1 minute read

Hvernig varð sagan til?

Gunnar Helgason, höfundur bókarinnar

Þetta byrjaði allt með mynd á Facebook af litlum frænda mínum á Egilsstöðum. Hann var þriggja ára og ætlaði að flytja að heiman vegna djúprar óánægju með eldamennsku móður sinnar. Og ég hugsaði: Þetta er frábært efni í barnabók. Þannig að ég fór að punkta niður hjá mér hvað gæti gerst í bókinni. Það tók nokkrar vikur og á þeim tíma fór ég allt í einu að hafa svo miklar áhyggjur af heimsmálunum. Þær áhyggjur fóru að blandast inn í söguna af litla barninu sem fer að heiman út í stórhættulegan heim, eiginlega of hættulegan heim fyrir lítinn strák. Þá varð það mér til happs að ég var að leikstýra Dýrunum í Hálsaskógi hjá Leikfélagi

Keflavíkur og hún Halla Karen sem lék Martein skógarmús var svo dásamleg að... ég breytti stráknum í mús. Mér fannst nefnilega eins og þetta ævintýri yrði óraunverulegt ef það fjallaði um manneskjur en fullkomlega trúlegt ef það fjallaði um mýs. Þegar ég var búinn að ákveða þetta fór allt af stað í hausnum á mér og smám saman varð sagan hættulegri og örlítið grimmari. Og þá lenti ég á smá vegg. Mýs eru nefnilega svo sætar að ég gat varla látið litlu músina lenda í öllum þessum hremmingum. En einmitt þegar ég var í þessum vandræðum fór ég niður í bæ rétt fyrir jólin og í lítilli búð á Laugaveginum sá ég fallega jóla-rottu. Og

BÆNG! Mýsnar í sögunni breyttust í rottur! (Ég keypti rottuna, hún er að horfa á mig skrifa þetta.) Þar með var málið leyst og ég gat sest niður og klárað söguþráðinn. Til að geta það varð ég að horfa á ótrúlega mörg myndbönd um rottur því ég varð að læra allt um þær. Já og ég varð líka að horfa á myndbönd af vondu stjórnmálafólki til að læra hvernig það talar. Það síðasta sem ég gerði var að breyta rottustráknum í stelpu. Þar með fæddist Eyrnastór Gullfalleg Aðalbarn Rottudís.

Og til að fyllast andagift við skriftirnar – og aðallega til að búa til þessar skrautlegu rottur allar - horfði ég á teiknimyndirnar Frozen og Lion King, kvikmyndina Carmen Saura, leikritið Ríkharð III og söngleikinn Kittý Kittý Bang Bang. Ég las Njálu og Gerplu og Harry Potter og margar fleiri bækur. Þannig að áhrifin koma víða að og ég leyfði mér bara að skemmta mér við að koma þessu liði öllu saman inn í eina sögu. Söguna um Draumaþjófinn. Og nú er sagan að lifna við fyrir augunum á okkur. Vonandi skemmtir þú þér jafn vel og ég.