5 minute read

Börnin í Draumaþjófnum

Dagur Rafn

Ég leik Sand og Safnara. Mér finnst sérstaklega gaman að dansa dansinn í upphafi sýningarinnar og vera í hasar sem Sandur. Atriðið þegar Eyrdís kynnist Tilraunarottunum er sérstaklega skemmtilegt og fyndið. Léttfeti er uppáhaldspersónan mín af því að hann er langbesti njósnarinn. Helstu áhugamál mín eru fótbolti, hestamennska og að leika. Ég hef lært að spila á píanó, æfi fótbolta hjá Þrótti og hef æft körfubolta hjá Ármanni og badminton hjá TBR. Ég hef farið á leiklistarnámskeið hjá Leynileikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Ég lék í leikriti í Leynileikhúsinu og hef komið fram í einni auglýsingu.

Guðmundur

Ég leik ýmis rottubörn og finnst skemmtilegast að leika magapínubarnið á Matarfjallinu. Mér finnst mjög gaman að fá að vera ólíkar rottur og læra lögin og dansana. Uppáhaldslagið mitt er Jó-halló, dansinn er svo skemmtilegur. Uppáhaldspersónan mín er Barn 1 af því að það hugsar eftir að það framkvæmir. Helstu áhugamál mín eru hjólabretti, Pókemon, vísindi og fimleikar. Ég hef æft fimleika, spila á gítar og er í skátunum. Ég hef farið tvisvar á leiklistarnámskeið og var einu sinni sögumaður á tónleikum.

Gunnlaugur (kallaður Gulli Olsen) Ég leik Bátarottu og Safnara. Mér finnst skemmtilegast að leika Safnara því þá fæ ég að tala meira. Það er mjög gaman að vera hluti af þessum skemmtilega hóp og taka þátt í að búa til svona flotta leiksýningu. Uppáhaldslagið mitt er Byltingarlagið, það er svo flott að það er gæsahúðarlag! Skemmtilegasta atriðið er Matarfjallið. Eyrdís, sem Blær leikur, er uppáhaldspersónan mín í leikritinu. Hún er mjög skemmtileg og hugrökk. Helstu áhugamál mín eru leiklist, körfubolti og tónlist. Ég hef spilað á píanó í nokkur ár en er nýbyrjaður í píanónámi. Ég er búinn að æfa körfubolta síðan ég var fjögurra ára.

Helgi Daníel

Ég leik Bátarottu og Bardagarottu, en búningur Bardagarottunnar er mjög flottur og svo fæ ég að dansa mikið sem Bardagarotta. Kattarbanalagið finnst mér skemmtilegasta lagið, það er svo kraftmikil uppbygging í því. Skögultönn er sérstaklega áhugaverð persóna og svo hefur Steinunni tekist að gera hana enn þá skemmtilegri. Dans, leikur og að vera í leikhúsinu eru mín helstu áhugamál í augnablikinu. Annars eru líka tölvuleikir og fótbolti ofarlega á listanum. Ég hef æft fótbolta með Víkingi síðan ég var fjögurra ára. Ég var í fimleikum í þrjú ár og í samkvæmisdansi frá átta ára aldri. Ég dansaði á Sögum-verðlaunahátið barnanna og tók þátt í „sing along“ sýningu Skoppu og Skrítlu.

Jean Ég leik Njósnara og Bátarottu. Mér finnst skemmtilegast að leika Njósnararottu því að njósnarar eru svo „kúl“. Mér finnst Njósnaralagið skemmtilegast því að þar leik ég Njósnara. Það hefur verið mjög skemmtilegt að kynnast öllum í sýningunni. Píla er skemmtilegasta persónan, hún er svo orkumikil. Helstu áhugamál mín eru tölvuleikir, fótbolti, körfubolti og leiklist. Ég æfi fótbolta með Þrótti. Ég hef leikið í tveimur þáttum, stuttmynd og skólaleikriti.

Kolbrún

Ég leik Sand og Safnararottubarn. Sandur syngur rosa skemmtilegt lag! Ég held líka upp á lögin í Tilraunarottuatriðinu, því að leikararnir eru svo góðir, og Veitingastaðaatriðinu, því lagið er svo fyndið og dansinn er svo flottur. Uppáhaldspersónan mín er Gráfeldur, persónan sem Oddur leikur, hann er svo fyndinn og er með svo flott og skemmtileg óp. Helstu áhugamál mín eru leiklist, dans og söngur. Ég hef lært ballet og dans, og verið í fimleikum og kór. Ég hef komið fram í ballettsýningum í Hörpu og Borgarleikhúsinu. Ég lék í Langelstur að eilífu í Gaflaraleikhúsinu og í Jóladagatali sjónvarpsins, Randalín og Munda. Ég hef talað inn á teiknimyndir, m.a. Tulipop og Blæju.

Kristín (stundum kölluð Krilla) Ég leik Bátarottubarn og Safnararottubarn.

Það er búið að vera ótrúlega skemmtilegt að vinna með Lee danshöfundi og læra af honum og Stefáni leikstjóra, og kynnast öllu þessu skemmtilega fólki. Draumanóttin er mjög skemmtileg, þá dönsum við mikið og allir eru á sviðinu. Skögultönn sem Steinunn Ólína leikur er persóna sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, hún er mjög fyndin. Mín helstu áhugamál eru dans og leiklist. Ég hef verið í Acrobat í Plié og í dansi í Dansskóla Birnu Björns og farið á söngleikjanámskeið hjá Chantelle. Ég hef lært á píanó og margt fleira. Ég dansaði með Plié í Borgarleikhúsinu og lék í sjónvarpsþáttunum Verbúðinni.

Leó

Ég leik Bardagarottu og Bátarottubarn. Það er rosalega gaman að syngja á sviðinu og dansinn hjá Bardagarottunum er mjög skemmtilegur. Það er rosalega spennandi þegar „mannfreskjan“ birtist í fyrsta skipti! Það er sérstaklega mikið stuð í Kattarbanalaginu og það er mjög vel samið. Naggeir er mjög fyndin persóna. Helstu áhugamál mín eru skák, tölvuleikir og að horfa á kvikmyndir. Ég hef lært á selló frá því ég var fimm ára og æft dans og badminton. Ég söng í kór í Madríd og syng núna í Drengjakór Reykjavíkur, og hef komið fram með þessum kórum á Spáni, Íslandi og í Búlgaríu. Ég hef komið fram í stuttmynd og sungið inn á auglýsingar.

Nína Sólrún

Ég leik Matarfjallsbarn og fleiri rottur. Mér finnst mjög gaman að sjá hvernig allir í sýningunni leika á ólíkan hátt. Sumir leika mjög kröftuglega og aðrir hafa öðruvísi tækni. Matarfjallið er mjög fyndið, þar birtast rottur sitjandi ofan á mat, snyrtandi hver aðra og geispandi. Ég held sérstaklega upp á Halald, Pílu sem er hress og kát eins og ég og Skögultönn sem er svo fyndin. Ég hef mikinn áhuga á leiklist, söng og dansi. Ég elska að föndra, lesa, vera í útiveru, fara í ferðalög og leika mér í hlutverkaleikjum. Ég er núna í jazzballett og læri á fiðlu og píanó. Ég lék í Langelstur að eilífu í Gaflaraleikhúsinu og í Áramótaskaupinu 2022.

Oktavía (oft kölluð Okta) Ég leik ýmis rottubörn en finnst skemmtilegast að leika Matarfjallsbarn af því að týpan sem ég leik er svo skemmtileg. Draumanóttin er mjög skemmtileg, af því að þá þarf maður að leggja sig allan fram og vera á fullu allan tímann. Skögultönn finnst mér fyndnasta persónan þó hún sé ekkert það góð. Veitingastaðarotturnar eru svaka skemmtilegar af því að þær eru í svo miklu stuði og Matarfjallsrotturnar af því að þær eru svo afslappaðar og góðar hver við aðra. Helsta áhugamál mitt er leiklist, en líka fótbolti, söngur og dans. Ég æfi fótbolta í KR, syng í Barnakórnum við Tjörnina og er að læra á flautu í Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar. Ég æfði líka fimleika í Gróttu. Ég lék í bíómyndinni Abbababb! og í Langelstur að eilífu í Gaflaraleikhúsinu.

Rafney Birna

Ég leik Bátarottubarn, Safnara og Matarfjallsbarn. Mér finnst Matarfjallsbarnið skemmtilegast af því að búningarnir í atriðinu eru svo flottir og Matarfjallsatriðið er uppáhaldið mitt því það verður allt klikkað á sviðinu. Mér finnst Píla skemmtilegasta persónan af því að hún er fyndin og skemmtileg og Þórey er alveg geggjuð leikkona. Helstu áhugamál mín eru leiklist og skautar. Ég æfi skauta og spila á klarínett. Áður lærði ég á fiðlu og var í fimleikum, fótbolta og jassballet. Ég hef líka farið á sumarnámskeið í leiklist í Borgarleikhúsinu og á dansnámskeið hjá Chantelle. Ég lék í Langelstur að eilífu í Gaflaraleikhúsinu og í Áramótaskaupinu 2022.

Rebekkah Chelsea

Ég leik Njósnara og Bátarottubarn. Það skemmtilegasta við það að leika í Draumaþjófnum er söngurinn, dansinn og bara allt! Mér finnst sérstaklega gaman í Veitingastaðaatriðinu og í Draumanæturatriðinu. Eftirlætislögin mín eru Byltingarlagið og Við verðum njósnarar. Það eru mjög margir skemmtilegir leikarar í sýningunni og svo auðvitað krakkarnir! Helstu áhugamál mín eru að dansa og leika. Það að leika í Draumaþjófnum verður fyrsta reynsla mín af því að koma fram á sviði.