Sjávarafl 4.tbl 10.árg 2023

Page 1

SJÁVARAFL Desember 2023 4. tölublað 10. árgangur

l ó j g e l i ð e Gl

Flöskuskeytið frá Titanic sem fannst á Íslandi ● Lífæð samfélaganna ● Órjúfanleg vinátta Fáskrúðfjarðar og Gravelines í Frakklandi Mesta sjóslys Íslandssögunnar ● Hliðarhráefni úr fiskvinnslu uppfull af tækifærum Í hverju felst þá vistkerfisnálgun? ● Eplin sem skiluðu sér á aðfangadagskvöld – mögnuð saga


Efnisyfirlit BLAÐSÍÐA

4 Friðarjól 6 Órjúfanleg vinátta Fáskrúðfjarðar og Gravelines í Frakklandi 10 Hliðarstraumar eða hliðarhráefni? 14 Flöskuskeytið frá Titanic sem fannst á Íslandi 18 Eru sjómenn öruggir á sjó? 22 Eplin sem skiluðu sér á aðfangadagskvöld 26 Vistkerfi sjávar og vistkerfisnálgun 30 Mesta sjóslys Íslandssögunnar 32 Strandakirkja 34 Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum 38 Hafnir eru lífæð samfélaganna 42 Hátíðarlax 42 Til sölu á innlendum markaði í fyrsta skipti 44

„Magnað að fá að fylgjast með ferlinu“

48 Börnin og lífið 50 Fjölskylduveisla – því bleikari því betri 50 Ný bók eftir Þór Sigfússon

Lengi skal manninn reyna

H

Hugur minn er hjá Grindvíkingum á þessum tíma, fjölskyldum sem þurftu að yfirgefa heimili sín í niðamyrkri af völdum náttúruhamfara og leita á náðir ættingja og fjöldahjálparstöðva. Þegar svona stórir atburðir eiga sér stað í náttúrunni, geta þeir valdið áföllum. Á slíkum stundum er nauðsynlegt að sýna náunganum kærleik og aðstoða aðra ef maður hefur tök á því. Grindavík er rótgróinn sjávarútvegsbær, þaðan er stutt á miðin og útgerðirnar eru þær öflugustu hér á landi en úthlutun á aflamarki Grindavíkurhafnar er það næsthæsta á landinu fyrir utan Reykjavík. Þá eru Grindvíkingar með fiskeldi á landi og þeir eru einnig með Fisktækniskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru þó nokkur fyrirtæki sem hafa fengið viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri sem koma frá Grindavík, samkvæmt skilyrðum Keldunnar og Viðskiptablaðsins. Ferðaþjónusta Grindvíkinga er mjög öflug en Bláa Lónið er eitt af ferðaþjónustufyrirtækjunum og er það eitt þekktasta vörumerki landsins. Þá má nefna virkjunina í Svartsengi en hún sér um 31 þúsund manns fyrir heitu og köldu vatni og rafmagni en um er að ræða alla íbúa á Reykjanesi. Engin veit þegar þessi orð eru skrifuð hvernig framtíð þessa bæjarfélags verður og hvaða þýðingu allt þetta hefur fyrir bæjarbúa en við þeim blasir gríðarmikið tjón og margt óbætanlegt. Megi öllum Grindvíkingum ganga ávallt sem allra best. Ég vil þakka öllum sem hafa lagt mér lið við útgáfu blaðsins á liðnum árum. Fyrir hönd starfsfólks Sjávarafls, óska ég ykkur, lesendur góðir nær og fjær, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Megi árið 2024 verða ykkur gæfuríkt og gjöfult.

Elín Bragadóttir ritstjóri

Alda Áskelsdóttir, blaðamaður

Anna Helgadóttir, umbrot og hönnun

Guðrún Erlingsdóttir, blaðamaður

Malín Brand blaðamaður og prófarkalesari

Óskar Ólafsson, ljósmyndari og prófarkalesari

Sigrún Erna Geirsdóttir, blaðamaður

Útgefandi: Tímaritið Sjávarafl ehf Sími: 6622 600 Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Elín Bragadóttir Vefsíða: www.sjavarafl.is Netfang: elin@sjavarafl.is Umbrot og hönnun: Anna Helgadóttir anna.helgadottir55@gmail.com Ljósmyndari: Óskar Ólafsson oskar@sjavarafl.is Forsíðumynd: Pixabay Prentun: Prentmet Oddi ehf

2

SJÁVARAFL DESEMBER 2023


Þantroll

Þankraftur

Streymi yfir kaðal fer lengri leið. Meiri straumhraði = Minni þrýstingur

Streymi undir kaðal fer styttri leið. Minni straumhraði = Meiri þrýstingur

FLOTTROLL

ÞANTROLL

.Opnast fljótt við kast .Meiri opnun í togi .Heldur lögun vel í beygjum .Hljóðbylgjur beinast innávið

Helix þantæknin er einkaleyfisvarin


JÓLAHUGVEKJA Magnús Erlingsson sóknarprestur á Ísafirði

Friðarjól K

ristnir menn trúa því að Jesús hafi verið hinn fyrirheitni frelsari, sem spámenn Gamla testamentisins töluðu um að Guð myndi senda mannkyni í fyllingu tímans. Einn þessarra spámanna hét Jesaja og hann ritaði svona um fæðingu Messíasar: Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur. Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti, héðan í frá og að eilífu. Þessi texti talar sérstaklega til okkar Íslendinga, sem búum í landi náttmyrkra. Fyrir okkur eru aðventan og jólin sá tími þegar við setjum upp ljós, lýsum upp heimili okkar og umhverfi og hrekjum myrkrið á brott. Ljósið er tákn fyrir allt hið góða hér í heimi. Það minnir okkur á lífið. Sólarljósið er undirstaða alls lífs hér í heimi. Ljósið er einnig tákn fyrir Krist og kærleikann. Í huga Jesaja spámanns átti fæðing Messíasar að verða upphaf mikilla breytinga hér í heimi. Sú breyting hefur því miður ekki enn orðið að veruleika. Enn hafa harkmikil hermannastígvél og blóðstokknar

4

SJÁVARAFL DESEMBER 2023

skikkjur ekki horfið úr mannheimum því áfram geisa stríð og alls kyns myrkvaverk eru unnin í veröldinni. Í landinu þar sem Jesúbarnið fæddist hefur geisað stríð með hörmungum jafnt fyrir Ísraela sem Palestínumenn. Boðskapur Messíasar, friðarhöfðingjans hefur enn ekki náð eyrum þeirra. Styrjaldir hafa ávallt í för með sér dauða og þjáningar fyrir venjulegt fólk. Jólin eru hátíð með boðskap. Þau boða frið á jörðu af því að lítið barn er fætt og lagt í jötu. Og þetta litla barn er bróðir minn og þinn. Hann Jesús er besti bróðir allra barna hvar sem þau búa í heiminum. Og saga hans er táknræn fyrir illsku heimsins því í lok jólanna á þrettándanum komu vitringarnir. Og í kjölfar þeirra komu hermenn Heródesar til að deyða barnið. En þá hafði engill varað Jósef við í draumi og hin heilaga fjölskylda lagði á flótta, fótgangandi út í óbyggðina. Biðjum fyrir friði í heiminum, biðjum fyrir stríðshrjáðum, biðjum fyrir þeim, sem eru á flótta. Og ljósin, sem við setjum upp í gluggana heima og lýsa út í myrkrið eru friðarljós. Þau boða frið á jörðu. Guð lífsins gefi okkur öllum gleðileg jól.


Síldarvinnslan hf. sendir öllum landsmönnum hugheilar jóla- og nýárskveðjur


Frakkar heimsækja safnið, Frakkar á Íslandsmiðum.

Órjúfanleg vinátta Fáskrúðfjarðar og Gravelines í Frakklandi ,,Það er nauðsynlegt að viðhalda tengslum milli Fáskrúðsfjarðar og Gravelines í Frakklandi vinabæjar Fáskrúðsfjarðar. Við þurfum að efla og rækta tengslin á milli bæjanna og varðveita sameiginlega sögu þeirra,“ segir Fjóla Þorsteinsdóttir, forstöðukona Franska safnsins, Frakkar á Íslandsmiðum sem staðsett er á Fáskrúðsfirði sem nú tilheyrir Fjarðabyggð. Þorskveiðar Frakka við Íslandsstrendur á skútum stóðu yfir frá 17. öld fram að fyrri heimsstyrjöldinni á 20. Öld. Samskipti Fáskrúðsfirðinga og sjómanna frá Gravelines hafa verið gerð ágæt skil í bók Elínar Pálmadóttur, Fransí Biskví. Þar kemur fram að 400 skútur hafi farist við veiðar á Íslandsströndum frá 1810 til 1914. Talið er að um fjögur- til fimmþúsund erlendir sjómenn hafi farist í veiðiferðunum sem stóðu yfir í hálft ár. Margir létust úr vosbúð, sýkingum og sjúkdómum enda var aðbúnaður um borð í skútunum vart mönnum bjóðandi. Margir þessara manna voru frá Gravelines. Sagt var að franskir drengir hefðu farið beint af fermingarbekknum á eymdarbekkinn. En það lýsti vel hlutskipti þeirra sem fóru til veiða á skútum við Íslandsstrendur.

tveimur árum síðar. Árið 1903 reistu þeir svo fullkomnasta sjúkrahús landsins á Fáskrúðsfirði og skömmu síðar læknishús og líkhús. 1923 er kapellan afhelguð, flutt og gerð að íbúðarhúsi. Sjúkraskýlinu breytt í íbúðarhús og Franski spítalinn fluttur hinum megin við fjörðinn á Hafnarnes. Þar var hann endurbyggður sem íbúðahús og skóli. Læknahúsið lagðist í eyði.

Franski spítalinn fluttur tvisvar Árið 2008 hóf Minjavernd endurbyggingu húsanna. Læknishúsið var endurbyggt á sama stað og sjúkraskýlið vestan við það endurgert. Auk þess sem kapellan var keypt og flutt við hlið sjúkraskýlisins og líkhúsið endurgert. Kapellan var vígð árið 2014 sem bænahús. Franski spítalinn var aftur fluttur til Fáskrúðsfjarðar og endurbyggður sem hótel á lóð neðan við Hafnargötu þar sem Læknishúsið stendur. Í Framhaldi voru húsin tengd saman undir Hafnargötuna þar sem hluti af safninu Frakkar á Íslandsmiðum er staðsett, hinn hlutinn er staðsettur á fyrstu hæð Læknishússins. Hótel var byggt við læknahúsið.

Harðneskjulegt líf, vosbúð og fjarvera Safnið Frakkar á Íslandsmiðum, opnaði 2014. Núverandi forstöðukona safnsins er Fjóla Þorsteinsdóttir sem veitt hefur safninu forstöðu í sjö

Guðrún Erlingsdóttir

Reistu fullkomnasta spítala landsins á Fáskrúðsfirði Samskipti sjómannanna frá Gravelines og íbúa Fáskrúðsfjarðar voru margvísleg og nokkuð um vöruskipti. Árið 1988 tóku bæirnir upp vinarbæjarsamband. Sem leiddu til þess að götur á Fáskrúðsfirði eru merktar bæði á íslensku og frönsku og Franskir dagar haldnir seinni part júlímánaðar. Hús sem frakkar byggðu voru endurbyggð og hýsa nú safnið, Frakkar á Íslandsmiðum. Frakkar byggðu þrjá spítala í byrjun 20. aldar, í Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Fáskrúðsfirði. Á vef minjaverndar kemur fram að Frakkar hafi reist sjúkraskýli á Fáskrúðsfirði 1897 og kapellu við hlið þess

6

SJÁVARAFL DESEMBER 2023

,,Það er nauðsynlegt að viðhalda tengslum milli Fáskrúðsfjarðar og Gravelines í Frakklandi vinabæjar Fáskrúðsfjarðar. Við þurfum að efla og rækta tengslin á milli þessara tveggja bæja og varðveita sameiginlega sögu þeirra.“


,,Frakkar á Íslandsmiðum lætur fáa ósnortna og oftar en ekki falla tár þegar afkomendur franskra sjómanna koma á safnið, finna nöfn þeirra þar, í Franska grafreitnum eða nöfn á skútum þeirra hjá steinunum við minningarlækinn“

Fjóla Þorsteinsdóttir, í frönskum spariklæðum á bryggjupolla fyrir neðan Franska spítalann

ár. Þegar Fjóla tók við starfinu átti hún ekki von á að verða eins lengi í starfi og raun ber vitni. ,,Ég hef ánægju af því að hitta fólk og tel nauðsynlegt að sagan gleymist ekki. Ég vil leggja mitt af mörkum að halda arfleifðinni á lofti,“ segir Fjóla sem bætir við að saga Frakka á Íslandsmiðum sé saga um harðneskjulegt líf, vosbúð, langa fjarveru að heiman, fátækt og ótrúlegt mannfall. Hún sé líka saga af samskiptum og viðskiptum sjómannanna og íbúa á svæðinu. Þau fólust m.a. í margvíslegum viðskiptum og þjónustu auk þess að kynnast mismunandi menningu landanna.

rauðvíni og Koníaki,“ segir Fjóla sem iðulega endar kynninguna á því að fá gesti til að syngja lög frá sínu heimalandi. ,,Það falla oft tár bæði frá þeim sem tengjast skútusjómönnunum og óskyldum. Flestir eru undrandi á þeim fjölda sem lét lífið við Íslandsstrendur og hvernig þeir þurftu að berjast fyrir lífi sínu við óviðunandi aðstæður,“ segir Fjóla og bætir við að gestir fari þó undantekninga-lítið brosandi úr kapellunni. Fjóla segir aðsókn að safninu aukast ár frá ári. Að meðaltali komi 15.000 gestir á safnið á ári sem er opið 15 maí til 30 september. 90% gesta séu frá Frakklandi og Belgíu.

Sagan verður að heyrast og flytjast á milli kynslóða ,,Leik- og Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar hafa verið duglegir að halda sögunni á lofti. Ég hef líka lagt áherslu á það og í sumar fékk ég til mín tvo og tvo nemendur 8 til 10 ára til að taka á móti frönskum hópum. Þannig læra börnin söguna og koma henni vonandi áfram,“ segir Fjóla sem bætir við að meginhlutverk Franskra daga sem haldnir eru í lok júlí séu að viðhalda tengslum við Frakka en ekki síður að flytja söguna á milli kynslóða.

Tilfinningarík augnablik Að sögn Fjólu er mikilvægt að viðhalda tengslunum við vinabæinn Gravelines og í tengslum við safnið hafi frönsk ungmenni komið til Fáskrúðsfjarðar og ungmenni frá Fáskrúðsfirði farið til Gravelines. Frönsk ungmenni hafi m.a. tekið þátt í að finna hluti sem notaðir voru á safni sem var forveri Frakka á Íslandsmiðum. Safnið hét Fransmenn á Íslandi og var opnað af áhugasömum Fáskrúðsfirðingum og nágrönnum. Munirnir sem þar voru sýndir komu að sögn Fjólu, héðan og þaðan bæði frá Frakklandi og Íslandi. Hluti af þessum munum er núverandi safni. ,,Frakkar á Íslandsmiðum lætur fáa ósnortna og oftar en ekki falla tár þegar afkomendur franskra sjómanna koma á safnið, finna nöfn þeirra þar, í Franska grafreitnum eða nöfn á skútum þeirra hjá steinunum við minningarlækinn“ segir Fjóla sem gjarnan fer með hópa sem koma á safnið niður á bryggju þar sem þeir eru myndaðir.

Vettlingar fyrir kex og rauðvín ,,Ég heyri fólk oft tala um að það sjái fyrir sér á firðinum, góletturnar eins og skúturnar voru kallaðar. Einnig fer ég með gesti upp að minningarlæknum þar sem 400 til 500 steinar liggja merktir skútum sem fórust,“ segir Fjóla sem sýnir siglutré sem er fyrir framan kapelluna og sjúkraskýlið. Þar sýnir hún gestum hundasúrur, fífla og fleiri jurtir sem frönsku sjómennirnir notuðu við tannholdsbólgu og náðu sér í vítamín. Hún segir líka frá því hvar sjómennirnir þvoðu sér í lækjum og lögðu sig í lautu eða sóttu vatn í tunnum í vatnsbólin. ,,Að lokum fer ég með gesti í Kapelluna þar sem ég segi þeim frá Fáskrúðsfjarðarfrönskunni sem og frösum sem enn lifa og viðskiptum sem fram fóru. Íslensku konurnar prjónuðu vettlinga með þumli sem þær létu í skiptum fyrir kex. Frakkar greiddu fyrir önnur vöruskipti með

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir og Peter Fintor að lokinni helgistund í Litlu kapellunni SJÁVARAFL DESEMBER 2023

7


,,Þessi einstaka og oft tilfinningaþrungna stund út á Krossum hefur verið föst í dagskrá Franskra daga nánast frá upphafi þeirra.“ ,,Það er ekki síður mikilvægt að halda bæjarhátíð eins og Franska daga þar sem bæjarbúar gera sér glaðan dag með brottfluttum og öðrum gestum,“ segir Fjóla en ítrekar að til þess að tilgangur Franskra daga nái fram að ganga þurfi bæjarbúar að vera duglegir að taka þátt í þeim viðburðum sem tengjast frönsku sjómönnunum.

Samvinna og vinátta kirkjudeilda Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur á Fáskrúðsfirði stendur í ströngu á Frönskum dögum. Ásamt því að taka þátt í dagskránni með fjölskyldu og vinum ber hún hitann og þungan af helgihaldi Franskra daga. Samstarf Fáskrúðsfjarðarkirkju og Kaþólsku kirkjunnar á Austurlandi er áberandi. Í helgistundinni sem fram fer í Litlu kapellunni á laugardeginum þjónar Jóna Kristín og kaþólsku prestarnir. ,,Frönsku húsin voru formlega opnuð sumarið 2014. Þá var góð samstaða milli kaþólsku prestanna við Kapúsínaklaustrið á Kollaleiru, við Reyðarfjörð og sóknarprestsins á Fáskrúðsfirði að sameinast við vígslu bænhússins. Þannig gætu báðar kirkjudeildir og jafnframt aðrir athafnað þar,“ segir Jóna sem telur fyrirkomulagið hafa skilað sér í góðri samvinnu og vináttu milli kirkjudeilda. ,,Get ég alveg fullyrt að bæði ég og vinir mínir á Kollaleiru, Br. Pétur Kovacik og Br. PeterFintor höfum haft ánægju af því að þjóna saman á Frönskum dögum,“ segir Jóna Kristín sem einnig stýrir minningarathöfn í Franska grafreitnum. Þar eru flutt ávörp fulltrúa frá Fjarðabyggð

Blómafleyting í minningu frönsku sjómannanna á Frönskum dögum

og Gravelines. Blómsveigur lagður að minnisvarða um Frönsku sjómennina sem fórust og tónlist flutt. Jóna Kristín og prestar Kaþólsku kirkjunnar þjóna við athöfnina. Að henni lokinni fer fram blómafleyting í fjöruborðinu fyrir neðan Franska grafreitinn.

Einstök og tilfinningaleg stund á Krossum ,,Þessi einstaka og oft tilfinningaþrungna stund út á Krossum hefur verið föst í dagskrá Franskra daga nánast frá upphafi þeirra. Mér finnst þessi stund og helgistundin í Litlu kapellunni, þar sem fulltrúar frá franska vinabænum okkar Gravelines, eru með okkur, skipta miklu máli. Það tengir okkur saman og við þá sögu franskra skútusjómanna, sem er í forgrunni Franskra daga og skapar sérstöðu þessarar bæjarhátíðar,“ segir Jóna Kristín og bætir við að á lokadegi Franskra daga sé helgistund í Fáskrúðsfjarðarkirkju líkt og á öðrum sunnudögum. ,,Yfirskrift hennar er Kósý stund með Guði, þar flytur kór Fáskrúðsfjarðarkirkju lög sem tengjast Frönskum dögum og frönsku sjómönnunum. Þetta er notaleg samvera á lokadegi bæjarhátíðarinnar og hefur gefist vel. Hún er nokkurs konar kveðja heimamanna og fararblessun þeim gestum sem sótt hafa okkur heim.“

Fimm daga bæjar- og minningarhátíð

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar og fulltrúi Gravelines í Franska grafreitnum

8

SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Franskir dagar á Fáskrúðsfirði er fimm daga bæjarhátíð með hefðbundinni dagskrá. Í fyrra hófst dagskráin á miðvikudegi og lauk á sunnudegi, helgina fyrir Verslunarmannahelgi. Dagkráin samanstóð af barna- og fjölskyldudagskrá, tónleikum, dansleikjum brekkusöng, varðeldi og flugeldasýningu. Göngum, hlaupum, reiðhjólakeppninni, Tour de Fáskrúðsfjörður, Íslandsmeistaramóti í Pétanque og félagsvist. Auk minningaviðburða og helgihalds sem snýr að minningu frönsku sjómannanna.



Hildur Inga Sveinsdóttir PhD í Matvælafræði Verkefnastjóri hjá Matís og Lektor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands

Frá rannsóknarstofu. Ljósmynd/Shutterstock

Nýting hráefna úr fiskiðnaði:

Hliðarstraumar eða hliðarhráefni? Rannsóknaráherslur: Vinnsluvatn, uppsjávarfiskur og slóg. Við vinnslu þeirra fiskafurða sem flestir myndu skilgreina sem aðalafurðir, flök og flakabita til dæmis, verða til ýmiskonar aðrir hráefnisstraumar. Þeir vega almennt um 45-70% af heildarþyngd fisksins sem um ræðir. Hér eru þekktastir og aðgengilegastir straumar á við hausa, hryggi, roð, afskurð og slóg. Þetta hráefni er oftast skilgreint sem hliðarstraumar og a.m.k. áður fyrr voru þetta straumar sem voru frekar til vandræða en annað og var jafnvel hent. Þökk sé mikilli framþróun, nýsköpun og samstöðu í tengslum við umbætur á nýtingu auðlinda og bætt verðmæti afla eru margir þessara strauma nú nýttir í ýmiskonar afurði, það á sérstaklega við í hvítfiskvinnslu. Í dag veiðum við þorsk með það fyrir augum að nálgast flakið þar sem það er álitinn vera mikilvægasti eða verðmætasti hluti hans en það er þó spurning hvort framþróun á þessu sviði verði á endanum til þess að aðrir hlutar fisksins fari að vera enn verðmætari. Förum við þá að veiða þorskinn helst fyrir roðið og fáum flak sem hliðarstraum?

10 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Í þessu máli er mikilvægasta spurningin sem við þurfum að svara fyrst, skiptir það einhverju máli? Hvort sem við tölum um þessa strauma sem hliðarstrauma, aukaafurðir, hliðarhráefni eða eitthvað annað er á hreinu að um er að ræða hráefni sem nýtilegt er til ýmisskonar vinnslu til virðisaukningar og til að bæta nýtingu lífauðlindarinnar. Það er því á okkar ábyrgð að leita ávallt leiða til að nýta það sem best. Í dag eru mörg tækifæri í tengslum við nýtingu hinna ýmissu hráefnisstrauma. Í þessum pistli verða kynntar rannsóknaráherslur ákveðinna verkefna sem eru í vinnslu ásamt framtíðar áherslum á þessu sviði hjá hóp vísindamanna sem höfundur starfar með innan Matís og Háskóla Íslands. Helstu áherslurnar eru núna þrjár.


Hliðarhráefni úr fiskvinnslu uppfull af tækifærum. Ljósmynd/Shutterstock

Vinnsluvatn Vinnsluvatn úr fiskvinnslu er auðlind sem mikilvægt er að horfa til með verðmætasköpun og umhverfissjónarmið fyrir augum. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að allt að 2-5% af heildar þyngd afla tapist með vinnsluvatni við vinnslu í t.d. flök og flakabita. Nákvæmlega hversu mikið tapast er háð t.d. uppsetningu og tegund tækjabúnaðar, árstíma, vinnslu og tegundar sem unnin er. Mögulega hráefnið sem um ræðir og er að finna í vatninun er allt frá uggum, roði og yfir í smáa bita af hreinum vöðva frá t.d. vatnsskurðarvélum. Innan veggja Matís og HÍ hefur farið fram vinna við tvö verkefni sem tengjast vinnsluvatni frá hvítfiskvinnslu. Annað nefnist „Verðmæti í vinnsluvatni frá bolfiskvinnslu“ og var upphaflega styrkt af AVS, seinna Matvælasjóði en það er samstarfsverkefni Matís, HÍ, Brim, Samherja, Vísis og Þorbjarnar. Hitt er unnið innan verkefnis sem styrkt er af evrópskum sjóði (Horizon 2020) og kallast Accelwater en þar eru íslensku þátttakendurnir Matís,

HÍ, Útgerðarfélag Akureyrar og Samherji Fiskeldi. Markmið þessara verkefna er m.a. að kortleggja vatnsnotkun í hvítfiskvinnslu, meta magn hráefnis sem tapast með vatninu og meta möguleika til nýtinga og söfnunar efnisins. Niðurstöður sýna að umtalsvert magn mögulegs hráefnis tapast með vinnsluvatni en þó er söfnun efnisins úr vatninu flöskuhálsinn í nýtingu þess og unnið er að því að meta þær aðferðir sem mögulegt væri að nýta við hana. Sé söfnunaráskorunin leist eru tækifæri í nýtingu allavega hluta hráefnisins í manneldisvörur t.d. með fiskhakki eða sem aukaefni í matvæli. Reynist ekki mögulegt að leysa söfnun hráefnis þannig að það haldist af þannig gæðum að það uppfylli kröfur sem gerðar eru til vinnslu vara til manneldis eru einnig tækifæri til notkunar þess á öðrum stöðum, t.d. í fóður. Söfnunarlausnin er ekki einungis metin með verðmætasköpun að markmiði heldur einnig með það markmið að minnka það magn auðlindarinnar sem tapast á haf út með tilheyrandi mögulegri mengun umhverfisins.

Nýveiddur makríll. Ljósmynd/Hildur Inga Sveinsdóttir SJÁVARAFL DESEMBER 2023

11


Makríll. Ljósmynd/Shutterstock

Þessi verkefni eru í gangi og niðurstöður þeirra eru kynntar eftir því sem við á, t.d. á heimasíðu annars verkefnisins www.Accelwater.eu og á samfélagsmiðlum verkefnisins og þátttakenda.

Uppsjávarfiskur Stærstu tækifærin í vinnslu uppsjávarfisks í dag liggja í hliðarhráefninu. Hér á við, eins og um aðrar fisktegundir, að aukin áhersla á kælingu afla og bætta meðhöndlun hefur gert iðnaði kleyft að vinna stærri hluta hans til manneldis og jafnvel í flök eða hausaðan og slógdreginn fisk en áður. Þá verða til tækifæri í formi nýs hráefnis sem var áður t.d. flutt úr landi. Enn er algengast að þetta hráefni sé nýtt að mestu í vinnslu fiskmjöls og lýsis til fóðurgerðar fyrir fiskeldi. Það er þó mikill breytileiki á milli þessara strauma og rannsóknir hafa sýnt að hið minnsta hluta þeirra er vel mögulegt að nýta til vinnslu vara til manneldis, t.d. til framleiðslu á lýsi til manneldis sem inniheldur fitusýrur mikilvægar heilsu fólks sem mikil eftirspurn er eftir ásamt ýmiskonar próteinafurðum. Í þessari vinnslu á það einnig við að ákveðnir minni straumar geta átt erindi í sértækari vinnslu, t.d. roð til kollagenframleiðslu og afskurðar til vinnslu á fæðubótarefnum. Ýmiskonar verkefni hafa verið unnin á undanförnum árum sem snúa að nýtingu hliðarstrauma frá uppsjávarfiski og þau snúa að öllu frá endurhönnum núverandi mjöl og lýsis ferla að nýtingu sértækari strauma í hágæða afurðir, t.d. gelatín, kollagen eða astaxantin ríka olíu. Verkefnin hafa verið styrkt af t.d. Matvælasjóð, AVS og Tækniþróunarsjóð Rannís og fleirum og unnin í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir hérlendis og erlendis. Síður fyrir verkefni með þessar áherslur má finna á heimasíðu Matís. Það hráefni sem nýtt er í dag til vinnslu innihaldsefna í fóður inniheldur oft efni sem eru mikilvæg heilsu fólks og gæti því átt þátt í að auka fæðuöryggi sé unnt að færa það hærra upp í fæðukeðjunni.

Slóg Slóg eða innyfli fisk eru oft um 7-10% af heildar þyngd afla og almennt er það lítið notað í vörur til manneldis með ákveðnum undantekningum, t.d. lifur sem nýtt er til lýsisvinnslu. Með bættri meðhöndlun hafa möguleg tækifæri til nýtingar allra þeirra strauma sem koma frá fiskvinnslu aukist og á það jafnt við um slóg og aðra strauma. Ákveðnar takmarkanir eru þó til staðar í tengslum við nýtingu hliðarhráefnis frá fiskvinnslu í vörur til manneldis. Hluti þeirra snýr að takmörkunum sem settar eru fram í innlendum og Evrópskum reglugerðum. Í Evrópureglugerð nr. 1069/2009 er skýrt frá áhættuflokkun hliðarhráefnis og þannig upplýsingar gefnar um á hvaða hátt leyfilegt er að nýta mismunandi strauma. Þar eru aukaafurðir flokkaðar í 3 flokka. Flokkur 3 (Category 3) inniheldur efni sem talið er áhættulítið

12 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

og undir hann falla hlutar af dýrum sem eru hæf til manneldis en mögulega ekki ætluð í matvæla og Flokkur 2 (Category 2) inniheldur efni sem talið er áhættumikið efni en það á við um t.d. sjálfdauð dýr, húsdýraáburð, innihald meltingarvegar o.fl. Að lokum er síðan Flokkur 1 áhættumesti flokkurinn og þar er um að ræða t.d. riðusmitað efni, tilraunadýr og fleira. Þessi flokkun gerir það að verkum að ekki er leyfilegt að nýta neitt það hliðarhráefni sem kemst í snertingu við slóg og þá innihald meltingarvegar, nema það sé fjarlægt við slægingu eins og gert er t.d. með þorskalifur, í vörur til manneldis þar sem efnið er vegna snertingunnar álitið áhættumikið (Flokkur 2). Undir þetta fellur stór hluti af öllum hliðarstraumum úr uppsjávarvinnslu, slóg úr vinnslu á eldislaxi og bolfiski og fleira. Hér er um að ræða gífurlegt magn lífauðlinda sem þegar hefur verið lögð vinna í að afla og varðveita. Sé það svo að ekki sé unnt að framleiða örugga vöru úr hráefni sem þessu er það eðlileg krafa af hálfu stjórnvalda hérlendis og erlendis og því vakna spurningar, er það svo eða ekki? Að auki, hvaða áhrif hafa framfarir í meðhöndlun afla og vinnslutækni haft á þessa möguleika? Þessum spurningum er ósvarað og er það álit höfundar að mikilvægt sé að leggja í þá vinnu að svara þeim með skipulögðum og formlegum hætti í gegnum viðurkenndar greiningar og áhættumat. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir íslenskt samfélag, enda um að ræða stóran hluta alls þess fisks sem unninn er hérlendis og auðvitað líka hjá nágrannaþjóðum okkar. Íslendingar hafa lengi verið leiðandi í rannsóknum á lausnum, aðferðum og tækifærum sem tengjast sjávarfangi og er hér tækifæri fyrir okkur til að halda því áfram með því að leiða þessa vinnu og fá úr því skorið hvort þessi hráefnisstraumur geti tekið þátt í að leysa þær áskoranir sem fjölgun mannkynns valda með aukinni prótein og orkuþörf. Hver sem niðurstaða áhættumats væri er ljóst að erfitt er að marka stefnu í því hvernig best sé að nýta hliðarhráefni af þessum toga án þess að það liggi fyrir. Það er því álitið mikilvægt á þessum tíma þar sem umræða um sjálfbærni, umhverfisvernd, hringrásarhagkerfi og fæðuöryggi eru orð sem eru í hávegum höfð, að rannsóknaraðilar á þessu sviði taki höndum saman í samráði við yfirvöld og leiti þessara svara.

Að lokum Rannsóknir á nýtingu hliðarhráefnis frá fiskvinnslu eru þverfagleg fræði og að því koma margir aðilar úr mismunandi áttum innan rannsóknar- og háskólasamfélags, úr iðnaði og frá stofnunum og það er samstarfið sem liggur þarna á milli aðila sem hefur komið okkur þangað sem við erum í dag og kemur okkur áfram. Höldum samtalinu lifandi.


Marel óskar viðskiptavinum og samstarfsaðilum og farsældar á komandi ári.

gleðilegrar hátíðar

samfylgdina

síðastliðið ár Takk fyrir og 40 árin þar á undan.

marel.com


Birt í Vestra 28. október 1912.

Flöskuskeytið frá Titanic sem fannst á Íslandi Tengingar Íslands og Íslendinga við hið merka skip, Titanic, virðast ekki sérlega margar. Þær sem athygli hafa vakið á síðari árum eru einkum tvær en sú þriðja hefur ekki farið hátt. Ber fyrst að nefna frétt sem birtist í vestfirska blaðinu Bæjarins besta árið 2012.1 Var þar fjallað um mann sem sagt er að hafi verið eini Íslendingurinn um borð í Titanic. Hann hét Bjarni Guðmundur Ásgeirsson og var frá Kleifum í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi.

Íslenska Lego-undrið Ungur Íslendingur komst í heimsfréttirnar þegar hann smíðaði úr Legokubbum stærstu eftirlíkingu heims af Titanic. Pilturinn, Brynjar Karl Birgisson, var 10 ára þegar hann hóf smíði skipsins árið 2014 og notaði hann rúmlega 56 þúsund kubba til að fullkomna verkið. Skipið hans Brynjars, sem er rúmlega 6 metra langt, hefur farið víða og ferðast mun lengra en sjálf fyrirmyndin. Brynjar heldur úti vefsíðu3 þar sem fjallað er um þetta magnaða verkefni, tilurð þess, áhrif og tilgang.

Malín Brand

Í umfjöllun blaðsins er vitnað í ritara Djúpmannatals, Ólaf Hannibalsson, en hann óskaði árið 2012 eftir að komast í samband við ættingja Bjarna því upplýsingar um hann voru af skornum skammti. Ekki virðast upplýsingar hafa gefið gleggri mynd af ferðalagi Íslendingsins en hann var fæddur 4. ágúst 1870 og yngstur ellefu systkina. Talið var að vissar vísbendingar væru um að Bjarni hefði verið á meðal farþega og á meðal þeirra sem fórust með Titanic í aprílmánuði 1912. Fleiri fjölmiðlar2 fjölluðu um Bjarna árið 2012 og tenginguna við Titanic en nafn Bjarna var ekki að finna á farþegalista skipsins. Mögulega var hann í áhöfn skipsins en ekkert er hægt að fullyrða um það því engar heimildir renna undir það stoðum.

14 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Barkworth og félagar.


Ritað með blýanti á „ofboð lítilfjörlegan snepil“ Þá er það þriðja tengingin en það er sjálft flöskuskeytið. Þessi tenging Íslands og Titanic er sú sem minnst hefur verið fjallað um og hefur verið ráðgáta síðan árið 1912. Hefst nú sagan: Klukkan fjögur eftir hádegi föstudaginn 4. október árið 1912 fann maður nokkur flösku í flæðarmálinu við Skógarnes í Hnappadalssýslu. Flaskan sem þar rak á land var ekki tóm heldur innihélt hún orðsendingu til þess er flöskuna kynni að finna. Orðsendingin í flöskunni var skrifuð á lítinn miða sem var kannski ekki merkilegur að sjá í fyrstu en í blaðinu Ísafold4 var honum lýst með þessum orðum: „Skeyti þetta er ritað með blýanti á ofboð lítilfjörlegan snepil.“ Enda varla hægt að gera ráð fyrir fínu bréfsefni og skrautskrift þegar litið er til aðstæðna þess sem þetta skrifaði: „I am one of the men that wreched on Titanic. Harry Vilson“ 5 Fjallað var um flöskuskeytið í nokkrum blöðum hér á landi í októberlok 1912. Aldrei var mörgum orðum varið í flöskuskeytisfundinn og rataði fréttin ekki á forsíður blaðanna að Vísi6 undanskildum7 en þar birtist fréttin fyrst. Það var þann18. október 1912 og prýddi fréttin eitt hornið á forsíðunni: Flöskukeyti frá Titanic fundið hjer. Jeg er einn hinna drukknandi manna á ,Titanic‘. Harry Wilson. Flaska með þessu skeyti fannst í Skógarnesi í Hnappadalssýslu, föstudaginn 4. þ. m. kl. 4 síðdegis. Ekki voru það mörg orð og kannski ekki margt um málið að segja á þessum tímapunkti. Hinn hörmulegi atburður hefur eflaust verið flestum ofarlega í huga enda aðeins hálft ár liðið frá örlaganóttinni þegar Titanic sökk og engin ástæða til að eyða prenti og pappír í að rifja hana upp.

Gabb gárunga eða raunverulegt skeyti? Þau blöð sem greindu frá fundi flöskuskeytisins birtu öll nokkurn veginn það sama, öll nema Ísafold. Þar virðast blaðamenn hafa verið nokkuð gagnrýnir í nálgun sinni og sagði m.a. í frétt blaðsins þann 19. október 1912:

Algernon Henry Wilson Barkworth.

Hvort hér er um að tefla raunverulegt skeyti frá Titanic-slysinu eða einungis laklega fyndni einhvers gárunga, er ókleift að segja að svo stöddu. Skeytið hefir verið símað utan og hér í bæ er verið að leita uppi, hvort nokkuð Titanic-farþegjanna hafi heitið þessu nafni.8 Óhætt er að segja að það væri helst til ósmekklegt spaug að útbúa slíkt skeyti og það rétt eftir að skipið sökk. Þó var sjálfsagt að nefna þann möguleika að um hreint og klárt falsskeyti hafi verið að ræða en meira um það hér fyrir neðan. Ísafold var eina blaðið sem fylgdi málinu eftir og var það gert viku síðar eða þann 26. október 1912: Titanic-skeytið falsað? Í síðasta blaði var prentað flöskuskeyti, er fanst í Skógarnesi, undirritað af Harry Vilson, er tjáði sig verið hafa einn þeirra, er í Titanic-skipbrotinu lentu. Við nánari rannsókn hefir Ísafold orðið þess vísari, að enginn farþegi var á Titanic með því nafni. Í bók um Titanic-slysið, sem Cox trúboði hefir léð Ísafold, er listi yfir alla farþegana, en ekkert nafn líkt þessu. Annaðhvort er því um að tefla beint falsskeyti, þótt ótrúlegt sé, að nokkur hafi gaman af að setja svona skeyti saman, eða það er frá einhverjum skipverja. Um það verður gerð fyrirspurn til White-Star félagsins.9

Birt í The Sun 20. október 1912.

Hvort fyrirspurn var í raun send til skipafélagsins White Star Line kom aldrei fram né heldur hvort þeirri fyrirspurn var svarað hafi hún verið send. SJÁVARAFL DESEMBER 2023

15


Birt í Þjóðviljanum.

Enginn með þessu nafni – eða hvað? Því var haldið fram að enginn Harry Vilson, Harry Wilson eða Henry Wilson eins og hann var nefndur í dagblaðinu Vestra,10 hafi verið á farþegalista skipsins. Þannig var það nú afgreitt og það sama á við í þeim örfáu11 tilvikum í erlendri umfjöllun þar sem minnst er á flöskuskeytið sem rak á land við Skógarnes. Hér eru nokkur dæmi þar sem fjallað er um flöskuskeytið. Í frétt sem birtist í bandaríska dagblaðinu The Sun þann 20. október 1912 kemur fram að enginn Harry Wilson hafi verið um borð í Titanic og enginn með svipuðu nafni.12 Hið áhugaverða áhugamannafélag um Titanic, British Titanic Society, birti árið 2022 grein þar sem sagt er frá flöskuskeytinu sem fannst við Skógarnes og öðrum flöskuskeytum sem talin eru tengjast Titanic. Þar segir að nafnið Harry Wilson sé hvorki að finna á farþegalista né á lista yfir áhafnarmeðlimi hins sokkna skips.13 Á ástralska fréttamiðlinum ABC News var fyrir fáeinum árum fjallað um flöskuskeyti og var minnst á skeytið „okkar“ í þeirri umfjöllun. Þar segir einfaldlega að enginn Harry Wilson hafi verið á listum yfir þá sem voru um borð í Titanic og að flöskuskeytið hafi að öllum líkindum verið falsað.14

Farþeginn í káetu A23 Hvað með þennan Henry sem nefndur var í Vestra? Var um innsláttarvillu að ræða eða misskilning? Henry Wilson er ekki sérlega ólíkt nafninu Harry Wilson. Þegar farþegalisti15 Titanic er skoðaður vandlega er þar að finna nafnið Algernon H. Barkworth. Hann var

Titanic. Ljósmynd: Pixabay

16 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

farþegi á fyrsta farrými og ferðaðist einsamall. Þegar saga þessa manns er skoðuð ögn betur kemur í ljós að hann hét fullu nafni16 Algernon Henry Wilson Barkworth. Hann var handhafi farmiða númer 27042 sem hann hafði greitt heil þrjátíu pund fyrir og gisti hann í káetu A23. Barkworth var frá Yorkshire og hafði ferðast víða á þeim 47 árum sem hann hafði lifað en til Ameríku hafði hann aldrei komið. Hann ætlaði að dvelja í New York í mánuð og þótti honum tilvalið að ferðast þangað með stærsta farþegaskipi heims fyrst færi gafst. Og það gerði hann. Við illan leik komst Barkworth alla leið til Ameríku. Síðla kvölds þann 14. apríl 1912 sat Barkworth í reykherberginu ásamt kunningjum sem hann hafði kynnst um borð. Þeir ræddu vegaframkvæmdir, sem er gott og gilt umræðuefni úti á rúmsjó, en farþeginn úr káetu A23 hafði einlægan áhuga á vegagerð. Er líða tók að miðnætti voru flestir farþegar gengnir til náða og ætluðu þeir félagar að doka við til miðnættis og fara svo í háttinn. Þeir ætluðu að fylgjast með er klukkan slægi tólf. En klukkan á Titatic sló ekki tólf því agalegur dynkur varð um tuttugu mínútum fyrir miðnætti, þegar skipið rakst á ísjaka sem skrapaði svo stjórnborðshlið skipsins og framhaldið þekkja flestir.

Svamlað í söltum sjó Þegar skipið tók að hallast eftir áreksturinn við ísjakann var Algernon Barkworth þakklátur fyrir að hafa lært að synda þegar hann stundaði nám í Eton forðum daga. Hafi maður eitt sinn lært að synda gleymast sundtökin ekki svo glatt. Áður en Barkworth synti af stað hafði hann náð að hlaupa inn í káetuna sína, troða verðmætum í skjalatösku og klæða sig í einhverja loðflík utan yfir björgunarklæðin. Hér er afar freistandi að segja söguna með orðum mannsins sem hét millinöfnunum tveimur, Henry Wilson, en það verður að bíða betri tíma. Til að gera langa sögu stutta þá bjargaði sundkunnáttan mögulega einhverju því þannig tókst Barkworth að halda sér á floti uns hann fékk stórt brak bókstaflega í hausinn. Já, það skall beint á nefið á honum, sem fyrir vikið var óstarfhæft í þrjá daga, en þetta brak hélt Barkworth á floti þar til hann náði að klöngrast upp í bát sem var raunar smekkfullur af fólki sem bjargað hafði verið úr ísköldum sjónum. Skipið Carpathia lagði loks af stað klukkan 8:50 að morgni 15. apríl 1912 með Algernon Henry Wilson Barkworth og 704 til viðbótar. Carpathia kom til New York þann 18. apríl. Nú, ef þetta er ekki sami maðurinn og sá sem sendi flöskuskeytið þá verður tilviljunin að teljast áhugaverð og saga hans er ekki síður áhugaverð. Að lokum má geta þess að A.H.W. Barkworth dvaldi skemur en mánuð í Ameríku. Hann vildi nú bara komast heim til sín. Hann náði nokkuð háum aldri og dó eftir skammvinn veikindi í ársbyrjun 1945. Hvað varð um flöskuskeytið sem fannst við Skógarnes í Hnappadalssýslu klukkan fjögur eftir hádegi föstudaginn fjórða október 1912, er ekki gott að segja. Flöskuskeytið sem flestir hafa hingað til talið „plat“. En mikið væri gaman að komast að því hvar það endaði!


Heimildir

Birt í Vísi 18. október 1912.

1 Bæjarins besta, 17. tbl. 26.04. https://timarit.is/issue/379878 Birtist fyrst á vef blaðsins, www.bb.is en síðan er ekki aðgengileg. Sótt 20.11.2023 2 Ríkisútvarpið, 17. apríl 2012, sótt 20.11.2023, https://www.ruv.is/frettir/ innlent/forst-islendingur-med-titanic/ 3 https://www.brynjarkarl.com/ 4 safold, 69. tbl. 19.10.1912, https://timarit.is/page/3950434 sótt 15.11.2023. 5 Norðurland, 40. tbl. 02.11.1912, https://timarit.is/page/2288511, sótt 15.11.2023. 6 Vísir, 427. tbl. 18.10.1912, https://timarit.is/page/1110734, sótt 15.11.2023. 7 Reyndar birtist klausa um flöskuskeytið á forsíðu Vestra tíu dögum síðar eða þann 28. október 1912. 8 Ísafold, 69. tbl. 19.10.1912, https://timarit.is/page/3950434, sótt 15.11.2023. 9 Ísafold, 71. tbl. 26.10.1912, https://timarit.is/page/3950444, sótt 20.11.2023 10 Vestri, 42. tbl. 28.10.1912, https://timarit.is/page/2337690, sótt 20.11.2023 11 Hér er vísað til umfjöllunar í gegnum tíðina en þó einkum eftir árið 1912 og sér í lagi í nútímanum. Á svipuðum tíma og fréttir af flöskuskeytinu birtust í blöðunum hér á landi birtu öll helstu bresku dagblöðin fáein orð um fundinn en fæst þeirra höfðu mörg orð um hann. Samkvæmt einu þeirra, Lundúnablaðinu The Evening News frá laugardeginum 19. október 1912, var þetta annað flöskuskeytið sem fannst frá Titanic en þar er yfirskriftin „Another Titanic Bottle“ en ekki orð um þá fyrri. 12 The Sun, 50. tbl. 20. 10. 1912, https://nyshistoricnewspapers.org, sótt 15.11.2023 13 British Titanic Society, 9. maí 2022, Messages in bottles: Genuine or fake? https://britishtitanicsociety.com, sótt 20.11.2023. 14 ABC News, 7. mars 2018, The Uncorker of Ocean Bottles and Titanic hoaxes: Here’s the bizarre history of messages in bottles, www.abc.net.au, sótt 20.11.2023. 15 https://www.encyclopedia-titanica.org/cave-list.html 16 Ýmist sagður heita A. H. Barkworth, Algernon Henry Barkworth eða Algernon Henry Wilson Barkworth en í dánarvottorðinu er nafnið Algernon Henry Barkworth skráð. https://www.encyclopedia-titanica.org/algernonhenry-barkworth-death-certificate.html

SJÁVARAFL DESEMBER 2023

17


Bergvin Eyþórsson fyrrum sjómaður og núverandi varaformaður Verk Vest

Landhelgisgæslan. Ljósmynd/Aðsend

Eru sjómenn öruggir á sjó? Þegar sjómaður stígur á skipsfjöl er hann kominn undir Sjómannalög (nr.35/1985) sem eru mjög ólík lagaumhverfi þeirra sem vinna í landi og þrengja verulega að því sem við hugsum sem sjálfsögð mannréttindi í dag. Skipstjóri hefur “alvald” um borð í skipi sem trompar rétt skipverja, en á móti hefur skipstjóri þá skyldu að gæta hagsmuna skipverja. Líkja má þessu við hugmyndir okkar um herþjónustu þar sem sjómaðurinn, eins og hermaðurinn ber skilyrðislausa hlýðniskyldu gagnvart æðstráðanda, skipstjóra, og réttur hans til mótmæla og til að gæta eigin hagsmuna er mjög takmarkaður. Það er því mikil ábyrgð lögð á herðar skipstjóra og gera sjómannalögin ráð fyrir því að skipstjóri rísi undir þeirri ábyrgð í hvívetna. Öryggi sjómannsins og velferð er því algerlega í hendi skipstjóra. Þetta er um margt ólíkt því að vinna vinnu í landi þar sem almenn landslög gilda og starfsmaðurinn ber sína ábyrgð sjálfur og hefur alltaf rétt til að gæta síns öryggis og velferðar á hvaða tímapunkti sem er, en það er sá veruleiki sem við þekkjum öll. Hins vegar ætla ég hér að draga fram veruleika sjómanna sem landsmenn almennt hafa takmarkaðan skilning á.

18 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Covid-tíðarandinn Covid-tíminn var okkur öllum erfiður, það sem við höfðum alla tíð tekið sem sjálfsagðan hlut breyttist allt í einu og við þurftum að aðlaga okkur nýjum veruleika sem helltist yfir okkur á ofur hraða. Enginn vissi neitt, en öll vorum við að gera okkar besta, einar reglur í dag og aðrar á morgun. Fyrirtæki fóru í fordæmalausar aðgerðir til að halda starfsemi sinni gangandi með því að aðskilja starfsmenn og hefta samgang til að fyrirbyggja smit. Skip almennt eru alls ekki hönnuð með það fyrir augum að geta tekist á við slík verkefni. Aðilar vinnumarkaðarins létu ekki sitt eftir liggja, allir lögðust á eitt til að halda hjólum atvinnulífsins á snúningi og þar voru hagsmunaaðilar sjómanna og útgerða með puttann á púlsinum. Gefnar voru út leiðbeiningar um smitgát og viðbrögð ef grunum væri um smit um borð. Að þessum leiðbeiningum stóðu hagsmunaaðilar útgerða og sjómanna ásamt landlæknisembættinu, en í leiðbeiningum landlæknisembættisins eru ítarlegar leiðbeiningar um viðbrögð ef upp kemur grunur um smit um borð í skipum og gert var ráð fyrir


Laugardaginn 17. október, sléttum þremur vikum eftir brottför, kom skipið til lands í olíutöku og var áhöfn skimuð um borð, enda 20 skipverjar af 25 með einkenni. Sóttvarnarlæknir vildi ekki hafa skipið við bryggju meðan beðið var eftir niðurstöðu og bað um að skipið færi frá bryggju af sóttvarnarástæðum, en ekki mætti fara langt. Skipinu var siglt beint til veiða, en fimm klukkustunda sigling var á miðin. Síðdegis daginn eftir komu niðurstöður úr skimun, staðfest var að Covid smit var um borð og veiðum hætt. Skipstjóri tilkynnti mönnum hverjum og einum um niðurstöðuna og þurftu sumir að klára sína vinnu áður en þeir fengu staðfest að þeir væru Covid-smitaðir. Siglt var af stað í land og skipverjar látnir þrífa skipið. Þegar borin voru upp mótmæli við skipstjóra um að menn þurfi að þrífa skipið með sterkum efnum og anda þeim að sér með mikil öndunarfæra-einkenni gaf skipstjóri þeim sem ekki treystu sér í verkið heimld til að sitja hjá.

Hvernig virkar veikindaréttur sjómanna á sjó? Sjó stilla. Ljósmynd/Aðsend

að Landhelgisgæslan taki við stjórn málsins um leið og skipstjóri gerir gæslunni viðvart um málið. Með þessum hætti var fjöldi aðila búinn að hjálpast að við að fyrirbyggja að upp kæmu smit sem færu úr böndunum, enda vorum við öll í þessu saman.

Hvað gerðist á Júlíusi Geirmundssyni Í þessum aðstæðum hélt Júlíus Geirmundsson ÍS til veiða laugardaginn 26. september 2020 og ekki vildi betur til en að á öðrum degi veiðiferðarinnar var einn skipverji settur í einangrun í sjúkraklefa skipsins. Til öryggis lét skipstjóri sótthreinsa helstu snertifleti um borð ásamt klefa skipverjans og hafði svo samband við sóttvarnarlækni á viðeigandi heilbrigðisstofnun til að fá álit læknis á því hvort um Covidsmit gæti verið að ræða. Læknirinn benti skipstjóra á að erfitt sé að greina á milli í síma hvers eðlis veikindin væru, auðvitað gæti einn og einn fengið flensu en ef þetta væri Covid myndu allir veikjast hver af öðrum. Síðan tók læknirinn af allan vafa og sagði skipstjóra að koma yrði með manninn í skimun, öðruvísi væri ekki hægt að úrskurða hvort um Covid væri að ræða. Í kjölfarið óskuðu skipverjar eftir að fara í land í skimun og fengu það svar frá skipstjóra að ekki væri þörf á því, hann hafi verið í sambandi við sóttvarnarlækni sem telji þetta flensu og ekkert að óttast. Á 5. degi veiðferðarinnar var næsti orðinn veikur og á fyrstu vikunni voru fjórir skipverjar í veikindum og næstu daga á eftir veikjast þeir hver af öðrum og glíma margir hverjir við öndunarfæra örðugleika og misstu bragðog lyktarskyn. Ástandið var orðið þannig að færa þurfti menn milli vakta til að geta haldið vinnslu gangandi vegna fjölda veikra skipverja og voru þeir farnir að skipta á verkum innbyrðis þar sem sumir orkuðu ekki sín störf og pressa var á skipverja að vera ekki lengi í veikindum þar sem vantaði menn á vaktir. Dæmi eru um að menn hafi þurft að sofa í borðsal þar sem klefafélaginn lá í veikindum í klefanum, og í tvígang í veiðiferðinni ræddi skipstjóri við áhafnarmeðlimi hvern og einn til að halda utan um sjúkdómseinkenni. Samt sem áður fullvissar hann áhöfnina um að sóttvarnarlæknir sé inni í málinu og telji þetta flensu. Skipverjar sem kröfðust þess að farið yrði í land í skimun fengu það svar að ekki væri þörf á því þar sem skipstjóri væri í sambandi við sóttvarnarlækni sem teldi stöðuna ekki alvarlega. Þann 16. október sem var 21. dagur veiðiferðarinnar hafði skipstjóri aftur samband við sóttvarnarlækninn sem hann hafði ekki rætt við í 18 daga. Ákveðið hafði verið að fara í land til að taka olíu og ræddi skipstjóri að senda einhverja áhafnarmeðlima í skimun fyrir Covid-smiti og sendi sóttvarnarlækni þær upplýsingar um einkenni áhafnarmeðlima sem hann hafði skráð. Svar sóttvarnarlæknis var að augljóslega væri um Covid að ræða miðað við gögnin og voru allir skipverjar skimaðir. Skipstjóri tilkynnti áhöfn um sýnatökuna og að ekki mætti pósta upplýsingum um það á samfélagsmiðla og ekki ræða við fjölmiðla.

Í þessu samhengi kom upp umræða meðal skipverja um hver væri þeirra réttur til veikinda. Í sjómannalögum segir að “ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum”. Staðreyndin er sú að öll verk sem til falla verður að vinna, það er verkefni áhafnarinnar. Ef einn eða fleiri treysta sér ekki til vinnu þurfa hinir sem eftir standa að vinna á 150% afköstum án aukagreiðslu, en í þessu tilfelli voru þeir sem eftir stóðu alls ekki full frískir. Til að taka af allan vafa stýrir skipstjóri vinnuálagi á dekkmenn með veiðum, meðan fiskur bíður vinnslu er skýr krafa um að aflinn sé unninn hvernig svo sem menn fari að því eða hversu sprækir menn séu.

Sjópróf Stéttarfélög skipverja tóku saman höndum og kröfðust sjóprófa. Tilgangur sjóprófa er að draga fram staðreyndir um hvað gerðist með því að safna vitnisburðum skipverja og þeim sem að málinu komu fyrir dómi þar sem mönnum er uppálagt að segja satt og rétt frá. Sjópróf eru hinsvegar ekki til úrlausnar sakarefnis. Svo fór að forsvarsmenn útgerðar og skipstjóri báðust undan því að bera vitni þannig að þeirra sýn hefur enn ekki litið dagsljósið, en 16 skipverjar auk sóttvarnarlæknis báru vitni. Þrír lögmenn spurðu aðila spjörunum úr, lögmaður stéttarfélaganna, lögmaður skipstjóra og lögmaður útgerðar, en áherslur lögmanna voru ekki þær sömu. Lögmaður stéttarfélaga spurði spurninga sem drógu fram staðreyndir og upplifun skipverja af veiðiferðinni, en lögmenn útgerðar og skipstjóra lögðu mikla áherslu að fá draga fram viðurkenningu áhafnarmeðlima á því að þeir hefðu getað gripið í taumana með því að fara á bakvið skipstjóra sem þeir hafi ekki gert

Bræla á miðunum. Ljósmynd/Aðsend SJÁVARAFL DESEMBER 2023

19


Ljósmynd/Aðsend

(enda refsivert brot á sjómannalögum) og að menn hefðu haft frelsi til að neita að vinna vegna veikinda. Skipverjar upplifðu margir hverjir að lögmenn hafi verið mjög ágengir og leiðandi og komið skipverjum úr jafnvægi sem er mjög óheppilegt þar sem sjópróf eru til að skrá söguna. Sagan hefur samt verið skráð með þessum annmörkum sem komið hafa fram.

Skipstjóri dæmdur og sviptur réttindum tímabundið Lögreglustjóri mat það sem svo að skipstjóri hafi gerst brotlegur gegn 2.mgr. sjómannalaga nr.35/1985 með því að hafa ekki flutt sjúkling í land vegna smithættu. Hins vegar féll hann frá ákæru vegna brots gegn 1.mgr. sömu laga sem segja að skipstjóri skuli sjá um að skipverji sem veikist eða slasist fái nauðsynlega umönnun á skipinu eða í landi, þar með talið hjúkrun, læknishjálp og lækningaefni. Féll dómur eins og Lögreglustjóri lagði til þar sem skipstjóri fékk sekt auk þess að vera sviptur skipstjórnarréttindum í fjóra mánuði, samt þannig að hann megi gegna stöðu stýrimanns á meðan.

Afleiðingar fyrir einstaka skipverja Svo fór að sumir skipverja glíma enn við afleiðingar ákvörðunar skipstjóra, hvort sem litið er til framfærslu og/eða lífsgæða. Margur landinn hefur orðið fyrir slíkum heilsubresti þrátt fyrir að vinna í landi og hafa óskertan aðgang að heilbrigðisþjónustu og að hafa tækifæri til að takast á við sjúkdóminn án þess að vera í einangrun úti á sjó. Sem betur fer vinnur tíminn með þessum mönnum og þeir braggast hægt og rólega, en hefði verið hægt að afstýra því með réttum viðbrögðum? Sá umræddra skipverja sem einna verst kom undan þessari veiðiferð varð miklu veikari en hann hefði þurft að verða. Hann, eins og fleiri skipverjar, fór þess ítrekað á leit við skipstjóra að farið yrði í land til að meta heilsufar áhafnar og vísaði til þess að vegna gamallar sögu um lungnaveikindi gæti það verið honum hættulegra en öðrum að fá Covid, sem hann fékk svo. Skipverjinn varð fár veikur, mjög verkjaður, var með óráði um tíma og hefur aldrei orðið jafn mikið veikur um ævina. Eftirlit með honum í þessum veikindum var í algeru lágmarki og sneri aðeins að því að fylgjast með hvort hann væri orðinn vinnufær.

20 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Eftir veiðiferðina glímir hann auk líkamlegra einkenna við mikla áfallastreituröskun og telur engar líkur á að hann treysti sér aftur á sjó. Útgerð skipsins bauð skipverjum að fyrra bragði upp á sálrænan stuðning í kjölfar veiðiferðarinnar ásamt því að greiða skipverjum kauptryggingu þar sem skipinu var ekki haldið strax til veiða aftur. Með þessu lágmarkaði útgerð skaða þeirra sem komu hvað best undan þessum hremmingum, en þeir sem gerðu það ekki hafa borið harm sinn að mestu í hljóði.

Krafist bóta Skipverjinn hefur krafist miskabóta vegna þessa úr hendi skipstjóra, útgerðarstjóra og framkvæmdastjóra vegna þessarar meðferðar þar sem hann telur hafa verið hrein ógn við líf og heilsu sína. Allir aðilar höfnuðu kröfum skipverjans og málinu var stefnt til Héraðsdóms. Héraðsdómur sýknaði útgerðarstjóra og framkvæmdastjóra á grundvelli sjómannalaga, en samkvæmt þeim ber skipstjóri alla ábyrgð. Skipstjórinn var aftur á móti dæmdur fyrir stórfellt gáleysi sem valdið hafi skipverjanum skaða, en miskabætur voru dæmdar 400.000 krónur með dráttarvöxtum. Málinu hefur verið áfrýjað og er beðið fyrirtöku hjá Landsrétti. Skipverjinn hefur einnig krafist viðurkenningar á bótarétti hjá tryggingarfélagi útgerðarinnar vegna þess tjóns, líkamlegs, andlegs sem og fjárhagslegs, sem hann hefur orðið fyrir vegna þessa. Það mál er enn í ferli.

Eru sjómenn öruggir á sjó? Stóra myndin nær utan um miklu meir en hér hefur verið rætt. Hagsmunaaðilar útgerðar- og sjómanna vinna þétt saman í að fækka slysum á sjó með miklum árangri. Það sem hefur ekki verið mikið í umræðunni, hvorki fyrr né síðar, er það tjón sem dómgreindarleysi skipstjóra getur valdið sjómönnum eins og gerðist í þessu tilfelli. Skipstjóri er alvaldur á sjó en öllu valdi fylgir jú ábyrgð, ábyrgð sem dómstólar hafa nú staðfest, öryggi sjómanna er því algerlega í hendi skipstjóra þeirra. Spurningin um hvort sjómenn séu öruggir á sjó leiðir því af sér aðra spurningu: Er skipstjórinn þinn traustsins verður?


Markus Lifenet ehf. (Björgunarnetið Markús) Er sérhæft í þróun og framleiðslu búnaðar til að bjarga fólki úr sjó. Meðal þekktra framleiðsluvara eru Markúsarnet og léttabátanet en einnig eru framleiddir þar neyðarstigar og kastlínur sem henta einkar vel um borð í smábátum.

Markúsarnet Fyrir allar tegundir skipa og báta

Gefðu öryggi í jólagjöf Léttabátanet / Veltinet Er létt, auðvelt að festa og fljótlegt til björgunar, tekur lítið pláss og pakkast hratt og örugglega, leggst mjúklega utan um einstaklinginn og er einfalt í notkun.

Neyðarstigi í dekkbáta með allt að 1,8 m borðhæð sem haga má þannig að maður í sjó geti kippt stiganum niður og klifrað upp.

Stök kastlína í kastpoka fyrir allar gerðir skipa og báta og til að hafa merðferðis á ferðalögum.

Markus Lifenet ehf., Hvaleyrarbraut 27, 220 Hafnarfirði Sími: 565-1375- sales@markusnet.com - www.markusnet.com


Eplin sem skiluðu sér á aðfangadagskvöld „Þegar við komum heim, eftir að hafa látið vita um komu eplanna, fundum við svo sannarlega að eplin voru komin, því angan þeirra mætti okkur um leið og við opnuðum útihurðina heima.“ Þannig lýsir Snæbjörn Ásgeirsson upplifun sinni af jólunum 1947. Allfræg er orðin sú saga þegar Örninn fór svaðilför til Reykjavíkur að sækja epli fyrir verslun Páls Friðbertssonar og Kaupfélagið á Flateyri. Skipverjar lentu í miklum vandræðum á leið sinni til baka með eplin vestur en blindbylur skall á og talstöðvar brotnuðu. Hér kemur lýsing á þessum viðburðaríku dögum fyrir jólin 1947.

Veðurútlið slæmt

Bára Huld Beck

Rétt fyrir jólin tíðrætt ár barst sú bón frá Páli Friðbertssyni til Gísla Guðmundssonar, skipstjóra á Örninni, að hann færi suður og sækti epli fyrir jólin fyrir Pál og verslun Ásgeirs Guðnasonar á Flateyri. Örninn var rúmlega 18 tonna bátur, smíðaður í Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1942. Kaupfélagið á Suðureyri var búið að fá epli og appelsínur en verslun Páls hafði ekki fengið slíkan munað. Vegna tengsla þeirra Páls og Gísla, en þeir voru tengdabræður, ákvað Gísli að fara suður og hjálpa þannig til þrátt fyrir slæmar veðurhorfur. Með í för var Egill Kristjánsson vélstjóri og tveir ungir hásetar, Marteinn Friðbertsson og sonur skipstjórans Gísli Gíslason, en þeir voru aðeins 16 ára gamlir. Veðurútlit var slæmt en samt var tekin sú ákvörðun að fara. Lagt var af

22 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

stað snemma morguns 22. desember og komu þeir til Reykjavíkur um miðjan dag á Þorláksmessu.

Harðákveðinn að halda áfram Þeir lestuðu bátinn og eftir tvo klukkutíma voru þeir tilbúnir til brottfarar vestur. Lestin varð alveg full þar sem ákveðið var að taka einnig epli til að flytja vestur fyrir Kaupfélagið á Flateyri. Helgi nokkur Ibsen fékk að fljóta með en hann hafði verið á togara frá Reykjavík og langaði að fara vestur í jólafrí. Gísli sagði frá því síðar að hann hafi verið lattur til að leggja aftur af stað þar sem veðurspáin var ekki góð. Hann var þó harðákveðinn að halda áfram enda var hann búinn að lofa því að koma til baka fyrir jól. Haldið var af stað og þegar hér er komið sögu er komin vestanbræla og á leiðinni vestur undir Jökul kastaðist báturinn á hliðina svo að talstöðvarsendirinn datt niður á gólf og brotnaði. Eftir þetta gátu þeir einungis hlustað í gegnum móttökutæki í útvarpinu en ekki haft samband við land. Einnig hafði mikill hluti af talstöðvargræjunum verið farinn af skrúfunum og undir kabissuna svo ekki var hægt að kalla.

Matar- og svefnlausir Gísli og Egill stóðu vaktina og þegar þeir voru komnir undir Skorina austan við Látrabjarg vildi Egill fara fram í og elda eitthvað áður en


Örn ÍS 566 Vélbáturinn Örn var smíðaður í Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1942. Samkvæmt mælibréfi er hann 19 brl. Var báturinn nefndur „lærlingurinn“ því hann var að miklu leyti smíðaður af nemendum Marsellíusar í skipasmíði. Örn var smíðaður fyrir Örnólf Valdimarsson á Suðureyri við Súgandafjörð. Árið 1966 eignaðist Torfi Björnsson bátinn og var hann í hans eigu allt til ársins 1992 er hann afhenti Byggðasafni Vestfjarða bátinn til varðveislu. Bátnum var m.a. haldið út til rækjuveiða í Ísafjarðardjúpi og var hann í notkun allt til ársins 1991 er hann var tekinn af skrá. Ljósmynd/ Byggðasafn Vestfjarða.

lagt væri í Látraröstina. Gísli taldi ekki þörf vera á því en þegar þeir þeir komu að röstinni tók norðaustan stórviðri á móti þeim. Þeir voru því matarlausir því eftir þetta var ekkert hægt að hita því allt var fullt af ösku og drasli eftir velkinginn. Þeir fengu sér ekki einu sinni epli þar sem það þótti þjófnaður. Í frásögn Egils kemur fram að Gísli hafi nú ekki látið bilbug á sér finna og héldu þeir áfram ótrauðir. Þess ber að geta að Gísli stóð við stýrið alla leið til Súgandafjarðar án svefns og matar. Morguninn eftir var lýst eftir bátnum þar sem ekkert hafði frést af þeim. Páll hafði sett tilkynningu í útvapið og lýsti Gísli því þannig að Páli hafi orðið dauðhræddur og iðrast þess að hafa fengið þá af stað suður. Honum hafi fundist hann bera ábyrgð á lífi þeirra í þessari helvítis vitleysu. Og ekki voru menn bjartsýnir í þessu veðri að nokkur smábátur væri ofansjávar. Talið var að þeir hefðu leitað inn í einhvern fjörðinn í var. Stærri skipin voru komin í var og spurðu menn hvorn annan hvort þeir þekktu þennan skipstjóra sem hlyti að vera löngu dauður. Sonur Gísla skipstjóra, Friðbert Elí, er sagður hafa svarað því játandi en hann var skipverji á öðru skipi.

Lönduðu á Flateyri „Ekki var um að villast; þarna var bátur kominn. Var nú staðið upp frá borðum; við gengum í hús og létum þá, sem pantað höfðu epli, vita að nú væri stundin upp runnin. Skráð var í bók hve mörg kíló hver og einn fékk en peninga var ekki talað um. Vel gekk að vigta og afgreiða.“ Þannig lýsir Snæbjörn komu þeirra félaga á Flateyri.

tímann. Ef svo hefði verið hefði Gísli átt að sjá fyrst í land við brjótinn utan við Suðureyri. Egill undraðist alltaf nákvæmt tímaskyn Gísla en þorði aldrei að segja honum sannleikann um mínúturnar tvær.

Eplin komin á leiðarenda Þeir komu að bryggju seinna á aðfangadagskvöldi á Suðureyri og var strax byrjað að hlaupa um þorpið með jólaeplin. Samkvæmt Gísla var fyrsti eplakassinn sem fór í land á Suðureyri sendur heim til hans. Egill sagði síðar að þetta hefðu verið einu jólin sem hann hafði alveg týnt en hann svaf langt fram á næsta dag. „Viss er ég að allir, sem hlut áttu að máli, voru sælir og ánægðir og luku jólamatnum, – með angandi, safarík epli í eftirrétt.“ Þannig lýkur Snæbjörn frásögn sinni af eplunum sem komu á aðfangadagskvöld 1947. Heimildir: • Byggðasafn Vestfjarða. • Viðtal við Egil Kristjánsson á Suðureyri í Sjómannadagsblaði Vestfjarða 2001. • Frásögn sem hangir á veggnum í Skóbúðinni á Ísafirði sem Björg Sveinbjörnsdóttir og Valda Braziunaite reka. • „Þeir gátu ekki þagað nema í sex daga“ Viðtal við Gísla Guðmundsson í Þjóðviljanum 1. júní 1980. • Frásögn Snæbjörns Ásgeirssonar á Minningarsíðu um hjónin Ásgeir Guðnason og Jensínu Eiríksdóttur.

Þeir komu til Flateyrar snemma á aðfangadagskvöld svo ekki mátti tæpara standa og voru fréttir um afdrif bátsins fólki til mikils léttis. Á Flateyri lönduðu þeir helmingnum af farminum og ákváðu að halda áfram til Súgandafjarðar með hinn helminginn. Þetta þótti ekki hyggilegt þar sem siglingin fyrir Sauðanes var talin mjög erfið í sterkum norðaustanstreng. Egill greinir frá því að Gísli hafi ekki tekið annað í mál en að halda áfram og það varð úr. Enn fremur taldi Egill Örninn einstaklega lagheppinn og þakkaði hann því, auk skipstjórnarhæfni Gísla, fyrir að komast á leiðarenda.

Bætti tveimur mínútum við En áfram héldu þeir í miklum byl, siglingatækjalausir eins og áður segir, og þurftu þess í stað að treysta á áttavita og klukkuna. Það sást illa á klukkurnar vegna myrkurs og var Egill sendur niður í vélarrúm með ströng fyrirmæli um að láta vita um tiltekinn tíma, sem Gísli sagði til um. Egill lýsti því síðar að hann hefði verið skíthræddur um að þeir færu í land og bætti hann því alltaf tveimur mínútum við tímann. Þegar komið var inn í Súgandafjörðinn sá Gísli í land norðan við fjörðinn en þannig komst hann að því að Egill hafði ekki farið rétt með SJÁVARAFL DESEMBER 2023

23


Óskum starfsfólki

í sjávarútvegi gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

Snæfellsbær

24 SJÁVARAFL DESEMBER 2023


Vestmannaeyjabær SJÁVARAFL DESEMBER 2023

25


Hrönn Egilsdóttir Sviðsstjóri á Umhverfissviði Hafrannsóknastofnunar

Vistkerfi sjávar og vistkerfisnálgun Vistkerfi – stór og smá Vistkerfi er hægt að skilgreina á margskonar hátt, eftir því hvað það er sem við viljum fjalla um. Þannig getur hugtakið átt við afar afmörkuð kerfi líkt og överuflóruna í meltingarfærum okkar eigin líkama eða stærri kerfi líkt og vistkerfi Ísafjarðardjúps, vistkerfi íslenska hafsvæðisins eða jafnvel vistkerfi sjávar á jörðinni. Það vill oft gleymast að við mannfólkið stöndum ekki utan við vistkerfin og horfum inn, við erum hluti af kerfinu, athafnasöm og öflug tegund sem er beint eða óbeint áhrifavaldur í flestum vistkerfum jarðar. Þegar beita á vistkerfisnálgun er skilgreining á vistkerfi enn víðari en þar er ekki einungis horft til náttúrulegra vistkerfa heldur einnig til samfélagslegra þátta.

Mikilvægi verndunar líffræðilegar fjölbreytni og vistkerfa Það er hreinlega ekki hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi stýringar og verndunar vistkerfa og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Heilbrigð vistkerfi og líffræðileg fjölbreytni er lykillinn að því að hægt sé að nýta náttúrulegar auðlindir langt inn í framtíðina á ábótasamann hátt. Þessu ekki einungis haldið fram náttúrufræðingum, heldur hafa einnig hagfræðingar og aðrar starfsstéttir sem rýna í efnahagsmálin bent ítrekað á fjárhagslega áhættu af ofnýtingu náttúrulegra auðlinda. Sagan hefur kennt okkur að ofnýting getur leitt til hruns í stofnum nytjategunda og þar með til gríðarlegra fjárhagslegra áfalla fyrir samfélög, stór og smá. Við eigum fjölmörg dæmi um slíkt úr sjávarútvegi víða um heim og oft hefur það reynst þrautinni þyngri

Þrjár megingerðir líffræðilegrar fjölbreytni

26 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

eða jafnvel ómögulegt að endurheimta þær auðlindir sem töpuðust vegna ofnýtingar. Þótt orðasambandið „Líffræðileg fjölbreytni“ hljómar nokkuð einfalt hefur það ansi víða skírskotun og má skipta gróflega í þrjár gerðir: ● Fjölbreytni tegunda og stofna innan tegunda. Hægt er að meta með ýmsum aðferðum, t.d. með því að horfa til skyldleika þeirra, en í sinni einföldustu mynd er þetta fjöldi tegunda og/ eða stofna á mælieiningu. Fjöldi fisktegunda á milli toga með botnvörpu er dæmi um mælingu á fjölbreytni tegunda. ● Fjölbreytni vistkerfa vísar m.a. til fjölbreytni búsvæða á ákveðnu svæði eða fjölbreytileiki í virkni vistkerfa. Afmarkað svæði þar sem finna má einsleitan leirbotn teldist fábreyttara vistkerfi sjávarbotns en þar sem finna má harðan botn með ýmsum búsvæða myndandi tegundum, líkt og kóröllum eða svömpum, í bland við grjót, sand og leirbotn. ● Erfðabreytileiki innan eða á milli tegunda er afar mikilvægur þáttur. Aukin þekking í þróunar- og erfðafræði hefur stóraukið skilning okkar á mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni. Fjölbreytni milli einstaklinga og erfðabreytileiki innan tegunda er lykill að getu þeirra til að þróast og aðlagast breyttum aðstæðum. Til dæmis, ef hitastig sjávar hækkar á búsvæði tegundar X, og nægur erfðabreytileiki er í stofninum, þá getur átt sér stað val fyrir ákveðnum erfðaeiginleikum sem fela í sér þol fyrir hærra


Víti til varnaðar. Stærð hryggningarstofns Atlantshafsþorsks við strendur Kanada hrundi við lok síðustu aldar sem skýrist einkum af of miklu veiðiálagi. Stofnstærðin er sýnd sem hlutfall af varúðarmörkum (rauð lína). Hægt hefur gengið að byggja upp stofninn. Einfölduð framsetning gagna byggð á grafi frá Fisheries and Oceans Canada, Science Advisory Report 2023/007. Athugið að öryggismörk eru ekki sýnd hér.

hitastigi. Ef of lítill erfðabreytileiki er til staðar getur ekkert val átt sér stað og þol tegundar mögulega ekki nægjanlegt til að hún geti lifað við hærra hitastig. Stundum er hægt að endurheimta líffræðilega fjölbreytni með skipulögðum aðgerðum en það er því miður ekki alltaf þannig. Ef sumar gerðir líffræðilegrar fjölbreytni tapast þá er í mörgum tilfellum ekki hægt að endurheimta hana. Dæmi um slíkt er þegar ofnýting nytjategundar leiðir til lítillar stofnstærðar sem getur dregið stórlega úr erfðabreytileika í stofninum. Þótt stofnstærðin aukist á ný gerir mun minni erfðabreytileiki stofninn viðkvæmari fyrir áföllum ýmiskonar, t.d. vegna sjúkdóma eða umhverfisbreytinga. Nýlega birtust niðurstöður rannsókna á erfðabreytileika hafarna á Íslandi sem sýna að skyldleiki milli einstaklinga er mikill og erfðabreytileiki afar lítill sem er afleiðing að því að stofnstærð þeirra náði sögulegu lágmarki um miðja síðustu öld þegar einungis 20 varppör voru á Íslandi. Þótt stofninn hafi margfaldast síðan þá má telja hann viðkvæman fyrir áföllum vegna lágs erfðabreytileika. Síðustu áratugina hefur átt sér stað hrun í líffræðilegri fjölbreytni á heimsvísu og er ferlið að öllum líkindum mun hraðara en í stærstu jarðsögulegu atburðum er leiddu af sér gríðarlegan útdauða tegunda. Tími er kominn til að sporna við þessari þróun. Til þess að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda og hagsæld samfélaga til framtíðar litið er í auknum mæli talað um beitingu vistkerfisnálgunar.

Orðið vistkerfisnálgun Orðið „vistkerfisnálgun“ er þýðing á enska orðasambandinu „ecosystem approach“ og má í auknum mæli finna í stefnum stjórnvalda og lagafrumvörpum. Það er mikilvægt að allir sem tengjast nýtingu auðlinda, þ.á.m. sjávarútvegurinn hafi nokkurn vegin sama skilning á orðinu því um er að ræða ferli þar sem hagaðilar hafa hlutverk ásamt stjórnvöldum og vísindastofnunum. Einu núgildandi lögin þar sem orðið er að finna eru lög um skipulag

haf- og strandsvæða frá árinu 2018 en þar stendur í fyrstu grein um markmið laganna: „…að skipulag veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu auðlinda haf- og strandsvæða sem byggist á heildarsýn á málefni hafsins, vistkerfisnálgun og vernd náttúru og menningarminja, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi; enn fremur taki skipulag mið af áhrifum vegna loftslagsbreytinga,…” Í matvælastefnu til ársins 2040 birtist m.a. sú framtíðarsýn að „framleiðsla sem byggist á nýtingu lifandi auðlinda standist öll viðmið um sjálfbærni nýtingar og hafi vísindi vistkerfisnálgunar og varúðar að leiðarljósi.“ Alþjóðasamningar sem Ísland hefur gerst aðili að kalla eftir vistkerfisnálgun og má þar einkum nefna nýja stefnu Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem samþykkt var á aðildarríkjaþingi samningsins í desember 2022. Í þessari stefnu er kveðið á um verndun 30% land- og hafsvæða á heimsvísu fyrir árið 2030 en mikilvægt er unnið sé vel að því verki svo að niðurstaðan uppfylli markmið samningsins um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Stefna stjórnvalda er að innleiða vistkerfisnálgun í auknum mæli við stýringu á nýtingu náttúruauðlinda, lífræna og ólífrænna. Aðferðafræðin sem lýst er með orðinu er ekki ný af nálinni en mikilvægt er að allir sem að ferlinu koma átti sig á sínu hlutverk þar og séu með sameiginlega sýn út á hvað vistkerfisnálgun gengur.

Í hverju felst þá vistkerfisnálgun? Það hljómar í fyrstu eins og vistkerfisnálgun snúist eingöngu um að auka þekkingu á ákveðnum náttúrulegum vistkerfum, t.d. vistkerfum sjávar, og stýra nýtingu út frá þeirri þekkingu. Þetta er vissulega mikilvægur þáttur í vistkerfisnálgun en hugtakið er mun víðara því það nær til vistkerfis eða samfélags okkar mannfólks einnig. Við erum jú hluti náttúrunnar og virkir þátttakendur í henni. SJÁVARAFL DESEMBER 2023

27


Vistkerfisnálgun er þegar stýring á nýtingu lands, lagar og lifandi auðlinda er samræmd og hvetur til verndunar og sjálfbærrar nýtingar með jafnrétti að leiðarljósi. Vistkerfisnálgun stuðlar þannig að jafnvægi milli verndunar vistkerfa, sjálfbærri nýtingu og bæði sanngirni og jafnræði við nýtingu erfðaauðlinda.. Vistkerfisnálgun leggur áherslu á að þegar við nýtum auðlindir náttúrunnar nýtum við þær á þann hátt að við sköðum ekki vistkerfin eða framtíð okkar. Til þess að gera þetta þurfum við að vernda náttúruleg vistkerfi, nýta auðlindir með sjálfbærum hætti og stuðla að endurheimt þeirra vistkerfa sem hafa hnignað. Aðferðir vistkerfisnálgunar eru fjölbreyttar. Það er ekki til hin eina rétt leið heldur geta leiðir að markmiði vistkerfisnálgunar verið margar og mismunandi, m.a. eftir því hvaða kerfi á í hlut. Vistkerfisnálgun er vegferð Fyrsta skrefið er að skilgreina kerfið sem stýra á með vistkerfisnálgun. Næst er að svara spurningum um kerfið en í stefnu samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni er að finna góðan lista yfir spurningar sem svara þarf og þar sem þær gefa líka góða mynd af því út á hvað beiting vistkerfisnálgunar gengur þá fylgja þær hér: ● Hvernig er tryggt að allir hafi aðkomu að ákvarðanaferlinu og að tekið sé tillit til mismunandi sjónarmiða, gildismats og hagsmuna hvað varðar náttúru, hagræna og samfélagslega þætti svo eitthvað sé nefnt? ● Hvernig er tryggt að stýring auðlindar sé sem minnst miðstýrð? ) Stýring auðlinda er oft markvissari ef hún er á ábyrgð þeirra sem eru sem næst auðlindinni.) ● Hvernig er tryggt að tekið sé tillit til annarra vistkerfa en þess sem á að nýta? ● Hvernig má greina hagræn öfl og hagsmuni sem geta haft neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu (t.d. niðurgreiðslur, skattar o.s.frv)? ● Hvernig á að stuðla að vernd vistkerfa og vistkerfisþátta til að viðhalda virkni kerfanna? ● Hvaða ráðstafanir má gera til að tryggja að nýting vistkerfa skaði ekki virkni þeirra? ● Út frá hvaða mælikvörðum í tíma og rúmi, þarf að nálgast viðfangsefnið?

● Hvernig má taka tillit til áhrifa nýtingar sem búast má við að komi fram seint (t.d. eftir nokkur ár)? Þetta kallar gjarnan á að vakta vistkerfi á fullnægjandi hátt. ● Hvernig stýra megi stofnun á sveigjanlegan hátt (e. adaptive management) til að leysa vandamál sem upp koma? ● Hvernig má ná viðunandi jafnvægi á milli verndunar og nýtingar varðandi líffræðilegrar fjölbreytni? ● Hvernig skal tryggja að mismunandi þekking, s.s. vísindaleg, staðbundin og menningarleg, nýtist við stefnumótun? ● Hvernig hægt er að tryggja að allir hagaðilar, s.s. mismunandi hópar samfélagsins og mismunandi vísindagreinar hafi aðkomu að ferlinu? Eins og sjá má á þessum atriðum þá gengur vistkerfisnálgun ekki síst út á það að skipuleggja stjórnun auðlinda vel og horfa þar til til þátta eins og líffræðilegrar fjölbreytni samhliða samfélagslegra þátta til að tryggja að ágóði af nýtingu auðlinda sé með sem sanngjörnustum hætti. Einn mikilvægasti þáttur vistkerfisnálgunar eru samtöl milli ólíkra aðila sem hafa mismunandi hlutverki að gegna við nýtingu auðlinda.

Hvar stöndum við Vistkerfisnálgun er heildræn aðferðafræði sem felur í sér marga þætti. Líkja má vistkerfisnálgun við púsluspil þar sem hver þáttur er eitt púsl. Þótt erfitt sé að halda því fram að vistkerfisnálgun sé beitt með kerfisbundnum hætti við nýtingu auðlinda hérlendis má samt með sanni segja að horft hafi verið til marga þátta í mörgum tilfellum (það eru þá nokkur púsl á borðinu). Þörf er á því að beita aðferðafræði vistkerfisnálgunar á kerfisbundnari hátt til að ná heildrænari mynd við stýringu auðlinda (við viljum fá öll púslin á borðið). Árið 2020 var stofnaður samstarfsvettvangur aðila sem vinna vilja að verndun og rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni, BIODICE. Vettvangurinn hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum sem hafa það að markmiði að auka þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni og stuðla að verndun hennar. Í september 2023 var haldið fjölsótt málþing í samstarfi BIODICE og matvælaráðuneytisins um vistkerfisnálgun og í kjölfarið var gerð samantekt um málefnið og hún afhent ráðherra 27. nóvember. Hvetja má alla til þess að kynna sér hana á vefsíðu ráðuneytisins (mar.is).

Staðan í afla einstakra tegunda innan kvótans ÞORSKUR

KARFI

Aflamark 165.757.825 kg Veiddur afli: 24,5%

Aflamark 34.140.921kg Veiddur afli: 22,6%

UFSI

ÝSA

Aflamark 66.961.561 kg Veiddur afli: 10,7%

Teikningar: Jón Baldur Hlíðberg

28 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Aflamark 59.663.591 kg Veiddur afli: 25,7%



Mesta sjóslys Íslandssögunnar Skipalestin QP 13 ferst við Straumnes

Sigrún Erna Geirsdóttir

Þegar 240 manns fórust í einu vetfangi úti fyrir Straumnesi árið 1942 var það mesti skipsskaði sem hér hefur orðið. Björgunarafrekið sem þá var unnið var sömuleiðis eitt hið mesta í sögu landsins en með miklu harðfylgi tókst að bjarga 250 manns. Skipin sem fórust voru hluti af skipalest Breta, QP 13, og var ekkert fjallað um atburðinn í fjölmiðlum á sínum tíma. Það var laugardaginn 5.júlí 1942 sem skipalestin QP-13 var á siglingu úti fyrir Bolungarvík í miklum vindi og lélegu skyggni. Í lestinni voru nítján skip. Þau höfðu verið fleiri en daginn áður var lestinni skipað að skipta sér upp. Sextán skip skildu sigla með Austfjörðum og halda til Norðurvestur-Skotlands en hin nítján áttu að fara vestur með Norðurlandi, suður með Vestfjörðum og til Hvalfjarðar. Flest þessara skipa voru bandarísk skip á leiðinni heim en þau sem fóru til Bretlands voru bresk. Með lestinni sem sigldi til Íslands voru nokkur fylgdarskip, bresku tundurduflaslæðararnir Niger og Hussar, franska korvettan

30 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Roselys og tveir vopnaðir breskir togarar, Lady Madeleine og St. Elstan. Yfir skipalestinni var maður að nafni John Hiss, skipstjóri um borð í bandaríska kaupskipinu American Robin. Foringi verndarskipanna var Antony J. Cubison, skipherra á Niger.

Slæmt skyggni Kaupskipunum nítján var stillt upp í fimm raðir. Veðrið var slæmt; norðaustan vindur og átta vindstig, lágskýjað og rigning. Skyggni var ekki nema um ein sjómíla. Það sem var þó alvarlegast í stöðunni var að ekki hafði sést til himintungla til þess að taka staðarákvörðun síðan 2.júlí og því vissu menn ekki hvar skipin væru nákvæmlega stödd. Urðu menn nú að reiða sig á stefnu, dýptarmælingar og áætlaðan siglingarhraða til að reyna að staðsetja sig. Um klukkan sjö að kveldi ræddu þeir saman, Cubison og Hiss, og reyndu að átta sig á stöðunni. Þetta var áríðandi því skipin nálguðust Vestfirði hratt og ákveða þurfti leiðina vestur fyrir kjálkann. Cubison vissi líka að Bretar höfðu lagt tundurduflabelti milli norðvestanverðra Vestfjarða og austurstrandar Grænlands til að hindra þýsk skip í að komast framhjá Íslandi og út á Atlantshaf til að ráðast á skip Bandamanna. Um tíu sjómílna breið renna var í gegnum


beltið og þurftu skipin að sigla þar í gegn. Staðsetning skipanna var því gríðarlega mikilvæg. Cubison áleit að skipalestin væri stödd um 21 sjómílu norð-norðvestur af Horni og lagði líka til að skipin væru í tveimur röðum en ekki fimm. Tundurduflagirðingin og staðsetning hennar voru hernaðarleyndarmál og vissi skipalestarstjórinn, John Hiss, ekki af henni. Mögulega hefði hann gert það ef ætlunin hefði verið frá upphafi að hann tæki við þessu hlutverki en skipting QP 13 hafði komið snöggt upp. Þegar þeir Cubison ræddu saman um staðsetningu skipanna má þó velta fyrir sér af hverju beltið bar ekki á góma í samtalinu, beint eða óbeint. Um klukkan átta mældi áhöfn Niger dýpið og á grunni mælingarinnar og annarra gagna var talið að skipalestin væri stödd norðaustur af Straumnesi og þar með komin vestur fyrir Horn. Siglingarstefnunni var breytt í suðvestur með stefnu utanvert við Straumnes og norðan við Aðalvík. Niger tók nú forystuna og reyndi að ná landsýn til að fá nákvæmari staðsetningu. Um klukkan tíu telja þeir sig sjá hamravegg um eina sjómílu framundan og breyta snarlega um stefnu svo þeir sigli ekki í strand. Niger sendir hins vegar önnur boð fjörutíu mínútum síðar og segja að þetta hafi ekki verið klettar heldur borgarísjaki. Brýnt væri því að breyta strax stefnu og sigla í suðvestur. Það var hins vegar um seinan.

Niger hverfur í hafið Skyndilega sjá menn á næstu skipum, St. Elstan og beitiskipinu Edinburgh, hvar tundurduflaslæðarinn springur í loft upp eftir að hafa siglt á tundurdufl sem rífur undan því botninn. Niger leggst á hliðina,umlukið brennandi olíu, og hverfur á örskotsstundu með manni og mús. Þarna fórst 80 manna áhöfn og 39 sjóliðar sem höfðu verið á Edinburgh. Ráðist hafði verið á skip þeirra við Rússlandsstrendur en þeim hafði verið bjargað og voru þeir á leiðinni heim. Um stund er mönnum orða vant af undrun og hryllingi, við Íslandsstrendur töldu þeir sig örugga. Því næst verður uppi fótur og fit er nærstödd skip reyna að sveigja frá slysstaðnum. Tundurduflaslæðarinn Hussar stefnir þó rakleitt til björgunar þar sem Niger fór niður.

Hybert sekkur Næst kveður við sprenging undir stafni bandaríska farmskipsins Hyberts. Um borð voru 54 sjómenn og byssuliðar, auk farþega af bandaríska skipinu Syros sem hafði verið sökkt af þýskum kafbáti í maí. Allir um borð æða í björgunarbáta enda springur annað dufl undir skipinu tíu mínútum eftir þá fyrstu og skipið er sokkið tæpri klukkustund síðar. Lánið var þó með þeim í lokin og allir bjargast. Alger glundroði ríkti nú á hafinu þar sem nánast enginn vissi af tundurduflabeltinu. Skip voru að springa, menn þóttust heyra skothríð og vatnssúlur þeyttust til himins. Ástæða þess var að þegar tundurdufl springur leiðir þrýstingshöggið frá því oft til þess að önnur tundurdufl springa. Sumum fannst þeir jafnvel sjá slóð eftir tundurskeyti í sjónum. Menn héldu því að óþekktur óvinur leyndist í veðursortanum en þar sem sprengingarnar voru allt í kringum skipin vissu menn ekkert hvert ætti að stefna.

Heffron og Massmar sökkva Næst til að springa er bandaríska flutningaskipið Heffron með 77 manns um borð. Skammt framan við brúna verður ægileg sprenging og í kjölfarið fylgja aðrar tvær. Margir særast eða missa meðvitund en þar sem skipið helst lengi á floti komast allir nema einn um borð á fleka og svo í björgunarbáta. Bandaríska flutningaskipið Massmar er næst í röðinni, það fær á sig tvö dufl nánast samtímis. Þremur björgunarbátum og tveimur flekum er komið í sjóinn en tveir bátanna fara á hvolf og mennirnir fljóta um í ísköldum sjónum. Um borð í þriðja bátnum er ekki einn maður. Skipin æða um svæðið en vita ekkert hvert þau eiga að fara til að forða sér undan hryllingnum. Um borð í herskipunum liggja fyrir upplýsingar um að á svæðinu sé tundurduflabelti en menn átta sig ekki strax á að þeir hafi siglt inn í það. Almennt er talið að þýskir kafbátar séu komnir. Vopnuðu togararnir tveir þeytast um, reyna að

finna kafbátana með hljóðsjám og varpa djúpsprengjum. Fallbyssur og vélbyssur eru notaðar til að skjóta á skugga í veðursortanum.

John Randolph og Rodina sökkva Bandarískt fimm mánaða frelsisskip, John Randolph, springur næst og fer skipið í tvennt. Framhlutinn helst þó á floti og af þeim sextíu sem voru um borð komast allir af nema fimm. Sovéska flutningaskipið Rodina fær nú á sig dufl á stjórnborða. Í skipinu eru m.a eiginkonur og börn sovéskra sendiráðsmanna í London. Við sprenginguna ryðst sjórinn inn og skipið leggst á hliðina. Þrjátíu og níu farast með skipinu en sextán bjargast. Panamaskipið Exterminator siglir einnig á dufl, skemmist, en sekkur ekki. Núna fara menn um borð í vopnuðu skipunum að átta sig á að þeir hljóta að hafa siglt inn í tundurduflabeltið og gripið er til aðgerða samkvæmt því. Veðrið hamlar þó mjög aðgerðum. Tundurduflaslæðarinn Hussar leiðir nokkur kaupskipanna inn á Ísafjarðardjúp og reynir að ná nákvæmri staðsetningu. Vopnuðu togararnir tveir og korvettan Roselys sigla á meðan á milli tundurduflanna og leita skipbrotsmanna.

Ótrúlegt björgunarafrek Þessa nótt var unnið ótrúlegt þrekvirki er tókst að bjarga um 250 manns af þeim rúmlega 500 sem voru um borð í skipunum sem sukku. Helst má þakka það ótrúlegri elju áhafnar litlu korvettunnar Roselys sem sigldi í rúmar sex klukkustundir innan um tundurduflin, í miklum sjó, og fiskaði skipbrotsmenn upp úr sjónum. Tókst þeim að bjarga hvorki meira né minna en 179 manns og er þetta björgunarafrek eitt hið mesta sem hér hefur verið unnið. Togararnir Lady Madeleine og St. Elstan björguðu svo ríflega sextíu manns. Sjóslysið er þrátt fyrir það mesta sjóslys sem hér hefur orðið. Breska flotastjórnin á Íslandi frétti fljótt af slysinu og sendi þegar í stað beitiskipið Kent á staðinn en það var þá við gæslu milli Vestfjarða og hafísrandarinnar undan Austur Grænlandi. Skyldi það hjálpa við að safna skipunum úr QP13 saman og koma þeim til Hvalfjarðar. Lady Madeleine og St. Elstan voru einnig í því verkefni, ásamt togaranum Helgafelli RE-280 sem var staddur í SJÁVARAFL DESEMBER 2023

31


orsökum slyssins var meginniðurstaðan sú að siglingarfræðileg mistök vegna slæms veðurs hefðu átt sér stað við staðarákvörðun um borð í Niger. Veðrið hafði sömuleiðis valdið því að ekki var hægt að staðsetja skipin í þrjá daga á undan slysinu. Þá var talið að það hefði átt sinn þátt í slysinu að Hiss, skipalestarstjóri á American Robin, hafði óvænt tekið við því hlutverki þegar skipalestinni var skipt upp norðvestur af landinu. Hiss vissi ekki af tilhögun varna norðvestur af Íslandi og þ.a.l vissi hann ekkert um tundurduflabeltið og staðsetningu þess. Var það enn fremur lagt til að radíóvita yrði komið fyrir við Straumnes.

Nokkrir minnisvarðar

grenndinni. Öll skipin sem enn flutu komust til Hvalfjarðar. Nokkrir íslenskir síldarbátar sem höfðu verið á leið á miðin frestuðu því og héldu inn á Aðalvík í staðinn. Einn bátanna, Vébjörn ÍS, fór á staðinn til að leita skipbrotsmanna og hafði með sér yfirmann bresku ratsjárstöðvarinnar við Aðalvík. Nokkrir úr áhöfn voru skildir eftir í bátunum í Aðalvík þar sem þetta þótti hættuför. Ekki tókst Vébirni að finna neinn á lífi en kom hann til baka með nokkur lík sem voru svo sótt af Roselys. Kosið hafði verið til Alþingis þennan dag og þegar slysið varð sat fólk í Aðalvík heima og hlustaði á útvarpið til að fylgjast með úrslitum kosninga. Sprengingarnar sem urðu þegar duflin sprungu heyrðust þar vel og hélt fólk að mikil sjóorrusta ætti sér stað skammt úti fyrir. Næstu vikur rak bæði lík og brak upp á land víða á Vestfjörðum en ekkert birtist í fjölmiðlum um hvað hefði átt sér stað. Í rannsókn sem fór fram á

Strandakirkja

32 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Skipalestirnar sem sigldu um Atlantshafið voru mikilvægur hlekkur í stríðsrekstri Bandamanna. Í hvert sinn sem lagt var af stað var það í hættuför, bæði vegna vígvéla Þjóðverja en náttúran sjálf torveldaði líka för. Engar opinberar upplýsingar voru veittar um sjóslys QP 13 á sínum tíma og íslenskir fjölmiðlar greindu ekki frá því. Í seinni tíð hefur fólk þó orðið upplýstara um atburðinn og hafa tveir minnisvarðar um slysið verið reistir. Má þar fyrstan nefna minnisvarða í Neðstakaupstað á Ísafirði sem rússneska sendiráðið lét gera um Rússana sem fórust um borð í Rodina. Var það afhjúpað árið 2005 en þá voru 60 ár voru frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Síðara minnismerkið var afhjúpað þann 5.júlí 2014 og er það við Stigahlíð í Bolungarvík en bærinn stendur næst slysstaðnum. Þessi hörmulegi atburður mun því seint falla í gleymskunnar dá aftur. Heimildir: Dauðinn í Dumbshafi, Magnús Þór Hafsteinsson, Vísir, Morgunblaðið og BB.is

Í Selvogi er ein frægasta kirkja Íslands og þó víðar væri leitað en hún varð fræg vegna almennra áheita. Strandakirkja nefnist kirkjan og stendur við Engilsvík. Fjöldi fólks heimsækir kirkjuna á hverju ári. Þekktasta helgisögnin er um ungan bónda frá uppsveitum Árnessýslu. Á vef Ölfusar má finna eftirfarandi umsögn um menn sem lenda í sjávarháska og komast í land og launa Guði með því að reisa kirkju þar sem þeir komust í land: ,,Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu eigin skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar. Segir nú ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi á hafi úti á leið sinni til Íslands. Lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir. Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að þessu heiti unnu birtist honum sýn í líki ljósengils framundan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið er hann stýrir eftir. Segir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Þar skammt fyrir ofan var hin fyrsta: Rit Magnúsar Guðjónssonar biskupsritara um Strandarkirkju).


Gleðilega hátíð

Óskum viðskiptavinum okkar og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári

www.wisefish.com


Helga Kristín Kolbeins skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum

Nemendur í vélsstjórn ásamt kennaranum sínum.

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum Áskoranir í samfélaginu eru margar og líkast til finnst okkur á hverjum tíma að verkefnin hafi aldrei verið eins krefjandi og einmitt núna. Við treystum sífellt meira á tæknina og því er tækninám mikilvægt til að viðhalda og byggja upp samfélagið. Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum hefur ætíð verið lögð mikil áhersla á vélstjórnarnámið og nú sem áður er mikil ásókn í það nám. Í vélstjórnarnáminu fá nemendur tækifæri til að komast í snertingu við nýjustu tækni og þróa hugmyndir sínar. Í náminu þá kynnast nemendur hvernig við upplifum og nýtum okkur tæknina og mikilvægi þess að hafa góða þekkingu og menntun til að tryggja þróun og endurnýjun í faginu. Undirstaða námsins er að læra um vélar, allt frá hugmyndum um sjálfvirkar vélar, hvernig þær virka ásamt forritun og hönnun til að

34 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

vélarnar verði góðar og öruggar. Áhersla er á að nemendur vinni með það sem þeir eru að læra og því er mikil hluti námsins verklegur. Læra málmsmíði og suðu, læra á rennibekki og CNC tæki, læra rafmagnsfræði, kælitækni og auðvitað vélfræði. En námið snýst ekki einungis um að skoða og læra á tæknina heldur skoða nemendur einnig hver áhrif tækninnar hefur á líf okkar og hvernig við þurfum að umgangast tæknina. Þannig eru í náminu námsgreinar sem snúa að umhverfisfræðum og þar vinna nemendur að heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna, tileinka sér vinnulag sem miðar að því að draga úr umhverfisáhrifum sem fylgja gjarnan aukinni vélvæðingu. Áhersla er á stjórnun og á seinni stigum námsins tileinka nemendur sér notkun gæðastaðla, uppbyggingu gæðahandbóka og hvernig er unnið samkvæmt stöðlum. Frá því að vélstjórnarnámið varð til í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, en námskránni breytt fyrir tæpum 60 árum, en þá varð meiri tæknimenntun ráðandi í náminu, hefur orðið mikil þróun enda hefur tækninni fleygt mikið fram.


Samfélagsbreytingar eru hraðar og hafa þær áhrif á líf og störf okkar allra og hafa áhrif inn í skólanna. Við stöndum frammi fyrir áskorunum sem þarf að bregðast við og finna upp aðra kosti. En við vitum einnig að menntun gerir meira en að bregðast við breyttum heimi. Menntun breytir heiminum. Framhaldsskólinn óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Kælikerfið uppfært.

Nám í vélstjórn er enn bæði bóklegt og verklegt. Námið hefur þróast og kennsluhættir og kennslutæki hafa breyst mikið. Þannig hefur skólinn kennsluherma þar sem nemendur fá að spreyta sig á enn meira krefjandi verkefnum og verða enn betur undirbúnir fyrir störf sín. En áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í dag eru að mörgu leyti áþekkar þeim sem voru fyrir tæpum 60 árum. Verklega kennslan krefst mikils tækjabúnaðar sem kostar mikið, tækjunum sem nemendur þurfa að hafa þekkingu á fjölgar og þeim þarf að koma fyrir. Við erum því enn að fást við það verkefni að tryggja nemendum gott aðgengi að góðum tækjabúnaði og að nýta þá fermetra sem við höfum sem best til að koma öllu fyrir. Vélstjórar eru eftirsóttir starfsmenn um allan heim. Þeir búa fyrir þekkingu og færni sem er nauðsynleg í mörgum starfsgreinum. Einstaklingur sem lýkur vélstjórnarnámi hefur hæfni til að skoða áhrif tækninnar og hvernig tæknin getur bætt líf okkar, þannig hefur námið ekki einungis áhrif á þá einstaklinga sem námið stunda.

Nemendur í vélstjórn vinna að verkefnum.

Nemendur vinna við kælikerfi ásamt kennaranum sínum. Nemandi í vélastjórn að stilla kælikerfi. SJÁVARAFL DESEMBER 2023

35


Óskum starfsfólki

í sjávarútvegi gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

REY KJANES B ÆR

36 SJÁVARAFL DESEMBER 2023


Hvalur hf. FJARÐABYGGÐ

Vopnafjarðahreppur SJÁVARAFL DESEMBER 2023

37


Mjóeyrarhöfn við norðanverðan Reyðarfjörð, skipar stórt hlutverk í aðdráttum og útflutningi á álafurðum.

Hafnir eru lífæð samfélaganna

Guðrún Erlingsdóttir

Birgitta Rúnarsdóttir, verkefnastjóri Fjarðabyggðarhafna, segir hafnir mikilvægar og gegni lykilhlutverki í sjávarplássum í Fjarðabyggð en þar eru átta hafnir í sjö byggðarkjörnum. ,,Hafnir hafa í gegnum tíðina verið lífæð samfélaganna í Fjarðabyggð. Þær er hluti af órjúfanlegri heild hvers byggðarkjarna, sérstaklega í hugum eldra fólks sem byggði tilveru sína alfarið á sjávarútvegi“, segir Birgitta og bætir við að 13 manns starfi við hafnirnar. En þær eru, Mjóafjarðarhöfn, Norðfjarðarhöfn, Eskifjarðarhöfn, Reyðarfjarðarhöfn, Mjóeyrarhöfn, Fáskrúðsfjarðarhöfn, Stöðvarfjarðarhöfn, og Breiðdalsvíkurhöfn. Skortur á vinnuafli Að sögn Birgittu þyrfti fleiri starfsmenn við hafnirnar en erfitt reynist að fá starfsfólk. Það vanti vinnuafl á svæðið og að hluta til stafi það af húsnæðisskorti. ,,Húsnæðisskortur hefur verið okkar Akkilesarhæll en það stendur vonandi til bóta. Það hefur lítið verið byggt af húsnæði frá hruni, þar til fyrir um tveimur árum að farið var að byggja á ný“, segir Birgitta og

38 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Birgitta Rúnarsdóttir, verkefnastjóri Fjarðabyggðarhafna.

ítrekar hversu stórt og mikilvægt hlutverk Fjarðabyggðarhafna er. Hún segir fjögur stórfyrirtæki í Fjarðabyggð séu alveg háð flutningum um Fjarðabyggðarhafnir. Fjarðaál, Loðnu-vinnslan á Fáskrúðsfirði, Eskja á Eskifirði og Síldarvinnslan á Neskaupstað.

Fjölbreyttar hafnir Fjarðabyggðarhafna Fjölbreytileiki hafna í Fjarðabyggð er mikill. Minnsta höfnin er í Mjóafirði með einn starfsmann. Höfnin í Mjóafirði gegnir veigamiklu hlutverki í samgöngum en á veturna er þetta eina samgönguleið Mjófirðinga þar sem vegurinn frá Mjóafirði er að jafnaði ófær frá nóvember til vors. Ferjan Björgvin siglir milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar. Einnig gera nokkrir smábátar þaðan út. Norðfjarðarhöfn er að sögn Birgittu stærsta fiskihöfn á landinu, þaðan sem stutt er á miðin og hafnaraðstaða góð. Sjávarafla er ekki aðeins landað í Fjarðabyggðarhöfnum heldur einnig Mjóeyrarhöfn sem er önnur stærsta vöruflutningahöfn landsins. Um hana fara allar afurðir frá og hráefni til álvers Alcoa Fjarðaáls ásamt öllum vörum, þar með töldum sjávarafurðum, sem fluttar eru inn og út í gámum í áætlunarsiglingum skipafélaganna þriggja, Eimskips, Samskipa og Cargow.

Miklar framkvæmdir í gangi ,,Það hefur verið mikil uppbygging hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum í sveitarfélaginu og höfum við fylgt henni með uppbyggingu hafnanna.


,,Hafnir hafa í gegnum tíðina verið lífæð samfélaganna í Fjarðabyggð. Þær er hluti af órjúfanlegri heild hvers byggðarkjarna, sérstaklega í hugum eldra fólks sem byggði tilveru sína alfarið á sjávarútvegi“. Nýjasti kanturinn sem vænst er að verði tekinn í notkun á næsta ári, er við nýlegt uppsjávarfrystihús og frystigeymslur Eskju á Eskifirði. Framkvæmdir eru einnig að hefjast við nýja bryggju við athafnasvæði Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Nýja bryggjan, sem verður steypt staurabryggja, mun nýtast við löndun í fiskimjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar og útskipun mjöls, lýsis og frosinna afurða “, segir Birgitta. Línubátaútgerð er einnig nokkur í Fjarðabyggðarhöfnum og landa þeir mest í Norðfjarðarhöfn, Stöðvarfjarðarhöfn og Breiðdalsvíkurhöfn, en á síðastnefnda staðnum fer vinnsla afla einnig fram. Reyðarfjarðarhöfn er hins vegar meiri vöruhöfn en fiskihöfn, en þar er aðallega skipað upp olíu, áburði, salti og sementi. Þá eru hafnirnar á Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði nauðsynlegar fiskeldinu sem þar fer fram.

Mikilvægur hlekkur í atvinnukeðjunni ,,Hafnirnar eru mikilvægur hlekkur í atvinnukeðjunni, án þeirra væri atvinnulífið á Austurlandi ekki eins blómlegt og það er“, segir Birgitta og bætir við að fyrsta skrefið í átt að Fjarðabyggðarhöfnum eins og þær eru í dag hafi átt sér stað árið 1998 með sameiningu Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Árið 2006 bættust Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður við og síðasta sameiningin átti sér stað árið 2018 þegar Breiðdalsvík bættist í hópinn. Nafnið Fjarðabyggðarhafnir var tekið í notkun árið 2019 en hét áður Hafnarsjóður Fjarðabyggðar. Fjarðabyggðarhafnir gegna veigamiklu hlutverki í stórum framkvæmdum og uppbyggingu í sveitarfélaginu og Austurlandi öllu. Sem dæmi má nefna að þegar framkvæmdir voru við Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa í Reyðarfirði var byggingarefni og vinnuvélum skipað upp á Reyðarfirði. ,,Þessu fylgdu miklir vöruflutningar sem fyrst fóru fram um Reyðarfjarðarhöfn en færðust svo á Mjóeyrarhöfn þegar hún var tilbúin.

Í kjölfarið hófu Eimskip og Samskip víðtæka starfsemi á Austurlandi og hófu áætlunarsiglingar með gámum til Evrópu”, segir Birgitta.

Fjölbreytt starf verkefnastjóra hafna ,,Starf verkefnastjóra hafna snýst ekki eingöngu um fisk og flutninga. Því fylgir alls konar áætlanagerð, skýrsluskil, viðbragðsáætlanir og samskipti við opinberar stofnanir. Við eigum í töluverðum samskiptum við fyrirtækin á svæðinu þar sem aðföng og vörur verða að komast klakklaust til og frá höfnunum. Við eigum líka í töluverðum samskiptum við Samgöngustofu vegna hafnarverndar og Umhverfisstofnun vegna viðbragðsáætlana t.d. vegna bráðamengunar“ segir Birgitta sem bendir á að Fjarðabyggðarhafnir fái ekki framlag frá ríkinu þar sem Fjarðabyggðarhafnir standa undir sér fjárhagslega. ,,Það eru ótvíræðir kostir við það að reka hafnirnar sem eina heild frekar en margar misstórar aðskildar hafnir. Fjölbreytileiki hafnanna í Fjarðabyggð er styrkur, minni hafnirnar nýtast vel til strandveiða svo dæmi sé tekið og meira fé fæst til framkvæmda fyrir þær hafnir með því að þær séu hluti af Fjarðabyggðarhöfnum,“ segir Birgitta og áréttar mikilvægi hafnanna fyrir atvinnulífið í Fjarðabyggð.

Ammoníak framtíðarorkugjafi í skipum ,,Umhverfismál skipa okkur miklu máli og við leggjum okkur fram um umhverfisvænan rekstur. Það eru viðræður í gangi um grænan orkugarð í Fjarðabyggð og í því skyni hefur verið skrifað undir lóðarleigusamning við danska fjárfestingasjóðinn CIP og viljayfirlýsingu með áherslu á orkuskiptin við höfnina í Rotterdam,“ segir Birgitta. ,,Plön eru um að framleidd verði græn orka í Reyðarfirði og stefnt er að því að framleiða ammoníak sem afleiðu af vetni sem framtíðar orkugjafa í skipum“.

Lítil áhersla á komu skemmtiferðaskipa Níu skemmtiferðaskip hafa komið til Fjarðabyggðarhafna það sem af er ári en að sögn Birgittu hefur ekki verið lögð sérstök áhersla á skemmtiferðaskip.

,,Plön eru um að framleidd verði græn orka í Reyðarfirði og stefnt er að því að framleiða ammoníak sem afleiðu af vetni sem framtíðar orkugjafa í skipum“.

Mjóafjarðarhöfn, er minnsta höfnin af Fjarðabyggðarhöfnum en mikilvæg. Ferjusiglingar þaðan er eina samgönguleið Mjófirðinga yfir veturinn. SJÁVARAFL DESEMBER 2023

39


,,Ég er jarðtengdari hér en annars staðar og Reyðarfjörður hefur alltaf verið heima hvar sem ég hef búið. Nálægðin við náttúruna og fegurð hennar er það sem heillar mig við Austurland“ Norðfjarðarhöfn í Neskaupstað er stærsta fiskihöfn á landinu. Þar er hafnaraðstaða góð og stutt á miðin.

,,Það var ákveðið árið 2008 að markaðssetja Eskifjarðarhöfn sem höfn fyrir skemmtiferðaskip og eftir það hófu skemmtiferðaskip að koma þangað. Í könnun sem gerð var árið 2019 kom í ljós að íbúar Fjarðabyggðar voru sáttir við þá umferð og stærð skemmtiferðaskipa sem hafði lagt leið sína til okkar og vildu halda því þar. Því hefur ekki verið lagst í markaðssetningu hafnanna en að sjálfsögðu tökum við vel á móti skipum sem koma,“ segir Birgitta sem veltir því fyrir sér hvort að innviðir Austurlands myndu þola meiri ásókn skemmtiferðaskipa eða nægt vinnuafl sé til staðar. Birgitta bendir á að ferðaþjónustan í Fjarðabyggð njóti góðs af þeim skemmtiferðaskipum sem koma til hafna á Seyðisfirði og Djúpavogi. Birgitta segir að þegar rætt sé um komur skemmtiferðaskipa í Fjarðabyggðarhafnir þurfi einnig að huga að því hvaða áhrif aukin umferð hafi á fiskeldið á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Reyðarfirði og aðra þá umferð sem fyrir er um hafnirnar.

Jarðtengist á Reyðarfirði ,,Ég er jarðtengdari hér en annars staðar og Reyðarfjörður hefur alltaf verið heima hvar sem ég hef búið. Nálægðin við náttúruna og fegurð hennar er það sem heillar mig við Austurland. Hér er rólegt en fjölbreytt mannlíf og nóg um að vera. Mér leiðist aldrei og ekki er verra að fólkið okkar er allt hér fyrir austan,“ segir Birgitta sem á þrjú börn 6 til 15 ára. Tveir synir sem fæddir eru í Danmörku fannst þeir komnir heim þegar þeir fluttu til Reyðarfjarðar án þess að hafa búið þar. Dóttirin fæddist svo eftir flutninga heim á Reyðarfjörð.

Átti ekki von á að flytja aftur ,,heim“ Birgitta er Austfirðingur, fædd og uppalin á Reyðarfirði og bjó þar þangað til að hún flutti til Reykjavíkur með eiginmanninum vegna háskólanáms. Þaðan fóru þau til Danmerkur í áframhaldandi nám. ,,Við áttum ekki von á því, ég og maðurinn minn, að fá atvinnutækifæri fyrir austan að námi loknu. Þegar við fluttum frá Reyðarfirði var fátt sem benti til þess að við gætum nýtt menntun okkar þar,“ segir Birgitta sem þakkar uppbyggingu álversins í Reyðarfirði að fólk fékk tækifæri að koma aftur heim að loknu námi og fá vinnu með fyllilega samkeppnishæfum launum á við höfuðborgarsvæðið. Birgitta er menntuð viðskiptafræðingur með grunn í vörustjórnun og er með meistaragráðu í aðfangastjórnun og sjóflutningum. Eiginmaður hennar er lærður verkfræðingur. ,,Pabbi minn vann á höfninni frá því að ég var krakki og bryggjurúnturinn var stór partur af mínu lífi. Það hafði eflaust áhrif á val mitt á menntun,“ segir Birgitta sem hóf störf hjá Eimskip eftir 12 ára fjarveru frá Reyðarfirði. Nokkrum árum síðar sá hún auglýst starf verkefnastjóra Fjarðabyggðarhafna.

Spennandi starf í mótun ,,Mér fannst starfið spennandi og falla vel að menntun minni auk þess sem það var nýtt og þar með tækifæri til að þróa starfið áfram. Ég sótti um og fékk starfið og hér er ég enn rúmum fjórum árum síðar,“ segir Birgitta og bætir hlæjandi við að pabbi hennar hafi verið búinn að ákveða að hætta að vinna um það leyti sem hún tók við. Það hafi því verið eitt af atriðunum á næsta þorrablóti að hennar fyrsta verk hefði verið að reka pabba sinn heim á eftirlaun. Birgitta Rúnarsdóttir, ásamt eiginmanni og börnum í sumarfríi á Suðurlandi

40 SJÁVARAFL DESEMBER 2023


Sjávarafl óskar starfsmönnum sínum og lesendum um land allt, gleðilegra jóla með ósk um farsæld, frið og gæfu á nýju ári.

SJÁVARAFL DESEMBER 2023

41


Hátíðarlax Nú þegar hátíð ljóss og friðar er að ganga í garð huga margir að góðum mat. Í þetta skipti er það reyktur lax sem verður fyrir valinu í Sjávarafli og er hann tilvalinn í forrétt eða í hádeginu og tekur bara örfáar mínútur að ganga frá. Uppskriftin er fyrir einn.

Í laxréttin þarf: Reyktur lax – þrjár sneiðar á mann Lófafylli af íssalati eða salatblöndu - hafa það stökkt og brakandi 4 stk íslenskir konfekttómatar ½ sítróna Ferskt dill eftir smekk 6-10 stk kapers

Aðferð:

Elí Bragadóttir

Skerið salatið í munnbita. Dreifið tómötum og kapers á diskin. Setjið því næst laxasneiðarnar ofan á og ferskt dill efst. Í lokin er hálf sítróna kreist yfir laxinn.

Í sósuna fer: 2 msk sýrður rjómi 1 tsk majónes 3 msk rjómi Dijonsinnep eftir smekk hunang eftir smekk

42 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Aðferð: Hrærið saman sýrðum rjóma, majónesi og rjóma. Bætið síðan rjóma og hunangi út í og smakkið til. Gott er að hafa sósuna í lítilli könnu svo hægt sé að bæta við eftir smekk. Gleðilega hátíð!

Til sölu á innlendum markaði í fyrsta skipti Þann 23. nóvember s.l. voru tvö tonn af slægðum laxi seld á fiskmörkuðum. Kom laxinn frá Arctic Fish og salan nam 1,9 miljón króna en það gera 921,7 krónur á kíló. Er þetta í fyrsta skipti sem fyrirtækið býður lax til sölu á innlendum fiskmörkuðum en fiskeldisfyrirtækin hafa selt sínar afurðir á erlenda markaði. Einnig hefur salan oft farið gegnum eigin sölufélög.


Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum óskar öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs

Samhentir og Vörumerking óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

SJÁVARAFL DESEMBER 2023

43


Katrín Axelsdóttir

Nemendur í Sjávarútvegsfræði í námsferð úti á sjó

Seiðaeldi, sjávarútvegsskóli og stjórnun

„Magnað að fá að fylgjast með ferlinu“ Ég heiti Katrín Axelsdóttir og er 21 árs gömul fædd og uppalin á Akureyri. Ég man eftir mér úr æsku hlaupandi um í skipum með frænda mínum sem vann um borð í þeim en annars voru tengsl mín við sjávarútveg ekki mikil sem barn. Ástæða þess að ég valdi að fara í sjávarútvegsfræði er fyrst og fremst áhugi minn á stjórnunarstörfum og störfum sem krefjast metnaðs og frumkvæðis. Ég sótti því um í sjávarútvegsfræði og með hverju námskeiði í náminu jókst áhuginn á öllu tengdu sjávarútvegi og hafinu. 44 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Síðastliðið sumar starfaði ég hjá Sjávarútvegsskóla unga fólksins en hann sækja þau sem starfa í vinnuskóla sveitarfélaganna. Lengst af var ég á Austurlandi en kenndi einnig á Akureyri, Ólafsfirði og Siglufirði. Það gaf mér góða innsýn og reynslu inn í heim sjávarútvegsins. Það var virkilega gaman að kynnast sjávarþorpunum fyrir austan og að upplifa hve stóran sess þessi iðnaður skipar á þeim stöðum. Krakkarnir í Sjávarútvegsskólanum voru áhugasamir og ótrúlega fróðir um efnið og allar hliðar sjávarútvegsins. Við heimsóttum þau sjávarútvegsfyrirtæki sem eru á hverjum stað, sem og fiskeldis fyrirtæki, netaverkstæði og björgunarsveitir. Í sumar var mér boðið að vinna að rannsóknarverkefni hjá Rannís með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna undir leiðsögn Rannveigar


Björnsdóttur, dósents við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Rannsóknin var unnin í samstarfi við nýstofnað styrjueldi í Ólafsfirði og var verið að kanna hvort hægt væri að auka vöxt styrjuseiða með auðgun fóðurs. Eitt er að fara í nám en að fá tækifæri til að sjá hvernig námið nýtist bæði til byggðaþróunar og aukinnar verðmætasköpunar er nánast ómetanlegt. Ákveðnar styrjutegundir eru í útrýmingarhættu en skila af sér verðmætari afurðum en aðrar fiskitegundir. Að taka þátt í því að rannsaka hvernig hægt er að auka gæði framleiðslu sem er staðsett í litlu þorpi út á landi fékk mig til að meta námið enn betur. Notast var við íslensk hráefni frá KeyNatura, asta lýsi og þörungahrat sem framleitt er á Íslandi. Markmiðið var að samtvinna aukna nýtingu á íslensku hráefni og að vonast eftir aukningu í vexti styrjunnar. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að hægt sé að auka vöxt styrju með auðgun fóðursins. Við gerð verkefnis sem þessa öðlaðist ég heilmikla reynslu sem hiklaust mun nýtast mér í framtíðinni. Það var áhugavert að koma inn í fyrirtæki sem er í mikilli uppbyggingu og þar sem mikil þróun á eftir að eiga sér stað á næstu árum. Að koma inn í seiðaeldi þar sem seiði voru nokkuð nýtilkomin og fylgjast með þeim í nokkra mánuði og sjá vöxtinn jafnt og þétt var sérstaklega áhugavert. Það var mjög fróðlegt að fá að kynnast vinnu við seiði og færa þau milli kera og vigta. Þessi reynsla jók skilning minn á því hvernig fiskeldi gengur fyrir sig. Við auðgun á fóðrinu fékk ég auk þess mikla innsýn í samsetningu fóðurs og tækifæri til að bæta fóður í því markmiði að hámarka vöxt seiða. Það var magnað að fylgjast með ferlinu við blöndun, þurrkun og næringarefnamælingar. Á heildina er litið var það mjög lærdómsríkt og nytsamlegt að prófa að vinna í samstarfi við fyrirtæki, upplifa samskipti og samvinnu þar sem hagsmunir beggja aðila eru undir. Það er töluvert annað að upplifa það inni í fyrirtækinu heldur en að lesa það af bók. Þessi vinna var auk þess mjög góður undirbúningur fyrir komandi BS.c lokaverkefni. Með gráðu í sjávarútvegsfræði eru fjölmörg störf sem hægt er að vinna við og kannski ekkert ákveðið starf sem kemur upp í

Styrjuseiði að stækka

hugann, en samhliða náminu fáum við innsýn í fjölbreytt störf innan sjávarútvegs. Í náminu er farið í vísindaferðir þar sem maður fær innsýn í störf og markmið fyrirtækja og hópur stúdenta sækir auk þess sjávarútvegsráðstefnu og sýningar. Sú ákvörðun að sækja um í sjávarútvegsfræði er eitthvað sem ég sé ekki eftir, ótrúlega skemmtilegt og fjölbreytt nám sem gefur manni fjölmörg starfstækifæri í framtíðinni.

Nemendur í Sjávarútvegsfræði í námsferð úti á sjó SJÁVARAFL DESEMBER 2023

45


Óskum starfsfólki

í sjávarútvegi gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

Fiskmarkaður Þórshafnar ehf. Alhliða þjónusta Löndun - Ís - Slæging - Gæðafrágangur Sala og framboð á öllum fisktegundum Kominn til þess að vera EYRAVEGI 16 - 680 ÞÓRSHÖFN SÍMI 899 7130 - 460 8109 FAX 460 8160 - fmth@hth.is

Sími 414 4414

46 SJÁVARAFL DESEMBER 2023


Héðinn Stærð: 29 x 4 sm

Hvítur

Kongsberg Stærð: 18,5 x 3,5 sm

Hvítur

Pantone 485 Pantone 116

hedinn.com Stærð: 7,5 x 2 sm

Hvítur

SJÁVARAFL DESEMBER 2023

47


Börnin og lífið Heilsuleikskólinn Álfasteinn er í Hörgársveit og stendur ofan við þjóðveginn umlukinn trjágróðri. Nafn leikskólans er dregið af bóndabænum Dvergasteini norðan við Álfastein. Leikskólinn er fjögra deilda, Ljósálfadeild fyrir 1 árs, Álfadeild fyrir 2 - 3 ára, Dvergadeild og Trölladeild báðar fyrir 3-6 ára. Hann er opinn frá 7:45 til 16:15. Einkunnarorð Álfasteins eru: „Með sól í hjarta“ Unnið er eftir hugmyndafræði Heilsustefnunnar og Jákvæðs aga auk þess að gera verkefni tengd Grænfána Landverndar. Við nýtum námsefnið „Lubbi finnur málbein“ til að kenna íslensku málhljóðin sem og tákn með tali til að styðja við máltöku barnanna. Áhersla er á að börn öðlist reynslu af stærðfræði í gegnum leik og daglegar athafnir í skólanum og er stuðst við MIO, skimunarefni í stærðfræði í því samhengi. Mikil áhersla er lögð á umhyggju fyrir barninu sem einstaklingi með réttindi og skyldur. Barnið á rétt á að þroskast í gegnum leik á eigin forsendum eins og frekast er unnt og velja sér viðfangsefni undir leiðsögn kennara. Á Álfasteini á að vera gaman að leika sér og vera til yfirleitt. Með leikskólastarfinu viljum við líka sjá börnin þróa með sér sterka sjálfsmynd, lífsgleði og ánægju. Þau verði sjálfsöguð, líti á hreyfingu og hollustu sem hluta af daglegu lífi og séu fær um að sýna virðingu og vináttu í samskiptum. Jafnframt viljum við stuðla að alhliða þroska þeirra. Í daglegu starfi leggjum við áherslu á það umhverfi sem næst er barninu, barnið sjálft og fjölskyldu þess. Lögð er áhersla á að viðhalda íslenskum siðum og venjum, jafnhliða því að opna augu barnanna fyrir fjölbreytileika lífsins.

Hvað heitir þú? Aron Ingi Árnason Hvað ertu gamall? Fimm Veist þú hvað sjómenn gera? Veiða fisk Þekkir þú einhverja sjómenn? Nei Veist þú hvernig sjómenn veiða fisk? Með veiðistöng Finnst þér fiskur góður?Já fiskur í raspi Hefur þú farið á sjó? Já Hvað finnst þér skemmtilegast um jólin? Fá gjafir

48 SJÁVARAFL DESEMBER 2023


Hvað heitir þú? Auður Katrín Bjarkadóttir Hvað ertu gömul? 5 ára, nýorðin 5 ára Veist þú hvað sjómenn gera? Sigla úti á sjó Þekkir þú einhverja sjómenn? Nei Veist þú hvernig sjómenn veiða fisk? Með veiðistöng eða fiskineti Finnst þér fiskur góður? Já Hefur þú farið á sjó? Já Hvað finnst þér skemmtilegast um jólin? Að syngja Jólalög og fá í skóinn

Hvað heitir þú? Freydís Elsa Bjarkadóttir Hvað ertu gömul? 5 ára Veist þú hvað sjómenn gera? Veiða fisk Þekkir þú einhverja sjómenn? Nei Veist þú hvernig sjómenn veiða fisk? Með veiðistöng eða háfi Finnst þér fiskur góður? Nei Hefur þú farið á sjó? Já Hvað finnst þér skemmtilegast um jólin? Að fá pakka og fá eitthvað í skólinn og syngja jólalög.

Hvað heitir þú? Jóhann Máni Helgason Hvað ertu gamall/gömul? Fjóra Veist þú hvað sjómenn gera? Veiða fiska Þekkir þú einhverja sjómenn? Uu enga Veist þú hvernig sjómenn veiða fisk? Með fiskineti Finnst þér fiskur góður? Já bleikur Hefur þú farið á sjó? Nei Hvað finnst þér skemmtilegast um jólin? Uuu hengja á jólatréð

Hvað heitir þú? Jónatan Jaki Hjaltason Hvað ertu gamall? 5 ára Veist þú hvað sjómenn gera? Þeir veiða fisk. Þeir fara alltaf út á sjó og sigla bátnum sínum. Þekkir þú einhverja sjómenn? Neiii Veist þú hvernig sjómenn veiða fisk? Með svona sem maður setur ofaní og búmm og veiðir fisk. Það heitir net. Finnst þér fiskur góður? Já steiktur fiskur með sósu. Hefur þú farið á sjó? Já á litla bátnum sem pabbi var að róa með. Hvað finnst þér skemmtilegast um jólin? Ég veit það, borða jólanammi og jólaköku. Fá jólapakka. Sjómenn eru í sjófötum sem mega bleyta sig. Stundum eru sjómenn gamlir en stundum ekki.

SJÁVARAFL DESEMBER 2023

49


Ný bók eftir Þór Sigfússon Í fréttatilkynningu Sjávarklasans kemur út að út er komin bókin „100% Fish - How smart seafood companies make better use of resources“ eftir Þór Sigfússon stofnanda Sjávarklasans. Útgefandi er Leete’s Island Books í Bandaríkjunum. Í bókinni er fjallað um sjávarútvegsfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki víða um heim sem eru að leiða grænu byltinguna í sjávarútvegi og stuðla að betri umgengni um auðlindir hafsins.Tekin eru dæmi af m.a. íslenskum fyrirtækjum sem hafa verið í fararbroddi á heimsvísu í betri nýtingu sjávarafurða og hvernig þau hafa tileinkað sér nýja tækni sem hefur bætt samkeppnisstöðu þeirra og gert þeim kleift að verða leiðandi í hringrásarhagkerfinu. Jafnframt er rætt við leiðtoga sjávarútvegsfyrirtækja víða um heim sem hafa tekið sjálfbærni og betri nýtingu traustum tökum. Íslenski sjávarklasinn hefur í samstarfi við ýmsa aðila hérlendis hafið markvissa kynningu utan Íslands á mikilvægi þess að draga úr sóun í sjávarútvegi. Á meðan Íslendingar nýta allt að 90% af hverjum veiddum fiski eru margar þjóðir að henda hliðarafurðum sem nema allt að 30-40% af afla; verðmæt auðlind sem oft endar sem landfylling eða er hent í sjóinn í öðrum löndum. Það eru næg tækifæri fyrir sjávarútveginn til að verða leiðandi í sjálfbærni og kynna afurðir sínar sem þau matvæli sem hafa lægsta kolefnissporið og þar sem sjálfbærni og fullnýting eru leiðarljósin.

Fjölskylduveisla – því bleikari því betri Það eru hefðir í kringum jólin alls staðar í heiminum og eru Íslendingar engir eftirbátar þar. Ein hefðin var á sínum tíma að maturinn sem borðaður var á dánardegi heilags Þorláks væri fiskur. Fiskurinn átti að vera lélegur og þannig væri sem mestur munur gerður á góðum og vondum mat fyrir jólin. Ein hefð sem er ævagömul og kemur frá á Vestfjörðum er að borða kæsta skötu á Þorláksmessudag. Á Vestfjarðamiðum veiddist mikið af skötu á þessum árstíma. Til að byrja með þótti hún alls ekki góður matur en svo varð breyting á og fórskatan að þykja algert ljúfmeti. Svo góð þótti hún að Vestfirðingar byrjuðu að borða skötustöppu í hádegismat á aðfangadag. Þegar Íslendingar eru spurðir hvort þeir borði skötu vekur það minningar um ilminn, já eða óþefinn, svona allt eftir því hverjir er spurðir. Verður þessi skemmtilega hefð sífellt vinsælli um land allt. Fyrir nokkrum áratugum fóru síðan aðrir en Vestfirðingar að borða kæsta skötu. Vestfirðingar söknuðu þess að fá ekki skötu og reyndu að útvega sér hana fyrir jólin og fyrir vikið fóru aðrir að borða hana líka. Margir vilja hafa skötuna bæði kæsta og saltaða. Þá er haft eftir ónefndum vestfirskum manni að flest börn fæðist í september á Vestfjörðum ...

50 SJÁVARAFL DESEMBER 2023

Með skötunni eru bornar fram soðnar kartöflur og sumir borða rúgbrauð með smjöri. Út á skötuna setja Vestfirðingar mörflot en oft er talað um vestfirskt mörflot sem er hreint og beint sælgæti.


Þau fiska sem þróa Aukið virði sjávarafurða í krafti rannsókna og nýsköpunar


Hafnir Múlaþings óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.