1 minute read

Að gæða brúður lífi á leiksviði

Charlie Tymms brúðuhönnuður

Ég hef hannað brúður fyrir fjölda leiksýninga og kvikmynda víða um heim, og vann m.a. að

Life of Pi og Harry Potter and the Cursed Child, en brúðurnar í Draumaþjófnum, sem þurftu að vera í réttum stærðarhlutföllum við rotturnar, eru óvenju stórar, og í raun stærstu brúður sem ég hef hannað! Flestar brúður sem ég geri eru stangarbrúður sem er stýrt með stöng sem er fest við grind brúðunnar, gjarnan nálægt liðamótum, svo brúðustjórnandinn geti náð fram sem eðlilegustum hreyfingum brúðunnar. Við Ilmur leikmyndarhöfundur unnum náið saman og hugmyndirnar að brúðunum eru sprottnar af leikmyndarhönnun hennar, en þar er m.a. vísað í rusl, plast og önnur úrgangsefni. Ég byrja alltaf á því að skoða rækilega líkamsbyggingu verunnar sem er fyrirmynd brúðunnar, til að geta endurgert sem best hreyfingar hennar, með það fyrir augum að sama hversu ólík fyrirmyndinni í útliti brúðan verður geti hún á sviði orðið trúverðug sem lifandi vera. Stórar brúður eins og í Draumaþjófnum mega ekki vera of þungar og efnisval og hönnun tekur mið af því. Svo dæmi sé tekið af kattarbrúðunni ákváðum við að sleppa rifjahylkinu og einbeita okkur að mikilvægustu hlutum brúðunnar, höfði, fótum og skotti, en það gefur líka færi á meiri hreyfanleika brúðunnar á leiksviðinu og veitir ímyndunarafli áhorfenda rými til að fylla inn í eyðurnar. Steve Tiplady kom til landsins til að kenna leikurunum að stýra brúðunum. Meginmarkmið brúðustjórnandans er að fá áhorfendur til að hætta að taka eftir honum sjálfum og fá þá til að ímynda sér að veran sem hann stýrir sé lifandi. Brúðan þarf að „anda“, jafnvel þegar hún er ekki á hreyfingu. Allt þetta útheimtir miklar æfingar, einbeitingu, kraft og samhæfingu af hálfu brúðustjórnendanna.