Mútta Courage og börnin - leikskrá

Page 1

1


Leikskrá Ritstjórn: Melkorka Tekla Ólafsdóttir, Hrafnhildur Hagalín. Hönnun og uppsetning: Jorri. Ljósmyndir: Jorri o.fl. Prentun: Prentmet, Oddi. Útgefandi: Þjóðleikhúsið. Myndir í leikskrá eru teknar á æfingu og eru því ekki heimild um endanlegt útlit sýningarinnar. Sérstakar þakkir: Þjóðminjasafn Íslands, Ívar Brynjólfsson. Sýningarréttur: Nordiska ApS, www.nordiska.dk Titill á frummáli: Mutter Courage und ihre Kinder. Sýningarlengd er um 2 klst. og 40 mín. Eitt hlé. 6. sýning: Umræður eftir sýningu. 7. sýning: Textun á ensku og íslensku. Hægt er að kynna sér viðvaranir vegna umfjöllunarefnis leiksýninga og notkunar tæknibúnaðar á leikhusid.is/vidvaranir.

Þjóðleikhúsið 75. leikár, 2023–2024. Frumsýning á Stóra sviðinu 26. október 2023. Þjóðleikhússtjóri: Magnús Geir Þórðarson.

2


Mútta Courage og börnin

eftir Bertolt Brecht og Margarete Steffin Upprunaleg tónlist er eftir Paul Dessau* Þýðing: Bjarni Jónsson

Þjóðleikhúsið 2023 - 2024 * Upprunaleg tónlist við verkið er eftir Paul Dessau, en hún er ekki notuð í sýningunni.

3


Leikarar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

Mútta Courage

Hildur Vala Baldursdóttir

Katrín

Almar Blær Sigurjónsson

Klárinn, ungur bóndi

Oddur Júlíusson

Eilífur, hermaður

Atli Rafn Sigurðarson

Kokkurinn, skrifari, bóndi

Ernesto Camilo Aldazábal Valdés

Maður, hermaður, ofursti

Guðrún S. Gísladóttir

Hermaður, herforingi, liðþjálfi

Hilmar Guðjónsson

Herpresturinn

Sigurður Sigurjónsson

Höfuðsmaður, hermaður, liðsmali, maður með lepp

Vigdís Hrefna Pálsdóttir

Yvette, bóndakona

Listrænir stjórnendur Leikstjórn Una Þorleifsdóttir Leikmynd Ilmur Stefánsdóttir Búningar Filippía I. Elísdóttir Lýsing Björn Bergsteinn Guðmundsson Dramatúrg Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir

4

Tónlist Valgeir Sigurðsson Helgi Hrafn Jónsson Myndband Ásta Jónína Arnardóttir Hljóðhönnun Þóroddur Ingvarsson Valgeir Sigurðsson


Aðrir aðstandendur Sýningarstjórn Elísa Sif Hermannsdóttir Aðstoðarmaður leikstjóra Viktoría Sigurðardóttir Nemi Gígja Hilmarsdóttir Búningadeild Berglind Einarsdóttir - yfirumsjón Ásdís Guðný Guðmundsdóttir Eva Lind Weywadt Oliversdóttir Helga Lúðvíksdóttir Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir Leikgervadeild Þóra G. Benediktsdóttir - yfirumsjón Ingibjörg G. Huldarsdóttir Áshildur María Guðbrandsdóttir Hildur Ingadóttir Silfá Auðunsdóttir

Ljósadeild Ýmir Ólafsson – ljósastjórn Ásta Jónína Arnardóttir – ljósastjórn Leiksvið Ásdís Þórhallsdóttir - leiksviðsstjóri Alexander John George Hatfield - yfirumsjón sýningar Sigurður Hólm Lárusson - tæknimaður sýningar Eglé Sipaviciuté - leikmunavarsla á sýningum Jasper Bock - tæknimaður Siobhán Antoinette Henry - tæknimaður Þórunn Kolbeinsdóttir – tæknimaður Leikmynda- og leikmunagerð Atli Hilmar Skúlason - teymisstjóri Ásta S. Jónsdóttir - yfirumsjón leikmuna Haraldur Levi Jónsson – smiður og tæknilegar útfærslur Arturs Zorģis – smiður Michael John Bown – smiður Egle Sipaviciute – aðstoð við leikmunagerð Mathilde Anne Morant - aðstoð við leikmunagerð Valur Hreggviðsson – aðstoð við leikmunagerð og málari

Hljóðdeild Brett Smith – hljóðstjórn Þóroddur Ingvarsson – hljóðstjórn

5


6


7


Hver var Bertolt Brecht? Líkt og sjá má af yfirliti á öðrum stað hér í leikskránni er Þorstein Þorsteinsson (1938-2023) afkastamesti þýðandi leikrita Bertolts Brechts á íslenska tungu, en hann þýddi m.a. leikritin Smáborgarabrúðkaup, Túskildingsóperuna, Púntila og Matta, Góðu sálina í Sesúan, Sveyk í síðari heimsstyrjöldinni og Krítarhringinn í Kákasus, sem og þætti úr Ótta og eymd Þriðja ríkisins. Síðasta leikritaþýðing Þorsteins fyrir Þjóðleikhúsið var Krítarhringurinn í Kákasus og í tilefni af sýningunni skrifaði hann grein um Bertolt Brecht í leikskrá, sem er endurbirt hér með örlitlum styttingum, með góðfúslegu leyfi dóttur hans Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur.

„Ég er síðasti kaþólski rithöfundurinn,” sagði Brecht í viðtali skömmu fyrir andlát sitt. Einhverjir skildu þetta sem síðborna trúarjátningu, og fannst hún undarleg úr munni þessa alræmda trúleysingja, en Brecht hafði þarna auðvitað hina grísku merkingu orðsins í huga, það er að segja ‚alhliða, almennur’. Hvað sem sannleiksgildi staðhæfingarinnar líður er víst að Brecht setti sér frá upphafi það mark að verða alhliða rithöfundur. Og segja má að hann hafi fengist við allar helstu tegundir skáldskapar á lífsleiðinni. Fyrst og fremst var hann þó ljóðskáld og leikskáld, en hann samdi einnig smásögur og skáldsögur, og meiraðsegja örsögur – löngu áður en það heiti varð til. Hann samdi kvikmyndahandrit, ballett- og óperutexta. Auk þess liggja eftir hann mikil skrif um 8


fagurfræðileg efni, einkum leikhúsmál, enda var leikstjórn annað aðalstarf hans á tveimur tímabilum ævinnar, fyrir og eftir langa útlegð hans. En hver var hann þessi ‚kaþólski’ höfundur? Bertolt Brecht var fæddur í Ágsborg í Suður-Þýskalandi 10. febrúar 1898. Snemma bar á mikilli þörf hjá honum til yrkinga og hélst hún alla ævi. Ljóð af ýmsu tagi einkenna allt höfundarverk hans, og má þar nefna ballöður og önnur söngljóð sem setja meðal annars mikinn svip á leikrit hans; hann yrkir bæði löng heimspekileg kvæði og knappar ljóðrænar myndir, hann yrkir ádeilukvæði, baráttusöngva, ástarljóð. Ýmis kvæði hans eru til í ágætri íslenskri þýðingu, og má þar nefna „Barnamorðíngjann Maríu Farrar” sem Halldór Kiljan Laxness þýddi, „Til hinna óbornu” í þýðingu Sigfúsar Daðasonar og „Kvæði um drukknaða stúlku” þýtt af Þorgeiri Þorgeirsyni. Snemma varð einnig ljóst að hann ætlaði sér mikinn hlut í leikhúsi, bæði sem leikskáld og leikstjóri. Framanaf naut hann þó meiri viðurkenningar fyrir ljóð sín og var ekki fyllilega sáttur við það. Eftir mikla sigurgöngu Túskildingsóperunnar, sem var frumflutt 1928, varð leikskáldið þó ofaná í huga almennings og svo er sennilega enn. En á seinni árum hefur ljóðskáldið aftur fengið uppreisn æru. Eðlilegt er að skipta ferli leikskáldsins í þrennt. Fyrst koma þá æskuverkin, allt frá Baal 1918 til Túskildingsóperunnar og Uppgangs og hruns Mahagonnýborgar sem samin eru skömmu fyrir 1930. Þá kennsluleikirnir sem hann kallaði svo, flestir samdir á árunum í kringum 1930. Einna þekktastir þeirra eru Úrræðið og Undantekningin og reglan. Að lokum eru svo leikritin frá seinustu Berlínarárunum fyrir útlegð og frá útlegðarárunum. Þeirra á meðal eru mörg af hans frægustu verkum, svosem Heilög Jóhanna sláturhúsanna, Móðirin, Ævi Galíleós, Mútter Courage, Góða sálin í Sesúan, Púntila bóndi og Matti vinnumaður og Krítarhringurinn í Kákasus. Þessir þrír flokkar eru um margt undarlega ólíkir. Í þeim fyrsta er á ferð ærslafullur borgarasonur sem er ákveðinn í að hneyksla borgarana og reita þá til reiði. Málfarið er auðugt og ljóðrænt, lifandi og hrjúft. Brecht er á þessum árum anarkisti í uppreisn gegn borgaralegum gildum og hefðum í leikhúsi. En nokkru áður en þessu skeiði lýkur verða hvörf á ferli Brechts þó það komi ekki að fullu fram strax. Hann verður 9


sannfærður marxisti og vill nú fara að beita leikhúsinu í þágu nýrra lífsviðhorfa. Mikil breyting verður á bæði stíl og inntaki verka hans í átt til sparsemi og einfaldleika. Tónlist og kórar eru óaðskiljanlegur hluti kennsluleikjanna, og inntaki flestra þeirra má lýsa með orðum eins kórsöngsins: „Breyttu heiminum, hann þarfnast þess”. Skeið kennsluleikjanna stóð stutt, og í þriðja flokknum eru svo verk sem sameina ýmsar eigindir fyrri flokkanna tveggja og bæta við nýjum. Þetta eru þau leikrit, auk Túskildingsóperunnar, sem orðstír Brechts sem leikskálds hvílir einkum á. Öll fjalla þau um brýn úrlausnarefni í mannlegu samfélagi, viðfangsefni sem þó má ætla að vefjist lengi enn fyrir mönnum. Í bréfi til Erics Bentley frá 1946 kemst Brecht svo að orði um leikrit sín að þau séu samin „á tímum byltinga og heimsstyrjalda”, og vissulega bera þau merki þess. Þau eru littérature engagée – taka afstöðu í málefnum samtímans, en hafa engu að síður ósvikið skáldskapargildi. Flest eru þau samin í útlegð Brechts frá Þýskalandi nasismans, fjarri leikhúsum og þeim áhorfendahópi sem talaði tungu skáldsins. Einsog margir af bestu mönnum Þjóðverja – hvort heldur þeir voru nú frjálslyndir, róttækir eða gyðingar – mátti Brecht flýja land þegar Hitler komst til valda í Þýskalandi 1933. Leið hans og konu hans Helenu Weigel leikkonu og barna þeirra tveggja lá til Norðurlanda, þar sem þau bjuggu í átta ár, síðan til Bandaríkjanna þar sem dvölin varð sex ár, og loks til Sviss, en þar voru þau í eitt og hálft ár. Brecht skrifaði mörg leikrit og orti mikið á þessum árum, einkum meðan hann var á Norðurlöndum, þó fæst af því væri birt eða leikið að nokkru ráði fyrr en löngu seinna. Helstu leikrit Brechts frá Bandaríkjaárunum eru Sveyk í seinna stríði og Krítarhringurinn í Kákasus. Brecht kom til Bandaríkjanna 1941 og settist að í Santa Monica, einni af útborgum Los Angeles. Einsog fleiri hugðist hann freista gæfunnar við að skrifa kvikmyndahandrit fyrir „draumasmiðjurnar í Hollywood”. En árangurinn var rýr: hann seldi að vísu, eftir umþaðbil ár, handrit sem kvikmynd var gerð eftir, en um endanlega útkomu verksins réð hann engu og var að vonum óánægður með það. Seinna fékk hann talsvert fé fyrir verkefni sem hann hafði unnið að með vini sínum, rithöfundinum Lion Feuchtwanger, og gat eftir það snúið sér að eigin verkum að mestu. Ástæðunnar fyrir þessu laka gengi er vísast einkum að leita í því að Brecht er þegar

10


hér er komið löngu orðinn fullþroska höfundur og hefur nokkuð mótaðar skoðanir á því hvað vert sé að fást við og hvernig tökum skuli taka það, skoðanir sem eru svo gjörólíkar ríkjandi smekk og viðhorfum í Hollywood að hvergi er snertipunktur. Haustið 1947 var Brecht kallaður fyrir Óamerísku nefndina svokölluðu, ásamt átján mönnum öðrum sem unnið höfðu fyrir kvikmyndaiðnaðinn í Hollywood. Brecht var eini útlendingurinn í hópnum. Honum var mjög í mun að verða ekki kyrrsettur í landinu og ákvað því að svara öllum spurningum, öfugt við Bandaríkjamennina sem kusu að nýta sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að neita að svara sumum spurningum, svosem hvort þeir væru flokksbundnir kommúnistar. Þessu réttarhaldi yfir Brecht hefur verið lýst svo, að það hafi verið því líkast sem apar væru að yfirheyra dýrafræðing. Brecht var fenginn túlkur sem talaði ensku jafnvel enn verr en hann sjálfur. Aðspurður sagðist Brecht aldrei hafa verið í kommúnistaflokki, sem var sannleikanum samkvæmt. Hann var búinn að æfa með vini sínum yfirheyrsluna einsog hann gat sér til að hún yrði, og sumar spurningarnar komu því einsog beint úr leikriti eftir hann sjálfan. Þannig las saksóknarinn upp feiknarlega vonda þýðingu á pólitísku kvæði eftir Brecht og spurði hann síðan: „Did you write that, Mr. Brecht?” – „No. I wrote a German poem, but that is very different from this.” – Brecht var sleppt og fékk meiraðsegja hrós fyrir góða hegðun og samstarfsvilja. Hann dró þá ályktun af öllu saman að fasismi ætti langt í land í Bandaríkjunum. „Þeir voru miklu skárri en nasistarnir. Nasistar hefðu aldrei leyft mér að reykja.” – Hann beið þó ekki boðanna heldur flaug strax daginn eftir til Evrópu. Síðustu sjö ár ævinnar bjó Brecht í Austur-Berlín en þar hafði honum boðist aðstaða til að starfrækja leikhús eftir eigin höfði. Ekki gekk það með öllu án átaka við yfirvöld sem þótti hann sýna sósíalrealisma lítinn sóma. Hann kom á skömmum tíma upp frábærum hópi leikara og ungra leikstjóra og aðstoðarmanna, setti á svið bæði eigin verk og annarra, og gafst nú langþráð tækifæri til að prófa í verki leiklistarkenningar sínar. Leikhópurinn, sem fékk nafnið Berliner Ensemble, öðlaðist heimsfrægð fyrir sýningar sínar eftir að Mútter Courage og Krítarhringurinn í Kákasus höfðu hlotið verðlaun á Leikhúsi þjóðanna í París 1954 og 1955. Hópurinn hélt stöðu sinni meðal fremstu leikhúsa heims frammundir 1970 en þá fór að gæta stöðnunar. Þá var Brecht reyndar fallinn frá fyrir nokkru, en hann lést í Berlín 14. ágúst 1956. Þorsteinn Þorsteinsson 11


Flakkað um með Múttu Leikritið „Mutter Courage und ihre Kinder“ varð, eins og mörg verka Bertolts Brechts, til sem samvinnuverkefni. Árið 1949, þegar það var sett á svið í fyrsta sinn í leikstjórn höfundar, hafði textinn farið í gegnum hendur samverkamanna- og kvenna; fólks sem liðsinnti margt hvert höfundinum bæði við textagerð og sviðsetninguna sjálfa. Leikritið var því sett saman með aðferðum sem minna á „samsköpunarleikhús“ samtímans („devised theatre“). Raunar er nánasta samverkakona Brechts á árunum 1939-1942, Margarethe Steffin, nefnd sem meðhöfundur verksins. Í leikritinu er líka eitt og annað sem minnir á „Ævintýri góða dátans Sveyk“ - tilsvör Múttu þar með talin. Kostulegar lýsingar tékkneska höfundarins Jaroslavs Haseks á ódysseifsreið Sveyks í heimsstyrjöldinni fyrri höfðu einmitt komið út á bók árið 1928 og fangað huga Brechts. Raunar fór svo að Brecht gerði sjálfstæða leikgerð, byggða á verki Haseks, svo heillaður var hann af hugkvæmni höfundarins og afstöðu hans til sjálfsbjargarviðleitni alþýðunnar og klókindanna sem hún varð að sýna í samskiptum sínum við veraldlega og geistlega valdhafa. Leikritið um Múttu og börnin hennar er þó ekki látið gerast í fyrri heimsstyrjöld, eða þeirri seinni, heldur í hinu svonefnda „Þrjátíu

12


ára stríði“, síendurteknum átökum sem bárust um Evrópu á fyrri hluta 17. aldar og tengdust siðaskiptunum. Vera má að höfundinum hafi þótt of skammur tími liðinn frá endalokum seinni heimsstyrjaldar – mannskæðustu styrjaldarátökum í sögunni – það hafi ráðið því að leikritið var sett í sögulegt samhengi. Með því að flytja textann aftur um 300 ár, gafst ráðrúm til þess að spegla í honum heimsstyrjaldarárin og þá skelfilegu atburði sem voru svo nýlega um garð gengnir en fólki gekk erfiðlega að meðtaka og skilja. Tilfærslan var líka í anda þess framandleika eða framandgervingar sem Brecht trúði að væri undirstaða góðrar og áhrifamikillar listsköpunar: Leiklistin fólst í að tefla saman andstæðum og veita útkomunni í þeim leik nýtt mótvægi. Þannig mátti byggja upp það sem hann kallaði „epískt“ eða „díalektískt“ leikhús; rannsóknarstofu sem fjallaði um stöðug átök manna um hugmyndir og sýn á veruleikann. Hann leit á leikritið um Múttu sem hluta af vegferð sem teygir sig langt aftur í tíma og er að mörgu leyti rótin að alheimsvæðingunni svonefndu, veruleika dagsins í dag. Iðnbyltingin í upphafi 19. aldar og hinn gríðarlegi hraði sem fylgdi í kjölfar tækniframfara - uppfinninga á borð við ritsíma, járnbrautir, flug og tölvur – magnaði upp núning og átök og þar með tæknivædd stríð sem náðu jafnvel heimshornanna á milli. Alheimsvæðingin blés lífi í hugmyndafræðileg og landfræðileg átök austurs og vesturs; þessara tveggja póla sem nú hafa vegist á í heiminum um alllangt skeið og sér ekki fyrir endann á. Brecht bendir okkur á að það sé alltaf stríð í gangi, einskonar heimsstyrjöld sem við verðum stundum áþreifanlega vör við, á milli þess sem hún hverfur eða „hvílir sig“, svo vitnað sé til orða herprestsins í leikritinu. Stríðið snýr alltaf aftur á vígvöllinn, tvíeflt og þá heldur Mútta Courage aftur af stað með vagninn sinn og flakkar með hann fram og aftur í tíma, hvert á land sem er. Þýðandi „Mutter Courage“ stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum. Frumtextinn kann að virka stirðbusalegur við fyrstu sýn, enda styðst höfundur við hinar ýmsu þýsku mállýskur og orðalagið er stundum fornfálegt. En þegar betur er að gáð, þá er tungumálið ekki aðeins vopn í höndum höfundanna Brechts og Steffin, heldur einnig hjá persónunum í samskiptum þeirra. Mútta, herpresturinn og kokkurinn eiga til dæmis ósjaldan langar replikkur sem eru ein, óslitin setning í frumtexta. Með því eru persónurnar að gera tilraun til þess að ná utan um tilveruna og skemmta sér um leið: Setningarnar verða 13


einskonar staðhæfing eða stöðutaka, þær eru hlaðnar upplýsingum og hnyttni sem persónurnar hafa líkt og slípað til í tímans rás. Tungumálið verður þannig órjúfanlegur hluti af lífi fólksins sem kann aukinheldur þá list að skiptast á stuttaralegum, hnitmiðuðum athugasemdum þegar við á. Eitt helsta stíleinkenni leikritsins er síðan allur sá aragrúi af orðatiltækjum og spakmælum sem persónur þess láta út úr sér og tengja má Biblíunni eða kristinni trú. Verkið er gegnumsýrt af vantrú á dyggðir og siðfræðikenningar og það kemur ekki síst fram í kvæðunum sem hafa öll sinn eigin stíl og er ætlað að rjúfa atburðarásina. Orðalag þeirra, samsetning og uppbygging veitir að sama skapi kjörið tækifæri fyrir hugmyndaríka lagasmiði sem vilja vinna með fjölbreytilegar laglínur og hrynjandi. En til þess að galdra megi fram margræðan veruleika leikritsins, verðum við fyrst og fremst að skilja persónurnar og erindi þeirra hverju sinni. Öðruvísi náum við ekki tengslum við tilvist þeirra á sviðinu. Markmiðið við þýðingu textans yfir á íslensku var því að komast að kjarna málsins – í bókstaflegri merkingu – án þess að tapa stíleinkennum og framandleika frumtextans. Það leiðarljós hefur einnig verið haft við allar styttingar og umyrðingar sem orðið hafa í textanum frá því að hann kom fyrst inn á borð þýðanda og leikstjóra og þar til hann var farinn að hljóma á sviði. Með því er jafnvel fetuð svipuð slóð og farin var í upphafi, því leikhandritið „Mutter Courage“ er í raun skráning á sviðsetningu Brechts og Berliner Ensemble og lesandi þess finnur sterkt fyrir sýningunni sem sköpuð var á grunni leiktextans fyrir rúmlega sjötíu árum. Að sama skapi er textinn í uppfærslu Þjóðleikhússins nú smám saman lagaður að sýningunni sem leikarar og listrænir aðstandendur hafa þróað í sameiningu. Hvað varðar sjálfan titilinn, þá liggur suður-þýskur framburður orðsins „Mutter“ glettilega nálægt hinu íslenska „Mútta“. Íslenski titillinn vísar einnig til söluvagnsins; þessarar krambúðar og knæpu á hjólum sem gæti hæglega verið á ferðinni einhversstaðar, í heimi kapítalisma og alþjóðavæðingar – og borið nafnið „Mútta Courage“. Bjarni Jónsson, 09.10.2023

14


15


16


17


Brecht og Steffin, Steffin og Brecht Hershöfðinginn minn er fallinn hermaðurinn minn er fallinn. Nemandi minn er farinn burt kennarinn minn er farinn burt. Sú sem annaðist mig er horfin sú sem ég annaðist er horfin.

(B.B., þýð. H.H.)

Þannig orti Bertolt Brecht til samstarfskonu sinnar Margarite Steffin eftir að hún lést árið 1941, tíu árum eftir að þau hittust fyrst. Brecht og Steffin urðu nánir samstarfsmenn og elskendur á árunum frá 1931 til 1941 og var Steffin skrifuð, ásamt Brecht, fyrir nokkrum af helstu verkum hans frá þessum tíma, m.a. Mutter Courage og börnin hennar, Líf Galileos og Góða sálin í Sezuan. Margarete Steffin var fædd árið 1908 inn í verkamannafjölskyldu í Berlín og ólst upp í einum af fátækari hverfum borgarinnar. Hún var að mestu sjálfmenntuð; var tungumálasjéní og talaði um sex tungumál, auk móðurmálsins þýsku hafði hún gott vald á ensku, frönsku og rússnesku, og einnig Norðurlandamálunum, s.s. dönsku, sænsku og finnsku. Þau Brecht hittust árið 1931 í gegnum vinnu í leikhúsinu Theater am Schiffbauerdamm eða Berliner Ensemble og samstarf þeirra leiddist fljótt út í ástarsamband. Þegar Hitler komst til valda í Þýskalandi árið 1933 fór Brecht í sjálfskipaða útlegð ásamt eiginkonu sinni, leikkonunni Helene Weigel, m.a. til Danmerkur. Steffin fylgdi þeim þangað. Samstarf þeirra Brechts og ástarsamband hélt áfram í útlegðinni allt til ársins 1941. Steffin stafaði sem höfundur, leikkona og þýðandi og lék í verki Brechts Die Mutter, Móðurinni, árið 1932. Hún var mikilvirkur þýðandi og skrifaði ljóð og prósa, oft með sjálfsævisögulegu ívafi þar sem hún lýsti lífinu í verkamannastétt í Þýskalandi þess tíma, en einnig liggja eftir hana tvö barnaleikrit auk verkanna sem

18


hún vann með Brecht. Brecht var ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum og Steffin skrifaði m.a. um samband sitt við hann: „Ég elska hann svo mikið að það á eftir að draga mig til dauða.“ Steffin veiktist af berklum stuttu áður en hún hitti Brecht og hann greiddi fyrir meðferðir hennar á heilsuhælum, m.a. í Rússlandi og Sviss. Steffin lést úr berklum árið 1941, aðeins 33 ára gömul. Fæst af því sem hún skrifaði sjálf birtist meðan hún var á lífi en verk hennar hafa í seinni tíð verið uppgötvuð og hún metin að verðleikum sem skáld. Hún átti stóran þátt í einu afkastamesta tímabili Brechts og eftir að hún féll frá skrifaði hann: „Í fyrsta sinn í 10 ár hef ég ekki komið neinu almennilegu í verk...“ Í fallegum bálki sem nefnist Ást á tímum útlegðar og stríðs (Love in Times of Excile and War) skrifuðust þau Brecht og Steffin á í ljóðum. Þar kveður Steffin: Með fingurgómum spilar hann á kálfa og hné Á læri og mjöðm, kyssir háls minn blíðlega Gælir við brjóst mitt og strýkur hár mitt Kann allar laglínur Hverfur í þögn þegar hann hefur blekkt mig Og ég er ekki viss hvort þetta var í raun hann sem var hér (M.S., þýð. H.H.)

Hrafnhildur Hagalín Heimildir: fembio.org/english/biography.php/woman/biography/margarete-steffin en.wikipedia.org/wiki/Margarete_Steffin theguardian.com/stage/2014/jul/10/bertolt-brecht-poems-to-great-love-come-to-life-festival-of-love

19


20


Brecht í íslensku leikhúsi Baal (1918/1923) 1995 Baal. Leikfélagið Herranótt í MR. Þýðing og leikstjórn: Halldór E. Laxness. Þýðing söngtexta: Hallgrímur Helgason. Tónlist: Hlynur Aðils Vilmarsson. Die Kleinbürgerhochzeit (1919/1926) 1997 Smáborgarabrúðkaup. Leikfélag Selfoss. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Leikstjórn: Viðar Eggertsson. 1988 Smáborgarabrúðkaup. Nemendaleikhús LÍ. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Leikstjórn: Bríet Héðinsdóttir. 1975 Smáborgarabrúðkaup. Leikfélagið Herranótt í MR. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson. Die Dreigroschenoper (1928) 2005 Túskildingsóperan. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Davíð Þór Jónsson. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Tónlist: Kurt Weill. 2001 Túskildingsóperan. Nemendaleikhús LÍ. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing söngva: Þorsteinn Gylfason. Leikstjórn: Viðar Eggertsson. Tónlist: Kurt Weill. 1995 Túskildingsóperan. Halaleikhópurinn. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Þorsteinn Guðmundsson. 1994 Túskildingsóperan. Leikfélag Fljótsdalshéraðs. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Inga Bjarnason. 1978 Túskildingsóperan. Leikfélag MH. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Stefán Baldursson. 1978 Túskildingsóperan. Menntaskólinn á Laugarvatni. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Sigrún Björnsdóttir. 1972 Túskildingsóperan. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing söngva: Þorsteinn frá Hamri, Böðvar Guðmundsson, Sveinbjörn Beinteinsson. Leikstjórn: Gísli Alfreðsson. Tónlist: Kurt Weill. 1971 Túskildingsóperan. Leikfélag Akureyrar. Þýðing: Sigurður A. Magnússon. Þýðing söngva: Þorsteinn frá Hamri, Árni Björnsson, Böðvar Guðmundsson, Sveinbjörn Beinteinsson. Leikstjórn: Magnús Jónsson. Tónlist: Kurt Weill. 1959 Túskildingsóperan. Leikfélag Reykjavíkur. Þýðing: Sigurður A. Magnússon. Leikstjórn: Gunnar Eyjólfsson. Tónlist: Kurt Weill. Der Lindberghflug (1929) 1964 Lindbergsflugið. Ríkisútvarpið. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúskórinn og einsöngvarar. Þýðing: Þorsteinn Valdimarsson. Tónlist: Kurt Weill. Stjórnandi Páll P. Pálsson. Aufstieg und Fall der Stadt Mahagonny (1929/1930) 1992 Upphaf og endir Mahagonnýborgar. Leikfélag MH. Þýðing: Böðvar Guðmundsson. Leikstjórn: Halldór E. Laxness. Tónlist: Kurt Weill. Die heilige Johanna der Schlachthöfe (1931/1959) 1999 Heilög Jóhanna í sláturhúsunum. Ríkisútvarpið. Þýðing: Bjarni Jónsson. Þýðing söngtexta: Hjörtur Pálsson. Söngstjóri: Margrét Pálmadóttir. Leikstjórn: María Kristjánsdóttir.

21


Die Maßnahme (1930) 1977 Úrræðið. Nemendaleikhús LÍ. Þýðing: Erlingur E. Halldórsson. Leikstjórn: Petr Micka. Tónlist: Fjóla Ólafsdóttir. Die Ausnahme und die Regel (1930/1938) 1998 Undantekningin og reglan. Ríkisútvarpið. Þýðing: Erlingur E. Halldórsson. Leikstjórn: Bjarni Jónsson. 1977 Undantekningin og reglan. Nemendaleikhús LÍ. Þýðing: Erlingur E. Halldórsson. Leikstjórn: Petr Micka. Tónlist: Fjóla Ólafsdóttir. 1969 Undantekningin og reglan. Leikfélag MH. Þýðing og leikstjórn: Erlingur E. Halldórsson. Furcht und Elend des Dritten Reiches (1938) 1999 Ótti og eymd Þriðja ríkisins. Þættirnir Gyðingakonan, Njósnarinn og Krítarkrossinn. Skemmtihúsið. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Leikstjórn: Erlingur Gíslason. 1988 Himnaríki Hitlers eða Ótti og eymd Þriðja ríkisins. Þættirnir Gyðingakonan, Spæjarinn og Krítarkrossinn. Litla leikfélagið Garði. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Leikstjórn: Þórir Steingrímsson. 1983 Lofgjörð um efann. Stúdentaleikhúsið. Dagskrá úr verkum Brechts. Leiknir einþáttungarnir Betlarinn og hundurinn hans, Hinn jákvæði og hinn neikvæði og Spæjarinn (úr Ótta og eymd Þriðja ríkisins) í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Sigfús Daðason flutti tölu, lesin voru ljóð og smásögur og tónlist flutt. 1975 Þátturinn Spæjarinn (Der Spitzel). Leikfélagið Herranótt í MR. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson. 1967 Ótti og eymd Þriðja ríkisins: Þættirnir Gyðingakonan, Spæjarinn, Krítarkrossinn. Gríma. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Leikstjórn: Erlingur E. Halldórsson. 1967 Listavaka hernámsandstæðinga: Brecht-kvöld. Leiknir þættir úr Ótta og eymd Þriðja ríkisins, Gyðingakonan, Spæjarinn og Þjóðaratkvæði og kvæði flutt. Sýnt í Lindarbæ. Leikstjórn: Erlingur E. Halldórsson. Þýðing leiktexta: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing kvæða: Sigfús Daðason og Erlingur E. Halldórsson. Die Gewehre der Frau Carrar (1937) 1999 Frú Carrar geymir byssur. Ríkisútvarpið. Þýðing: Bríet Héðinsdóttir. Leikstjórn: Sigurður Skúlason. 1978 Vopn frú Carrar. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Bríet Héðinsdóttir. Leikstjórn: Baldvin Halldórsson. 1976 Frú Carrar geymir byssur. Leikfélag Fáskrúðsfjarðar. Þýðing: Bríet Héðinsdóttir. Leikstjórn: María Kristjánsdóttir. Leben des Galilei (1939/1943) 1964 Ævi Galilei. Ríkisútvarpið. Þýðing: Ásgeir Hjartarson. Tónlistarstjórn: Jón Ásgeirsson. Leikstjórn: Helgi Skúlason.

22


Túskildingsóperan, 2005.

Mutter Courage og börnin hennar, 1965.

Góða sálin í Sesúan, 1975.

Mutter Courage og börnin hennar, 1965.

Krítarhringurinn í Kákasus, 1999.

Túskildingsóperan, 2005.

Púntila bóndi og Matti vinnumaður, 1968.

Vopn frú Carrar, 1978.

Túskildingsóperan, 1972.

Krítarhringurinn í Kákasus, 1999. 1999

Sveyk í síðari heimsstyrjöldinni, 1984.

Túskildingsóperan, 1972.

23


Mutter Courage und ihre Kinder (1939/1941) 2023 Mútter Courage og börnin. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Bjarni Jónsson. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Tónlist: Valgeir Sigurðsson og Helgi Hrafn Jónsson. 2019 Mutter Courage. Útskriftarverkefni leikarabrautar LHÍ í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og Þjóðleikhúsið. Leikstjórn: Marta Nordal. Þýðing: Ólafur Stefánsson. Tónlist: Sævar Helgi Jóhannsson. 1980 Mútter Courage. Menntaskólinn við Sund. Þýðing: Ólafur Stefánsson. Leikstjórn: Sigrún Björnsdóttir. 1965 Mutter Courage og börnin hennar. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Ólafur Stefánsson. Leikstjórn: Walter Firner. Tónlist: Paul Dessau. Herr Puntila und sein Knecht Matti (1940/1948) 2003 Púntila bóndi og Matti vinnumaður. Leikfélag Reykjavíkur. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Höfundur söngtexta: Guðmundur Ólafsson. Leikstjórn: Guðjón P. Pedersen. Höfundur tónlistar: Matti Kallio. 1998 Púntila og Matti. Leikdeild Ungmennafélagsins Dagrenningar, Borgarfirði. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Helga E. Jónsdóttir. 1980 Púntila og Matti. Leikfélag Akureyrar. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing bundins máls: Þorgeir Þorgeirson og Guðmundur Sigurðsson. Leikstjórn: Hallmar Sigurðsson. Tónlist: Paul Dessau. 1976 Púntila og Matti. Skagaleikflokkurinn. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Guðmundur Magnússon. 1970 Púntila og Matti. Ríkisútvarpið. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing bundins máls: Þorgeir Þorgeirson og Guðmundur Sigurðsson. Leikstjórn: Wolfgang Pintzka/Gísli Alfreðsson. Tónlist: Paul Dessau. 1969 Púntila og Matti. Leikfélag Húsavíkur. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Erlingur E. Halldórsson. 1968 Púntila bóndi og Matti vinnumaður. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing bundins máls: Þorgeir Þorgeirson og Guðmundur Sigurðsson. Leikstjórn: Wolfgang Pintzka. Tónlist: Paul Dessau. Der gute Mensch von Sezuan (1942/1943) 1990 Góða sálin í Sesúan. Verkmenntaskólinn á Akureyri. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Sóley Elíasdóttir. 1988 Góða sálin í Sesúan. Leikfélagið Herranótt í MR. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson o.fl. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson. 1975 Góða sálin í Sesúan. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing bundins máls: Bríet Héðinsdóttir. Leikstjórn: Stefán Baldursson. Tónlist: Paul Dessau. Schweyk im Zweiten Weltkrieg (1943/1957) 1984 Sveyk í síðari heimsstyrjöldinni. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing bundins máls: Þórarinn Eldjárn. Leikstjórn: Þórhildur Þorleifsdóttir. Söngvar eftir Hanns Eisler. Der kaukasische Kreidekreis (1945/1948) 1999 Krítarhringurinn í Kákasus. Þjóðleikhúsið. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing bundins máls: Þrándur Thoroddsen. Leikstjórn: Stefan Metz. Tónlist: Pétur Grétarsson. 1993 Krítarhringurinn í Kákasus. Ríkisútvarpið. Þýðing: Þorsteinn Þorsteinsson. Þýðing bundins máls: Þrándur Thoroddsen. Leikstjórn: María Kristjánsdóttir. Tónlist: Paul Dessau.

24


Ýmsar dagskrár 2020 Kurt Weill. Brynhildur Björnsdóttir og Aðalheiður Þorsteinsdóttir fluttu lög eftir eftir Kurt Weill við texta Brechts og fleiri í þýðingum Þorsteins Gylfasonar og Brynhildar. 2006 Kjallarakvöld með Kurt Weill. Jóhann G. Jóhannsson fjallaði um tónlist Kurt Weill ásamt Agli Ólafssyni, og þeir fluttu ásamt fleiri söngvurum lög eftir Weill í tilefni af uppsetningu Þjóðleikhússins á Túskildingsóperunni eftir Brecht. 1998 Til hinna óbornu. Dagskrá í tilefni aldarafmælis Brechts. Sif Ragnhildardóttir söng kvæði í þýðingu Þorsteins Gylfasonar við lög eftir Kurt Weill, Hanns Eisler og Paul Dessau. Laust mál: Þorsteinn Gylfason og Þorsteinn Þorsteinsson. Leikur: Sigurður Skúlason. Leikstjórn: Helga E. Jónsdóttir. Tónlistarstjórn: Karl Olgeirsson. 1984 Breyttu heiminum. Söngvar og ljóð eftir Brecht. Stúdentaleikhúsið. Hafliði Arngrímsson og Margrét Pálmadóttir tóku saman dagskrána og stýrðu. Tónlist: Kurt Weill, Hanns Eisler, Paul Dessau o.fl. Ýmsir þýðendur. 1976 Gisela May flutti dagskrá í Þjóðleikhúsinu og á Kjarvalsstöðum með ljóðum eftir Brecht og tónlist eftir Kurt Weill, Paul Dessau og Hanns Eisler. 1975 Þið verðið að leita ykkur að nýjum bridgefélaga. Dagskrá byggð á verkum Brechts. Leikfélag Neskaupsstaðar. Leikstjórn: Erlingur E. Halldórsson. Ártöl í sviga aftan við titla á frummáli merkja ritunartíma og fyrstu uppsetningu.

Sigrún Björnsdóttir sá um ýmsar Brecht-dagskrár, kynnti skáldið og söng lög við ljóð eftir Brecht, m.a. í Ríkisútvarpinu. Þýðing Erlings E. Halldórssonar á Der Jasager und der Neinsager (1930), Hinn jákvæði og Hinn neikvæði, birtist í TMM 1971. Þýðing Hjörleifs Guttormssonar á Der aufhaltsame Aufstieg des Arturo Ui (1941/1958), Hin erfiða framabraut Arturo Uis (1964), er til í handriti. Sigurður Skúlason gaf út Ljóð um leikhús, þýðingar sínar á ljóðum eftir Brecht úr Gedichte aus dem Messingkauf. Bjartur og frú Emilía gáfu út sérrit um Bertolt Brecht í ritstjórn Maríu Kristjánsdóttur árið 1999. Ýmsir þýðendur hafa þýtt kvæði eftir Brecht sem birst hafa á ólíkum vettvangi. Bókin Kvæði og söngvar 1917-56, með þýðingum ýmissa þýðenda á ljóðum eftir Brecht, kom út hjá Forlaginu árið 1987. Þorsteinn Þorsteinsson annaðist útgáfuna.

Samantekt: MTÓ

25 Túskildingsóperan, 1972.


26


27


28


Stríð og aftur stríð Bertolt Brecht sagði eitt sinn: „Það sem sýning á Mutter Courage á aðallega að sýna fram á: Að stærstu viðskiptin í stríði eru ekki í höndum alþýðunnar. Að stríð er ekkert annað en viðskipti, bara í öðru formi, og gerir mannlegar dyggðir banvænar, jafnvel fyrir þá sem búa yfir þeim. Að þess vegna verður að berjast gegn því.“ Nokkrir einstaklingar voru beðnir að bregðast við ummælum Brechts um viðskipti, stríð og dyggðir. „Er það ekki ótrúlegt hversu lítið hlutskipti almennings í stríði, sérstaklega þá kvenna, hefur breyst í aldanna rás? Enn í dag hlaupa þær hús úr húsi með börnin í eftirdragi að reyna að bjarga sér og sínum af veikum mætti undan gengdarlausum árásum af öllum gerðum. Það skiptir engu hvort horft er til Úkraínu, á Gaza eða til Jemen og Sýrlands, alls staðar blasir þessi sama staða við. Mannúðin er fyrsta fórnarlamb stríðs og þegar hún hverfur þá leyfist allt.“ Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins

„Við höfum lifað fordæmalitla friðartíma í að verða átta áratugi en nú finnur maður krauma alltof víða undir. Það er eins og að mannskepnunni fari að leiðast alveg óskaplega þegar friður hefur ríkt of lengi. Og alveg sér í lagi þegar velsældin verður of mikil eins og við höfum fengið að búa við. Og nú sverfur víða til stáls. Enn á ný. Við því á ég engin ráð. Bara ekki nokkur. Maðurinn er vargur og mun útrýma sér á endanum. En vonandi getur aftur orðið gaman áður en það gerist.“ Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst

„10.624. Fyrir fjórum árum taldi einhver allar þær orustur sem skrásettar eru í alfræðiorðabókinni stóru á netinu og háðar hafa verið síðustu 4.500 árin. Bardagarnir eru án efa fleiri því að ekki hafa öll stríð verið færð til bókar og svo gleymast víðfrægir sigrar þegar gamlar herraþjóðir falla því að þær nýju þurrka gjarnan allt það út sem hinir herteknu telja minnisvert. Talan er líka fjögurra ára gömul og af þeim sökum röng. Í  Múttu Courage og börnunum er okkur

29


kennt að stríð séu ein birtingarmynd viðskipta og líklega er það rétt. En það er líka dagsatt að viðskipti eru aðeins ein orsök átaka því að alls kyns miklunarkerfi knýja illvirki áfram. Lífsbjargarviðleitnin verður svo hljómbotn í öllum hryllingnum eins og leikrit Brechts sýnir glögglega. Það er ekkert merkingarríkt hægt að segja um stríð en þó hefur fyrsta talan merkingu og sú síðasta líka. 10.653.“

Guðni Elísson, rithöfundur og prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands

„Lok þrjátíu ára stríðsins, sögusviðs Múttu Courage, mörkuðu upphaf hins fullvalda ríkis eins og við þekkjum það í nútímanum og milliríkjastríð hafa síðan fylgt mannkyninu. Í hernaði gera ríki kröfu á að borgarar leggi líf sitt í hættu til að verja hugmyndina um ríkið, en í dag sjáum við enn eina birtingarmynd stríðs sem viðskipta þegar herir málaliða eru farnir að leika stór hlutverk í stríðsrekstri. Samhliða má sjá það hvernig verslað er með líf, og þau eru ekki öll jafn verðmæt. Rússneski herinn sendir þá fremur að víglínunni sem tilheyra minnihlutahópum frekar en þá sem eru etnískir Rússar. Í bandaríska hernum eru svartir hlutfallslega nær tvöfalt fleiri en sem hlutfall af bandarísku þjóðinni. Þá er í heiminum rekinn umfangsmikill hergagnaiðnaður, sem græðir auðvitað ekki á friði. Í kveðjuorðum sínum til bandarísku þjóðarinnar í janúar 1961 varaði Eisenhower – fyrrum hershöfðingi og fráfarandi forseti – við auknum áhrifum þessa iðnaðar og samspili við gríðarlegt hervald. Nú um stundir er sýnileiki þessa iðnaðar gríðarlegur – innflutningur á hergögnum til Evrópu jókst um 47% á árunum 2018-2022 samanborið við fimm ára tímabilið þar á undan.“

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands

„Þegar stríð brýst út trosnar normið; vefnaðurinn eða vistkerfið sem fólk hefur leynt og ljóst unnið að, hlúð að og ofið áfram eftir því sem dagarnir og árin líða. Samfélagslegur og efnahagslegur vefnaður sem skapar frið er ekki sjálfsagður, honum þarf að fylgja skýr ásetningur og það þarf að vera eftirfylgni við þann ásetning. Þegar þessi ásetningur breytist í höndum þeirra sem hafa burði til að triggera stríð, kvisast breyttur ásetningur út í þræðina þangað til vefnaðurinn leysist upp og einn daginn vitum við ekki lengur hvað er norm. Búmm! Stríð kemur stundum aftan að okkur, en þegar við lítum til baka lá það í loftinu. Það sem virkar á fríðartímum virkar ekki endilega á stríðstímum. Það sem þótti normal hegðun, væntingar og draumar, geta orðið einkennilegar pælingar þegar normið flosnar upp. Ég og þú erum lifandi 30


vefnaður, vistkerfi inni í vistkerfi og við mótumst af því. Og að sama skapi mótum við vefnaðinn, normið og vistkerfið. Við höfum samt mismikinn aðgang að þeirri mótun sem leiðir til stríðs. Fáir hefja stríð. Við mannfólkið búum yfir gríðarlegri aðlögunarhæfni sem getur tekið okkur í ótal margar áttir. Það er óhugnalegur heimur sem blasir við okkur þegar við vitum hvorki hver vefnaðurinn er né hver við sjálf erum; hvort dyggðir og kærleikur skipta nokkru máli lengur.  Hver er þá tilgangurinn? Stríð er alltaf vont, flest fólk vill frið, vera elskað og lifa við öryggi. Ef við gleymum þessu þá þurfum við að hlúa betur að vefnaðinum og hvert öðru.“

Hrund Gunnsteinsdóttir, þróunar- og átakafræðingur

„Stríð, hvernig sem á það er litið, er eitt form mannlegra samskipta – og í lágkúru sinni því hversdagslegt eins og hver önnur viðskipti. En þegar Brecht segir að í viðskiptum, eins og stríði, séu dygðir banvænn veikleiki grunar mig að kommúnistinn í honum tali, sá sem þolir ekki að einstaklingarnir geri það sem ríkisvaldið á að sjá um. Hvers vegna verða mannlegar dygðir „banvænar“ þegar fólk gerir með sér samninga, verslar – kaupir og selur? Um daginn sá ég merkilegar samræður mjög gáfaðs fólks (á félagsmiðlum) sem hélt því fram að vinsemd, hlýja, velvilji og gestrisni væru hugtök sem ættu ekki við ef maður léti fólk borga fyrir að gista í húsnæði sínu. Viðskipti og dygðir fara þá ekki saman. Sá sem á í viðskiptum gerir það sem þarf að gera til að hámarka hagnað. Hin dygðugu stunda dygðir án tillits til hagsmuna sinna eða hagnaðar. Þannig sé öll mannleg hlýja í samhengi viðskipta ekki annað en góðir viðskiptahættir. Ég er viss um að þetta góða og greinda fólk var búið að lesa dálítið í Brecht og kannski fannst því eins og honum að það að stunda viðskipti væri bara eins og að vera í stríði. Ef ég hagnast á því að vera næs, er ég næs. Ef ég hagnast á því að drepa, drep ég. Þótt kommúnisminn sé hruninn annarsstaðar en í Kína, NorðurKóreu og á Kúbu nær hann enn til fólks sem eins konar siðfræðileg forskrift hreinsunarinnar þar sem velvild, hlýja og gagnkvæm ábyrgð er óhugsandi nema hagnaði og hagsmunum sé vikið til hliðar. Við þurfum að vera hrein og það þýðir að í mannlegum samskiptum ríki dygðin ein. En í rauninni er inntak Mutter Courage til marks um allt annað en það sem Brecht hafði í huga. Stríð á ekkert skylt við hversdagsleg viðskipti fólks. Það er veruleikinn sem snýr öllu við – þar sem hlýja, gestrisni, vinsemd, velvilji – og góðir viðskiptahættir – fara forgörðum, þar sem hið eðlilega og hversdagslega verður sjaldgæft og vekur undrun.“

Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands 31


32


33


Almar Blær Sigurjónsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ vorið

2021. Hann leikur í Eddu, Frosti og Draumaþjófnum í vetur. Hann lék hér í Sem á himni, Hvað sem þið viljið, Ást og upplýsingum, Kardemommubænum og Nashyrningunum. Almar tók þátt í ýmsum verkefnum meðfram námi, meðal annars í Nokkur orð um mig á Fringe festival Reykjavík og örverkahátíðinni Ég býð mig fram 3. Hann lék í kvikmyndinni Agnesi Joy. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir Ást og upplýsingar.

Atli Rafn Sigurðarson útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið

1997. Hann hefur farið með fjölda hlutverka í Þjóðleikhúsinu, í Borgarleikhúsinu, hjá leikhópum, í sjónvarpi og kvikmyndum. Í vetur leikur hann hér í Eddu og Draumaþjófnum. Hann lék hér nýlega í Rómeó og Júlíu og Framúrskarandi vinkonu. Hann leikstýrði Djöflaeyjunni, Heimkomunni og Frida… viva la vida í Þjóðleikhúsinu og Brák á Söguloftinu. Hann var meðal handritshöfunda í Sjálfstæðu fólki og Djöflaeyjunni. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir Mýrina, Grímuna fyrir Lé konung, Menningarverðlaun DV fyrir Engla alheimsins og var tilnefndur til Grímunnar fyrir Engla alheimsins, Grjótharða, Leg, Halldór í Hollywood og Eilífa óhamingju.

Ernesto Camilo Aldazábal Valdés hefur starfað sem dansari,

danshöfundur og danskennari á Kúbu, Íslandi og víðar. Hann starfar nú við Þjóðleikhúsið og leikur í Eddu og Frosti í vetur, auk þess sem hann sá um sviðshreyfingar í Ást Fedru. Hann lék hér í Íslandsklukkunni, Sem á himni, Rómeó og Júlíu, Ég get, Kardemommubænum og Slá í gegn. Hann var annar danshöfunda í Rómeó og Júlíu. Hann nam danslist við ENA og ISA á Kúbu og hefur dansað í fjölda verkefna, meðal annars hjá ÍD, Danza Espiral, Borgarleikhúsinu og Íslensku óperunni. Hann kennir við Klassíska listdansskólann og hefur m.a. kennt við Salsa Iceland. Hann var tilnefndur sem leikari og dansari fyrir Óður og Flexa á Sögum og Grímunni. Hann hlaut Grímuna sem annar höfunda sviðshreyfinga í Rómeó og Júlíu.

Guðrún S. Gísladóttir lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1977 og

hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, Alþýðuleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur. Hún leikur hér í Eddu og Draumaþjófnum í vetur, og lék hér m.a. í Út að borða með Ester, Kafbáti, Englinum, Öllum sonum mínum, Pétri Gaut, Stundarfriði, Ég heiti Ísbjörg ég er ljón og Mávinum. Hún lék hér einnig í Mýrarljósi sem hún hlaut Grímuna fyrir og Konunni við 1000°, Dagleiðinni löngu, Íslandsklukkunni, Vegurinn brennur og Þrettándakvöldi, en hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir allar þessar sýningar. Hún leikstýrði hér samstarfsverkefninu Aspas. Hún lék m.a. í Mávinum, Degi vonar og Sölku Völku hjá LR. Hún hefur leikið í ýmsum kvikmyndum, m.a. Fórninni eftir Tarkovský. Hún hlaut Menningarverðlaun DV fyrir Agnesi barn guðs.

34


Hildur Vala Baldursdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið

2019. Eftir útskrift hóf hún störf við Þjóðleikhúsið og tók við titilhlutverkinu í Ronju ræningjadóttur. Hún leikur Elsu í Frost í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hildur hefur undanfarin ár leikið í ýmsum leikritum og söngleikjum í Þjóðleikhúsinu, meðal annars í, Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur), Atómstöðinni – endurliti, Meistaranum og Margarítu, Útsendingu, Kardemommubænum, Nashyrningunum og Sem á himni. Hún lék í stuttmyndinni Skeljum og hefur leikið í ýmsum sjónvarpsþáttaröðum á borð við Venjulegt fólk, Stellu Blómkvist og Aftureldingu.

Hilmar Guðjónsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2010. Hann

leikur í Eltum veðrið í Þjóðleikhúsinu í vetur og leikstýrir Verkinu í Hádegisleikhúsinu. Hann lék hér í Nokkur augnablik um nótt, Hvað sem þið viljið, Ást og upplýsingum, Rómeó og Júlíu og Upphafi. Hann leikstýrði Rauðu kápunni í Hádegisleikhúsinu. Hann lék í fjölda sýninga í Borgarleikhúsinu, m.a. Helgi Þór rofnar, Ríkharði III, Sendingu, Mávinum, Sölku Völku, Rauðu, Línu Langsokk, Fanný og Alexander og Ofviðrinu. Hann lék í kvikmyndunum Volaða landi, Villibráð, Bjarnfreðarson og Á annan veg og sjónvarpsþáttaröðunum Verbúðinni, Fólkinu í blokkinni, Drekasvæðinu, Stellu Blómkvist og Venjulegu fólki. Hann var valinn í hóp Shooting Stars árið 2011. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir Rautt og var tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir Á annan veg.

Oddur Júlíusson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið 2013.

Hann stundaði einnig dansnám við Listdansskóla Íslands. Hann leikur í Draumaþjófnum í Þjóðleikhúsinu í vetur. Áður hefur hann m.a. leikið hér í Sem á himni, Ástu, Framúrskarandi vinkonu, Kardemommubænum, Slá í gegn, Ronju ræningjadóttur, Einræðisherranum, Jónsmessunæturdraumi, Loddaranum, Fjarskalandi, Tímaþjófnum, Oddi og Sigga, Hafinu, Lofthrædda erninum Örvari, Í hjarta Hróa hattar, ≈[um það bil], Hleyptu þeim rétta inn, Atómstöðinni, Meistaranum og Margarítu og Óvitum. Hann lék í kvikmyndunum Málmhausi, Vargi og Gullregni og þáttaröðunum Pabbahelgum og Ráðherranum. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir ≈ [um það bil] og Atómstöðina.

Sigurður Sigurjónsson lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1976.

Hann hefur farið með fjöldamörg hlutverk í Þjóðleikhúsinu og víðar, leikstýrt mörgum leiksýningum og leikið í fjölmörgum kvikmyndum og í sjónvarpi. Hann leikur í Eltum veðrið í Þjóðleikhúsinu í vetur. Meðal fyrri verkefna hér eru Hvað sem þið viljið, Út að borða með Ester, Rómeó og Júlía, Einræðisherrann, Maður sem heitir Ove, Amadeus, Bílaverkstæði Badda, Gauragangur, Don Juan og Villiöndin. Meðal leikstjórnarverkefna hér eru Hafið, Maður í mislitum sokkum, Glanni glæpur, Dýrin í Hálsaskógi og Sitji guðs englar. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir Undir trénu og Hrúta og var tilnefndur til Grímunnar fyrir Maður sem heitir Ove. 35


Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir lauk leiklistarprófi frá Drama

Centre í London 1990. Hún hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LA, LR, leikhópum og í kvikmyndum og sjónvarpi. Hún hefur einnig sent frá sér bækur, stýrt sjónvarpsþáttum og var útgefandi og ritstjóri Kvennablaðsins. Hún leikur hér í Draumaþjófnum og Eltum veðrið í vetur. Hún lék hér m.a. í Hvað sem þið viljið, Sjö ævintýrum um skömm, Nashyrningunum, Efa, Pétri Gaut, My Fair Lady, Gauragangi, Fávitanum, Villiöndinni, Þremur systrum, Sjálfstæðu fólki, Hægan, Elektra, og Draumi á Jónsmessunótt. Hún lék m.a. í sjónvarpi í Verbúð, Svörtu söndum, Mannasiðum og Ófærð. Hún var þáttastjórnandi hjá Stöð 2 í þættinum Stóra sviðið. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir Ríkarð III og var tilnefnd fyrir Nashyrningana og Efa. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir Fanga og Rétt.

Vigdís Hrefna Pálsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002,

lauk mastersprófi frá Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow 2007 og lauk mastersprófi í leikstjórn við University of Kent 2020. Hún leikur í Eddu í Þjóðleikhúsinu í vetur og leikstýrir Heimsókn. Hún hefur leikið í fjölda verkefna í Þjóðleikhúsinu, en meðal þeirra eru Nokkur augnablik um nótt, Framúrskarandi vinkona, Ronja ræningjadóttir, Samþykki, Súper, Gott fólk, Húsið, Álfahöllin, Heimkoman, Karítas, Sjálfstætt fólk, Macbeth, Vesalingarnir, Heimsljós, Hreinsun, Lér konungur, Hænuungarnir, Oliver og Mýrarljós. Hún lék Auði í Litlu hryllingsbúðinni hjá LA og í Höllu og Kára og Grettissögu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leik sinn í Framúrskarandi vinkonu, Súper, Húsinu og Eldrauninni.

36


37


Una Þorleifsdóttir lauk MA-prófi í leikstjórn frá Royal Holloway, University of London 2004, og áður BA-prófi í leikhúsfræðum og list frá Goldsmiths College. Hún hefur leikstýrt fjölda sýninga innan lands sem utan og hefur starfað við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands, m.a. sem fagstjóri sviðshöfundabrautar á árunum 2013-2021. Meðal leikstjórnarverkefna Unu eru Ást og upplýsingar, Atómstöðin-endurlit, Óvinur fólksins, Tímaþjófurinn og Gott fólk í Þjóðleikhúsinu, Prinsessuleikarnir, Síðustu dagar Sæunnar og Þétting hryggðar í Borgarleikhúsinu og Zaraza og ≈ [PRAWIE RÓWNO] í Teatr Stefana Zeromskiego w Kielcach í Póllandi. Una hlaut Grímuna sem leikstjóri ársins fyrir Atómstöðina-endurlit og Gott fólk, og var tilnefnd fyrir Ást og upplýsingar, Tímaþjófinn og ≈ [um það bil]. Hún hlaut Grímuna ásamt öðrum fyrir leikrit ársins fyrir leikgerð af Konunni við 1000°, og Atómstöðin-endurlit var valin sýning ársins. Bjarni Jónsson lauk prófi í leikhúsfræðum frá háskólanum í München 1992 og starfar sjálfstætt sem leikskáld, dramatúrg, þýðandi og framleiðandi. Bjarni þýðir verkin þrjú í Mayenburg-þríleiknum, Ellen B., Ex og Ekki málið í Þjóðleikhúsinu í vetur. Bjarni er höfundur fjölda leikverka og leikgerða fyrir leikhús og útvarp. Þar má nefna Kaffi og Óhapp í Þjóðleikhúsinu og Sendingu og leikgerðina Himnaríki og helvíti í Borgarleikhúsinu. Bjarni hefur starfað með Kriðpleir leikhópi og Ernu Ómarsdóttur danshöfundi sem meðhöfundur og dramatúrg í fjölda sýninga. Hann er starfandi dramatúrg leikhópsins The Brokentalkers í Dublin. Bjarni var einn af stofnendum LÓKAL leiklistarhátíðar. Hann hlaut Grímuna fyrir Himnaríki og helvíti og var tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna fyrir Kaffi og Óhapp. Ilmur Stefánsdóttir útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1995 og lauk mastersnámi í myndlist frá Goldsmiths College árið 2000. Hún hefur haldið fjölda einka- og samsýninga og lagt stund á gjörningalist. Hún hefur hannað leikmyndir og búninga fyrir fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og víðar. Hún er hluti af listrænu teymi Þjóðleikhússins. Hún gerði m.a. leikmynd hér fyrir Sem á himni, Draumaþjófinn, Framúrskarandi vinkonu og Rómeó og Júlíu. Hún er einn stofnenda CommonNonsense. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir myndlist og störf í leikhúsi, m.a. Grímuverðlaunin fyrir Ríkharð lll, Bláa hnöttinn, Njálu, Dúkkuheimili og Hreinsun. Filippía I. Elísdóttir hefur starfað við á annað hundrað sýningar sem búningaog sviðsmyndahönnuður, listrænn ráðgjafi og höfundur gjörninga. Sem búninga- og sviðsmyndahönnuður hefur hún unnið við leiksýningar, óperur og kvikmyndir, jafnt á Íslandi sem erlendis, og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Í vetur gerir hún hér leikmynd og búninga fyrir Ást Fedru og búninga fyrir Saknaðarilm. Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru samstarfsverkefnið Aspas, Sem á himni, Vertu úlfur, Framúrskarandi vinkona, Nashyrningarnir, Súper og Húsið. Hún hlaut Grímuna fyrir Ríkharð III, Töfraflautuna, Ofviðrið, Sweeney Todd, Virkjunina, Woyzeck, Engla alheimsins og Dúkkuheimili. Hún hlaut Stefaníustjakann árið 2010 og Fálkaorðuna árið 2016. Björn Bergsteinn Guðmundsson hefur lýst fjölda sýninga hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslenska dansflokknum, Leikfélagi Akureyrar, Hafnarfjarðarleikhúsinu, Íslensku óperunni, Badisches Staatstheater og ýmsum leikhópum. Hann starfaði eitt leikár í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Hann hannaði lýsingu í mörgum sýningum þegar hann var fastráðinn í Þjóðleikhúsinu á árunum 1982-2005. Hann er nú yfirljósahönnuður Þjóðleikhússins. Björn hannar lýsingu fyrir Mayenburg-þríleikinn, Ellen B., Ex og Ekki málið, sem sýndur er í Þjóðleikhúsinu í vetur. Meðal nýjustu verkefna hans eru Draumaþjófurinn, Sem á himni, Framúrskarandi vinkona, Rómeó og Júlía, Nashyrningarnir og Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu og Ríkharður III og Níu líf í Borgarleikhúsinu. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og margoft hlotið Grímuverðlaun fyrir lýsingu ársins, nú síðast fyrir Vertu úlfur. 38


Valgeir Sigurðsson hefur samið tónlist af ýmsu tagi, flutt tónlist sína víða um heim og starfað sem upptökustjóri fyrir fjölda hljómplatna. Hann samdi tónlist fyrir m.a. Vertu úlfur, Framúrskarandi vinkonu og Meistarann og Margarítu í Þjóðleikhúsinu. Hann stofnaði útgáfufyrirtækið Bedroom Community 2006 og hljóðverið Gróðurhúsið 1997. Valgeir hefur samið tónverk og kammertónlist fyrir m.a. City of London Sinfonia, Scottish Ensemble, Winnipeg Symphony, Crash Ensemble, Nordic Affect og Daniel Pioro. Hann hefur samið tónlist fyrir leiksýningar, dansverk og kvikmyndir, og eftir hann liggja þrjár kammer-óperur/tónleikhúsverk. Hann var tilnefndur til Eddunnar fyrir tónlist í kvikmyndinni Draumalandinu og sólóplata hans Dissonance hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin í opnum flokki 2017. Hann hlaut ásamt öðrum Grímuverðlaunin fyrir hljóðmynd í Vertu úlfur. Helgi Hrafn Jónsson útskrifaðist úr einleikaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1999 og nam básúnuleik við Tónlistarháskólann í Graz í Austurríki. Hann gaf út sína fyrstu sólóplötu sem söngvari og lagahöfundur árið 2005, og hefur sent frá sér fimm hljómplötur. Frá árinu 2008 hefur hann unnið mikið með tónlistarkonunni Tinu Dickow. Í sameiningu hafa þau unnið að hljómplötum, spilað á yfir 600 tónleikum víða um heim, samið tónlist fyrir kvikmyndir og m.a. hlotið dönsku kvikmyndaverðlaunin. Helgi hefur farið í fjölmargar tónleikaferðir þar sem hann hefur flutt eigin tónlist, en einnig ásamt öðru tónlistarfólki og hljómsveitum. Helgi hefur samið leikhústónlist fyrir sýningar þýska leikhúslistamannsins Falks Richter. Hann samdi tónlist við verkið For the Disconnected Child fyrir Þjóðaróperuna í Berlín. Helgi var útnefndur Bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2015. Hrafnhildur Hagalín hefur starfað sem leikskáld, þýðandi og dramatúrg um árabil. Hún lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og stundaði nám í frönsku og leikhúsfræðum í Sorbonne, París 1989-´92. Verk hennar eru m.a. Ég er meistarinn, Hægan, Elektra, Norður, Sek, Flóð og útvarpsverkin Einfarar og Opið hús auk leikgerða og fjölda þýðinga. Hún var sýningardramatúrg í Dúkkuheimili, Medeu, Flóði, Ríkharði III, Kæru Jelenu, Vertu úlfur, Framúrskarandi vinkonu og Rómeó og Júlíu. Hrafnhildur hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín m.a. Leikskáldaverðlaun Norðurlanda, Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin, Menningarverðlaun DV, Grímuverðlaunin og Rithöfundaverðlaun RÚV. Hún var listrænn ráðunautur í Borgarleikhúsinu 2014 -2020 og starfar nú sem listrænn ráðunautur og staðgengill leikhússtjóra í Þjóðleikhúsinu. Ásta Jónína Arnardóttir stundaði nám við Kvikmyndaskóla Íslands 2017-2018 og hefur starfað sem ljósahönnuður, myndbandshönnuður og tæknimanneskja við Þjóðleikhúsið frá árinu 2017. Í vetur hannar hún hér lýsingu fyrir Eddu, lýsingu og myndband fyrir Ást Fedru og myndband fyrir Orð gegn orði. Hún hannaði lýsingu hér fyrir Íslandsklukkuna og Fullorðin og myndband fyrir Nokkur augnablik um nótt og Þitt eigið leikrit II Tímaferðalag. Hún sá um lýsingu fyrir Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar og myndbandshönnun fyrir Trouble in Tahiti í Tjarnarbíói. Hún starfar einnig sjálfstætt við kvikmyndatöku og klippingu, og hefur tekið fjölda stuttmynda sem hafa verið sýndar á hátíðum víða um heim og unnið til verðlauna. Þóroddur Ingvarsson hefur starfað sem hljóðmaður í leikhúsi í rúm fimmtán ár, þar af tvö ár sem tæknistjóri hjá Leikfélagi Akureyrar og tvö ár sem hljóðmaður hjá Menningarfélagi Akureyrar. Þóroddur bjó og starfaði í Berlín um tíma og hlaut þar BA-gráðu í hljóðvinnslu. Hann starfar nú í hljóðdeild Þjóðleikhússins og meðal sýninga sem hann hefur unnið við nýlega eru Rómeó og Júlía, Framúrskarandi vinkona, Sem á himni, Draumaþjófurinn og Til hamingju með að vera mannleg. Þóroddur hefur undanfarin ár séð um hljóðstjórn fyrir Daða Frey og farið í tónleikaferðir með honum um Evrópu og Bandaríkin. 39


Frumsýning 17. nóvember 40


Starfsfólk Þjóðleikhússins Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri Steinunn Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri Hrafnhildur Hagalín, listrænn ráðunautur, staðgengill leikhússtjóra Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Tinna Lind Gunnarsdóttir, forstöðumaður skipulags, framleiðslu og ferla Aðalheiður Arna Rafnsdóttir, fjármálastjóri Jón Þorgeir Kristjánsson, forstöðumaður samskipta, markaðsmála og upplifunar Sváfnir Sigurðarson, markaðsfulltrúi Vala Fannell, verkefnastjóri samfélagsmála Elísa Sif Hermannsdóttir og Jón Stefán Sigurðsson, teymi barna- og fræðslustarfs Hans Kragh, þjónustustjóri Björn Bergsteinn Guðmundsson, yfirljósahönnuður Ilmur Stefánsdóttir, leikmynda- og búningahöfundur Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikstjóri og höfundur Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri og höfundur

Leikarar Almar Blær Sigurjónsson Atli Rafn Sigurðarson Björn Thors Ebba Katrín Finnsdóttir Edda Arnljótsdóttir Ernesto Camilo Aldazábal Valdés Guðjón Davíð Karlsson Guðrún Snæfríður Gísladóttir Hallgrímur Ólafsson Hildur Vala Baldursdóttir Hilmar Guðjónsson Katrín Halldóra Sigurðardóttir Kjartan Darri Kristjánsson Kristín Þóra Haraldsdóttir Nína Dögg Filippusdóttir Oddur Júlíusson Ólafía Hrönn Jónsdóttir Pálmi Gestsson Sigurbjartur Sturla Atlason Sigurður Sigurjónsson Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Unnur Ösp Stefánsdóttir Vigdís Hrefna Pálsdóttir Þröstur Leó Gunnarsson Þuríður Blær Jóhannsdóttir Örn Árnason Sýningarstjórn Elín Smáradóttir Elísa Sif Hermannsdóttir María Dís Cilia Hljóð Kristján Sigmundur Einarsson, deildarstjóri Aron Þór Arnarsson Þóroddur Ingvarsson Brett Smith

Leikgervi Ingibjörg G. Huldarsdóttir, deildarstjóri Áshildur María Guðbrandsdóttir Silfá Auðunsdóttir Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir Hildur Ingadóttir Búningar Berglind Einarsdóttir, deildarstjóri Ásdís Guðný Guðmundsdóttir Hjördís Sigurbjörnsdóttir Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir Helga Lúðvíksdóttir Eva Lind Weywadt Oliversdóttir Ljós Björn Bergsteinn Guðmundsson, yfirljósah. Jóhann Bjarni Pálmason, deildarstjóri Jóhann Friðrik Ágústsson Ásta Jónína Arnardóttir Haraldur Leví Jónsson Ýmir Ólafsson Leikmynda- og leikmunaframleiðsla Atli Hilmar Skúlason, teymisstjóri Hildur Evlalía Unnarsdóttir, teymisstjóri Arturs Zorģis Ásta Sigríður Jónsdóttir Mathilde Anne Morant Michael John Bown, yfirsmiður Valur Hreggviðsson

Svið Ásdís Þórhallsdóttir, leiksviðsstjóri Guðmundur Erlingsson, umsjón minni sviða Alexander John George Hatfield Eglé Sipaviciute Jón Stefán Sigurðsson Jasper Bock Sigurður Hólm Siobhán Antoinette Henry Þórunn Kolbeinsdóttir Bókhald og laun Guðrún Ingólfsdóttir, bókhaldari Steinunn Þorsteinsdóttir, launafulltrúi Eldhús Marian Chmelar, matreiðslumaður Ina Selevska, aðstoðarmaður Umsjón fasteigna Eiríkur Böðvarsson, húsvörður Jurate Zofija Gliaudeliene, ræsting Margarita Albina, ræsting Hafliði Hafliðason, bakdyravörður Sigurður Hólm, bakdyravörður Ofangreindir starfsmenn eru fastráðnir við Þjóðleikhúsið eða starfa þar samkvæmt árssamningi á yfirstandandi leikári, en auk þeirra vinna fjölmargir aðrir starfsmenn í leikhúsinu.

Upplifun, þjónusta, miðasala og móttaka Friðdóra Haukdal Magnúsdóttir, miðasölustjóri Anna Karen Eyjólfsdóttir Fanney Edda Felixdóttir Halla Eide Kristínardóttir Júlíana Kristín Jóhannsdóttir

Þjóðleikhúsið er sameign íslensku þjóðarinnar. Allt frá árinu 1950 hefur leikhúsið skapað ógleymanlega leikhústöfra. Árlega setur leikhúsið upp fjölda nýrra sýninga, stendur fyrir fræðslustarfi, nýsköpun og tilraunastarfsemi, heldur í leikferðir um landið og sinnir höfundastarfi.

Þjóðleikhúsráð Halldór Guðmundsson, formaður Kolbrún Halldórsdóttir, varaformaður Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir Sjón - Sigurjón Birgir Sigurðsson María Ellingsen

41


42


43


Þjóðleikhúsið Miðasölusími: 551 1200 Netfang miðasölu: midasala@leikhusid.is www.leikhusid.is 44


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.