1 minute read

Allt í réttum hlutföllum við rottur

Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahöfundur

Ég heillaðist strax af litla rottuskottinu henni Eyrdísi við fyrsta lestur á bókinni um Draumaþjófinn. Hún er hugrökk, réttsýn og fyndin. Allir leikararnir í verkinu leika rottur og þess vegna er öll leikmyndin risastór og í rottu-hlutföllum. Rotturnar nota t.d. sogrör fyrir göngustaf, eldspýtu sem veldissprota og kleinuhring sem hægindastól. Leikmyndin á sviðinu er eins og risastórt rör af því að rottur lifa gjarnan í klóakrörum og holum. Allt í leikmyndinni er skítugt og unnið úr drasli og plasti því rottur lifa í ruslinu sem við mannfólkið skiljum eftir okkur. Dýrin og manneskjurnar sem rotturnar hitta í sögunni eru risabrúður sem ég vann með frábærum brúðuhönnuði frá Bretlandi, Charlie Tymms. Það var mjög gaman að gera alla þessa stóru hluti og fá hugmyndir að því hvernig rotturnar nota þá.