1 minute read

Hvernig myndu rottur endurnýta fötin okkar?

María Th. Ólafsdóttir búningahöfundur

Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að fá það verkefni að hanna búninga fyrir Draumaþjófinn vegna þess að ólíkt mörgum þá hef ég aldrei verið hrædd við rottur eða mýs! Þegar ég fór til London til að kaupa efni fyrir sýninguna fór ég í göngutúr í Hyde Park, og þá byrjaði rotta að elta mig. Það var mjög heppilegt, þá gat ég rannsakað útlit hennar og hreyfingar, m.a. halann, því mig hafði langað að vita hvort rottuhalar væru ekki örugglega með smá röndum, sem reyndist rétt hjá mér. Ég ákvað strax að hafa leikarana ekki í heilum dýragervum heldur leggja fremur áherslu á að aðgreina vel rottuhópana með litum og áferð og gefa svo hverjum og einum persónueinkenni. Það er samt smá loðskinn í búningi allra persóna. Leikgervin, - grímur, förðun og skott -, sem við Tinna Ingimars unnum að saman eru mikilvægur hluti af útliti rottanna. Ég legg áherslu á endurnýtingu í búningagerðinni, nýti gamla búninga úr leikhúsinu og fatnað, m.a. frá fatasöfnun Rauða krossins, og nota á nýjan og oft skrítinn hátt, eins og buxur á hvolfi sem vesti og sæng sem flík. Mér fannst t.d. áhugavert að komast að því hvað hægt er að vinna marga skemmtilega hluti úr gömlum gallabuxum, með því að snúa þeim við, nota þær öfugt, skeyta þeim saman o.s.frv. Við endurnýtum líka hluti, eins og t.d. kókdósaopnara í skartgripi og kórónu. Hugmynd mín var sú að ímynda mér hvernig rottur gætu endurnýtt föt og dót frá okkur með sínum hætti! Það má ekki gleymast að rottur eru eldklárar, miklu klárari en mörg önnur nagdýr sem við þekkjum sem gæludýr.