3 minute read

Hvað segir fólkið um þjóðhátíðina?

Nafn: Andri Hugo Runólfsson

Advertisement

Aldur: 44

Fjölskylda: Einstæður og barnlaus, sonur Runa á Hvanneyri og Margo Renner.

Hversu oft hefuru verið á þjóðhátíð?

38 sinnum. Missti síðast af Þjóhátíð árið 1995.

Hver er hápunktur þjóðhátíðarinnar?

Vitavígslan, auðvitað.

Hvaða þjóðhátíðalag er uppáhalds?

Þú veist hvað ég meina mær, Skímó, 1997.

Hvað finnst þér mikilvægt að hafa í hvíta tjaldinu?

Skemmtilegt fólk

Hvað er ómissandi á þjóðhátíð?

Bekkjabílar, mikill missir af þeim.

Hvaða tónlistardagskrá ertu spenntastur fyrir?

Frumflutningi Þjóðhátíðarlagsins, þar sem Karla- og

Kvennakór Vestmannaeyja munu stíga á svið með Emmsjé Gauta. Og auðvitað Stjórninni.

Nafn: Alma Ingólfsdóttir

Aldur : Ég er 35 ára.

Fjölskylda: Foreldrar mínir eru Ingólfur Ingólfsson og Júlíanna Theodórsdóttir. Svo er Margrét Rós systir mín.

Hversu oft hef ég verið á þjóðhátíð: Ég er ekki með tölu á því, en ætli þær séu ekki á bilinu 20-25.

Hver er hápunktur þjóðhátíðarinnar: Bessó fjölskyldan og samvera með vinahópnum mínum.

Hvaða þjóðhátíðarlag er uppáhalds: Ég á ekkert eitt uppáhalds þjóðhátíðarlag, þau eru misjöfn eins og þau eru mörg, en texti og innihald gott í flestum þeirra.

Hvað finnst þér mikilvægast að hafa í hvíta tjaldinu? Mér finnst mikilvægast að hafa spegil og einhverskonar kyndingu.

Hvað er ómissandi á þjóðhátíð: Góður félagsskapur og góða skapið. Svo er mikilvægt að við sýnum öll skynsemi, verum vakandi og skemmtum okkur vel saman.

Hvaða tónlistadagskrá ertu spenntust fyrir? Ég er spennt fyrir prettyboychocco. Eðlilega fyrir konu á fertugsaldri.

Tvíburarnir Ólíver Elí og Ísak Leví Gíslasynir komu, sáu og sigruðu í eldri flokki söngkeppni barna á Þjóðhátíð síðasta ár. Þar trylltu þeir lýðinn með flutningi sínum á lagi Metallica, Nothing else matters. Þar lék Ólíver á gítar og söng og Ísak lék á bassa. Þeir bræður kíktu við á Tígli í létt spjall, daginn eftir 10 ára afmælið sitt. „Við fórum á Tangann á afmælisdaginn og fengum okkur að borða. Köku í eftirrétt og svona.“

Ólíver þótti mjög gaman að taka þátt í söngkeppninni í fyrra og sérstaklega að vinna og fá að syngja fyrir fulla brekku. „Ég veit ekki alveg hvernig á að útskýra það,“ sagði Ísak hinsvegar. „Mér fannst það gaman en var á sama tíma mjög feiminn og stressaður.“ Kannski ekki furða með fimmtán þúsund manns í brekkunni að hlusta. „Já, það var smá stress,“ bætti Ólíver við „svona í fyrsta skiptið.” Bræðurnir sögðu stressið nú að mestu horfið enda komið nokkru sinnum fram í kjölfar sigursins. „Við spiluðum á Lundaballinu og svo hituðum við upp fyrir tónleika á Háaloftinu.“ Aðspurðir sögðust þeir mest spila lög með Metallica enda í miklu uppáhaldi hjá þeim báðum. En þeir hljóta að hafa æft mjög mikið fyrir keppnina. „Bara svona passlega mikið. Þetta kom mjög hratt þegar við byrjuðum, Pabbi er alltaf búinn að vera kenna okkur eitthvað.“ sagði Ísak. En foreldrar þeirra eru Kristín Sjöfn Ómarsdóttir og Gísli Stefánsson, sem leikur meðal annars í hljómsveitinni Foreign Monkeys. „Þegar við vorum litlir kenndi hann okkur Bohemian Rhapsody á Ukulele,“ bætti Ísak við og hló.

Ólíver Elí byrjaði að læra á gítar í Tónlistarskólanum í öðrum bekk en Ísak byrjaði þar í trommunámi í fyrsta bekk. Bassakunnáttan var hins vegar að mestu leyti sjálflærð en hann hóf svo nám á bassa eftir Þjóðhátíð. Þeir segjast þó hafa lagt tónlistinni aðeins núna í sumar og einbeitt sér að fótboltanum. Segjast þeir báðir stefna á að verða annað hvort tónlistarmenn eða íþróttamenn í framtíðinni. Ef ekki bæði. „Helst í fótbolta en ég er tilbúinn í handboltann ef að það klikkar,“ sagði Ólíver.

Þeim finnst einfaldlega að vera í Dalnum það langskemmtilegasta við Þjóðhátíð án þess þó að vera að gera eitthvað sérstakt. „Á síðustu Þjóðhátíð var bróðir minn bara úti að sníkja pening og spila á gítar,“ sagði Ólíver. „Ég græddi 1.500 krónur,“ bætti Ísak við. Móðir drengjanna leiðrétti það þó og sagði það hafa verið hátt í 5.000 kr. „ Ha, í alvöru?“ sagði Ísak þá, steinhissa.

Aðspurðir um uppáhalds þjóðhátíðarlag voru þeir bræður sammála um að það væri lag FM95blö Ég fer á Þjóðhátíð frá 2016.

Þegar innt var eftir uppáhalds tónlistarmanninum stóð ekki á svörunum. „James Hetfield,“ sagði Ólíver, „minn er Cliff Burton,“ bætti Ísak við. Til mikillar furðu báðir meðlimir úr Metallica, Hetfield söngvari og Burton fyrrum bassaleikar. „Hva, ekki pabbi ykkar?“ Henti móðir þeirra inn í umræðuna og drengirnir glottu.

En ætla þið þá að reyna að sjá Metallica á tónleikum? „Já, ef þeir verða ekki hættir þegar við erum komnir með pening fyrir því.“

Þeir félagar segjast alveg vera klárir í að spila Í Dalnum ef eftirspurnin er til staðar hvort sem er á dagskránni eða í tjöldum. „Ef við verðum spurðir, þá byrjum við bara að æfa okkur,“ sagði Ólíver og Ísak bætti við „Ef ég fæ minna en 5.000 kall þá er ég ekki að fara að gera það.“

Þar með lauk spjallinu við þessa flottu drengi sem við eflaust höfum ekki heyrt það síðasta frá.

This article is from: