1 minute read

Að gera heiminn betri

Stefán Jónsson leikstjóri

Þegar mér bauðst að leikstýra Draumaþjófnum byrjaði ég á því að lesa bókina hans Gunna Helga. Ég heillaðist strax af sögunni. Boðskapur hennar er mjög mikilvægur í heiminum okkar þar sem stríð geisa víða og fólk neyðist til að flýja heimkynni sín og leita betra lífs annars staðar fyrir sig og sína. Flóttafólkið er því miður ekki velkomið alls staðar sem er mjög sorglegt, því þetta eru bara manneskjur eins og við. Í mörgum löndum eru líka harðstjórar, sem kúga íbúana og telja þeim trú um að þeirra land sé samt best og að önnur lönd séu óvinir þeirra. Um þetta fjallar sagan. Barátta aðalpersónunnar, Eyrdísar, er fyrir ástinni og fyrir því að gera heiminn betri. Mér finnst mjög skemmtilegt að persónur verksins séu allar rottur. Það hefur verið mikil áskorun að skapa þennan heim, sem er fullur af allskonar rottum, góðum, vondum, fyndnum, skemmtilegum, vitlausum og stórskrítnum. Tónlistin er mikið eyrnakonfekt, leikmyndin og búningarnir eru augnayndi, dansarnir æðislegir, svo ég tali nú ekki um risabrúðurnar. Og leikararnir yndislegir. Að leikstýra Draumaþjófnum hefur verið mjög krefjandi ferðalag en samt alltaf skemmtilegt og gefandi. Svona eins og lífið á að vera. Góða skemmtun.