagt að hrekkjusvínið ætti heima í stóra húsinu. Kalli vissi alveg hvaða hús hún átti við, mamman hafði keyrt hann mörgum sinnum framhjá því í vagninum. Hann hafði heppnina með sér. Gluggi á efri hæðinni var opinn. Inni í herberginu voru tvær fullorðnar manneskjur sofandi. Kalli flaug eins hljóðlega framhjá þeim og hann gat. Pabbi hrekkjusvínsins hnusaði eitthvað út í loftið um leið og hann sveif hjá með kúkableyjuna, en vaknaði ekki sem betur fór.

Næsta herbergi til hægri við stóra svefnherbergið virtist vera það rétta. Á veggjunum voru myndir af bílum og flugvélum, og í rúminu lá sofandi strákur. Kalli hikaði aftur. Hvað ef hrekkjusvínið vaknaði og sæi fljúgandi barn með kúkableyju í hendinni? En þegar honum varð hugsað til uppáhalds stóra bróður síns sem lá heima í rúminu sínu með öll tuskudýrin vissi Kalli að hann þyrði að gera hvað sem væri. Hann opnaði pokann varlega. Fnykurinn gaus á móti honum og hann fitjaði upp á nefið af viðbjóði. Svo lét hann sig svífa nær sofandi stráknum, tók gætilega um kúkableyjuna og lét hana síga hægt ofan á höfuðið á honum. Svo flaug hann aftur út. Hann hefði örugglega tíma til að staldra við stundarkorn hjá íkornanum á heimleiðinni og spjalla aðeins við hann.

PRUMP

HOR KLÁÐADUFT

ORM AR


„Hvernig var í skólanum í dag?“ sagði mamman og ýfði hárið á stóra bróður. „Frábært!“ svaraði stóri bróðir glaðhlakkalega. „Svo þessi Linus hefur ekkert verið að stríða þér? Ég sagði þér að strákar eins og hann eru yfirleitt engir bógar,“ sagði pabbinn bak við blaðið sitt. „Þið ættuð hins vegar að sjá prakkarana í vinnunni hjá mér, það eru alvöru hrekkjusvín.“ „Nei, hann var ekkert að stríða.“ Stóri bróðir var svo glaður að hann réði sér varla fyrir kæti. „Það var nefnilega skrýtin lykt af Linusi í dag, svo hann gat ekkert strítt öðrum á því að það væri prumpufýla af þeim,“ sagði stóra systir. „Var skrýtin lykt af honum?“ sagði pabbinn og lét blaðið síga. „Mm, rosaskrýtin,“ sagði stóri bróðir og fékk sér stóran bita af pönnuköku. „Svolítið eins og af kúkableyjunum hans Kalla, næstum því.“ „Það var ekki gaman fyrir hann,“ sagði mamman. „Ég vona að þið hafið ekki strítt honum á því?“ „Nei, auðvitað gerðum við það ekki!“ svaraði stóri bróðir reiðilega. „Það var nú gott, það var nú gott,“ tuldraði pabbinn. „Var lykt af honum eins og af kúkableyjunum hans Kalla?“ spurði amma tortryggin á svip. „Já, næstum alveg eins!“ sagði stóri bróðir. Amma hvessti augun á Kalla. „Go go ga ga,“ hjalaði hann og brosti út að eyrum. Hann slefaði líka aðeins til öryggis.


Kalli var ákaflega stoltur eftir þessa fyrstu björgunaraðgerð sína, en hann var líka hugsi. Og það var yfir nokkru sem hafði valdið honum heilabrotum allt frá því hann áttaði sig á því að hann var ekki eins og önnur smábörn: Hvernig átti hann að notfæra sér þessa sérstöku eiginleika sem hann hafði? Hann var búinn að læra að fljúga og grunaði að hann ætti eftir að uppgötva fleiri ofurkrafta. Hann var eiginlega ofurhetja. Og svoleiðis hetjur verða að nota krafta sína til að hjálpa fólki með alls kyns hluti, eða hvað? Nú var hann tilbúinn. Hann var Ofur-Kalli.

Þarft ÞÚ aðstoð við eitthvað?


O F UR Kalli Ofur-Kalli! Óvenjulegasti smákrakki í heimi!

Kalli er nýfæddur þegar tvær stjörnur rekast á úti í geimnum. Yfir Kalla dreifist örlítið fínlegt stjörnuryk sem gerir hann að ofurhetju!

Mamma og pabbi vita ekkert um þetta leyndarmál Kalla. Þannig vill hann hafa það. Hann slefar og bablar eins og hvert annað smábarn til að engan gruni neitt. En þegar stóri bróðir lendir í vandræðum tekur Ofur-Kalli til sinna ráða.

Frábærlega fyndin og spennandi saga um óvenjulega hetju! Camilla Läckberg er vinsælasti reyfarahöfundur Svía. Þessi barnabók hennar er líka stórskemmtileg.

Sigurður Þór Salvarsson íslenskaði.

ISBN 978-9-93544-882-8

9 789935 448828 www.sogurutgafa.is


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.